Reykjavik Music Mess: Mugison

Skeggjaði vestfirðingurinn Örn Elías (Mugison) hefur ekki beinlínis farið huldu höfði á síðustu árum. Með glænýja breiðskífu í bígerð og fimm skífur á bakinu, hefur Mugison skipað sér sess sem einn ástsælasti tónlistarmaður Íslands.

Mugison hefur verið duglegur að boða fagnaðarerindið víðsvegar um heiminn en vinnur nú hörðum höndum að skipulagningu Aldrei Fór Ég Suður hátíðarinnar þetta árið, sem fram fer næstu helgi. Sendi Mugison svo frá sér fyrstu smáskífu af komandi plötu fyrir skömmu, lagið Haglél. Lagið sem er værukjært bluegrass-skotið kántrý með íslenskum texta, nálgast einsemd, ristað brauð, trúarleg hálsmen og dauðar flugur en umfram allt forgrunn þess sem margir Íslendingar finna fyrir áður en gengið er út úr híbýlum í haglél. Lagið hefur fundið sig vel á topplistum útvarpsstöðva hér á landi en lítið virðist vera um þann trega sem oft hefur einkennt tónlist Mugison og þess í stað virðist kveða við frábrugðinn tón. Bæði hvað varðar söngstíl og lagasmíðar. Eykur það án efa spennu landans og erlendra aðdáenda Mugison vegna komandi plötu og það er bara gaman.

Mugison stígur á svið á slaginu 21.00 í Norræna húsinu á sunnudagskvöldið.

Reykjavik Music Mess: Agent Fresco

Ein farsælasta rokksveit Íslands í dag, Agent Fresco, hefur verið iðin við tónleikahald allt frá sigurkvöldi Músíkiltrauna árið 2008 en drengirnir gáfu út frumburð sinn A Long Time Listening seint á síðasta ári. Hljómsveitin hélt svo upp á útgáfuna fyrir fullu húsi gesta í Austurbæ fyrir skömmu síðan og voru tónleikarnir að mörgum taldir þeir bestu í langan tíma á hinum íslenska markaði. Virðast öll hlið vera að opnast fyrir þessa ungu og efnilegu drengi en Hróarskelduhátíðin hefur boðið drengjunum að koma fram á Pavilion Junior sviði hátíðarinnar í ár ásamt stuðdrengjunum í Who Knew og fleirum góðum.

Sveitin hugar að erlendum markaði í auknu mæli og er von á fleiri tilkynningum um utanlandsævintýri Agent Fresco á næstu misserum. Gestir Reykjavik Music Mess ættu ekki að verða fyrir vonbrigðum með þessa drengi en sveitin er þekkt fyrir afar þétta og líflega sviðsframkomu sem dregur jafnt aldraðan jazz-unnenda sem ungan málmhaus að sér.

Agent Fresco kemur fram í Norræna húsinu sunnudagskvöldið 17.apríl nk. klukkan 22.30.

Reykjavik Music Mess: Hellvar

Fyrrum ástardúettinn Hellvar sleppti nýverið frá sér laginu Ding An Sich en lagið er það fyrsta sem heyrist frá sveitinni eftir útgáfu plötunnar Bat Out Of Hellvar, sem út kom árið 2007 á Kimi Records.

Hljómsveitin er leidd af hinni geðþekku Heiðu, sem margir þekkja úr hljómsveitum á borð við Unun en henni til halds og traust eru eiginmaður hennar Elvar og fleiri góðir og sveitin þar með orðin fullmótuð.
Auk hins gæsahúðarframkallandi Ding An Sich er von á helling af nýju efni frá sveitinni á komandi breiðskífu sem (að sögn meðlima) boðar nýja tíma innan herbúða sveitarinnar og ætti að gleðja tónþyrstan landann.

Hellvar kemur fram í Norræna húsinu laugardagskvöldið 16.apríl klukkan 21.00.

Reykjavik Music Mess: Æla

Post-punk sveitin Æla hefur farið fremur huldu höfði undanfarin ár en hljómsveitin gaf út frumburð sinn Sýnið tillitsemi, ég er frávik árið 2006.
Undanfarið tók þó að birta til í herbúðum Ælu og hefur sveitin komið fram þónokkuð að undanförnu auk þess sem hún hefur nú lokið við upptöku sinnar annarrar breiðskífu sem hefur þó enn ekki hlotið nafn.

