Öll Svörin : Kjartan Holm

Öll Svörin

Kjartan Holm

Hljómsveitin For a Minor Reflection varð flestum kunnug eftir að hafa fylgt Sigur Rós eftir á ferðalagi þeirra 2008. Nú eru FaMR strákarnir nýkomnir frá Hollandi þar sem þeir spiluðu á Eurosonic og önnum kafnir við að semja. Gítarleikarinn Kjartan Holm hripaði niður svörin sín.

Besta lag í heimi er “Vagina Bleeding” með Sudden Weather Change.

Besta plata í heimi er “( )” með Sigur Rós.

Af hverju eru ekki allir að hlusta á “Total Eclipse of the Heart” m/ Bonnie Tyler!

Öll börn ættu að sofna við að hlusta á Guðna Águstsson.

Allir ættu að hlusta að minnsta kosti einu sinni á ævinni á Fugazi eða The Cure.

Bestu tónleikar sem ég hef séð voru Against Me! á Hróa ’07 eða Sigur Rós í Höllinni ’05

Þeir tónleikar sem ég sá ekki en vildi mest hafa séð eru 1) GY!BE í Stúdentakjallaranum ’01 held ég, 2) “Pulse” tónleikana með Pink Floyd ’05 og 3) Converge í Iðnó ’04.

Platan sem mótaði unglingsárin mín er “Dude Ranch” m/ Blink – 182 eða “Seventh Son of a Seventh Son” m/ Iron Maiden.

Þegar ég geng í kringum tjörnina á elliárunum vil ég hlusta á “Ó Reykjavík!” með Vonbrigði.

Ég er það sem ég er því ég hlustaði á gítarrokk!

Ég vildi að ég hefði samið “Comfortably Numb” m/ Pink Floyd eða “Total Eclipse of the Heart” m/ Bonnie Tyler því það er svo svít!

Sá texti sem hrærir mest í hjarta mínu er “Linda (…)” með Gamall Karl.

Besta bömmerlag í heimi er “Gloomy Sunday” með Rezső Seress.

Í eigin hugarheimi gangandi um öngstræti lífsins hlusta ég helst á “Nothing Else Matters” m/ Metallica.

Þegar ryksugutónarnir óma finnst mér að undir eigi að hljóma “Ammælis” m/ Amiina.

Ég var ástfangnastur unglingur þegar ég hlustaði á “Pioneers” með Bloc Party.

Í sturtunni er best að syngja “Eyes of a Cloudcatcher” með Agent Fresco.

Ég myndi helst vilja spila í bandi með Robert Smith eða Paris Hilton…

Vanmetnasta hljómsveit í heimi er Iron Maiden.

Ofmetnasta hljómsveit í heimi er Bítlarnir.

Þú ættir að hlusta á “Juno” m/ Tokyo Police Club, “BlindBlindBlind” m/ Thee Silver Mt. Zion Memorial Orchestra and Tra-La-La Band eða “Waiting Room” m/ Fugazi.

Pivot – O Soundtrack My Heart

Einkunn: 4
Utgafuar: 2009
Label: Warp Records

Yndislegur B-klassa vísindaskáldskapur í hljóðformi. Ein af bestu plötum síðasta árs.

Pivot - O Soundtrack My HeartÚtgáfufélagið Warp Records er þekktast sem (ó)krýndur konungur IDM stefnunnar. Á tveimur áratugum hafa margir af áhrifamestu raftónlistarmönnum samtímans sprottið fram á þeirra vegum: Autechre, Squarepusher, Boards of Canada og að ógleymdum Aphex Twin. En undanfarið hefur Warp verið að sækja í sig veðrið í rokksenunni, með bönd eins og Grizzly Bear, !!! og Battles á sínum snærum. Ástralski tríóinn Pivot bættist svo við á tilkomumikinn flytjendalistann í lok árs með sinni annari breiðskífu, O Soundtrack My Heart.

Það má segja að tónlistarsköpun Pivot rísi upp úr rústum síðrokksins – og ýmislegt (og misáhugavert) hefur nú komið þaðan. Pivot fellur í hóp post-rokk sveita eins og Mogwai og Errors sem í endurfæðingunni sóttu til raf- og danstónlistar. En það er auðveldlega hægt að greina önnur minni úr sögu rokktónlistarinnar en einungis post-rokk: þarna er kraut, math og þesslags stærðfræðiformúlur, smá sækadellika, 8-bæta popp og jafnvel nett glys. Hvað elektrónísku hlið Pivot varðar, þá sækja þremenningarnir enn lengra aftur í tímann en fyrrnefndar sveitir; mér dettur helst í hug Kraftverk og Mike Oldfield. Og á köflum B-klassa vísindaskáldskapur frá Hollywood einhverntímann á áttunda áratugnum. Þetta er aðlaðandi og ferskur hljóðheimur – sérstaklega á tímum þar sem endurkoma níunda áratugarins virðist tröllríða allri elektrónískri tónlistarsköpun.

Já, B-klassa vísindatryllir er ekki svo fjarri lagi! Inngangslagið „October“ staðsetur þig og neglir stemninguna með tölvupípi: ekki plánetan jörð heldur eitthvað framandi landslag, annarleg birtuskilyrði og mögulega er einhver geimmaður þarna á reiki. Í titillagi plötunnar, „O Soundtrack My Heart“, er klikkaði vísindamaðurinn (og aðal illmenni vellunnar) kynntur til leiks með fyrsta digital hljóðgervli sögunnar og suddalegum rokk-rythma. Brjálæðisleg áform hans koma svo fram eins og hreðjaspark með vælandi gítar. Í „Fool in Rain“ er flogið um í geimskutlu og í óteljandi mæliglösum mallar marglitur vökvi. „My Heart Like Marching Band“ ómar undir þegar að söguhetjan kyssir stúlkuna einu, eftir að hafa nýlokið við að slátra slímugri veru. Og auðvitað deyr stúlkan í upphafi „Epsilon“ af völdum vísindamannsins svo að söguhetjan eltir hann eftir allri endilangri vetrarbrautina og drepur rétt undir lok með laser-kjarnorku-sprengjuvörpu. Að lokum er honum tekið eins og keisara við heimkomu sína í „Sing, You Sinners“ með kyrjandi áströlum, síendurteknum gítarriffum og taktsmellum.

Þetta er sennilega fremur torskilið, gerum þetta skipulega! Það sem Pivot gerir, er að færa framsækna rokktónlist inn í þematískan hljóðheim, skapaðan úr elektróník af gamla skólanum. Lagasmíðarnar eru bæði í senn melódískar og rythmískar; á köflum epískar eða jafnvel hetjulegar, frá því að vera einungis dáleiðandi hljóðumhverfi og andrúmsloft og yfir í að vera sundurtætt stemning með tíðum kaflaskiptingum. Þremenningarnir eru líka óhræddir við tilraunastarfsemi og hittir hún yfirleitt í mark.

O Soundtrack My Heart hljómar í fyrstu eins og eitthvað sem vinur þinn sýnir þér og þú segir: „Auj! Kúl“ en hlustar svo ekkert meira á. En ef plötunni er leyft að veltast um í spilaranum nokkrum sinnum, þá vinnur hún skuggalega á! Hví? Jú, hrynjandi og melódíur kallast á við hvort annað í snilldarlegu jafnvægi. Sköpunargleðin skín i gegn og lagasmíðarnar óvæntar og skemmtilegar. Og síðan er frumlegur, dáleiðandi hljóðheimur listilega fléttaður við herlegheitin. Að mínu mati, án efa, sjöunda besta plata síðasta árs!

