Vök sendir frá sér þröngskífuna Circles

Vök - Circles

Hljómsveitin Vök gefur á morgun, föstudaginn 22. Maí, út sína aðra þröngskífu en hún nefnist Circles.

Sveitin er ný komin heim eftir vel heppnaða ferð á The Great Escape tónlistarhátíðina í Brighton þar sem sveitin hefur hlotið frábæra dóma fyrir tónleika sína. Framundan eru tónleikar í Hörpu þar sem sveitin hitar upp fyrir Ásgeir 16. Júní og þá spilar sveitin á Hróaskelduhátíðinni ásamt fleiri tónlistarhátíðum vítt og breytt um Evrópu.

Vök er skipuð Andra Má Enokssyni, Margrétri Rán Magnúsdóttur og Ólafi Alexander Ólafssyni.

Upptökur og upptökustjórn var í höndum hljómsveitarmeðlima en Biggi Veira, oftast kenndur við GusGus, sá um hljóðblöndun og hljómjöfnun.

Ný plata og tónlistarmyndband frá Mosi Musik

Í fréttatilkynningu segir:

Fyrsta plata Mosi Musik kom út þann 25. apríl og ber hún nafnið I am you are me. Um er að ræða 12 laga plötu sem spannar nokkrar tónlistastefnur. Hljómsveitin er þekkt fyrir fjölbreytileika í sinni músík en oft hefur reynst erfitt að skilgreina tónlist Mosi Musik í einu orði og hefur hún verið kölluð allt frá “Epic power disco” (Chris Sea fyrir Rvk Grapevine) yfir í “The future sound of pop music” (Lewis Copeland) en hljómsveitin kallar sjálf tónlistina “Electro Power Pop Disco”.

Mosi Musik frumsýndi nýtt tónlistarmyndband 18. Maí við lagið “I Am You Are Me” en í laginu rappar hún Krúz með sveitinni.

Jón Teitur Sigmundsson og Hollendingurinn Joost Horrevorst leikstýra myndbandinu en sem framleitt er af Nágranna.

Good Moon Deer gefur sína fyrstu plötu á netinu í dag

Good Moon Deer

Tónlistarsjálf listamannsins Guðmundar Inga Úlfarssonar, Good Moon Deer, gefur á hádegi í dag út sína fyrstu breiðskífu, Dot, á vefsíðunni www.goodmoondeer.com. Hægt verður að hlaða niður plötunni frítt. Á síðunni er einnig að finna nýtt myndband við fyrsta lag plötunnar, en myndbandið vann Guðmundur í samstarfi við Hrefnu Sigurðardóttur og Axel Sigurðarson.

Platan inniheldur 8 lög sem öll hafa verið unnin undanfarin 4 ár eða svo, eða síðan Good Moon Deer kom fyrst fram á Iceland Airwaves árið 2011. Um mix og masteringu sá Friðfinnur Oculus Sigurðsson sem meðal annars var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir vinnu sína á síðustu breiðskífu Samaris.

Good Moon Deer heldur partý í kjallaranum á Paloma laugardaginn næstkomandi til að fagna útgáfunni, en þar ætlar hann að þeyta skífum ásamt Solaris Sun Glaze til lokunnar.

Early Late Twenties senda frá sér stuttskífuna ELT EP

Early Late Twenties

Við erum sem sagt búin að búa og vera í námi í Hollandi síðustu 4 -5 árin eða svo og milli annarra verkefna og skólans höfum við skapað og spilað mússík saman, algjört do it yourself attittjúd og 100% bedroom production.

Þetta sögðu þau María Magnúsdóttir og Ægir Þór um samstarf sitt í dúóinu Early Late Twenties. Saman störfuðu þau þó í mörg ár undir nafninu Cult of the Secret Samurai ásamt fleirum en að þeirra sögn var það ekki fyrr en byrjuð var upp á nýtt sem dúó, með skýrari mynd af því hvernig tónlist þau vildu skapa, að hlutirnir fóru að gerast. Þannig er samstarfið margra ára gamalt þó hljómsveitin sé ný.

