Nadia Sirota – Baroque

Nadia Sirota - Baroque

Fyrsta útgáfa ársins 2013 hjá Bedroom Community er platan Baroque eftir víóluleikarann Nadiu Sirota.

Sirota er alls ekki ókunn Bedroom Community, en hún hefur spilað inn á fjölmargar plötur útgáfunnar ásamt því að spila reglulega með listamönnum hennar á tónleikum og fylgja þeim á tónleikaferðir.

Tónverkin sex á Baroque eiga það öll sameiginleg að vera skrifuð fyrir Sirota af ungum tónskáldum sem hafa verið dugleg að ryðja sér til rúms undanfarin ár. Þrjú þeirra eru á mála hjá Bedroom Community; þeir Nico Muhly, Daníel Bjarnason og Paul Corley. Hin þrjú verkin eiga tónskáldin Judd Greenstein, Missy Mazzoli, og Shara Worden úr My Brightest Diamond.

Platan var unnin af þeim Valgeiri Sigurðssyni og Paul Evans í hljóðverinu Gróðurhúsinu og er gefin út af útgáfunni New Amsterdam í Bandaríkjunum.

Baroque kemur út þann 25. mars næstkomandi en er nú þegar fáanleg í sérstakri forsölu hjá Bedroom Community í gegnum BandCamp.

Gunnar Jónsson Collider gefur út tvær EP plötur

Binary Babies EP

Gunnar Jónsson hefur verið virkur í íslensku tónlistarsenunni um árabil. Á ferli sínum hefur hann verið meðlimur í rokksveitunum Coral, Bob og Japanese Super Shift & the Future Band, rafsveitinni DMG og alþýðupoppsveitinni 1860.

Til viðbótar hefur Gunnar komið fram opinberlega með ótalmörgum listamönnum, svo sem Lödu Sport, Ben Frost, Úlfi og nú síðast á nýliðinni RIFF hátíð með Damo Suzuki, fyrrum söngvara krautrock sveitarinnar CAN.

Nýverið sendi Gunnar frá sér tvær stuttskífur undir nafninu Gunnar Jónsson Collider, Disillusion Demos EP og Binary Babies EP. Plöturnar tvær innihalda músík sem var samin, spiluð, tekin upp og hljóðblönduð af Gunnari sjálfum á árunum 2006-2012. Disillusion Demos EP inniheldur sungin popplög á meðan Binary Babies EP býður upp á sveimkennda ambient tónlist og er að mestu án söngs.

Stuttskífurnar eru fáanlegar á gogoyoko.

Úlfur sendir frá sér plötuna White Mountain

Úlfur

Tónlistarmaðurinn Úlfur hefur sent frá sér plötuna White Mountain og er hún sú fyrsta undir hans eigin nafni.

Úlfur hefur komið víða við í íslenskri jaðartónlistarsenu undanfarin ár, þá helst sem liðsmaður harðkjarnasveitarinnar Swords of Chaos og svo sem bassaleikari í tónleikahljómsveit Jónsa úr Sigur Rós.

White Mountain var gefin út í sérstakri japanskri útgáfu árið 2012, en kemur nú út á vínyl og geisladisk á öllum mörkuðum á bandaríska plötuútgáfufyrirtækinu Western Vinyl (Sem gefa meðal annars út Dirty Projectors, Balmorhea og Here We Go Magic).

Á plötunni hefur Úlfur fengið ýmsa tónlistarmenn til liðs við sig, en þar má helst nefna Skúla Sverrisson, Ólaf Björn Ólafsson og Alexöndru Sauser-Monnig. Platan var að hluta til tekin upp á tónleikaferðalögum um Evrópu og Bandaríkin, en hljóðblönduð í hljóðveri Alex Somers í Reykjavík.

Arnþrúður

Arnþrúður

Í gær kom út maxi singullinn “Arnþrúður” með tónlistarmanninum Skurken. Verkið inniheldur endurgerðir eftir mörgum af vinsælustu raftónlistarmönnum landsins, m.a. Ruxpin, Futuregrapher, Tanya & Marlon ofl. “Arnþrúður” er tekin af plötunni Gilsbakki, sem kom út árið 2011 og fékk frábæra dóma – bæði hér heima og erlendis. Hægt er að nálgast “Arnþrúði” á vefsvæði Möller Records – gegn því að viðkomandi tvíti um hana eða pósti á facebook.

