Ættu að kíkja á Airwaves: #1 The Lumineers

Fegurðin við að búa í stórborg eins og Chicago er að hér spila nánast allir. Ef einhverjir eru að reyna að meika það í Ameríku er alveg ljóst að þeir munu koma við. Vandinn er þó að framboðið er svo svakalega mikið að maður þarf að fylgjast vel með. Lítil bönd spila eðli málsins samkvæmt oft á litlum stöðum og því þarf maður að vera fljótur til ef maður ætlar að ná að sjá svoleiðis listamenn ef það er eitthvað “buzz” í gangi. Ég ætla að rembast við að benda á sniðug bönd sem eiga hér leið um og hvetja Airwaves aðstandendur eða aðra tónleikahaldara að grípa þessar gullgæsir og lesendur Rjómans til að tékka á þessari músík.

Eitt svona “buzzband” er The Lumineers frá Colorado. Þeir spiluðu í næsta nágrenni við mig um daginn og það seldist upp á korteri. Ég náði ekki í miða og gældi við að kaupa miða þreföldu verði á eftirmarkaði en lét ekki verða af því. Svo skemmtilega vildi til að útvarpsstöð ein bauð upp á “fyrstir koma fyrstir fá” tónleika á undan hinum tónleikunum. Ég mætti með vini mínum rúmum hálftíma áður en húsið opnaði og náði í miða sem var bara hið besta mál.

Þetta band er að mínum dómi alveg týpiskt Airwaves band og því sendi ég aðstandendum góðlátlega ábendingu um að grípa þá áður en þeir verða of stórir. Það er alla vega alveg ljóst að það er mikið buzz í kringum kappanna hér í Ameríku. Ég spjallaði aðeins við söngvarann eftir tónleikana og sagði þeim að það væri snilldin ein að koma við og spila á Íslandi á leiðinni yfir hafið á tónleikaferð í Evrópu. Honum fannst það alveg frábær hugmynd.

The Lumineers er vinalegt indípoppband sem skartar m.a. selló og er því með örlitlar “folk rætur”. Svo skemmtilega vill til að Of Monsters & Men koma upp sem fyrsta band yfir “similar artists” á Last.Fm sem kemur svosem ekki á óvart enda bæði böndin í “Hó Hey bransanum”. Aðalhittari The Lumineers ber einmitt heitið “Ho Hey” og er bara hið hressasta

The Lumineers – Ho Hey (Official Video)

Það eru margir músíkbloggarar alveg að missa sig yfir þessu og þetta fannst mér alveg frábært dæmi. Þessum finnst þetta frekar fínt stöff.

“Occasionally an album will come around and blow me away. Make my bones ache because it is so good. I can feel it in my heart, my pulse speeds up and my body starts moving. I can’t stop it.” – Sjá nánar hér

Niðurstaða mín er semsagt alveg skýr. The Lumineers er hið hressasta band og stórskemmtilegt á tónleikum. Krakkarnir eru voðalega auðmjúkir og fínir og myndu sóma sér vel á Airwaves. Airwaves – yfir til þín.

The Lumineers – Full Performance (Live on KEXP)

Iceland Airwaves – fyrstu böndin tilkynnt

Iceland Airwaves taka árið snemma og hafa nú tilkynnt fyrstu tíu nöfnin fyrir komandi hátíð.

Að utan kemur breska gítarpoppbandið Django Django og samlandar þeirra Daughter sem lýsa sér sem tilraunakenndu folkdúói. Tvö bönd frá Brooklyn í New York munu svo mæta; rafgothararnir í Exitmusic og hin poppuðu Friends sem líklega munu koma einhverjum til þess að hreyfa sig á dansgólfinu.

Nokkur kunnugleg íslensk bönd hafa einnig staðfest spilerí á hátíðinni: Prins Póló, Sykur, SamarisThe Vintage Caravan, Úlfur Úlfur og Sóley – sem einmitt átti plötu nýliðins árs hér á Rjómanum.

Hátíðin verður haldin 31. október til 4. nóvember næstkomandi og má nálgast allar helstu upplýsingar og miða á nýuppgerðri heimasíðu Airwaves.

 

Daughter – ‘Medicine’ (Taken from ‘The Wild Youth’ EP) by ohDaughter

Airwavesdagbók Kristjáns: Laugardagur

Laugardagurinn hófst rétt fyrir klukkan eitt með bratwurst og bjór á Kex Hostel. Þar var sænska rokksveitin Dungen að gera sig klára til að spila. Vegna bráðaofnæmis míns fyrir þeim glymjanda sem stundum hefur verið rangnefndur ,,hljómburður” Listasafns Reykjavíkur hafði ég ákveðið að sleppa því að sjá þá kvöldinu áður og beið því spenntur.

Dungen spiluðu órafmagnað á hostelinu, byrjuðu á nýjasta hittaranum ,,Skit i Alt”, spiluðu svo m.a. ,,Festival” af Ta Det Lugnt og enduðu á tímalausu snilldinni ,,E för fin för mig”. Þar á milli léku þeir tvö lög þar sem Hr.Dungen; Gustav Ejstes, lék á þverflautu. Performansinn var dáleiðandi en þó léttur. Hljómsveitin var greinilega að skemmta sér ágætlega. Ég vildi að allir dagar byrjuðu svona.

Þegar ég mætti í bæinn seinna um kvöldið byrjaði ég á því að hlýða á Fallega Menn í húspartýinu á Ingólfsstræti 8. Íbúðin var stappfull og ekki gerð fyrir fólk með félagsfælni. Til að kaupa súpuna eða bjórinn sem var í boði var nauðsynlegt að hafa þónokkra hugmyndaauðgi, maður þurfti að troða sér í gegnum hverja einastu glufu sem myndaðist milli líkamanna en hefði helst þurft að klifra yfir hrúguna til að komast í hinn enda íbúðarinnar. Að alvöru húspartýja sið var hljóðið í Fallegum Mönnum hræðilegt. Það heyrðist ekki í sumum míkrófónum á meðan aðrir fídbökkuðu út í eitt. En þegar full stofa af fólki öskraði með ,,Ra-ta-ta-ta! Það er komið tími fyrir annað Baader-Meinhof!” var ljóst að það skipti nákvæmlega engu máli.

Rokkkvintettinn Jón Þór byrjaði kvöldið í Iðnó og spilaði að venju tilgerðarlaust háskólarokk eins og það var spilað á tíunda áratugnum. Mér finnst frábært þegar tónlistarmenn ögra alræði enskunnar sem söngmáli ákveðinna tónlistarstefna, s.s. háskólarokks. Mig grunar að ég gefi þeim þá ómeðvitað alltaf prik fyrir einhverskonar heilindi. Ég held að lógíkin í heilanum mínum virki einhvern veginn svona:

Íslenskur texti => listamaðurinn er ekki að stefna að því að verða frægur => er að gera tónlist tónlistarinnar vegna => góð tónlist.

Þeramínleikarinn passar líka alveg furðuvel við þetta alltsaman.

Kiriyama Family sem spiluðu á sama tíma á NASA voru hins vegar ekki að gera neitt fyrir mig. Þeir voru eiginlega bara allt of slípaðir, of vel út lítandi, allt sem átti að vera sjarmerandi eða spennandi var of fyrirframákveðið, tónlistin of áhættulaus og pottþétt – Pottþétt Syntharokk 2011

Í tónlistarlegum skilningi ákvað ég því að flýja hinum megin á hnöttinn. Á eftri hæðinni á Faktorý voru Ghostigital nefnilega næstir. Að venju var krafturinn yfirdrifinn og tónlist furðulega grípandi þrátt fyrir undarleikann og aggressjónina.

Á neðri hæðinni á sama stað spiluðu Jungle Fiction og svo Samaris. Samaris laðaði þónokkuð magn af fólki að. Hið letilega trip-hop er klárlega efnilegt og ferskt  (það minnti mig á einhvern undarlegan hátt jafnvel á sumt af eldra dótinu með múm á köflum). Hvíslandi röddin í söngkonunni er flott en þyrfti samt mögulega meiri kraft; meiri trega; meiri sál.

Á Kaffi Amsterdam voru Muck að sprengja hljóðhimnur með sínu suddalega þungapönki. Hljómurinn á Amsterdam var eins og meirihluta hátíðarinnar til skammar en krafturinn í þessu nýja flaggskipi þungarokksenunnar var svo gígantískur að það skipti ekki máli. Nýjustu lögin hljómuðu mjög vel og bíður undirritaður með mold í hálsinum eftir plötu.

Eftir örlítinn vott af valkvíða ákvað ég að halda mig við hávaðann frekar en að sjá John Grant, Team Me eða Austra. Mér til mikillar furðu var reyndar nokkur röð á Gauk á Stöng þar sem dönsku táningapönkararnir Iceage áttu að spila eftir klukkutíma. Það sem meira var: röðin haggaðist varla. Ég furðaði mig um stund á þessum nýtilkomna áhuga íslendinga á pönki. Þær vangaveltur reyndust hinsvegar ótímabærar enda komst ég að því þegar ég kom inn að fólkið var allt komið til að sjá rokkabillý swingara að nafni JD McPherson. Ég pantaði mér bjór og horfði á troðfullan sal Gauksins syngja hástöfum og dansa með lagi manns sem ég hafði aldrei heyrt nefndan á nafn fyrr en í röðinni.