Æla hafa allt frá stofnun verið þekktir fyrir lifandi sviðsframkomu og má þar nefna kvenlega valkosti fataskápsins og smóking í bland. Allt eftir stað og stund.

Aðdáendur pönksins og íslenskrar textagerðar ættu ekki að missa af drengjunum föstudagskvöldið klukkan 23.30 á Sódóma Reykjavík. Þú gætir ælt af ánægju!

Sin Fang – Summer Echoes

Útgáfuár: 2011
Útgefandi: Kimi Records
Einkunn:4,5

Afkastasemi er orð sem þarf vart að kynna fyrir Sindra Má Sigfússyni enda afköst tónlistarmannsins, sem kennt sig hefur við hljómsveitina Seabear, Sin Fang Bous og nú loks Sin Fang, verið gífurleg á undanförnum árum. Ekki einungis gífurleg í magni, heldur gífurleg í gæðum sömuleiðis.

Sindri Már sprettur hér fram sem Sin Fang með plötuna Summer Echoes og má svo sannarlega segja að titill plötunnar gefi nákvæman gaum af innihaldinu. Sin Fang hefur fært okkur gjöf, sumargjöf fylltri hlýju, auðmýkt og fegurð á köldum degi þó enn séu 42 dagar eftir af vetri þegar þetta er skrifað.

Strax við fyrstu tóna er hlustanda fleytt áfram með smjörmjúkum vókalískum harmoníum í bland við akústískar strengjaútsetningar í polli af frábærum töktum í lögunum Easier og Bruises og þemað er sett. Raddútsetningar í samblandi við tónlist Sin Fang fá hlustanda til að skipta litlu um textasmíð, heldur svífa frekar með augun lokuð, heyra fuglasöng og finna hlýju sumars í algleymingi.

Sin Fang – Fall Down Slow

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Fall Down Slow opnar mun poppaðari pælingar og opnast á yljandi úkelele sem hristist svo vel yfir í poppaðan takt og hefbundnari gítarútsetningar og vellíðun er allsráðandi.

Smáskífan Because of The Blood opnast svo varlega með synthum og hugljúfum harmoníum en keyrir í kassagítarstuð með draumkennda rödd Sindra Más í forgrunni. Þó Sindri sé án efa ekki besti söngvari heimsins hefur þessi rödd og sú einlægni og auðmýkt sem yfir henni býr, gríðarleg áhrif á það hvernig tónlist Sin Fang er túlkuð og kemst til skila. Sem er frábær kostur hjá listamanni sem þessum.

Rituals mætti líkja við sumarkvöld þegar sólin tekur að síga seint um kvöld og himininn skiptir litum. Gítarar eru hér ögn framar í grunninum en áður á plötunni og strengjaútsetningar vægast sagt frábærar. Hlustandi fer hægt og rólega að skilja rödd Sindra Más sem hljóðfæri í stað forgrunns í tónlistinni. Hvernig röddin blandast alsælukenndri tónlistinni og verður partur af henni í stað aðskildur hlutur er einstaklega fallegt og skemmtilegt. Ættbálkalegt groove í lokin fullkomnar frábært lag.

Textar verða loksins afar áheyranlegir og vel ortir í Always Everything og suðræn stemming hvílir yfir laginu sem er hið notalegasta og virðist engum áhrifum né stefnum sneydd. Æði.

Áhrifunum fjölgar ef eitthvað er í Sing From Dream þar sem ómandi raddútsetningar í bland við hip-hop ættaða takta þar sem hlustandi kemst seint frá því að dilla sér og slá í takt. Lagið er svo slegið niður í píanó af Thom Yorke skólanum og líður út af eins og barn sem hefur hoppað og dansað tímunum saman. Mætti skilja lokakafla lagsins sem forgrunn fyrir komandi rólegheit næstu laga.

Þó rólegheit séu kannski ekki rétta orðið hægist aðeins á Summer Echoes í Nineteen og loks Choir, folk-skotnu kassagítarlagi sem þenur sig til og frá stuðinu sem fyrir var á plötunni á einstaklega vel heppnaðan hátt. Stysta lag plötunnar en jafnframt eitt það fallegasta er Two Boys en hér kveður við nýjan tón á plötunni. Draumkenndar raddir og píanó segja sögu tveggja drengja og hörpustrengir keyra undir gæsahúðina sem færa hlustanda inn í Nothings. Endirinn er nærri og lagið virkar vel sem næstsíðasta lag Summer Echoes.

