Fyrstu listamenn á ATP 2016 kynntir

ATP Iceland 2016

Sleep, Thee Oh Sees, Ty Segall and The Muggers, Angel Olsen, Les Savy Fav, Tortoise, ásamt fleiri listamönnum koma fram á ATP á Íslandi 2016!

John Carpenter, Anika, Yasmine Hamdan, Blanck Mass og Mueran Humanos spila einnig á hátíðinni. Örvar Smárason og Gunnar Tynes úr múm hafa að auki verið staðfestir en þeir leika undir á sérstakri sýningu myndarinnar Menschen am Sonntag.

Tónlistarhátíðin ATP á Íslandi tilkynnir hér í annað sinn nöfn framúrskarandi listamanna sem koma fram á tónlistarhátíðinni næsta sumar á Ásbrú dagana 1. til 3. júlí 2016.

Sleep, Thee Oh Sees, Ty Segall and The Muggers, Angel Olsen, Les Savy Fav og Tortoise, eru nýjustu viðbæturnar á glæsilegri dagskrá ATP sem skartar nú þegar sjálfum meistara hryllingsmyndanna, hinum goðsagnakennda John Carpenter, sem í fyrsta sinn á ferlinum flytur tónlist sína opinberlega.

Rithöfundurinn, ljóðskáldið og tónlistarkonan Anika (Invada, Stones Throw) mun koma fram með líbísku söngkonunni og lagahöfundinum Yasmine Hamdan, Blanck Mass mætir en það er sólóverkefni sem Benjamin John Power úr Fuck Buttons ber ábyrgð á. Argentínska dúóið Mueran Humanos sem býr nú í Berlín kemur einnig en þau gefa út hjá ATP Recordings.

Að lokum hafa Örvar Smárason & Gunnar Tynes (múm) verið bókaðir á hátíðina en þeir munu spila tónlist undir sýningu myndarinnar Menschen am Sonntag (People on Sunday) – en þetta er þýsk þögul kvikmynd síðan 1930 sem er byggð á handriti Billy Wilder. Einnig er vert að geta þess að hinn virti uppistandari Stewart Lee mun bregða undir sig betri fætinum en hann kemur sjaldan fram erlendis.

Tilkynnt verður um fleira listafólk og hljómsveitir sem koma fram á ATP á Íslandi 2016 síðar.

ATP á Íslandi – Síðustu nöfn tilkynnt og opnað fyrir umsóknir upprennandi listamanna

ATP logo

Tónlistarhátíðin ATP á Íslandi hefur nú tilkynnt síðustu nöfn listamanna sem munu koma fram á hátíðinni í ár, 2. – 4. júlí.

Val listamannanna að þessu sinni er í höndum Bedroom Community útgáfunnar annarsvegar og Rásar 2 hinsvegar. Báðir aðilar hafa valið þrjá listamenn til að koma fram á Andrew’s Theatre sviðinu, en auk þeirra munu tveir listamenn til viðbótar hafa möguleika á að troða upp á hátíðinni í ár í gegnum sérstaka keppni á vegum ATP (sjá að neðan).

Listamennirnir eru sem hér segir:

Bedroom Community í Andrews Theatre – föstudagur, 3. júlí:

  • Valgeir Sigurðsson ásamt Liam Byrne
  • Daníel Bjarnason
  • JFDR
  • Vinningshafi – upprennandi listamaður/hljómsveit

Rás 2 í Andrews Theatre – laugardagur, 4 .júlí:

  • Pink Street Boys
  • Rythmatik
  • Börn
  • Vinningshafi – upprennandi listamaður/hljómsveit

Með þessari nýju viðbót er heildarlisti yfir þá listamenn sem koma fram sem hér segir:
Iggy Pop, Drive Like Jehu, Belle and Sebastian, Public Enemy, Swans, Godspeed You! Black Emperor, Run The Jewels, Mudhoney, Loop, Lightning Bolt, Bardo Pond, Kiasmos, HAM, Ghostigital, Ought, Clipping, The Bug, Younghusband, Xylouris White, Deafheaven, Iceage, Chelsea Wolfe, The Field, White Hills, Ghostigital, Oyama, Vision Fortune, Grísalappalísa, Valdimar, Stafrænn Hákon, Mr Silla, Kippi Kaninus, Tall Firs, Grimm Grimm, Ben Frost + Valgeir Sigurðsson, Daníel Bjarnason, Jófríður (sóló), Pink Street Boys, Rythmatik og Börn.

Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir ungra & upprennandi listamanna, en þeir sem sækja um eiga möguleika á því að koma fram á hátíðinni í ár. Valið er í höndum Bedroom Community og Rásar 2 sem velja eitt atriði hvort fyrir sín kvöld í Andrews Theatre. Jafnframt verða tveir listamenn til viðbótar valdir sem 3. og 4. sæti og hljóta að launum hátíðarpassa á ATP á Íslandi.

Hægt er að sækja um hér fram til 26. maí en einnig er frekari upplýsingar þar að finna.

Bráðlega verður svo tilkynnt um hverjir munu koma til með að velja kvikmyndadagskrá hátíðarinnar í ár og hvaða veitingar verða í boði á hátíðarsvæðinu.

Public Enemy, Swans, Lightning Bolt, Bardo Pond o.fl. bætt við ATP

ATP logo

Í fréttatilkynningu segir:

Pólitískt hlöðnu hipphopp sveitina Public Enemy ættu flestir að þekkja sem fremsta meðal jafningja, sem treður upp hér á landi í fyrsta sinn í ár. Hinnar goðsagnakenndu Swans hefur verið beðið af mikilli eftirvæntingu af æstum aðdéndum sveitarinnar hér á landi. Bardo Pond frá Philadelpiu bjóða upp á einstakt 90’s geim-rokk sitt og Lightning Bolt fylgja eftir plötu sinni Fantasy Empire með tónleikum sem munu án efa reyna á hávaðamörk áhorfenda. Íslensku hljómsveitirnar þarf svo varla að kynna, en saman sýna þær fjölbreytta flóru íslenskrar tónlistar, merkta sama gæðastimplinum. Þær eru : GrísalappalísaValdimar, Stafrænn Hákon, Oyama, Mr Silla og Kippi Kaninus.