Um leið og McPherson lauk sér af varð nánast 100% rótering í áhorfendaskaranum, allir sem voru inni fóru út og ég sá að hálftímabið í röð hafði verið fullkomlega tilgangslaus. Hinu tónlistarlegu landamæri milli mín og þeirra voru greinilega meiri en ég hélt. Ég velti fyrir mér hvernig það gat farið svo að þessum tveimur gjörsamlega ólíku böndum var stillt upp hlið við hlið. Hvort að ekki hefði verið skemmtilegra að leyfa Iceage að spila við hlið annarra þunga- eða indírokkara og JD á meðal annarra skrallpoppara. Auðvitað getur verið skemmtilegt að setja ólík bönd á eftir hvoru öðru á svið, en þegar meginviðhorf til tónlistarinnar og hvatar sköpunarinnar er jafn gjörólíkir og hjá þessum tveimur böndum er ólíklegt að nokkur grundvöllur til að finna nokkra tónlistarlega snertifleti sé til staðar. Sá sem hlustar á JD McPherson, næstum því by definition fílar ekki Iceage. JD kóperar nánast gamla tónlist til þess að skemmta fólki: hann þakkar fyrir tónleikana og lofar að koma aftur. Iceage semja nýmóðins tónlist og virðast frekar vilja forðast áhorfendur: þeir segja ekki orð (nema til að reka ljósmyndara frá sviðinu) á milli laga allt giggið og pakka fýlulega niður á meðan fólk reynir að klappa þá upp.  Nýbylgjuskotið pönkrokkið átti það þó sameiginlegt með rokkabillýinu að koma fólki á hreyfingu, hins vegar með örlítið aðferða svo að öryggisverðir staðarins sáu sér þann einn kostan færan að standa á milli pittsins og rólegri áhorfenda. Einstaklega hressandi.

Sögur voru komnar á kreik að James Murphy úr LCD Soundsystem myndi þeyta skífum á Kaffibarnum eftir giggið sitt á Faktorý og ég stefndi því þangað. Eftir því sem ég best veit reyndast þetta hins vegar ekki vera satt en svo gæti það allt eins að hann hafi verið þarna. Maður getur bara höndlað ákveðið magn af tónlist á dag – og ég var hættur að hlusta.

Airwavesdagbók Guðmundar: Föstudagur

Ég skyldi við vini mína fyrir utan NASA klukkan hálf-tíu. Þau ætluðu sér inn að sjá Young Magic. Það hafði upphaflega verið planið mitt líka, en þar sem hin örstutta pressuröð hreyfðist ekkert þá ákvað ég að sjá eitthvað í stað þess að standa fyrir utan í kuldanum. Lay Low var að byrja eftir smástund. Var það eitthvað? Ég hef áður skemmt mér ágætlega á tónleikum með stúlkunni. Hví ekki að freista gæfunnar aftur?

Ég lagðist því leið mína inn í Iðnó. Keypti mér flöskubjór á uppsprengdu verði og kom mér fyrir aftarlegar, voða spekingslegur á svip. Á tónleikunum lék Lovísa ný lög í bland við eldri. Hún á marga eldri smelli – en nýja efnið hljómar bara enn smellnara. Sjálfur hef ég ekki heyrt Brostin streng, nýju plötuna hennar, en lögin sem hún spilaði þarna hljómuðu bara déskoti vel. Mér varð hugsað til þess þegar ég sá hana fyrst spila; þetta var í porti þar sem verslunin Illgresi stóð. Þar var hún ein með kassagítar, feimnisleg að sjá og fámál á milli laga. Það er óhætt að segja að hún hefur vaxið mikið og dafnað sem tónlistarkona. Á tónleikunum var hún í góðu sambandi við áhorfendur, flutti tónlistina af innlifun og virtist hafa alveg jafn gaman af og áhorfendur. Hún er flottur performer og sýndi það og sannað þarna. Vel gert!

Ár og öld eru liðin síðan ég hef farið á tónleika með Megasi; held að það hafi verið síðast á NASA hérna um árið þegar hann lék Loftmynd í heild sinni. Það vildi svo heppilega til að Megas var u.þ.b. að hefjast þegar Lay Low lauk sér af. En eitthvað verð ég þó að bíða lengur eftir að sjá meistarann því hann sá sér ekki fært að mæta þetta kvöldið. Á sviðinu í Tjarnabíói sat tónlistarkonan Sóley, studd af trommara, og tilkynnti mér þetta. Ég hlýddi þó á nokkur lög; hafði gaman af en var svolítið svekktur yfir að Sóley væri ekki Megas.

Klukkan var að verða ellefu þegar ég snéri aftur á NASA. Röðin orðin enn lengri, enda margir vafalaust spenntir fyrir að sjá Tune-yards. Ég komst fljótt að því að röðin hafði hreinlega ekkert færst áfram síðustu tvo tímana. Vinir mínur voru staddir á nákvæmlega sama stað og ég skildi við þá: fimm metrum frá innganginum.

„Þetta er fáránlegt!“ „Við nennum þessu ekki lengur . . .“ „Dyravörður – afhverju segir þú ekki fólki að þú ætlir ekki að hleypa þeim inn?“ „Fokkðis – förum á Ham . . .“

Sjálfur hefði ég kannski komist inn, enda fékk ég fríkeypis band frá Airwaves sem hleypti mér fram fyrir röð. En á þessum tímapunkti fannst mér það bara ekki viðeigandi. Þarna var samankomið fólk sem hafði pungað út tæpum 17.000 krónum en þurfti samt að bíða tvo tíma í skíta-október-þræsingi. Og var engu nær að fá það sem greitt var fyrir dýru gjaldi. Já, fokkðis. Ég fór á Ham.

Áður en gengið var inn í Hafnarhús var tekið pittstopp á Bakkusi; fólk var þyrst, þreytt og þurfi. Þar inni var eitthvað band að leika músík sem ég veitti enga athygli.  Við teyguðum bjórinn nokkuð örugglega og bölsótuðumst út í hátíðina. Vissulega sumir meira en aðrir. Þetta var toppurinn á kvöldinu hjá flestum sem voru með mér – þ.e. þeim sem ekki fóru á Ham. Ég held að við höfum síðan klárað kolluna á svipuðum tíma og Dungen kláraði settið sitt.

Í mátulega stöppuðu Hafnarhúsi stigu nokkrir fúlskeggjaðir, miðaldra menn á svið. Þeir léku þungt rokk með greinilegri vísun í níunda áratuginn. Flestir þeirra starfa við músík í hjáverkum. Þeir gáfu út plötu fyrir skemmstu, en einhver tuttugu ár eru síðan síðasta skífa þeirra leit dagsins ljós. Samanlagður aldur meðlimir myndi telja, samkvæmt nákvæmum útreikningum, samanlagaðan aldur þrettán fullskipaðra Retro Stefson-hljómsveita. En. Það var þessum mönnum sem tókst að veita mér bestu tónleikaupplifun hátíðarinnar. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta: Ham voru þrusuþéttir, þungir og viðbjóðslega skemmtilegir. Ungir sem aldnir, stutthærðir sem síðhærðir, þeyttu höfðinu með krampakenndum hreyfingum. Mikil stemningin, mikil snilld. Sjáið bara:

Þetta kvöld var ekki farið á fleiri tónleika. Útivera og raðamenning heilluðu bara hreinlega ekki. Við vildum vera inni – og helst í einhverri óreiðu. Þetta kvöld hafði orðið eitthvað sem það átti alls ekki að vera; og ég er nokkuð viss um að ég var ekki einn um líða þannig. Ham björguðu þessu þó og vil ég þakka þeim kærlega fyrir að vera til. Ó, Ham, þið eru svo sannarlega dýrðlegar skepnur!

Myndir teknar á lélegan Nokia-síma sem er í eigu greinarhöfundar.

