Erlendar útgáfur í apríl

Apríl mánuður er rúmlega hálfnaður og státar svo sannarlega af spennandi útgáfum hljómplatna utan landsteina Íslands. Gruggið lifir, hip-hop-ið heillar, gamlir vinir minna á sig og ferskar sveitir reyna frumraun sína í einni erfiðustu samkeppni heims; tónlistarbransanum. Skoðum nokkrar safaríkar plötur sem koma út í apríl.

Atmosphere – The Family Sign
Goðsagnir neðanjarðar hip-hop senunnar í Bandaríkjunum, Atmosphere, gefa út sína sjöundu breiðskífu en sveitin var stofnuð í kringum árið 1990. Rímnaflæði sveitarinnar hefur staðið sjálfstætt allt frá stofnun sveitarinnar og er sveitin ekki einungis þekkt fyrir ljúffengar rímur og mjúka takta, heldur einnig fyrir að standa á eigin fótum og vinna flest allt sjálf. The Family Sign frá Atmosphere er væntanleg í apríl.

Elbow – Build A Rocket Boys!
Eftir 20 ár í bransanum er fimmta breiðskífa Elbow væntanleg í apríl. Platan ber heitið Build A Rocket Boys! og fylgir eftir eðalskífunni The Seldom Seen Kid frá árinu 2008. Velgengni plötunnar færði Elbow inn í hóp virtustu poppsveita Bretlands og verðlaunahafið baðaði sveitina árið 2009. Nú er að sjá hvort sprengja The Seldom Seen Kid sé dauð úr öllum glæðum eða hvort Build A Rocket Boys! standi undir nafni?Foo Fighters – Wasting Light
Dave Grohl og félagar í Foo Fighters gáfu út sína sjöundu breiðskífu þann 12.apríl sl. Hljómsveitinni hefur vaxið ásmegin allt frá árinu 1995 þegar fyrsta plata sveitarinnar, Foo Fighters, leit dagsins ljós. Aðdáendur sveitarinnar fengu ágætis högg í andlitið fyrir stuttu síðan þegar hljómsveitin sleppti frá sér fyrstu smáskífu Wasting Light, White Limo en þar fór sveitin mikinn með Lemmy úr Motörhead í forgrunni og mikil læti og spurningin er hvort gullöld Grohl og félaga sé liðin eða rétt að hefjast.

Low – C´Mon
Íslandsvinirnir í hinni ljúfu Low eiga meira inni en jólalög. Það sannar sveitin án efa með útgáfu sinnar níundu breiðskífu, C´Mon þann 12.apríl sl. Low hefur verið starfandi allt frá árinu 1993 en í dag mynda þau Alan Sparhawk, Mimi Parker og Steve Garrington tríóið mjúka. Hljómsveitin hefur gefið út undir merkjum Seattle-útgáfunnar Sub Pop allt frá árinu 2005 og er engin breyting á að þessu sinni. Sjáum hvað setur.

Meat Puppets – Lollipop
Þrettánda breiðskífa Kirkwood bræðra í Meat Puppets, Lollipop, er væntanleg í apríl. Hljómsveitin var stofnuð árið 1980 og er vel komin til ára sinna. Þó hefur hún verið iðin við útgáfu og aldrei lagt árar í bát. Flestir tengja sveitina við órafmagnaða tónleika hinnar liðnu Nirvana frá árinu 1993 en sjálfstæð stendur sveitin þó huldu höfði hafi hún farið í nær þrjátíu ár. Nú er að sjá hvort Kirkwood bræður ætli að láta minnast sín í nútíð sem og fortíð.

