Helgi Hrafn Jónsson gefur út Big Spring

Helgi er klassískt menntaður básúnuleikari sem útskrifaðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og hélt síðar í framhaldsnám í Graz í Austurríki. Hann hefur getið sér gott orð sem hljóðfæraleikari og samstarfsmaður hinna ýmsu listamanna, til að mynda Sigur Rós, Teit, Bedroom Community og Damien Rice en hefur aukinheldur verið duglegur að semja eigin tónlist og hefur gefið út þónokkrar plötur, síðast For the Rest of My Childhood (2008) við afar góðar undirtektir. Síðustu ár hefur Helgi Hrafn túrað vítt og breitt um heiminn, bæði með eigin hljómsveit, svo og dönsku tónlistarkonunni Tinu Dickow.

Big Spring inniheldur 12 lög og var tekin upp í Reykjavík og í Los Angeles. Helgi valdi meðspilara sína vel, en með honum á plötunni eru Þorvaldur Þór Þorvaldsson, Joel Shearer, Jonathan Estes og Tina Dickow. Fyrsta lagið sem fer í spilun er “Darkest Part of Town” sem hefur setið sem fastast á vinsældarlistanum í Þýskalandi síðan platan kom út þar. Big Spring er þegar farin að sanka að sér lofsamlegum dómum og fékk til að mynda 4 stjörnur í Rolling Stone Magazine og 5 stjörnur í danska tónlistartímaritinu Gaffa.

Framundan hjá Helga eru fjölmargir tónleikar. Þar ber fyrst að nefna Iceland Airwaves hátíðina, en Helgi spilar á fimmtudagskvöldið 13. október í Hörpu (Kaldalóni) kl. 23.20. Auk þeirra tónleika kemur hann tvisvar fram á svokölluðum ‘off-venue’ tónleikum, annars vegar í 12 Tónum Skólavörðustíg kl. 18.00 á föstudaginn og hins vegar á Bedroom Community tónleikum á Kaffibarnum kl 16.30 á laugardaginn.

Ching Ching Bling Bling kvöld á Airwaves annað kvöld

CCBB, skammstöfun fyrir Ching Ching Bling Bling plötuútgáfuna, mun halda sitt fyrsta tónlistarpartíkvöld í samstarfi við Airwaves og mun partíið eiga sér stað annað kvöld á Amsterdam, þann 12. okt, og byrjar stundvíslega kl. 19.10.

Dagskráin er á þessa leið:

00.10  IKEA SATAN
23.20  Hljómsveitin Ég
22.30  Pornopop
21.40  Spacevestite
20.50  Skorpulifur
20.00  The Way Down
19.10  HaZaR

Kebab Diskó með Orphic Oxtra

Gróskan og sprettan í íslenskri plötuútgáfu er með ólíkindum og eykst jafnt og þétt eftir því sem nær líður að Mammonshátíðinni Jólum. Hér verður fjallað um eina ágætis plötu sem var að koma út og geta lesendur bölvað sér uppá að fjallað verður um fleiri slíkar, jafnt og þétt, á næstunni.

Kebab Diskó með Orphic Oxtra
Önnur breiðskífa Orphic Oxtra komin í forsölu á gogoyoko.com en sjálfur diskurinn kemur svo í verslanir núna á miðvikudagin. Orphic Oxtra leikur, eins og flestum ætti að vera kunnugt, hressandi balkan tónlist sem erfitt er að sitja undir nema maður geri einhverskonar tilraunir til dans eða sambærilegra hreyfinga.

Orpic Oxtra koma fram á Iceland Airwaves bæði þann 14., klukkan 20:00 á NASA, og sunnudaginn 16. á Gauki á Stöng (einnig klukkan 20:00).

Vigri – These Are The Eyes

Meðfylgjandi er myndband með hljómsveitinni Vigri, sem tekið var upp í Fríkirkjunni þann 22. september síðastliðinn, þar sem hún flytur lags sitt “These Are The Eyes”.

Vigri spila á Iceland Airwaves í Norðurljósum Hörpu þann 14. október næstkomandi klukkan  20:00.

