Októberlag Rúnars Þórissonar

Nú er komið að októberlagi Rúnars Þórissonar, ljúft köntrílag sem heitir “Á Vegi Mínum Undrandi”. Margrét dóttir Rúnars syngur hér með föður sínum en lagið, sem samið var fyrir nokkrum árum, á þeim tíma er Lára, elsta Rúnars, gekk með sitt fyrsta barn.

Textinn, sem upphaflega var á ensku, fjallaði um þessi tímamót þegar líf kviknar af lífi, vefur sig inn í fjölskyldumynstur og ganga hinna fullorðnu hefst þar sem:

Á vegi sínum undrandi, um framtíðina spyrjandi, hvert liggi leið, hvert leiði spor.

Lagið var flutt í brúðkaupi Láru og eiginmanns hennar 2. september 2010 en kemur út nú fyrst á væntanlegum geisladisk 7. nóvember n.k. Þetta er því síðasta lagið í ferlinu utan þess að þegar platan kemur út en á henni einnig að finna aukalag eftir föður Rúnars, Þórir Sæmundsson, sem þetta verkefni er unnið í minningu um. Sömu helgi og diskurinn kemur mun Rúnar svo að spila og frumflytja þetta nýja efni á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni.

Ýlfur Gísla Þórs Ólafssonar

Ýlfur eftir Gísla Þór Ólafsson

Í fyrra kom út platan Ýlfur, þriðja sólóplata Gísla Þórs Ólafssonar. Á plötunni, sem er 10 laga, má finna 4 lög við ljóð Geirlaugs Magnússonar (úr bókinni Þrítíð, 1985) og eitt lag við ljóð Gyrðis Elíassonar (úr bókinni Tvö tungl, 1989). Ljóð Geirlaugs komu einnig út á kassettunni Lystisnekkjan Gloría sem Smekkleysa gaf út árið 1986 og las þá skáldið við undirspil Bubba Morthens.

Meðfylgjandi eru lög af Ýlfri, “Blá blóm” og lag við ljóð Geirlaugs, “Fleiri nátta blús”.

Upptökustjórn var í höndum Sigfúsar Arnars Benediktssonar.
Mynd á umslagi gerði Auður Eyleif Einarsdóttir.

Frumburður sveitarinnar Kristján lítur dagsins ljós

Kristján

Gítarleikarinn, söngvarinn og lagasmiðurinn Kristján Haraldsson hefur víða drepið niður fæti í sköpun sinni síðan hann steig fram á sjónarsviðið með hljómsveitinni O.D. Avenue árið 2007. Þaðan lá leiðin yfir í Urban Lumber en báðar þessar sveitir áttu lög á íslenskum vinsældarlistum. Kristján hefur nú söðlað um og stofnað nýja sveit sem ber einfaldlega nafnið Kristján.

Meðfylgjandi er lagið “Happy Now” en það var tekið upp í Stúdíó Hljómi í samstarfi við hljóðmanninn Skapta Þóroddsson.

Nýtt lag með Contalgen Funeral

Contalgen Funeral

Nýlega gaf hljómsveitin Contalgen Funeral út sitt fyrsta lag á íslensku og nefnist það “Hafnarbakkinn”. Lagið er það fyrsta sem bandið sendir frá sér eftir plötuna Pretty Red Dress sem kom út í fyrra og innihélt m.a. lögin “Charlie” og “Not Dead Yet”. Í farvatninu hjá Norðansveitinni er svo ný plata.

Train of Faith – Rúnar eff

Rúnar Eff

Lagið “Train of Faith” er tekið af plötunni Knee deep sem kemur út núna í Apríl og er önnur sólóplata tónlistarmannsinns Rúnars Eff.

Í tilefni af komandi plötu verður svo risa tónleikum slegið upp í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri þann 20.Apríl kl: 21.00.

10 manna hljómsveit skipuð mörgum af okkar fremstu tónlistarmönnum mun sjá um undirleikinn, og eins verður 15 manna kór þeim til aðstoðar í nokkrum lögum. Auka ljósabúnaði verður einnig bætt í húsið til að gera kvöldið sem glæsilegast. Sérstakir gestir á tónleikunum verða söngvararnir Jógvan Hansen, Vignir Snær og sænski hjartaknúsarinn Pontus Stenkvist.

Miðaverði er stillt í hóf og kostar aðeins 2500kr inn. Miðasala er hafin á www.menningarhus.is og www.midi.is

Evulög

Evulög

Evulög er samvinnuverkefni þeirra Gímaldins (Gísla Magnússonar) og Evu Hauksdóttur. Tónlistin er eftir neðanjarðarpopparann Gímaldin en textarnir eftir Evu. Ýmsir listamenn koma fram á plötunni og má þar m.a. nefna Megas, Láru Sveinsdóttur, Karl Hallgrímsson og Rúnar Þór.

