Nýtt lag og myndband frá Soffíu Björg

Tónlistarkonan Soffía Björg sendir nú frá sér nýtt lag og myndband sem frumflutt/frumsýnt var á tónlistarsíðunni áhrifamiklu Stereogum. Lagið er ‘The Road’ og er annað lag Soffíu af væntanlegri frumraun hennar sem kemur út á næsta ári sem Ben Hillier (Blur, Elbow, Doves, Graham Coxon) stjórnaði upptökum á í Sundlauginni í Mosfellsbæ. Tónlistarfólkið Pétur Ben, Ingibjörg Elsa og Kristofer Rodriquez spiluðu inn á lagið með henni en leikstjórn myndbandsins var í höndum Melvin Krane & Associates.

Karl Hallgrímsson – Draumur um koss

Karl Hallgrímsson - Draumur um koss

Út er komin hljómplatan Draumur um koss. Á plötunni eru 10 ný lög og 9 nýir textar eftir Karl Hallgrímsson (eitt lagið er án texta). Draumur um koss er önnur sólóplata Karls, en hann gaf út plötuna Héðan í frá árið 2011. Karl stýrði sjálfur upptökum á plötunni í félagi við Birgir Baldursson en Birgir hljóðblandaði einnig.

Tónlistin á plötunni er fjölbreytt og erfitt getur verið að setja hana á ákveðinn bás tónlistarstefnanna eins og gjarnan er gert. Þarna er blús, djass, popp, rokk, vísnatónlist, klezmer-vals og fönk. Útsetningarnar eru lifandi og hljóðfæraleikurinn stórgóður, enda valinn maður í hverju rúmi. Tónlistarfólk í fremstu röð í rokki, blús, djassi og klassík leikur með Karli á plötunni.

Reykjavík Guitarama

Reykjavík Guitarama

Al Di Meola, Robben Ford, Björn Thoroddsen, Peo Alfonsi og Brynhildur Oddsdóttir á magnaðri gítarveislu Bjössa Thor í Háskólabíói, laugardaginn 3. október.

Þessa tónleika má enginn tónlistaráhugamaður láta fram hjá sér fara. Al Di Meola er einfaldlega einn virtasti gítarleikari sögunnar og Robben Ford er meðal fremstu blústónlistarmanna samtímans, sannur snillingur sem hefur spilað með þeim bestu, s.s. George Harrison, Miles Davis og Kiss.

Ítalski gítarleikarinn Peo Alfonsi og blúsarinn Brynhildur Oddsdóttir verða í sviðsljósinu ásamt gestgjafanum Birni Thoroddsen sem haldið hefur vinsælar gítarhátíðar í Kanada, Noregi og Bandaríkjunum.

Jóhann Hjörleifsson trommuleikari og Róbert Þórhallsson á bassaleikari sjá til þess að allir haldi takti.

Miðasala er hafin á Miði.is

Ýlfur Gísla Þórs Ólafssonar

Ýlfur eftir Gísla Þór Ólafsson

Í fyrra kom út platan Ýlfur, þriðja sólóplata Gísla Þórs Ólafssonar. Á plötunni, sem er 10 laga, má finna 4 lög við ljóð Geirlaugs Magnússonar (úr bókinni Þrítíð, 1985) og eitt lag við ljóð Gyrðis Elíassonar (úr bókinni Tvö tungl, 1989). Ljóð Geirlaugs komu einnig út á kassettunni Lystisnekkjan Gloría sem Smekkleysa gaf út árið 1986 og las þá skáldið við undirspil Bubba Morthens.

Meðfylgjandi eru lög af Ýlfri, “Blá blóm” og lag við ljóð Geirlaugs, “Fleiri nátta blús”.

Upptökustjórn var í höndum Sigfúsar Arnars Benediktssonar.
Mynd á umslagi gerði Auður Eyleif Einarsdóttir.

Rebekka Sif – Dusty Wind

Rebekka Sif

Rebekka Sif er 22 ára söngkona og lagasmiður úr Garðabænum sem nýverið sendi frá sér lagið “Dusty Wind”, blúsað rokk/popp lag þar sem rödd hennar fær að njóta sín í hæstu hæðum. Hljómsveit hennar samanstendur af þremur hæfileikaríkum piltum, Aroni Andra Magnússyni, Sindra Snæ Thorlacius og Helga Þorleikssyni. Arnór Sigurðarson sá um upptökustjórn og Bjarni Bragi Kjartansson masteraði.

