27 – Teitur Magnússon

Teitur - 27

27 er fyrsta platan sem Teitur Magnússon, gítarleikari og söngvari í Ojba Rasta, sendir frá sér undir eigin nafni. 27 er plata með nýjan og framandi hljóðheim sem nostrað hefur verið við. Exótísk hljóðfæri eins og cuica, sas, taisho koto og sítar koma við sögu en upptökustjóri plötunnar, Mike Lindsay (einnig þekktur sem Cheek Mountain Thief), laðaði fram það besta frá ýmsum góðum gestum. Platan er öll sungin á íslensku með frumsömdum textum en einnig fá höfuðskáld að láta ljós sitt skína, eins og m.a. í laginu “Nenni” sem inniheldur vísur Benedikts Gröndal frá nítjándu öld.

Teitur gefur plötuna út sjáfur á geisladisk til að byrja með en ef vel gengur er aldrei að vita nema platan komi út á vínil þótt síðar verði. Record records sér um að dreyfa plötunni.

uniimog

Uniimog

Uniimog er splunkuný hljómsveit, hugarfóstur þeirra Þorsteins Einarssonar og Guðmundar Kristins Jónssonar sem báðir eru gjarnan kenndir við Hjálma. Þeir Steini og Kiddi hafa verið iðnir við kolann undanfarna mánuði en þeir hafa verið á faraldsfæti með Ásgeiri Trausta Einarssyni, yngri bróður Steina og nánum samstarfsmanni Kidda.

Á ferðum sínum um ókunn lönd hófu þeir félagar að dunda sér við að gera nýja tónlist til að drepa tímann og göfga andann og þegar tími hefur gefist hér heima hafa upptökur farið fram í Hljóðrita í Hafnarfirði með dyggri aðstoð góðra vina, svo sem Ásgeirs Trausta og Sigurðar Guðmundssonar sem á endanum gengu báðir til liðs við hljómsveitina.

Smám saman varð til efni í heila plötu sem kom út 12. nóvember á vegum Senu og ber heitið Yfir hafið.

Lára Rúnars sendir frá sér nýtt lag

Lára Rúnars

Lára Rúnars sendi nýverið frá sér nýtt lag sem nefnist “Rósir” og er af væntanlegri plötu hennar sem kemur út snemma á næsta ári. Fyrsta smáskífa plötunnar, “Svefngengill”, náði góðu gengi og setti tóninn fyrir það sem vænta má af komandi plötu. Textarnir eru að þessu sinni á Íslensku og eru öll lög og textar eftir Láru Rúnars. Upptökustjóri er Stefán Örn Gunnlaugsson sem einnig gefur út undir listamannanafninu Íkorni. Hljómsveit Láru Rúnars skipa Arnar Þór Gíslason, Þorbjörn Sigurðsson, Birkir Rafn Gíslason og Guðni Finnsson.

Ýlfur eftir Gísla Þór Ólafsson komin út

Ýlfur eftir Gísla Þór Ólafsson

Út er komin platan Ýlfur. Platan er þriðja sólóplata Gísla Þórs Ólafssonar, en hann hefur áður gefið út plöturnar Bláar raddir (lög við ljóð Geirlaugs Magnússonar, 2013) og Næturgárun (undir flytjandanafninu Gillon, 2012). Platan, sem inniheldur tíu lög, er byggð á samnefndri kassettu sem höfundur gaf út í örfáum eintökum árið 1998.

Upptökur fóru fram í Stúdíó Benmen og var upptökustjórn í höndum Sigfúsar Arnars Benediktssonar. Mynd á umslagi gerði Auður Eyleif Einarsdóttir.

Þess má til gamans geta að Gísli Þór er einnig bassaleikari hljómsveitarinna Contalgen Funeral.

Meðfylgjandi eru lögin “Blá blóm” og “Andar í ýlfrun trjánna”.

