Russian Girls – Old Stories

RUSSIAN.GIRLS

Russian Girls hugarfóstur Guðlaugs Halldórs Einarssonar sem sumir ættu að þekkja sem meðlim sveitarinnar Fufanu. Tónlist þessa aukasjálfs Guðlaugs má lýsa sem rafrænu lounge og er gefin út af Ladyboy Records. Útgáfupartý verður haldið á Paloma næstkomandi föstudagskvöld.

Laser Life – Ný íslensk raftónlist

Laser Life

Breki Steinn Mánason nefnist raftónlistarmaður sem nú hefur kveðið sér hljóðs undir listamannsnafninu Laser Life. Breki er ættaður frá Egilsstöðum en hefur alið manninn í Reykjavík síðustu fjögur ár. Breki var áður gítarleikari í þungarokkhljómsveitinni Gunslinger en sveitin sú ákvað að taka sér pásu í fyrra og hefur Breki dundað sér við að gera raftónlist síðan. Tónlist Laser Life er innblásin af hljóðheimi gamalla leikjatölva á borð við NES og Gameboy í bland við baritone gítarleik.

Hér að neðan hljómar nýtt lag frá Laser Life sem nefnist “Shark” en EP plata mun vera væntanleg í byrjun nóvember næstkomandi. Breki mun vera bókapur á nokkur Airwaves off-venue gigg og ættu áhugasamir endilega að hafa upp á kappanum.

Krokkbot : Amateur of the Year – Crammed with Cock

Krakkbot kassettur

Krakkbot er tónslistarmaður sem flytur dómsdags-raftónlist. Hann vinnur einkum með drunur, takta og hávæða. Hann lýsir tónlist sinni sem síþróandi skrýmsli, og daðrar við þungarokk, hipp-hopp, heimatilbúin raftæki, feedback og hreinar hljómtíðnir í tilraunum sínum til að skapa martraðarkenndt draumalandslag.

Þetta er fimmta útgáfa Ladyboy Records og tekur form sitt sem 50 kassettur í sægrænum, bleikum, bláum og gráum geislaígröfðum umbúðum. Hvert eintak er einstakt og byggt á teikningum listamannsins.

Útgáfuhóf verður haldið á Húrra föstudaginn 30. maí. Dj. Flugvél & Geimskip og Pyrodulia hita upp.

Útgáfutónleikar Different Turns

Different Turns cover

Íslenska elektró/rokk hljómsveitin Different Turns gaf út, þann 4. apríl síðastliðinn, plötuna If you think this is about you…. you´re right. Sveitin mun halda útgáfutónleika 12. júní næstkomandi í Borgarleikhúsinu og er miðasala hafin á Miði.is.

Þeir sem ekki hafa kynnt sér þessa ágætu sveit geta gætt sér á meðfylgjandi tóndæmum og mæta svo vafalítið í Borgaleikhúsið þann 12. næsta mánaðar.

Ásgeir gefur út 7″ í tilefni Plötubúðadagsins

Ásgeir Record Store Day 7"

Plötubúðadeginum (Record Store Day) verður víða fagnað næst komandi laugardag, 19. apríl. Tónlistarmaðurinn Ásgeir ætlar ekki að láta sitt eftir liggja og gefur út 7″ myndavínyl með laginu “Here it Comes”, enska útgáfu af laginu “Nú hann blæs” sem frumflutt var í þættinum Stúdíó A á RÚV. Lagið er eftir Ásgeir Trausta en textann á Örvar Þóreyjarson Smárason, betur þekktur sem Örvar í múm. Ábreiða Ásgeirs af laginu “Heart-Shaped Box” með Nirvana skipar svo B-hliðina. Ásgeir tók sinn snúning á laginu fyrst í útvarpsþætti Dermot O’Leary á BBC Radio 2. Útgáfan vakti strax mikla lukku og var Ásgeir síðar beðinn um að gefa það út. Lagið var tekið upp í Hljóðrita en nýlegt stúdíómyndband við lagið má sjá hér að neðan.