Airwavesdagbók Kristjáns: Föstudagur

16:35 Just Another Snake Cult á Kaffistofnni Hverfisgötu. Hrópandi hippar að spila sörfað skrýtipopp. Vildi að ég væri þau.
17:05 Bíð eftir Sindra Eldoni á Kaffistofunni. Gigginu er hins vegar frestað á síðustu stundu.
17:15 Sé Mammút spila nokkur lög  í kjallara á Laufásvegi. Lofthæð 2,30 m.
17:45 Hitti sæta stelpu, spjalla við hana.
18:05 Hlusta á Rakeli Mjöll og Gabby Maiden spila nokkur sæt úkúlelelög í Nýlenduverzlun Hemma og Valda.
19:15 Kíki á Gang Related á Amsterdam. Sindri Eldon stendur við barinn. Gang Related hljóma ágætlega en valda mér smá vonbrigðum. Kannski er ég bara með hugann við eitthvað annað. Verð líklega að gefa þeim annan sjéns seinna.
19:27 Sæta stelpan hringir. Spyr hvað planið sé í kvöld.
19:30 Fæ mér kjúklingadöner og kaffi á Ali Baba
19:40 Á leiðinni í bílinn lendi ég í rigningarstormi. Gegnblautur.
19:55 Fer í leikhús. Síðasta sýning á Zombíljóðunum.
21:47 Mæti í röðina á NASA – hún nær að miðju Alþingishúsinu.
21:49 Hitti gott fólk í miðri röðinni. Spjalla þangað til að ég er orðinn viðurkenndur hluti hópsins.
22:09 Röðin gengur ekkert.
22:11 Næ að nota menntaskólaþýskuna mína til að small-talka við þjóðverja.
22:14 Sæta stelpan mætir. Hún treður sér líka inn í röðina.
22:30 Röðin gengur ekkert.
22:45 Ákveðum að hætta þessu rugli og fara yfir í Iðnó.
22:51 Whiskí – 1000 krónur.
22:54 Puzzle Muteson spilar lágstemmda tónlist. Fólk talar hátt. Enginn virðist vera að hlusta.
23:30 Owen Pallett byrjar.
23:34 Owen Pallett er frábær.
23:39 Ég laumast til að taka í hendina á sætu stelpunni
23:46 Owen Pallett verður bara bakgrunnstónlist þegar ég tek utan um sætu stelpuna. Langar að kyssa hana en ákveð að það sé ekki við hæfi.
Síminn deyr og tímaskyn hverfur.
Owen Pallett er búinn. Ég kaupi mér bjór og kjúklingasamloku.
Gleymi að sjá Oy af því að ég er að kenna skoskum manni að segja ,,heftari“. Heyrði seinna að hún hefði verið frábær: hljóðtilraunir með blöðrur, brúður og lög um náin kynni lítilla barna. Hljómar áhugavert.
Annar bjór.
Útidúr byrja að spila. 12 manns. Það heyrist ekkert í söngkonunni.
Þau eru að blanda house-tónlist við hið hefðbundna stuðkrúttindípopp sitt. Ég dansa.
Iðnó er lokað.
Ennþá smá röð á NASA.
Sæta stelpan ætlar ásamt öðrum á Faktory. Ég fylgi. Fæ smók af blárri sígarettu. Merkilegt.
Á Faktorý er mikil röð. Þar er Kasper Björke víst að þeyta skífum. Fólk dansar á fótboltabilljarðborðinu fyrir utan staðinn. Við bíðum lengi.
Ölvun er horfin. Sæta stelpan segist vera þreytt.
Ég er líka þreyttur.
Förum heim.
Kemst að því að hafi ekkert pælt í tónleikum kvöldsins. Verð víst að skálda eitthvað upp fyrir Rjómann á morgun.

Airwavesdagbók Guðmundar: Fimmtudagur

Eftir sjávarrétti og hvítvín í góðra vina hópi héllt ég út í kvöldið í mínu fínasta pússi. Eða svona næstum því. Eitthvað áttum við erfitt með að ákveða hvað skildi sjá en fljótlega var stefnan sett á Norðurljós Hörpunnar. Rétt rúmlega níu steig dúettinn Fig á stokk. Í stuttu máli voru vonbrigðin jafn mikil og eftirvæntingin hafði verið. Ég er mikil aðdáandi Wilco og veit fyrir víst að herra Cline hefur verið að gera eitursvala hluti utan þess. En tilraunirnar sem hann gerði hér með japönsku samstarfskonu sinni voru álíka áhugaverðar og það sem fram fer í tónmennt í fjórða bekk. Eftir 15 mínútur af undarlegu gítargutli og effektafikti gafst ég upp og labbaði út. Afsakið frönskuna mína; en þetta sökkaði. Annars getið þið séð stutt brot af tónleikunum hér að neðan. Það hefði nægt mér.

Fig @ Airwaves ’11


Fyrir forvitnis sakir ákvað ég að rölta niður í Kaldalón þar sem arftakar krúttsins, Pascal Pinon, voru að spila sitt lágstemmda popp. Stúlkurnar gerðu sitt vel og lítið hægt að kvarta undan frammistöðu þeirra. Stemningin var ofboðslega notaleg og tónar og textar einkar hugljúfir. Ég var að koma inn í þennan sal í fyrsta skipti – og kunni vel við mig þarna. Nálægðin við bandið gerði þeim stöllum bara gott. Þær gætu þó talað svolítið hærra og skýrar á milli laga; en ætli þessi feimni sé ekki hluti af sjóvinu.

Áður en ég kom mér inn í Hafnarhús ákvað ég að taka stuttu stopp á NASA. Þar voru Young Galaxy að framreiða tóna – og mikla eðaltóna! Hljómur bandsins var virkilega flottur og slípaður og rafmettað popprokkið leikið af miklu öryggi. Karl og kona (hjón að mér skilst) skiptust á að syngja og harmoneruðu þau vel saman. Við hlýddum á einhvern þrjú lög yfir staupi af Fernet Branca; og höfðum bara mjög gaman af. Efnileg sveit hér á ferð.

Beach House. Já, Beach House var án nokkurs vafa það besta sem ég sá þetta kvöldið. Sveitin lék lög af síðustu tveimur plötum sínum við mikinn fögnuð tónleikagesta. Flutningurinn var óaðfinnanlegur og lagavalið frábært. Sviðsframkoman var svöl og sjarmerandi, kannski ekki persónuleg eða einlæg – en það gerði ekkert til. Ég hafði gert mér í hugarlund að Victoria Legrand væri þessi hlédræga, dularfulla týpa en hún virtist í miklu stuði þar sem hún þeytti flösunni hressilega og heillaði lýðinn upp úr skónum eins og sírena með söng sínum. Hljómurinn var góður þetta kvöldið í Hafnarhúsinu og vel staðið að lýsingu. Ég labbaði út alsæll. Svona á þetta að vera!

Áður en haldið var heim í koju var tekið pittstopp á Amsterdam. Hin norska Deathcrush var síðasta sveit á svið. Aftur virtust spádómsgáfur mínar bregðast mér; þetta var bara frekar slæmt gigg. Flutningurinn alls ekki nógu góður – sándið flatt og leiðinlegt. Hálfgerð óreiða, og þá á slæman hátt. Lítið hardkor á þessu svæði.

Framhaldið? Ég ætla ekki að taka neina sénsa í kvöld heldur tippa á það sem hefur öruggasta stuðulinn. Tune-yards lofar góðu, borgarpólitíkusarnir í HAM ættu að vera gott aksjón og Prinsinn Póló er iðulega hress. Einhvern nefndi stuðbandið Totally Enormous Extinct Dinosaur – er það eitthvað? Sjáum til.

Þess verð ég að geta að myndirnar voru teknar af öðlingnum honum Benjamin Mark Stacey.

Airwaves dagbók Kristjáns: Fimmtudagur

Dagurinn minn byrjaði í 12 tónum þar sem söngvaskáldið Þórir Georg bar tilfinningar sínar ofur-hreinskilnislega á borð að venju. Textarnir eru núna allir á íslensku og finnst mér það vel. Það virtist heldur ekki trufla dolfallna útlendingana. Það er synd og skömm að Þórir skuli ekki vera að spila á hátíðinni ár en hann hefur verið fastagestur síðustu árin. Eftir innilegt lokalag Þóris hitti ég óvænt góða vini sem sögðu mér að þeir færu að fara spila á sínum fyrstu tónleikum í plötubúðinni eftir nokkrar mínútur. Ég ákvað að staldra við.

Sonic Youth bolur trommarans og ítrekaðar ábendingar söngvarans um að hækka í öllu gáfu vísbendingar um hvað væri í vændum. Tónlistin var einhvers konar twee-shoegaze með stráka-stelpu dúettasöng . Hljómsveitir eins og My Bloody Valentine, Sonic Youth og jafnvel Deerhof og Brian Jonestown Massacre komu fyrst upp í hugann. Lögin lofa ótrúlega góðu og þrátt fyrir að hljómsveitin, sem kallar sig í augnablikinu O-Yama (ekki endanlegt nafn þó), hafi einungis spilað saman í tvo mánuði gengu tónleikarnir mjög vel. Meðlimirnir eru enda engir nýgræðingar og hafa gert garðinn frægan m.a. með rokkböndum á borð við Me, The Slumbering Napoleon, Fist Fokkers, Skelkur í Bringu og Swords of Chaos. Óvænt og alveg ótrúlega ánægjuleg uppgötvun og mæli ég sterklega með að þið fylgist með þessu bandi á næstunni. Ánægjan með þetta nýja band var svo mikil að ég steingleymdi að fara að sjá annað band spila sína fyrstu tónleika: drungapönkbandið NORN. Ég vona innilega að sú sveit muni spila aftur á næstunni.

Næstu viðkomustaður var Eldborgarsalur Hörpunnar þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands, undir stjórn Daníels Bjarnasonar, spilaði tónlist Valgeirs Sigurðssonar úr kvikmyndinni Draumalandið. Tónleikarnir hófust á ,,Grýlukvæði”, stórskemmtilegu þjóðlagi sem bandaríkjamaðurinn Sam Amidon syngur á íslensku. Valgeir, skeggjaður og klæddur í síða svarta kuflslega skyrtu og víðar buxur, minnti helst á japanskan ninjameistara þar sem hann sat spakur á bakvið tölvu og sá til þess að allt færi eðlilega fram. Fyrir utan fyrsta lagið voru verkin að mestu leyti, eins og kvikmyndatónlist er venjulega, fljótandi tilfinningaþrungin bakgrunnstónlist með stöðugri uppbyggingu. Tónlist Valgeirs reynir að draga fram andstæðurnar milli íslenskrar náttúru og stóriðjunnar sem draumaland markaðarins byggir á. Stundum komu því inn lífrænir industrial taktar sem minnti á hina hlið peningsins. Einstaklega glæsilegt.

Nú varð ég að taka ákvörðun um hvort að ég ætti að fara og standa í röð til að ná Beach House í Hafnarhúsinu eða að sjá Víking Heiðar leika verk Daníels Bjarnasonar ,,Processions“ og ,,Birting“ með Sinfóníunni. Ég ákvað að halda mig í Hörpunni og sá ekki eftir því.