Sin Fang – Choir

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Slow Lights endar eina af magnþrungnustu plötum ársins (án efa) en er þó furðulega valið sem lokalag. Þó, ef rýnt er aðeins í textann, kemst maður að því að þetta virkar bara ágætlega. Gítarar eru funky til að byrja með og margbreytileiki annarra laga plötunnar skilar sér hér sömuleiðis. Lagið endar þó á fremur óspennandi hátt miðað við það sem á undan er gengið.

Summer Echoes heillaði við fyrstu hlustun. Hún yljar, hún kætir, hún grætir og jafnvel svæfir á köflum. Hér er komin alvöru sumarplata fyrir okkur Íslendinga og það íslensk plata. Þó frostið bíti og snjórinn fenni okkur í kaf þessa dagana, getum við heyrt sumarið óma í formi tónlistar Sindra Más Sigfússonar, Sin Fang og beðið eftir því að komandi sumar taki okkur með sér með sól í hjarta og Summer Echoes með Sin Fang í eyrum.

Plötu Sin Fang, Summer Echoes, má nálgast hjá vinum okkar á gogoyoko.com

Útgáfutónleikar Agent Fresco

Miðar rjúka út á útgáfutónleika íslensku hljómsveitarinnar Agent Fresco í Austurbæ þann 17.febrúar nk. (fimmtudag).
Forsala miða fer fram á miði.is um þessar mundir en óseldir miðar telja nú vart fingur beggja handa og virðist spennan vera mikil.
Arnór Dan
, söngvari sveitarinnar, lýsti yfir gríðarlegum undirbúning innan sveitarinnar og þar í kring vegna tónleikanna og hyggst sveitin tjalda öllu til og þiggur meðal annars gríðarlega aðstoð hljóðfæraleikara og vina við flutning laga plötu sinnar, A Long Time Listening, sem út kom seint á síðasta ári. Arnór ræddi við Andreu Jónsdóttur í Popppressunni í kvöld og saman renndu þau yfir lög plötunnar, sögu sveitarinnar og tilurð hinna og þessa laga. Arnór sagðist verulega spenntur fyrir komandi tónleikum en einna helst var rætt um tónsmíðar gítarleikarans Þórarins Guðnasonar innan herbúða sveitarinnar. Þau Arnór og Andrea supu te og kjömsuðu á kleinum og bauðst Andrea loks að skutla söngvaranum farsæla á æfingu eftir viðtalið en farsími Arnórs þagði vart í andartak á meðan á viðtalinu stóð.

Útgáfutónleikar Agent Fresco hefjast klukkan 21.00 og sér Haukur úr Dikta um að bjóða fólk velkomið. Miðaverði er stillt í hóf í forsölu og kostar miðinn 2000 krónur við hurð (ef einhverjir slíkir verða til eftir forsölu).
Agent Fresco hyggst flytja plötuna A Long Time Listening í heild sinni og eins og kom fram hér að ofan, hyggur sveitin á stærstu og flottustu tónleika sína hingað til.

Ferlegheit

Ofan af Skaga berast blúsaðir og fjörugir síðrokkstónar með fönkuðu og sækadelísku ívafi. Það er ungur og efnilegur sex manna flokkur sem kallar sig Ferlegheit sem framkalla þessa tóna en þau gáfu út sína fyrstu plötu, You can be as bad as you can be good, þann 3. janúar síðastliðinn og munu útgáfutónleikar verða haldnir í Tjarnarbíó fimmtudaginn 20. næstkomandi.

Frumburð sveitarinnar má að sjálfsögðu nálgast á gogoyoko.

A Long Time Listening á Gogoyoko

Agent Fresco hafa nú ákveðið í samstarfi við gogoyoko að leyfa aðdáendum að hlýða á og versla sér plötuna A Long Time Listening.
Plata sveitarinnar er væntanleg í plötuverslanir þann 22.nóvember nk. og er tilhlökkun tónlistarunnenda mikil, enda um fyrstu breiðskífu þessarar mögnuðu sveitar að ræða.

