Frumburður sveitarinnar Kristján lítur dagsins ljós

Kristján

Gítarleikarinn, söngvarinn og lagasmiðurinn Kristján Haraldsson hefur víða drepið niður fæti í sköpun sinni síðan hann steig fram á sjónarsviðið með hljómsveitinni O.D. Avenue árið 2007. Þaðan lá leiðin yfir í Urban Lumber en báðar þessar sveitir áttu lög á íslenskum vinsældarlistum. Kristján hefur nú söðlað um og stofnað nýja sveit sem ber einfaldlega nafnið Kristján.

Meðfylgjandi er lagið “Happy Now” en það var tekið upp í Stúdíó Hljómi í samstarfi við hljóðmanninn Skapta Þóroddsson.

Unnur Sara Eldjárn með nýtt lag

Unnur Sara Eldjárn sendi nýverið frá sér nýtt lag en það er fyrsta lagið af stuttskífu sem er væntanleg í byrjun næsta árs.

Með Unni í laginu koma fram þau Bragi Þór Ólafsson á gítar, Ingibjörg Elsa Turchi á bassa og Halldór Eldjárn á trommur

Upptökur voru í höndum Halldórs Eldjárn og Frank Arthur Blöndahl Cassata.

Sun Kil Moon í Fríkirkjunni 28.nóvember

Mark Kozelek

Bandaríska hljómsveitin Sun Kil Moon kemur fram á tónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík föstudagskvöldið 28.nóvember nk. Má með sanni segja að viðburður þessi sé sannur hvalreki fyrir íslenska tónlistarunnendur. Sun Kil Moon er hugarfóstur söngvarans og gítarleikarans Mark Kozelek sem áður hafði gert garðinn frægan með hljómsveit sinni Red House Painters. Ásamt Kozelek stíga nokkrir heimsfrægir listamenn á svið þetta kvöld og mynda þá ógleymanlegu upplifun sem Sun Kil Moon sannarlega er.

Miðasala fer fram á Miði.is

Nýjustu plötu sveitarinnar Benji, sem margir telja eina þá bestu sem komið hefur út á árinu, má heyra í heild sinni hér að neðan.

My bubba heldur í tónleikaferðalag ásamt Damien Rice

My Bubba ©Karólína Thorarensen2

Íslensk sænska hljómsveitin My bubba, skipuð Bubbu (Guðbjörgu Tómasdóttur) og My Larsdotter eru á leið í tveggja mánaða tónleikaferðalag til að kynna nýjustu plötu sína Goes Abroader sem kom út hjá Smekkleysu sl. maí, bæði á geisladisk og vinyl. Ferðinni er heitið til Hollands, Belgíu, Danmerkur, og Þýskalands þar sem hljómsveitin mun m.a.hita upp fyrir Damien Rice.

Áður en My Bubba leggur land undir fót verða hádegistónleikar í Mengi 10. október kl. 12:00 og svo mun dúóið einnig leika í Hörpunni á Iceland Airwaves hátíðinni í nóvember.

Lily of the Valley sendir frá sér nýtt lag

Lily of the Valley sendi nýlega frá sér sína aðra smáskífu og fylgir þar með eftir hinu geysivinsæla lagi “I’ll Be Waiting” sem sveitin gaf út í sumar. Lagið fékk mjög góða spilun á útvarpsstöðvum og situr nú með ríflega 9000 spilanir á YouTube. Hljómsveitin fékk með sér strákana í Johnny and The Rest í upptökur á nýja laginu en það nefnist einfaldlega “Back”.

Lagið er tekið upp í Stúdíó Hljóm undir upptökustjórn Kristjáns Haraldssonar og var það Skapti Þórodsson sem sá um hljóðblöndun og tónjöfnun.

Egill – Lou Reed

Lou Reed

Meðfylgjandi er lag frá huldulistamanninum Agli. Hann vill helst ekki koma fram í eigin persónu að sinni og bað um, í gegnum krókaleiðir, að lagið sem heitir “Lou Reed” fengi að hljóma hér. Nánari upplýsingar og fleiri lög væntanleg.

Það ber að taka það fram að listamaðurinn sem hér er á ferð er ekki undirritaður.

Hafdís Huld sendir frá sér breiðskífuna “Home”

Home er þriðja sólóplata tónlistarkonunnar Hafdísar Huldar. Platan sem kemur út um allan heim á vormánuðum 2014 var unnin í samstarfi við Alisdair Wright og fóru upptökur fram á heimili þeirra í Mosfellsdalnum. Áður hefur Hafdís Huld sent frá sér plöturnar Dirty Paper Cup ( sem var valin popp plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2006 ) og Synchronised Swimmers ( 2009 ) en lögin “Kónguló”, “Action man” og titillagið “Synchronised Swimmers” nutu mikilla vinsælda í útvarpi. Eins hefur Hafdís Huld gert barnaplöturnar Englar í ullarsokkum ( 2007 ) og Vögguvísur ( 2012).