Iceland Airwaves’11: Veronica Falls

Breska sveitin Veronica Falls var stofnuð í London árið 2009 upp úr rústum nokkurra lítt þekktra indíbanda. Á næstu tveimur árum smíðuðu þau nokkrar þrælskemmtilegar smáskífur og fengu svo loks útgáfusamning hjá Bella Union. Frumburðurinn, sem er samnefndur sveitinni, kom út fyrir skemmstu og hefur hlotið þessa fínu dóma.

Veronica Falls leikur indí-popp af breska skólanum með tvisti. Á köflum minnir bandið á sveitir eins og The Pastels og Belle and Sebastian. Veronica Falls seyðir þó fram mun skítugri og rokkaðri hljóm en fyrrnefnd bönd; mögulega mætti rekja það til upptökustjórans Guy Fixsen. Herramaður sá hefur unnið með böndum á borð við My Bloody Valentine, Stereolab og Slowdive. Hverju sem því líður þá er óhætt að mæla með sveitinni; að mínu mati er Veronica Falls eitt það áheyrilegasta sem Airwaves býður upp á þetta árið.

Veronica Falls leikur í Norðurljósum Hörpunnar kl. 20.50 á laugardeginum.

Veronica Falls – Come On Over

Iceland Airwaves 11′: Iceage

Eitt mest hæpaða rokkband ársins er danska unglingapönksveitin Iceage. Iceage spila gamaldags melódískt pönk með dassi af illa spilaðri nýbylgju og gotneskum undirtónum (þegar þetta blandast saman verður þetta reyndar bara nokkuð nútímalegt indírokk). Útlit sveitarinnar og allt myndmál er líka í þessum anda, með hefðbundnu pönkblæti fyrir skít, hráleika og hálffasískum táknum.

Einvaldur indíplötudóma, Pitchfork, gaf frumrauninni New Brigade 8,4 í einkunn og þar með var ísinn brotinn. Síðan þá hafa Iceage túrað heiminn og fært honum sudda og danskt unglingahelvíti.

Iceage spila laugardagskvöldið 15.október klukkan 00:20 á Gauk á Stöng.

Iceage – Remember

Iceland Airwaves ’11: SBTRKT

Fyrir þá sem ætla að reima á sig dansskónna á Airwaves ættu ekki að láta SBTRKT framhjá sér fara. SUBTKT, eða Subtract, er listamannsnafn bresks plötusnúðs sem vill helst að fólk viti sem minnst um sig. Þessvegna klæðist hann einhverskonar bangsagrímu á tónleikum og talar sem minnst um persónu sína viðtölum. Á síðustu þremur árum hefur hann gefið frá sér fjöldann allan af smáskífum, endurhljóðblöndunum og stuttskífum. Það var svo núna í lok júní að fyrsta breiðskífan leit dagsins ljós – en hún er samnefnd listamanninum. Á plötunni ægir saman ýmsum stefnum raftónlistarinnar með einkar dansvænni útkomu. Á tónleikum kemur kappinn venjulega fram einn og óstuddur – og reynir að eigin sögn að gera eitthvað meira en að fikta í lapptoppnum til að koma áhorfendum í stuð.

SBTRKT verður á NASA kl. 00.30 á aðfaranótt sunnudags.

SBTRKT – Wildfire

SBTRKT – Pharaohs

Iceland Airwaves ’11: Other Lives

Bandaríska indírokksveitin Other Lives var stofnuð í Oklahoma 2004, en þá undir nafninu Kunek. Sem Kunek gaf sveitin út eina plötu – en skipti síðan um nafn. Sem Other Lives hefur sveitin hinsvegar gefið út tvær plötur; þá fyrri 2006 og þá síðari núna á þessu ári en hún ber titilinn Tamer Animals. Bandið leikur lágstemmt og melódískt rokk sem sækir áhrif sín vítt og breytt um lönd. Hljómsveitin hitað upp fyrir Bon Iver á Norður-Ameríku túr hans í september – og eru það svosem ágætis meðmæli út af fyrir sig.

Other Lives leika á Listasafninu kl. 22.00 á laugardagskvöldinu.

Other Lives – For 12

Other Lives – Tamer Animals

Nokkrir há- og lágpunktar Airwaves 2010

Til þess að koma fólki í rétta gírinn ákvað ég að safna saman nokkrum eftirminnilegum punktum úr skrifum rjómapenna frá síðustu Airwaves-hátíð, eðlilega var þar margt sem gladdi og ýmislegt annað sem kvaldi Rjómann.

