Tónlistarmaðurinn og ljóðskáldið Gísli Þór Ólafsson

Gillon

Gísli Þór Ólafsson er merkilegur listamaður. Í vor kom út 4. sólóplata Gísla Þórs sem nefnist Gillon og er nefnd eftir flytjandanafni hans. Á plötunni eru 8 lög eftir Gísla og á hann sex af textunum, en tveir af þeim eru ljóð eftir Ingunni Snædal úr ljóðabók hennar Komin til að vera, nóttin (2009).

Platan var tekin upp í Stúdíó Benmen á Sauðárkróki og var upptökustjórn í höndum Sigfúsar Arnars Benediktssonar, félaga Gísla í hljómsveitinni Contalgen Funeral. Sigfús hefur stjórnað upptökum á öllum hljómplötum Gísla.

Í tilefni af 10 ára útgáfuafmæli Gísla Þórs og útgáfu bókarinnar Safnljóð 2006-2016 hefur verið opnuð síðan á karolinafund.com til að styðja við útgáfuna. Í boði er árituð bók og einnig allar bækurnar áritaðar. Auk þess eru allar bækurnar og allir diskarnir í boði á einstöku tilboði, allt áritað, eða 10 titlar á aðeins 13.000 kr.

Markús & The Diversion Sessions halda tónleika á Kex Hostel

Markús & The Diversion Sessions

Markús & The Diversion Sessions blása til tónleika í Gym & Tonic á KEX Hostel næstkomandi föstudagskvöld, 18. desember klukkan 21:00. Hljómsveitin mun spila flest lögin af nýútkominni plötu sinni, The Truth The Love The Life, ásamt fleiri eldri og nýrri laga.

Sveitin leggst í hýði á nýju ári þar til útgáfutónleikar verða haldnir í mars/apríl. Þetta er því einstakt tækifæri til þess að hlýða á tónleika af stærri gerðinni með sveitinni. Gestaspilarar verða með og ætla að skreyta lögin með lúðrablæstri , slagverki og bakröddum. Sveitin kíkti í stúdíó nýverið og vann í nýjum lögum. Þau verða til flutningar á tónleikunum ásamt öllum hinum og tökulagi í anda árstíðarinnar.

Markús & the Diversion Sessions skipa þeir Ási Þórðarson, Georg Kári Hilmarsson, Markús Bjarnason og Marteinn Sindri Jónsson.

Húsið opnar kl. 20:30 og byrja tónleikarnir stundvíslega kl. 21:00.

Forsala miða er á Tix.is og er verð í forsölu 1000 krónur, verð á miðum við hurð er 1500 krónur.

Gillon – Glaður í sól

Gillon

Út er komið nýtt lag með Gillon sem nefnist “Glaður í sól”. Lagið er af væntanlegri plötu sem kemur út í byrjun næsta árs. Upptökur fóru fram í Stúdíó Benmen á Sauðárkróki og var upptökustjórn í höndum Sigfúsar Arnars Benediktssonar.

Á bakvið flytjandanafnið Gillon er Gísli Þór Ólafsson en hann hefur áður gefið út 3 plötur.

Ýlfur Gísla Þórs Ólafssonar

Ýlfur eftir Gísla Þór Ólafsson

Í fyrra kom út platan Ýlfur, þriðja sólóplata Gísla Þórs Ólafssonar. Á plötunni, sem er 10 laga, má finna 4 lög við ljóð Geirlaugs Magnússonar (úr bókinni Þrítíð, 1985) og eitt lag við ljóð Gyrðis Elíassonar (úr bókinni Tvö tungl, 1989). Ljóð Geirlaugs komu einnig út á kassettunni Lystisnekkjan Gloría sem Smekkleysa gaf út árið 1986 og las þá skáldið við undirspil Bubba Morthens.

Meðfylgjandi eru lög af Ýlfri, “Blá blóm” og lag við ljóð Geirlaugs, “Fleiri nátta blús”.

Upptökustjórn var í höndum Sigfúsar Arnars Benediktssonar.
Mynd á umslagi gerði Auður Eyleif Einarsdóttir.

Gísli Þór Ólafsson – Hvílíkt undur!

Mynd eftir Margréti Nilsdóttur

Væntanleg er platan Bláar raddir en hún inniheldur lög Gísla Þórs Ólafssonar við ljóð Geirlaugs Magnússonar úr bók hans Þrítengt (1996). Lögin voru flest samin í byrjun árs 1999 en hafa fengið að þróast og dafna þangað til upptökur hófust fyrir u.þ.b. ári. Tekið var upp með hléum í Stúdíó Benmen og sá Sigfús Arnar Benediktsson um upptökustjórn á plötunni sem væntaleg er  í júlí næstkomandi.

Meðfylgjandi mynd gerði Margrét Nilsdóttir.

Gímaldin og HEK í Eurovision

Jaðarpoppararnir Gímaldin Magíster og HEK vinna um þessar mundir að elektró plötu. Tvö laganna þótti þeim það áheyrileg að þeir ákváðu að senda þau í forkeppni Eurovision. Því miður sá dómnefnd ekki ástæðu til að leyfa lögunum að fara áfram í aðalkeppnina og er það miður. Þessir úrvals poppslagarar hljóma hér að neðan, í öllu sínu veldi, Eurovision aðdáendum til ánægju og yndisauka.