Pivot – O Soundtrack My Heart

200.000 Naglbítar og Lúðrasveit Verkalýðsins – 200.000 Naglbítar og Lúðrasveit Verkalýðsins

Einkunn: 5
Utgafuar: 2008
Label: Canned Records

Naglbítarnir og Lúðrasveit Verkalýðsins senda frá sér hreint og klárt meistaraverk!

200.000 Naglbítar og Lúðrasveit Verkalýðsins - 200.000 Naglbítar og Lúðrasveit VerkalýðsinsVilli Naglbítur setti sig í samband við Lúðrasveitina og vildi gera plötu. Þetta var fyrir nákvæmlega ári síðan. Síðan þá hafa um 100 manns komið að verkefninu við ýmist stífar æfingar eða upptökur. Þetta gerðu menn meðfram vinnu og skóla enda er Lúðrasveitin jú áhugamannasveit. Upptökur hófust svo sumarið 2008 og því óhætt að álykta að nostrað hafi verið við hvert einasta smáatriði (sem heyrist reyndar strax við fyrsta tón). Nú, nákvæmlega ári seinna, hefur afrakstur þessarar vinnu litið dagsins ljós og er varla hægt að segja annað en allir sem að verkinu komu megi vera afar stoltir af útkomunni.

Það hefur sjálfsagt ekki reynst auðvelt að útsetja lög Naglbítanna fyrir Lúðrasveitina enda rokktónlist töluvert frábrugðin mörsum og öðru sem lúðrasveitir flytja almennt. Þeim Einari Jónssyni, Haraldi V. Sveinbjörnssyni, Inga Garðari Erlendssyni, Mattías V. Baldurssyni og Páli ívan Pálssyni, sem sjá um útsetningar, tekst þó meistaralega vel til verks og eiga mikið hrós skilið. Ekki bara fyrir að túlka tónlist Naglbítanna yfir í eitthvað bitastætt fyrir Lúðrasveitina heldur líka fyrir að leyfa henni að njóta sín í heild sinni. Hér eru tvær ólíkar sveitir að spila saman sem jafningjar og þeim tekst það fullkomlega. Ef eitthvað er þá eru það Naglbítarnir sem spila undir hjá Lúðrasveitinni en ekki öfugt, eins og maður hefði haldið að tilhneiging væri til.

Lög Naglbítanna sem tekin eru fyrir á plötunni voru vel flest ágæt í sínum upprunalega útsetningum en færast yfir í allt aðra vídd með aðkomu Lúðrasveitarinnar og snilldarlegum útsetningum fimmmenningana sem minnst var á hér að ofan. Allt vopnabúr Lúðrasveitarinnar er nýtt við flutning laganna og fær hvert einasta hljóðfæri að njóta sín. Þetta gerir það að verkum að lögin eru allt í senn gædd dramatík, spennu, drunga, mikilfengleika og hugljúfri angurværð sem maður gat vart ímyndað sér að leyndust í annars ágætum tónsmíðum Naglbítanna. Ljúfsárar melódíur breytast í tilfinningalega rússíbanareið og kæruleysislegar dægurflugur breytast í upphefjandi lofsöngva sem skáka myndu hvaða ættjarðaróði sem er.

Flutningur, útsetningar og upptökustjórn er nánast óaðfinnanleg. Ef ég væri virkilega tilneyddur að finna eitthvað til setja út á, sem ég á erfitt með, þá væri það útsetningin á laginu “Neðanjarðar” sem mér fannst aðeins of hæg en engu að síður er lagið frábært, eins og öll hin lögin á plötunni. Annars er ekki mikið meira um málið að segja. Naglbítarnir og Lúðrasveit Verkalýðsins hafa galdrað fram hreint og klárt meistaraverk sem á án efa eftir að lifa lengi með landsmönnum öllum.

Sjaldan hefur niðurstaða plötudóms sem ég hef skrifað (og hef skrifað þá allmarga) verið jafn borðleggjandi og augljós eins og í þessu tilfelli. Niðurstaðan er einfaldlega þessi: 200.000 Naglbítar og Lúðrasveit Verkalýðsins fá fullt hús stiga fyrir plötu ársins!

Til hamingju!

Ratatat á Broadway 20. desember

FM Belfast og Sexy Lazer hita upp

Tónleikar tilefni eins árs afmæli Jóns Jónssonar ehf.

Ratatat á Broadway 20. desemberJón Jónsson ehf. er ekki af baki dottinn þó að kreppi og mun standa í stórræðum rétt fyrir komandi jólahátíð.  Þann 20. desember næstkomandi munu Íslandsvinirnir í Ratatat spila á tónleikum á Broadway sem skipulagðir eru af Jóni Jónssyni ehf. Ratatat hafa áður komið fram á Iceland Airwaves og vöktu þar mikla kátínu meðal viðstaddra.

Rafrænu rokksveitina Ratatat skipa þeir Mike Stroud og Evan Mast.  Þeirra leiðir rákust saman þegar þeir stunduðu báðir nám við Skidmore listaháskólann í New York og gáfu fyrst út tónlist saman undir nafninu Cherry árið 2001.  Heimatökin hafa yfirleitt verið hæg hjá sveitinni þar sem fyrsta breiðskífa þeirra félaga var tekin upp heima hjá Evan í gegnum kjöltutölvuna hans.  Fyrsta smáskífan af henni er slagarinn “Seventeen Years” og var gefin út af útgáfufyrirtæki bróður Evan, Audio Dregs.  Smáskífan barst til XL Recordings sem hefur á sínum snærum tónlistarmenn á borð við Devendra Banhart, Radiohead, Beck, Prodigy, White Stripes, Sigur Rós o.fl.  Útgáfan hreifst svo að Ratatat að hún bauð henni plötusamning og hefur hún gefið út breiðskífurnar þrjár sem sveitin hefur gefið út.

Margar nafntogaðar sveitir og tónlistarmenn hafa fengið Ratatat til að “túra” með sér og má þar nefna listamenn á borð við Björk, Franz Ferdinand, Interpol, Daftpunk, CSS, The Killers, Super Furry Animals o.fl.

Eins og allir aðrir alvöru tónlistarmenn þá eru Ratatat eftirsóttir endurhljóðblandarar og hafa þeir nostrað við lög ólíkra tónlistarmanna á borð við Kanye West, Missy Elliot, The Knife, Dizzee Rascal og Television Personalities.

FM Belfast og Sexy Lazer setja í svitakóf.

Miðasala á tónleikana mun fara fram á Miði.is og í verslunum Skífunnar en miðasala hófst á mánudaginn.

Verð : 2500
Aldur : 18 ár

Nánar um tónleikana á Facebook

Dagur íslenskrar tónlistar

Tónlistargjöf til Íslendinga á degi íslenskrar tónlistar

Íslenskir tónlistarmenn munu standa að tónlistargjöf til Íslendinga á degi íslenskrar tónlistar sem verður haldinn föstudaginn 12. desember.