Lonesome Dukes

Hljómsveitin Lonesome Dukes, sem leidd er af Viðari Erni Sævarssyni, búsettum í Odense í danmörk, á sér áhugaverða sögu og er enginn betur til þess fallinn að segja hana en Viðar sjálfur:

Hljómsveitin Lonesome Dukes byrjaði sem afar einmannalegt verkefni hjá mér á hæli fyrir heimilislausa hér í Odense. Ég var einn í litlu herbergi undir súð og ekkert nema frost og snjór úti. Ég fór að setja saman nokkur lög og eftir nokkra mánuði hafði ég samband við trommarann og myndlistarmanninn Henrik Jurgensen (sem er afkomandi Jurgen Jurgensens Hundadagakonungs í beinan karllegg). Við höfðum áður spilað saman í sýrubandinu Blue Influence. Þar spilaði ég á bassa. Honum leist strax vel á lögin en eins og allir vita þarf ekkert nema litla melódíu til að gleðja trommara yfirleitt.

Siðan var það síðla dags í október að Ulrik Skytte Andersen átti leið í æfingarhúsnæðið en hann er múltítónlistarmaður. Hann spurði hvort okkur vantaði ekki bassaleikara og við jánkuðum því undir eins. Ulrik er gamall gítarleikari og notast því við risastórt effektaborð á bassan og lúpp pedal sem er afar þægilegt því ég er afleitur gítarleikari og þeim mun verri söngvari. En þetta reyndist svo skemmtilegt að við erum enn að skemmta okkur saman við að spila og taka upp og erum með nóg efni í minnst fimm breiðskífur svo að við erum fullir eftirvæntingar og erum að byrja að koma út með þetta læf.

Þannig hljómaði sagan sú. Og tónlistin sem þarna var minnst á, hún hljómar hér að neðan. Plötuna má heyra í heild sinni á Soundcloud.

Ló eftir Hermann Stefánsson

Til að útkskýra plötuna eftir Hermann Stefánsson, sem tekin var upp og pródúseruð af Gísla “Gímaldin” Magnússyni, er best að gefa listamanninum sjálfum orðið:

Ló er alternatív dogmakántríplata, samin og upptekin á einu kvöldi, ýtt á Rec og byrjað að syngja án þess að hafa hugmynd um hvert fyrsta orðið á að vera, næsti hljómur, næsti hringur, samin með einfaldleikann að leiðarljósi, með hægan takt að reglu, en líka með svindli, með hálfkaraða texta á párblöðum í vasanum, hálfa hljómaganga úr fikti í minninu. Nokkurs konar vandlega undirbúin og algerlega óvænt hugljómun, sjálfskennsl utan úr geimnum.

Vonandi segir þetta ykkur eitthvað. Platan, sem er gjöf, hljómar eitthvað á þessa leið:

Útgáfutónleikatvenna My Bubba & Mi, í Reykjavík og á Akureyri

Íslensk-sænski nýkántrí dúettinn My Bubba & Mi mun halda tvenna útgáfutónleika vegna útgáfu plötunnar Wild & You, sem kom út á vegum Kimi Records. Þeir fyrr verða á Græna Hattinum fimmtudaginn 30. ágúst kl. 21 og þeir seinni í Norræna húsinu laugardaginn 1. september kl. 21. Sóley mun koma fram með My Bubba & Mi á báðum tónleikum.

My Bubba & Mi skipa þær Guðbjörg Tómasdóttir og My Larsdotter og var stofnaður árið 2008 í Kaupmannahöfn, en Guðbjörg var þar við nám. Áður hafa þær  gefið út breiðskífuna How It’s Done in Italy. Kimi Records gefur út Wild & You á Íslandi en platan kom út víðsvegar um Evrópu fyrr á árinu á vegum hollenska útgáfufélagsins Beep! Beep! Back up the truck. Samhliða útgáfu Wild & You mun fyrri plata hljómsveitarinnar verða fáanleg í helstu hljómplötuverslunum.

Nýtt lag með Steini Ármanni

Sigfús Arnar Benediktsson, eða Fúsi Ben eins og hann er kallaður, samdi, útsetti, og tók upp í Stúdíó sínu, Stúdíó Benmen á Sauðárkróki, meðfylgjandi lag. Fékk hann Stein Ármann Magnússon leikara til að syngja lagið en textann sömdu þeir Sigfús Arnar og Andri Már Sigurðsson söngvari hljómsveitarinnar Contalgen Funeral.

Sjálfur var Sigfús Arnar gítarleikari í hljómsveitunum Bróðir Svartúlfs og Fúsaleg Helgi en spilar nú á trommur hjá Contalgen Funeral, sem meðal annars verða á Bræðslunni í sumar.

Lagið góða sem hljómar hér að neðan heitir “Kántrýskotinn Karlmaður” og er, eins og nafnið ber til kynna, kántrýlag af bestu gerð.

Stein Ármann Magnússon – Kántrýskotinn Karlmaður

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Nýtt myndband og plata með Joe Dubius

Andri Már Sigurðsson, eða Joe Dubius eins og hann kallar sig, hefur sent frá sér sólóplötuna Rainy Day in the Park. Andri er meðlimur hinnar mögnuðu skagfyrsku sveitar Contalgen Funeral. Búið er að gera myndband við lagið “One horse town” en það skaut og klippti Stefán Friðrik Friðriksson.

