2 nýjar útgáfur hjá Möller Records

Möller Records gefur út tvær “Helgur” nýverið; smáskífuna Lovin Life með Bistro Boy og söngvaranum Anthony Jackson og stutt-plötuna Mindscapes með listamanninum Andartak.

Plöturnar verða fáanlegar á vefsvæði Möller Records : www.mollerrecords.com

Bistro Boy er listamannsnafn Frosta Jónssonar sem hefur gefið út 3 plötur á vegum Möller Records – síðast Rivers & Poems í samstarfi við japanska hljóðlistamanninn Nobuto Suda. Lovin’ Life var tekin upp í vetur í samstarfi við söngvarann Anthony Jackson og fóru upptökur fram í heimaveri Frosta í Sólheimum. Smáskífan inniheldur einnig endurgerðir eftir Snooze Infinity, Modesart og Mr. Signout.

 

Andartak er listamannsnafn Arnórs Kára og er Mindscapes fyrsta platan hans. Arnór Kári er götulistamálari og hefur skreytt Reykjavík og heimili landsins um árabil – en núna fáum við hann til að skreyta fyrir okkur umhverfið í tónum. Mindscapes var tekin upp “live” með KORG græjunum Volca Bass, Volca Beats, Volca Keys, MS-20 Mini og Kaoss Pad.

Extreme Chill Festival 2015 – Undir Jökli

ECF Poster

Íslenska tónlistarhátíðin Extreme Chill Festival – Undir jökli verður haldin helgina 7 – 9 ágúst næstkomandi á Hellissandi við rætur Snæfellsjökuls.

Þetta er í sjötta sinn sem hátíðin fer fram, en fimm ára afmæli hátíðarinnar var haldin í Berlín síðastliðið sumar við ótrúlegar undirtektir.

Dagskráin í ár er ekki af verri endanum en tónlistarmenn á borð við: Biosphere, Hilmar Örn Hilmarsson, Steindór Andersen, Mixmaster Morris, Studnitzky, Stereo Hypnosis, Dj Flugvél og Geimskip, Jónas Sen, Tonik Ensemble, Futuregrapher, Ruxpin, Skurken, Jóhann Eiríksson, o.fl. munu koma fram á hátíðinni.

Takmarkaðir miðar verða í boði í ár og kostar passinn á hátíðina aðeins 7900 kr. Við hvetjum því fólk til að tryggja sér passa tímanlega en síðustu ár hefur selst upp og komust færri að en vildu. Hægt er að nálgast miða inn á mida.is

Mjög gott tjaldsvæði er á Hellissandi, en það opnaði sumarið 2011 og er staðsett í fallegu hrauni er kallast Sandahraun. Á svæðinu er þjónustuhús með salerni, sturtum og vaskarými. Skemmtilegar gönguleiðir eru í næsta nágrenni, fallegar fjörur með öllum þeim ævintýrum sem þær bjóða uppá. Sólsetrin við Breiðafjörð séð frá Sandahrauni eru óviðjafnanleg og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er næsti nágranni við tjaldsvæðið.

Frekari upplýsingar og dagskrá er að finna á heimasíðu Extreme Chill. www.extremechillfestival.com

Anthemico Records

Anthemico

Í apríl árið 2014 opnaði vefur örútgáfunnar Anthemico Records heimasíðu með kvikmyndaskotinni instrumental tónlist úr öllum áttum eftir Pétur Jónsson.

Pétur hefur starfað á bak við tjöldin í íslensku tónlistarlífi í mörg ár, en árið 2007 stofnaði hann Medialux, sem er leiðandi fyrirtæki í auglýsingatónlist og tónlist fyrir kvikmyndað efni á Íslandi. Erfitt er að horfa á sjónvarp í heilt kvöld án þess að heyra eitthvað sem Pétur hefur samið eða komið að upptökum á. Auk þess hefur hann látið að sér kveða sem upptökustjóri með ýmsum tónlistarmönnum.

