Mixtúrur úr Mósebók

Mixtúrur úr Mósebók

Út er komin platan Mixtúrur úr Mósebók með 16 remixum af lögum af plötunni Önnur Mósebók með Moses Hightower. Þar klæða listamenn á borð við Borko, Kippi Kaninus, múm, Hermigervill, Sin Fang Yung Boize, Retro Stefson, Sóley og Terrordisco lög af plötunni í nýjan búning. Platan kemur út á vinýl en geisladiskur fylgir með. Á vinýlnum eru 10 mix en öll 16 á disknum.

Meðfylgjandi eru þrjú remix af plötunni en hún fæst m.a. í vefverslun Record Records.

Nýtt myndband frá UMTBS

“Babylo”n er nýjasta afurð Ultra Mega Technobandsins Stefáns af rétt óútkominni plötu sem hlotið hefur nafnið ! og er jafnframt önnur plata sveitarinnar. Mun platan vera væntanleg í lok mánaðarins.

Arnór Dan úr Agent Fresco syngur með UMTBS að þessu sinni og var myndbandið tekið upp í Flórens á Ítalíu en Unnar Ari sá um leikstjórn og klippti.

Platan ! verður frumflutt í heild sinni í fyrsta sinn í hlustendapartý sem haldið verður á skemmtistaðnum Harlem fimmtudaginn 24. október næstkomandi.

Nýtt og nýlegt íslenskt

1860

Við hefjum þessa yfirferð á splunkunýrri hljómsveit sem kallar sig Blóðberg. Hljómsveitin spilar dansvænt rafpopptónlist og hefur seinustu mánuði unnið að sex laga smáskífu þar sem sungið er bæði á íslensku og ensku. Upptökur fóru fram í Hljómi á Seltjarnarnesi og var upptökustjórn í höndum Páls Orra Péturssonar.

Meðlimir hljómsveitarinnar hafa komið víða við á sínum tónlistarferli og hafa leikið með hljómsveitum á borð við Lovely Lion, Ásgeiri Trausta, Ylju, Orphic Oxtra, Útidúr, Fjallabræðrum, Vicky og Of Monsters and Men.

Eðalsveitin 1860 sendi í upphafi síðasta mánaðar frá sér plötuna Artificial Daylight og verður hún að teljast skylduhlustun fyrir alla tónlistarunnendur. Hér er vænt hljóðbrot af plötunni.

Hljómsveitin Johnny And The Rest sendu nýverið frá sér nýtt lag sem ber það skemmtilega nafn, “Mama Ganja”. Lagið er fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu strákanna og hefur lagið fengið mjög góðar viðtökur.

Triphop sveitin Urban Lumber, sem komin er með nýja söngkonu, Kareni nokkra Pálsdóttur, er komin með nýtt lag. Sveitn er á fullu að klára plötu og er von til að hún komi út í haust.

Það heyrist allt of lítið frá djössurum þessa lands hér á Rjómanum finnst mér og skal nú bætt fyrir það. Hér að neðan má heyra upptökur jazz kvartettins Kliður hjá Rás 2 en hann var stofnaður haustið 2012 og spilar melódískan jazz með skandinvískum blæ. Lög hópsins koma öll úr smiðju meðlima og hafa vakið athygli fyrir öðrvísi hljóðfæraskipan, enda þykir bandið hafa nokkuð sérstakan hljóm.

Fyrst við erum í jazz deildinni er gráupplagt að heyra nýjustu plötu píanistans Sunnu Gunnlaugs sem kallast Distilled. Með henni á plötunni spila Þorgrímur Jónsson á bassa og Scott McLemore á trommur.

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum að múm gaf nýverið út plötuna Smilewound. Á henni er m.a. að finna þennan hressilega lagstúf.

FALK safnar fyrir tónleikaferð á Karolina Fund

FALK

Óhljóða og jaðarlista félagskapurinn FALK (Fuck Art Let’s Kill) hefur á Karolina Fund hafið söfnun til að fjármagna 10 daga á tónleikaferð um Belgíu, Holland og Þýskaland.

