Slowsteps gefur út lagið Closer

Slowsteps Hljómsveitin Slowsteps hefur gefið út lagið “Closer” sem er þriðja smáskífulag af væntanlegri breiðskífu þeirra The Longer Way Home. Áður hefur Slowsteps gefið út smáskífulögin “Trespass” og “Color Calling” sem hefur fengið spilun á Rás2 ásamt umfjöllun á erlendum tónlistarvefjum.

Slowsteps dregur nafn sitt af samnefndri hljóðupptöku sem Sebastian Storgaard, forsprakkara hljómsveitarinnar, gerði fyrir 10 árum og þann tíma (m.ö.o. þau hægu skref) sem hljómsveitin tók til að þróa þann hljóm sem þau eru sátt við. Útkoman er einstök hljómblanda af hljóðgervlum, taktföstum trommutakti og mjúkum söngstíl.

Ný íslensk tónlist

The Third Sound - For A While

Hljómsveitin The Third Sound var að senda frá sér nýtt lag sem nefnist “For a While…” sem finna má á væntanlegri plötu sem koma mun út í sumar á vegum Fuzz Club Records. Lagið má nú nálgast á gogoyoko.

Sebastian Storgaard, sem fram kemur undir listamannsnafninu Slowsteps, gaf nýverið út sitt fyrsta lag. Lagið, sem nefnist “Color Calling”, hefur þegar komist í spilun hjá Rás 2 og fengið umfjöllun á erlendum tónlistarvefum.

Gísli Þór Ólafsson, sem lesendur Rjómans ættu að kannast við sem listamannin Gillon, vinnur nú að sinni annarri sólóplötu. Bláar raddir heitir hún en á plötunni eru lög við ljóð Geirlaugs Magnússonar úr bók hans Þrítengt frá árinu 1996. Upptökur eru komnar langt á leið, en það er tekið upp á Sauðárkróki í Stúdíó Benmen og er upptökustjórn í höndum Fúsa Ben. Fyrirhugað er að gefa plötuna út í byrjun sumars.

Fyrsta smáskífan af óútkominni hljómplötu hljómsveitarinnar GRÍSALAPPALÍSA er komin á gogoyoko og heitir lagið “Lóan er komin”.

Á gogoyoko er einnig að finna glæsilega nýja plötu Útidúr sem nefnist Detour.

Er eitthvað að fara fram hjá Rjómanum? Er komið út spennandi íslenskt efni sem Rjóminn ætti að vita af? Sendið Rjómanum línu.

Ný tónleikasería á Stúdentakjallaranum

Oyama og Nolo á Stúdentakjallaranum

Ný tónleikasería mun fara fram í hinum nýopnaða og stórglæsilega Stúdentakjallara sem staðsettur er á Háskólatorgi. Frítt verður inn á alla tónleika í röðinni í boði Polar Beer og Nova.

Á þessu fyrsta kvöldi tónleikaraðarinnar er það hljómsveitin Oyama sem hefur leika, en sveitin hefur verið á mikilli siglingu undanfarið eða allar götur síðan hún gaf út EP-plötuna I Wanna í lok janúar sl. Oyama snéru nýverið heim úr afar vel heppnuðu tónleikaferðalagi í Noregi og Englandi þar sem þau léku m.a. á ByLarm hátíðinni í Olsó og á hinum þekkta tónleikastað Koko í Lundúnum.

Einnig mun hinir geðþekku, kátu piltar í Nolo koma fram og leika nýtt efni í bland við eldra. Einhverjir hafa líkt þeim við hljómsveitina Beach House þó töluvert léttara andrúmsloft svífi yfir vötnum hjá Nolo.

Tónleikarnir í þessari seríu marka þá sérstöðu að verða alltaf snemma á ferðinni á laugardagskvöldum og vonandi kærkomnir fyrir þá sem vilja sjá hljómsveitir spila áður en næturlífið tekur völdin.

Tónleikar Oyama og Nolo fara fram laugardagskvöldið 23. mars og hefjast stundvíslega kl 21:00.

Nýtt og nýlegt íslenskt

Íslenskt tónlistarlíf virðist vera í stórsókn um þessar mundir. Í ár hafa, að manni finnst, komið út óvenju margar afburða góðar plötur og enn er von á nokkrum til viðbótar og stefnir allt í að tónlistarárið 2012 á íslandi verði eitt það besta í manna minnum.

Hér að neðan eru lög nokkurra flytjenda sem komið hafa út nýlega sem munu án efa eiga sinn þátt í að gera tónlistarárið eftirminnanlegt.

Jóhann Krstinsson – No Need To Hasitate

Afar áheyrilegt og sterkt lag af væntanlegri plötu sem nefnist Headphones. Undirritaður bíður nokkuð spenntur eftir þessari.