Það gleður mig alveg rosalega mikið að Airwaves-hátíðin skuli vera að færa út kvíarnar og auka fjölbreytnina í tónlistarvali. Á síðustu árum hafa klassísk tónlist og alternatíf popptónlist verið að blandast saman m.a. með listamönnum á borð við Ólaf Arnalds, Nico Muhly og öllu Bedroom Community genginu. Þessir listamenn eru að nýta sér ákveðna hluta fagurfræðinnar úr tilraunakenndu alternatífu poppi til að búa til ný-klassíska tónlist og svo klassískari útsetningar til að styðja við popplagasmíðar. Því er innkoma Sinfóníunnar á indítónlistarhátíð á einhvern hátt mjög eðlileg. (Nú vantar bara vettvang á hátíðinni fyrir enn tilraunakenndari tónlist, hvar eru t.d. tónskáldin úr S.L.Á.T.U.R.?)

Tónlist Daníels Bjarnasonar er á vissan hátt aggressífari heldur en tónlist Valgeirs. Daníel skapar ofboðslega mikla dýnamík í verkunum með því að nýta sér andstæður lágra píanónóta og sínfónísks hávaða.  (Vá, maður er aleg týndur þegar maður reynir að skrifa um klassíska tónlist, engin bönd til að vísa í, maður þekkir ekki stílana og getur þar af leiðandi ekki lokað listina í kassa.) Daníel dansaði fagmannlega um með sprotann og stjórnaði áslætti, strengjum og blásturshljóðfærum sem spiluðu öll vegamikil hlutverk. Aðalleikarinn var þó Víkingur Heiðar sem var stórkostlegur. Píanóleikurinn stundum allt að því manískur og fyrir óvant eyra jafnvel falskur. Slíkt skapaði því sterkt tilfinningalegt viðbragð. Ryþminn í píanóleiknum var fastur og Víkingur Heiðar sagði víst að síðasti hluti ,,Birtinga” væri teknó… eins og það ætti að vera. Stórkostlegt.

Það var reyndar alveg ofboðslega pirrandi að fólki var hleypt inn löngu eftir að tónleikarnir hófust og trufluðu sífellt ráp upplifinina að einhverju leyti.

Eftir Sinfóníuna lagði í að stað í átt að Hafnarhúsinu. Þar náði röðin u.þ.b. að Kolaportinu, en þar sem ég var vel búinn (húfa og regnstakkur) lét ég mig hafa það. Hálftíma seinna hafði myndast mikil útilegustemmning í röðinni: þjóðverjar buðu upp á hnetur og fólk var sent í bjórleiðangur á Zimsen. Hins vegar sá ég ekki fram á að ná inn á tónleikana fyrr en langt yrði liðið á giggið svo ég lét mig hverfa til að sjá Sin Fang enn einu sinni.

Hvítklædd og ofvirk Caged Animals voru að slá síðasta tóninn þegar ég gekk inn í Iðnó. Ég keypti mér bjór og beið.

Það er orðin svolítil hefð fyrir því að nefna letilegt fas Sindra þegar skrifað erum Sin Fang. Ótrúlegt en satt þá virtist hann reyndar bara frekar hress og brosmildur í þetta skiptið þó að míkrófónstatíf hafi ekki höndlað að halda uppi öllum þrem míkrófónunum hans. Upphafslagið var ,,Clangour and Flutes” og kom mjög vel út með klappi hljómsveitarinnar sem taktmæli. Mér finnst ég stundum hafa séð Sin Fang betri og nýja lagið þeirra virtist svolítið stirt. En ágætir tónleikar hjá Sin Fang eru þó betri en góðir hjá flestum böndum.

Ég náði síðustu þremur lögunum hjá Fist Fokkers. Vafnir inn í jólaseríur voru þeir að hamast á Sinead O‘Connor með sinni útgáfu af ,,Nothing Compares 2 U”. Svo renndu þeir í kóver af Kelly Clarkson og Beastie Boys með miklum krafti. Hljóðmaðurinn reyndi að taka þá úr sambandi en lýðurinn trylltist. „Besta band á Íslandi“ sagði einhver í krádinu. Og ég get alveg tekið undir það að Fist Fokkers eru eitt skemmtilegasta tónleikaband landsins.

Einhver hafði sagt mér að Space Chiefs 3 sem lokuðu kvöldinu í Iðnó, spiluðu Balkan-metal og annars staðar hafði ég heyrt að bandið innihéldi meðlimi Mr.Bungle. Það var því ekkert annað í stöðunni en að stökkva aftur inn í Iðnó og athuga hvað væri í gangi. Space Chiefs voru klæddir í svarta hettukufla og með fiðluleikara með dulu fyrir andlitinu. Hljómsveitin bauð svo upp á einhverja geðsturluðustu tónleikaupplifun sem mögulegt er. Hún tók rúnk-attitúd Fusion tónlistar yfir á annað level með því að bræða saman austræna þjóðlagatónlist, balkanbrjálæði, hryllingsvestramúsík og grjótharðan sýrumetal. Ég varð líkamlega þreyttur af þvi að horfa á átök fiðluleikarans og andlega þreyttur af endalausri keyrslunni. Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Þó að tónlistin sé ekki eitthvað sem ég myndi skella á fóninn heima var þetta svo sannarlega þess virði að upplifa.

Mynd 1: Reykjavík Grapevine – Mynd 2: Alexander Matukhno – Mynd 4: Katrín Ólafs

Airwaves dagbók Egils : Fimmtudagur

Hóf kvöldið í Hörpunni með því að sjá The Ghost Of A Saber Tooth Tiger með Sean Lennon í fararbroddi. “Hann er ekki jafn góður og hinn Lennon” sagði einn af fremstu útvarpsmönnum landsins við mig í lobbíinu eftir tónleikana. Það má svo sem vel vera en Sean og félagar stóðu vel fyrir sínu þó svo að sándið í salnum hefði mátt vera betra. Get vel skilið að það sé erfitt að mixa hálf fullan sal þar sem fólk er á vappi inn og út en miðað við hæpið í kringum hljómburðinn og tæknina í Hörpunni þá varð ég engu að síður fyrir vonbrigðum. Á eftir þeim kom dúóið Fig með Nels nokkrum Cline, gítarleikra Wilco innanborðs. Það er skemmst frá því að segja að tilraunakennd tónlist Fig náði mér engan veginn og satt að segja fannst mér hún hundleiðinleg og ómerkileg. Meira hef ég ekki um það að segja.

Mynd: Hörður Sveinsson. Copyright All rights reserved by Iceland Airwaves

Næst lá leiðin á NASA þar sem Young Galaxy voru að koma sér fyrir. Ég hafði lofað samferðafólki mínu góðu giggi frá þessari kanadísku sveit og til allrar hamingju hafði ég rétt fyrir mér. Tónleikar Young Galaxy voru eiginlega fyrsta virkilega góða uppákoman á Airwaves fyrir mig persónulega. Stemmingin var góð, bandið í stuði, lögin góð og sándið flott. Er hægt að byðja um meira?

Af Nasa valhoppuðum við yfir á Glaumbar til að sjá Valdimar og vini í Valdimar. Ég verð nú að segja eins og er að Glaumbar er langt frá því að vera viðeigandi venue fyrir Airwaves. Vissulega gerðu Valdimar eins vel og hægt var að gera, miðað við aðstæður, hvað hljómburð varðar en þegar meirihluti gólfflatarins fer í sjálfan barinn þá ætti flestum að vera ljóst að þar ætti ekki að halda tónleika. Seinna um kvöldið heyrði ég svo af því að sándið hefði verið skelfilegt þegar lágstemmdari listamenn eins og Lay Low og Snorri Helga spiluðu. Ég held ég reyni að forðast að fara á Glaumbar aftur nema þar sé einhver að spila sem ég hreinlega verð að sjá.

Leið mín lá næst í Iðnó þar sem meðlimir Sing Fang voru að reyna að koma sér fyrir. Ég segi “reyna” því eitthvað gekk þeim erfiðlega að hefja sjóvið og var míkrófónstandur nokkur til sérstakra vandræða. En þetta hafðist hjá þeim að lokum. Því miður var biðin ekki alveg þess virði og ullu Sin Fang mér þónokkrum vonbrigðum og var það þá helst sándið sem gerði það að verkum. Nú hef ég séð Sin Fang nokkuð oft og hef það á tilfinningunni að sveitin sándi aldrei eins. Það er kannski vitleysa í mér en í gærkvöldi fannst mér ég allavega ekki vera að hlusta á sömu hljómsveit og ég sá síðast. Og hvað er málið með að líma yfir opið á kassagítarnum svo hann hljómi tómur og flatur? Er það orðið eitthvað hipp og kúl núna? Ég kann allavega ekki að meta það.

Mynd: Katrín Ólafs. Copyright All rights reserved by Iceland Airwaves

Þarna var ég því staddur í Iðnó ásamt félaga mínum og vissum við hreint ekki hvert skyldi fara. Við ákváðum því að fara út og rölta aðeins á milli staða og sjá hvort eitthvað næði að fanga athygli okkar. Á leiðinni út hittum við gamlann félaga frá New York sem sagði okkur að við hreinlega yrðum að sjá næsta band á eftir Sin Fang. Ég verð að játa að ég vissi ekkert um þessa hljómsveit. Secret Chiefs 3? Hvað er það? Við létum til leiðast og héldum aftur inn. Hugsuðum með okkur að við gætum allavega heyrt svona tvö lög og séð svo til.

