Hæ Mutantes

Þeir sem hafa gaman af því að grúska í gamalli músík, sérstaklega frá fjarlægari slóðum, kannast ef til vill við brasilísku tropicala sveitina Os Mutantes sem á 7. og 8. áratugnum gáfu út frábærar plötur þar sem sækadelísku rokki var blandað við brasilíska músík með góðum árangri. Fyrir nokkrum árum reis sveitin upp á ný og hefur verið dugleg að spila á tónleikum um víða veröld, m.a. með Flaming Lips, og nú í september er fyrsta plata sveitarinnar með nýju efni í 35 ár væntanleg. Platan mun nefnast Haih… or Amortecedor… og eru tvö lög af henni farin að heyrast á tónlistarsíðum:

Os Mutantes – Anagrama

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.


Os Mutantes – Teclar

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Os Mutantes hefur haft gríðarleg áhrif á aðra tónlistarmenn en meðal þeirra sem lýst hafa aðdáun sinni á þeim eru Beck, Of Montreal og Devendra Banhart (sem á það líka til að troða upp með sveitinni). Fyrir langa löngu skrifaði svo Kurt nokkur Cobain meðlimum Os Mutantes og grátbað þá um að koma saman aftur og koma í hljómleikaferðalag með Nirvana, en honum varð reyndar aldrei að þessari ósk sinni. Fyrir þá sem lítið þekkja til brasilísku stökkbrigðana skulum við rifja upp tvö lög af frumburði sveitarinnar frá 1968.

Os Mutantes – A Minha Menina

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Os Mutantes – Panis Et Circenses

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Woodstock tónlistarhátíðin 40 ára

Woodstock posterÍ ár eru 40 ár liðin síðan Woodstock hátíðin margfræga var haldin var í smábænum Bethel í New York fylki frá 15. til 18. ágúst 1969. Talið er að um hálf milljón manns hafi verið á hátíðinni en upphaflega gerðu skipuleggjandur ekki ráð fyrir að meira en 50.000 manns á svæðinu. Meðal þeirra listamanna sem fram komu voru : Ravi Shankar, Joan Baez, Santana, Canned Heat, Grateful Dead, Creedence Clearwater Revival, Janis Joplin, Sly & the Family Stone, The Who, Jefferson Airplane, Joe Cocker (sem varð fyrst frægur eftir að hafa komið þar fram), The Band, Blood, Sweat & Tears, Crosby, Stills, Nash & Young, Neil Young og svo að sjálfögðu Jimi Hendrix sem endaði hátíðina á eftirminnanlegan hátt eins og sjá má í heimildarmyndinni hér að neðan.

Woodstock hátíðin er einn merkilegasti viðburður tónlistarsögunnar og án efa hápunktur hippatímabilsins. Heimildarmynd um hátíðina sem kom út ári seinna má án efa finna út á næstu myndbandaleigu en hún er algert skylduáhorf fyrir hvern tónlistaráhugamann. Þess má að lokum geta að væntanleg er sannsöguleg mynd um hátíðina sem nefnist Taking Woodstock en leikstjóri hennar er Ang Lee.

Jimi Henrix- Live at Woodstock ’69 – 56:39

Duncan Browne

Ég grúska reglulega eftir sjaldgæfri 60’s tónlist á Netinu og þá sérstaklega þeirri sem í súrari kanntinum er. Það kemur fyrir að í leit þessari grafi maður upp algera gullmola og fyrir nokkru gróf ég upp einn slíkann. Molinn þessi var platan Give Me, Take You með manni að nafni Duncan Browne. Platan sú kom út 1968 og var gefin út hjá Immediate plötufyrirtækinu sem Andrew Loog Oldham, fyrrverandi umboðsmaður Rolling Stones, rak.

Duncan Browne

Give Me, Take You er hreint út sagt unaðsleg áheyrnar, uppfull af ljúfum og safaríkum melódíum, margslungnu gítarspili, flottum röddunum og strengjaútsetningum og íburðarmiklum klassískum áhrifum. Þeir sem þekkja verk listamanna eins og Donovan og Moody Blues ættu að sperra eyrun og jafnvel þeir sem kunna að meta fyrstu plötur Paul McCartney eftir að hann hóf sóloferil líka. Einhverra hluta vegna naut þessi plata lítillar sem engrar hylli og varð fljótt gleymd og grafin.

Duncan Browne gekk síðar í power-pop sveitina Metro (sem ég fann ekkert um á Netinu) á átti víst einn smell með þeim. Browne snéri sér að tónsmíðum fyrir sjónvarp á áttunda áratugnum með ágætis árangri. Hann lést úr krabbameini árið 1993 þá aðeins 46 ára gamall.