Early Late Twenties varð til í október á síðasta ári og stuttskífan ELT EP kom út 15. apríl síðastliðinn og hægt að kaupa hana á Tónlist.is, Bandcamp og iTunes á sanngjörnu verði.

Ásamt því að vera Early Late Twenties eru þau Ægir og María einnig með eigin sóló verkefni sem þau nefna Ægir The Artist og MIMRA.

Ný smáskífa með Buspin Jieber

We Came As We Left by Buspin Jieber
Í fréttatilkynningu segir:

Reykvíski raftónlistarmaðurinn Buspin Jieber býður okkur upp á afturhvarf til fortíðar með nýjustu smáskífu sinni We Came As We Left. Við hlýðum á saklausari tíma – tíma þegar tölvuleikir voru í átta bitum, strákar gengu um með brilljantín í hárinu og stelpur kepptust um stærstu axlarpúðana.

Sumir kalla tónlistina „retro-wave“ eða jafnvel “retro-fútúrisma” – en burtséð frá öllum skilgreiningum þá er fyrst og fremst um að ræða góða tónlist. Hljóðgervlar og taktfasta trommur ráða ríkjum, en listamaðurinn nær á lúnkinn hátt að færa hlustandann aftur til ársins 1985. Tónlistin er unnin af smekkvísi og fagkunnáttu – og um er að ræða grip sem raftónlistaráhugamenn ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

Möller Records gefur út Mono Lisa

DAVEETH

Mono Lisa er fyrsta breiðskífan sem Daveeth (skírður Davíð Hólm) gefur út. Platan samanstendur af lögum sem voru samin á síðastliðnum fimm árum, á meðan hann bjó á fimm mismunandi stöðum á Íslandi og Kína. Flökkulíf síðustu ára, með lengri tímabilum án bækistöðvar til tónlistarsköpunar, gerir það að verkum að Mono Lisa er víðfemt samansafn af tónlist Daveeths.

Halleluwah sendir frá sér sína fyrstu plötu

Halleluwah

Tvíeykið Halleluwah hefur sent frá sér sína fyrstu plötu samnefnda sveitinni. Meðlimir dúósins eru söngkonan Rakel Mjöll og fyrrum Quarashi forsprakkinn Sölvi Blöndal.

Rakel og Sölvi hófu að vinna tónlist saman fyrir um tveimur árum og ákváðu í kjölfarið að taka upp lag saman. Ávöxtur samstarfsins var smáskífan “Blue Velvet”, vísun í samnefnt lag í flutningi Bobby Winton og samnefndrar kvikmyndar David Lynch frá árinu 1986. Lagið naut talsverða vinsælda auk þess sem myndband við lagið vakti einnig athygli. Ekki var aftur snúið eftir velgengni “Blue Velvet” og hljómsveitin formlega stofnuð í kjölfarið.

Magnetosphere

Magnetosphere
Í fréttatilkynningu segir:

Magnetosphere er sólóverkefni Margrétar G. Thoroddsen þar sem seiðandi raftónlist nærist á sálarskotinni rödd Margrétar með magnaðri uppbyggingu.

Margrét hefur komið víða við. Hún hefur starfað við tónlist sem laga- og textahöfundur, söngkona, hljómborðsleikari og ásláttarleikari í bæði rokk og blúshljómsveitum. Nú er hún þó búin að breyta um gír og Magnetosphere er hennar hugarsmíð sem hana hefur lengi langað að fara í gang með. Til þess að hlutirnir færu að gerast fékk Margrét til samvinnu við sig tónlistarstjórann (producer) Þröst Albertsson.

Magnetosphere er enn að vinna í hljóðveri að efni en “You” er fyrsta útgefna lagið. “You” tekur hlustendur með sér í hljóðheim þar sem tilfinning og raftónar blandast saman. Textinn fjallar um það þegar eitthvað fangar huga manns að það verður erfitt að einbeita sér. Það er síðan túlkun hlustandans hvað það er sem fangar hugann í laginu.