A Long Time Listening er svo sannarlega stór og safaríkur biti en platan inniheldur alls 17 frumsamin lög og er um ágætis blöndu af nýju og eldra efni að ræða. Þó hafa gömlu lögin á borð við Eyes of A Cloud Catcher, Above These City Lights og Silhouette Palette verið sett í ný klæði og hljóma hreint út sagt betur en nokkru sinni fyrr.
Laginu Translations var svo nýlega sleppt lausu í útvarpsspilun og situr í dag í 3.sæti vinsældarlista X-ins 97,7.

Rjóminn hvetur alla tónlistarunnendur að kynna sér fyrstu breiðskífu Agent Fresco, A Long Time Listening, á gogoyoko.com núna!

Nýtt frá Dad Rocks!

Á gogoyoko er nýlent 7″ split með Dad Rocks! og amerísku sveitinni Heister. Dad Rocks! er, eins og lesendur Rjómans eflaust vita, aukasjálf Snævars Njáls Albertssonar en hann gerir út frá Árhúsum í Danmörku. Dad Rocks! á opnunarlag plötunnar og heitir það “Take Care”.

Snævar hefur undanfarið verið upptekinn við að túra um Bretland og víðsvegar um danmörku og mun m.a. hita upp fyrir Field Music á afmælisdaginn þann 15. næstkomandi.

Nýtt íslenskt á gogoyoko

Kalli – Last Train Home
Kalli, sem flestir þekkja sem söngvara Tenderfoot, gaf þann 1. september síðastliðinn út sólóplötuna Last Train Home á vegum Smekkleysu. Hér er á ferð einstaklega ljúft, fágað og áheyrilegt kántrý.

Ensími – Gæludýr
Þessi fornfræga rokksveit er vöknuð af átta ára útgáfudvala og gefur í dag út þennan merkigrip. Skylduhlust!

Ólöf Arnalds – Innundir Skinni
Frábær plata frá Ólöfu sem á allt gott skilið enda er hún án efa einn af okkar fremstu lagasmiðum.

amiina – Puzzle
Stúlknasveitin er orðin að kvintett og hljómar fyrir vikið heilsteyptari og þéttari. Mjög góð plata!

Gus Gus – 15 ára
Safnplata frá þessum höfðingjum sem spannar feril þeirra síðustu fimmtán árin.

Orphic Oxtra – Orphic Oxtra
Eldhress og ölvuð balkan- og klezmer gleði frá einni efnilegustu sveit landsins.

noise – Divided

Hljómsveit: noise
Plata: Divided
Útgefandi: noise (2010)

Í nær áratug hefur hljómsveitin noise sett svip sinn á rokksenu Íslands. Allt frá því að hafa skriðið úr bílskúrnum árið 2001 og tekið þátt í Músíktilraunum með ágætum árangri. Hljómsveitin gaf svo út sína fyrstu breiðskífu tveimur árum síðar og nú, árið 2010, sendir hún frá sér sína þriðju; Divided.

Tvíburabræðurnir Einar Vilberg og Stefán Vilberg Einarssynir hafa leitt sveitina áfram í breytilegu formi allt frá útgáfu fyrstu plötu en nú hafa bræðurnir tekið höndum saman við þá Arnar Grétarsson og Egil Rafnsson, sem fóru mikinn með rokksveitinni Sign.

Divided tekur á móti hlustanda með mun meira poppi en sveitin er þekkt fyrir. Stab In The Dark byggir á fínni laglínu sem sest ofan á einfaldan og þungan gítar sem fleytir laginu loks í verulega grípandi viðlag. Lagið, sem hefur fengið þónokkra útvarpsspilun, er hreint, einfalt og grípandi popp/rokk sem boðar þónokkrar breytingar í herbúðum noise.

Hljómsveitin má sannarlega eiga það að hún kann að grúva vel í rokkinu og koma sveitir á borð við Silverchair ,Velvet Revolver og oftar en ekki Alice in Chains (svo eitthvað sé nefnt) upp í hugann en þó helst sveitin þétt og sjálfstæð. Sea of Hurt lyktar vel af áhrifum frá Ástralíu á 10.áratuginum og Beautiful Distraction tengir sveitina við yngra rokk stórsveita í kringum aldamót. Áhrifin eru greinileg en þó engan veginn kæfandi.