Duncan Browne – On The Bombsite

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Beck heldur áfram með VU&Nico

Það hefur varla farið fram hjá tónlistaráhugamönnum hér á landi að Beck er í óðaönn að þekja breiðskífuna The Velvet Underground & Nico með samefndri sveit í heild sinni. Fréttin fór sem eldur í sinu um íslenska fjölmiðla fyrir nokkrum vikum þegar út spurðist að söngkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir legði kappanum lið við verkið. Rjóminn greindi frá verknaðnum fyrir nokkru og sýndi lesendum myndbandið við “Sunday Morning”. Nú hefur Beck opinberað næstu þrjú lög af plötunni og er því um að gera að skoða hvernig til tekst. “Sunday Morning” var fremur hefðbudnin þekja þar sem ekki var farið ýkja langt frá frumgerðinni en Beck fetar ævintýralegri slóðir í næstu lögum og leyfir sér ýmislegt óvænt. Til skemmtunar getum við borið saman þekjurnar við upprunalegu útgáfurnar.

Beck – I’m Wating For My Man

The Velvet Underground – I’m Wating For My Man

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Beck – Femme Fatale

The Velvet Underground & Nico – Femme Fatale

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Beck – Venus In Furs

The Velvet Underground – Venus In Furs

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Svo er bara að fylgjast með á beck.com en þar má einnig finna ýmislegt annað sem kappinn er að sýsla við, t.d. vikuleg DJ-set frá Beck sem heita “Planned Obsolescence” (eftir Halo Benders laginu) sem “Irrelevant Topics” þar sem Beck tekur viðtöl við tónlistarmenn um allt ómögulegt, en viðtal við Tom Waits er nýlega komið á síðuna og er bara nokkuð skemmtilegt.

Hlýjar uppfinningar

oneUm síðustu aldamót leiddu þau Hope Sandoval úr Mazzy Star og Colm O’Ciosoig úr My Bloody Valentine saman hesta sína undir nafninu Hope Sandoval & the Warm Inventions, enda höfðu sveitir þeirra haft frekar hægt um sig á seinni hluta 10. áratugarins, og var afraksturinn platan Bavarian Fruit Bread sem kom út árið 2001. Nú eru Mazzy Star víst á fullu að vinna að sinni fjórðu breiðskífu (fyrstu síðan 1996) og fyrir ári byrjuðu My Bloody Valentine að koma fram á tónleikum á ný, en engar staðfestar fregnir hafa þó heyrst af útgáfumálum þeirrar öðlingssveitar. Þrátt fyrir að fyrri sveitir þeirra séu komnar á fullt skrið hafa þau Hope og Colm verið að stinga nefjum saman og er önnur breiðskífa þeirra, Through The Devil Softly, væntanleg nú um miðjan september. Fyrsti smjörþefurinn af plötunni er lagið “Blanchard” þar sem skötuhjúin slá kunnuglega angurværan hljóm.

Hope Sandoval & the Warm Inventions – Blanchard

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Hope hefur í gegnum tíðina verið dugleg að lána hinum ýmsu sveitum og tónlistarmönnum rödd sína og hefur m.a. sungið með Air, The Jesus & Mary Chain, Chemical Brothers, Vetvier og Bert Jansch. Sjálfur tengi ég rödd hennar ætíð unglingsárum mínum og stenst því ekki mátið að læða með tveim smellum frá því um miðjan síðasta áratug, hinu stórkostlega og gæsahúðagefandi “Fade Into You” með Mazzy Star og töffaraballöðunni “Sometime Always” sem Hope syngur með Jesus & Mary Chain.

Mazzy Star – Fade Into You

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.


The Jesus & Mary Chain (feat. Hope Sandoval) – Sometimes Always

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.


Through The Devil Softly

Hróarskelda: Steinski

steinskiMash-up gúrúinn Steinski er án efa eitt af þeim atriðum sem tónlistaráhugafólk má ekki láta framhjá sér fara á Keldunni í ár. Það má segja að tónlistarlega séð sé Steinski afi skífuþeytara líkt og DJ Shadow, Coldcut og Cut Chemist þrátt fyrir að hafa aldrei öðlast sömu frægð og þeir síðarnefndu. Steinski var víst einhversskonar gangandi goðsögn í hip-hop-heimi New York-borgar snemma á níunda áratugnum eftir að hafa gefið út Lessons-seríuna ásamt Double Dee. Hvort sem þú ert áhugamaður um hip-hop eður ei þá ættu þessir tónleikar að vera ansi áhugaverðir.

Steinski (ásamt Double Dee) að flytja Lesson 3:

Ágætis byrjun 10 ára í dag

Já, það eru nákvæmlega 10 ár í dag síðan tímamótaplata Sigur Rósar, Ágætis byrjun, kom út. Þann 12. júní 1999 kom skífan út og sama dag spilaði sveitin á útgáfutónleikum í Íslensku Óperunni sem jafnan eru taldir með þeim mögnuðustu sem haldnir hafa verið hér á landi. Flestir eiga einhverjar minningar tengdar plötunni og verð ég nú að segja að ég held að varla nein önnur plata hafi verið í spilaranum hjá mér þetta sumar fyrir 10 árum (það var reyndar þrautinni þyngri að finna eintak sem var ekki útatað í límklessum því að umslagið hafði verið límt saman í flýti fyrir útgáfu, en það er nú önnur saga).