The Lovely Lion – Lovely Lion

Langbesta bandið á síðustu Músiktilraunum samkvæmt Arnari Eggerti Thoroddsen. Ættu að ná langt.

Pascal Pinon – Moi

Tekið af glænýrri stuttskífu stelpnanna sem nefnist Party Wolves.

Ferja – The Finest Hour

Tekið af plötunni A sunny colonnade sem kom út í sumar. Þessi á skilið að fá nokkra snúninga á fóninum þínum.

Ásgeir Trausti – Leyndarmál

Nýliði ársins? Ekki spurning! Svona hittara gerir líka bara fólk sem ætlar sér að ná langt. Frumburðurinn Dýrð í dauðaþögn er væntanlegur.

Foreign Mona – Admire

Nýtt og efnilegt. Meira á leiðinni. Spennó.

Ólafur Arnalds – For Teda

Ólafur er alltaf jafn iðinn og ótrúlega duglegur að dæla frá sér efni. Lagið er að finna á smáskífunni Two Songs for Dance sem kom út í síðasta mánuði.

Prince Rama (USA) og Kría Brekkan 24. ágúst

Bandaríska grasrótar- sækadelíusveitin Prince Rama mun spila á Faktorý, ásamt Kríu Brekkan, föstudaginn 24. ágúst næstkomandi.

Prince Rama er skipuð systrunum Taraka og Nimai Larson sem voru aldar upp í Hare Krishna kommúnu í Florida og skólaðar í School of Museum of Visual Art í Boston, kann það að einhverju leyti að skýra þann eteríska sækadelíuseið sem systurnar hafa bruggað síðan. Þær hafa þó síðan komið sér fyrir í tónlistarlegu gróðrarstíunni í Brooklyn og alls sent frá sér 4 breiðskífur. Sú síðasta, Trust Now, sem kom út í fyrra var gefin út af Paw Tracks útgáfunni sem er rekin af þeim Animal Collective félögum.

Það verður engin önnur en Kría Brekkan sem mætir með föruneyti og hitar upp samkomuna. Kristín Anna Valtýsdóttir var löngum álfur í skóginum múm en hvarf á vit annarra ævintýra um 2006 og fór að vinna að költ performans seríu Kríu Brekkan í Eplaborginni. Kristín Anna hefur spilað með hljómsveitunum Stórsveit Nix Noltes, Mice Parade og Animal Collective og gefið út tónlist á fyrrnefndri Paw Tracks útgáfu. Í vor túraði Kría Brekkan um austurströnd Bandaríkjanna með Plastic Gods og Muck.

Miðar fást á Miði.is og í verslunum Brim á Laugavegi og í Kringlunni.

Lazyblood og Reykjavík! gefa út smáskífu með tónlistinni úr The Tickling Death Machine

Hljómsveitirnar Lazyblood og Reykjavík! hafa sent frá sér smáskífu í sameiningu með lögum sem er að finna í jaðarsöngleiknum The Tickling Death Machine, en hann hefur farið og fer enn sigurför um heiminn með sína öfgakenndu, en furðu raunverulegu, sýn á síðustu daga mannkyns. Lögin er aðeins fáanleg á tónlistarveitunni gogoyoko.

Nánar er fjallað um söngleikinn The Tickling Death Machine, hér að neðan.

Tónleikahald helgarinnar

Það er nóg um að vera fyrir tónlistarunnendur um hvítasunnuhelgina og var Rjóminn beðinn um að koma upplýsingum um eftirfarandi tónleikahald á framfæri:

UN Women styrktartónleikar gogoyoko
gogoyoko heldur UN Women styrktartónleikar á Gauknum í kvöld föstudagskvöldið 25. maí. Fram koma Mammút, Tilbury, Snorri Helgason, Elín Ey, Muck og Christopher Wyatt-Scott sem öll gefa vinnu sína þetta kvöld til stuðnings UN Women. Tónleikarnir hefjast kl 22:00 og það kostar litlar 1000 kr inn.

Útidúr á Faktorý
Hljómsveitin Útidúr heldur tónleika á skemmtistaðnum Faktorý á sunnudaginn 27.maí ásamt hljómsveitunum Úlfur Úlfur, Boogie Trouble og Enkidú.Útidúr halda í mánaðartónleikaferðalag til Kanada 28.maí þannig þetta verða síðustu tónleikar hjá sveitinni á landinu í bráð. Tónleikar hefjast kl 22:30 og kostar 1000 kr inn.

