Casio Fatso gefa út sína fyrstu smáskífu

Casio Fatso

Hljómsveitin Casio Fatso gaf nýverið út sína fyrstu smáskífu en lagið heitir “Satellite” og verður að finna á væntanlegri breiðskífu sveitarinnar Controlling the world from my bed. Lagið er tekið upp í Casioland en mixað og frágengið hjá MÖM. Casio Fatso hefur verið starfandi í á þriðja ár og eru fyrst nú að gefa út “alvöru stöff” eins og þeir komast sjálfir að orði.

Magnús Leifur – Stormur

Magnús Leifur og hljómsveit

Hafnfirski tónlistarmaðurinn Magnús Leifur (áður kenndur við Úlpu) sendi nýverið frá sér lagið “Stormur”, en það er af væntanlegri breiðskífu hans. Lagið er ort til sonar hans en hann heitir einmitt Stormur. Einnig er hægt að túlka það sem almennan óð til veðurbrygðisins sem er 9 vindstig.

Meðreiðarsveinar Magnúsar eru þeir Þórhallur Stefánsson sem leikur á trommur, Hálfdán Árnason á bassa og Ívar Atli Sigurjónsson sem spilar á gítar.

Nýtt lag frá Diktu

Hljómsveitin Dikta hefur verið starfandi í 16 ár og hefur notið mikillar velgengni. Hljómsveitin hefur til dæmis hlotið tvenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum og náð platínusölu fyrir plötu sína Get It Together. Í september á þessu ári kemur út fimmta breiðskífan frá þeim en hún hefur verið tvö ár í vinnslu í Þýskalandi og Íslandi. Plötuna unnu þeir í samvinnu með þýska upptökustjóranum Sky van Hoff og er lagið “Sink or Swim” nýjasta smáskífan af væntanlegri plötu.

Of Monster and Men frumflytja nýtt lag

Í fréttatilkynningu segir:

Of Monsters and Men tilkynna hér með að langþráð önnur breiðskífa þeirra, sem hlotið hefur heitið Beneath The Skin, mun koma út 8. júní á Íslandi á vegum Record Records. Þessi margrómaði kvintett frumflytur í dag fyrstu smáskífuna “Crystals” á öldum ljósvakans.

Íslenska útgáfa breiðskífunnar mun innihalda lögin “Backyard” og “Winter Sound” sem verður ekki að finna á hefðbundinni útgáfu breiðskífunnar erlendis heldur eingöngu á viðhafnarútgáfum og þeirri íslensku.

Hljómsveitin hefur eytt síðastliðnu ári á Íslandi og í Los Angeles með upptökustjóranum Rich Costey sem vann með þeim að breiðskífunni en hann hefur unnið með hljómsveitum á borð við Muse, Death Cab for Cutie, Foster The People og Interpol.

Wago – Fear of Heights

Wago - Fear of Heights

Hljómsveitin Wago gaf út sína fyrstu breiðskífu, Fear of Heights, í lok síðasta árs. Þar er á ferð fágað, poppskotið rokk sem renna ætti ljúflega um hlustir íslenskra tónlistaráhugamanna. Sveitin spilaði á sínum fyrstu tónleikum (off-venue á Airwaves í fyrra) um svipað leiti og platan kom út. Má því segja að sveitin hafi nánast sprottið fram fullsköpuð og hlaðin hæfileikum.

Hljómsveitin stendur saman af þeim Birki Bjarnasyni hljómborðsleikara, Elíasi Bjarnasyni gítarleikara, Gylfa Braga Guðlaugssyni bassaleikara, Markúsi Bjarnasyni gítarleikara, Símoni Geir Geirssyni trommara og Símoni Jóhannessyni söngvara.

Eivör Pálsdóttir – Bridges

Eivör Pálsdóttir jefur sent frá sér sína níundu breiðskífu sem ber heitið Bridges. Lögin “Rembember Me” og “Faithful Friend” hafa þegar komið út af plötunni, flotið ljúflega um öldur ljósvakana og hlotið góðar viðtökur. Rjóminn hlustaði á plötuna yfir rauðvínsglasi í gærkveldi og kunni vel að meta.