Í tilefni afmælisins hefur verið opnaður afmælisvefur plötunnar á heimasíðu Sigur Rósar. Þar má m.a. hlusta á demó og tónleikaupptökur, lesa ítarlegar upplýsingar um plötuna; um tildrög hennar og áhrif sem og umfjallanir og viðtöl í tengslum við útgáfu hennar, horfa á myndböndin af plötunni og nokkrar tónleikaupptökur og svo er aragrúi af ljósmyndum frá tímabilinu. Einnig er léttur afmælisleikur í gangi með einni einfaldri spurningu sem ætti ekki að vefjast fyrir íslenskum aðdáendum sveitarinnar, en í verðlaun er númerað eintak af vínylútgáfu plötunnar. Það er eiginlega skylda tónlistaráhugamanna að setja Ágætis byrjun á fóninn í dag og sökkva sér í skemmtilegt grúsk af tilefni afmælisins.

Sigur Rós – Svefn-G-Englar from sigur-ros.co.uk on Vimeo.

Grýlukvæði Stefáns í Vallarnesi

2532341624-1Draumaland Andra Snæs hefur hlotið töluvert lof hér á landi, en ekki bara fyrir úrvinnslu hugmynda og efnis heldur líka fyrir sérstaklega flotta tónlist. Það er snillingurinn Valgeir Sigurðsson sem sér um músíkina ásamt Bedroom Community hópnum og er stefnt að útgáfu með tónlistinni innan skamms. En á meðan við bíðum, þá hefur Grapevine, ásamt Valgeiri, splæst í síngúl handa áhugasömum sem hægt er að nálgast frítt hér. Um er að ræða gamalt íslenskt þjóðlag, “Grýlukvæði” (nei, ekki þetta eftir Jóhannes úr Kötlum), sem Valgeir útsetur af stakri snilld. Þess má til gamans geta að bandaríkjamaðurinn Sam Amidon á heiðurinn af söngnum, sem er jú auðvitað á íslensku.

Hérna má svo finna kvæðið sjálft.

Animal Crack Box

crackboxAnimal Collective mun gefa út Animal Crack Box í byrjun sumars, í gegnum Catsup Plate, en útgáfudagur verður tilkynntur síðar. Um er að ræða box með þremur plötum sem inniheldur ‘live’ upptökur af æfingum og tónleikum sveitarinnar frá árunum 2002-2003. Mörg þeirra laga sem á plötunum verður að finna, hafa ekki verið gefin út áður. Enn sem komið er hefur eingöngu verið tilkynnt um útgáfu á vinyl-formi en mögulega mun þetta góss skila sér á plast með tímanum (já, eða á .MP3). Animal Crack Box mun ekki fara í almenna dreyfingu en verður fáanlegt í gegnum netverslunina Fusetronsound.com.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem að Animal Collective gefa út ‘live’-disk, því árið 2006 var Hollinndagain endurútgefin, plata sem upphaflega kom út 2002 í mjög takmörkuðu upplagi. Á henni eru að finna upptökur af ýmsum tónleikum sem AC hélt ásamt Black Dice.

Animal Collective – There’s An Arrow (af Hollinndagain)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Radiohead endurútgefin

Aðdáendur Radiohead hafa ástæðu til að fagna þessa dagana því næsta mánudag, 23. mars, verða fyrstu þrjár plötur sveitarinnar endurútgefnar og vel hlaðnar aukaefni. Pablo Honey, The Bends og OK Computer koma sem sagt hver út á tveimur diskum sem auk upprunalegu platnanna innihalda heil ósköp af b-hliðum, tónleikaupptökum, demóum og endurhljóðblöndunum. Þeir sem vilja gera vel við sig geta svo fjárfest í “special collectors edition” af plötunum sem innihalda DVD diska með myndböndum og tónleikaupptökum – það gerist varla betra!

Endurútgáfurnar verða vafalaust fáanlegar hér á landi innan skamms en þeir allra æstustu geta t.d. pantað þær fyrirfram á amazon á fínu verði.

Eins-smells-undrið Human Beinz

Human Beinz - Nobody But Me

Ein áhugaverðustu fyrirbrigði í tónlistarsögunni eru svokölluð “eins-smells-undur” (one-hit-wonders), sveitir sem spretta fram með einn smell en falla síðan í gleymskunnar dá – yfirleitt jafn skjótt og þær spruttu fram. Ein þessara sveita var bandaríska sveitin Human Beinz sem árið 1967 tók upp stórkostlega útgáfu af laginu “Nobody But Me” eftir soul-sveitina Isley Brothers. Í meðförum Human Beinz breyttist lagið úr soul-slagara í dansvænt garage rokk en lagið er ekki síst eftirminnilegt fyrir innganginn/niðurlagið þar sem orðið “no” er sungið yfir hundrað sinnum – enda var lagið eitt sinn valið neikvæðasta Top 40 lag allra tíma.