Ólafur Björn sendir frá sér plötuna Innhverfi

Óbó

Innhverfi er fyrsta hljómplata Ólafs Björn Ólafssonar sem kallar sig Óbó. Á plötunni má heyra sjö lög með íslenskum textum í flutningi Ólafs ásamt einvala liði hljóðfæraleikara. Þó að Innhverfi sé fyrsta hljómplata Ólafs þar sem heyra má hann syngja eigin lög hefur hann á undanförnum árum komið fram sem slagverksleikari og hljómborðsleikari með mörgum af vinsælustu hljómsveitum og listamönnum þjóðarinnar og má þar nefna Sigur Rós, Jónsa og Emilíönu Torrini.

Innhverfi er gefin út af þýsku hljómplötuútgáfunni Morr Music á heimsvísu og er bæði fáanleg á geisladisk og vínil. Ólafur mun fylgja eftir útgáfunni með tónleikaferðalagi um Evrópu eftir áramót þar sem hann mun koma fram ásamt Sóley á stuttum evróputúr.

Hljómsveitin Vio sendir frá sér sína fyrstu smáskífu

Vio

Mosfellska hljómsveitin Vio, sem vann síðustu Músíktilraunir, vinnur nú að sinni fyrstu plötu en hún er væntanleg þann fjórða desember næstkomandi. Fyrr í dag lét sveitin frá sér fyrstu smáskífuna af væntanlegri plötu og er lagið þegar farið að æða um pípur Alnetsins með talsverðum hraða. Lagið heitir “Empty streets” og hljómar hér að neðan.

Meðlimir Vio eru þeir Magnús Thorlacius (söngur og gítar), Páll Cecil Sævarsson (trommur), Kári Guðmundsson (bassi) og Yngvi Rafn Garðarsson Holm (gítar).

Valdimar sendir frá sér nýja plötu

Valdimar - Batnar útsýnið

Hljómsveitin Valdimar hefur sent frá sér nýja hljómplötu. Platan hefur fengið nafnið Batnar útsýnið og kom í verslanir í október síðastliðnum.

Á plötunni má heyra nýjan hljóðheim þar sem akústískum hljóðfærum er gert hærra undir höfði en um leið er kafað dýpra ofan í heim raftónlistar. Við gerð plötunnar leitaðist hljómsveitin að eigin sögn við að leyfa hverju hljóði að njóta sín, svo að rúmt væri um hvert smáatriði og reyndu þannig að skapa einhverskonar andrúm í lögunum.

Meðlimir sveitarinnar segja svo sjálfir frá:

Vinnsla plötunnar tók lengri tíma en gengur og gerist hjá bandinu og tók hún breytingum allt fram á síðasta dag. Batnar útsýnið er því ef til vill lýsandi fyrir þetta ferli sem hljómsveitin gekk í gegnum við vinnslu plötunnar. Stundum þarf að rýma aðeins til svo að heildarmyndin fái að njóta sín.

Þessi hugsjón á einnig við um texta plötunnar og fjalla þeir um hinn mannlega anda. Stundum er þoka innra með manni en þegar henni léttir og útsýnið batnar þá sér maður hlutina í réttu samhengi.

Containing the Dark með Geislum.

Containing the Dark er fyrsta plata ofurhljómsveitarinnar Geisla.

Flestir þeir sem fylgjast með tónlistarlífi á Íslandi þekkja meðlimi Geisla úr hljómsveitum á borð við Hjaltalín, Moses Hightower, ADHD og Hjálma.

Sigríður Thorlacius syngur en auk hennar skipa sveitina þeir Magnús Trygvason Eliassen, Ómar Guðjónsson, Óskar Guðjónsson, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson og Styrmir Sigurðsson sem einnig semur tónlistina og stjórnar upptökum.

Tónlistin er seiðmögnuð melankólía sem sækir áhrif víðs vegar: úr kvikmyndatónlist, indípoppi, jazzi, elektróník og sálartónlist. Sér til aðstoðar hefur hljómsveitin átta manna strengjasveit.