Dagur íslenskrar tónlistarMikið safn tónlistar frá þessu ári verður aðgengilegt til miðnættis í kvöld. Þar getur almenningur valið úr þeirri fjölbreyttu tónlistarútgáfu og halað hana niður endurgjaldslaust í fullum gæðum. Gjöf þessi verður aðeins aðgengileg þennan eina dag.

Smekkleysa

Smekkleysa býður upp á safnplötu með Bob Justman, Dr. Spock, Ghostigital/Finnboga Péturssyni/Skúla Sverrissyni, Jeff Who?, Kiru Kiru, Sigur Rós, Slugs, Steintryggi, Super Mama Djombo, Björk, Serenu og Hamrahlíðarkórnum.

Sækja tónlist hjá Smekkleysu

Tonlist.is

Geimsteinn, Blánótt, Samyrkjubúið, Skýmir, Dimma, JPV, Kimi Records, ITM, Sena, Sögur, Zonet og 12 tónar hafa sameinast um að gefa lög með Einari Braga, Hvar er Mjallhvít?, Tommygun Preachers, Rokkabillybandinu, Rúnari Júlíussyni, Tómasi R. Einarssyni, Á móti sól, Nýdanskri, Bergþóru Árnadóttur, Sigurði Flosasyni, Hrauni, Kristjönu Stefáns, Gunnari Gunnarssyni, KK, Agent Fresco, Hjaltalín, Morðingjunum, Reykjavík!, Borko, Retro Stefson, Hellvar, Pikknikk, Skakkamanage, Sin fang bous, Múgsefjun, Guðrún Ingimarsdóttur, Snorra Sigfúsi Birgissyni, Graduale Nobili, Hildigunni Rúnarsdóttur, Atla Ingólfssyni, Hymnodiu, Baggalúti, Bubba Morthens, Buffi, Garðari Cortes, Dísu, Esju, Gilligill, Guðrúnu Gunnarsdóttur, Helga Björnssyni, Lay Low, Motion Boys, Ragga Bjarna, Ragnheiði Gröndal, Sálinni hans Jóns míns, Sigurði Guðmundssyni, Sprengjuhöllinni, Stafakörlunum, Stefáni Hilmarssyni, Steina, The Viking Giant Show, Þursaflokknum og Caput, Diddú og Terem, Klaufum, Villa Valla og Evil Madness.

Sækja tónlist hjá Tónlist.is

Kimi Records

Kimi bjóða upp á úrval laga með listamönnum á þeirra vegum eins og Benna Hemm Hemm, Pikknikk, Hjaltalín, Sing Fang Bous, FM Belfast, Múgsefjun, Retro Stefson, Skakkamanage, Borko og Klive.

Sækja tónlist hjá Kimi

Bragi Valdimar Skúlason og Memfismafían – Gilligill

Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Sena

Bragi Valdimar Skúlason færir okkur lög og texta í flutningi einvalaliðs söngvara og úrvals hljóðfæraleikara Memfismafíunnar.

Bragi Valdimar Skúlason og Memfismafían  - Gilligill Það eru til þrenns konar barnaplötur. Barnaplötur sem öllum þykja leiðinlegar, meira að segja krökkunum. Hættulegasta tegundin er barnaplötur sem börnin elska en foreldrarnir hata. Slíkar plötur geta valdið óróa á heimilum. Ítrekuð spilun slíkra platna getur gert alla foreldra kolbilaða. Þriðja tegundin er svo eina tegundin af viti. Barnaplötur sem krakkarnir elska og foreldrarnir fíííla. Gilligill er sem betur fer þannig plata. Þar færir Bragi Valdimar Skúlason okkur lög og texta í flutningi einvalaliðs söngvara og úrvals hljóðfæraleikara Memfismafíunnar.

Platan er ein ellefu lög. Lögin eru mis stór að gerð og umfangi. Allt frá því að vera stuttir léttir brandarar eins og “Kallinn sem keyrir mig í skólann” sem er ekki nema 53 sekúndur yfir í stór og glæsileg lög eins og “Laugardagsmorgun korter yfir sex”. Mitt á milli eru glettnisslagarar eins og “Pabbi minn er ríkari en pabbi þinn” og “Hvað segja dýrin?”. Mér þykja flest lögin alveg stórgóð. Það er eitthvað við “Ævintýrið um Sipp” sem Egill Ólafsson syngur sem mér líkar ekki. Einhverra hluta vegna kemur yfir mig eilítil þörf að spóla yfir þegar það lag kemur. Að öðrum hluta líður platan vel í gegn. Textarnir eru auðvitað alveg stórkostlega skemmtilegir og frasarnir fljóta um og eru minnisstæðir.

Fín spilamennska – Fínn söngur
Söngvararnir eru fjölmargir og allir stórgóðir. Sigríður Thorlacius, úr Hjaltalín, stendur sig gríðarvel og gáskafullur söngur Möggu Stínu á sérlega vel við. Aðrir söngvarar færa plötunni fínan sjarma. Sigtryggur Baldursson, Snorri Helgason (Sprengjuhöllin), Guðmundur Pálsson (Baggalútur) og Sigurður Guðmundsson (Hjálmar) og Egill Ólafsson standa sig allir vel og eins kíkir Bó Halldórsson við í einu lagi í mýflugumynd og gerir það vel.

Það verður gaman að sjá hvort að lögin muni lifa eða hvort að “Pabbi minn er ríkari en pabbi þinn” er bara stundarbrandari sem á vel við í ólgusjó 2008 en ekki í stilllunni 2020. Platan heggur í sama knérunn og frábærar barnaplötur fyrri ára þar sem Hrekkjusvínin tróna hæst. Sú plata á enn sérlega vel við og vonandi verður skírskotun Gilligill jafn sterk í framtíðinni og Hrekkjusvínin hafa nú.

Gilligill tónleikar
Aðstandendur plötunnar hafa staðið fyrir vikulegum tónleikum í Salnum í Kópavogi þar sem farið er í gegnum Gilligill prógrammið. Ég fór þarna með ungviðinu síðustu helgi og get hiklaust mælt með því að fólk kíki með ungana á síðustu tónleikana sem eru næsta sunnudag kl 15. Miðaverðið er bara 1.500 kall og stemmningin er rosaleg góð. Hljóðfæraleikur og söngur er svo alveg til fyrirmyndar. Egill Ólafsson fór fyrir sveitinni sem hálfgerður tónleikastjóri og gerði það vel. Ég gat ekki séð annað en bæði börn og fullorðnir skemmtu sér svakalega vel.

Celestine – At the Borders of Arcadia

Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2008
Label: Milkweed

Ofbeldisfull og níðþung árás.

Celestine - At the Borders of ArcadiaPost-metall á Íslandi? Sjaldséður. Íslenskur post-metall eða þær leifar af honum sem hafa borist í hljóm íslenskra öfgarokkssveita (svo maður steli orði Arnars Eggerts) er líka frábrugðinn hinum erlenda post-metal. Þær íslensku sveitir sem spila eitthvað í líkingu við þessa tónlist sverja sig helst í ætt við hljómsveitir eins og Time to Burn eða fyrstu plötu Cult of Luna, ef eitthvað er. Í stað þess að vera partur af klisjusúpunni sem einkennir post-metal erlendis (en ofboðslega margar sveitir eru starfandi núna sem hljóma nákvæmlega eins og Isis eða Rosetta) er íslenska greinin mun dimmri og myrkari, tregafyllri og sorglegri. Umfram allt eru menn ekki að reyna að vera alltof atmosferískir og með fullt af delay og reverb heldur einbeita þeir sér að óhefðbundnum byggingum og kaflaskiptum. Það er einnig mun meiri harðkjarni en síðrokk í íslenskum post-metal.