Síðasta sumar gaf Rebekka út lagið “Our Love Turns to Leave” sem fékk góðar móttökur, en það tók hún upp sjálf í gegnum Skapandi sumarstörf í Garðabæ. Í augnablikinu stundar hún nám í jazz- og rokksöng í Tónlistarskóla FÍH, bókmenntafræði í HÍ, ásamt því að kenna söng í Sönglist og Klifinu.

South Lane Basement Band

South Lane Basement Band & Magni Ásgeirsson

Laugardaginn 6. janúar 2011 hittust átta félagar úr hljómsveitinni South Lane Basement Band í Tónlistarskólanum á Akranesi til að hljóðrita grunna af soul-laga efnisskrá sem þeir höfðu flutt á tvennum tónleikum sumarið áður. Að degi loknum (og nokkuð mörgum snúrulóðningum) höfðu 13 lög verið tekin upp. Hljóðritunin var upphaflega gerð til gamans og eignar fyrir hljómsveitarmeðlimi. Þegar farið var að gaumgæfa upptökurnar þóttu þær bara nokkuð góðar og var því ákveðið að vinna þær áfram þannig að lífið og spilagleðin í bandinu endurspeglaðist í lokaútgáfunni.

Suðurgata

Suðurgatan, sem sveitin er nefnd eftir, í þá gömlu góðu daga.

Það voru saxófónleikararnir Jón Trausti, Ketill og Reynir sem upphaflega hóuðu saman í band, sem reyndist frekar auðvelt enda allir spilað saman áður. Tilgangurinn var sá að halda tónleika undir slagorðinu Aldrei fór ég neitt, sem er vísun í að flestir hljómsveitarmeðlimir hafa alið allan sinn tónlistaraldur á Akranesi, en einnig vegna þess
að soul-tónlistin og blúsinn höfðu ávallt verið í uppáhaldi hjá þeim félögum frá fyrstu kynnum.

Hvers vegna South Lane Basement Band? Jú, það er er vísun í kjallaraherbergi Ketils á Suðurgötu 90, þar sem strákar af Suðurgötunni og úr næsta nágrenni komu saman til þess að spila og æfa, en í kjallaranum voru margar hljómsveitir stofnaðar.

Þeir sem komu saman í Tónlistaskólanum voru: Reynir Gunnarsson, Ketill (Kalli) BjarnasonJón Trausti Hervarsson, Ragnar SigurjónssonBaldur Ketilsson, Sævar BenediktssonLárus Sighvatsson, og söngvarinn góðkunni Magni ÁsgeirssonPálmi Sigurhjartarson gekk síðar til liðs við bandið og tók að sér píanóleikinn.

South Lane Basement Band hefur nú gefið út plötuna South Lane Basement Band & Magni Ásgeirsson og hljóma nokkur lög af plötunni hér að neðan.

Nýtt myndband frá Bellstop

Glænýtt tónlistarmyndband með sveitinni Bellstop er komið út. Myndbandið er við lagið “Moving On” af plötunni Karma. Myndbandið var tekið upp á göngunum og í Petersen svítunni í hinu sögurfæga sviðslista húsi Gamla Bíó sem stendur við Ingólfstræti.

Myndbandið var unnið í samstarfi við Saga Film og sá Sigurgeir Þórðarsson um leikstjórn.

Nýtt lag og myndband frá Contalgen Funeral

Í október á seinasta ári fór Contalgen Funeral í stúdíó og tók upp nokkur lög „live“. Fyrr á þessu ári var leikurinn endurtekinn og út er komið fyrsta lag af væntanlegri plötu sem tekin er upp með þessum hætti. Lagið nefnist „Killer Duet“ og var tekið upp af Fúsa Ben í Stúdíó Benmen. Hjá liggur myndbandsupptaka en myndbandsvélin rúllaði á meðan lagið var æft og tekið upp.

Contalgen Funeral gaf út sína fyrstu plötu, Pretty Red Dress árið 2012. Bandið hefur spilað víða síðan, m.a. á Bræðslunni, Gærunni, Blúshátið í Reykjavík og á Airwaves.

