Tiny gefur út nýtt lag

Lagið “1000 Eyes” fyrsta lagið af væntanlegri sólóplötu rapparans “TINY”, en hann ætti að vera tónlistaráhugafólki að góðu kunnur fyrir störf sín með hljómsveitinni Quarashi sem var um árabil alvinsælasta hljómsveit Íslands. Það er þó fátt sem minnir á Quarashi í “1000 Eyes” þó fyrrverandi meðlimir sveitarinnar, þeir Sölvi Blöndal og “TINY”, leiði þar saman hesta sína að ógleymdri söngkonunni Þórunni Antoníu.

Lagið “1000 eyes” er einnig það fyrsta sem kemur úr smiðju Sölva Blöndal í langan tíma en von er á meira efni frá honum undir vinnuheitinu Halleluwah þar sem fjölmargir innlendir sem erlendir listamenn koma við sögu. Fyrsta lagið er á lokastigi vinnslu og mun heyrast á allra næstu vikum.

TINY – 1000 Eyes feat. Þórunn Antonía

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Two Toucans

Vinir okkar hjá hinu frábæra tónlistarbloggi Topp 5 á Föstudegi fjölluðu nýverið um áhugavert íslenskt systkyna dúó sem kallast Two Toucans en þau flytja vel fágað elektrónískt R&B. Munu þau hafa verið starfandi í tæpt ár og sent frá sér ein þrjú lög og hljómar eitt þeirra, lagið “Shame”, hér að neðan.

Áhugasamir geta nálgast meira efni með Two Toucans á Soundcloud síðu sveitarinnar og einnig á Facebook síðu þeirra.

Úlfur Úlfur og Emmsjé Gauti með myndband

Íslenska rapphljómsveitin Úlfur Úlfur hefur verið iðin við að pumpa út efni bæði í hljóði og mynd og tónleikahald allt frá stofnun sveitarinnar á síðasta ári. Sveitin var stofnuð af þeim Arnari Frey Frostasyni og Helga Sæmundi Kaldalón Guðmundssyni eftir slit hljómsveitarinnar Bróðir Svartúlfs en Bróðir Svartúlfs stóðu uppi sem sigurvegarar Músíktilrauna fyrir nokkrum árum og hreif rímnaflæði Arnars Freys og rokk/popp grúv sveitarinnar bæði dómnefnd og landann með sér.
Nýja verkefnið, Úlfur Úlfur, einblínir þó meira á rapp/hip-hop senuna og ásamt Þorbirni Einari hefur sveitin komið út sinni fyrstu plötu. Ber hún heitið Föstudagurinn Langi. Voru drengirnir afar gjafmildir og gáfu plötu sína aðdáendum og áhugasömum á heimasíðu sinni, Úlfurúlfur.com.

Fyrir stuttu hélt sveitin frumsýningarpartý á myndbandi við lagið Á Meðan Ég Er Ungur en þar fá þeir þar til liðs við lagasmíðarnar rapparann Emmsjé Gauta og Óróa-stjarnan Atli Óskar Fjalarson sér um leikræna túlkun í aðalhlutverki myndbandsins. Gjössovel!

Úlfur Úlfur gefur út frumraun sína

Úlfur Úlfur er forvitnileg samsuða af rappi og melódísku poppi með oft á tíðum dökku yfirbragði þótt partýið sé aldrei langt undan. Arnar Freyr sér um að mata hlustendur á hárbeittu flæði sem Helgi Sæmundur bakkar upp með fallegum sönglínum og rappi á meðan Þorbjörn Einar mundar plötuspilarann. Innblásturinn er allstaðar að; hvort sem um er að ræða kvenfólk og næturbrölt eða æskuna og tilfinningalíf. Áhrifavaldarnir eru sömuleiðis úr öllum áttum og er þá hvorki spurt um stíl né stefnu. Niðurstaðan er frumleg nálgun á popptónlist sem spannar allan skalann.

Þann 10. Desember mun Úlfur Úlfur gefa út frumraun sína: Föstudagurinn Langi. Platan inniheldur 10 lög og á henni verður að finna gestaframkomu frá tveimur af meðlimum Agent Fresco, Arnóri Dan, söngvara sveitarinnar og gítarleikaranum Þórarinni, að ógleymdu partýljóninu sem flestir ættu að kannast við: Emmsjé Gauta.