Árstíðir gefa út sína þriðju plötu

Árstíðir - Hvel

Í dag, föstudaginn 6. mars, gefur hljómsveitin Árstíðir út sína þriðju breiðskífu. Platan hefur hlotið nafnið Hvel og hefur hennar verið beðið með nokkurri eftirvæntingu, allt frá því hljómsveitin tilkynnti síðasta vor að efnt yrði til söfnunar í gegnum heimasíðuna Kickstarter til að fjármagna útgáfuna.

Markmiðinu var náð á einungis nokkrum dögum og áður en yfir lauk höfðu yfir 1500 manns lagt hljómsveitinni lið með fjárframlögum gegn loforði um að fá ýmsan varning sendan heim að dyrum. Auk plötunnar sjálfrar var t.a.m boðið uppá sérsniðnar íslenskar lopapeysur og ösku úr Eyjafjallajökli, svo dæmi séu tekin.

Það má segja að hljómur Árstíða hafi þróast og tekið ýmsum breytingum frá því síðasta plata, Svefns og vöku skil var gefin út árið 2011. Mannabreytingar hafa orðið á sveitinni í millitíðinni og ber nýji hljómurinn þess merki. Meðlimir hafa því að nokkru leyti fetað nýjar slóðir á nýju plötunni og gætir nú rafrænna áhrifa meira en á fyrri breiðskífum, auk þess sem trommuásláttur setur sinn svip á nokkur lög plötunnar.

Portraits of the Icelandic band Árstí?ir taken on-location at Toppstö?in power station in Reykjavík, Iceland. March 26, 2014.

Platan Hvel var samin og tekin upp að hluta til í gömlu rafstöðinni í Elliðaárdal, þar sem hljómsveitin hefur haft æfingaraðstöðu síðustu tvö árin. Upptökustjóri plötunnar er Styrmir Hauksson sem meðal annars hefur unnið með GusGus, Ásgeiri Trausta, Bloodgroup og Retro Stefson. Hljóðjöfnun annaðist Glenn Schick, en sá hefur hefur unnið með stórum listamönnum á borð við Elton John, Jutin Bieber og Skid Row.

Síðustu ár hefur hljómsveitin verið á ferð og flugi erlendis og spilað á tónleikum í meira en 30 löndum. Ekkert er lát á ferðalögum því í vor mun hljómsveitin fylgja Hvel á eftir með þremur tónleikaferðalögum um Þýskaland, Austurríki og Bretland, og í sumar er fyrirhugað sex vikna tónleikaferðalag um Bandaríkin.

Hljómsveitin gefur sjálf út og dreifir plötunni rafrænt, en er einnig með plötusamning við Þýska útgáfufyrirtækið Beste Unterhaltung sem gefur út plötur sveitarinnar í Bretlandi, Þýskalandi, Austurríki og Sviss.

Hvel er þriðja hljóðversplata Árstíða í fullri lengd, en áður hafa komið út plöturnar Árstíðir (2009), Svefns og vöku skil (2011) og Ep-platan Tvíend (2012) sem inniheldur endurhljóðblandanir (remix) af lögum sveitarinnar.

Tónleikar í kvöld, 6 Mars

Formlegir útgáfutónleikar verða síðan haldnir þegar nær dregur vori. En til að fagna útgáfunni mun hljómsveitin halda tónleika á Café Rósenberg í kvöld (föstudagskvöld), en segja má að hljómsveitin hafi byrjað feril sinn með tónleikahaldi þar. Tónleikarnir hefjast kl. 22:00 og verður nýja platan í boði á sérstöku tilboðsverði.

Red Barnett – Útgáfutónleikar og söfnun á Karolina Fund

Í fréttatilkynningu segir:

Haraldur V. Sveinbjörnsson gefur út sólóplötuna Shine undir nafninu Red Barnett og hrindir af stað söfnun á Karolina Fund. Útgáfutónleikar eru fyrirhugaðir í Fríkirkjunni 17. apríl sama dag og listamaðurinn fagnar stórafmæli sínu. Lagið “Life Support” þegar komið á vinsældarlista Rásar 2.