FALK samanstendur af AUXPAN, OBERDADA von BRÛTAL, AMFJ og KRAKKKBOT, sem allir eru að gefa út nýja tónlist mánaðarlega frá og með október en tveir síðast nefndu fara í tónleikaferð, dagana 10. – 20. október til að kynna téðar útgáfur sem og félagsskapinn. Með í för verður sjónmyndasmiðurinn FIZK sem sér um að galdra fram myndræna framsetningu tónleikanna.

Tónleikaferðin hefur hlotið yfirskriftina FALK ÜBER EVROPA TOUR 2013 og liggur um N-þýskaland til Berlínar og þaðan til Hollands og niður til Belgíu. Eins og fyrr segir mun söfnunin fara fram á lýðsöfnunarsíðunni Karolina Fund og mun peningur sem safnast verða notaður til að standa undir kostnaði fyrir lestarferðum, gistingu og næringu á ferðinni.

Þessi fyrsta tónleikaferð FALK á erlendri grundu hefur í raun tvennan tilgang; bæði ætlum við að kynna okkur fyrir tónlistarunnendum þessara landa en á sama tíma starta tímabili af massívri útgáfuröð frá félagsskapnum sem verður rækilega kynnt á túrnum.

AMFJ leikur tilraunakennda óhljóða og industrial tónlist. Hann hefur verið að síðan 2008 þegar Aðalsteinn Jörundsson hóf að koma fram undir þessu nafni. Hann hefur gefið út nokkrar plötur, sú síðasta var BÆN sem kom út árið 2011.

KRAKKKBOT spilar einnig tilraunakennda raftónlist en blandar saman ólíkum pólum eins og hip hop og þungarokki inn í hljóð frá heimasmíðuðum drunboxum og hljóðbitar.

þann 26. september eru fjáröflunar tónleikar á Gauk á Stöng. Þóranna aka Trouble og Harry Knuckles, bæði snillingar á sviðinu, hita upp fyrir KRAKKKBOT og AMFJ. Tónleikar hefjast klukkan 21:00 1000 krónur inn

Allir sem leggja til aðstoð við verkefnið fá svo lítinn glaðning fyrir ómakið, eins og til dæmis áritað eintak af vinyl plötu eða jafnvel noise tónleika í heimahúsi.

múm sendir frá sér nýja breiðskífu

Hljómsveitin múm sendir frá sér sína sjöttu breiðskífu föstudaginn 6. september. Platan heitir Smilewound og inniheldur rafpopplög í knöppum stíl. Það er þýska útgáfan Morr Music sem gefur út, en Smilewound er fyrsta plata múm sem einnig kemur út á kassettu og er það Blood and Biscuit útgáfan sem fjölritar spólurnar. Aukalag á Smilewound er lagið “Whistle” sem múm hljóðritaði með hinni áströlsku Kylie Minogue.

Hljómsveitin mun fylgja plötunni eftir með tónleikaferð um Evrópu í haust, en í sumar spilaði múm á nokkrum tónlistarhátíðum og fór meðal annars í hljómleikaferðalag til Asíu. Þau munu sömuleiðis koma fram á íslensku tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves í lok október.

KAJAK

KAJAK

KAJAK er nýtt raftónlistardúó frá Reykjavík. Hljómsveitina skipa frændurnir Hreinn Elíasson og Sigurmon Hartmann Sigurðsson. Þeir gáfu nýverið út sína fyrstu smáskífu sem hægt er að nálgast á heimasíðunni þeirra www.wearekajak.com sem frítt niðurhal og streymi.

KAJAK spila að eigin sögn “dansvænt og grípandi frumbyggjapop sem iðar af lífi”. Lagið þeirra “Gold Crowned Eagle” hefur unnið sér inn gott orðspor í sumar á útvarpsstöðvum landsins og skemmtistöðum borgarinnar. Þessa stundina eru þeir að leggja lokahönd á fyrstu breiðskífu sína sem kemur út í haust.