Ljósmyndina sem prýðir vínylinn tók Jónatan Grétarsson en Snorri Eldjárn Snorrason hannaði útlit. Upptökum stjórnaði Guðmundur Kristinn Jónsson.

Vínyllinn kemur út í takmörkuðu upplagi og er fáanlegur í þeim plötubúðum sem taka þátt í Plötubúðadeginum. Verslanirnar er að finna á heimasíðu Record Store Day.

Þriðja breiðskífa FM Belfast kemur út

FM Belfast - Brighter Days

Gleðisveitin FM Belfast sendir frá sér sína þriðju breiðskífu 22. apríl næstkomandi og hefur henni verið gefið nafnið Brighter Days. Record Records gefur breiðskífuna út á Íslandi og er þetta fyrsta breiðskífa FM Belfast sem kemur út á vegum útgáfufyrirtækisins.

Þrátt fyrir að formlegur útgáfudagur plötunnar sé 22. apríl mun hún vera fáanleg í plötubúðum laugardaginn 19. apríl af því tilefni að þá er hinn alþjóðlegi dagur plötubúðanna (e. Record Store Day).

FM Belfast hefur um langt skeið verið ein líflegasta tónleikasveit landsins til þónokkurra ára og hefur henni tekist vel að koma glaðværðinni til skila á plasti og í frísklegum myndböndum sínum. Fjórða smáskífan af plötunni, „Everything“, er komin í spilun á öldum ljósvaka og er einnig hægt að ljá hana eyrum inná öllum helstu tónlistarveitum. Áður hafa komið út smáskífurnar „Delorean“,„We Are Faster Than You“ og er lagið „The End“ endurgerð á laginu „Öll í kór“ sem FM Belfast samdi sérstaklega fyrir Unicef á Degi rauða nefsins.

Kalel Cosmo gefur út smáskífuna Earth Rise

Kalel Cosmo

Tónlistarmaðurinn Kalel Cosmo hefur gefið út sína fyrstu smáskífu sem ber nafnið Earth Rise. Hugmyndin á bak við smáskífuna er geimurinn og ferðalag í gegnum tíma og rúm sem myndar fjögur samtengd en fjölbreytt lög plötunnar; “Earth Rise”, “Lost in time”, “Perihelion” og “Welcome to my world”. Lögin eru samin og tekin upp af Kalel sjálfum og einkennist tónlistin af popp-innskotinni raftónlist með nútíma hip-hop ívafi.

Platan er komin í sölu á Gogoyoko en jafnframt er hægt að hlusta á plötuna og hala henni ókeypis niður á Soundcloud.

Lady Boy Records komin út

Lady Boy Records 004

Plötuútgáfan Lady Boy Records kunngerir útgáfu nýrrar safnkassettu, en umrætt verk er fallegur safngripur skreyttur með leysigreftri. Kassettan er önnur safnkassetta Ladyboy Records, en á henni má finna tónlist frá DJ Flugvél & geimskip, Bix Vs. Agzilla, AMFJ, Fist Fokkers, Thizone, Krakkbot og Harry Knuckles, Nicolas Kunysz, X.O.C Gravediggers INC.(/Apacitated), Sindri Vortex og Syrgir Digurljón. Kassettan er fjórða útgáfa Lady Boy Records og er gefin út í takmörkuðu upplagi sem telur fimmtíu eintök.

Útgáfunni verður fagnað á öldurhúsinu Paloma föstudaginn 18 Apríl.

Áður hefur útgáfan gefið út aðra safnkassettu í takmörkuðu upplagi (eins og áður sagði), geisladiskinn Þorgeirsbola með Slugs (en honum var dreift í vakúmpakkningum) og mandarínu eftir Nicolas Kunysz með leysergröfnum niðurhalskóða, sem bar nafnið Rainbows in Micronesia.

Slowsteps gefur út lagið Closer

Slowsteps Hljómsveitin Slowsteps hefur gefið út lagið “Closer” sem er þriðja smáskífulag af væntanlegri breiðskífu þeirra The Longer Way Home. Áður hefur Slowsteps gefið út smáskífulögin “Trespass” og “Color Calling” sem hefur fengið spilun á Rás2 ásamt umfjöllun á erlendum tónlistarvefjum.