Panda Bear – Tomboy
Undanfarið hefur Rjóminn veitt Panda Bear ágæta athygli. Animal Collective aðdáendur ættu ekki að vera þessu einstaklingsverkefni Noah Benjamin Lennox ókunnir en Lennox er einn stofnenda þeirrar ágætu sveitar. Tomboy mun vera fjórða sólóbreiðskífa Lennox en allt frá árinu 1998 hefur kauði verið iðinn við útgáfu bæði á sínu eigin efni sem og með hljómsveit sinni. Rjóminn hefur beðið með eftirvæntingu eftir þessu verki Lennox og er viss um að lesendur séu á sama máli. Hún er komin. Gó nöts!

TV on The Radio – Nine Types of Light
Tunde Adebimpe og félagar í TV on The Radio hafa sent frá sér sína fimmtu breiðskífu. Sveitin, sem stofnuð var árið 2001 í Brooklyn í New York, hefur vakið athygli fyrir óheflaða tónlistarstefnu og lifandi og skemmtilega sviðsframkomu. Hljómsveitin hefur sömuleiðis gengið í gegnum ýmsar mannabreytingar frá ári til árs en ætíð hefur Adebimpe staðið fastur í sínu og leikur nú við hlið þeirra Kyp Malone, David Sitek, Gerard Smith og Jaleel Bunton.

Tónlistardagskrá Reykjavik Fashion Festival

Reykjavik Fashion Festival hefst í dag, fimmtudaginn 31. mars, og stendur fram fram á sunnudag, 3. apríl. Líkt og í fyrra verður boðið upp á öfluga tónlistardagskrá samhliða hátíðinni – sem nær hámarki laugardagskvöldið 2. apríl með tónleikum Ghostface Killah og fleirum á NASA.

Tónlistardagskrá Reykjavik Fashion Festival gekk framar vonum í fyrra þegar hátíðin var haldin í fyrsta sinn. Þá steig meðal annars á stokk kanadíska tónlistarkonan Peaches sem spilaði á margrómuðum og troðfullum tónleikum á NASA, sem mörgum er enn í fersku minni. Sjaldan hefur önnur eins stemmning myndast á tónleikum í Reykjavík og þegar Peaches tryllti líðin, en ætlunin að halda uppi sama fjöri í ár – og það á sama stað í tilviki fyrihugaðra tónleika Ghostface Killah. Það er sannfærð trú okkar aðstanda að engin verði svikinn af tónleikum hans og fleiri á NASA.

Sjá alla tónlistardagskrána á vefnum www.rff.is

Ghostface Killah – Daytona 500 (feat. Raekwon & Cappadonna)

Nostalgía frá heimibjéjoð

Rjómanum hefur hlotist þann heiður að fá að frumflytja spánýtt lag frá rappjaxlinum heimirbjéjoð úr Akureysku Hip-Hop-sveitinni Skytturnar. Síðasta plata Skyttnanna, Illgresið, kom út árið 2003, fékk frábæra dóma og var sveitin tilnefnd sem bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlaununum. Síðan þá hafa meðlimir einbeitt sér að öðrum verkefnum.

Lagið “Nostalgía” er það fyrsta sem heyrist af sólóplötu heimis Að Skjóta Fíl. Lagið var tekið upp síðasta sumar og er últra-hress banger þar sem heimir og Hlynur (úr Skyttunum) láta gamninn geysa um nostalgíu og Akureyri ca. 2002. Einstaklega ferskt og sumarlegt.

Að Skjóta Fíl (sem er nefnd eftir smásögu George Orwell) er langt komin í vinnslu og kemur vonandi út fyrir sumarið. Hinar Skytturnar munu vera gestir og aðstoðarmenn í flestum lögum en Forgotten Lores og fleiri einnig koma við sögu.