Tónlistarmaðurinn Haraldur V. Sveinbjörnsson, sem öllu jafna er kallaður Halli, sendir bráðlega frá sér sína fyrstu sólóplötu undir listamannsnafninu Red Barnett. Halli er þúsundþjalasmiður í tónlist og hin síðari ár hefur hann verið í hringiðu margra af athyglisverðustu tónlistarviðburðum landsins, þótt hans hlutverk hafi á stundum verið talsvert falið. Hann útsetti tónlist Skálmaldar fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, en þeir tónleikar hlutu í síðasta mánuði Íslensku tónlistarverðlaunin sem viðburður ársins. Hann hefur auk þess útsett tónlist Gunnars Þórðarssonar, Pink Floyd og Páls Óskars fyrir Sinfó, svo fátt eitt sé nefnt.

Red BarnettHalli er lærður í klassískum tónsmíðum en er ekki einhamur í tónlist. Snemma vakti hann áhuga margra sem gítarleikari og helsti lagasmiður gruggsveitarinnar goðsagnakenndu Dead Sea Apple, sem freistaði gæfunnar í hinum stóra heimi. Hann er annar söngvara Manna Ársins og tók nú nýverið við stöðu bassaleikara í hljómsveitinni Buff. Hann hefur síðustu misserin komið reglulega fram með Dúndurfréttum og Skálmöld sem hljómborðsleikari. Þá hefur Halli unnið með og útsett fyrir fjölda tónlistarmenn bæði íslenska og erlenda.

Að sögn Halla er hugmyndin um að gefa út sólóplötu undir nafni Red Barnett orðin ríflega 10 ára gömul. Fyrsta lagið var tekið upp árið 2005 og undanfarinn áratug hafa lögin verið hljóðrituð samhliða öðrum, fyrirferðarmeiri verkefnum Halla. Smátt og smátt hefur sólóskífan því tekið á sig mynd og nú ætlar Halli að gefa sjálfum sér og aukasjálfinu Red Barnett, fullt pláss til þess að skína.

Tónlist Red Barnett er best lýst sem angurværri rökkurtónlist og yrkisefnið er lífið og tilveran í stóra samhenginu. Halli sér að langmestu leyti um upptökur og hljóðfæraleik sjálfur en nokkrir góðir kunningjar hafa lagt honum lið á langri leið. Nýlega fór lagið “Life Support” í spilun og við sama tækifæri tilkynnti Halli um hópsöfnun/forsölu á plötunni á vef Karolina Fund til að fjármagna lokahnykk útgáfunnar. Útgáfunni verðu svo fagnað með sérstökum útgáfutónleikum í Fríkirkjunni þann 17. apríl næstkomandi en miðasala verður auglýst fljótlega. Þess má geta að sama dag fagnar listamaðurinn 40 ára afmæli sínu.

Streymið nýjustu plötu Árstíða fram að útgáfudegi 6.mars

Rjóminn og hljómsveitin Árstíðir bjóða lesendum Rjómans að streyma nýjustu plötu sveitarinnar, Hvel, fram að útgáfudegi hennar þann 6. mars næstkomandi.

Hljómsveitin Árstíðir sem hóf að spila saman fyrir rétt rúmum sjö árum. Hún hefur starfað mikið erlendis og hefur komið sér upp dyggum aðdáendahóp í löndum eins og Þýskalandi og Rússlandi.

Hvel er þriðja hljóðsversplata Árstíða í fullri lengd en áður hafa komið út plöturnar Árstíðir (2009), Svefns og vöku skil (2011) og Ep-platan Tvíend (2012) sem inniheldur endurhljóðblandanir (remix) af lögum sveitarinnar.

Hljómurinn á Hvel hefur þróast talsvert frá fyrri plötum. Meira ber á rafrænum áhrifum, alls kyns effektum og hljóðgerflum. Platan var saminn og að miklu leiti tekin upp í gömlu rafstöðin í Elliðárdal þar sem hljómsveitin hefur æfingaraðstöðu.

Portraits of the Icelandic band Árstí?ir taken on-location at Toppstö?in power station in Reykjavík, Iceland. March 26, 2014.

Ljósmynd : Matt Eisman

Upptökustjóri var Styrmir Hauksson sem hefur meðal annars unnið með GusGus, Ásgeiri Trausta, Bloodgroup og Retro Stefson. Bandaríkjamaðurinn Glenn Schick gerði masteringuna en sá hefur hefur masterað ógreni af rap-plötum sem og plötur eftir Elton John, Skid Row og Justin Bieber svo eitthvað sé nefnt.