Nýtt myndband frá Laser Life

Laser Life, hugarfóstur Breka Steins Mánasonar raftónlistarmanns, sendi nýverið frá sér sitt fyrsta tónlistarmyndband við lagið “Castle”. Myndbandið er afrakstur samstarfs Breka og kvikmyndagerðarmannsins Eduardo Makoszay hjá Metanoia Video Studio. Breki hefur þó aldrei hitt Eduardo í eigin persónu en hann býr í Mexíkóborg. Breki uppgötvaði list Eduardo í gegnum alþjóðlegu facebook grúppuna ‘Glitch Artist Collective’ og hafði samband við hann. Í kjölfarið unnu þeir saman tónlistarmyndband í gegnum netið á nokkrum mánuðum. Myndbandið inniheldur spillt myndbandsgögn (glitch footage) af íslenskri náttúru, skuggaleikhús af hljómsveit að spila og kviksjár áhrif (kaleidoscope effects).

Sjón er sögu ríkari!

MSTRO

Stefán Ívars heitir ungur listamaður sem undanfarið hefur gefið út tónlist undir listamansnafninu Maestro. Nú hefur Stefán uppfært sitt tónlistarlega sjálf og gefur út sitt fyrsta lag, ásamt myndbandi, undir nafninu MSTRO.

Myndbandið gerði Stefán sjálfur ásamt bróðir sínum auk þess sem hann sér sjálfur um útlit og hönnun tengda tónlistarútgáfu sinni.

Plata er væntanleg frá MSTRO þann 14. febrúar næstkomandi.

Breiðskífan Muted World með Muted komin út

Muted
Í fréttatilkynningu segir:

Muted World er heimboð í hugarheim Muted, sem heitir réttu nafni Bjarni Rafn Kjartansson. Hann endurvinnur hljóð sem hann sarpar úr umhverfi sínu og kemur þeim til skila á afar áhugaverðan hátt. Hugmyndarfræðin á bakvið breiðskífuna var að leyfa hlustandanum að stíga inn í veröld listamannsins í gegnum tilraunakennda og frumlega vinnslu á umhverfishljóðum, í bland við raftóna svo úr verði einstakur hljóðheimur. Muted samdi alla tónlist plötunnar ásamt texta lagsins “Special Place” sem Jófríður Ákadóttir söngkona hljómsveitarinnar Samaris syngur.

Muted hefur verið þekkt nafn meðal tónlistargrúskara, þá helst fyrir taktasmíðar hans – en fjölmargir rappara hafa notast við undirleik hans í gegnum árin. Hann hefur einnig getið sér orðstír sem eftirsóknarverður endurhljóðblandari, en t.a.m. liggja eftir hann endurhljóðblandanir fyrir Samaris, Asonat og Justice.

Breiðskífan er fáanleg á stafrænu formi á raftonar.bandcamp.com

Berlin X Reykjavík Festival

Poster

Extreme Chill Festival og tónlistarhátíðin Berlín XJAZZ kynna : Berlin x Reykjavík Festival – Reykjavík 26-28. Febrúar og Berlín 5-7. Mars.

Hátíðin í Reykjavík verður haldin á Kex Hostel og á Húrra dagana 26 – 28 Febrúar.
það verða um 23 hljómsveitir og tónlistarmenn sem munu troða upp í Reykjavík og Berlín.

Dagskráin er ekki af verra endanum en tónlistarmenn á borð við. Emiliana Torrini ásamt Ensemble X frá Berlín, Claudio Puntin, Skúli Sverrisson, Jazzanova, Christian Prommer, Studnitzky Trio & Strings, Epic Rain, Qeaux Qeaux Joans, o.fl.ofl.

Passin á hátíðina kostar aðeins 5900 kr. alla þrjá dagana í Reykjavík og fyrir þá sem ætla líka að skella sér til Berlínar munu geta notað passann sinn þar en hátíðin í Berlín verður dagana 5-7 Mars á hinum magnaða stað Neau Heimat.