Hægt er að hlaða niður “Nostalgíu” og tveimur eldri lögum á soundcloud-síðu heimisbjéjoð.

heimirbjéjoð feat. Hlynur – Nostalgía

Nýtt frá Snoop Dogg

Snoop Dogg (Doggy Dogg) mun senda frá sér sína elleftu breiðskífu þann 29.mars nk. Platan, sem átti í fyrstu að vera beint framhald af frumburði rapparans, Doggystyle frá 1993, er nú lýst sem hálfgerðri tónlistarlegri heimildarmynd um hina og þessa atburði í lífi Snoop.
Nýja platan hefur fengið nafnið Doggumentary og er gestagangurinn á plötunni gríðarlegur. Má þar nefna rapparann Kanye West, maríjúana konunginn Willie Nelson, T-Pain, John Legend og síðast en ekki síst vini okkar í Gorillaz. Snoop og Gorillaz unnu einmitt saman á plötunni Plastic Beach sem út kom í fyrra en Snoop hefur verið duglegur í samstarfi við hina og þessa tónlistarmenn um áraraðir.

Snoop Dogg hefur því miður ekki náð sömu hæðum í rappheiminum og hann gerði á síðasta áratug síðustu aldar en nú er að sjá hvort hinn nær fertugi rapphundur frá Long Beach nái að heilla með Doggumentary þann 29.mars nk.

Ghostface Killah til Íslands

Goðsögnin Ghostface Killah mun halda tónleika í Reykjavík laugardagskvöldið 2. apríl á NASA við Austurvöll. Tónleikar eru hluti af, og hápunktur, tónlistardagskrár Reykjavik Fashion Festival, sem skipulögð er af viðburðarfyrirtækinu Faxaflóa ehf.

Ghostface Killah er einn áhrifamesti hip hop tónlistarmaður sögunnar. Hann skaust upp á stjörnuhimininn ásamt félögum sínum í Wu-Tang Clan árið 1993 með frumraun sveitarinnar; Enter the Wu-Tang (36 Chambers) og er ekki síst þekktur fyrir afrek sín með Wu -Tang genginu. Þrátt fyrir að flestir hinna meðliðma Wu-Tang Clan hafi gefið út sólóplötur eða hliðarverkefni á undan Ghostface – þá hefur sólóferill hans verið farsælli en flestallra hinna.

Ghostface Killah hefur átt fjölmarga sigra í tónlistarheiminum, gefið út alls níu sóló breiðskífu sem hlotið hafa náð fyrir augum bæði plöturýnenda og almennings – og leikið á tónleikum og tónlistarhátíðum um heim allan. Árið 2006 var Ghostface Killah útnefndur af MTV tónlistarsjónvarpsstöðinni sem besti rappari sögunnar. kappinn átti þrjár plötur inni á lista yfir 200 besta plötu síðasta áratugar hjá tónlistarmiðlinum virta Pitchfork og hvað plötusölu varðar hafa tvær af plötum Ghostface náð inn á topp 5 á bandaríska Billboard-listann; frumraunin Ironman (1996) og Fischscale (2006).

Ghostface Killah kemur hingað til lands ásamt fimm manna föruneyti og er ekki ólíklegt að þar leynist fleiri meðlimir Wu-Tang-Clan.

Miðasala á tónleikana er hafin á Midi.is og sérstakt forsöluverð í boði fyrstu daga miðasölunnar; 3.900 krónur

M.I.A. spilar á Roskilde

Einn umtalaðasti og flottasti listamaður samtímans er án efa tamíltígurinn Mathangi “Maya” Arulpragasam sem er best þekkt undir listamannsnafninu M.I.A. Hefur það nú verið staðfest að hún muni troða upp á Hróaskeldu hátíðinni í sumar og bætist hún þar með í fámennan en fríðan hóp listamanna sem þegar hafa boðað komu sína á þessa fornfrægu hátíð. Má teljast nokkuð líklegt að tónleikar hennar verði einn af hápunktum hátíðarinnar og að fáir verði sviknir af eldfimu, rammpólitísku og dansvænu hip-hoppinu sem hún er þekkt fyrir.

Spennan magnast.

