Fyrstu listamenn á ATP 2016 kynntir

ATP Iceland 2016

Sleep, Thee Oh Sees, Ty Segall and The Muggers, Angel Olsen, Les Savy Fav, Tortoise, ásamt fleiri listamönnum koma fram á ATP á Íslandi 2016!

John Carpenter, Anika, Yasmine Hamdan, Blanck Mass og Mueran Humanos spila einnig á hátíðinni. Örvar Smárason og Gunnar Tynes úr múm hafa að auki verið staðfestir en þeir leika undir á sérstakri sýningu myndarinnar Menschen am Sonntag.

Tónlistarhátíðin ATP á Íslandi tilkynnir hér í annað sinn nöfn framúrskarandi listamanna sem koma fram á tónlistarhátíðinni næsta sumar á Ásbrú dagana 1. til 3. júlí 2016.

Sleep, Thee Oh Sees, Ty Segall and The Muggers, Angel Olsen, Les Savy Fav og Tortoise, eru nýjustu viðbæturnar á glæsilegri dagskrá ATP sem skartar nú þegar sjálfum meistara hryllingsmyndanna, hinum goðsagnakennda John Carpenter, sem í fyrsta sinn á ferlinum flytur tónlist sína opinberlega.

Rithöfundurinn, ljóðskáldið og tónlistarkonan Anika (Invada, Stones Throw) mun koma fram með líbísku söngkonunni og lagahöfundinum Yasmine Hamdan, Blanck Mass mætir en það er sólóverkefni sem Benjamin John Power úr Fuck Buttons ber ábyrgð á. Argentínska dúóið Mueran Humanos sem býr nú í Berlín kemur einnig en þau gefa út hjá ATP Recordings.

Að lokum hafa Örvar Smárason & Gunnar Tynes (múm) verið bókaðir á hátíðina en þeir munu spila tónlist undir sýningu myndarinnar Menschen am Sonntag (People on Sunday) – en þetta er þýsk þögul kvikmynd síðan 1930 sem er byggð á handriti Billy Wilder. Einnig er vert að geta þess að hinn virti uppistandari Stewart Lee mun bregða undir sig betri fætinum en hann kemur sjaldan fram erlendis.

Tilkynnt verður um fleira listafólk og hljómsveitir sem koma fram á ATP á Íslandi 2016 síðar.

Risaeðlan kemur saman á ný

Risaeðlan

Hljómsveitin Risaeðlan kemur saman á ný og spilar á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður á Ísafirði um næstu páska. Það verða að teljast frábær tíðindi fyrir tónlistaráhugafólk, en sveitin þótti með því allra skemmtilegasta og ferskasta í íslenskri tónlist á tíunda áratugnum.

Risaeðlan er skipuð þeim Möggu Stínu söngkonu og fiðluleikara, Halldóru Geirharðsdóttur söngkonu og saxafónleikara, Ívari Bongó Ragnarssyni bassaleikara, Þórarni Kristjánssyni trommara og Sigurði Guðmundssyni gítarleikara. Hljómsveitin var stofnuð 1984 og gaf út plötuna Fame and Fossils árið 1990. Sveitin starfaði með hléum næstu árin en gáfu þó út plötuna Efta! árið 1996 og urðu útgáfutónleikar þeirrar plötu að eiginlegum lokatónleikum sveitarinnar.

Hljómsveitin hefur nú svarað kallinu frá Aldrei fór ég suður, rokkhátíð alþýðunnar á Ísafirði og kemur fram opinberlega í fyrsta sinn eftir tuttugu ára fjarveru. Allir fyrrnefndir liðsmenn sveitarinnar spila með Risaeðlunni við þetta tilefni.

Jazzhátíð Reykjavíkur 2015

Jazzhátíð Reykjavíkur verður haldin í 26. sinn dagana 12.-16. ágúst í Hörpu. Hátíðin í ár leggur áherslu á nýsköpun, íslenska útgáfu og samstarfsverkefni innlendra og erlendra tónlistarmanna. Jafnframt er sérstakur fókus á konur í jazzmúsík í tilefni af 100 ára kosningarafmælis kvenna á íslandi.