The Human Beinz – Nobody But Me

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Lagið komst hæst í 8. sæti Billboards listans í ársbyrjun 1968 en Human Beinz féllu smátt saman í gleymsku þrátt fyrir að þeir hafi sent frá sér tvær plötur í kjölfar smellsins. Helst áttu þeir bakland í Japan þar sem tvö önnur lög sveitarinnar vegnuðu vel en það dugði þó ekki til að halda sveitinni saman og hætti hún störfum árið 1969.

“Nobdoy But Me” hefur þó haldið vinsældum sínum og sprettur reglulega upp hér og þar. Lagið er reglulega valið á safnplötur með áhugaverðum smellum 7. áratugarins og heyrðist m.a. kvikmyndunum Kill Bill vol. 1 og The Departed. Lagið hefur einnig orðið öðrum innblástur, en undirritaður kynnist því reyndar í meðförum The Residents sem “sömpluðu” bút úr því á Meet The Residents (1974) og svo fyrir nokkrum árum tók franski plötusnúðurinn Pilooski sig til og endurhljóðblandaði verkið með fínum árangri.

The Human Beinz – Nobody But Me (Pilooski Edit)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Öll Svörin : Mugison

Mugison

Mugison

Mugison þarf ekki að kynna fyrir neinum, enda á skömmum tíma orðinn einn þekktasti tónlistarmaður Íslands. Þetta eru svörin hans.

Besta plata í heimi er…
The Best Of B.B. King

Af hverju eru ekki allir að hlusta á …
Debbie Friedman – Alef Bet Song (Hebrew)

Öll börn ættu að sofna við að hlusta á…
China Broadcast Philharmonic Orchestra – Forever Flows the River

Allir ættu að hlusta að minnsta kosti einu sinni á ævinni á…
Björk – All is Full of Love

Bestu tónleikar sem ég hef séð voru …
Squarepusher þegar hann hitaði upp fyrir Toroise í Shepard Bush 2002. Þá sá ég að það er hægt að spila electrónic læf og vera jafn flottur og Elvis Presley

Þeir tónleikar sem ég sá ekki en vildi mest hafa séð eru …
Sigur Rós og Björk síðasta sumar, komst ekki í bæinn.

Platan sem mótaði unglingsárin mín er…
The Jimi Hendrix Experience – Are You Experienced

Þegar ég geng í kringum tjörnina á elliárunum vil ég hlusta á …
The Beach Boys – God Only Knows

Ég er það sem ég er af því ég hlustaði á …
Tom Waits í öll mál frá 18 – 26…. hlustaði á hann í öll mál, skuggalegt.

Ég vildi að ég hefði samið…
Beyoncé – Crazy In Love

Sá texti sem hrærir mest í hjarta mínu er…
That Feel – Tom Waits

Besta bömmerlag í heimi er…
I´m Bored – Iggy Pop

Í eigin hugarheimi gangandi um öngstræti lífsins hlusta ég helst á…
Eitthvað sem ég hef ekki heyrt áður, eitthvað sem kveikir í mér.

Þegar ryksugutónarnir óma finnst mér að undir eigi að hljóma…
Harder Better Faster Stronger  – Daft Punk

Ég var ástfangnastur unglingur þegar ég hlustaði á…
Alelda – Ný dönsk

Í sturtunni er best að syngja…
9 to 5 – Dolly Parton.. mumbla textann.. og kem svo sterkur inn í millilaginu.

Ég myndi helst vilja spila í bandi með (lífs eða liðnir)…
B.B King á gítar, Bono, Thom York og Jeff Buckley í bakröddum, Phil Collins og Addi á trommur (tvö kit), Bowie á hljómborð, Viddi í Trabant á bassa og Einar Örn á lúður, sjálfur væri ég á kassagítar sem væri ekki plöggaður í neitt, myndi bara tralla með í góðum fíling.

Vanmetnasta hljómsveit í heimi er…
James Brown og bandið hans.

Ofmetnasta hljómsveit í heimi er…
..nátturlega Pink Floyd

Þú ættir að hlusta á…
Desire – Bob Dylan

Ef ég ætti að bæta við spurningu myndi ég bæta við (og svara henni)…
Ef það ætti að spila eina plötu í gegn í jarðaförinni þinni, hvaða plata væri það?

Mitt svar..  “ég myndi vilja að fjölskyldan leigði stærsta mögulega hljóðkerfi hjá Exton og blastaði plötu sem heitir The Winner of International Accordion Prize “Stefano Bizzarr – það er ógeðslega flott safnplata með nikkutónlist”.

Öll Svörin : Úlfur Hanson

Úlfur Hanson/Klive

kliveÚlfur Hanson, einnig þekktur undir listamannsnafninu Klive, sendi frá sér sína fyrstu plötu á dögunum við mikið lof gagnrýnenda. Þetta eru svörin hans.