Hafdís Huld hefur unnið sem lagahöfundur og söngkona með listamönnum á borð við Tricky, Gus gus, FC Kahuna og Nick Kershaw auk þess að semja tónlist fyrir kvikmyndir og auglýsingar á vegum Bucks music publishing. Home er gefin út hjá Reveal records í evrópu og hjá OK!Good í bandaríkjunum.

Hér að ofan má sjá myndband við lagið “Queen Bee” af plötunni Home.

Nýtt myndband frá Bellstop

Glænýtt tónlistarmyndband með sveitinni Bellstop er komið út. Myndbandið er við lagið “Moving On” af plötunni Karma. Myndbandið var tekið upp á göngunum og í Petersen svítunni í hinu sögurfæga sviðslista húsi Gamla Bíó sem stendur við Ingólfstræti.

Myndbandið var unnið í samstarfi við Saga Film og sá Sigurgeir Þórðarsson um leikstjórn.

Nýtt lag frá Low Roar

Low Roar

Tríóið Low Roar sendi í dag frá sér glænýtt lag af væntanlegri annari plötu sveitarinnar og heitir það “I’m leaving”. Nú er farið að hlakka verulega í undirrituðum að heyra sjálfa plötuna og sjá Low Roar stíga á svið, ásamt föngulegum hópi listamanna, á ATP hátíðinni í sumar.

Bláskjár : Söfnun á Karolina Fund

Bljáskár

Bláskjár er nýtt nafn í tónlistarheiminum en það er hliðarsjálf tónlistarkonunnar, Dísu Hreiðarsdóttur, sem hefur trommað og spilað á píanó með hljómsveitum á borð við Brúðarbandinu, Elízu Newman og Grúsku Babúsku.Tónlist Bláskjás má lýsa sem ljóðrænni alþýðutónlist, þar sem lögð er á að segja sögur með ríkum og einlægum boðskap.

Bláskjár hefur hafið söfnun á Karolina Fund til að fjármagna upptökur og framleiðslu á sinni fyrstu plötu en söfnunin mun standa til 5. júní. Bláskjár mun í kjölfarið halda sína fyrstu tónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík þann 16. maí næstkomandi, þar sem hún mun koma fram með hljómsveit sinni. Þess má geta að Bláksjár er einnig útskriftarverkefni Dísu, en hún útskrifast úr Listaháskóla Íslands í júní, þar sem hún hefur stundað mastersnám í tónlist.

Vinsamlegast smellið hér til að leggja söfnuninni lið.

Júníus Meyvant kveður sér hljóðs

Junius Meyvant

Listamannsnafnið Júníus Meyvant er nafn sem fáir þekkja, ennþá. Hér er á ferðinni einstaklega hæfileikaríkur tónlistarmaður sem hefur gefið út sitt fyrsta lag sem heitir “Color Decay”. Undirritaður sá téðan Júníus í fyrsta skipti nýverið hita upp fyrir Mono Town á útgáfutónleikum þeirra og þótti mér mikið til hans koma. Var hann þar bara einn með gítar en í meðfylgjandi lagi er hann með valinkunnan hóp meðspilara sem skapa með honum einstakan hljóðheim.

Júníus Meyvant er listamannsnafn Vestmaneyingsins Unnars Gísla Sigurmundssonar. Sem ungur maður var Unnar mjög frjálslegur í anda og komst aðeins tvennt að í hans lífi, þ.e. myndlist og hjólabretti. Annað slagið fann hann fyrir því að tónlistargyðjan togaði í hann og velti hann því oft fyrir sér hvort hann ætti ekki að demba sér í það að læra á hljóðfæri.

Tónlist Júníusar er fullveðja og tilfinningaríkt þjóðlagapopp sem er í senn tímalaust og kunnuglegt. Alúðlegar útsetningar hans láta mann á köflum líða eins og maður sé staddur undir þykku ullarteppi við arineld í kofa hátt uppi í fjöllum eða í hina höndina liggjandi á funheitri sandströnd á suðlægum slóðum.

Júníus Meyvant mun senda frá sér fleiri lög á næstu misserum en plata er ekki væntanleg fyrr en á næsta ári.

Myndra : Ný íslensk/kanadísk hljómsveit

Myndra

Íslensk/kanadíska hljómsveitin Myndra mun gefa út sína fyrstu plötu nú í lok maí. Hingað til hefur sveitin eingöngu starfað í Kanada en í sumar kemur hluti hljómsveitarinnar hingað til lands og við heldur mikla útgáfutónleika í Norræna húsinu þann 7. júní næstkomandi.

Til að hita upp fyrir tónleikana og til að kynna sér sveitina geta lesendur heyrt nokkur tóndæmi hér að neðan.

Brother North

Brother North

Hið sænsk/hálf-íslenska dúó Brother North, skipað þeim Freyr Flodgren og Lucas Enquist, sendi í vikunni frá sér sína fyrstu plötu og er hún samnefnd tvíeykinu. Hér er á ferð tilfinningaþrungin og tilkomumikil fólktónlist með popp og post-rokk ívafi.

Platan hljómar í heild sinni hér að neðan og er vel til þess fallin að leika við hlustir lesanda.