Þessi plata með Celestine er gott dæmi um þetta. Virkilega, ógeðslega, hrár og þungur metall sem byggir á níðþungum hljómum frá mikið lækkuðum gíturum, gríðarlega örvæntingarfullum öskrum og dulmögnuðum laglínum þar á milli.

At the Borders of Arcadia er byggð upp sem eitt heildstætt verk og nýtur sín langbest þegar maður rennir henni allri í gegn, það gefur hverju lagi fyrir sig betra samhengi. Celestine gefur lítið fyrir tóntegundir, spilar bara sinn ómstríða og ofbeldisfulla metal og gerir árás. Það er eitt af því sem gefur plötunni sinn sérstaka blæ. Eftir andartak af seiðmögnuðum gítartónum í bland við feedback frá hinum gítarnum tekur við gjöreyðingin og örvæntingin þegar trommur, öskur og meiri distortion koma inn.

Öll þessi orka og þessi óhemja af örvæntingu, skelfingu, brjálæði og geðsýki gerir þessa plötu einhverja þá öfgakenndustu sem komið hefur út á þessu ári. Þessi hljóðveggur sem kýlir mann í andlitið þegar maður hlustar á plötuna er vel þess verður að vera líkt við beljandi Dettifoss af Arnari Eggert. Beljandi foss, lemjandi snjóbylur, hvirfilbylur. Þetta kemur upp í hugann þegar þessi ótamda orka losnar úr læðingi og kremur allt sem á vegi hennar verður.

Það er eitthvað magnþrungið við tilfinningarnar sem koma í ljós. „Despair“ er réttnefni á fyrsta laginu. Það er reitt og örvæntingarfullt lag. „God“ er einn af hápunktum plötunnar, maður finnur þessa óljósu yfirvofandi hættu í hámarki lagsins. Sjálfur hápunktur plötunnar er þó sennilega niðurlag hennar og lokakafli seinasta lagsins; „Me“. Það er einkar ljótt lag framan af (á góðan hátt, ef svo mætti segja), níðþungt og kremjandi. Í lokin brýst svo fram einhver undarlega falleg orka sem er jafnframt full af trega, harmi og dauða. Það er sérstaklega skerandi að heyra í þeim sem öskrar til skiptis við Axel (aðalsöngvara sveitarinnar),  örvæntingin skín í gegn, án þess gera lítið úr Axeli sem öskrar frábærlega á allri plötunni.

Frábær plata og einstök. Ég hef ekki fundið neina aðra sem hljómar eins og þessi. Hún er miklu ljótari og harðari en Isis oftast, dularfyllri og hægari en Meshuggah og þyngri en Cult of Luna eða Callisto til dæmis. Umfram allt eru tjáðar ríkar og sterkar tilfinningar og það er mikil innlifun í þessum myrkragrip. Einungis um 25 mínútur að lengd en fyllilega peninganna virði.

Fimm Frí Emm Pí Þrí

Fimm Frí Emm Pí Þrí

Æðislegt, íslenzkt og ókeypis!
Klive – Comon Wealth Raftónlistarmaðurinn Klive sendi frá sér hina stórgóðu Sweaty Psalms í sumar við góðar undirtektir Rjómans sem gaf plötunni 4.0. Í Common Wealth fær hann Rósu úr Sometime til liðs við sig og á rödd Rósu vel við brotna takta og hljóðskúlptúra Klive. Bæði fyrir harða raftónlistarunnendur rétt eins og þá sem vilja bara svala forvitninni . . .

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Sudden Weather Change – St. Peter’s Day Sudden eru þekktir fyrir þrusugóða tónleika sem einkennast að ansi hressandi keyrslu og stemningu. Í byrjun næsta árs kemur kvintettinn svo loks á plast og má búast við að áhugafólk um jaðarrokk verði ánægt með glaðninginn. Og koma svo: ”Oh my god! I hate Nicholas Cage!”

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Intro Beats – Ertu með Addi Intro er best þekktur sem DJ Forgotten Lores. Út var að koma sólóplata frá honum, Tivoli Chillout, þar sem hann fær marga færustu rímnasmiði landsins með sér í lið. Í laginu Ertu með eru það G. Maris og Birkir B. sem kveða. Gott stöff sem vert er að kíkja á!

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Geir Harðar – Bíða Öðlingurinn ofan af Skaga, hann Geir Harðar var að senda frá sér sína aðra plötu og nefnist hún Týndi Sauðurinn. Þetta er fyrsta platan sem Huldar Freyr Arnarson tekur upp en auk þess útsetti hann flest lögin ásamt Geir. Persónuleg og einlæg plata sem á erindi til okkar flestra . . .

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Sykur – Sykur Þó svo að strákarnir í Sykur séu ungir að aldri, þá eru þeir engir nýgræðingar í danstónlist. Fólk hefur kannski séð þeim bregða fyrir, enda búnir að vera að spila með böndum eins og Hjaltalín og Sprengjuhöllinni. Sykur er skemmtilegur og óldskúl dansslagari! Njótið!

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

ATH! Öll lög eru birt með góðfúslegu leyfi tónlistarmannanna. Við viljum nýta tækifærið og þakka þeim kærlega fyrir!

Zach Hill – Astrological Straits

Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Ipecac/Anticon

Sterkur leikur hjá einum frumlegasta trommara samtímans

Zach Hill - Astrological StraitsZach Hill hefur á undanförnum árum skapað sér dúndrandi orðspor sem trommuleikari Hella tvíeykisins. Hæfileikar hans einskorðast þó ekki við að sprengja hljóðhimnur því hann er einnig frambærilegur málari, en þess til vitnis má líta á umslög platnanna The Devil Isn’t Red og Bitches Ain’t Shit But Good People. Samkvæmt fréttatilkynningu Ipecac útgáfufyrirtækisins er Astrological Straits hans fyrsta sólóplöta, en ef litð er um öxl og ferilskrá þessa afkastamikla trommara skoðuð er ekki laust við að maður klóri sér í höfuð sposkur á svip. Til að mynda var þar síðasta plata Hella, Church Gone Wild/Chirpin’ Hard, tvískipt að hætti OutKast, þ.e.a.s. tvíeykið tók upp eigin plötu í sitt hvoru lagi sem voru síðan gefnar út saman. Auk þess gaf Zach Hill út plötuna Masculine Drugs undir eigin nafni, þó hann hafi haft hljómsveit undir sér það skiptið. Þar fyrir utan eru gestalhjóðfæraleikarar á hverju strái á Astrological Straits og það ekki af verri kantinum. Fremstan meðal jafninga ber að nefna Les Claypool, úr röðum Primus, sem festir titillagið kirfilega niður með bassalínu eins og honum einum er lagið. Tyler Pope úr hljómsveitinni !!! höndlar hljóðbrellur á “Hindsight is Nowhere” og óhljóðatvíeykinu No Age bregður fyrir á “Stoic Logic” og “Ummer”.