Til að gera langa sögu stutta þá áttu Secret Chiefs 3 alveg rosalegt gigg. Eitt það besta sem ég hef séð á Airwaves og það kæmi mér ekki á óvart þó það eigi eftir að vera hápunkturinn á hátíðinni þetta árið. Þvílík spilamennska og kraftur. Þvílíkur hávaði og bassi. Ég hélt að fyllingarnar myndu hrisstast úr tönnunum á mér! Ef þú varst ekki þarna þá misstir þú af miklu.

Þú misstir af þessu:

Secret Chiefs 3 – Fast

Secret Chiefs 3 – The Three

Airwavesdagbók Daníels: Miðvikudagur

Það var ljúft að klára vinnuna þennan daginn. Þó þreytan væri þónokkur eftir erfiði dagsins, fylltist líkaminn gleði og hamingju yfir því að hátíðin væri loksins að hefjast. Frekar slæm ýsa í raspi var gleypt á Hressingarskálanum með góðum vin og haldið var í átt að óreiðu (stolið? neinei..). Á meðan kórbræður höfundar kyrjuðu ættjarðarlög í Hljómskálanum, undirbjuggu tónleika á Kaffibarnum og supu smá mjöð, ákvað höfundur að kynna sér opnunarkvöld hátíðarinnar og hafa það náðugt í faðmi íslenskrar tónlistar, mannmergðar og þetta kvöldið; grenjandi rigningar. Leiðin lá á hin nýenduropnaða Gauk á Stöng þar sem útgáfufyrirtækið Geimsteinn hugði á kynningarkvöld.

Eldar – Gaukur á Stöng

Eldar er samstarfsverkefni þeirra Valdimars Guðmundssonar (Valdimar) og Björgvins Ívars Baldurssonar (Lifun/Klassart) og koma þeir frá Keflavík. Það var suðurnesjastemmari á Gauk á Stöng þegar bandið tók á svið en kvöldið, tileinkað útgáfufyrirtækinu Geimsteini, hafði lagt staðinn undir sig þetta kvöldið. Ekkert nema gott mál. Húsið var hálffullt/hálftómt (fer eftir því hvernig er litið á það) þegar hinn geðþekki söngvari Valdimar kynnti sveitina. Þeim til halds og trausts (meðlimir hugsanlega?) voru nokkrir vinir en þar á meðal voru þeir Stefán Örn úr Buff og Lights on The Highway, Sigtryggur Baldursson (þúsundþjalatrymbill/Sykurmolarnir) og ein Fríða Dís úr Klassart. Samhljómurinn var frábær og treginn var mikill. Textar á íslensku og rómantísk melankólía sveif yfir vötnum. Hljómsveitin skilaði vel af sér og Valdimar sló við nýjan tón og hvarf í smástund frá sinni samnefndu hljómsveit í allt annan heim. Mjög gott mál. Einnig skemmdu ekki fyrir þær harmoníur sem þau Stefán Örn og Fríða Dís framkölluðu ásamt Björgvini. Allt í allt mjög heilsteypt en ef slípað er ögn betur gæti þetta verið næsta stórsveit landsins. Von er á breiðskífu frá sveitinni í nóvember og að sjálfsögðu kemur hún út á Geimsteini. Mun hún bera heitið (ef höfundi minnir rétt), Í Nálægð og Fjarlægð eða Nálægð/Fjarlægð. Bæði betra.

Klassart – Gaukur á Stöng

Eftir erfiðan vinnudag getur verið gott að hressa sig aðeins við. Þó er það vart í höndum meðlima Klassart að gera slíkt. Örlítið fækkaði í salnum en á sviði stigu meðlimir og smurðu í yndislega mjúkt og gott kántrýskotið blús/popp sem passar vel við smá viský og rigningu. Flutningurinn var góður og einlægðin greinileg. Hljómsveitin hefur stimplað sig vel inn í tónlistarlífið hérlendis og þá einna helst með laginu Gamli grafreiturinn sem tröllreið öldum ljósvakans hér um árið. Því fór þó miður, að fætur toguðu í sætaröð eða jafnvel sófa og var því ákveðið að yfirgefa húsið eftir aðeins tvö lög. Hugsanlega finna sér stað þar sem hægt væri að humm-a tóna bæði Klassart og Elda og um leið safna kröftum fyrir komandi kvöldstund/ir. Báðar sveitir þóttu þó afbragðsfærar í sínu en hefðu líklegast sómað sér betur þar sem gestir hefðu getað farið í setusleik í stað þess að liggja á gólfinu og fara í laumusleik. Eða hvað? Gólf er kannski bara meira spennandi.

Eftir huggulegheit Geimsteins var leiðinni haldið á Nasa við Austurvöll. Hið farsæla útgáfufyrirtæki Record Records hafði hersetið húsið þetta kvöldið og hugði á sigur. Var það bæði skemmtileg og furðuleg reynsla að labba inn á Nasa gjörsamlega stútfullan svona snemma kvölds á miðvikudegi.

Lockerbie – Nasa

Undanfarin ár hafa sveitir sem leika snemma á Nasa við Austurvöll á miðvikudegi í þurft að sætta sig við hálftóman/hálffullan sal af gestum en þetta kvöld var raunin allt önnur. Varla var hægt að fóta sig þegar inn í salinn var komið þar sem Lockerbie voru í miðju setti og gestir í fullkomnu jafnvægi. Eða svona næstum því. Lockerbie leikur post-rock/indie blöndu með brassi og var af nægu að taka. Þétt og flott keyrði sveitin í efni af frumburði sínum Ólgusjór og öryggið var gott. Sveitin er flott stadium band og sándið þeirra skilar sér einkar vel í þéttum og stórum sal af fólki. Hljómsveitir á borð við For A Minor Reflection og Hjaltalín koma upp í hugann þegar sveitin er upp á sitt besta og greinilega að áhrifavaldarnir eru bara af því fínasta. Ungt og efnilegt svo sannarlega og verður gaman að fylgjast með hvernig þessum drengjum gengur!

Mig hafði lengi vantað að sjá krakkana í Mammút en sveitin hefur farið frekar huldu höfði undanfarið og eytt tíma sínum í upptökur á væntanlegri plötu. Ég var frekar spenntur en ákvað að tylla mér aðeins í sófann á efri hæð Nasa og taka anda. Þegar hugljúf en þokkafull rödd Katrinu Mogensen færðist yfir í hátalarakerfi efri hæðarinnar, dreif ég mig niður.

Mammút – Nasa

Krakkarnir í Mammút tóku á stökk í múnderingu indjána (?) og fengu salinn gjörsamlega á sitt band. Ofursmellurinn Bakkus varð þriðja lag kvöldsins og stemmingin var frábær. Hljómsveitin var einnig verulega þétt og sándið alveg frábært! Þau eru svöl og vita það en sannleikurinn er sagna bestur og ekkert er um stæla. Gestir fíluðu Bang Gang ábreiðuna Follow og sýndu sveitinni að þeirra nærveru er verulega óskað við sem flest tilfelli. Æðisleg frammistaða og djöfull verður gaman að heyra afrakstur upptökuferlis krakkanna sem staðið hefur um þónokkurn tíma. Besta frammistaða þeirra hingað til að mínu mati en ekki hefði verið verra að heyra fleiri gömul með.

Sykur – Nasa

Stuð/partý/elektró-pop sveitin Sykur gaf nýverið út plötuna Mesópótamía og hefur fengið fína athygli fyrir vikið. Þó hefur sveitin verið á vörum dansþyrstra Íslendinga um þónokkurn tíma núna þrátt fyrir ungan aldur meðlima. Sveitin leikur 90´s blandað teknó á heimsklassa (fyrir þá sem fíla). Agnes Björt, söngkona sveitarinnar, náði að hrífa gesti með sér en fullt var útúr dyrum allt kvöldið á Nasa. Feikigóð söngkona sem gefur þessu fremur einfalda teknó-trans-dans-blandi aukið vægi og hjálpar til. Svona smá eins og Aretha Franklin og Florence Welch færu í trekant með tónlistarforriti á alsælu með sleikjó…eða já. Fínt, flott en ekki alveg minn tebolli. FM Belfast söngvarinn Árni Rúnar átti einnig skemmtilega innkomu í laginu Shed Those Tears. Það var gaman.

Agent Fresco – Nasa

Það er alltaf mikil eftirvænting eftir tónleikum Agent Fresco. Oft er það eins og að bíða eftir geggjuðum mat í ofninum eða jafnvel huggulegri píu til að fara úr að ofan eftir annars ágætis kvöld. Þetta skiptið var þó fremur dræmt. Maturinn var hálf brunninn og hugsanlega var þessi gella ekkert gella. Að öllu gríni slepptu voru þetta mikil vonbrigði. Hljómurinn var skrýtinn og lögin virtust bæði hægjast niður og hraðast upp á handahófskenndum augnablikum og ein af mest spennandi sveitum landsins var bara ekki nægilega þétt. Agent Fresco hafa fyrir löngu síðan hrifið undirritaðan á sitt band og séð til þess að andlegri alsælu sé fullnægt oftar en einu sinni en í þetta skiptið var ákveðið að fara snemma. Hugsanlega er þetta tengt þreytu, yfirfullum sal af fólki eða annarskonar streitu miðrar viku en ég held því miður ekki. Drengirnir áttu sína spretti en það dugði ekki til og kvaddi ég Nasa fremur súr þetta kvöld. Sveitin hyggur á frekari framkomur á Airwaves í ár og mun ég sannarlega gefa þeim tækifæri til að sannfæra mig á nýjan leik. Svo sannarlega.