Snorri Sigurðarson

Mikill fjöldi af nýjum íslenskum jazzútgáfum verður kynntur á hátíðinni í ár og er það til marks um mikla grósku í íslensku jazzlífi. Trió Sunnu Gunnlaugsdóttur, Mógil, Scott McLemore ásamt Hilmari Jenssyni og Angeliku Niescier, Jónsson&More, Sigurður Flosason, Leifur Gunnarsson, Ásgeir Ásgeirsson, Tómas R. Einarsson ásamt Ómari Guðjónssyni kynna öll nýjar útgáfur á hátíðinni í ár og frumflytja efni sitt á Jazzhátíð Reykjavíkur 2015.

Tómas R.Jazzhátíð í ár verður þjófstartað í Bíó Paradís, þriðjudaginn 11. ágúst, með frumsýningu á nýrri heimildarmynd í leikstjórn Jóns Karls Helgasonar. Efnistök myndarinnar er Tómas R. Einarsson kontrabassaleikari og lagahöfundur sem er löngu landskunnur, ekki síst fyrir latín tónlist sína. Í kvikmyndinni Latínbóndinn kynnumst við manninum bak við bassann og lögin og því hvernig það vildi til að sveitastrákur úr Dölunum elti tónlistargyðjuna út í heim og alla leið til Havana á Kúbu og snéri loks til baka í heimahagana með heita og litríka latínveislu í farangrinum.

Nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á www.reykjavikjazz.is og á Facebook www.facebook.com/Rvk.Jazz

Tónleikahátíðin KEXPort verður haldin í fjórða skipti

Agent Fresco

Tónleikahátíðin KEXPort verður haldin í fjórða skiptið í portinu fyrir aftan KEX Hostel laugardaginn 18. júlí næstkomandi frá tólf á hádegi til miðnættis. Tónleikarnir eru haldnir til heiðurs KEXP í Seattle og munu koma fram tólf tónlistaratriði á jafn mörgum klukkustundum. KEXP er útvarpsstöð sem sótt hefur Ísland árlega allt frá árinu 2009 og hefur unnið óeigingjarnt starf til kynningar íslenskrar tónlistar í Bandaríkjunum og víðar í heiminum.

Hátíðin er haldin í portinu fyrir aftan Kex Hostel og eru þeir opnir almenningi á meðan rúm leyfir. Mikill stemmning er fyrir KEXPort í ár og er óhætt að segja að segja að fjölbreytni tónlistaratriða sé með besta móti.

Myndbandstöku af tónleikunum í ár verður streymt beint í gegnum KEXP.ORG, Kexland.is og MusicReach.tv og er það í fyrsta skiptið sem það verður gert.

Dagskrá tónlistaratriða er efirfarandi:

12:00 Sóley
13:00 Teitur Magnússon
14:00 Kælan Mikla
15:00 Futuregrapher
16:00 Markús and the Diversion session
17:00 Valdimar
18:00 Rökkurró
19:00 Muck
20:00 Gísli Pálmi
21:00 DJ Yamaho
22:00 Agent Fresco
23:00 Emmsje Gauti

LungA – Listahátíð ungs fólks

Lunga Art Festival by Magnus Elvar Jonsson1081
Í fréttatilkynningu segir:

Í sumar fagnar LungA hátíðin 15 ára afmæli sínu.
LungA er litrík, alþjóðleg listahátíð með fjölda viðburða í vikulangri dagskrá sem fer fram á Seyðisfirði dagana 12 – 19. Júlí. Á hátíðinni myndast einstakt samfélag þar sem fólk sækir innblástur í listir, umhverfið og hvort annað. Í fjölbreyttum listasmiðjum fá þátttakendur tækifæri til að kanna óþekktar hliðar á sjálfum sér og öðlast bæði ný tengsl og ógleymanlega reynslu.