Hljómsveitin gefur sjálf út og dreifir plötunni rafrænt, en er einnig með samning við Þýska útgáfufyrirtækið Beste Unterhaltung sem sér um að gefa út plötum sveitarinnar í Bretlandi, Þýskalandi, Austurríki og Swiss.

Upptaka og framleiðsla plötunnar var með öllu fjármögnuð i gegnum síðuna Kickstarter. Stór hluti þeirra sem studdu verkefnið búa í Bandaríkjunum og í kjölfarið hefur hljómsveitin skipulagt tónleikaferðalag um Bandaríkin um næsta sumar.

Þegar hafa þrjár smáskífur heyrsts af Hvel, meðal annars lagið “You Again” en hljómsveitin bjó til myndband við lagið uppá Langjökli í samstarfi við listakonuna Kitty Von-Sometime.

Í vor mun hljómsveitin fyljga Hvel eftir með þremur tónleikaferðalögum um Þýskaland, Austurríki og Bretland.

All Day, Everyday

All Day, Every Day

All Day, Everyday er sóloverkefni Dags Árna Guðmundssonar, sem er búsettur í San Luis Obispo í Kaliforníu. A Side of Broken Bones er fyrsta plata hans og er undir áhrifum frá brit-pop og indie-rokki frá níunda áratugnum. Platan var gerð á sama tíma og Dagur braut á sér hendina (þaðan kemur nafnið á plötunni) og er gítar á mörgum lögum spilaður með gips á hendinni. Dagur sá sjálfur um allan hljóðfæraleik, söng og upptökustjórn.

Rúnar Þórisson fer nýjar leiðir í tónlistarsköpun sinni

Rúnar Þórisson er um þessar mundir að vinna nýtt efni með ákveðið concept og ný vinnubrögð í huga. Mun hann gefa út eitt lag í mánuði á vefnum og 7. nóvember n.k. kemur út diskur með afrakstrinum en þann dag hefði faðir Rúnars, Þórir Sæmundsson, orðið áttræður. Fyrsta lagið, “Ólundardýr”, kom út 12. janúar en það er fæðingadagur Rúnars. Þannig tengir hann dagana og samband sitt við föður sinn saman. Annað lagið, “Hver er þar?” kom út núna á mánudaginn s.l. en texti þess er einskonar samtal milli þeirra feðga.

Rjóminn fylgist að sjálfsögðu vel með.

Hljómsveitin A & E Sounds stefnir á útgáfu sinnar fyrstu breiðskífu

A & E Sounds
Í fréttatilkynningu segir:

A & E Sounds er hugarfóstur þeirra Þórðar Grímssonar og Kolbeins Soffíusonar og hafa þeir síðastliðna mánuði verið að leggja lokahönd á 10 laga breiðskífu.

Þórður Grímsson er með BA í myndlist og er starfandi myndlistarmaður. Hann hefur haldð nokkrar einkasýningar í Reykjavík m.a. í Dauðagallerí, Artíma, Kaolin, Crymo o. fl. Hann stofnandi hljómsveitarinnar Two Step Horror sem hefur gefið út eina plötu, Living Room Music hjá útgáfunni Outlier Records og fékk afbragsdóma bæði innanlands og utan. Two Step Horror hafa gefið út tvær plötur til viðbótar á rafrænu formi og hafa komið fram á tónleikum í Reykjavík og Berlín.

Þórður er nú að klára BA nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Hugmyndin að A & E Sounds kviknaði hjá Þórði þegar hann stundaði nám við Weissensee listaháskólann í Berlín árið 2014 og samdi hann þar lögin ásamt því að taka upp demo.

A & E Sounds

Kolbeinn Soffíuson (einnig áður Two Step Horror) er nýútskrifaður úr hljóðtækni frá Stúdíó Sýrlandi og var umrædd plata lokaverkefni hans í því námi. Þórður útskrifast í vor úr grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands og mun fyrir lokasýningu LHÍ hanna allt myndrænt útlit plötunnar.

Tónlist A & E sounds mætti lýsa sem draumkenndu og lágstemmdu sveimrokki undir áhrifum frá Spiritualized, Slowdive, Jonathan Richman og Ride, en með sterkum kraut undirtón Neu!, Harmonia, La Düsseldorf o.fl.