Unnsteinn Manuel Stefánsson syngur í einu lagi, Rósa Guðrún syngur raddir, Samúel J Samúelsson leikur á básúnu og Frank Aarnink á hið dulmagnaða cimbalom.

Textar eru eftir Dóru Ísleifsdóttur. Kjartan Kjartansson tók upp og hljóðblandaði í Bíóhljóð.

Nýtt lag frá All Day, Every Day

Dagur Árni Guðmundsson

All Day, Every Day er sólo verkefni Dags Árna Guðmundssonar en hann gaf nýlega út nýtt lag sm nefnist “Let Down.” Dagur fór áður undir nafninu Lil Peep the Sheep og gaf út eina plötu í fyrra. Nú er nú plata í verkum og verður vonandi kláruð fyrir áramót.

Revolution in the Elbow of Ragnar Agnarsson Furniture Painter

Revolution In The Elbow of Ragnar Agnarsson Furniture Painter

Úr hugarfylgsnum Ívars Páls Jónssonar kemur konseptplatan Revolution in the Elbow of Ragnar Agnarsson Furniture Painter. Platan geymir 18 lög sem segja sögu Olnbogavíkur, lítils bæjar í líkama miðaldra húsgagnamálara, sem að öðru leyti hefur ekkert með söguna að gera.

Sagan greinir frá risi og falli samfélagsins í olnboganum og örlögum íbúa bæjarins á stormasömum tímum. Tónlistin er úr söngleik með sama nafni sem frumsýndur var í New York 13. ágúst síðastliðinn.

Ívar Páll Jónsson hefur verið afkastamikið skúffutónskáld undanfarinn aldarfjórðung. Hann fékk Stefán Örn Gunnlaugsson upptökustjóra til liðs við sig árið 2011 og hefur platan verið í undirbúningi síðan. Á plötunni syngja ásamt Ívari og Stefáni þau Sigríður Thorlacius, Valdimar Guðmundsson, Ásdís Rósa Þórðardóttir, Hjalti Þorkelsson, Soffía Björg, Arnar Guðjónsson og Liam McCormick úr bandarísku hljómsveitinni The Family Crest.

Art is Dead

Art is Dead er ný íslensk hljómsveit en fyrsta smáskífa hennar hefur undanfarið vermt fyrsta sæti Pepsi-Max listans á X-inu. Lagið heitir “Bad Politics” og hljómar her að ofan. Sveitin mun kynna nýtt lag nú á allra næstu dögum og er áhugasömum bent á að fylgjast vel með á Facebook síðu hennar : www.facebook.com/artisdead

Stúlknasveitin Dream Wife

Dream Wife

Hin nýstofnaða stúlknahljómsveitin Dream Wife hefur gefur út myndband við lag sitt “Chemistry”. Meðlimir sveitarinnar eru bæði af íslenskum og breskum uppruna. Hljómsveitin var stofnuð fyrr á þessu ári og hefur nú komið fram víðs vegar á Englandi. Þær spila draumkennt, brimbrettapop með áhrifum frá „Grunge“ senu tíunda áratugsins. Tískan frá tíunda áratugnum einkennir útlit hljómsveitarinnar.

Sveitin er leidd áfram af söngkonunni Rakel Mjöll. Hún stundar nám í sjónlistum við Listaháskólann í Brighton þar sem hún kynntist hinum meðlimum Dream Wife, hinar bresku Bella og Alice. Einnig syngur hún í hljómsveitinni Halleluwah sem hún er í ásamt forsprakka Quarashi, Sölva Blöndal.

Þrátt fyrir að sveitin hafi aðeins verið starfandi í stuttan tíma er margt um að vera. Næst á dagskrá hjá Dream Wife er að spila á tónlistarhátíðinni Dot to Dot í Bristol og síðan munu þær leggja af stað í tónleikaferðalag um Kanada í byrjun sumars. Þær munu einnig stoppa stutt við í Bandaríkjunum, þar á meðal í New York. Stefnt er á að spila í Reykjavík í lok sumars. Í síðasta mánuði gáfu þær út netútgáfu af smáskífu að nafni The Pom Pom EP en Þorbjörn Kolbrúnarson tónlistarmaður, sem hefur verið búsettur í London undanfarin ár, sá um hljóðvinnslu.