Dark Art

Kaliforníurokkið er Zach Hill klárlega í blóði borið en þar er ýmis aðskotaefni einnig að finna. Óhefðbundnar útsetningar ásamt ógurlegri keyrslu Hills bak við skinnin gera það að verkum að platan reynist væntanlega of tormelt fyrir flesta, en fyrir þá sem kunna slíkt að meta er um algjört lostæti að ræða. Auk þess að tromma grípur Zach í ýmis önnur tilfallandi hljóðfæri í flestum lögum, t.a.m. röddina, og er alls óhræddur við að hlaða hljóðbrellum ofan á þau í massavís, sem gefur plötunni einmitt sinn einkennandi hljóm. Við fyrstu hlustun grípa lögin þrjú fyrir sirka miðju plötunnar mann hvað sterkast. “Dark Art”, flaggskip Astrological Straits og hennar fyrsta smáskífa, hefst á frumstæðu hljómborðsstefi sem síðan breiðir úr sér við innkomu trommanna og senn tekur alveg æðisgengið viðlag við, hið fyrsta af mörgum á plötunni. “Keep Calm and Carry On” tekur strax upp þráðinn með Chino Moreno, söngvara Deftones, innanborðs og keyrir hlustandann áfram í krafti lykkjaðra gítarhluta og úthýðingum Hills. Önnur smáskífan, “Hindsight is Nowhere”, er all kæruleysislega byggð upp en stigmagnast jafnt og þétt upp að þriðju mínútu þegar botninn dettur undan með undursamlegum hætti og lagið fjarar seiðandi út undir höktandi trommutakti og hrópum Hills.

Hindsight is Nowhere

No Age dúóið ber síðan fram sitt óreiðukennda en á köflum melódíska framúrstefnu pönk á næstu tvemur lögum. Þeir laga sig með einsdæmum vel að trommustíl Hills en þrátt fyrir frábært innlegg tekst þeim ekki, frekar en öðrum gestum, að stela sviðsljósinu af Hill. Hið óumflýjanlega maraþontrommusóló sem hann hótar í sífellu að sleppa beislunum af fær loksins að leika lausum hala í laginu “Uhuru”. Sem betur fer er það hinsvegar fljótlega niðurnjörvað af kankvísu gítarriffi eftir nokkurra mínútna eltingarleik og tekst ekki að losna undan því þótt það brjótist um á hæl og hnakka til síðustu sekúndu. Auk ofangreindra laga standa “Iambic Strays” og “Momentum” upp úr á sitt hvorum enda plötunnar en feilsporin eru annars ekki mörg. Helst er að nefna textasmíðarnar, sem standast trommunum snúninginn víðast hvar, en bregða út af einstaka sinnum og verða full hallærislegar. Einnig ná einstaka lagabútar ekki að halda skriðþunga laganna gangandi en á heildina litið sýnir Zach Hill hörkutilþrif á þessum frumburði sínum.

No And The Maybes – No And The Maybes

Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2008
Label: A:larm

Frá frændum vorum Dönum kemur sveit sem færir okkur mögulega eina af plötum ársins.

No And The Maybes - No And The MaybesLeif mér að kynna fyrir ykkur þá Mikkel Bagge Lange, Troels Tarp og Anders Wiedemann en þríeyki þetta skipar hina stórgóðu sveit No And The Maybes. Þeir félagar höfðu um nokkurt ske spilað saman einhverskonar avantgarde hávaðarokk undir nafninu Ude Nu en fengu, sem betur fer, le á þeim ósköpum og gáfust upp um mitt síðasta ár. Í framhaldinu ákváðu þeir að taka algerlega nýja stefnu og taka grípandi laglínur fram yfir djúpar, listrænar og tormeltar pælingar. Fyrir um mánuði síðan kom svo afrakstur þessarar stefnubreytingar þremenninganna út undir nafninu No And The Maybes.

Það væri ógerningur að fara yfir þessa merkilegu plötu lag fyrir lag, eða jafnvel að nefna einstaka lög, því öll eru þau það góð, frumleg og heillandi að ég er hreinlega smeykur um að ég búi yfir nægum orðaforða til að lýsa þeim með góðu móti. Sjálfir hafa meðlimir No And The Maybes líst því yfir að lögin sé öll unnin eftir heimatilbúnu verkferli sem þeir kalla Spörfuglinn eða “The Sparrow” eins og þeir kalla það. Gengur það út á að hvert lag beri einhverskonar einkenni, eitthvað lít eins og t.d. klapp, fingrasmelli, röddun eða frumlega útsetningu, sem fangi athygli hlustandans og virki sem viðkunnanleg áminning. Verður ekki annað sagt en að Spörfuglinn virki sveitinni í hag og í raun sé hér um að ræða ekkert annað en snilldarlega nálgun v sköpun popptónlistar.

Það er lengra en mig langar að muna síðan ég hef heyrt jafn áreynslulaust en um le hugmyndaríkt popp. Hér ægir saman ólíkum stefnum allt frá kammerpoppi sjötta áratugarins til hljóðgervilssmitaðrar nýbylgjutónlistar þess áttunda. Með góðum vilja má greina hin óhjákvæmilegu áhrif The Beach Boys og jafnvel Bítlunum en mig grunar þó að áhrifavaldar No And The Maybes liggi mun dýpra en svo. Einnig væri hægt að minnast á sveitir eins og Echo And The Bunnymen og Human Legue en það segir þó eiginlega ekki nema hálfa söguna og varla það. Þetta er eiginlega tónlist sem maður verður að hlusta á ítrekað aftur og aftur til að fá einhverja heildarmynd. Og jafnvel þá er maður kannski engu nær því alltaf uppgötvar maður eitthvað nýtt í hvert skipti sem kollvarpar öllum þeim skoðunum sem maður hafði áður myndað sér á því sem til eyrna manns berst.

Kannski er alger óþarfi að skilgreina tónlist No And The Maybes? Það er jú vel hægt að njóta t.d. myndlistar án þess að skilja concept á bakv myndirnar og það sama gildir að sjálfsögðu um tónlist. Því mæli ég með því að þ verð ykkur úti um eintak af þessari frábæru plötu og njót hennar skilyrðislaust og án fordóma því hún býður svo innilega upp á það, svo góð er hún.

Þó platan sé tiltölulega ný komin út hefur hún feng skammarlega litla umfjöllun (eins og sjá má m.a. á niðurstöðum Google leitar). Það er því ánægjulegt að vera með þeim fyrstu sem fjallar um þessa ágætu plötu og mun, þegar að því kemur að No And The Maybes verða á allra vörum, hvar þ heyrðuð þeirra get fyrst.

No And The Maybes – Monday

TV on the Radio – Dear Science

Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: 4AD/Interscope

Ekki gallalaus – en það sem er gott, er MJÖG gott!

TV on the Radio - Dear ScienceFyrir rúmum tveimur árum vakti platan Return to Cookie Mountain mikla lukku hjá áhugafólki um frumlega rokkmúsík. Í kringum gerð plötunnar var söfnuður fimm gjörólíkra einstaklinga með mismunandi bakgrunn í tónlist og í oflæti sínu skelltu meðlimir saman stefnum og straumum í harkalegan árekstur. Kölluðu sig svo rokkband og komust upp með allt saman! Dear Science er þriðja breiðskífa TVOTR sem fyllir mann efasemdum um þetta rokk-brennimerki sem hljómsveitin ber.