Þórður og Kolbeinn hafa nú hafið söfnun á síðunni Karolina Fund til þess að fjármagna pressun á vínyl og prentun á myndefni. Söfnunin stendur til 6. apríl og geta áhugasamir pantað sér eintak af plötunni í forsölu á vefsíðu verkefnisins.

Ástralski listamaðurinn Jonathan McCabe hefur gert tónlistarmyndband við fyrsta “single” sveitarinnar, en hann vinnur með stærðfræði formúlur Alan Turing og blandar þeim við tölvuvinnslu og útkoman er þetta lífræna samspil lita á hreyfingu.

Á bandcamp síðu A & E Sounds er hægt að hala niður frítt tveimur lögum með hljómsveitinni:

Red Barnett – sólóverkefni Haraldar V. Sveinbjörnssonar

Red Barnett
Í fréttatilkynningu segir:

Red Barnett er sólóverkefni Haraldar V. Sveinbjörnssonar, en hann mörgum kunnur úr íslensku tónlistarlífi, þó oftast hafi hann starfað á bakvið tjöldin ef svo má segja.

Hugmyndin að Red Barnett kviknaði haustið 2004 þegar Haraldur kom heim úr tónsmíðanámi með fjölda laga í farteskinu. Fyrstu tónarnir voru teknir upp árið 2005 og hefur verkefnið mjatlað hægt og bítandi síðan, meðfram öðrum fyrirferðarmeiri verkefnum Haraldar. Tónlist Red Barnett er best lýst sem angurværri rökkurtónlist um lífið og tilveruna, og er að mestu flutt og tekin upp af Haraldi.

Haraldur er klassískt menntað tónskáld, en er einnig þekktur sem gítarleikari og lagasmiður sveitarinnar Dead Sea Apple, hljómborðsleikari og einn söngvara Manna ársins og nú nýverið bassaleikari í Buff, auk þess að hafa starfað náið með sveitum eins og Dúndurfréttum og Skálmöld.

Þá hefur hann unnið með og útsett fyrir fjölda tónlistarmanna, t.a.m. Bubba, Björgvin Halldórsson, Baggalút, Megas, Pál Óskar, 200.000 naglbíta, Fjallabræður, Buff, Dimmu, Kontinuum, Regínu Ósk og hin færeysku Lenu Anderssen, Lív Næs og Trónd Enni. Hann hefur líka átt útsetningar á fjölmörgum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands með innlendum listamönnum. Má þar nefna hina geysivinsælu Skálmaldartónleika 2013, Hátíðartónleika FTT 2013, Pál Óskar & Sinfó 2010 & 2011, Dúndurfréttir & SÍ 2007 (Pink Floyd The Wall) og Söngbók Gunnars Þórðarsonar 2009.

Lagið “Life Suppor”t er fyrsta “opinbera” lagið af plötu Red Barnett sem ber nafnið Shine og er væntanleg í apríl á þessu herrans ári.

Samhliða útgáfu lagsins mun Red Barnett standa fyrir hópsöfnun/forsölu á plötunni á vef Karolina Fund á næstu dögum til að fjármagna lokahnykk plötuútgáfunnar.

Soffía Björg sendir frá sér sína fyrstu smáskífu

Soffía Björg

Tónlistarkonan Soffía Björg hefur sent frá sér fyrsta lagið af komandi breiðskífu sinni.

Lagið er titillag plötunnar en hún er væntanleg nú á vormánuðum. Soffía Björg og hljómsveit hennar hafa verið iðin undanfarið ár við að spila á ýmsum festivölum og tónleikum (Reykjavik Folk Festival, Aldrei fór ég suður, Rauðasandur o.fl) og stönda nú í ströngu leggja lokahönd á plötuna.

Rjóminn fylgist spenntur með framvindu mála.

Rjóminn frumsýnir nýtt myndband Just Another Snake Cult

Rjóminn frumsýnir nýtt myndband við lagið “What Was Yr Name Again?” en það er að finna á örskífu Just Another Snake Cult sem nefnist Lost in The Dark.

Just Another Snake Cult býður nú upp á áskrift að tónlist sinni. Innifalið í áskrift er meðfylgjandi lag ásamt öllu öðru sem sveitin hefur sent frá sér, jafn vel plötur sem eru löngu uppseldar og hvergi fáanlegar, auk þess sem Költið kemur til með að gefa út.