M.I.A. – Born Free

Big Boi á Roskilde 2011

Rapparinn Antwan Patton eða Big Boi hefur nú boðað komu sína á Hróarskelduhátíðina í sumar.
Big Boi myndar, ásamt Andre 3000, tvíeykið frækna OutKast en lítið hefur spurst til þeirrar sveitar um þónokkurt skeið eða allt frá útgáfu plötunnar Idlewild árið 2006.
Big Boi hefur því nýtt tímann sem sólólistamaður og sendi meðal annars frá sér plötuna Sir Lucious Left Foot: The Son of Chico Dusty í fyrra og náði platan inn á ófáa topplista yfir plötur síðasta árs.

Skemmtilegt verður að sjá og heyra hvernig Big Boi tekst til að fá síglaða gesti Hróarskelduhátíðarinnar með sér í grúv en þetta mun vera hans fyrsta heimsókn á hátíðina.

Beatmakin Troopa & Epic Rain í samstarf

Plötufyrirtækið íslenska 3angle Productions stefna nú að útgáfu enn einnar breiðskífunnar. Skífan er frumraun tíeykisins Beatmakin Troopa og Epic Rain en báðir aðilar hafa unnið náið með hvor öðrum í gegnum tíðina við tónleikahald af ýmsu tagi ásamt því að semja saman músík.

Pan Thorarensen (Beatmakin Troopa) segir að platan sé að mestu tekin upp live og stefnan sé góður kokteill af hip-hop, blues, country og folk svo eitthvað sé nefnt.  Pan hefur staðið að útgáfu ýmissa platna á sviði hip-hop og elektróníska geirans undanfarin ár og hefur, ásamt félögum sínum, staðið að svökölluðum Extreme Chill kvöldum á Kaffibarnum undanfarin misseri við góðar undirtektir.

Plata þeirra Beatmakin Troopa og Epic Rain hefur hlotið titilinn Campfire Rumours og kemur út rafrænt á vefsíðunum gogoyoko.com og Bandcamp.com þann 8.febrúar nk. og eru tónleikar með tvíeykinu í bígerð. Á plötunni ber fyrir hina ýmsu gesti.

Febrúar færir

Febrúarmánuður ætti að gleðja margan tónlistarunnandann og einna helst höfða til víðs hóps í þeim efnum. Plötuútgáfa mánaðarins stefnir í sætt og er ekki seinna vænna en að kynna sér örlítið helstu plötur febrúarmánaðar. Glöggir lesendur Rjómans undanfarið kannast án efa við eitthvað af því sem febrúarmánuður færir fram.

Dr.Dre – Detox

Goðsögn rappheimsins Dr.Dre hefur unnið að þriðju breiðskífu sinni, Detox, allt frá árinu 1999. Síðasta plata doktorsins, 2001, sprengdi vel af sér og vakti gífurlega athygli en Dr.Dre, réttu nafni Andre Young, vakti fyrst athygli með hljómsveitinni World Class Wreckin´Crew og síðar NWA á 9.áratugnum. Frumburður sólóferils Dre, The Chronic, kom loks út árið 1992. Dre hefur verið iðinn við framleiðslu á rapptónlist allt frá 9.áratug og hefur fleytt röppurum á borð við Eminem, 50 Cent, The Game og sjálfum Snoop Dogg fram á sjónarsviðið.
Þriðja plata Dr.Dre, Detox, er nú væntanleg í febrúarmánuði. Snoop Dogg, Eminem, 50 Cent, The Game og austurstrandarkóngurinn Jay-Z koma allir við sögu á plötunni og ættu rappunnendur að fara að setja sig í stellingar.
Fyrsta smáskífa plötunnar, Under Pressure feat. Jay Z, kom út á síðasta ári en nýjasta smáskífan, I Need A Doctor feat. Eminem, kom út í dag.