Það er er ekki auðvelt að lýsa andrúmsloftinu á LungA. Prófessor Goddur orðaði það svona :

…það er sérstakt andrúmsloft hér sem erfitt er að lýsa. það er eins og að reyna að lýsa kynferðislegri fullnægingu fyrir fólki sem aldei hefur kynnst kynferðislegri fullnægingu – Seyðisfjörður er skapandi kynferðisleg fullnæging. Þú verður að upplifa hana til að skilja.

Í dag (1. júní) hefst miðasala á stórtónleika hátíðarinnar á tix.is og einnig verður opnað fyrir skráningar í listasmiðjur á www.lunga.is en síðast fylltust þær á fáeinum dögum!

Tónleikarnir verða hápunktur hátíðarinnar og fara fram laugardainn 18. júlí. Tónleikasvæðið við gömlu fiskvinnsluna verður ævintýraleg upplifun í sjálfu sér og á sérsmíðuðu sviði LungA koma fram hljómsveitirnar :

Sykur
Gangly
Grísalappalísa
Dj flugvél og geimskip
og Reykjavíkurdætur

Extreme Chill Festival 2015 – Undir Jökli

ECF Poster

Íslenska tónlistarhátíðin Extreme Chill Festival – Undir jökli verður haldin helgina 7 – 9 ágúst næstkomandi á Hellissandi við rætur Snæfellsjökuls.

Þetta er í sjötta sinn sem hátíðin fer fram, en fimm ára afmæli hátíðarinnar var haldin í Berlín síðastliðið sumar við ótrúlegar undirtektir.

Dagskráin í ár er ekki af verri endanum en tónlistarmenn á borð við: Biosphere, Hilmar Örn Hilmarsson, Steindór Andersen, Mixmaster Morris, Studnitzky, Stereo Hypnosis, Dj Flugvél og Geimskip, Jónas Sen, Tonik Ensemble, Futuregrapher, Ruxpin, Skurken, Jóhann Eiríksson, o.fl. munu koma fram á hátíðinni.

Takmarkaðir miðar verða í boði í ár og kostar passinn á hátíðina aðeins 7900 kr. Við hvetjum því fólk til að tryggja sér passa tímanlega en síðustu ár hefur selst upp og komust færri að en vildu. Hægt er að nálgast miða inn á mida.is

Mjög gott tjaldsvæði er á Hellissandi, en það opnaði sumarið 2011 og er staðsett í fallegu hrauni er kallast Sandahraun. Á svæðinu er þjónustuhús með salerni, sturtum og vaskarými. Skemmtilegar gönguleiðir eru í næsta nágrenni, fallegar fjörur með öllum þeim ævintýrum sem þær bjóða uppá. Sólsetrin við Breiðafjörð séð frá Sandahrauni eru óviðjafnanleg og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er næsti nágranni við tjaldsvæðið.

Frekari upplýsingar og dagskrá er að finna á heimasíðu Extreme Chill. www.extremechillfestival.com

Sumarmölin 2015

Sumarmölin 2015

Tónlistarhátíðin Sumarmölin fer fram í þriðja sinn í Samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi þann 13. júní næstkomandi. Hátíðin er rómuð fyrir einstaka stemningu þar sem fólk á öllum aldri kemur saman og nýtur frábærrar tónlistar í einstöku umhverfi.

Fyrir Sumarmölina í ár var rjóminn fleyttur ofan af íslensku tónlistarlífi og sett saman ómótstæðileg dagskrá þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Á hátíðinni í ár koma fram:
 • Sóley
 • Retro Stefson
 • Tilbury
 • Ylja
 • Borko
 • Kveld-Úlfur
 • Berndsen

16 ára aldurstakmark er á tónleikana en yngri tónleikagestir eru hjartanlega velkomnir í fylgd með fullorðnum.

Tónleikarnir hefjast klukkan 19:30 en húsið opnar um hálftíma fyrr.

Að tónleikum loknum munu FM Belfast DJar halda upp stuði og stemningu fyrir dansþyrsta tónleikagesti á Malarkaffi fram á nótt.