Í tilefni þessa ætla drengirnir að slá upp útgáfutónleikum á Faktorý samdægurs, þ.e. laugardaginn 10. desember. Þeim til stuðnings og aðstoðar verða allir þeim sem að plötunni komu og má því reikna með miklum flugeldum.

Húsið opnar klukkan 22:00 og hefjast tónleikarnir á slaginu 23:00. Aðgangur verður 999 kr og verður Föstudagurinn Langi seldur á staðnum.

Quarashi Anthology

Út er komin safnplata hljómsveitarinnar Quarashi sem nefnist Anthology en um er að ræða 42 laga safnpakka frá 8 ára ferli hljómsveitarinnar. Tónlist.is býður uppá tvö áður óútgefin (og óheyrð) Quarashi lög í kaupbæti með plötunni en þau verða aðeins fáanleg hjá okkur. Þetta eru lögin “Shady Lives” sem var gert með Opee árið 2003, stuttlega eftir að “Mess it Up” varð vinsælt og lagið “An Abductee” sem var gert fyrir Jinx en rataði ekki á plötuna.

Anthology pakkinn sjálfur er svo stútfullur af vinsælu og sjaldgæfu efni frá Quarashi. Sjaldan eða aldrei hefur hljómsveit náð að gera upp feril sinn með jafn skilvirkum hætti án þess þó að vera einungis að gefa út áður útgefið efni. Pakkinn er því bæði hugsaður fyrir þá sem vilja eignast öll vinsælustu lög sveitarinnar í hvelli og hörðustu aðdáendurna sem vilja fá meira fyrir sinn snúð. Þannig vill sveitin kveðja aðdáendur sína – með því að tryggja að hinsta útgáfa Quarashi sé sem glæsilegust.

Quarashi – Shady Lives (feat. Opee)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Úlfur Úlfur halda tónleika og opna nýja vefsíðu

Úlfur Úlfur

Úlfur Úlfur er ný rapphljómsveit sem samanstendur af þremur metnaðarfullum piltum og hafa þeir á stuttum starfsferli sent frá sér fjölda laga.

Úlfur Úlfur mun koma fram á Players í Kópavogi í kvöld, föstudaginn 16. september.

Nýlega hafa þeir opnað vefsíðuna www.ulfurulfur.com sem hefur verið að fá góð viðbrögð og þar er hægt að fylgjast með tónleikum, bloggi, tónlist, myndböndum og fleira. Þeir skrá sig á póstlitan á vefnum þeirra fá fréttir af öllu því nýjasta, frítt á tónleika, og fría tónlist.

Sage Francis á Sódóma 3.september

Bandaríski rapparinn/ljóðskáldið Sage Francis sækir landann heim nú á laugardag og mun koma fram á Sódóma Reykjavík við Tryggvagötu laugardaginn 3.september nk. Ásamt Francis mun rapparinn B.Dolan troða upp en báðir koma þeir frá Providence í Rhode Island fylki í Bandaríkjunum.

Sage Francis hefur um nær áratugaskeið hrist vel upp í rappheiminum með hreinskilnum textum sínum, oftar en ekki í töluðum stíl (spoken word) og með því að storka hinum almenna tónlistarstíl nútímarapptónlistar en breiðskífa hans, Personal Journals, frá árinu 2002, hlaut einróma lof gagnrýnanda. Francis heimsækir nú Ísland í annað sinn með rúmlega sjö breiðskífur að baki en rapparinn gekk á land árið 2002. Nýjasta breiðskífa Francis, Li(f)e, kom út árið 2010 og lagið “The Best of Times” náði gríðarlegum vinsældum ásamt því að myndbandið við lagið gerði lukku. Francis er eigandi neðanjarðarplötufyrirtækisins Strange Famous Records en B.Dolan er einmitt einn af listamönnunum þar á bæ. Auk þess má nefna Buck 65, annan Íslandsvin í sambandi við fyrirtækið.

Miðasala á tónleika Sage Francis og B.Dolan á Sódóma Reykjavík þann 3.september nk. fer fram á miði.is og er miðaverð 3.000 krónur.  Rjóminn hvetur áhugafólk um rapptónlist, rímur og flæði að líta við á þessa félaga frá Rhode Island næstkomandi laugardagskvöld.