Bright Eyes – The People´s Key

Conor Oberst og félagar í Bright Eyes senda nú frá sér sína tíundu breiðskífu. Hljómsveitin hefur verið iðin við plötuútgáfu allt frá árinu 1998 en þó, náði ekki fótfestu almennilega fyrr en með plötu sinni, I´m Wide Awake, It´s Morning, árið 2005. Bright Eyes hafa sent frá sér smáskífuna, Shell Games, af plötunni væntanlegu (The People´s Key) og er útgáfudagur settur þann 15.febrúar nk. Mun þetta vera fyrsta plata Bright Eyes frá árinu 2007 og samkvæmt sveitinni er nú leitað á ný mið innan hljóðheimsins.  Spennandi!

Cut Copy – Zonoscope

Þriðja plata áströlsku syntha-popparanna í Cut Copy er væntanleg þann 8.febrúar nk. Cut Copy vöktu athygli árið 2008 eftir útgáfu annarrar breiðskífu sinnar, In Ghost Colours og varð hljómsveitin vinsæll kostur plötusnúða víða um heim allan með lögum á borð við Hearts on Fire og Lights & Music. Nýja platan er sögð ögn frábruðgnari fyrri verkum sveitarinnar en fyrsta smáskífa plötunnar, Take Me Over, kom út í nóvember á síðasta ári. Dansþyrstir dilli-unnendur ættu ekki að verða sviknir hér.

The Pains of Being Pure at Heart – Belong

New York slakar ekkert á í að framleiða áhugaverð bönd og árið 2009 spratt The Pains of Being Pure at Heart fram með stórfínum, samnefndum frumburði. Tónlistaráhugamenn erlendis sem og hér heima tóku bandinu vel og urðu lög á borð við A Teenager In Love skyldueign á iPod hvers unnanda tónlistarinnar. Þessi ferska og spennandi indie-rokk sveit hefur sent frá sér fyrstu smáskífu annarrar plötu sinnar, Belong, Heart in Your Heartbreak og tilkynnt um útgáfu í febrúarmánuði. Nú er spurning hvort að sveitin standist þá hörðu og flóknu vinnu sem fylgir því að fylgja eftir frábærum frumburði.

PJ Harvey – Let England Shake

Gruggdrottningin PJ Harvey stefnir á útgáfu sinnar áttundu breiðskífu, Let England Shake, þann 15.febrúar nk. Harvey þarf vart að kynna en þessi 41 árs rokkpía hefur verið iðin við gellugruggið allt frá árinu 1987 og hefur komið að ógrynni platna í gegnum ferilinn. Hefur hún þá m.a. unnið með The Desert Sessions ásamt Josh Homme og félögum, Mark Lanegan, Marianne Faithful, Nick Cave og Thom Yorke (svo eitthvað sé nefnt). Plata hennar Stories From The City, Stories From The Sea, tryggði svo stöðu hennar sem drottning gruggsins og lög á borð við Good Fortune og Big Exit fóru mikinn. Nú er að sjá hvernig skvísan spjarar sig á sínu 24.starfsári.

…And You Will Know Us By The Trail of Dead – Tao of The Dead

Summer of All Dead Souls nefnist fyrsta smáskífa sjöundu breiðskífu hljómsveitarinnar en útgáfudagur Tao of The Dead hefur verið negldur þann 8.febrúar nk. Sveitin kom undirrituðum fyrst fyrir sjónir þegar hún kom í stað The Mars Volta á Hróarskelduhátíðina árið 2005 en sveitin hefur verið starfandi allt frá árinu 1998. Þessi áhugaverða rokksveit hefur verið hyllt fyrir framúrstefnulega og tilraunakennda en nútímalega rokktónlist og snýr sér nú til upptökustjóra frumburðar síns, Chris Smith og verður spennandi að sjá hvernig sveitin og Smith hafa framreitt Tao of The Dead.

Drive By Truckers – Go-Go-Boots

Gott grín er aldrei slæmt. Drive By Truckers stefna á útgáfu morð/rapp plötu sinnar þann 15.febrúar nk. en sveitin hefur verið starfandi allt frá árinu 1996 og sendi frá sér frumburðinn hressa, Gangstabilly, árið 1998.
Sveitin hefur verið til í breytanlegu formi í meira en áratug og mætti lýsa stefnu hennar sem kántrýskotnu/suðurríkja/indie/slacker/rock-i (hmm..) og já….Rapp? Athugið þessa!