Miðaverð er 4500 kr. í forsölu
Hægt er að kaupa 2 miða og gistingu fyrir 2 á Malarhorni á aðeins 25.000 kr.
Aðgangur er ókeypis fyrir 12 ára og yngri.

Forsala aðgöngumiða fer fram á tix.is.

ATP á Íslandi – Síðustu nöfn tilkynnt og opnað fyrir umsóknir upprennandi listamanna

ATP logo

Tónlistarhátíðin ATP á Íslandi hefur nú tilkynnt síðustu nöfn listamanna sem munu koma fram á hátíðinni í ár, 2. – 4. júlí.

Val listamannanna að þessu sinni er í höndum Bedroom Community útgáfunnar annarsvegar og Rásar 2 hinsvegar. Báðir aðilar hafa valið þrjá listamenn til að koma fram á Andrew’s Theatre sviðinu, en auk þeirra munu tveir listamenn til viðbótar hafa möguleika á að troða upp á hátíðinni í ár í gegnum sérstaka keppni á vegum ATP (sjá að neðan).

Listamennirnir eru sem hér segir:

Bedroom Community í Andrews Theatre – föstudagur, 3. júlí:

 • Valgeir Sigurðsson ásamt Liam Byrne
 • Daníel Bjarnason
 • JFDR
 • Vinningshafi – upprennandi listamaður/hljómsveit

Rás 2 í Andrews Theatre – laugardagur, 4 .júlí:

 • Pink Street Boys
 • Rythmatik
 • Börn
 • Vinningshafi – upprennandi listamaður/hljómsveit

Með þessari nýju viðbót er heildarlisti yfir þá listamenn sem koma fram sem hér segir:
Iggy Pop, Drive Like Jehu, Belle and Sebastian, Public Enemy, Swans, Godspeed You! Black Emperor, Run The Jewels, Mudhoney, Loop, Lightning Bolt, Bardo Pond, Kiasmos, HAM, Ghostigital, Ought, Clipping, The Bug, Younghusband, Xylouris White, Deafheaven, Iceage, Chelsea Wolfe, The Field, White Hills, Ghostigital, Oyama, Vision Fortune, Grísalappalísa, Valdimar, Stafrænn Hákon, Mr Silla, Kippi Kaninus, Tall Firs, Grimm Grimm, Ben Frost + Valgeir Sigurðsson, Daníel Bjarnason, Jófríður (sóló), Pink Street Boys, Rythmatik og Börn.

Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir ungra & upprennandi listamanna, en þeir sem sækja um eiga möguleika á því að koma fram á hátíðinni í ár. Valið er í höndum Bedroom Community og Rásar 2 sem velja eitt atriði hvort fyrir sín kvöld í Andrews Theatre. Jafnframt verða tveir listamenn til viðbótar valdir sem 3. og 4. sæti og hljóta að launum hátíðarpassa á ATP á Íslandi.

Hægt er að sækja um hér fram til 26. maí en einnig er frekari upplýsingar þar að finna.

Bráðlega verður svo tilkynnt um hverjir munu koma til með að velja kvikmyndadagskrá hátíðarinnar í ár og hvaða veitingar verða í boði á hátíðarsvæðinu.

Ný & frí sumarhátíð í Breiðholti

Breiðholt Festival

Í fréttatilkynningu segir:

Bedroom Community kynnir með stolti nýja og fría listahátíð í hjarta Seljahverfis – Breiðholt Festival. Hátíðin fer fram 13. júní næstkomandi og mun bjóða upp á fjölda listamanna og viðburða.

Nú þegar er búið að staðfesta fyrstu nöfn, en fleiri verða tilkynnt bráðlega.

VIÐBURÐIR:

Tónleikar
Listasmiðjur
Markaðir
Hljóðinnsetning í Ölduselslaug
Útileikir
Upplestur
Gjörningar
og margt, margt fleira…

LISTAMENN:

Samaris
Ben Frost – 6 Guitars (Valgeir Sigurðsson, Kira Kira, Jófríður o.fl.)
Nico Muhly
Sjón
Stelpur Rokka!
DFM Company
Lúðrasveit Breiðholts og Árbæjar
Gunnar Jónsson Collider
Ragnheiður Harpa Leifsdóttir
Davíð Örn Halldórsson
o.fl.!