Það er skemmst frá því að segja að endurkoma S.H. Draums var betri en ég þorði nokkurn tímann að vona. Þessar gömlu kempur höfðu engu gleymt og sýndu svo sannarlega yngri kynslóðinni hvernig á að gera þetta. Það fór óneitanlega um mann sælu hrollur fortíðarljómans þegar lög eins og „Helmút á mótorhjóli“ og „Grænir frostpinnar“ dundu á manni með fullum styrk. Ógleymanleg verða lokaorð Dr. Gunna eftir uppklappið þegar hann sagði „Það er eins gott að þið klöppuðuð okkur upp. Við voru nefnilega búnir að æfa uppklappslög.“ Að þeim loknum, þau voru by the way alveg geðsturluð keyrsla, endaði Doktorinn á að segja „Takk, við kunnum ekki meira. Bæ.“ Gargandi snilld! (EH)

Um tónleika jj: Eftir að tvö lög höfðu hljómað, steig inn síðhærður drengur sem tók upp kassagítar og fór að spila með iTunes. Aftur á móti heyrði ég aldrei neitt í þessum gítar. Stundum hætti hann líka að spila og fór og knúsaði söngkonuna aðeins. Þar að auki var ekki til neitt sem gæti kallast sviðsframkoma og þau bæði gjörsamlega snauð lífi og spilagleði. Ég er nokkuð viss um að þetta séu þeir alverstu tónleikar sem ég hef nokkurntíman farið á. Úff! (GV)

My Summer As a Salvation Soldier spiluðu fyrir nánast tómum sal á Risinu, en þeir sem komu fengu rokkútgáfur af hinum frábæru lögum Þóris. Ein af ástæðunum fyrir því að Þórir er ekki þekktari en raun ber vitni er hið pönkaða viðhorf, sem kristallast í hinum frábæru lokaorðum tónleikanna: „Við vorum My Summer as a Salvation Soldier og við erum ekki að fara til útlanda og vorum ekki að gefa út plötu.“ Það er ágætt að ekki allir tapi sér í sölumennsku og meikpælingum.(KG)

Frá Iðnó lá leiðin yfir í Tjarnarbíó þar sem besta band kvöldsins, franska sveitin Gablé, skemmti áhorfendum með ótrúlega frumlegri tónlist og sviðsframkomu. Það er erfitt að koma því í orð hverskonar tónlist Gablé spilar. Ætli henni sé ekki best lýst sem einhverskonar hrærigraut af húmorískri gjörningslist, freak-folk, Nine Inch Nails og smá Atari Teenage Riot? Æ, ég veit ekki. Þið hefðuð bara átt að sjá þetta með eigin augum. (EH)

Hljómurinn var þunnur og spilamennskan letileg og leiðinleg. Ég ætla raunar ekki að eyða mörgum orðum í þetta, enda voru tónleikarnir almestu vonbrigði þessar hátíðar – að minnsta kosti fram af þessu. Ég skil bara ekki hvað allt þetta fólk var að gera þarna uppi á sviði: sjö manns og sándið var samt flatara en landslagið heima hjá Efterklang í Danmörku? (GV)

Ég veit ekki hvernig fólk mat aðstæður en fjöldinn inni á NASA minnkaði statt og stöðugt á þeim 3 tímum (eða þannig virkaði það allavega) sem það tók [Slagsmålsklubben] að ljúka sér af. Ég gafst upp og fór upp á eftri hæðina þar sem einhver hetja söng „House of The Rising Sun“ hástöfum. Það var líklega það besta sem ég heyrði á NASA þetta kvöldið. (KG)

Í sameiningu töfruðu [Junip] fram snilldar elektó-akústík með tilvitnunum í krautrokk, fólk, lounge-músík og rafsveitir líkt og Air. Rödd José er náttúrulega einstök, raunar ótrúleg, og harmoneraði fullkomlega við dáleiðandi tónana. Bestu tónleikar Airwaves þetta árið, og sennilega það besta sem ég hef séð í langan tíma. (GV)