Platan fæst í Skagfirðingabúð og verður eftir helgi til sölu syðra, í 12 tónum og hjá Smekkleysu.

Joe Dubius er nú á leið til Frakklands, um miðjan mánuðinn þar sem hann mun ferðast um og koma fram á tónleikum.

Einfaldlega flókið

Hallgrímur Oddson hefur sent frá sér plötuna Einfaldlega Flókið og er nú hægt að heyra hana í heild sinni á gogogyoko. Hér eru á ferð veraldlegir mansöngvar klæddir í kántrí-skotna þjóðlagapoppbúninga (folk). Á plötunni er m.a. að finna meðfylgjandi lag sem kallast “360 gráður” og er það nokkuð snoturt og grípandi.

Rjómalagið 7.ágúst: Patsy Cline – Three Cigarettes in the Ashtray

“Three Cigarettes in the Ashtray” með kántrýdrottningunni Patsy Cline er fullkomið sunnudagslag. Lagið, sem er eftir Eddie Miller og W.S. Stevenson, er ágætis dömp-ballaða,  en silkimjúk og tregafull rödd Patsy tekur lagið upp á annað plan. Hvort sem að maður er að jafna sig eftir erfiða helgi eða undirbúa sig fyrir erfiða viku, er Patsy Cline alltaf yndislegt meðal.

p.s. hefur einhver gert rannsókn á breyttri lengd popplaga í gegnum tónlistarsöguna? Þau hafa klárlega lengst síðan á sjötta áratugnum að minnska kosti. Ég held t.d. að nánast ekkert lag með Patsy fari yfir þrjár mínútur. Less is more?

Rjómalag dagsins 5.ágúst: John Grant – Jesus Hates Faggots

Rjómalag dagsins í dag er með verðandi íslandsvininum John Grant, sem spilar á Airwaves hátíðinni í Október. Grant, sem var áður í hljómsveitinni The Czars, gaf út sína fyrstu sólóplötu í fyrra: hina frábæru “Queen of Denmark”. Á plötunni gerir hann upp erfiða fortíð sína – alkóhólisma, eiturlyfjafíkn og fordóma vegna kynhneigðar – í samvinnu við eðalbandið Midlake. Það er kannski við hæfi að Gay Pride helgin hefjist á laginu Jesus Hates Faggots, frábæru en átakanlegu lagi sem segir okkur að enn þann dag í dag sé til fólk sem þarf að berjast við eigin fordóma og annarra, bara til að fá að vera það sjálft.

Morðingjarnir senda frá sér Blóð.

Hljómsveitin Morðingjarnir hefur látið lítið fyrir sér fara síðan þeir sendu frá sér jólalagið “Jólafeitabolla” við góðar undirtektir landsmanna. Þeir hafa þó verið að vinna að nýjum lögum sem mögulega kannski verða á nýrri plötu þegar fram líða stundir. Fyrsta lagið af þessari væntanlegri plötu hefur nú verið sett í spilun sem og verður fáanlegt á tónlistarveitunum www.tonlist.is og www.gogoyoko.com. Lagið heitir “Blóð” og er fyrirtaks spaghettíkántrívestra slagari í anda KK og Ennio Morricone.

Lagið er tekið upp af Helga Sæmundi Kaldalón Guðmundssyni, liðsmanni Bróðir Svartúlfs, sem einnig leikur á munnhörpu. Smári Tarfur leikur svo á slædgítar og Ólafur Torfi leggur til bakraddir, en hann þykir víst djúpraddaðri en Barry White á góðum degi. Umslag smáskífunnar “Blóð” er svo hannað af Morðingjunum sjálfum.

Morðingjarnir – Blóð

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Reykjavik Music Mess: Mugison

Skeggjaði vestfirðingurinn Örn Elías (Mugison) hefur ekki beinlínis farið huldu höfði á síðustu árum. Með glænýja breiðskífu í bígerð og fimm skífur á bakinu, hefur Mugison skipað sér sess sem einn ástsælasti tónlistarmaður Íslands.

Mugison hefur verið duglegur að boða fagnaðarerindið víðsvegar um heiminn en vinnur nú hörðum höndum að skipulagningu Aldrei Fór Ég Suður hátíðarinnar þetta árið, sem fram fer næstu helgi. Sendi Mugison svo frá sér fyrstu smáskífu af komandi plötu fyrir skömmu, lagið Haglél. Lagið sem er værukjært bluegrass-skotið kántrý með íslenskum texta, nálgast einsemd, ristað brauð, trúarleg hálsmen og dauðar flugur en umfram allt forgrunn þess sem margir Íslendingar finna fyrir áður en gengið er út úr híbýlum í haglél. Lagið hefur fundið sig vel á topplistum útvarpsstöðva hér á landi en lítið virðist vera um þann trega sem oft hefur einkennt tónlist Mugison og þess í stað virðist kveða við frábrugðinn tón. Bæði hvað varðar söngstíl og lagasmíðar. Eykur það án efa spennu landans og erlendra aðdáenda Mugison vegna komandi plötu og það er bara gaman.

Mugison stígur á svið á slaginu 21.00 í Norræna húsinu á sunnudagskvöldið.