Eins og nafnið gefur til kynna gerir hátíðin listamönnum sem koma úr/gera út frá Breiðholti hátt undir höfði og er það von aðstandenda að fólk flykkist í Breiðholt og sjái hverfið í nýju ljósi.

Tilkynnt verður um frekari upplýsingar og listamenn þegar nær dregur.

Fleiri listamenn tilkynntir á Iceland Airwaves

Airwaves 14

Skipuleggjendur Iceland Airwaves tilkynntu rétt í þessu fleiri listamenn sem koma fram á hátíðinni í ár en alls verða þeir um 200. Iceland Airwaves-hátíðin verður haldin í sextánda sinn í ár, dagana 5. til 9. nóvember og er undirbúningur í fullum gangi. Miðasalan er hafin á heimasíðu Iceland Airwaves.

 • FM Belfast
 • Son Lux (US)
 • Kwabs (UK)
 • Árstíðir
 • Lay Low
 • Agent Fresco
 • kimono
 • Rachel Sermanni (SCO)
 • Ezra Furman (US)
 • Jessy Lanza (CA)
 • Phox (US)
 • Benny Crespo’s Gang
 • Kiriyama Family
 • Íkorni
 • Strigaskór nr 42
 • Odonis Odonis (CA)
 • Tremoro Tarantura (NO)
 • In the Company of Men
 • Júníus Meyvant
 • Elín Helena
 • HaZar
 • Krakkkbot
 • Reptilicus
 • Stereo Hypnosis
 • Ambátt
 • CeaseTone
 • Reykjavíkurdætur
 • DADA
 • Döpur
 • Inferno 5

Hér að neðan má heyra tóndæmi frá öllum þeim erlendu listamönnum sem bættust við að þessu sinni.

Eistnaflug 2014

Eistnaflug

Dagana 10.-12. júlí næstkomandi verður Eistnaflug sett upp í tíunda sinn. Miðvikudaginn 9. júlí verða tvennir upphitunartónleikar í Egilsbúð, annars vegar tónleikar fyrir alla aldurshópa sem byrja kl. 19:00 og standa til 22:00 og hins vegar tónleikar fyrir fullorðna sem hefjast kl. 23:00. Hljómsveitirnar Brain Police, Severed og Skálmöld koma fram á fyrri tónleikunum en hljómsveitin Sólstafir kemur fram á þeim síðari þar sem þeir spila m.a. frumflutt efni af nýrri plötu sem kemur út síðla sumars.

Mikil áhersla er lögð á fjölbreytta og góða dagskrá á Eistnaflugi. Þar verður ekkert lát á í ár, erlendu gestir okkar verða:

 • Goðsagnakennda hljómsveitin At The Gates, sem út af fyrir sig eru næg ástæða til þess að legga á sig langt ferðalag austur á firði. Árið í ár virðist svo sannarlega vera þeirra eftir tilkynningu um nýja plötu á haustmánuðum.
 • Bandaríska Thrash-hljómsveitin Havok sem er á stöðugu tónleikaferðalagi um heiminn
 • Svissneska sludge-skrímslið Zatokrev sem á eftir að valta yfir áhorfendur
 • Hollenska dauðarokksbandið The Monolith Deathcult sem heimsækja Eistnaflug í annað sinn

Hátíðin hefur þó alltaf lagt mesta áherslu á að bjóða upp á það besta og ferskasta í innlendri tónlist, innlendir gestir okkar í ár verða:

Agent Fresco, AMFJ, Angist , Azoic, Beneath, Benny Crespo’s Gang, Brain Police, Carpe Noctem, Darknote, Dimma, DJ Töfri, Endless Dark, Gone Postal, Grísalappalísa, HAM, Hindurvættir, Innvortis, In The Company Of Men, Jónas Sigurðsson og Ritvélar Framtíðarinnar, Kontinuum, Kælan Mikla, Malignant Mist, Mammút, Maus, Momentum, Morð, Nevolution, ONI, Ophidian I, Pink Street Boys, Retro Stefson, Reykjavíkurdætur, Rotþróin, Saktmóðigur, Severed, Sign, Skálmöld, Skelkur í Bringu, Skepna, Sólstafir, Strigaskór nr.42, The Vintage Caravan og Unun.