Á Anthemico síðunni kveður þó við annan tón en í þeirri tónlist sem Pétur gerir vanalega fyrir auglýsingar, en á síðunni er að finna allt frá hádramatískri vísindaskáldsögutónlist yfir í mjúkar instrumental ballöður, og allt þar á milli. Hljóðmyndin er sambland af sinfónískum strengjapörtum og rafpoppi, stíll sem við þekkjum orðið vel úr kvikmyndum.

Eitthvað af tónlistinni hefur verið sérsamin fyrir kvikmynduð verk, eins og tónlistin úr norðurljósamyndinni Iceland Aurora, sem er að finna hér en önnur verk eru gjarnan samin í kringum þema eins og óravíddir alheimsins eða vorið sjálft.

Breiðskífan Muted World með Muted komin út

Muted
Í fréttatilkynningu segir:

Muted World er heimboð í hugarheim Muted, sem heitir réttu nafni Bjarni Rafn Kjartansson. Hann endurvinnur hljóð sem hann sarpar úr umhverfi sínu og kemur þeim til skila á afar áhugaverðan hátt. Hugmyndarfræðin á bakvið breiðskífuna var að leyfa hlustandanum að stíga inn í veröld listamannsins í gegnum tilraunakennda og frumlega vinnslu á umhverfishljóðum, í bland við raftóna svo úr verði einstakur hljóðheimur. Muted samdi alla tónlist plötunnar ásamt texta lagsins “Special Place” sem Jófríður Ákadóttir söngkona hljómsveitarinnar Samaris syngur.

Muted hefur verið þekkt nafn meðal tónlistargrúskara, þá helst fyrir taktasmíðar hans – en fjölmargir rappara hafa notast við undirleik hans í gegnum árin. Hann hefur einnig getið sér orðstír sem eftirsóknarverður endurhljóðblandari, en t.a.m. liggja eftir hann endurhljóðblandanir fyrir Samaris, Asonat og Justice.

Breiðskífan er fáanleg á stafrænu formi á raftonar.bandcamp.com

Rivers & Poems með Bistro Boy og Nobuto Suda

Rivers and Poems by Bistro Boy & Nobuto Suda

Í dag, þann 15. janúar, kemur út á vegum Möller Records EP platan Rivers and Poems en hún er samstarfsverkefni íslenska raftónlistarmannsins Bistro Boy og hins japanska Nobuto Suda. Þetta er önnur platan sem afrakstur samstarfs íslenskra og japanskra tónlistarmanna getur af sér en verkefnið er hugarfóstur Árna Grétars (betur þekktur sem Futuregrapher). Fyrsta útgáfan í þessari útgáfuröð var platan Crystal Lagoon sem Futuregrapher vann með japanska tónlistarmanninum Hidekazu Imashige (Gallery six) og Veroníque Vaka Jacques.

Á Rivers and Poems er kallast saman taktar og melódíur Bistro Boy á við sveimkenndan undirtón Nobuto Suda. Platan inniheldur 5 lög en hægt er að nálgast hana á vef Möller Records, www.mollerrecords.com

Lady Boy Records komin út

Lady Boy Records 004

Plötuútgáfan Lady Boy Records kunngerir útgáfu nýrrar safnkassettu, en umrætt verk er fallegur safngripur skreyttur með leysigreftri. Kassettan er önnur safnkassetta Ladyboy Records, en á henni má finna tónlist frá DJ Flugvél & geimskip, Bix Vs. Agzilla, AMFJ, Fist Fokkers, Thizone, Krakkbot og Harry Knuckles, Nicolas Kunysz, X.O.C Gravediggers INC.(/Apacitated), Sindri Vortex og Syrgir Digurljón. Kassettan er fjórða útgáfa Lady Boy Records og er gefin út í takmörkuðu upplagi sem telur fimmtíu eintök.

Útgáfunni verður fagnað á öldurhúsinu Paloma föstudaginn 18 Apríl.