Blind Bargain – Tómlegur Klukkutími

Blind Bargain

Blús-rokk sveitin frá Vestmannaeyjum, Blind Bargain, var að taka upp nýtt lag en áður hafði lagið “Sore throat and cigarettes” fengið að hljóma hér á Rjómanum.

Hljómsveitin var stofnuð í janúar 2012 af Hannesi Má sem söngvara og gítarleikara, Þorgils Árna á bassa, Skæringi Óla á gítar og Kristberg á trommur. Síðan hafa bæst við Sveinn Ares básúnuleikari og Sunna sem syngur. Hljómsveitin hefur komið fram t.d. á músíktilraunum 2012 og spilað á víð og dreif um Reykjavík.

Brynhildur Oddsdóttir með tónleika á Café Rósenberg

BeeBee and the Bluebirds

Miðvikudaginn 19. júní verður blús og djass-söngkonan Brynhildur Oddsdóttir með tónleika á Café Rósenberg. Með henni leika Kjartan Valdemarsson á píanó, Birgir Bragason á kontrabassa og Óskar Kjartansson á trommur. Sérstakur gestur kvöldsins er söngvarinn Arnar Ingi Richardsson.

Brynhildur mun flytja frumsamið efni í bland við vel valdar blús og djassábreiður. Aðgangseyrir er 1500 kr og enginn posi. Tónleikarnir hefjast kl 21.00.

Aunt Peg

Aunt Peg

Aunt Peg er ný íslensk blús-rokkhljómsveit sem nú vinnur hörðum höndum að koma sér á framfæri. Mun sveitin koma fram, ásamt þremur öðrum upprennandi böndum, á Íslenska Rokkbarnum næstkomandi fimmtudagskvöld. Áhugasamir geta kynnt sér viðburðinn nánar á Facebook.

Meðfylgjandi er svo demó sem sveitin tók upp fyrir síðustu Músiktilraunir en hún gekk þá undir nafninu Marvin Strayte.

Blind Bargain senda frá sér sína fyrstu smáskífu

Blind Bargain

Veistmanneyjaveitin Blind Bargain spilum gamalt og gott blúsrokk undir áhrifum frá listamönnum eins og Cream, Led Zeppelin, Janis Joplin, Jimi Hendrix o.fl. Hljómsveitin sækist eftir að fanga hið breska 60’s sound í bland við hið amerískt 70’s soul.

Hljómsveitin var stofnuð í janúar á síðasta ári af þeim Hannesi Má sem spilar á gítar og syngur, Þorgils Árna á bassa, Skæringi Óla á gítar og Kristberg á trommur. Síðan hafa bæst við Sveinn Ares básúnuleikari og Sunna sem syngur. Hljómsveitin hefur komið fram t.d. á Músíktilraunum 2012 og spilað á víð og dreif um Reykjavík. Einnig kom hún fram í útvarpsþættinum Skúrnum.

Meðfylgjandi er nýupptekið lag Blind Bargain, “Sore Throat & Cigarettes”, en upptökur fóru fram í æfingarhúsnæði hljómsveitarinnar að Skyldingarvegi í Vestmannaeyjum í desember síðastliðnum.

Contalgen Funeral gefa út Pretty Red Dress

Í sumar kom út fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar Contalgen Funeral. Platan inniheldur 12 lög, flest samin af söngvara- og gítarbanjóleikara bandsins, Andra Má Sigurðssyni, en hann stofnaði hljómveitina árið 2010 ásamt gítarleikaranum Kristjáni Vigni Steingrímssyni. Árið 2011 bættist restin af bandinu við, Gísli Þór Ólafsson (kontrabassi og baksöngur), Sigfús Arnar Benediktsson (trommur og fleiri hljóðfæri), Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir (söngur, skeiðar og greiða) og Bárður Smárason (básúna og baksöngur).

Bandið er frá Sauðárkróki og þar starfrækir Sigfús Arnar Benediktsson stúdíóið Stúdíó Benmen og var platan tekin þar upp undir hans stjórn í byrjun þessa árs. Áður hafði komið út stuttskífan Gas Money.

Á Sauðárkróki var einnig nýlega haldin tónlistarhátíðin Gæran en bandið kom fram þar og hefur einnig spilað á þessu ári á Blúshátíð í Reykjavík, Rauðasandur Festival og á Bræðslunni. Í fyrra spilaði bandið á Iceland Airwaves og verður þar einnig í haust.