Egill – Lou Reed

Lou Reed

Meðfylgjandi er lag frá huldulistamanninum Agli. Hann vill helst ekki koma fram í eigin persónu að sinni og bað um, í gegnum krókaleiðir, að lagið sem heitir “Lou Reed” fengi að hljóma hér. Nánari upplýsingar og fleiri lög væntanleg.

Það ber að taka það fram að listamaðurinn sem hér er á ferð er ekki undirritaður.

Útgáfutónleikar Different Turns

Different Turns cover

Íslenska elektró/rokk hljómsveitin Different Turns gaf út, þann 4. apríl síðastliðinn, plötuna If you think this is about you…. you´re right. Sveitin mun halda útgáfutónleika 12. júní næstkomandi í Borgarleikhúsinu og er miðasala hafin á Miði.is.

Þeir sem ekki hafa kynnt sér þessa ágætu sveit geta gætt sér á meðfylgjandi tóndæmum og mæta svo vafalítið í Borgaleikhúsið þann 12. næsta mánaðar.

Nýtt lag frá Low Roar

Low Roar

Tríóið Low Roar sendi í dag frá sér glænýtt lag af væntanlegri annari plötu sveitarinnar og heitir það “I’m leaving”. Nú er farið að hlakka verulega í undirrituðum að heyra sjálfa plötuna og sjá Low Roar stíga á svið, ásamt föngulegum hópi listamanna, á ATP hátíðinni í sumar.

Júníus Meyvant kveður sér hljóðs

Junius Meyvant

Listamannsnafnið Júníus Meyvant er nafn sem fáir þekkja, ennþá. Hér er á ferðinni einstaklega hæfileikaríkur tónlistarmaður sem hefur gefið út sitt fyrsta lag sem heitir “Color Decay”. Undirritaður sá téðan Júníus í fyrsta skipti nýverið hita upp fyrir Mono Town á útgáfutónleikum þeirra og þótti mér mikið til hans koma. Var hann þar bara einn með gítar en í meðfylgjandi lagi er hann með valinkunnan hóp meðspilara sem skapa með honum einstakan hljóðheim.

Júníus Meyvant er listamannsnafn Vestmaneyingsins Unnars Gísla Sigurmundssonar. Sem ungur maður var Unnar mjög frjálslegur í anda og komst aðeins tvennt að í hans lífi, þ.e. myndlist og hjólabretti. Annað slagið fann hann fyrir því að tónlistargyðjan togaði í hann og velti hann því oft fyrir sér hvort hann ætti ekki að demba sér í það að læra á hljóðfæri.

Tónlist Júníusar er fullveðja og tilfinningaríkt þjóðlagapopp sem er í senn tímalaust og kunnuglegt. Alúðlegar útsetningar hans láta mann á köflum líða eins og maður sé staddur undir þykku ullarteppi við arineld í kofa hátt uppi í fjöllum eða í hina höndina liggjandi á funheitri sandströnd á suðlægum slóðum.

Júníus Meyvant mun senda frá sér fleiri lög á næstu misserum en plata er ekki væntanleg fyrr en á næsta ári.

Myndra : Ný íslensk/kanadísk hljómsveit

Myndra

Íslensk/kanadíska hljómsveitin Myndra mun gefa út sína fyrstu plötu nú í lok maí. Hingað til hefur sveitin eingöngu starfað í Kanada en í sumar kemur hluti hljómsveitarinnar hingað til lands og við heldur mikla útgáfutónleika í Norræna húsinu þann 7. júní næstkomandi.

Til að hita upp fyrir tónleikana og til að kynna sér sveitina geta lesendur heyrt nokkur tóndæmi hér að neðan.