Áður hefur útgáfan gefið út aðra safnkassettu í takmörkuðu upplagi (eins og áður sagði), geisladiskinn Þorgeirsbola með Slugs (en honum var dreift í vakúmpakkningum) og mandarínu eftir Nicolas Kunysz með leysergröfnum niðurhalskóða, sem bar nafnið Rainbows in Micronesia.

Einar Indra – You sound asleep

Einar Indra – You sound asleep

Út er kominn nýr diskur með Einar Indra hjá Möller Records plötuútgáfunni sem nefnist You Sound Asleep. Hér er á ferðinni hugljúf og alltumliggjandi raftónlist sem vert er að gefa góðan gaum. Einar sá sjálfur um tónsmíðar og upptökustjórn en mastering var í höndum Finns Hákonarsonar.

Heyra má plötuna í heild sinni hér að neðan.

Útgáfur Synthadelia Records

Nú eru 9 nýjar útgáfur komnar út frá íslensku plötuútgáfunni Synthadelia Records. Í þetta sinn eru þetta bæði endurútgáfur af fyrri plötum frá listamönnum útgáfunnar auk nýrra platna nú rétt fyrir jólin.

Með nýjar plötur má nefna Samsara, Trausta Laufdal, Michael Dean Odin Pollock & Sigga Sig og svo gamlar plötur í endurútgáfu með Lokbrá, Hjörvari (Stranger) og Indigo. Einnig væntanlegar fyrir jólin eru plötur með Grúsku Babúsku, Enkídú og jóladiskó með Sir Dancelot úr rafrænu deildinni.

Snemma á næsta ári eru svo a.m.k tvær nýjar plötur væntanlegar með þeim Indigo og Hjörvari.

Synthadelia Records hefur áður gefið út á fimmta tug platna síðan á jóladag 25. Desember árið 2010, þegar þeir félagar Vilmar Pedersen og Jón Schow stofnendur Synthadelia gáfu út sitt eigið lag “Let the Party Start” á netinu undir sama nafni og útgáfan.

Safnplata Raftóna

Raftónar, vefsíða sem fjallar um íslenska raftónlist, gera upp árið 2013 með því að bjóða upp á safndisk til niðurhals með nokkrum af bestu raftónum ársins. Árið hefur verið viðburðarríkt og sem dæmi um það fjölluðu Raftónar um alls 14 breiðskífur, 28 stuttskífur og tvo safndiska. Safndiskurinn sem lesendum síðunnar er boðinn til niðurhals hefur að geyma, að mati aðstandendum síðunnar, mörg af betri lögum ársins.

Russel M. Harmon – Tragedy Fractures

Rjóminn hefur áður fjallað um tónskáldið enska Russel M. Harmon, sem búsettur er í Reykjavík, en hann sendi síðast frá sér plötuna We Are Failed. Russel hefur nú sent frá sér myndband við lag af plötunni en það heitir “Tragedy Fractures”.

Myndbandið má sjá hér að ofan en plötuna góðu má heyra hér að neðan.

Gunnar Jónsson Collider gefur út tvær EP plötur

Binary Babies EP

Gunnar Jónsson hefur verið virkur í íslensku tónlistarsenunni um árabil. Á ferli sínum hefur hann verið meðlimur í rokksveitunum Coral, Bob og Japanese Super Shift & the Future Band, rafsveitinni DMG og alþýðupoppsveitinni 1860.

Til viðbótar hefur Gunnar komið fram opinberlega með ótalmörgum listamönnum, svo sem Lödu Sport, Ben Frost, Úlfi og nú síðast á nýliðinni RIFF hátíð með Damo Suzuki, fyrrum söngvara krautrock sveitarinnar CAN.

Nýverið sendi Gunnar frá sér tvær stuttskífur undir nafninu Gunnar Jónsson Collider, Disillusion Demos EP og Binary Babies EP. Plöturnar tvær innihalda músík sem var samin, spiluð, tekin upp og hljóðblönduð af Gunnari sjálfum á árunum 2006-2012. Disillusion Demos EP inniheldur sungin popplög á meðan Binary Babies EP býður upp á sveimkennda ambient tónlist og er að mestu án söngs.