Nokkur kvöld eftir og allt að byrja. Stundum eru hlutirnir ekki þeir sem maður vonaðist eftir og stundum eru þeir betri en allt annað sem hægt er að ímynda sér. Höfundur er viss um að komandi tónleikar, uppákomur og glens Iceland Airwaves 2011 eigi eftir að framkalla hjartayl, bros og eintóma gleði á komandi dögum. Áfram Airwaves, gleðilega hátíð og skál!

Nýtt myndband frá Who Knew

Hér er nýjasta myndbandið frá hinni frómu sveit Who Knew og er það við lagið “Tranquility”. Einar Baldvin Arason leikstýrði, myndataka var í höndum Hákons Pálssonar og Ármann Ingvi Ármannsson framleiddi.

Who Knew spila á Airwaves á föstudaginn á Gauk á Stöng klukkan 22:30.

Airwavesdagbók Kristjáns: Miðvikudagur

Gamalt fólk kvartar oft mikið. Hlutirnir voru víst alltaf betri í gamladaga. Það er erfitt að meta hvort manns eigin neikvæðni byggist á sömu tilfinningadrifnu og röklausu nostalgíu, eða hvort að stundum hafi hlutirnir einfaldlega verið betri áður fyrr.

Ég fór fyrst á Airwaves árið 2005. Þetta var á þeim tíma sem ég fór á alla tónleika sem táningi var hleypt inn á í Reykjavík og nágrenni. Ég fékk skilríki lánuð frá bróður vinar til að komast á hátíðina. Airwaves var alsæla, endalaust mikið af böndum – það skipti ekki máli hvort það var The Zutons eða I Adapt eða hvað sem er: Allt fannst mér stórkostlegt. Í dag myndi ég hins vegar eflaust fússa yfir því að The Zutons væru bókuð á hátíðina og standa svo aftast með krosslagðar hendur á I Adapt tónleikum.

Kannski er maður orðinn lífsreyndari, eða kannski bara meira anal og ömurlegur, en þegar ég lít yfir prógramið í ár og hlusta á listamennina sem munu spila er hins vegar óóósköp fátt sem vekur upp vott af eftirvæntingu. Hjá erlendum listamönnum hefur einhver óspennandi synthadrifinn og dansvænn indírokkpúki smám saman tekið yfir alla tónlistarsköpun – eða þannig virkar það allavega.

Og þrátt fyrir að það séu alveg rosalega margir íslenskir listamenn að gera mjög góða, flotta og skemmtilega hluti, þá er alveg fáránlega lítið nýtt í gangi. Sérstaklega fyrir þjóð sem þreytist ekki á því að monta sig yfir eigin tónlistarmönnum og viðheldur öllum mýtum um yfirskilvitlegt samband óspilltrar náttúru og tilraunakenndrar listsköpunar. Þvert á það sem umheimurinn heldur vantar nefnilega einhverja almennilega greddu og raunverulega frumlega sköpun í íslenska tónlist í dag.

Nú ætla ég alls ekki að kenna Airwaves hátíðinni um þessa þróun. (Ég segi þróun af því að ég held að þetta hafi ekki alltaf verið svona. Krúttið var t.d. uppfullt af listrænni greddu (mjög passífri jú) og ákaflega nýrri sköpun. Harðkjarnasenan hefur oft verið mjög spennandi og það sem stundum hefur verið kallað Póst-krútt – þ.e. FM Belfast, Retro Stefsson o.s.frv. – var eitthvað nýtt og áberandi spennandi fyrir þremur árum. Líklega kemur þetta bara í bylgjum. Þekktur breskur útvarpsmaður segir víst t.d. nóg að koma á hátíðina á þriggja ára fresti til að uppgötva eitthvað nýtt.) Stundum læðist hins vegar að mér sá grunur að þrátt fyrir öll þau jákvæðu áhrif sem Airwaves-hátíðin hafi haft á tónlistina í landinu, eigi hún líkan örlítinn þátt í geldingu íslenskrar tónlistarsköpunar.

Fyrir nokkrum árum sá ég góðan vin minn spila á Airwaves-tónleikum með frábærri hljómsveit. Tónleikarnir voru hins vegar hræðilegir. Það voru aðallega útlenskir blaðamenn á staðnum, en bara nokkrir aðdáendur. Hljómsveitin spilaði ofboðslega illa en einbeindi sér mest að því að líta vel út fyrir myndavélarnar. Nú leggur þessi vinur minn ekki neitt sérstaklega mikið upp úr því að meika það. En það er þessi óhjákvæmilega meðvitund listamannanna um tækifærin sem billjón útlenskir blaðamenn og útgefendur hafa í för með sér sem hefur, að ég held, vaxið með hverri hátíð. Auðvitað hefur það í för með sér meiri metnað af hálfu hljómsveitanna, en stundum finnst mér að það sé fyrst og fremst  metnaður til að láta mikilvægu fólki líka við sig.

Iceland Airwaves er bransahátíð og tónlistarbransinn, eins og allir aðrir bransar, snýst fyrst og fremst um pening – ekki fólk eða tónlist, áhorfendur eða tónlistarmenn. Ekki að það sé neinum ákveðnum aðila að kenna, fjárhagslegir hagsmunir flugfélags, útgáfufyrirtækja, tónlistarblaða og endalaust fleiri aðila gera það að verkum að svona ganga hlutirnir einfaldlega fyrir sig. Manni líður hins vegar oft eins og maður sé bara smurolía einhverrar stórrar maskínu. Við fáum jú að njóta ágóðans þ.e. tónleikanna og virðumst á yfirborðinu vera í aðalhlutverki. En ef maður skoðar þá staðreynd að Agent Fresco hafi launalaust  troðfyllt NASA og fengið hundruði gesta til að bíða í röð fyrir utan á besta tíma hátíðarinnar í fyrra og á sama tíma þurft að kaupa sér sinn eigin bjór til að svala þorstanum á meðan á giggi stóð (lítill flöskubjór NASA kostar btw 900 krónur) og þegar maður bíður í klukkutímaröð í skítaveðri á meðan blaðamenn og aðrir vinir hátíðarhaldara valsa inn og út, finnur maður greinilega fyrir eigin merkingarleysi í þessu samhengi. 

Kannski er þetta fyrirkomulag hið besta mögulega, og kannski á maður ekkert að vera að kvarta, en stundum finnst manni listin óhreinkast við þessi augljósu tengsl við peninga. Það er kannski óhjákvæmilegt , en just sayin… Þessar hugsanir herjuðu á mig allt miðvikudagskvöldið, fyrsta tónleikakvöld Iceland Airwaves 2011. Ég vonaði innilega að öllu mínu áhugaleysi og neikvæðu hugsunum yrði troðið aftur ofan í kokið á mér með einhverri listrænni flugeldasýningu.

Fyrsta band kvöldsins var Mammút á NASA. Þau voru í svaka stuði, þétt og aðlaðandi að venju og krádið fílaði þau greinilega í drasl. Tónlistin er í stöðugri þróun, og nú er hljóðgervill farinn að spila stórt hlutverk í nokkrum lögum. Bandið virtist vera að færa sig meira í yfir í myrkari og rafrænni átt (kannski svolítið í áttina að þeirri tónlist sem Austra er að gera). Þessi elektróníski bragur lætur Katrínu minna örlítið meira á Björk, en það hafa alltaf verið ákveðin element í söngnum sem virðast koma þaðan. Kover útgáfa af ,,Follow“ af Bang Gang kom svo mjög vel út með öskrum og óhljóðum.

Næst ætlaði ég að hlusta á Sóleyju Stefánsdóttur (úr Seabear og Sin Fang), sem að mínu mati er líklega áhugaverðasti ,,nýji“ íslenski listamaðurinn á hátíðinni. Röðin sem hafði myndast inni í Hörpunni var hins vegar gígantísk og ég ákvað að halda aftur út í óveðrið.

Á Faktorý spilaði nýtt íslenskt reggíband sem kallast Amaba Dama. Hljómsveitin virtist aðallega veruð skipuð meðlimum Ojba Rasta, en með kamelljónið Earmax a.k.a. Nagmús a.k.a Maximus a.k.a. Gnúsa Yones sem frontmann. Stemmningin var vel heit, svitinn lak af rúðunum og fólk dillti sér hæglátlega við tónana. Bandið var þétt og skemmtilegt á sviði en lagasmíðarnar frekar misjafnar. Frá koveri af Týndu Kynslóð Bjartmars til ofboðslega undarlegs lags um Bjössa Bollu og svo ágætis útgáfu af danshittara Gnúsa Yones ,,Fullkomna Ruglkona“.

IKEA SATAN er eitt skemmtilegasta hljómsveitarnafn hátíðarinnar. Hraðabreytingar, samsöngur og einstaka kaflar vöktu lukku en hljómurinn var þunnur  og í heildina var tónlistin sem hljómsveitin bauð upp á á Amsterdam bara frekar auðgleymanlegt bílskúrsrokk.