Rjómalagið 26.ágúst: X Plastaz – Kutesa Kwa Zamu

Það er eitthvað svo yndislegt við að hlusta á rapp á tungumálum sem maður skilur ekki. Sérstaklega þegar það er gott rapp. Ungverskur maður í Danmörku sagði mér frá Tansaníska hip-hop bandinu X Plastaz (talandi um alþjóðavæðingu), og hefur það ítrekað ratað í spilarann minn síðan þá – enda eðal stöff. X Plastaz rappa ýmist á Swahili eða Haya, en blanda því við tónlist og söngva Maasai-fólksins. Þessi stíll hefur verið kallaður því skemmtilega nafni Bongo Flava, eða þá Masaai Hip Hop

Úlfur Úlfur með nýtt lag

Úlfur Úlfur er ný rapphljómsveit sem samanstendur af þremur metnaðarfullum piltum. Á stuttum starfsferli hafa þeir sent frá sér fjölda laga og spilað á tónleikum með ólíkum tónlistarmönnum; allt frá Agent Fresco og For a minor Reflection til Friðriks Dórs og Jóns Jónssonar. Margt er í bígerð hjá þeim drengjum, þ.á.m. samstarf við nokkra landskunna listamenn, tónleikar og auðvitað það sem öllu máli skiptir: fleiri lög.

Um næstkomandi helgi kemur Úlfur Úlfur fram á tónlistarhátíðinni Gærunni sem haldin er á Sauðárkróki. Ásamt þeim koma m.a. fram Valdimar, Blaz Roca, Múgsefjun, Emmsjé Gauti og Geirmundur Valtýsson. Helgina eftir það, föstudaginn 19. Ágúst, munu þeir svo spila á kveðjutónleikum Rökkurró sem haldnir verða á Faktorý.

Úlfur Úlfur hafa sent frá sér myndband við glænýtt lag sem ber heitið “Lupus lupus”.

Nýtt tónlistarmyndband Emmsjé Gauta

Gauti Þeyr Másson, eða betur þekktur sem Emmsjé Gauti gaf fyrir skömmu út sína fyrstu breiðskífu sem ber nafnið Bara Ég. Á plötunni sinni fékk Gauti til liðs við sig marga þekkta listamenn, þar má nefna Berndsen, Blazroca (Erpur Eyvindarson) og Frikka Dór ásamt mörgum fleiri.

Nýjasta smáskífa plötunnar ber heitið “Hemmi Gunn” og er myndbandið, sem segir sögu rappara sem er búinn að fá sig full saddan af rapplyginni sem viðgengst í tónlistarmyndböndum í dag, nú komið fyrir sjónir almennings.

Í laginu fékk Gauti Blazroca til liðs við sig og fer hann á kostum í videóinu og gefur Gauta ekkert eftir.

The Adventures – Collected Works, Vol. II

Út er komin á gogoyoko platan Collected Works, Vol. II sem er fyrsta plata The Adventures en það er listamannsnafn diplómatans og háskóla stundakennarans Jónasar Haraldssonar. Platan spannar sjö ára tímabil tónlistarsköpunar og inniheldur þrjú rap lög, öll á íslensku, og fimm instrumental lög auk tveggja aukalaga sem einungis er að finna á gogoyoko útgáfunni.

Hér er á ferðinni kærkomin viðbót við íslenska hip-hop flóru og þá sérstaklega rímurnar sem eru einkar vel heppnaðar.

Nýtt myndband frá Beastie Boys leikstýrt af Spike Jonze

Í gær birtist á vefnum þetta magnaða myndband frá Beastie Boys við lagið “Don’t Play No Game That I Can’t Win” (ásamt Santigold) í fullri, óklipptri og últra HD directors cut útgáfu. Það er enginn annar en sjálfur Spike Jonze sem leikstýrir og færir hann okkur brúður, hasar, uppvakninga, ógurlega snjómenn og hákarla.

Roskilde 2011: Atmosphere

1.júní er genginn í garð og ekki seinna vænna en að líta aðeins á nokkur áhugaverð bönd sem fram koma á Hróarskelduhátíðinni í ár. Bandaríski dúettinn Atmosphere er fyrstur í röðinni að þessu sinni.