Moses Hightower gefur út remix plötu

Moses Hightower - Önnur Mósebók

Hljómsveitin Moses Hightower stendur fyrir hópfjármögnunarverkefni á karolinafund.com þessa dagana, en hún stefnir að plötuútgáfu í lok ágúst náist sett markmið í verkefninu.

Um er að ræða útgáfu á vínylplötu ásamt meðfylgjandi geisladiski, sem innihalda endurhljóðblandanir (remix) á lögum af síðustu plötu sveitarinnar, Annarri Mósebók. Sú kom út síðasta sumar og hlaut afar góðar undirtektir, frábæra dóma, Menningarverðlaun DV og Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir laga- og textasmíðar.

Meðal þeirra sem hafa tekið Aðra Mósebók til kostanna og gert eigin útgáfur af lögum af henni sem fara á plötuna eru Borko, Sin Fang, Nuke Dukem, Halli Civelek, illi vill, Kippi Kaninus, Samúel Jón Samúelsson, Pedro Pilatus, Hermigervill og hiphop-flokkurinn Forgotten Lores.

Á síðu verkefnisins inni á karolinafund.com er hægt að festa sér eintök af hinni óútgefnu plötu, fyrri plötur sveitarinnar á pakkatilboðum og annað góðmeti, gegn áheitum til verkefnisins sem aðeins verða innheimt ef öll upphæðin, €2500, næst í hús.

Zoon van snooK – The Bridge Between Life & Death

Zoon van snooK

Mér barst til eyrna nokkuð áhugaverð plata með breska listamanninum Zoon van snooK sem nefnist The Bridge Between Life & Death en á henni er að finna fíngerða raftónlist með “folk” áhrifum eða “folktronica” eins og stefnan er oft nefnd. Hljóðin (sömplin) sem heyra má á plötunni eru að miklu leiti tekin upp hér á landi en einnig koma fram á plötunni íslenskir listamenn, nánar tiltekið Amiina, Benni Hemm Hemm og Sin Fang. Einnig munu liðsmenn múm hafa lagt til remix fyrir aðra smáskífu plötunnar.

Sjálfur segir Zoon van snooK frá dvöl sinni hér á landi á þessa leið:

In 2009 I finally managed to pull off the big trip: from the South West of England to the South West of Iceland. I knew it would be a great opportunity to gather the requisite sounds on which to base a whole new album. I was able to collect recordings from the centre, port and outskirts of Reykjavik, and the surrounding South Western area. From national parks to canyons; from hot springs to glaciers; from folk songs to folklore… I love being able to use an entire field recording.

Hér að neðan má heyra 12 mínútna “sampler”sem gefur greinilega til kynna að hér er afar forvitnileg plata á ferð.

Í Áhyggjunarkoti

Kne Kne

Það er eitthvað merkilegt að gerast á Akureyri ef marka má þá fersku, tilraunakenndu raftóna sem þaðan berast. Hér að neðan hljómar lagið “Í Áhyggjunarkoti” með norðlenska dúóinu Kne Kne sem skipað er þeim Agnesi Ársælsdóttur og Þórði Indriða Björnssyni. Þórð kannast einhverjir við undir listamannsnafninu DeerGod en heyra má tónsmíðar hans hér.

Coco Bundy

Coco Bundy

Íslenski stuðdúetinn Coco Bundy gefa nýlega út sína fyrstu smáskífu en hún ber heitið “My little box”. Í laginu ræður poppaður og dansvænn “eitís” fortíðarljómi ríkjum sem fær mann helst til að vilja gera gamla Henson gallann klárann og skaka á sér óæðri endanum.

Lagið er frjálst til niðurhals í gegnum spilarann hér að neðan.

Snooze Infinity – Didn´t know / Beam

Snooze Infinity - Didn´t know / Beam

Nýlega kom út platan Didn’t know / Beam með íslenska raftónlistarmanninum Snooze Infinity. Snooze Infinity er listamannsnafn Emils Svavarssonar, en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann komið víða við á tónlistarferli sínum, t.d. sem annar helmingur tvíeykisins Yoda Remote. Tónlist Snooze Infinity er dansskotin (house/garage) sem fær hæglátasta fólk til að hreyfa á sér bossann.