The Low Anthem – Smart Flesh

Ákaflega spennandi sveit sem stígur nú fram eftir ágætt gengi frumburðar síns, Oh, My God, Charlie Darwin, árið 2008. Rólegheit í fyrirrúmi og þægilega lágstemmt folk-rokk sem bræðir og yljar. Sveitin gefur nú út hjá hinu útsjónarsama útgáfufyrirtæki Bella Union (Midlake t.d.) en það er Mick Mogis úr Bright Eyes sem sér um að hljóðblanda Smart Flesh. Þeir Ben Knox Miller og Jeff Prystowsky hófu feril sveitarinnar árið 2006 en seinna bættust þau Jocie Adams og Mat Davidson í hópinn. Má segja að undirritaður sé ákaflega spenntur fyrir þessari. Útgáfudagur er negldur þann 22.febrúar nk. The Low Anthem flutti lagið Ghost Woman Blues hjá Letterman fyrr í mánuðinum.

Beady Eye – Different Gear, Still Speeding

Óargadýrið Liam Gallagher kryddar nú fram fyrstu plötu nýja verkefnis síns, Beady Eye og er útgáfudagur negldur þann 28.febrúar nk. Gallagher hefur ekki haft sig hægan í pressunni undanfarið og rakkar bróður sinn og fyrrum hljómsveitarfélaga, Noel Gallagher, niður við hvert tækifæri sem gefst. Liam er hér mættur með gömlu Oasis kempurnar Gem Archer (gítar) og Andy Bell (bassi) ásamt hinum líttlifða Oasis-meðlimi Chris Sharrock og virðist kenna nýrra grasa á bænum. Spurningin er hvort litli bróðir geti storkað þeim stóra á plasti líkt og í orði.

Unknown Mortal Orchestra

Þegar maður heyrir minnst á tónlist sem sameina á, undir yfirflokknum “algleymispopp”, allt í senn sækadeliku, hip hop, punk og garage popp, er ekki nema von að maður leggi við hlustir. Það er Portland sveitin Unknown Mortal Orchestra sem tekst á glæsilegan og einkar áheyrilegan hátt að sameina allar þessar ólíku stefnur en útkomuna kallar hún, eins og áður sagði, “algleymispopp”.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann, ætli maður sér að finna einhverja samlíkingu, er The Go! Team en tónlist Unknown Mortal Orchestra, sem er, þrátt fyrir að hafa vakið athygli margra, bókstaflega “unknown”, er þó ekki jafn tryllt og hávaðasöm þó vissulega vanti ekki upp á hressleikann.

Unknown Mortal Orchestra gaf nýverið frá sér samnefnda EP plötu í takmörkuðu upplagi og miðað við bössið í kringum þessa huldusveit má þykja líklegt að hún neyðist til að koma úr felum fljótlega og fram fyrir kastljós fjölmiðla.

Nýtt lag frá Ramses

Þann 17. desember næstkomandi kemur út platan Óskabarn Þjóðarinnar með rapparanum Ramses. Eitt af fyrstu lögunum af plötunni sem kemur fyrir eyru almennings er lagið “Hey Sæta” en taktinn í því gerir ungur og efnilegur taktasmiður sem sem kallar sig Arianit. Búast má við að lagið taki að hljóma á útvarpsstöðum landsins á næstu misserum.

Rjómajól – 6. desember

Það er hip-hop þema á Jólarjómanum í dag og ætti það að koma einhverjum í grúví jólaskap. Eins furðulega og það hljómar þá er til hreint ótrúlegur fjöldi af jóla-hip-hop lögum og plötum og því er aðeins hægt að bragða á broti af þessari stórskemmtilegu undirgrein jólatónlistarinnar. Þeim sem langar til að heyra meira er bent á safnplöturnar Christmas Rap (1993) og Christmas On Death Row (1996) til þess að byrja með … eða bara leita því af nógu er að taka.