A Turn in the Dream-Songs: Ný plata frá Jeffrey Lewis

Á mánudaginn kemur út ný plata frá, að mati undirritaðs, merkilegasta söngvaskáldi dagsins í dag: fjöllistamanninum Jeffrey Lewis. Platan nefnist A Turn in the Dream-Songs og er fyrsta sóló-stúdíóplata Jeffreys síðan ‘Em Are I kom út árið 2009. Við fyrstu hlustun virðist hljómurinn vera ósköp svipaður síðustu tveimur eða þremur plötum Lewis: áherslan er á fyrst og fremst á textana, upptökurnar eru nokkuð hráar og byggjast aðallega á akústískum hljóðfærum. Áhrifin frá hippaþjóðlagasýrutónlist eru áberandi líkt og á síðustu plötu. Það er því ólíklegt að skoðanir fólks á tónlist Lewis muni taka grundvallarbreytingum með þessari nýju plötu, en hún er a.m.k. mikill fengur fyrir aðdáendur. Mikið er um gestagang á A Turn in the Dream-Songs, en þar koma m.a. við sögu meðlimir hljómsveitanna Dr.Dog, The Wave Pictures og Au Revoir Simone.

Hægt er að streyma plötunni Breska dagblaðið The Guardian og þar skrifar Lewis einnig nokkrar línur um hvert lag.
http://www.guardian.co.uk/music/musicblog/2011/oct/05/jeffrey-lewis-turn-dream-songs

Prinspóló gefur út í útlöndunum

Hljómplatan Jukk með Prinspóló kemur út um gjörvallan heim föstudaginn 10. júní næstkomandi á geisladiski og vínylplötu á vegum Kimi Records. Þetta þýðir að plötuna má nálgast í öllum betri hljómplötuverslunum allstaðar í heiminum. “Þetta er heimskuleg hugmynd,” voru fyrstu viðbrögð listamannsins þegar hann frétti af framtakinu. “Það er hægt að dánlóda plötunni frítt á prinspolo punktur com. Kaupum okkur frekar nammi fyrir peninginn,” sagði prinsinn gramur í bragði. Aðstandendum útgáfunnar tókst þó að sannfæra prinsinn um ágæti hennar meðal annars með því að segja honum að á vínylplötunni sé að finna aukalagið 18 & 100. “Það er gott lag,” sagði prinsinn sáttur við sína menn. Síðan fóru þeir saman að kaupa nammi.

Á haustmánuðum mun Prinspóló láta gamlan draum rætast og ferðast um sveitir Póllands ásamt hljómsveitinni Prinspóló. Tilgangur ferðarinnar er meðal annars að kynnast pólskri matarmenningu og færa Pólverjum þakkir fyrir að bæta hag íslensku þjóðarinnar. Mjög líklegt er að afrakstur ferðarinnar verði bók, kvikmynd, ný plata, og fjöldinn allur af aukakílóum.

Tónlistartímaritið Gaffa er búið að hlusta á Jukk og gaf henni fjórar stjörnur af sex mögulegum. “Það er ekki til neitt sem heitir sexstjörnu einkunnakerfi,” Sagði prinsinn ánægður með fjórar stjörnur af fimm.

Nýtt: Kimya Dawson (feat. Aesop Rock)

Loksins er væntanleg sjöunda breiðskífa and-þýðu (en. anti-folk) tónlistarkonunnar Kimya Dawson, Thunder Thighs.

Hún hefur ekki verið iðin við músikkolann frá því að hún sló gegn með tónlistinni úr óskarsverðlauna-myndinni Juno. Síðan þá hefur hún einbeitt sér að barnauppeldi og aðeins gefið út eina plötu, en það var einmitt barnaplatan Alpabutt sem kom út 2008.

Thunder Thighs kemur út hjá útgáfufyrirtæki Calvins Johnsons K. Tvö lög eru komin á netið, “Walk Like Thunder”  og “Miami Advice.” Hún er á kunnulegum slóðum textalega: að venju syngur hún hvert einasta lag eins og það sé það mikilvægasta sem hún hefur sungið, en tónlistarlega er hún að þróast að einhverju leyti, þó að einfaldleikinn og einlægnin séu ávallt í fyrirrúmi.  Ein skýring á þróuninni er eflaust að í báðum lögunum fær hún hjálp frá rapparanum góðkunna Aesop Rock.

Eins undarlega og það hljómar þá hafa Kimya og Aesop verið að spila mikið saman undanfarið og kemur hann fram í helming laganna á nýju plötunni. Ekki nóg með það heldur hefur heyrst að þau séu með aðra plötu í vinnslu, sem dúett.

Kimya Dawson (feat. Aesop Rock & The Olympia Free Choir) – Miami Advice

Kimya Dawson (feat. Aesop Rock) – Walk Like Thunder