Áhugasamir geta smellt sér í áskrift á Bandcamp síðu sveitarinnar.

Þórir, forsprakki Just Another Snake Cult , og Ásthildur Ákadóttir munu spinna einhverja ljúfa tónlist saman í nokkra klukkutíma á lowercase nights tónleikaröðinna á Húrra núna á sunnudaginn 22. febrúar.

Þess má svo geta að Þórir var að pródúsera plötu fyrir leikritið Lísa í Undralandi sem Leikfélag Akureyrar setur upp en tónlistin er samin af Dr. Gunna. Platan fæst ókeypis á undralandla.bandcamp.com

Nýtt myndband frá Grísalappalísu

Sambýlismenn Grísalappalísu

Í fréttatilkynningu segir m.a.

Hljómsveitin Grísalappalísa setur nýtt lag í spilun frá og með deginum í dag – og ekki nóg með það – heldur fylgir með spánýtt vídejó! Lagið heitir “Sambýlismannablús” og er fyrsta lagið á nýjustu afurð hljómsveitarinnar Rökrétt framhald. Lagið er hefðbundinn “lofsöngur” (e. rock anthem) sem mun hljóma í leikhléum á handknattleiksleiksleikum um ókomina framtíð. Lagið er lofsöngur sambýlisfólks allra landa, en uppspretta textans er ærslafullt og afdrifaríkt sambýli tveggja náinna karlmanna. Hefðbundin hjúskapamein eru ekki bundin við hjónabönd eins og hlustendur komast að. Ekkert er þó yfirstíganlegt og með fórnum og fyrirgefningu er allt hægt. Textinn er eftir Baldur Baldursson skáld, en með hlutverk prótagónistans fer forsöngvari hljómsveitarinnar Gunnar Ragnarsson. Lagið er eftir Grísalappalísu og hljóðritað í einni atrennu beint á harðan disk.

Myndbandinu er leikstýrt af Sigurði Möller Sívertsen, trommara Grísalappalísu, en hann hlaut einmitt Íslensku tónlistarverðlaunin í fyrra fyrir myndband sitt við lag sveitarinnar “Hver er ég?”. Við gerð myndbandsins voru notaðar tvær gó-pró myndavélar ásamt iPhone 6. Fylgst er með sambýlingunum drekka kaffi, reykja sígarettur og svo loks skella sér í sjósund í Nauthólsvík. Glöggir áhorfendur bera kannski augum landsþekktan guðföður sveitarinnar, hvur veit?

Rökrétt framhald má heyra í heild sinni hér að neðan.

Fyrsta myndband Antimony

Antimony er nýbylgju drunga-popp sveit frá Reykjavík og samanstendur af RX Beckett, Birgi Sigurjóni Birgissyni, og Sigurði Angantýssyni. Þau blanda saman straumum og stefnum frá jaðar- tónlist níunda áratugarins á borð við goth og cold wave. Ímyndin og hugmyndafræðin á bakvið útlit og stefnu bandsins eru dregin frá ýmsum menningarkimum og má þar nefna myndir eftir David Lynch, pönk, óhefðbundnar kynímyndir, vísindaskáldsskapur og hryllingsmyndir.

Antimony hefur gefið út sitt fyrsta lag sem nefnist “So Bad” og myndband við af frumburði sínum OVA sem kemur út 11.Febrúar.

Sveitin spilar sama dag á Húrra ásamt russian.girls, Döpur og Börn. Aðgangseyrir er 1000 kr. og rennur ágóðinn óskertur til Krabbameinsfélagsins.

Nýtt lag frá hljómsveitinni Quest

Quest

Breiðholtsbræðurnir í Quest sendu nú á laugardaginn var frá sér sitt fyrsta lag. Ber það nafnið “Silver Lining” og er af komandi stuttskífu sveitarinnar sem hefur hlotið nafnið Gala.

Quest er verkefni sem stofnað var til í byrjun sumars árið 2014 og er byggt á rústum ólíkra hljómsveita og verkefna, þar með talið hljómsveitanna Two Tickets to Japan og At Dodge City án þess þó að tónlist sveitarinnar beri þess merki.

Hljómsveitina skipa þeir Bjarni Svanur Friðsteinsson, Grétar Mar Sigurðsson, Hreiðar Már Árnason og Ingólfur Bjarni Kristinsson.