Á hátíðinni verður boðið uppá pallborðsumræður fyrir hljómsveitir og áhugasaman gesti. Hópurinn sem stýrir umræðunum samanstendur af tveimur blaðamönnum og tveimur starfsmönnum plötufyrirtækjum. Einnig verður boðið uppá tengslamyndunar fund fyrir hljómsveitirnar og erlenda gesti.

Tónleika dagskráin í Egilsbúð er tilbúin og er hægt að nálgast hana á eistnaflug.is

Miðasalan er í fullum gangi á midi.is

Angist leggur land undir fót

Angist

Dauðarokkssveitin Angist er að leggja land undir fót þessa helgi en sveitin mun koma fram á SWR Barroselas metalhátíðinni í Portúgal ásamt þungavigtarnöfnum eins og Gorguts, Misery Index, Grave Miasma, b, Discharge og fleirum. Angist er önnur íslenska hljómsveitin sem fer á þessa hátíð en Beneath komu þar fram á síðasta ári.

Þröngskífa sveitarinnar, Circle of Suffering, kemur út á vínyl hjá Hollenska plötufyrirtækinu Hammerheart Records 2. júní. Hammerheart Records er þekkt fyrirtæki sem hefur gefið vínyl frá sveitum á borð við The Monolith Deathcult, b, Cryptopsy og mörg fleiri stór nöfn svo það er mikill heiður fyrir sveitina að gefa út hjá þessu fyrirtæki.

Angist er einnig að leggja lokahönd á plötuna sína sem mun koma út síðsumars og að sjálfsögðu spila á árshátíð þungarokkara, Eistnaflugi.

Er einhver HEIMA í Hafnarfirði?

Heima

Menningar- og listafjelag Hafnarfjarðar heldur tónlistarhátíðina Heima í Hafnarfirði að kvöldi síðasta vetrardags, 23.apríl 2014.

Hugmyndin að tónlistarhátíðinni Heima kemur frá Færeyjum, en Færeyingar segjast reyndar hafa fengið hugmyndina frá Íslendingum. Hún byggist á því að tónlistarmenn úr ýmsum áttum munu halda stutta tónleika í 13 heimahúsum miðsvæðis í bænum og hátíðargestirnir (bæjarbúar og aðrir) rölta á milli húsa og hlusta og njóta. Hvert tónlistaratrði kemur fram tvisvar sinum á sitt hvoru heimilinu. Þeir áhugasömustu og spretthörðustu ættu jafnvel að geta náð 4 tónleikum á kvöldinu en dagskráin stendur frá kl. 20:00 – 23:00.

Að tónleikadagskránni lokinni tekur við ball með öllu tilheyrandi á Fjörukránni og í Gaflaraleikhúsinu eitthvað fram á nótt. Í Fjörukránni mun eiga sér stað söguleg stund er Kátir Piltar tjalda öllu til og verða með só kóld “kombakk”. Í Gaflaraleikhúsinu verður opinn míkrafónn fyrir Hall Joensen frá Færeyjum og félaga og öll góð partýljón sem þora og geta.