Það hafa líklega verið færri í salnum á Faktorý, þar sem Miri spiluðu, heldur en á sviðinu hjá Útidúr. Þeir létu það ekki á sig fá og sig og rokkuðu pleisið í klessu (eins og sagt er) með sínu síð-rokkaða og síð-pönkaða gítarslaufuindí-i. Hjalti Jón bassaleikari hoppaði um með bros á vör og það var ekki annað hægt en að brosa með. Í lokalaginu réð ég ekki lengur við mig og slóst í hóp þeirra sem stigu villtan dans við sviðið. Það kom blóðinu á hreyfingu og blandaðist þá ágætis endorfínmagn í áfengismettað blóðið. (KG)

Þetta fimmtudagskvöld á Nasa á eftir að lifa lengi í minningunni og er án efa eitt besta Airwaves kvöld sem ég hef upplifað. Ef þið misstuð af þessu megið þið alveg naga ykkur í handarbökin. Þið megið meira segja naga þau af. Upp að olnboga jafnvel. (EH)

Hérna eru svo allar færslur rjómans frá Airwaves-hátíðinni 2010.

Guðmundur Vestamnn  12345 6
Kristján Guðjónsson 123456
Egill Harðarson 12345 67

Iceland Airwaves ’11: Beach House

Beach House er vafalaust eitt af stærstu nöfnum Airwaves hátíðarinnar í ár. Sveitin ætti nú að vera lesendum Rjómans góðkunnug enda höfnuðu bæði Devotions, frá 2008, og Teen Dream, frá 2010, á lista Rjómans yfir bestu plötur þeirra ára.

Beach House var stofnuð í Maryland-fylki árið 2004 af Victoriu Legrand og Alex Scally. Tveimur árum síðan leit frumburðuinn dagsins ljós, en hann heitir einfaldlega Beach House. Platan fékk mjög jákvæða dóma og endaði m.a. á árslista Pitchfork. Devotions, sem kom út tveimur árum síðar, gaf fyrri plötunni ekkert eftir og jók hróður sveitarinnar enn frekar. Beach House gekk síðan til liðs við herbúðir Sub Pop, gaf út sína þriðju breiðskífu, Teen Dream, og þá fóru hjólin að rúlla fyrir alvöru. Á plötunni útvíkkaði sveitin hljóðheim sinni töluvert og poppaði hann svolítið upp. Fyrir vikið uppskáru þau breiðari hlustendahóp.

Fyrir þá sem ekki þekkja til Beach House þá framreiðir dúettinn einskonar drauma-popp. Skemmtarar sjá gjarnan um hryjandina, raforgel og gítarlínur mynda saman dreymandi óm sem Victoria syngur svo yfir með sinni sérstæðu röddu (á köflum minnir hún smávegis á Nico). Á hljómleikum verður dúettinn gjarnan að tríó, en þá fá þau trommar sér til halds og trausts.

Beach House leikur fyrir dansi í Hafnarhúsinu kl. 23.00 á fimmtudaginum.

Beach House – Master of None (af Beach House)

Beach House – Gila (af Devotions)

Beach House – Zebra (af Teen Dream)

Iceland Airwaves ´11: JD McPherson

Elvis er steindauður! Hins vegar er tónlist herra Presley og félaga frá árdögum 6.áratugarins langt í frá týnd og tröllum gefin. Það er að minnsta kosti ekki hugar hins magnaða rockabilly(hunds) JD McPherson frá Alabama-fylki í Bandaríkjunum. Með fjölskyldbakgrunn sinn (hörkuvinnandi föður og guðhrædda móður) afar suðurríkja/Cash/Presley-ilmandi, gítar, rödd sem selur grimmt og brilliantín í hárinu hefur McPherson endurreist trú heimsins á þessari einstaklega heillandi tónlistarstefnu, rockabilly. Þó svo megininntak tónlistar kappans sé tengd fyrrnefndri stefnu hefur McPherson náð að blanda áhrifum frá Talking Heads og Bad Brains inn í lagasmíðar sínar og er það einfaldlega alveg geggjaðslega spennandi. Frumburðurinn Signs & Signifiers hefur vakið mikla lukku í tónlistarheiminum en platan, sem kom út fyrir sléttu ári síðan, hefur alið af sér súpersmellinn North Side Gal og Fire Bug. Hafa fáir ölþyrstir næturgalar vart misst af rokk og ról sveiflu við undirleik McPherson á knæpum landans og er nú um að gera að henda brilliantíni í hárið, henda sér í gallann, pússa stígvélin vel og ná JD McPherson á Iceland Airwaves 2011. Ætli það verði ekki hól lott of sjeikíng góin on? Ef Jerry Lee Lewis er sama. Já, svo er vert að minnast á að sólgleraugu innandyra eru fyrirgefin þetta kvöldið.