Reykjavík Music Mess
Svo stendur Reykjavík Music Mess yfir alla helgina en alls koma 18 hljómsveitir fram á hátíðinni sem fer fram á Nasa, Kex Hosteli og Faktorý. Meðal þeirra eru hljómsveitir á borð við Reykjavík!, Benni Hemm Hemm, Legend, danska hljómsveitin My Bubba & Mi, hinn enski Nile Marr, finnski rafdúettinn Jarse, Futuregrapher, Snorri Helgason, hin enska Laura J. Martin, Úlfur, The Dandelion Seeds og fleiri. Dagskrá og allar upplýsingar um þá sem koma fram er að finna á heimasíðu hátíðarinnar, www.reykjavikmusicmess.com.

Kveldúlfur Myrru Rósar

Myrra Rós Þrastardóttir hefur sent frá sér sína fyrstu breiðskífu, Kveldúlfur. Platan, sem er sú fyrsta sem Myrra sendir frá sér, kom út í gærdag á vefsetrinu ágæta gogoyoko en Myrra er þessa dagana stödd á tónleikaferðalagi í Póllandi ásamt hljómsveit.

Myrra Rós hefur nú í nokkur ár verið ein ljúfasta rödd tónlistarlífsins hér á landi og hefur verið iðin við tónleikhald bæði hér heima og erlendis. Hún vakti þá fyrst athygli sem meðlimur Trúbatrix-hópsins sem stóð fyrir tónleikaröð í Reykjavík og annarsstaðar hérlendis við gott lof. Ásamt Myrru Rós hefur góður vinur hennar Andrés Lárusson staðið vaktina í lagasmíðum og lifandi framkomum ásamt öðrum vinum. Meðal gesta á plötunni er óskabarnið KK og skeggjuðu reggídrengirnir í Hjálmum en platan er gefin út hjá Geimsteini í Keflavík.

Rjóminn vill hér með óska Myrru Rós til hamingju með fyrstu plötuna, Kveldúlfur, og telur plötuna sannlega ágætis byrjun.

 

Útgáfufögnuður For a Minor Reflection

Hljómsveitin For a Minor Reflection sendi á dögunum að frá sér stuttskífu sem ber hið einfalda heiti „EP” og inniheldur fjögur lög. Af því tilefni efnir sveitin til útgáfufagnaðar miðvikudaginn 30. nóvember nk. á Faktorý þar sem öllu verður tjaldað til. Þeim til halds og trausts verða We Made God og Lockerbie. Húsið opnar kl. 20:00 og herlegheitin byrja síðan stundvíslega kl. 21:00. Miðaverð er einungis 1000 kr. og verður „EP” til sölu á 1500 kr.

Platan var tekin upp í ReFlex Studio í ágúst síðastliðnum undir stjórn Axels Árnasonar, betur þekktur sem Flex. Þetta er þriðja skífa For a Minor Reflection, en á undan „EP” komu „Höldum í átt að óreiðu” frá 2010 og „Reistu þig við, sólin er komin á loft…” frá árinu 2007. Það er óhætt að segja að hljómsveitin feti ótroðnar slóðir á „EP“ sem hefur fengið prýðis viðtökur og dóma.

Hlustið á „EP“ á gogoyoko hér

Einfaldlega flókið

Hallgrímur Oddson hefur sent frá sér plötuna Einfaldlega Flókið og er nú hægt að heyra hana í heild sinni á gogogyoko. Hér eru á ferð veraldlegir mansöngvar klæddir í kántrí-skotna þjóðlagapoppbúninga (folk). Á plötunni er m.a. að finna meðfylgjandi lag sem kallast “360 gráður” og er það nokkuð snoturt og grípandi.

gogoyoko Wireless – Bloodgroup Unplugged

Fimmtudaginn 23. Júní heldur gogoyoko wireless tónleikaröðin áfram. Þetta er unplugged tónleikaröð þar sem gogoyoko fær uppáhalds hljómsveitirnar sínar til að setja sín bestu lög í nýjan búning og þar sem um einstaka upplifun er að ræða verða viðburðirnir festir á filmu og gefnir út í DVD viðhafnarútgáfu fyrir næstu jól.

Í þetta skipti ætlar hljómsveitin Bloodgroup, sem er þekktust fyrir dansvæna rafmagnstónlist, að taka upp kassagítarinn og hljóma eins og þau hafa aldrei gert áður. Þau hafa fengið til liðs við sig strengjasveit og píanóleikara og eru um þessar mundir við stífar æfingar að setja lögin sín í órafmagnaðar útgáfur.

Sem fyrr verða bara hundrað miðar í boði og síðast þurfti að vísa mörgum frá svo við minnum fólk á að vera snemma á ferðinni.

Húsið opnar kl 21.00 og hefjast tónleikarnir stundvíslega kl. 22.00

Miðasala fer fram í 12 tónum á skólavörðustíg og kostar miðinn 1500 krónur.