Besta lag í heimi er…
Þetta er ekkert smá erfið spurning… pottþétt portrait of tracy.

Besta plata í heimi er…
Úff! það er ekkert annað! ömm örugglega safnplatan ninja cuts: funkjazztical tricknology. hún er allavega tilvalin í eldhúsið, ásamt mixed bizness með beck.

Af hverju eru ekki allir að hlusta á …
Rás eitt?

Öll börn ættu að sofna við að hlusta á…
Kvöldfréttirnar.

Allir ættu að hlusta að minnsta kosti einu sinni á ævinni á…
Götuspilara lengur en í 2 mínútur.

Bestu tónleikar sem ég hef séð voru …
I Adapt á Holdrosa í tónabæ, circa 2003!

Þeir tónleikar sem ég sá ekki en vildi mest hafa séð eru …
Stereolab á íslandi.. 2000ogsnemma einhverntímann …

Platan sem mótaði unglingsárin mín er…
Mig grunar að ég hafi spilað “Follow the leader” með hljómsveitinni KoRn svo mikið að platan hafi lést um nokkur grömm.

Þegar ég geng í kringum tjörnina á elliárunum vil ég hlusta á …
Eyrnaskjólin mín.

Ég er það sem ég er af því ég hlustaði á …
Michael Jackson. þá fór ég að að stela spólum frá stóru systur minni – m.a Arethu Franklin og Debut með Björk. vo kom Aphex og Portishead aðeins seinna í safnið hennar.

Ég vildi að ég hefði samið…
Við annað símafyrirtæki en OgVodafone.

Sá texti sem hrærir mest í hjarta mínu er…
Ég heyri aldrei neina texta! einstaka lög hafa sloppið með textann með sér í hausinn á mér og þau eru ekkert svo væmin. Svarið er örugglega til eru fræ í flutningi hauks morthens…

Besta bömmerlag í heimi er…
Total eclipse of the heart.

Í eigin hugarheimi gangandi um öngstræti lífsins hlusta ég helst á…
In the nightside eclipse frá byrjun til enda.

Þegar ryksugutónarnir óma finnst mér að undir eigi að hljóma…
Eitthvað rosalega hressandi! Kannski Doomriders eða Entombed?

Ég var ástfangnastur unglingur þegar ég hlustaði á…
Örugglega Mogwai eða Blonde Redhead.

Í sturtunni er best að syngja…
Bohemian Rhapsody!

Ég myndi helst vilja spila í bandi með (lífs eða liðnir)…
HAM.

Vanmetnasta hljómsveit í heimi er..
HAM

Ofmetnasta hljómsveit í heimi er…
Metallica.

Þú ættir að hlusta á…

DUBLAB.COM! þegar þú setur streamið í gang setjast þessir snillingar inn í stofu til þín og spila bestu tónlist sem völ er á úr öllum heimshornum !! FRÍTT!

Skakkamanage – All Over The Face

Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2009
Label: Skakkapopp

Önnur plata Skakkakrakkanna festir þau í sessi sem eina skemmtilegustu sveit landsins

Skakkamanage - All Over The FaceHjónakornin Svavar og Berglind skipa Skakkamanage ásamt nokkrum vinum sínum og sendu þau nýlega frá sér sína aðra skífu sem fylgir í kjölfar hinnar ágætu Lab of Love frá 2006. Líkt og fyrri skífan þá er All Over The Face uppfull af lunknum lagasmíðum sem vaxa gífurlega við hverja hlustun – sem er jú ágætis vísir að eigulegri plötu.

Skakkamanage minnir eilítið í bandaríska lo-fi-ið sem var aðal fyrir 10-15 árum, en nöfn eins og Smog, Pavement o.fl. mætar sveitir koma óneitanlega upp í hugann þegar tónlist Skakkamanage heyrist. Sjálfur sá ég fyrst sveitina (sem var þá reyndar 1-mannsprójekt + fartölva) spila fyrir rúmum 5 árum sem upphitunaratriði fyrir Sebadoh, eina helstu lo-fi rokkara 10. áratugarins, svo tengingin er greypt í huga minn. Skakkamanage hefur þó sína íslensku áru sem reyndar fer aðeins minna fyrir á þeirri plötu sem hér er til umfjöllunar en á Lab of Love.

Skakkamanage – Like You Did

Platan byrjar hressilega á „Like You Did“ og svo sveiflast sveitin í 33 mínútur á milli kæruleysislegra rokklaga og innhverfra poppsmíða. Ekkert laganna er jafn auðgrípanlegt við fyrstu hlustun og bestu lög frumburðarins en All Over The Face er hins vegar mun jafnari plata og má þar finna nóg kjöt á lagabeinunum. Sem fyrr einkennist flutningur sveitarinnar af nett kærulausri spilamennsku sem hentar lagasmíðunum vel og svo raulu Svavars og Berglindar. Ég verð að játa að textarnir fara að mestu fram hjá mér og af einhverri ástæðu næ ég aldrei að einbeita mér að því að hlusta eftir innihaldi þeirra. Það væri reyndar ekki galin hugmynd að prófa íslenska texta á næstu Skakkamanage plötu og sjá hvernig til tekst. Þau Svavar og Berglind sendu nefnilega frá sér frábært jólalag á íslensku í lok síðasta árs undir nafninu Létt á bárunni sem sýndi að þau væru fullfær um skemmtilegar textasmíðar.