Atmosphere var stofnuð af þeim Sean Daley (Slug) og Anthony Davis (Ant) í Minneapolis í Bandaríkjunum árið 1989. Slug sér um rímurnar á meðan Ant sér um taktana. Sveitin hefur allt frá stofnun verið afar vinsæl og þá einna helst þekkt fyrir drifkraft en sveitin er án efa ein vinsælasta sjálfstæða rappsveit heims. Sendi dúettinn frá sér sína sjöttu breiðskífu, The Family Sign, fyrr á árinu og með sex breiðskífur og yfir tuttugu ár í bransanum heimsækir Atmosphere, Roskilde 2011.

Íslenskir unnendur takta og rímna eru hvattir til að líta við á tónleikum Atmosphere á Hróarskeldu 2011.

Heiðursmannarapp

Ekki alls fyrir löngu fæddist ný tónlistarstefna í Brighton á suðurströnd Englands: Chap-Hop eða heiðursmannarapp*. Stefnan blandar saman hip-hopi við breska yfirstéttartísku Viktoríutímans og umfjöllunarefni nýlenduhefðarmanna; þeir reikja pípu og drekka te á meðan þeir spila krikket í khaki-buxum. Stefnan er nátengd gufupönktískunni (en. steampunk) sem verður sívinsælli með hverjum deginum í Brighton og víðar.

Helstu forsprakkar stefnunnar Professor Elemental og Mr.B (a.k.a the Gentleman Rhymer) eru nú búnir að fá nóg af hvorum öðrum og ætla að takast á (líkt og herramanna er siður) á Meadowland-festivalinu í lok maí.

Professor Elemental – Fighting Trousers

Mr.B – Straight Outta Surrey

*þýðingin kemur frá Guðmundi Pálssyni sem skrifaði pistil um fyrirbærið hér

Enn bætist við Airwaves

Aðstandendur Airwaves hátíðarinnar hafa bætt 14 nýjum atriðum við föngulegan hóp listamanna sem stíga munu á stokk á þessari mestu og bestu tónlistarhátíð okkar íslendinga. Erlendis frá koma Dope D.O.D. og De Staat frá Hollandi, SUUNS frá Quebec, rokkabillykaninn JD McPherson, Niki and the Dove, berlínarbúarnir Tar Haar og svo Sheffield-rokkararnir The Violet May.

Suuns – Up Past The Nursery

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

The Violet May – What You Say

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Dope D.O.D. – What Happened

Niki and The Dove – The Fox

De Staat – Sweatshop

J.D. McPherson – North Side Gal

Ter Haar – Yatzy

Samlandar okkar sem boðað hafa komu sína eru stúlkurnar í Pascal Pinon, Útidúr, Hljómsveitin Ég, Benny Crespo’s Gang, lo-fi dúóið Nolo, weirdcore fánaberinn Futuregrapher og síðast en ekki síðst hávaðarokkararnir í Swords of Chaos.

Það þarf því varla að hafa orð á því, þó við gerum það nú samt, að allt stefnir í glæsilegustu Airwaves hátíð til þessa. Svo verða herlegheitin að mestu haldin í tónleikabákninu Hörpu og ætti það eitt að vera nóg til að æra óstöðugan tónlistarunnandann.

Hot Sauce Committee Part Two

Áttunda breiðskífa Beastie Boys, Hot Sauce Committee Part Two, mun sjá dagsins ljós í físísku formi þann 3. maí næstkomandi og er þetta fyrsta plata tríósins síðan þeir gáfu út The Mix-up fyrir um fjórum árum.

Hér að neðan má heyra plötuna í heild sinni í boði þeirra Mike D, Ad Rock og MCA. Hversu lengi veit ég eigi en við skulum njóta þess á meðan það varir.

Steve Sampling – The Optimist

Fjórða sólóplata Steve Sampling er nú komin í heiminn og heitir hún The Optimist. Mun hún vera tölvuvert dansvæddari en fyrri verk kappans en á henni má heyra allt frá electro, trip hop og dubstep. Platan mun verða til sölu á www.tomtomrecords.com og á CD-R – en sú útgáfa mun einnig gefa kaupandunum tækifæri á að hala niður plötunni frítt á vefsíðu TomTom Records.

Á morgun, fimmtudaginn 21. Apríl, mun tónleikaröð TomTom’s halda áfram á Hemma & Valda og mun Steve Sampling halda útgáfutónleika sína. Honum til stuðnings verða ThizOne og FU Kaisha og svo mun Futuregrapher bræða mp3 fæla á milli atriða.