Á fyrstu plötu sveitarinnar, Desperate Youth, Blood Thirsty Babes, einkenndist hljómurinn mjög af síendurteknum takt-lúppum kæfðum í fuzzy rafgítar og svo var einhver annarleg acapella stemningu á köflum. Fyrsta lag plötunnar, “Halfway Home”, er trú þeim resept. Bætum þó við soul-söng Adebimpe og Malone, drynjandi elektrónískum töktum, lófaklöppum og þéttu rokk aksjóni. Mjög hressandi upphaf!

En síðan er slökkt á overdrive-pedalanum og nokkur varfærnisleg skref tekinn nær popptónlist. Það er daðrað við hip-hop, fönk, nýbylgjurokk og danstónlist og ofan á það eru svo breidd lög af brassi, strengjum, hljóðgervlum og raddpælingum. “Stork and Owl” er dæmi um lag sem grípur þessi element þéttum tökum: raddirnar látnar fylgja syntha-stefi á skemmtilegan máta, bítið er flott og grípandi og strengirnir gefa svo fremur einfaldri lagasmíðinni dýpt. “Crying” er annað lag sem vert er að minnast á: semi-fönkaður rafbræðingur þar sem brassið mætir í partí og Adebimpe syngur grípandi söngmelódíuna á sinn yndislega hátt. Textinn er líka andskoti góður! (og reyndar eru textarnir flestir mjög metnaðarfullir.)

TVOTR kunna þó fleira en að rokka og dansa til að gleyma. Þeir hafa vald á því að semja gullfalleg lög, sem dæmi má nefna “Tonight” af Cookie Mountain. “Love Dog” er sorgarvísa sungin við virkilega flott bít, Rhodes-píanó og strengi – hittir beint í mark! “Family Tree” er svo hreinræktuð ballaðra: fallegt píanóstef tekið i gegnum delay, hálfvæmnar beiskt/sætar strengja útsetningar og sárþjáð rödd Adebimpe túlkar texta um forboðnar ástir. Og undir lok lags lauma þeir svo inn látlausum takti sem rekur smiðshöggið á snilldina! Bræðir stálhjörtu eins og smjör . . .

En platan er alls ekki gallalaus. Í dag væri nærtækast að sækja myndmálið í kreppuna: það vantar samstöðu í lagahópinn. Óreiðukennt er þotið úr einu í annað og hljómur laganna er svo ólíkur að hlustendur verða kolringlaðir í höfðinu. Kannski væri bara nóg að breyta uppröðun laganna, byrja hátt og enda lágt – já, eða bara öfugt! Nokkur lögin er heldur ekkert til að hrópa húrra! fyrir: “Red Dress” og “Golden Age” væri helst að nefna, frekar ódýrir en dansvænir popparar sem falla ekki inn í þennan fyrrnefnda laga-hóp.

Ég las viðtal við Adebimpe fyrir stuttu þar sem hann sagðist hafa reykt um 300 grömm af grasi á mánuði við gerð síðustu plötu en á þessari hafi hann verið að mestu leiti edrú. Þetta skilar sér, því það er stigið upp úr mókinu og ærslagangur listamannanna birtist í músíkinni. Því þó svo að TVOTR vilja láta taka sig alvarlega þá gera þeir það svo kannski ekkert sjálfir. Húmorinn og hressleikinn gerir plötunni bara gott!

Dear Science er án efa aðgengilegasta plata sveitarinnar. Þeir sem ekki hafa skilið TV on the Radio til þessa, fá núna séns til þess. Platan er melódísk og grípandi, frumleg en sækir engu að síður í það klassíska og skiptist á milli að vera hress og glaðleg og sorgmædd og tregafull. Og þó svo að hún beri nokkra auma marbletti, þá er það sem gott er á skífunni, hreinlega MJÖG gott! TV on the Radio er eitt að þessum “hæpuðu” böndum sem verðskulda alveg athyglina . . .

TV on the Radio – Dancing Choose

Ultra Mega Technobandið Stefán – Circus

Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: Tuddi

Teknópönkararnir hemja sig en skila þó ótrúlegri orku til áheyrenda

Ultra Mega Technobandið Stefán - CircusÞegar Ultra Mega Technobandið Stefán stígur á svið og hefur tónleika leysist ótrúlegur kraftur úr læðingi og á milli hljómsveitar og áheyrenda myndast spenna – já, og stuð! Frumburður UMTBS hefur verið lengi á leiðinni og voru margir efins um að sveitin gæti náð að fanga „rétta“ stemningu í plastform.

Sveitin er jú mun hrárri og kraftmeiri á tónleikum en á Circus og saknar maður þess að hafa ekki aðeins meira rokk og brjálæði. Á móti notar UMTBS tækifærið til þess að bæta ýmsum smáatriðum við lögin sem minna fer fyrir á tónleikum. Lögin eru þó einföld í grunninn – pönkað teknó þar sem áherslan er á ótrúlega grípandi laglínur. Þessi formúla virkar jafnvel á plasti og á tónleikum og sannfærir áheyrendur um að það sé meira spunnið í drengina en óbeisluð gredda.

Ultra Mega Technobandið Stefán –  Story of a Star

UMTBS hefur safnað sér ágætu safni af grípandi lögur þar sem „Story of a Star“, „Cockpitter“ og „3D Love“ standa upp úr og mörg önnur eru vel stuðvæn. Nokkur lög eru þó á grensunni hvað varðar gæði en ef ekki væri fyrir nokkuð hresst synthasóló í „Must Move Me“ myndi ég líklega skippa yfir lagið við hverja hlustun. Textarnir eru svo sér á báti en furðulegri textasmíði er vandfundari, þeir eru þó ómissandi hluti af lögunum og hvet ég fólk til að lesa textablað plötunnar sér til skemmtunar.

Helsti galli plötunnar er umgjörð hennar – en af einhverri ástæðu þá ákvað sveitina að umlykja lögin hálf asnalegu sirkús þema. Hluti af því er hrikalega ljótt umslagið sem ómögulegt er að finna nokkuð jákvætt við (því miður). Verra eru þó sirkúslegir kaflar sem heyrast í byrjun, um  miðbik og í enda plötunnar. Þeir eru ekki bara hrikalega hallærislegir heldur algjörlega úr takt við tónlist sveitarinnar. Maður hristir eiginlega hausinn yfir því afhverju einhver nákominn sveitinni benti þeim ekki á að vænlegra væri að sleppa þessu þema algjörlega – því það dregur plötuna því miður niður.

Þegar á heildina er litið mætti ýmislegt hafa verið betur gert á Circus en Ultra Mega Technobandið Stefán stendur þó vel fyrir sínu. Fáar sveitir hafa yfir jafnmikilli orku að búa og hún skilar sér óbeisluð til áheyrenda. Circus kemur flestum í gott skap (nema kannski helstu fýlupúkum) og eykur sjálfkrafa orku áheyrenda. Hún virkar því einstaklega vel í partýum og í ræktinni – en gleður líka undir öðrum kringumstæðum. Ég myndi samt sleppa því að hlusta á hana rétt fyrir svefninn, hætta er á að maður sleppi fram af sér beislinu og fari að gera eitthvað allt annað.