Áhugasamir geta fundið meira um Brother North á Rjómanum hér.

CeaseTone – Remedy

Hér gefur að líta glænýtt efni frá CeaseTone en það er listamannsnafn Hafsteins Þráinssonar. Hingað til hefur Hafsteinn komið fram einn með kassagítarinn en hefur nû bætt við sig hljóðfæraleikurum til að aðstoða sig við að flytja tónlist sína á sviði. Búast má við fjölda tónleika CeaseTone í sumar að sögn Hafsteins.

Einnig mun stefnan sett á hljóðversdvöl til að vinna að nýrri plötu sem mun verða fyrsta útgáfa CeaseTone.

Ásgeir gefur út 7″ í tilefni Plötubúðadagsins

Ásgeir Record Store Day 7"

Plötubúðadeginum (Record Store Day) verður víða fagnað næst komandi laugardag, 19. apríl. Tónlistarmaðurinn Ásgeir ætlar ekki að láta sitt eftir liggja og gefur út 7″ myndavínyl með laginu “Here it Comes”, enska útgáfu af laginu “Nú hann blæs” sem frumflutt var í þættinum Stúdíó A á RÚV. Lagið er eftir Ásgeir Trausta en textann á Örvar Þóreyjarson Smárason, betur þekktur sem Örvar í múm. Ábreiða Ásgeirs af laginu “Heart-Shaped Box” með Nirvana skipar svo B-hliðina. Ásgeir tók sinn snúning á laginu fyrst í útvarpsþætti Dermot O’Leary á BBC Radio 2. Útgáfan vakti strax mikla lukku og var Ásgeir síðar beðinn um að gefa það út. Lagið var tekið upp í Hljóðrita en nýlegt stúdíómyndband við lagið má sjá hér að neðan.

Ljósmyndina sem prýðir vínylinn tók Jónatan Grétarsson en Snorri Eldjárn Snorrason hannaði útlit. Upptökum stjórnaði Guðmundur Kristinn Jónsson.

Vínyllinn kemur út í takmörkuðu upplagi og er fáanlegur í þeim plötubúðum sem taka þátt í Plötubúðadeginum. Verslanirnar er að finna á heimasíðu Record Store Day.

Austria

Austria

Austria er nýlegt indie-folk dúó af höfuðborgarsvæðinu skipað þeim félugum Arnari Frey og Halldóri. Saman færa þeir okkur ljúfa tóna sem þeir framkalla með gítar, söng og trommum. Tvíeykið hefur sent frá sér nokkur lög sem heyra má á Bandcamp síðu þeirra en tvö þeirra má heyra hér að neðan.

Það verður áhugavert að fylgjast með Austria á komandi misserum og ættu lesendur að vera vakandi fyrir tónleikatilkynningum frá sveitinni á Facebook síðu hennar.

Nýtt lag frá Svavari Knút

Girl from Vancouver and While the world burns single

Eðalmennið og ljúflingurinn Svavar Knútur hefur sent frá sér nýy lag sem nefnist “Girl from Vancouver” en það er hægt að nálgast í gegnum allar helstu tónlistarveitur Alnetsins. Auk þess má nálgast lagið og aðrar útgáfur Svavars í gegnum spilarann hér að neðan og streyma að vild, endurgjaldslaust.

Svavar undirbýr nú heilmikinn Evróputúr og stefnir einnig í ferðalag um Norður Ameríku. Það er því ekki seinna vænna að ná af kappanum spilandi hér á klakanum áður en hann fer í víking.

Ný plata væntanleg frá Epic Rain

Epic Rain

Epic Rain hefur nú lokið við nýjustu plötu sveitarinnar sen nefnist Somber Air sem kemur út bæði á vinyl og á geisladisk í lok apríl.
Lucky Records sá um framleiðslu á plötunni í samvinnu við Epic Rain.

Epic Rain er ný komn frá Frakklandi þar sem sveitin spilaði á nokkrum tónleikum og gerðu samning við tónlistarhátíð í Caen er nefnist Les Boréales, eða Festival of the lights.

Hér má sjá myndband frá tónleikum Epic Rain í París á festival Chorus 4.apríl síðastliðinn.

Næst á dagskrá hjá Epic Rain er að spila á nokkrum tónleikum í Berlín í byrjun Maí. Þar koma þeir fram meðal annars á Extreme Chill Showcase Festival sem er í umsjá Pan Thorarensen og spila þeir svo einnig á stórri hátíð er nefnið Xjazz festival þar sem fleiri íslensk bönd koma fram.

Epic Rain er einnig að vinna í því að spila með stóru bandi á Iceland Airwaves hátíðinni í ár sem verður mjög skemmtilegt að sjá.

Somber Air verður gefin út í nokkrum eintökum á hinum alþjóðlega Record Store Day sem verður laugardaginn 19.apríl og mun sveitin spila í plötubúðinni Lucky Records, við Rauðarárstíg, við það tækifæri.

Hér að neðan má sjá nýjasta myndband sveitarinnar við lagið “Nowhere Street” er kom út í lok nóvember og er að finna á væntanlegri plötu þeirra.