Til að slútta kvöldinu – HEY! – rölti ég yfir á NASA þar sem Of Monsters and Men voru hálfnuð með settið sitt – HEY! Það virðist vera svolítil lenska hjá böndum þessa dagana að safna saman fullt af fólki upp á svið í þeim tilgangi að bæta einhverju við  tónlistana – HEY! – en ef lögin kalla ekki hreinlega á það er það oftast óþarfi – HEY! Þannig var það með OMM sem mér finnst að ættu frekar að einbeita sér að því að mjólka tilfinningarnar sem þau eru að setja í lögin frekar en að búa til eitthvað über-kraftmikið show – HEY! Bandið var semsagt kraftmikið en vandræðalegt milli laga – HEY! – og visjúalið ágætt en bætti svosem engu við tónlistina – HEY! Slagarinn ,,Little Talks“ – HEY! – var lokalagið og sungu margir með, og óháð tilfinningum mínum gagnvart laginu verður það að viðurkennast að það er alveg óþolandi grípandi – HEY!

Fyrsta kvöld hátíðarinnar ár var engin listræn flugeldasýning, fátt nýtt eða frumlegt, en gott á sinn hátt. Kosturinn við að hafa litlar væntingar til hátíðarinnar er vonandi sá að maður verður allavega ekki fyrir neinum stórkostlegum vonbrigðum…

Bjóða í Airwaves Partý

Félagarnir Atli Bollason og Steinþór Helgi Arnsteinsson bjóða upp á Airwaves off-venue dagskrá í íbúð sinni á Ingólfsstræti 8 á föstudag og laugardag. Gestrisni þeirra félaga eru litlar skorður settar, en þeir taka einnig þátt í átakinu Inspired by Iceland, þar sem þeir bjóða 20 ferðamenn sérstaklega velkoma á þessa dagskrá.

Rjóminn verður að sjálfsögðu á staðnum og vonumst við til að sjá sem flesta. Sveitir sem troða upp eru m.a. Hjaltalín, Kreatiivmootor, Rich Aucoin, Thulebasen, Æla, Hermigervill, Berndsen, Snorri Helga og Sykur.

Airwavesdagbók Guðmundar: Miðvikudagur

Af stemningunni í miðbænum á miðvikudaginn mátti ráða að eitthvað var yfirvofandi. Eitthvað spennandi. Á hverju götuhorni tók við manni ný, erlend tunga og inn og út af öldurhúsum borgarinnar streymdu tæki og tól, hljóðfæri og fólk. Meira að segja í pottunum í Vesturbæjarlauginni mátti greina þetta, þar sem rithöfundar, tónlistarmenn og gamalmenni voru samankomin að spjalla um málefni líðandi stundar: Airwaves er að byrja. Tilfinning mín var sú að aldrei hafi fleiri útlendingar verið hingað komnir til að sjá, upplifa og heyra íslenska tónlist. Og dagskrá kvöldsins var svolítið eftir þessu; flestir listamennirnir voru íslenskir og marga hverja hafði maður séð spila oftar en einu sinni eða tvisvar. Ég tók því þann pólinn í hæðina að elta uppi það sem hafði áður framhjá mér farið.

Ég byrjaði kvöldið á Off-venjúi í boði Gogoyoko á Bar 11. Þar voru finnsku öldungarnir í 22-Pistepirkko að leika fyrir dansi. Ég ætla bara að gera hreint fyrir mínum dyrum; meiri tími fór í skeggræður yfir ölkrús en eiginlega inntöku á músík. Stundum náði bandið þó að grípa athygli mína með snjöllum gítarlínum og þokkaleg kraftmiklu rokkstuði svo samræðurnar voru settar á hold. Það er greinilegt að bandið hefur gert þetta lengi; virtist nokkuð öruggt í flutningi sínum en hafði mátt hafa meira gaman af þessu. Þó óhætt að mæla með að fólki kíki á þessa reynslubolta.

Pornopop voru næstir á dagskrá; aðrir öldungar sem ég hafði ekki séð áður. Pornopop samanstendur af tveimur bræðrum en þeim til halds og trausts voru Franz, úr Ensími, og Ingi Björn, bassa- og kyntröll. Tónlistin var áheyrileg; svona gítardrifið letirokk, minnti á köflum á American Analog Set. En framkoman var álíka letileg og tónlistin sjálf. Þeir spiluðu og sungu með lokuð augun; ekki af innlifun heldur frekar eins og þeir væru bara pínu þreyttir.

Á Faktorý voru það reggí-bönd Amaba Dama og Ojba Rasta sem áttu að slá botninn í tunnuna þar á bæ. Það fyrra hafði ég aldrei heyrt um áður, Amaba Dama, en það síðara er orðið landanum góðkunnugt. Það var vel hægt að dilla sér við Amaba Dama. Spilagleðin var í fyrirrúmi og sviðsframkoman lífleg; meðlimir klæddir fjöðrum og glingri. Því miður bliknuðu þau hinsvegar í samanburði við Rastana í Ojba. Bandið var þétt og vel spilandi, lögin grípandi og skemmtileg. Ekki skemmir fyrir að hafa Dubmaster innanborðs en hann gefur litríku bandinu enn meiri lit. Stemning var þar að auki orðin vel sveitt enda staðurinn stútfullur af fólk í miklu stuði. Því miður náði ég ekki að hlýða á tónleikana til enda því samverkamaður minn gerðist drukkinn og spjó. Ojbarasta!

Þetta kvöld var fínn forsmekkur fyrir það sem koma skal. Venjúarnir voru full fáir þetta kvöldið og því mynduðust raðir á ákveðnum stöðum. En þannig er það bara! Þar sem ég sit hér og rita þetta yfir kaffibolla finn ég vissulega fiðring fyrir kvöldinu í kvöld. Beach House er vafalaust það númer sem ég er spenntastur fyrir. Annars heilla norsku málmhausarnir í Deathcrush, kanadamennirnir í Young Galaxy og japansk-bandaríski dúettinn Fig. Þess má geta að Nels Cline, gítarsveinn Wilco, er annar helmingur Fig. Þetta verður eitthvað!

Þess má geta að myndum var stolið af Flickr-síðu Loftleiða og þær birtar án leyfis. Ég vona að ég fái ekki skömm í hattinn.

Airwavesdagbók Egils : Miðvikudagur

Þá er fyrsta Airwaves degi lokið og nýr tekinn við. Hátíðin byrjar vel og ómuðu hljómar úr hverjum króki og kima í miðbænum öllum. Allstaðar var fólk allstaðar frá og stemmingin mögnuð enda eftirvæntingin og spennan mikil.

Eins og gerist þá riðlast tónleikaplön alltaf eitthvað og svo dettur maður alltaf einhverstaðar inn fyrir slysni og sér eitthvert bandið sem kemur manni skemmtilega á óvart (voðalega er þetta allt eitthvað einhvernveginn hjá mér).

Ég hóf kvöldið á að sjá finnsku öldungana í 22 Pistepirkko off-venue á Bar 11 en þeir tónleikar voru í boði gogoyoko. Voru þeir bara nokkuð góðir og áttu nokkra magnaða spretti inn á milli þó þeir væru ekkert endilega að gefa sig alla í flutninginn. Næst lá leiðin á Amsterdam þar sem Ching Ching Bling Bling bauð uppá veislu. Spacevestite voru þar í miðju prógrammi og stóðu sig vel. Á meðan ég beið eftir að Pornopop stigu á stokk skaust ég yfir á Gaukinn og sá Blaz Roca trylla líðinn enda fagmaður fram í fingurgóma. Þegar ég kom til baka voru Pornopop þegar byrjaðir á sínu fyrsta lagi. Var mikill og góður stígandi í lögum þeirra og enduðu þeir settið með húsfyllina algerlega á sínu bandi. Gott sjóv það.

Næst lá leiðin á Dillon þar sem off-venue dagskráin var enn á fullu. Þar komu, sáu og sigruðu surf rokkararnir í El Camino og var hápunkturinn hjá þeim án efa ábreiða af gamla Chantays slagaranum “Pipeline”. Það þótti mér flottur endir á kvöldinu og hélt ég því sáttur heim á leið til að safna kröftum fyrir kvöldið í kvöld.

The Chantays – Pipeline

Airwaves : Þá byrjar ballið!

Airwaves hátíðin er hafin og framundan stanslaus gleði, glaumur og taumlaus þynnka. Jú og auðvitað tónlist. Lifandi helvítis hellingur af tónlist.

Til að auðvelda valkvíðnum tónlistarunnendum valið bjóða elskurnar hjá Airwaves uppá persónulegan viðburðaplanara sem nálgast má hér. Sjálfur held ég að byrji kvöldið á NASA að sjá Orphic Oxtra og svo Lockerbie á eftir. Rölta síðan yfir til hennar Hörpu og sjá Nolo og svo beint þaðan yfir á Amsterdam að sjá Pornopop og Hljómsveitina Ég. Enda svo kvöldið á að sjá annaðhvort Of Monsters And Men eða Bix.

Hvernig verður kvöldið hjá þér?