Ultra Mega Technobandið Stefán –  3D Love

Myndbanda mánudagur

Myndbönd við nokkur ómissandi lög

Nokkur vel valin lög og afrakstur þess, að þau voru fest á filmu.

No And The Maybes – Monday

Einstaklega áhugaverð dönsk sveit sem gaf út samnefnda plötu ekki fyrir löngu. Platan sú er að vinna sig hægt og rólega upp árslistann hjá mér og gæti mjög auðveldlega endað á topp 10 ef fer sem horfir.

Shout Out Louds – Tonight I Have to Leave It

Opnunarlag plötunnar “Our Ill Wills” sem hin sænska Shout Out Louds gaf út í fyrra. Þetta er ein af þessum plötum sem slapp undir radarinn hjá mörgum en á þó alla okkar athygli skilið.

Housse de Racket -Oh Yeah!

Hinn franski dúett Housse de Racket gaf út sína fyrstu plötu í síðasta mánuði og nefnist hún “Forty Love”. Þetta er EKKI það sem búast má við frá frönskum raf- og popptónlistarmönnum og er án efa eitt það ferskasta sem komið hefur þaðan í talsverðan tíma.

Megapuss – Adam and Steve

Hin undarlega nefnda tónlistarfyrirbæri Megapuss, hliðarpródjekt sem Devendra Banhart stofnaði, gaf út plötuna “Surfing” ekki fyrir löngu. Hér er lag af henni. Helvíti gott meira að segja.

Andrúm – Andvakar

Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2008
Label: Andrúm

Fá andköf yfir Andrúm

Andrúm - AndvakarLítt kunn landsmönnum gaf hljómsveitin Andrúm út sína fyrstu plötu fyrr á þessu ári. Þó hafði hún gefð út litla EP-plötu fyrr sem lítið bar á.
Sveitin, skipuð fjórum drengjum og einni stúlku, ákvað að nefna frumburð sinn Andvakar.
Frumburð sem inniheldur sex lög sem öll rúlla í gegn án andartaks af þögn.

Í upphafi virðist Andvakar ekki bera á meiru en tilraunum. Tilraunum sem ganga engan veginn upp að mínu mati og kveikja innra með mér vantraust til áframhaldsins.
Þannig er upphafslag Andvakar, sem samnefnt er plötunni, til að byrja með allt of langt og langdregið og kaflaskiptingar engan veginn framkvæmdar að hlustandi vakni til lífsins, fái gæsahúð eða yljar að innan. Söngkona sveitarinnar, Jóna Palla, raular og hummar undir ábótavönu proggi sveitarinnar.

Örlítið lyftist platan upp í öðru lagi, Nozinan. Taktar eru þar keyrðir ögn hraðar og textar gengnir til liðs við tónlistina. Gítar er afar einfaldur en fallegt orgel ómar fyrir aftan einfaldan spilandann sem Jóna Palla breiðir yfir fallegan söng og íslenskum texta. Laglínan er þó ekki eins sérstæð og maður hefði haldið vegna einfaldleika lagsins sjálfs en þó gengur lagið vel upp með ágætis keim af sýru á síðustu metrunum sem svo keyrir aftur inn í einfaldleikann áður en lagi lýkur.

Report er þristur plötunnar en hér er sungið á ensku. Suðurríkjakennt og mun rokkaðara en fyrri lög plötunnar, sýnir sveitin á sér ferska hlið. Þó textar séu oft á tíðum afar klisjukenndir er uppbyggingin ágæt og viðlagið grípandi.

Hugurinn Reikar er ágætis nafn yfir lagið sem lét mig minnast meistara Sigur Rós. Upphafstef lagsins er í raun allt of líkt upphafi lagsins Ágætis Byrun til að hægt sé að njóta þess sem frumlegs og áhugasömu efni frá nýrri sveit. Þó gítarlínur séu auðvitað ekki þær sömu og hjá Sigur Rós er uppbyggingin og smíðar of líkar til að lagið festist við. Einnig má nefna að píanóleikurinn minnir sömuleiðis (í þessu samhengi tónlistarinnar) á lag af sömu plötu Sigur Rósar. Hljóma Andrúm hér líkt og Sigur Rós fyrir rúmum áratug, með fínni söngkonu. Textar lagsins eru þó ágætir. Þau mega eiga það.

Eftir flashback til ársins 1999 heldur platan áfram með laginu Pictures. Enskan er hér aftur notuð til textagerðar en þar sem textarnir voru ágætir á móðurmálinu hefði sveitin þess vegna getað haldið sig við íslenskuna á plötunni því lítið stendur eftir af textagerð ensku parta plötunnar. Fimmta lagið er þó ágætt og keyrt er örugglega í gegn með blúsuðum gítar og tregakenndum söng. Gengur ágætlega upp með fínum gítareinleik fyrir því miðju en lagið er rúmar tíu mínútur.

Rólega keyrist síðasta lag plötunnar Móab upp í ágætis blúsrokk sem líður út í hálf vandræðalega stund af bassatrommu-sneril-leik og bassaleik sem lekur út í sýru þegar lítið er eftir af laginu. Rennir svo sveitin í einfalt rokk-riff og andar frá sér þessari fyrstu plötu sinni.

Ég veit ekki hversu mikið er hægt að mæla með þessari plötu. Fyrir hvern og af hverju? Án efa væri þó ágætis skemmtun að sjá þessa ágætis sveit á ágætis sviði. Hingað til hefur hún þó ekki heillað en þeir sem þó vilja prófa, skoða og meta sjálfir ættu að kynna sér Andrúm. Ný og fersk sveit sem jú, leitar mjög í annarra rætur. á kannski eitthvað fyrir ákveðinn hóp hér á landi sem aðrir eiga ekki.

Tilvalin jólagjöf fyrir unglinginn sem er að skoða proggrokkið og leika sér með hljóðfæri í skjóli stofunnar heima á sér.

Einnig vil ég hrósa hljómsveitinni í hástert fyrir albúm plötunnar en myndin sem kápuna ber gefur mjög góða innsýn inn í þessa tegund tónlistar. Fínnar tónlistar sem hentar þó engan veginn öllum.

Squarepusher – Just A Souvenir

Einkunn: 3
Utgafuar: 2008
Label: Warp Records

Tólfta plata meistara Squarepusher sýnir að hann kann að endurnýja sig en þó ekki með jákvæðum árangri.

Squarepusher - Just A SouvenirJust a Souvenir er tólfta plata Tom Jenkinson sem öllu jöfnu gengur undir listamannsnafninu Squarepusher. Samkvæmt því sem Jenkinson segir sjálfur byggir platan á dagdraumum hans um ímyndaða súpergrúbbu að spila á sviði. Á platan víst að vera einhverskonar minjagripur (souvenir) um þessar hugaróra hans en einhvernvegin efa ég að hlustendur átti sig á þessari tengingu við það að hlíða á hana. Nánari lýsingu á þessum dagdraumum má lesa hér.