Slowsteps dregur nafn sitt af samnefndri hljóðupptöku sem Sebastian Storgaard, forsprakkara hljómsveitarinnar, gerði fyrir 10 árum og þann tíma (m.ö.o. þau hægu skref) sem hljómsveitin tók til að þróa þann hljóm sem þau eru sátt við. Útkoman er einstök hljómblanda af hljóðgervlum, taktföstum trommutakti og mjúkum söngstíl.

Einar Indra – You sound asleep

Einar Indra – You sound asleep

Út er kominn nýr diskur með Einar Indra hjá Möller Records plötuútgáfunni sem nefnist You Sound Asleep. Hér er á ferðinni hugljúf og alltumliggjandi raftónlist sem vert er að gefa góðan gaum. Einar sá sjálfur um tónsmíðar og upptökustjórn en mastering var í höndum Finns Hákonarsonar.

Heyra má plötuna í heild sinni hér að neðan.

Ný plata væntanleg frá FM Belfast. Nýtt lag komið út!

FM Belfast - Brighter Days

Gleðisveitin FM Belfast sendir frá sér sína þriðju breiðskífu 22. apríl næstkomandi og hefur henni verið gefið nafnið Brighter Days. Record Records gefur breiðskífuna út á Íslandi og er þetta fyrsta breiðskífa FM Belfast sem kemur út á þeirra vegum. FM Belfast annast útgáfu plötunnar á erlendri grundu og er henni dreift í gegnum þýsku hljómplötufyrirtækið Morr Music. Útgáfufélag hljómsveitarinnar heitir World Champion Records og gaf það einnig út fyrstu breiðskífu sveitarinnar, How To Make Friends.

FM Belfast hefur um langt skeið verið ein líflegasta tónleikasveit landsins til þónokkurra ára og hefur henni tekist vel að koma glaðværðinni til skila á plasti og í frísklegum myndböndum sínum. Fjórða smáskífan af plötunni, „Everything“, er komin í spilun á öldum ljósvaka og er einnig hægt að ljá hana eyrum inná öllum helstu tónlistarveitum.

Forsala á Brighter Days er hafin á heimasíðu Record Records og verða allar forpantanir áritaðar af sveitinni.

Norræn tónleikatvenna

 

Nordisk posterNordisk 2014 er samnorræn tónleikaferð um Danmörku, Færeyjar og Ísland. Tónleikaferðin kemur til Íslands um miðjan febrúar og heldur tónleika á Græna Hattinum og Harlem Bar frá 19. til 20. febrúar. Hljómsveitarnar koma frá Danmörku, Noregi, Færeyjum og Íslandi og heita Sekuioa (dk), Sea Change (no), Byrta (fo) og Good Moon Deer (is).

19. febrúar 2014
Græni Hatturinn, Akureyri, kl. 20:00
(1.500 kr. Miðasala við hurð)

20. febrúar 2014
Harlem Bar, Akureyri, kl. 21.00
(1.500 kr. Miðasala við hurð)

Senn líður að Sónar 2014

Sónar Reykjavík 2014

Heimsfræga tónlistar- og nýlistahátíðin Sónar fer fram í annað sinn í Reykjavík dagana 13. til 15. febrúar 2014 í Hörpu. Sónar er alþjóðleg hátíð sem býður upp það ferskasta sem er að gerast í rafrænni tónlist hverju sinni, tengir saman sköpun og tækni ásamt því að vera vettvangur fyrir skapandi fólk til að hittast og þróa saman list sína. Hátiðin getur verið stökkpallur fyrir íslenskt listafólk en líkt og margir muna þá fékk íslenska hljómsveitin Sísí Ey boð um að spila á Sónar í Barcelona eftir flutning sinn á Sónar Reykjavík í fyrra.