JD McPherson stígur á svið á Gauk á Stöng laugardagskvöldið 15.október klukkan 23.20.

Iceland Airwaves ’11: Liturgy

Allir verða að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Og metal- og aðrir harðkjarnahausar ættu geta fengið eitthvað fyrir sinn hjá amerísku svartmáls sveitinni Liturgy. Bandið á að baki sér tvær breiðskífur; Renihilation, frá árinu 2009, og Aesthethica sem kom út í maí á þessu ári á vegum Thrill Jockey. Músíkin er níðþung, riffin þéttofin og sem betur fer: engir vandræðalegir, sinfonískir tilburðir. Þeir sem eru með blæti fyrir líkfarða verða því miður að leita á önnur mið, því eftir því sem ég best veit þá eru hér á ferðinni fjórir, Brooklynskir stælgæjar (þýðing á enska orðinu hipster, fundin í orðabók).

Liturgy þeyta flösunni aðfaranótt sunnudags kl. 00.20 á Amsterdam.

Liturgy – Returner (af Aesthethica)

Iceland Airwaves ’11: tUnE-yArDs

Söngkonan Merrill Garbus skipar bandarísku “eins-manns-sveitina” Tune-yards. Hún hefur hlotið mikið lof gangrýnenda að undanförnu fyrir aðra breiðskífu sína, w h o k i l l, sem kom út í apríl á þessu ári á vegum 4AD. Tvö lög af plötunni, “Bizness” og “Gangsta”, hafa þar að auki farið um netið eins og eldur í sinu. Stúlkan skapar tilraunakennda popptónlist þar sem rödd og söngur leikur stórt hlutverk.

Á tónleikum notar Tune-yards mikið lúppur sem hún skapar á staðnum ýmist með rödd sinni, ukulele og/eða trommum. Henni til halds og trausts eru svo saxófónar og rafbassi. Fyrir vikið verður flutningurinn hálfgerður bræðingur af elektrónískum og lifandi elementum.

Tune-yards eiga bókað pláss á NASA kl. 23.30 á föstudeginum.

Tuneyards – Bizness

Tuneyards – Gangsta

Iceland Airwaves ’11: Dungen

Eitt af þeim böndum sem ég er spenntastur fyrir Airwaves þetta árið er klárlega sænska ný-psychadelíu-rokkbandið Dungen. Maðurinn á bakvið bandið er Gustav Ejstes sem semur tónlistana og spilar á flest hljóðfærin. Hann byrjaði að búa til hip-hop þegar hann var unglingur en varð svo fyrir áhrifum frá þjóðlagatónlist og sænskri rokktónlist sjöunda áratugarins. Það útskýrir á vissan hátt hina merkilegu blöndu gamaldags hljóms, nútímalegrar nálgunar og svo hinnar ekta sænsku sálar sem skín úr tónlistinni (getur einhver komið með tilgátu um af hverju sænska tungumálið passar svona ótrúlega vel við létta en tilfinningaþrungna popprokktónlist? Kent! Bob Hund! Håkan Hellstrom!). Hljómsveitin á 10 ára útgáfuafmæli á árinu, og hafa á þeim tíma komið út 7 breiðskífur og 2 EP plötur – hverri annarri betri. Hægt er að hlusta á af eitthvað af tónlist á heimasíðu sveitarinnar www.dungen-music.com.

Dungen – Panda (af Ta det Lungt frá 2004)

Dungen – Skit i Allt (af Skit i Allt frá 2010)

 

Iceland Airwaves ’11: Dale Earnhardt Jr. Jr.