All Over The Face festir Skakkamanage í sessi sem eina af skemmtilegustu sveitum landsins en líkt og svo margar gæðaplötur íslenskrar tónlistasögu þá hefur hún af einhverjum ástæðum ekki farið mjög hátt. Skakkamanage er kannski ætlað það hlutskipti að vera ein af þeim sveitum sem verða metnar að verðleikum löngu eftir að sjoppunni hefur verið lokað, en það er víst lítið við því að gera. Og já, umslag All Over The Face er með því hressasta síðastliðin ár.

The Cramps allir

Psychobilly ei meir

Lux Interior, forsprakki The Cramps, lést þann 4. febrúar síðastliðinn

The Cramps allir Bandaríska hljómsveitin The Cramps var áhrifamesta sækóbillý sveit veraldar og átti sitt blómaskeið á 9. áratugnum. Söngvarinn Lux Interior og eiginkona hans og gítarleikari, Poison Ivy, keyrðu sveitina af fullum krafti frá árinu 1973 fram til dagsins í gær, 4. febrúar 2009, þegar Lux Interoir lést af hjartagalla á sjúkrahúsi í Californiu.

Tónlist The Cramps var slísí rokkabillý sem blandað var áhrifum frá pönki, blús, sörfi, garage-rokki og fleiru en tónlistin fékk fljótt á sig nafnið Psychobilly og varð fjölmörgum hljómsveitum innblástur. Ímynd og texta sóttu The Cramps til lélegra hryllingsmynda og annar B-mynda 6. og 7. áratugarins, sem sást á klæðnaði sveitarmeðlima, myndböndum, lagatitlum og textum.

Hvernig er öðruvísi hægt að heiðra minningu Lux Interior og The Cramps en að kíkja á nokkur myndbönd:

The Cramps – Garbage Man (af Songs The Lord Taught Us, 1980)

The Cramps – Thee Most Exalted Potentate of Love (af Smell of Female, 1983)

The Cramps – You Got Good Taste (af Smell of Female, 1983)

The Cramps – Bikini Girls with Machine Guns (af Stay Sick!, 1990)

The Cramps – Creature From the Black Leather Lagoon (af Stay Sick!, 1990)

The Cramps – Ultra Twist (af Flamejob, 1994)

Öll Svörin : Arnar Eggert Thoroddsen

Arnar Eggert

Arnar EggertArnar Eggert Thoroddsen kannast flestir við en hann er tónlistarsérfræðingur með meiru og hefur komið víða við í umfjöllunum sínum um tónlistarmenn, -konur, -stefnur og -strauma. Hér eru svörin hans.

Besta lag í heimi er…
Strawberry Fields Forever með Bítlunum

Besta plata í heimi er…
Spirit of Eden með Talk Talk

Af hverju eru ekki allir að hlusta á …
Thin White Rope

Öll börn ættu að sofna við að hlusta á…
“Satan Spawn, the Caco-Daemon” með Deicide

Allir ættu að hlusta að minnsta kosti einu sinni á ævinni á…
Bítlana

Bestu tónleikar sem ég hef séð voru …
Sigur Rós í Íslensku óperunni, 12. júní 1999. Útgáfutónleikar Ágætis byrjunar

Þeir tónleikar sem ég sá ekki en vildi mest hafa séð eru …
The Jesus Lizard í London, 1991

Platan sem mótaði unglingsárin mín er…
Junkyard með Birthday Party

Þegar ég geng í kringum tjörnina á elliárunum vil ég hlusta á …
I like it when you die með Anal Cunt

Ég er það sem ég er af því ég hlustaði á …
Pönk

Ég vildi að ég hefði samið…
“100 years from now” eftir Gram Parsons

Sá texti sem hrærir mest í hjarta mínu er…
Textinn við “Last Harbor” eftir American Music Club

Besta bömmerlag í heimi er…
“Heaven Knows I’m Miserable Now” með Smiths

Í eigin hugarheimi gangandi um öngstræti lífsins hlusta ég helst á…
“Dead Souls” með Joy Division

Þegar ryksugutónarnir óma finnst mér að undir eigi að hljóma…
Einstuerzende Neubauten, The Swans, Butthole Surfers, Boredoms og Maunir, allt í einum kór

Ég var ástfangnastur unglingur þegar ég hlustaði á…
“Cinnamon Girl” með Neil Young

Í sturtunni er best að syngja…
“Mustang Sally” með Wilson Pickett. Sjííí…

Ég myndi helst vilja spila í bandi með (lífs eða liðnir)…
John Bonham (trommur), Donald Fagen (hljómborð), Kerry King (sólógítar), Geddy Lee (bassi), Jim Morrison (söngur), Arnar Eggert (hryngítar)

Vanmetnasta hljómsveit í heimi er…
Thin White Rope

Ofmetnasta hljómsveit í heimi er…
PINK FOKKING FLOYD!