Til að mæta fjölda fyrirspurna hefur hátíðin nú sett á laggirnar nýtt fyrirkomulag sem gerir áhugasömum kleift að skipta greiðslum helgarpassa (auk rútuferða) til helminga. Hér má greiða fyrri helming (til og með 30. apríl), en að því loknu fær viðkomandi sendan link með frekari upplýsingum um seinni greiðsluna (til og með 31. maí). Athugið: Mikilvægt er að greiða innan þessara dagsetninga, annars eru miðakaupin ógild.

Almenna miða má nálgast á midi.is þar sem einnig er hægt að lesa meira um fyrirkomulag miðasölu og þá möguleika sem eru í boði.

Hægt er að fjárfesta í þjónustu Rent-A-Tent sem bjóða upp á tilbúin tjöld ásamt fylgihlutum og aðgengi hátíðar-tjaldsvæðisins, svo það eina sem þarf að gera er að mæta á svæðið. Sjá meira hér.

ATP verður haldin á Ásbrú, fyrrum varnarliðssvæðinu, sem á sér sögu sem rekur aftur til ársins 1941 en bandaríski herinn yfirgaf svæðið árið 2006. Svæðið er staðsett í fimm mínútna aksturfjarlægð frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Reykjanesbæ, um korter frá Bláa Lóninu og hálftíma frá höfuðborgarsvæðinu. Á hátíðarsvæðinu verða tvö svið sem bæði eru innandyra, auk annars konar skipulagðrar dagskrár sem tilkynnt verður um síðar. Líkt og fyrri ár verður hægt að kaupa krásir á viðráðanlegu verði á hátíðarsvæðinu, en í ár verður úrvalið breikkað og sölustöðum bætt við flóruna.

Mogwai, Slowdive, Shellac, Low, Devendra Banhart, Liars o.fl. mæta á ATP

ATP Iceland 2014

ATP hátíðin á Íslandi hefur nú opinberað heildarlista yfir hvaða hljómsveitir og listamenn það eru sem munu koma fram á Ásbrú í sumar, annað árið sem hátíðin fer fram hér á landi.

Eftir að hátíðin lak dularfullri mynd af hljómsveit í Bláa lóninu í gær mynduðst miklar vangaveltur á samfélagsmiðlum um hvaða hljómsveit væri átt við. Nú er ljóst að um er að ræða hljómsveitina Shellac með Steve Albini í fararbroddi, en sveitin hefur ekki spilað hér á landi síðan árið 1999. Þeir bætast í hópinn ásamt bandarísku goðsögnunum í Low, hljómsveitinni LIARS sem margir hafa beðið með eftirvæntingu að fá að sjá á sviði, hinni draumkenndu hávaðasveit Slowdive sem loksins kom saman aftur fyrr á árinu, þjóðlaga-sýrukonungnum Devendra Banhart og Skotunum í Mogwai sem nýverið sendu frá sér frábæra plötu.

Íslenskir listamenn sem bætast við eru Ben Frost, Pascal Pinon, Sin Fang, HAM og Fufanu (áður Captain Fufanu).

Þegar hafa sveitirnar Portishead, Interpol, Swans, Kurt Vile & The Violators, Fuck Buttons, Eaux, Forest Swords, Samaris, Low Roar, For A Minor Reflection, Sóley og Mammút verið tilkynntar og munu koma fram hátíðardagana 10. – 12. júlí, auk Neil Young & Crazy Horse í Laugardalshöll þann 7. júlí.

Barry Hogan, stofnandi ATP segir:

“Við erum gríðarspennt að geta tilkynnt nokkrar af okkar uppáhalds hljómsveitum sem margar hverjar munu koma fram á Íslandi í fyrsta sinn. Þetta er einungis annað árið okkar, en engu að síður eru þarna ekta ATP hljómsveitir á borð við Mogwai og Shellac auk hljómsveita sem hafa haft mikil áhrif á okkur líkt og Loop og Low. Við elskum Ísland og getum ekki beðið eftir að snúa aftur til að deila þessum frábæru hljómsveitum og einstaka umhverfi með ykkur.”

Þó svo að heildarlisti hljómsveita sé nú tilbúinn eru ýmsar spennandi tilkynningar eftir, til að mynda hverjir munu koma til með að stjórna kvikmyndavali hátíðarinnar í ár auk hvaða veitingar það eru sem verða á boðstólum á Ásbrú í júlí.

Hátíðarmiðar auk gistingar seldust upp snemma og hefur ATP nú bætt við auka gistiplássi á hátíðarsvæðinu til að anna eftirspurn.

Hægt er að fá frekari upplýsingar og nálgast miða hér.

Interpol og Portishead á ATP í sumar

ATP Iceland 2014

Skipuleggjendur All Tommorrows Parties tilkynntu í morgun að hljómsveitirnar Portishead og Interpol verða stærstu hljómsveitirnar á hátíðinni á Ásbrú í júlí. Þá munu hljómsveitirnar Mammút, Sóley, Samaris, For a Minor Reflection og Low Roar einnig koma fram.

Ég veit ekki með ykkur en ég myndi redda mér miða sem allra fyrst. Það þarf nú varla að ræða það.

Miðasala er hafin á www.midi.is!