Eftirtaldir listamenn og hljómsveitir koma fram á Heima:

 • Steindór Andersen & Hilmar Örn Hilmarsson
 • Bjartmar Guðlaugsson
 • Ylja
 • Hallur Joensen (FO)
 • Vök (Sigursveit Músíktilrauna 2013)
 • Mono Town, Elíza Newman og Anna Magga (Kolrassa Krókríðandi)
 • Strigaskór nr. 42
 • Jónas Sigurðsson
 • Fjallabræður
 • DossBaraDjamm (Skólahljómsveit þeirra Davíðs Þórs Jónssonar og Steins Ármanns í Flensborg)
 • Björn Thoroddsen + Jón Rafnsson & Andrea Gylfa
 • Snorri Helgason og Silla

Hver konsert er c.a. 40 mínútur að lengd og allir þeir sem koma fram spila tvisvar um kvöldið og flestir í sitthvoru HEIMA-húsinu.

Meðal þeirra sem hafa ákveðið að bjóða fólki heim til sín á tónleika eru Margrét Gauja Magnúsdóttir bæjarfulltrúi, Karólína Valtýsdóttir flugfreyja og Árni Matthíasson blaðamaður á Morgunblaðinu.

Sérstakur heiðurs-gestur þessarar fyrstu Heima hátíðar sem er liður í Björtum Dögum í Hafnarfirði (23. – 27. apríl) verður tónlistarmaðurinn Hallur Joensen frá Færeyjum og félagar hans. Hann er skærasta kántrí-stjarna Færeyja og á meðal gesta á nýjustu plötu hans eru Kris Kristofferson, Jóhanna Guðrún, Charley Pride ofl. Hallur hefur átt mikilli velgengni að fagna, hefur selt mikið af plötum, er þekktur víða um heim og hefur ferðast mikið og spilað víða. Með Halli koma landar hans þau Kristina og Beddi.

Miðasala á Heima verður á Súfistanum í Hafnarfirði og hófst hún nú á þriðjudaginn síðastliðinn. Takmarkað magn miða verður í boði eins og gefur að skilja. Verð miða sem einnig gildir á ballið í Fjörukránni/Gaflaraleikhúsinu með Kátum Piltum og Halli er 4500 kr. Verð miða eingöngu á Káta Pilta og opin míkrafón í Fjörukránni/Gaflaraleikhúsinu er 2500 kr.

Rauðisandur Festival blæs til leiks á ný

Rauðisandur Festival

Rauðasandur Festival tilkynnir fyrstu listamenn hátíðarinnar sem fer fram dagana 3.-6.júlí. Hér eru þeir sem staðfest er að koma munu fram í hlöðunni í ár, en fleiri tilkynninga er að vænta á næstu vikum.

 • Sam Amidon (USA)
 • Emilíana Torrini
 • Lay Low
 • Moses Hightower
 • Ylja
 • Amaba Dama
 • Boogie Trouble
 • Vök
 • Soffía Björg
 • My Bubba (DK)
 • Nolo
 • Pascal Pinon
 • Loji
 • Bob Justman
 • Makrel

Auk tónlistardagskrár er sem fyrr boðið upp á ýmislegt annað eins og fjallgöngur með leiðsögn, jóga á sandinum, sandkastalakeppni, galdrastundir með seiðkonu og í ár verður teymi viðarhöggslistamanna með opna vinnustofu á sandinum sem allir mega taka þátt í auk selaskoðunar á sandinum með leiðsögn fyrir alla fjölskylduna.

Ítarlegri dagskrá verður kynnt síðar en miðasala er hafin á Miði.is

En vorboði hátíðarinnar verður á sínum stað í kvöld, miðvikudagskvöld, með upphitunartónleikum á KEX Hostel kl 19:30, sem jafnframt markar upphaf miðasölu.

Tónleikarnir eru opnir öllum endurgjaldslaust og eru í samstarfi við KEXLAND, Símann og Thule . Nokkrir listamannanna sem munu koma fram í hlöðunni í ár ætla að hleypa þessu ári af stokkunum með aðstandendunum en þau eru:

 • Lay Low
 • Ylja
 • Amaba Dama
 • Soffía Björg

Senn líður að Sónar 2014

Sónar Reykjavík 2014

Heimsfræga tónlistar- og nýlistahátíðin Sónar fer fram í annað sinn í Reykjavík dagana 13. til 15. febrúar 2014 í Hörpu. Sónar er alþjóðleg hátíð sem býður upp það ferskasta sem er að gerast í rafrænni tónlist hverju sinni, tengir saman sköpun og tækni ásamt því að vera vettvangur fyrir skapandi fólk til að hittast og þróa saman list sína. Hátiðin getur verið stökkpallur fyrir íslenskt listafólk en líkt og margir muna þá fékk íslenska hljómsveitin Sísí Ey boð um að spila á Sónar í Barcelona eftir flutning sinn á Sónar Reykjavík í fyrra.