Þú ættir að hlusta á…
doo-wop

Ef ég ætti að bæta við spurningu myndi ég bæta við (og svara henni)…

Spurning: Er Rush ein svakalegasta rokkhljómsveit sem nokkru sinni hefur verið uppi?
Svar: Já.

Hljóðmynd mótmæla

Nýtt lag frá Klive

Hljóðmynd mótmæla

Mótmæli undanfarna vikna hafa strax orðið listamönnum innblástur og nú hefur tónlistarmaðurinn Klive sent frá sér lagið “Don’t Give Up The Ghost” sem unnið er úr upptökum frá mótmælum við Þjóðleikhúskjallarann þann 21. janúar síðastliðinn:

Klive – Don’t Give Up The Ghost

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Þess má geta að Klive sendi frá sér frumburðinn Sweaty Psalms á síðasta ári sem fékk glimrandi umsögn hér á Rjómanum og lenti þar að auki í 7. sæti yfir bestu íslensku plötur ársins.

Introbeats – Tivoli Chillout

Fín plata og góð viðbót í safnið sem breytir þó tæpast heiminum

Introbeats - Tivoli Chillout

Það eru ekki margir sem hafa gert jafn mikið fyrir íslenskt hiphop og Introbeats en hann hefur meðal annars áður gefið út tvær plötur með hljómsveit sinni Forgotten Lores sem flestir setja í hóp með bestu íslensku hiphopplötum sem hafa verið gerðar hingað til og er hann aðal taktsmiður bandsins. Nú hefur hann gefið út sína fyrstu sóló plötu sem ber nafnið Tívoli Chillout.

Rétt er að útskýra fyrir lesendum hvernig platan er byggð upp þar sem fáar plötur í þessum stíl hafa verið gefnar út á Íslandi. Öfugt á við sóló plötur hjá einstaklingum í flestum tónlistarstefnum sér Introbeats eingöngu um tónlistina en kemur ekki nálægt textagerð og rappi heldur fær til sín 15 gestarappara sem tjá sig í 14 lögum.

Platan byrjar heldur óskemmtilega en fyrstu 30 sek er eytt í einhverja feedbackhljóma sem seint væri hægt að kalla tónlist. Maður er þó ekki lengi að fyrirgefa Introbeats þetta þegar Byrkir B úr Forgotten Lores byrjar að rappa um lífið og sjálfan sig (eins og er gert í mörgum lögum á þessari plötu) á afar skemmtilegan máta. Pirrandi bakrödd sem Byrkir skellir í viðlagið dregur lagið þó niður.

Í næsta lagi mætir Dóri DNA til leiks og fangar athygli hlustandans strax með beittri rímu um leti, kæruleysi og hversu skítsama honum er. Þegar DNA segir að honum sé skítsama um dauðann vegna þess að hann gangi aftur með stæl og að líf sitt sé eins og Egils-saga þá er ekki annað hægt en að dást að færni mannsins og sýnir textinn greinilega af hverju hann er einn af fremstu röppurum landsins. En það er oft sem góður texti og góður flutningur dugir ekki vegna þess hversu lélegur takturinn er en hér kemur Introbeats með einn þéttasta og háværasta takt sem ég hef lengi heyrt. Synthahljóðið sem er í fyrirrúmi allt lagið er svo gott sem guðdómlegt og ofan á það leggur hann einfaldar trommur sem smellpassa og er sneriltromman ein og sér stórkostleg.

Eftir þessa dýrð róast Introbeats smávegis og biður BófaTófuna, Didda Fel og 7berg að gera það sem þeir gera best í laginu „Eins og…“ en það er leikur einn yfir þann tjillaða takt sem þeir fá. Trommurnar hans Introbeats eru talsvert útpældari en í fyrstu tveimur lögunum og leikur hann sér að því að skipta um sneriltrommu og sleppir slögum inni á milli. Rappararnir skila sínu ágætlega er þeir rappa um þá hluti sem þeir kjósa að gera í lífinu þó svo að BófaTófan sé með öðruvísi flæði sem passar ekki jafn vel við taktinn og félagar hans í laginu gera.

Diddi Fel og BófaTófan halda áfram að rappa í næsta lagi, sem heitir „Lúkurnar upp“, en B-Kay kemur í staðinn fyrir 7berg. Allir rappararnir standa sig þokkalega en ber Diddi Fel þó af. Viðlagið er gott og takturinn nær einhvern veginn að virka en hann virðist nánast eingöngu vera gerður úr trommuhljóðum.

Byrkir B snýr aftur í laginu „Ertu með?“ og er G.Maris með honum og rappa þeir um lífið og peninga og tekst það ágætlega en takturinn er fulltýpískur og hafa margar útgáfur að þessum sama takti heyrst um heiminn.