Platan kemur út á vegum Möller Records. Um tónjöfnun sá Jóhann Ómarsson.

Ný skífa frá Futuregrapher

15276_10151370467202322_333195060_n

Í dag kemur út djúphús smáskífan Fjall frá raftónlistarmanninum Futuregrapher. Verkið kemur út hjá íslenska forlaginu Lagaffe Tales og inniheldur endurhljóðblandanir frá Moff & Tarkin, Jónbjörn og Siggatunez, ásamt því að skífan skartar einu aukalagi sem nefnist “Bjarni”. Listakonan Jelena Schally sér um raddir á “Fjall”.

Hægt er að nálgast pakkann á vefsvæði Lagaffe Tales : www.lagaffetales.com

Sonord – We are no Strangers

Sonord - We are no Strangers

Í gær kom út platan We are no strangers með hljómsveitinni Sonord á vegum útgáfufyrirtækisins Möller Records. Þetta er fyrsta plata Sonord sem Möller Records gefur út en þessi dansk-íslenska hljómsveit er skipuð þeim Bjarnari Jónssyni (Mr. Signout), söngkonunni Lone Krogh og Sigþóri Frímannsyni.

Aðrir tónlistarmenn sem koma við sögu á plötunni eru þverflautuleikarinn Adele Vicaire og Simon Høvding sem leikur á selló. Platan er tekin upp í hljóðveri Bjarnars í Søborg, í Danmörku, og var Jónas Þór Guðmundsson, betur þekktur sem Ruxpin, aðstoðar pródúsant. Elena Pecci á heiðurinn á framhlið disksins og Jóhann Ómarsson sér um tónjöfnun.

Hægt er að nálgast plötuna á vefsíðu Möller Records www.mollerrecords.com

Kraftwerk bæta við tónleikum á Íslandi

Kraftwerk

Hin víðfræga Kraftwerk, sem mun loka Iceland Airwaves, hefur bætt við aukatónleikum í Hörpu mánudaginn 4. nóvember. Tónleikarnir í Eldborg verða stórkostleg þrívíddarupplifun en Kraftwerk hefur fengið glimrandi dóma fyrir þessa samblöndu sjónarspils og tónlistar.

Miðasala hefst á hádegi mánudaginn 6. maí en miðahöfum á Iceland Airwaves gefst tækifæri að kaupa miða frá hádegi föstudaginn 3. maí en miði.is sendir miðahöfum sérstakan kóða. Ekki er nauðsynlegt að eiga miða á Iceland Airwaves til að kaupa miða á þessa aukatónleika Kraftwerk.

Miðaverð á tónleikana er 12.900, 11.900 og 8.900 krónur og fer eftir staðsetningu í Eldborg.

Fyrri tónleikar Kraftwerk verða sunnudaginn 3. nóvember og veitir Iceland Airwaves miði aðgang að tónleikunum með sama hætti og á aðra tónleika hátíðarinnar en takmarkað magn af miðum verður í boði. Miðum á tónleika Kraftwerk verður dreift til miðahafa Iceland Airwaves án endurgjalds föstudaginn 1. nóvember kl. 16 í Hörpu eftir „fyrstur kemur, fyrstur fær“ reglunni. Eitt armband = einn miði á Kraftwerk.

Miðasalan er í fullum gangi á heimasíðu Iceland Airwaves og geta félagar í Vildarklúbbi Icelandair fengið miða á betri kjörum en Icelandair er helsti styrktaraðili hátíðarinnar og hefur verið frá upphafi.

Russel M. Harmon – Tragedy Fractures

Rjóminn hefur áður fjallað um tónskáldið enska Russel M. Harmon, sem búsettur er í Reykjavík, en hann sendi síðast frá sér plötuna We Are Failed. Russel hefur nú sent frá sér myndband við lag af plötunni en það heitir “Tragedy Fractures”.

Myndbandið má sjá hér að ofan en plötuna góðu má heyra hér að neðan.