Allst munu yfir 60 atriði koma fram á Sónar Reykjavík 2014 og um helmingur þeirra eru íslensk atriði. Meðal þeirra eru Sísí Ey, GusGus, Vök, Sykur, Highlands, Obja Rasta, Moses Hightower og Starwalker nýja verkefni Barða Jóhannssonar og Jean-Benoit Dunckel úr Air. Af stærri erlendum atriðum má nefna Major Lazer, Jon Hopkins, Bonobo og Daphni sem er hliðarverkefni Dan Snaith úr Caribou.

Rjóminn bendir gestum Sónar Reykjavík á að reima á sig dansskónna og opna skilningarvitin. Hátíðin er einstakur vettvangur sem blandar saman skemmtun og tilraunastarfsemi þar sem það nýjasta í framsækinni tónlist og tengdum listum fær að njóta sín. Líkt og í fyrra verður bílakjallari Hörpunnar breytt í sveitt dansgólf.

Enn eru nokkrir miðar í boði á hátíðina. Miðasala fer fram á miði.is

Interpol og Portishead á ATP í sumar

ATP Iceland 2014

Skipuleggjendur All Tommorrows Parties tilkynntu í morgun að hljómsveitirnar Portishead og Interpol verða stærstu hljómsveitirnar á hátíðinni á Ásbrú í júlí. Þá munu hljómsveitirnar Mammút, Sóley, Samaris, For a Minor Reflection og Low Roar einnig koma fram.

Ég veit ekki með ykkur en ég myndi redda mér miða sem allra fyrst. Það þarf nú varla að ræða það.

Miðasala er hafin á www.midi.is!

Rjóminn á ATP Iceland

Nick Cave

Rjóminn var einstaklega sáttur við ATP hátíðina sem fór fram á Ásbrú nú um helgina. Það var alveg með eindæmum góðmennt, þó maður hefði viljað sjá aðeins fleiri á svæðinu, og var stemmingin afar afslöppuð og ljúf. Maður þurfti varla að snúa sér í nema hálfhring til að sjá kunnuglegt andlit eða góðan kunningja.

Tónlistin var heilt yfir mjög góð þó auðvitað hefðu ekki öll atriðin höfðað jafn vel til manns. Hápunktarnir voru Monotown, Botnleðgja, The Fall, Ghostdigital og auðvitað eðaltöffarinn Nick Cave sem skilaði mögnuðu giggi þrátt fyrir að hafa tekið óvænta flugferð af sviðinu. Önnur tónlistaratriði voru ágæt. HAM virtust þó renna í gegnum sitt prógram bara af gömlum vana og SQÜRL, bandið hans Jim Jarmusch, var eiginlega ekki að gera neitt sem er þess virði að tala um. Extra rokkstig fara svo til Hjaltalín fyrir að leggja á annað borð í að fara upp á svið á eftir Nick Cave. Ég get vel skilið að meðlimir sveitarinnar hafi ekki verið sérstaklega áhugasamir að fylgja á eftir honum en þau skiluðu sínu og fá plús í kladdann fyrir það.

Ég vona innilega að ATP hátíðin nái að festa sig í sessi hér á landi og verði haldin aftur fljótlega. Gamla Kana-svæðið hentar einstaklega vel fyrir viðburð sem þennan og mætti hæglega slá upp viðameiri hátíð næst þar sem svæðið er gjörsamlega vannýtt eins og er.

Tómas Young og hans fólk á hrós skilið fyrir frábæra hátíð þar sem faglega var að öllu staðið. Áfram ATP!