Lögin The Brightest Day og Divided eru einna sterkust þegar fram í sækir á plötunni. Hröð og þungt riff í bland við sterkan söng gera lögin grípandi, dáleiðandi og oftar en ekki að örlitlum fiðringarvald fyrir neðraveldið.

noise heldur rígfast í klassíska orgíu (ef ég má orða það á þann veg) gítars, bassa og slagverka en nú eru lögin frekar skreytt harmoníum og raddútsetningum og rödd Einars er orðin mun meira hljóðfæri en áður. Textar eru ágætir á plötunni og örlítið opnari en áður. Heavy Mellow er auðskiljanlegt og endar plötuna eins og góðum rokkskífum sæmir; með góðri ballöðu í anda rokkgoða 9.áratugarins.

Platan er ekki sú frumlegasta en er heldur ekki að reyna að finna upp hjólið. Hér er einfaldlega verið að tala um þétta, grúví, grípandi og vel hljómandi rokkplötu sem ætti ekki að svíkja neinn aðdáenda rokksins né sveitarinnar sjálfrar. noise hefur hér gefið út sitt besta efni hingað til og tók það ágætis tíma að fullkomna verkið. Þetta er það sem þeim greinilega hentar best og þeir finna sig best í og það er ekkert nema gott. Plötuna má að sjálfsögðu nálgast hjá vinum okkar á gogoyoko og í öllum helstu plötuverslunum.

noise fagnar útgáfu Divided á Sódóma Reykjavík í kvöld og opnar húsið kl. 22. Miðaverð er 1000 krónur við hurð og sjá Ten Steps Away og Coral um upphitun.

Einkunn: 4

Nýjung frá gogoyoko : Rjóminn fagnar!

Í tilefni þess að gogoyoko býður nú upp á þann möguleika að græða stök lög við bloggfærslur, eins og glögglega sést á sérstökum gogoyoko spilurum hér að neðan, ákvað ég að birta lög af tveimur frábærum nýútkomnum íslenskum plötum. Munu þetta vera plöturnar Kimbabwe með Retro Stefson og Appollo’s Parade með Sing For Me Sandra.

Um leið og við frumsýnum hér spilarana fögnum við hér á Rjómanum þessari nýjung og óskum lesendum til hamingju því þetta mun án efa hafa í för með sér stóraukna birtingu á nýrri Íslenskri tónlist. Yay!

Retro Stefson – Karamba

Sing For Me Sandra – Time Will Tell

gogoyoko borgar tónlistarmönnum hæstu upphæð sem greidd hefur verið af streymisþjónustu

Íslenska fyrirtækið gogoyoko.com, hin ört stækkandi tónlistarveita og samskiptavefur á Netinu, hefur tilkynnt um fyrstu útborgun til rétthafa fyrir streymi tónlistar á síðunni. Útborgun þessi fer fram úr áætlunum fyrirtækisins sem gerðu ráð fyrir 2 cent (USD) fyrir hvert streymi.

Í október greiðir gogoyoko streymisgreiðslu til yfir 800 tónlistarmanna, en þeir fá 2.34 ISK fyrir hvert streymt lag, sem er hæsta upphæð sem greidd hefur verið af streymisþjónustu og ætti að gera þjónustuna enn meira aðlaðandi fyrir óháða listamenn, útgáfur og dreifingaraðila.

Sem hluti af Fair Play in Music hugmyndafræðinni safnar gogoyoko tekjum úr mismunandi áttum til að greiða höfundum og rétthöfum fyrir gjaldfrjálst streymi notenda á síðunni. Þessar tekjur eru sóttir til auglýsenda sem kaupa pláss á síðunni, fyrir leyfisveitingar til þriðja aðila vegna notkun tónlistar, auk samstarfs við fyrirtæki sem óska þess að nýta tækninýsköpun frá gogoyoko eins og nýjan Google Android tónlistarspilara fyrir farsíma. Þetta þykir einkar jákvæð útkoma á Fair Play hugmyndafræðinni og vonast gogoyoko til þess að þetta verði kveikjan að því að aðrar streymisþjónustur fylgi í kjölfarið og hefji að greiða listmönnum og rétthöfum sanngjarnari ágóðahlut.