Artistar á Airwaves ´11: Árni Grétar (Futuregrapher)

Futuregrapher, sem greiðir skatt undir nafninu Árni Grétar Jóhannesson, hefur á undanförnum árum verið að stíga vel inn í íslenskt tónlistarlíf. Ferill þessa rétt tæplega þrítuga Tálknfirðings, hófst rétt fyrir aldamótin síðustu en Árni sat þá iðinn við raftónlistarsköpun ásamt langvini sínum Jónasi Snæbjörnssyni undir nafninu Equal. Þó Equal hafi liðið sitt skeið, lagðist Árni ekki í dvala og hóf að koma fram undir sviðsnafninu Futuregrapher nokkrum árum síðar. Plata hans Yellow Smile Girl vakti ágæta athygli árið 2009 en Árni vakti ekki síður athygli með nýjustu plötu sinni Tom Tom Bike, sem gefin var út í ár. Platan er gefin út af útgáfufyrirtæki Árna og Jóhanns Ómarssonar, Möller Records en saman hafa þeir félagar staðið fyrir vel heppnuðum Heiladans kvöldum á skemmtistaðnum Hemma og Valda undanfarið ár. Auk þessara tveggja platna hafa einnig komið út ágæt mix frá kauða (Acid Hverfisgata og Túngata) en báðar plöturnar (eflaust allar) eru taldar undir miklum áhrifum eins lærimeistara og liðins vinar Árna, Bjössa Biogen en Árni hefur aldrei farið leynt með það að hafa fengið mikla andlega og tónlistarlega aðstoð frá þeim liðna snilling rafsins.
Rjóminn hitti Futurgrapher á Kaffibarnum þar sem raftónlistin henti miðvikudegi Airwaves í gang og innti hann nokkurra svara.

DH: Hvernig kom það til að þú fórst að gera raftónlist, Árni?

ÁG: Ööööö….ég hafði mikinn áhuga á tónlist í gegnum pabba. Hann var alltaf að spila á gítar svona heima. Einn daginn kom hann með hljómborð heim. Nettan syntha. Þá var ég svona 13 ára og ég byrjaði eitthvað að fikta. Á sama tíma hlustaði ég mikið á The Prodigy og langaði að gera svona svipað og þeir. Ætli það hafi ekki verið byrjunarreiturinn.

DH: Þú heldur ansi villt partý þegar þú kemur fram. Hvað keyrir þig áfram í rokkinu?

ÁG: Adrenalínið og krafturinn frá gestum hvers kvölds. Ég er mjög meðvitaður um það þegar fólk er í góðum gír. Góðum partýfíling! Það er svona grunnurinn.

DH: Nú ert þú að vestan. Þú hefur aldrei íhugað að reyna að koma Fjallabræðrum inn í mixið?

ÁG: (Hlær). Ég þekki Dóra og Steinar úr kórnum mjög vel og nokkra aðra sömuleiðis. Fjallabræður eru að sjálfsögðu velkomnir í stúdíóið hvenær sem er!

DH: Hvað er annars framundan, Árni? Á að sökkva sér í útgáfur annarra og halda áfram því góða starfi eða á að halda góðu blandi af báðu í gangi áfram fram í eilífðar ró?

ÁG: Framundan er vinnsla á plötu sem átti að koma út í ár. Hún heitir Hrafnagil. Ég ákvað að seinka henni fram á næsta ár þar sem ég er að uppgötva nýjar aðferðir. Svo var ég auðvitað að gefa út TomTomBike nýlega og ætla að leyfa henni að lifa og gleðja aðeins lengur. Svo auðvitað verð ég með útgáfuna líka.

DH: Svona í lokin. Hvað hefur kveikt í þér einna mest við Airwaves í gegnum árin? Á að sjá eitthvað þrusandi stuð í ár eða jafnvel eitthvað allt annað?

ÁG: Það sem hefur kveikt mest í mér eru íslensku böndin! Þá sérstaklega nýgræðingar eins og í ár; Fu Kaisha t.d. sem ég hlakka mikið til að sjá. Yfirleitt eru íslensku böndin þau sem kveikja mest í mér. Svona þau sem ég þekki ekki. Uppgötvanir ef svo má kalla. Svo ætli ég reyni ekki að kveikja stemmarann í mér með því að sjá sem flesta nýgræðinga

Rjóminn þakkar Futuregrapher innilega fyrir spjallið og óskar honum og hans velgengni í komandi stríðum, leikjum og ástum.

Futuregrapher kemur fram á fimmtudagskvöldinu á Faktorý klukkan 23.40 ásamt fleiri góðum.

Futuregrapher – Tjarnarbiogen by Futuregrapher

Artistar á Airwaves ´11: Halli Valli (Æla)

Í gegnum árin hefur post-punk hljómsveitin Æla komið gestum Iceland Airwaves í fremur opna skjöldu en sveitin kemur nú fram í sjötta skipti á hátíðinni. Hvort sem það hefur verið í dragi, smóking, gallabuxum eða hænsnabúningum hefur söngvari sveitarinnar Hallbjörn Valgeir (Halli Valli) Rúnarsson leitt sveit sína í sveittum, öskrandi og yfirleitt þefjandi framkomum sem hlotið hafa athygli bæði hér á landi sem erlendis. Með frumburð sinn að vopni, Sýnið tillitsemi, ég er frávik, frá árinu 2006, hyggur sveitin á frekari frægð og vinnur nú að seinni plötu sinni sem beðið er í ofvæni. Auk Hallbjörns eru það þeir Sveinn Helgi (bassi), Ævar (gítar) og Hafþór (trommur) sem mynda Ælu.
Rjóminn settist niður með Halla Valla þar sem hann gerði klárt fyrir hátíðarhöld á sínu öðru heimili, Kaffibarnum og innti hann um hvað honum þætti mest spennandi við Iceland Airwaves hátíðina í ár og svona smávegis meira.

DH: Sæll Halli! Fáir vita söguna á bakvið þetta (oft óaðlaðandi) nafn, Æla. Segðu mér aðeins hvernig nafnið kom til og þið strákarnir fóruð að spila saman?

HV: Þetta er auðvitað spurning sem við fáum frekar oft sko. Þeir sem lesa heimasíðuna hjá hátíðinni fá í raunar afar rómantíska hugmynd af því hvernig við vinirnir ákváðum að stofna Ælu. Raunin er þó sú að hljómsveitin varð til fyrir einn bjórkassa. Við vorum beðnir um að stofna band til að hita upp fyrir sveitaballabandið Spútnik vegna sjómannaballsins í Sandgerði og við ákváðum að verða nettir uppreisnarseggir og stuða fólk aðeins með því að skíra hljómsveitina Ælu. Auk þess varð framkoman og þá klæðaburðurinn liður í því að stuða og hneyksla (ef svo má segja). Annað kom þó á daginn og hljómsveitin Æla átti eftir að draga mun betur að sér en Spútnik sem gerði það að verkum að stjörnur kvöldsins báðu Ælu að stíga af sviðinu eftir einungis tvö lög. Eftir þetta kvöld var ekki aftur snúið og við ákváðum að gera plötu.

DH: Hvað er að gerast í herbúðum Ælu þessa dagana? Þið fenguð ágæta athygli eftir síðustu hátíðir og fóruð m.a. erlendis og reynduð fyrir ykkur. Sömuleiðis hlutuð þið fína dóma fyrir framkomu ykkar á hátíðum liðins árs. Hvað er að frétta?

HV: Það hefur ansi margt drifið á daga okkar í einkalífinu. Barneignir, fráföll og önnur mál sem erfitt hefur verið að eiga við samhliða hljómsveitalífi. Í dag erum við þó allir klárir með nýja plötu og erum spenntir. Í raun er ekkert annað eftir en að ýta bara á REC eftir hátíðina og líta til framtíðar. Við erum bara ógeðslega spenntir og graðir fyrir framtíðinni og komandi Airwaves. Þó einna helst erum við spenntir fyrir því að sprengja stofuna hans Steinþórs (hlær).

DH: Þetta er sjötta árið ykkar sem hljómsveit á hátíðinni en hvað telur þú vera eftirminnilegast frá liðnum árum á hátíðinni (fyrir utan ykkar eigin heimsóknir)?

HV: Mér hefur alltaf fundist Blue Lagoon partýin mjög sæl minninga. Af erlendum listamönnum eru það líklega tónleikar The Fiery Furnaces árið 2005, The Rapture á Gauknum 2004 og vá, alveg hellingur af öðru. Hreinlega af allt of mörgu að taka!

DH: Já. Ég er sjálfur ekki frá því að The Rapture sitji vel í manni eftir öllu þessi ár! Takk fyrir spjallið en svona rétt í lokin; Hvað á að sjá í ár (Jú, fyrir utan Bláa Lónið)?

HV: Satt að segja hef ég ekkert náð að kynna mér listann í ár. Ég var þó frekar heppinn að sjá tUnE-yArds í Barcelona í sumar og mun ekki missa af henni. Dungen eru líka mjög spennandi en ég held að mín persónulegu plön miði að íslensku böndunum. Þar eru fremst á meðal jafningja Sin Fang, Cheek Mountain Thief, Reykjavík!, Sudden Weather Change og að sjálfsögðu Q4U! Jú og svo auðvitað Beach House. Þau eru frábær! Annars renni ég fremur blint í sjóinn líkt og fyrri ár og finnst það bara gaman.

Rjóminn þakkar Halla Valla innlitið og óskar honum og hljómsveit hans Ælu, góðs gengis á komandi Iceland Airwaves hátíð en Æla stígur á stokk á miðnætti á Café Amsterdam á sunnudeginum. Hljómsveitin kemur einnig fram á off-venue tónleikum Steinþórs Helga á heimili hans við Ingólfsstræti 8 á Live Project is House Party.

Aela on Icelandic Airwaves’10 from Thor Kristjansson on Vimeo.