Stuttskífurnar eru fáanlegar á gogoyoko.

Hymnalaya – Hymns

Hymnalaya

Tónlistarárið hér heima var með eindæmum gott í fyrra og man undirritaður vart annað eins. Svo virðist sem góðærið ætli að halda áfram á nýju ári og hefst tónlistarárið 2013 byrjar með látum. Út er komin plata sem ekki hefur farið mikið fyrir en mun eflaust vera á hvers manns vörum áður en langt um líður. Plata þessi heitir Hymns og er með stórsveitinni Hymnalaya.

Á Hymns er öllu til tjaldað enda samanstendur hljómsveitin að strengja-, lúðra- og áslattarsveit auk gítara, píanós, orgels og söngs. Lögin á plötunni byggja á gömlum sálmum sem búið er að klæða í nútímalegan búning (indie/folk/ambient) en einnig má vel greina áhrif heims- og frumbyggjatónlistar.

Platan verður fáanleg til niðurhals endurgjaldslaust á vef Hymnalaya www.hymnalayamusic.com frá og með 8. febrúar næstkomandi og er nú einnig aðgengileg á tónlistarveitinni gogoyoko.

Stafrænn Hákon sendir frá sér Pramma á geisladisk í takmörkuðu upplagi

Stafrænn Hákon - PrammiPlatan Prammi, sem Stafrænn Hákon gaf út rétt fyrir Jól á gogoyoko, er nú loks fáanleg á geisladiks en í takmörkuðu upplagi þó. Platan inniheldur 13 stúfa sem voru tekin upp af Ólafi Josephssyni forsprakka Stafræns Hákons. Ólafur hefur frá því 2001 verið iðinn við kolan og gefið út fjöldan allan af plötum ýmist sem Stafrænn Hákon, Per:Segulsvið, Calder og er einnig meðlimur í hini frábæru sveit Náttfari sem gaf út minnistæða plötu á síðasta ári.

Stafrænn Hákon sendir frá sér sína sjöundu breiðskífu

Stafrænn Hákon gefur út sína sjöundu skífu nú í nóvember mánuði. Platan heitir Prammi og inniheldur 13 lagstúfa sem teknir voru upp af Ólafi Josephssyni forsprakka sveitarinnar.

Á Pramma er að finna allt frá þykkum drungalegum gítardrunum í léttleikandi poppskotið sveimrokk, ekki ósvipað ef Phil Collins myndi fara í samstarf við Sun Ra og Seal myndi sjá um hljóðblöndun.

Gríska jaðarútgáfan Sound in Silence gefur út í takmörkuðu upplagi en hægt er að nálgast plötuna á Gogoyoko og Bandcamp

Nýr listamaður Bedroom Community

Íslenska jaðarútgáfan Bedroom Community er ekki gjörn á að gefa út tónlist eftir hvern sem er. Nú hefur hún þó sent frá sér tilkynningu um nýjan listamann á mála hjá útgáfunni: Paul Corley.

Corley þessi er Bandaríkjamaður sem um langt skeið hefur unnið náið með meðlimum útgáfunnar, til að mynda við plötur á borð við SÓLARIS eftir Ben Frost & Daníel Bjarnason, Draumalandið eftir Valgeir Sigurðsson og By The Throat eftir Ben Frost. Hann hefur auk þess komið að fjölmörgum öðrum verkefnum, til dæmis hina stórgóðu Ravedeath, 1972 eftir Tim Hecker auk annarra verka, en einnig má geta þess að hann samdi tónlistina við íslensku uppfærsluna á Hreinsun eftir Sofi Oksanen sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í fyrra.

Fyrsta plata Paul Corley nefnist Disquiet og kemur út þann 5. nóvember á alheimsvísu – en þó með sérstakri forsölu á Bandcamp síðu Corley sem og í íslenskum verslunum í Airwavesvikunni, en þar mun Corley koma fram ásamt restinni af Bedroom Community listamönnunum sex í Iðnó á föstudagskvöldinu.

Facebook / Twitter