Atmosphere – If I Was Santa-Claus (2001)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Snoop Dogg – Santa Claus Goes Straight To The Ghetto (1996)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Run DMC – Christmas In Hollis (1987)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Kurtis Blow – Christmas Rappin’ (1980)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

The Game kemur til Íslands

Bandaríski bófarapparinn The Game kemur til Íslands, og mun spila á tónleikum á Broadway, þann 18.desember. Leikurinn sendi skilaboð til Íslendinga í gær þar sem hann lofaði að koma með flöskur ef við kæmum með fyrirsætur. Rjóminn er alveg til í að þiggja þau skipti.

Miðasala er í Mohawk í kringunni og kostar 3500 krónur. Ekki er búið að gefa upp hver sjái um upphitun.

Hiphop Tónleikar á enskri tungu í kvöld

Faktorý Bar í samstarfi við Ástþór Óðinn, Limited Copy og Dynamic ætla halda hiphop tónleika með enskri tungu í kvöld fimmtudaginn 18. nóvember. Frítt inn!

Ástþór Óðinn, hefur hægt og rólega verið geta sér nafns í íslensku tónlistarlífi. Hann gaf út plötuna Both Ways á seinasti ári sem hefur vakið athygli með lögum einsog “Mamma” (ásamt Möggu Eddu) og “Í Gegnum Tímans Rás” (ásamt Helga Vali).

Limited Copy er keflvísk hiphop/electro hljómsveit sem gert hefur góða hluti uppá síðkastið og Dynamic er hafnfirskur rappari sem iðin hefur verið við kolinn, gefið út tvö mix tape og er að vinna í því þriðja.

Melda má sig á atburðinn á Facebook hér

Ástþór Óðinn – Traveling 2 Galaxy

Limited Copy – Posted Up (War Wobblins – Hoover s Up RMX)

Unborn Child – Ástþór Óðinn

Rapparinn góðkunni Ástþór Óðinn hefur sent frá sér nýtt lag. Heitir það “Unborn Child” og tjáir Ástþór, sem er verðandi faðir, tilfinningar sínar um þessi komandi tímamót. Taktur er eftir Manna H en lagið var tekið upp í on&on Studios.

Um leið og við birtum hér umrætt lag óskum við Ástþóri að sjálfsögðu innilega til hamingu.

A.Skillz tætir í sig Bítlana

Meðfylgjandi er eitt allra besta Bítlamix sem undirritaður hefur heyrt lengi. Mixið gerði enski plötusnúðurinn og raftónlistarmaðurinn A.Skillz (heitir réttu nafni Adam Mills) fyrir heimildaþátt á BBC Radio 1 sem heitir “The Beatles & Black Music” og í því má m.a. heyra viðtöl við Paul McCartney, Q-tip, Questlove, Common, Benga og Roots Manuva.

Blaz Roca – Kópacabana

Það er ekki annað hægt en að vitna beint og orðrétt í tilkynningu um þessa fyrstu sólóplötu BlazRoca:

Loks er hér kominn einfaraskífa BlazRoca, KópaCabana, sem fer um víðan völl í persónulegri umfjöllun sinni um daglegt líf. Hún inniheldur mörg vinsælustu lög ársins svo menn vita hvað er að frétta. Menn Keyrettígang, Elska þessar mellur, bjóða upp á Dick og Allir eru að fá sér. Í Reykjavík Belfast þar sem BlazRoca er don, menn eru Fokkt og fremja Landráð í Stórasta landinu þar sem Pabbarnir eru að frétta. Svo hringdu í 112 og Hleraðu þetta því KópaCabana er Fullorðins.

Þá vitið þið það!

Blaz Roca – Kópacabana

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.