Miðasala er  á midi.is

Rivers & Poems með Bistro Boy og Nobuto Suda

Rivers and Poems by Bistro Boy & Nobuto Suda

Í dag, þann 15. janúar, kemur út á vegum Möller Records EP platan Rivers and Poems en hún er samstarfsverkefni íslenska raftónlistarmannsins Bistro Boy og hins japanska Nobuto Suda. Þetta er önnur platan sem afrakstur samstarfs íslenskra og japanskra tónlistarmanna getur af sér en verkefnið er hugarfóstur Árna Grétars (betur þekktur sem Futuregrapher). Fyrsta útgáfan í þessari útgáfuröð var platan Crystal Lagoon sem Futuregrapher vann með japanska tónlistarmanninum Hidekazu Imashige (Gallery six) og Veroníque Vaka Jacques.

Á Rivers and Poems er kallast saman taktar og melódíur Bistro Boy á við sveimkenndan undirtón Nobuto Suda. Platan inniheldur 5 lög en hægt er að nálgast hana á vef Möller Records, www.mollerrecords.com

HACKER FARM á Íslandi 4. og 6. desember

Hacker Farm poster

Fimmtudaginn 4. desember og laugardaginn 6. desember stendur FALK fyrir tvennum tónleikum með bresku tilraunarmúsíköntunum í Hacker Farm. Þessir tónleikar, sem verða haldnir í Mengi og á Paloma Bar, eru frumflutningur Hacker Farm á Íslandi og munu aðstandendur FALK, tónlistamaðurinn AMFJ og Krakkbot ásamt sérvöldum listamönnum úr raftónlistargeiranum hita upp.

Búast má við rafrænni óreiðu, kasettuúrgangi og breyttu leikjasándi. Pínku pönkað, en án þess að fá lánað þriggjastrengja hljóma og takta frá The Kinks. Smáskammtaútgáfa af betra líferni.

Early Late Twenties

Early Late Twenties

Dúóið Early Late Twenties, skipað þeim Maríu Magnúsdóttur og Ægi Þór Þórðarsyni, hefur sent frá sér sitt fyrsta fullkláraða lag. Það er elektrópoppuð ábreiða af smellinum “Because the Night” sem Patti gamla Smith gerði frægan hér um árið. María og Ægir eru búsett í Hollandi, þar sem þau leggja stund á listnám og eru að púsla saman fyrstu stuttskífu sveitarinnar.

uniimog

Uniimog

Uniimog er splunkuný hljómsveit, hugarfóstur þeirra Þorsteins Einarssonar og Guðmundar Kristins Jónssonar sem báðir eru gjarnan kenndir við Hjálma. Þeir Steini og Kiddi hafa verið iðnir við kolann undanfarna mánuði en þeir hafa verið á faraldsfæti með Ásgeiri Trausta Einarssyni, yngri bróður Steina og nánum samstarfsmanni Kidda.

Á ferðum sínum um ókunn lönd hófu þeir félagar að dunda sér við að gera nýja tónlist til að drepa tímann og göfga andann og þegar tími hefur gefist hér heima hafa upptökur farið fram í Hljóðrita í Hafnarfirði með dyggri aðstoð góðra vina, svo sem Ásgeirs Trausta og Sigurðar Guðmundssonar sem á endanum gengu báðir til liðs við hljómsveitina.

Smám saman varð til efni í heila plötu sem kom út 12. nóvember á vegum Senu og ber heitið Yfir hafið.

Platan Skynvera með Futuregrapher kemur út í dag

Futuregrapher - Skynvera

Út er komin platan Skynvera með íslenska raftónlistarmanninum Futuregrapher (Árni Grétar) á vegum Möller Records útgáfuforlagsins. Þetta er önnur stóra plata Futuregrapher en fyrri plata hans LP kom út árið 2012 og hlaut lofsamlega dóma og var m.a. valin ein af 20 bestu plötum ársins. Skynvera kemur út á CD og vínyl en einnig er hægt að kaupa plötuna rafrænt á vef Möller Records, www.mollerrecords.com.

Futuregrapher ætlar að fagna útkomu plötunnar í Lucky Records í dag, fimmtudag, milli kl. 17:00 – 20:00 og eru allir velkomnir.