Sumargleði gogoyoko

Fimmtudaginn 9. Júní ætlar gogoyoko að fagna sumrinu með vinum, vandamönnum og aðdáendum síðunnar í garði Hressingarskálans í austurstræti.

Gogoyoko mun leysa gesti sína út með gjöfum, kveikt verður á grillinu og matur og drykkir verða í boði Hressingarskálans á meðan að birgðir endast.

Hljómsveitirnar Agent Fresco og Sudden Weather Change munu leika listir sínar til að ganga úr skugga um að það verði engin fastur í leiðinlegu samtali, og gogoyoko starfsmenn munu taka með sér lífsgleðina til að smita fólk með.

Partýið hefst kl. 8 og svo verður dansað þangað til nóttin er á enda. (Eða eins lengi og veitingaleyfið segir til um öllu heldur.)

Hjálmar og gogoyoko

Fimmtudaginn 26. Maí hefst tónleikaröðin Wireless gogoyoko á Hvítu Perlunni. Mun þetta vera “unplugged” tónleikaröð þar sem gogoyoko fær uppáhalds hljómsveitirnar sínar til að setja sín bestu lög í nýjan búning og þar sem um einstaka upplifun er að ræða verða viðburðirnir festir á filmu og gefnir út í DVD viðhafnarútgáfu fyrir næstu jól.

Það er vel við hæfi að hljómsveitin Hjálmar setji tónleikaröðina á stað, en Hjálmar og gogoyoko hafa átt ánægjulegt samstarf í gegnum tíðina. Hjálmar hafa verið með alla sína tónlist aðgengilega á síðunni frá stofnun hennar og m.a. var platan þeirra „IV“ í forsölu eingöngu á gogoyoko fyrir almennan útgáfudag.

Miðaupplag er mjög takmarkað, eða 100 miðar fyrir þá sem vilja kynnast Hjálmum í nánara tónleika umhverfi en þeir eiga að venjast, og því er „fyrstir koma, fyrstir fá“ lögmálið við lýði í þetta skipti.

Miðasala hefst föstudaginn 20. maí í versluninni Tólf Tónar, á Skólavörðustíg 15 og er miðaverð er 2500 kr.

Reykjavik Music Mess: Nolo

Ungu piltarnir í Nolo heilluðu undirritaðan þegar þeir stigu öruggir og ósmeykir á svið hins liðna Karamba og léku þar sín lög við góðar undirtektir. Það er liðinn töluverður tími síðan það var og gáfu Nolo út sína fyrstu plötu (sem tekin var upp í svefnherbergi eins meðlima dúósins) í fyrra en vinna nú að fyrstu breiðskífu sinni í samstarfi við Kimi Records sem kemur út á árinu.
Pop-gítar-syntha-elektróník-indie grúv ungdómsins heillar svo ekki sé meira sagt en hægt er að nálgast ógrynni smáskífna frá Nolo hjá vinum okkar á gogoyoko.com en helst ber að minnast á plötuna No-Lo-Fi (2010) sem kom út á vegum Brak Records.

Verður spennandi að sjá og heyra hvernig drengjunum til tekst á Reykjavik Music Mess og í komandi framtíð en drengirnir eru bókaðir á komandi Iceland Airwaves hátíð í október og virðist vel heiður himinn hjá Nolo.

Reykjavik Music Mess: Reykjavík!

Það er ekki hægt að segja að samkvæmisdansar séu stígnir né vangalög séu leikin þegar drengirnir í Reykjavík! stíga á stokk. Fremur eru það æstir aðdáendur leiddir eins og úlfahjörð af söngvaranum Bóas Hallgrímssyni sem hoppa, skoppa og þeyta flösu til heiðurs sveitarinnar í algleymi. Tónlist sveitarinnar samanstendur af truflandi og trylltu hardcore í bland við mjúkar indie-pælingar og feikifínan söng/öskur þar sem engar hömlur virðast vera á stefnumörkun sveitarinnar þegar kemur að því að spila tónlist.

Plata sveitarinnar, The Blood, frá árinu 2008 vakti lukku meðal rokkþyrstra Íslendinga og sveitin fékk í kjölfarið ágæta athygli erlendis frá. Seint á síðasta ári birtist svo hart og svalt myndband í leikstjórn Árna Sveins við lagið Internet en þar sjást gestir Kaffibarsins fylgja sveitinni í ruddalegu partýi þar sem hnefum er steitt, flösu er þeytt og vökvum er skvett út um allar tryssur. Gott partý! Auk Internet hefur lagið Cats einnig boðað bjarta tíma hjá Reykjavík!

Reykjavík! rokkar húsið á slaginu 01.00 á Nasa við Austurvöll á laugardagskvöldið ásamt Lazyblood.