Maður veit aldrei hverju maður á von á þegar Squarespusher er annars vegar. Hann hefur sýnt að hann er ólíkindatól hið mesta og er óhræddur við að prófa sig áfram og kanna ný form. Þrátt fyrir það tapar hann þó aldrei einkennum sínum þó vissulega nái hann stundum að fara langt út fyrir það sem búast má við af honum. Á Just a Souvenir nær meistari Jenkinson einmitt að koma á óvart þó enn snúist allt um hinn sérsmíðaða sex strengja bassa og hin sögulegu forritunar- og tölvutrikk sem hann er hvað þekktastur fyrir. Þrátt fyrir ákveðinn spenning við fyrstu hlustun eru þessi nýbrigði, þegar upp er staðið, ekki nógu merkileg til að fleyta plötunni upp yfir meðalmennskuna. Þrátt fyrir marga góða spretti snýst því Just a Souvenir, þegar öllu er á botninn hvolft, um það eitt að flytjandinn varð sér úti um fuzzbox og er afraksturinn ekkert annað en tilraunir hans með slíkt apparat sem skila misjöfnum árangri.

Einstaka lög standa upp úr. Opnunarlagið “Star Time 2″ gæti allt eins verið af meistaraverkinu Hard Normal Daddy en þar sýnir Jenkinsonacid djassarinn í honum lifir enn. “A Real Woman” er líklega eina alvöru rokklag Squarepsuher til þessa en það minnir á köflum óneitanlega á The Ramones með sínum grípandi laglínum og gítarfrösum. Í beinu framhaldi af “A Real Woman” kemur svo hið hráa og grjótharða lag “Delta V” sem vantar bara Zack de la Rocha uppá til að vera eitthvað Rage Against The Machine hefðu verið full sæmdir af.

Af ofangreindum lögum undanskyldum er platan lítið annað en endurtekningar á kunnuglegu þema og í raun fátt nýtt að gerast. Squarepusher virðist telja sig skyldugan að láta óræðar hljóðtilraunir sínar, sem í raun eru hundleiðinlegar, fylgja með og auðvitað eru alltaf eitt eða tvö stefnulaus acid djass lög þarna einhversstaðar. Það verður þó að játast að það sem herra Jenkinson lætur frá sér gerir hann vel og tæknilega séð er hann enn skrefi framar en sambærilegir listamenn. Vandamálið er að maður er alltaf að bíða eftir einhverju ótrúlegu, einhverri snilld, því Squarepsuher er svo sannarlega fær um slíkt. Því miður er fátt um slíkt á þessari plötu.


Squarepusher – Planet Gear from Warp Records on Vimeo.

Fimm Frí Emm Pí Þrí

Fimm fimbul góð lög

Á krepputímum er allt frítt vel þegið. Sérstaklega ef það er svolítið hressandi!

Holy Fuck – Lovely Allen Strákarnir í kanadíska bandinu Holy Fuck blanda listilega saman rokki og raftónlist. Þetta hressandi lag er af plötunni þeirra LP sem kom út seint á síðasta ári. Band sem ég mæli eindregið með að fólk kynni sér.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Ratatat – Mirando Rafdúettinn Ratatat gaf út sýna þriðju breiðskífu á árinu. Eflaust þekkja bandið margir frá því að það spilaði á Airwaves um árið eða þegar hittarinn Seventeen Years hljómaði á dansgólfum Reykjavíkur. Mirando hljómar ferskt! Samanklipptir takt-stubbar, vælandi gítar og grípandi píanólína ættu að setja bros á varir fólks í kreppunni!

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Seabear – Drunk Song Tekið af fyrstu plötu Seabear, Singing Arc EP. Á þessum tíma var sjávarbjörninn einn að dútla með sjálfum sér. Hægt er að niðurhala allri plötunni hér.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Animal Collective – Brother Sport Strawberry Jam var að mínu mati besta plata síðasta árs! Furðufuglarnir í Animal Collective ætla svo að snúa aftur með nýja plötu í Janúar sem nefnist Merriweather Post Pavilion. Brother Sport verður lokalag plötunnar. Eigum við ekki að taka forskot á sæluna?

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

MGMT – Time to Pretend Oracular Spectacular á sennilega eftir að enda ofarlega á árslistum gagnrýnenda. Dúettinn framreiðir hressandi rafpopp þar sem áhrifin eru sótt til margra ólíkra eldhúsa.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Venetian Snares – Detrimentalist

Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Planet Mu

…án efa ein besta og aðgengilegasta plata Venetian Snares í langan tíma.

Venetian Snares - DetrimentalistÞað eru fáir raftónlistarmenn jafn afkastamiklir og hinn kanadíski Aaron Funk, eða Venetian Snares eins og hann kallar sig. Hann heldur áfram þeirri hefð sinni að gefa út þetta tvær til þrjár plötur á ári í bland við mýgrút af 12 tommum, EP plötum og smáskífum.

Á þessari nýjust plötu sinni hverfur herra Funk aftur til gullaldartíma jungle og rave tónlistar og notast óspart við þekkt minni úr stefnum og straumum þess tíma. Amen takturinn er auðvitað alls ráðandi en mörg þekkt “break” fá að fljóta með sem og eitt helsta einkenni jungle tónlistar sjálft ragga-rappið. Eiginlega má segja að á köflum sé platan hálfgerður nostalgíu-óður til liðinna tíma þó vissulega sé efnið fært nær nútímanum með öllum þeim tölvugöldrum sem í boði eru í dag.

Eins og ég sagði eru minnin mörg: hljóðbútar úr karate myndum eru til staðar, Sly And The Family Stone hammond “hittið” og auðvitað hið ómissandi James Brown heróp. Rave píanó og þung, umliggjandi hljómborð sem einkenndu 90’s rave hreyfinguna láta sig ekki vanta heldur. Við þetta bætist svo hellingur af allskonar effect-um, smáhljóðum, sömplum, töktum og jafnvel strengjum (sem einkennt hafa síðustu plötur Venetian Snares) eins og heyra má í lokalaginu.

Á Detrimentalist er ekki verið að spara tölvutrikkin. Hvert einasta tækifæri er notað til að teygja, toga, stama og tæta. Hljóðin og taktarnir hendast á milli eins og þau hefðu verið sett í málningarhristara en missa samt aldrei taktinn eða samhengið, þó vissulega sé oft dansað ansi nálægt mörkum þess sem teljast má bæði danshæft og áheyrnarhæft. Það er stutt í geðveikina og á köflum er eins og hún nái öllum völdum og lögin leysast upp í handahófskenndan hljóðgraut. Sem betur fer er ekki mikið um slíkt á plötunni og tekst leiðsögumanninum, honum Funk, að halda sér að mestu við setta stefnu.

Í lögum eins og “Bebikukorica Nigiri” og “Miss Balaton” má greina greinilegar skírskotanir yfir í þann ambient hljóðheim sem menn eins og Aphex Twin og Squarepusher hafa þróað og fullkomnað síðustu ár. Sýnir það að Venetian Snares er fullkomlega á pari viðslíka listamenn bæði hvað háhraða takta samsuðu varðar sem og lágstemmdari og melódískari tónsmíðar varðar.

Detrimentalist er án efa ein besta og aðgengilegasta plata Venetian Snares í langan tíma. Hún er uppfull af galsa og húmor og tekur sig aldrei of alvarlega. Vissulega eru tónsmíðarnar tormeltar og aðeins fyrir harða áhugamenn jungle/drum n bass/breakcore tónlistar en á plötunni ætti þó að vera nóg til að fullnægja þörfum hinna áhugasömu.