„gogoyoko er tónlistarveita og samskiptavefur, en okkar aðalmarkmið er að vinna að því að listamenn og rétthafar fái greitt á sanngjarnan máta fyrir notkun á verkum þeirra,“ segir Alex MacNeil, framkvæmdastjóri gogoyoko.com. „Hingað til hefur engin raunhæf lausn verið í boði hvað varðar greiðslur til listamanna og rétthafa fyrir streymi á internetinu og þá sérstaklega fyrir óháða listamenn og útgáfur eins og þær sem gogoyoko höfðar helst til.“

„Í hvert sinn sem þú hlustar á lag á gogoyoko fær listamaðurinn rúmlega 2 cent. Við greiðum beint til listamannsins eða rétthafa auk hefðbundinna greiðslna til STEF,“ segir Alex og heldur áfram, „Fólk hefur viðrað efasemdir um hvort að þetta sé á annað borð gerlegt, en við erum sannfærð um að lausnin sé einföld. Þetta er klárlega besta mögulega útkoman og við teljum að okkar listamenn séu sammála.“

Retro Stefson gefa út Kimbabwe

Nú hafa grallararnir í Retro Stefson sent frá sér sína aðra plötu og nefnist hún Kimbabwe, en umslagið má sjá hér til hliðar. Gripurinn er fáanlegur á gogoyoko frá og með deginum í dag og inniheldur eftirfarandi lög:

1. Intro
2. Velvakandasveinn
3. Mama Angola
4. Lomex I
5. Kimba
6. Rome, Iowe
7. Fjallatenór
8. Eusebio
9. Lomax II
10. Low
11. Karamba

Retro Stefson spila að sjálfsögðu á Airwaves og eru til húsa á Nasa kl 01:00 á laugardagskvöld!

Hér má svo heyra og sjá lagið ‘Kimba’ af Kimbabwe en það var tekið upp fyrir Inspired by Iceland herferðina.

The Sleepless In Reykjavik – Fyrsti þáttur

Hér gefur að líta fyrsta þátt í vefþáttaröð Sleepless in Reykjavík um íslenskt tónlistarlíf. Það er Gunnar “Gussi” Guðbjörnsson leikstjóri, kvikmyndatökumaður og framleiðandi sem er maðurinn á bakvið þetta ágæta framtak en hann er einnig kynnir þáttana. Þess má geta að Gunnar er, ásamt Bowen Staines, annar leikstjóra væntanlegrar heimildamyndar um Airwaves hátíðina sem kallast Where’s The #@&%! Snow?

Tónleikaserían gogoyoko Live í kvöld

Scott McLemore og Hammond Tríó Þóris Baldurssonarí kvöld á Kaffi Rósenberg, Klapparstíg 27

Tónleikaserían gogoyoko Live heldur áfram eftir frábært opnunarkvöld Sumardaginn fyrsta (22. apríl) þar sem fram komu Myrra Rós, Johnny Stronghands og sigurvegarar Músíktilrauna Of monsters and men. Á næsta tónleikakvöldi, sem er í kvöld, er það jazzinn sem ræður ríkjum á Klapparstígnum þar sem fram koma; Scott McLemore og Hammond Tríó Þóris Baldurssonar.

Scott McLemore er bandarískur trommari búsettur í Reykjavík sem gefið hefur út breiðskífuna Found Music hjá Fresh Sound Talent Records þar sem m.a. koma fram tónlistarmennirnir Tony Malaby, Ben Monder og Ben Street. Hammond Tríó Þóris Baldurssonar er skipað; Þóri Bladurssyni (hammond), Jóel Pálssyni (sxafón) og Einari Scheving (trommur).

Tónleikarnir verða teknir upp og aðgengilegir til hlustunar og kaups á gogoyoko.com degi eftir að tónleikarnir fara fram.

Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21.00, en miðasala hefst klukkustund áður. Miðaverð er 1.000 krónur og eru miðar seldir við inngang.

Scott McLemore – Icelandic Poptune

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Georg Hólm tjáir sig um gogoyoko

Georg Hólm hinn viðkunnalegi bassaleikari Sigur Rósar var nýlega festur á filmu þar sem hann tjáir sig um tónlistar- og samfélagsvefinn gogoyoko.com. Rjóminn tekur að sjálfsögu undir með Georg í einu og öllu í máli hans og vonar að með þessu nái fagnaðarerindi gogoyoko um “Fair Play In Music” loksins að ná athygli umheimsins.

Annars er það að frétta af gogoyoko að þar á bæ uppfærðu menn nýlega vefverslunar hluta vefsins og verður hann nú að teljast í heimsklassa, hvorki meira né minna.

www.gogoyoko.com