Allst munu yfir 60 atriði koma fram á Sónar Reykjavík 2014 og um helmingur þeirra eru íslensk atriði. Meðal þeirra eru Sísí Ey, GusGus, Vök, Sykur, Highlands, Obja Rasta, Moses Hightower og Starwalker nýja verkefni Barða Jóhannssonar og Jean-Benoit Dunckel úr Air. Af stærri erlendum atriðum má nefna Major Lazer, Jon Hopkins, Bonobo og Daphni sem er hliðarverkefni Dan Snaith úr Caribou.

Rjóminn bendir gestum Sónar Reykjavík á að reima á sig dansskónna og opna skilningarvitin. Hátíðin er einstakur vettvangur sem blandar saman skemmtun og tilraunastarfsemi þar sem það nýjasta í framsækinni tónlist og tengdum listum fær að njóta sín. Líkt og í fyrra verður bílakjallari Hörpunnar breytt í sveitt dansgólf.

Enn eru nokkrir miðar í boði á hátíðina. Miðasala fer fram á miði.is

Nýtt lag frá Urban Lumber

Urban Lumber

Íslenska trip-hop sveitin Urban Lumber hefur sent frá sér nýtt lag sem nefnist “Follow, Believe, Sleep”.

Um lagið höfðu meðlimir sveitarinnar þetta að segja:

Lagið fjallar um mann sem missir konuna sína, og tekur lyf til að komast yfir sársaukan. Þegar hann tekur lyfin, þá birtist konan hans honum. Hún reynir að sannfæra hann um að hún sé ekki ofskynjun og að þau gætu eytt eilífðinni saman, ef hann myndi taka öll lyfin í einu. Hún syngur til hans, biðjandi hann að trúa sér.

Urban Lumber mun halda tónleika á Gamla Gauknum 15.jan og á Dillon þann 30.

Útgáfur Synthadelia Records

Nú eru 9 nýjar útgáfur komnar út frá íslensku plötuútgáfunni Synthadelia Records. Í þetta sinn eru þetta bæði endurútgáfur af fyrri plötum frá listamönnum útgáfunnar auk nýrra platna nú rétt fyrir jólin.

Með nýjar plötur má nefna Samsara, Trausta Laufdal, Michael Dean Odin Pollock & Sigga Sig og svo gamlar plötur í endurútgáfu með Lokbrá, Hjörvari (Stranger) og Indigo. Einnig væntanlegar fyrir jólin eru plötur með Grúsku Babúsku, Enkídú og jóladiskó með Sir Dancelot úr rafrænu deildinni.

Snemma á næsta ári eru svo a.m.k tvær nýjar plötur væntanlegar með þeim Indigo og Hjörvari.

Synthadelia Records hefur áður gefið út á fimmta tug platna síðan á jóladag 25. Desember árið 2010, þegar þeir félagar Vilmar Pedersen og Jón Schow stofnendur Synthadelia gáfu út sitt eigið lag “Let the Party Start” á netinu undir sama nafni og útgáfan.

Safnplata Raftóna

Raftónar, vefsíða sem fjallar um íslenska raftónlist, gera upp árið 2013 með því að bjóða upp á safndisk til niðurhals með nokkrum af bestu raftónum ársins. Árið hefur verið viðburðarríkt og sem dæmi um það fjölluðu Raftónar um alls 14 breiðskífur, 28 stuttskífur og tvo safndiska. Safndiskurinn sem lesendum síðunnar er boðinn til niðurhals hefur að geyma, að mati aðstandendum síðunnar, mörg af betri lögum ársins.

Nýtt lag frá Kristjáni Hrannari

Kristján Hrannar - Anno 1013

Rafpíanistinn Kristján Hrannar varð fyrir því óhappi að handleggsbrjóta sig á dögunum. Hann semur því tónlist með músina í vinstri og sendi nýverið frá sér nýtt lag sem er á breiðskífunni Anno 2013. Þetta er eightís synthapopp með alvöru keyrslu. Svo þegar gifsið fer um næstu mánaðamót er aldrei að vita nema Kristján skelli í tónleika.

Við fylgjumst spent með.