Lady Boy Records

Lady Boy Records er ný íslensk plötuútgáfa sem þeir Frímann Ísleifur Frímannsson og Nicolas Kunysz stofnuðu fyrir um meira en ári síðan. Út er komin á vegum útgáfunnar safnplata sem nefnist einfaldlega Lady Boy Records 001 en á henni er að finna lög eftir listamenn á borð við Ghostigital, Krumma, Bix, Úlf, Rafstein og Futuregrapher.

Heyra má dýrðina í heild sinni hér að neðan.

Tracing Echoes með Bloodgroup komin út

BLOODGROUP - NOTHING IS WRITTEN IN THE STARS

Hljómsveitin Bloodgroup hefur nú sent frá sér sína þriðju plötu og nefnist hún Tracing Echoes. Platan kemur út hjá Kölska á Íslandi en erlendis á vegum Sugarcane Recordings og AdP.

Hér má hlýða á næstu smáskífu plötunnar á eftir “Fall”, sem áður hefur fengið að hljóma hér á Rjómanum, en það er lagið “Nothing Is Written In The Stars”.

Nýtt myndband frá Futuregrapher

Hljóðsmalarinn Futuregrapher (Árni Grétar) var að gefa út nýtt myndband fyrir lagið “Kjarninn”. Myndbandið er skotið upp um vetur í Tálknafirði árið 1999, þar sem tónlistarmaðurinn ólst upp, og er upptakan af krökkum að leika sér í fjallinu Tungufell.

Hannes Smith – Maerchensee

Hannes Smith

Raftónlistarmaðurinn Hannes Smith sendi í dag frá sér sína fyrstu breiðskífu, sem nefnist Maerchensee, en hann hefur áður gefið út EP plötu auk nokkurra smáskífa. Einnig hefur Hannes unnið nokkur remix og má t.a.m. minnast á myndarlegan búning sem hann setti “My Arms” með Bloodgroup í, en hann túraði einmitt með sveitinni síðasta sumar.

Á plötunni víkkar Hannes hljóðheim sinn töluvert og bætir við viðkvæmum píanóköflum ásamt einmana sellói við raftónlistina. Þó í grunninn megi, strangt til tekið, flokka tónlistina sem raftónlist er hér eitthvað mikið meira ferð. Maerchensee er afar áhugaverð og persónuleg plata sem er vel þess virði að sökkva sér í eina kvöldstund.

Ný plata frá Bloodgroup

Bloodgroup

Hljómsveitin Bloodgroup er búin að hafa hljótt um sig undanfarið en hún hefur verið á fullu við að klára sína þriðju plötu sem kemur út þann 4. febrúar.

Platan ber nafnið Tracing Echoes og kemur út hjá Kölska á Íslandi, en erlendis á vegum Sugarcane Recordings og AdP, sem einnig gáfu út síðustu plötu sveitarinnar, Dry Land.

Þegar hefur fyrsti singull plötunnar “Fall” fengið að hljóma á öldum ljósvakans en það hljómar einmitt hér að neðan.

Gosi

Gosi

Andri Pétur Þrastarson er tvítugur ísfirðingur búsettur í Hollandi og semur þar dansvætnt tölvusynthpopp undir listamannsnafninu Gosi. Andri, eða Gosi öllu heldur, sendi frá sér sitt nýjasta lag nýverið sem heitir “Lost in Time” og hljómar það hér að neðan.

Nýtt lag frá John Grant

John Grant

Þar sem íslandsvinurinn John Grant er á góðri leið með að verða alíslenskur er ekki úr vegi að kynna fyrsta lagið af væntanlegri plötu kappans. Platan mun heita Pale Green Ghosts en var hún tekin upp hér á landi og mun m.a. skarta Sinead O’Connor í gestahlutverki. Meðfylgjandi er titillag plötunnar sem er, eins og áður sagði, það fyrsta af væntanlegri plötu en hún mun koma út á vegum Bella Union þann 13. mars á næsta ári.