Ætla má að dúettinn Dale Earnhardt Jr. Jr. sé einskonar tónlistarlegt afkvæmi NASCAR-ökumannsins Dale Earnheart Jr.  Það er þó ekki bara nafnið sem tengist akstri og ökutækjum; meðlimir sveitarinnar, þeir Josh og Daniel, koma frá mekka bílaiðnaðarins, Detroit, og fyrsta EP-plata Dale var nefnd Horse Power.  Á plötunni mátti m.a. annars finna ábreiðu af Beach Boys laginu “God Only Knows” – og heyra má hana hér að neðan. Í sumar gáfu þeir ökuþórar svo út sína fyrstu breiðskífu, It’s A Corporate World. Músíkinni mætti lýsa sem rafskotnu indípoppi með greinilegri vísun í Brian Wilson og félaga í Beach Boys. Bandi hefur hlotið lof fyrir tónleika sína og því bara að krossa fingur og vona að Dale verði í miklu stuði á Airwaves.

Dale Earnhardt Jr. Jr. – Nothing But Our Love (af Horse Power EP)

Dale Earnhardt Jr. Jr. – Simple Girl (af It’s A Corporate World)

Dale Earnhardt Jr. Jr. – God Only Knows (af Horse Power EP)

Uppselt á Iceland Airwaves – og enn fleiri listamenn tilkynntir

Fréttatilkynning frá Iceland Airwaves:

Nú í morgun seldust upp síðustu miðarnir á Iceland Airwaves, fimm vikum fyrir hátíð. Aldrei hefur selst upp svo fljótt og því ríkir mikil gleði hjá skipuleggjendum Iceland Airwaves.

Auk þess eru tilkynntir rúmlega 80 listamenn til viðbótar við þann fríða flokk sem þegar hefur verið kynntur. Listamennirnir eru Mugison, Sinéad O’Connor (IE), James Murphy DJ set (US), Dikta, Iceage (DK), Mr. Silla, Blaz Roca, Raised Among Wolves (DK), Adda, Beatmakin Troopa, Biggibix, Bix, Bypass, Captain Fufanu, Caterpillarmen, Cheek Mountain Thief, Dimma, DJ AnDre, Dream Central Station, Elín Ey, Emmsjé Gauti, Fist Fokkers, Fu-Kaisha, Gang Related, Gnúsi & Amabadama, Guðrið Hansdóttir (FO), Hamferð (FO), Hazar, Helgi Jónsson, Helgi Valur and the Shemales, Hellvar, Hermigervill, IKEA SATAN, Jafet Melge, Jón Jónsson, Jungle Fiction, Kiriyama Family, Krummi, Leaves, Legend, Leif Vollebekk (CA), Ljósvaki, Lockerbie, Mammút, Markús and the Diverion Sessions, Mimas (DK), Momentum, Muck, Mukkaló, Musik Zoo, Muted, Natasha Fox (US), Nóra, Ojba Rasta, Orphic Oxtra, Our Lives, Panoramix, Pétur Ben og Eberg, PLX, Pornopop, Q4U, Quadruplos, Rabbi Bananas, Rafgashaus, Skorpulifur, Skurken, Song for Wendy (DK), Spacevestite, Stereo Hypnosis, Súr, Svavar Knútur, The Dandelion Seeds, The Way Down, The Wicked Strangers , Thulebasen (DK), Trouble , Úlfur Úlfur, Vigri , We Made God, Yagya, Ylja, Þórunn Antónía og Æla.

James Murphy (DJ Set) á Airwaves

Ef það er eitthvað sem ætti að verða til þess að þeir örfáu miðar sem eftir eru á Iceland Airwaves seljist upp, þá er það fréttatilkynningin sem barst Rjómanum í dag.

James Murphy mun koma fram á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni í haust! Það þarf vart að kynna Murphy fyrir tónlistaráhugafólki en hann hefur verið fyrirferðarmikill sl. áratug bæði á sviði útgáfu (DAF) og sem listamaður í ýmsum verkefnum þó frægastur sé hann án efa fyrir sólóferil sinn og hina mögnuðu sveit LCD Soundsystem. Það verður dansað alla nóttina þegar James Murphy mætir á svæðið – það er ljóst!

Nánar um James Murphy hér: www.lcdsoundsystem.com