Næst býður Introbeats okkur uppá lagið „Ég og Þú“ þar sem Opee rappar um konu drauma sinna en lagið er betra en flest slík lög vegna þess að Opee virðist hafa öðruvísi rappstíl en flestir íslenskir rapparar, enda hefur hann aðallega verið þekktur fyrir að rappa á ensku og hjálpar það honum mikið í þessu lagi. Takturinn sjálfur er mjög góður og minnir mikið á taktsmiðinn Pete Rock.

Mælginn MC er næstur á dagskrá með lagið „Sjáðu“. Hann rappar á hvetjandi máta um að fólk megi ekki gefast upp og er það allt gott og blessað en það vottar fyrir málfræðivillum í textanum sem er náttúrulega aldrei gott. Mælginn bjargar sér þó með skemmtilegum flutningi og fær mann til að hugsa minna um galla textans. Takturinn er þokkalegur, reggískotinn og lítið hægt að setja út á hann.

Nú er platan hálfnuð og hljómsveitin 1985! (Dóri DNA og Daníel Deluxe) og G.Maris koma saman og gera lagið „Kæfan“. Dóri DNA fer í það að telja upp eins mörg gælunöfn og slanguryrði og honum dettur í hug sem fær mann til að brosa, eftir ágætis viðlag tekur G.Maris við og rappar um lélega rappara á mjög almennan hátt. Daníel Deluxe er seinastur af köppunum og er kátur og fær mann alveg eins og Dóri DNA til að brosa. Daníel segir meðal annars „Sonur, þú ferð í lygapróf. Þú þarft meira en gullkeðju og strigaskó“. Mér finnst stórmerkilegt að enginn hafi rímað lygapróf við strigaskó áður. Vel gert, Daníel. Introbeats töfrar fram fínan takt sem hægt væri að gera þéttari með því að hækka aðeins í bassatrommunni og skipta um hihat.

„Ekkert Grín“ er næsta lag og sjá þeir Stjáni Blái (Stjáni úr Afkvæmum Guðanna) og Kötturinn Felix (Diddi Fel) um rappið. Ég gæti eflaust skrifað heilan dóm um þetta lag eitt og sér, svo gott er það. Stjáni fer hreinlega á kostum og á hiklaust einn af bestu textunum á þessari plötu. Oftast verður maður fyrir vonbrigðum með næsta rappara eftir að hafa heyrt svona texta og flutning en það gerist ekki hérna, Diddi Fel nær á einhvern óskiljanlegan hátt að toppa Stjána. Besti textinn á plötunni og örugglega einn af þeim bestu í íslensku rappi hingað til. Öll þessi textasnilld er síðan hífð uppá hærra plan þegar Introbeats leyfir okkur að heyra heitasta takt sem heyrst hefur síðan „Þér er ekki boðið“, eða svo gott sem. Málmblásturshljóðfæri til hægri, fiðlur til vinstri og hrista notuð sem hihat.

Eftir alla snilldina í laginu á undan fá Diddi Fel og Bent það hlutverk að fylgja því eftir. Þeir félagarnir rappa um afskipti lögreglu af sér og eru ósáttir með slíkt. Eins og lagið á undan er gott þá er þetta lag jafn lélegt. Þetta lag hefði aldrei átt að komast á plötuna.

7berg, BófaTófan og Diddi Fel koma saman aftur og búa til lagið „Húkkaðu Hómí Upp“. Útkoman er spes, takturinn full einhæfur og rappið ekkert til að missa sig yfir.

Þríeykið heldur áfram í næsta lagi, „Útum Allt“ og bættist Byrkir B í hópinn. Vinahópurinn rappar um náttúruna og er með landafræðitilvísanir þar í bland. Þeim tekst öllum vel til og þá sérstaklega Didda Fel. Takturinn er samsuða af hörpuslætti, synth-um og passar vel við yrkisefni rapparana.

Eins og mátti við búast koma Forgotten Lores saman og búa til lag og er lagið „Borg Óttans“ þeirra framlag. Byrkir B er betri en Class B í þessu lagi þó svo hann standi sig að sama skapi vel. Diddi Fel flytur síðan viðlagið. Takturinn er góður og tekst ætlunarverk sitt, að skapa taugaveiklað andrúmsloft. Eina sem hægt er að setja útá lagið er að það minnir fullmikið á „Veriði Hrædd“ sem var á seinustu plötu Forgotten Lores.

Seinasta lagið er „Auður Strigi“ sem er í höndum Mc Rain. Því miður er risið á því lagi ekki mikið. Furðulegri flutning á texta hef ég ekki heyrt lengi og takturinn minnir mest á leiðinlegt jazz lag. Ef þetta væri ekki seinasta lagið þá myndi ég klárlega ýta á next á geislaspilaranum.

Tívoli Chillout er fín plata og góð viðbót í safnið sem breytir þó tæpast heiminum.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.


Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.