Nýtt lag frá Hide Your Kids

Hljómsveitin Hide Your Kids, sem hita mun upp fyrir Of Monsters And Men á útitónleikunum í Garðabæ á morgun, hefur sent frá sér nýtt lag sem kallast “Standing All Alone”. Lagið var frumflutt á X-inu nú í vikunni og er því nýkomið úr ofninum. Hide Your Kids hefur verið að í rúmt eitt og hálft ár og eru meðlimir sveitarinnar hreinræktaðir Garðabæingar líkt og flestir meðlimir Of Monsters and Men.

Nýtt frá Snorra Helgasyni

Snorri Helga og co.

Snorri Helgason, sem gaf út hina stórgóðu plötu Winter Sun fyrir rétt rúmum tveimur árum, er klæddur og kominn á ról með nýja plötu. Autumn Skies heitir platan sú og hefur fyrsta smáskífa plötnnar “Summer is almost gone” þegar farin að hljóma reglulega á öllum betri útvarpsstöðvum.

Emiliana Torrini Gefur út nýja plötu

Emiliana Torrini

Tookah er fjórða plata Emilíönu Torríni sem gefin verður út alþjóðlega en hún kemur út þann 9. næsta mánaðar. Tookah fylgir eftir hinni frábæru plötu söngkonunnar , Me And Armini sem kom út árið 2008, en hún naut mikilla vinsælda bæði hér heima og erlendis.

Fyrsta smáskífan af plötunni væntanlegu er “Speed of Dark” en það er þegar farið að sigla öldur ljósvakans.

The Third Sound – The Third Sound Of Destruction & Creation

The Third Sound

The Third Sound Of Destruction & Creation, önnur breiðskífa The Third Sound var að koma út hjá Fuzz Club Records. Er hún fáanleg á vínyl og á stafrænu formi en vínylnum fylgir kóði til niðurhals með lengri útgáfu af plötunni en þar er um að ræða tvö aukalög auk lengri útgáfa af einu lagi plötunnar. Hægt er að panta eintak frá útgáfunni en einhver eintök munu svo verða fáanleg í 12 tónum fljótlega.

www.fuzzclubrecords.com

Nýtt lag af væntanlegri plötu Lockerbie

Lockerbie

Hljómsveitinni Lockerbie hefur sent frá sér fyrstu smáskífuna af væntanlegri annari plötu sinni sem mun koma út í október næstkomandi. Lagið heitir “Heim” og eins og heyra má heldur sveitin tryggð við tilkomu- og tilfinningamikinn tónheim sinn og eiga aðdáendur sveitarinnar eiga því eflaust von á góðu.

Þórir Georg gefur út It’s a Wonderful Life

Þórir Georg

Tónlistarmaðurinn Þórir Georg sendi nýverið frá sér plötuna It’s a Wonderful Life. Plötuna má nálgast á Bandcamp síðu listamannsins, sem og aðrar úgáfur hans, en platan mun einnig koma út á geisladisk í afar takmörkuðu upplagi og verður fáanleg í völdum plötubúðum.

Þórir Georg hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi og verið meðlimur í hljómsveitum á borð við Gavin Portland, Ofvitarnir, Deathmetal Supersquad og Singapore Sling. Auk þess gaf Þórir út undir listamansnafninu My Summer as a Salvation Soldier um árabil.

Einar Lövdahl sendir frá sér sína fyrstu plötu

Einar Lövdahl - Tímar án ráða

Tónlistarmaðurinn Einar Lövdahl sendi nýverið frá sér tónlistarfrumburð sinn sem ber nafnið Tímar án ráða. Platan inniheldur 10 lög, þ.a.m. samnefnt lag sem rataði inn á vinsældalista Rásar 2 í haust.

Lög og textar eru eftir Einar sjálfan og sáu hans nánustu samstarfsmenn og vinir, Halldór Eldjárn (úr Sykri) og Egill Jónsson (úr Porquesí) um upptökustjórn, útsetningar og mestallan hljóðfæraleik. Meginþorri plötunnar er tekinn upp í heimahúsum og hinu svokallaða Stúdíó Mosfellsbæ, hljóðveri Halldórs.Það er Einar sjálfur sem stendur á bak við útgáfuna.

Áhugavert er frá því að segja að á daginn starfar Einar sem blaðamaður Monitor og hefur þar á bæ t.a.m. tekið forsíðuviðtöl við hátt í 50 tónlistarmenn. Nú hefur hann þó komið sér hinum megin við borðið, ef svo má segja.

kimono gefa út Aquarium EP og halda útgáfutónleika annað kvöld

kimono - Aquarium EP

Í tilefni útgáfu stuttskífunnar Aquarium með kimono verður boðað til tónleika á Faktorý á morgun, þann 1. ágúst, en tækifærið jafnframt nýtt til að kveðja þennan margrómaða tónleikastað sem senn rennur sitt skeið. Bandarísk-íslenski dúettinn Low Roar ætlar einni að koma fram, en spennandi verður að sjá hvernig þessar ólíku sveitir smella saman á tónleikum. Bætt verður við hljóð- og ljósabúnað Faktorý til að tryggja að upplifun tónleikagesta verði sem allra best.

Þó ekki hafi farið mikið fyrir kimono undanfarin misseri hefur sveitin þó eitthvað látið á sér kræla, komu t.a.m. fram á hinni einstaklega vel heppnuðu All Tomorrow’s Parties hátíð í Keflavík í júní sem og að leika spunatónleika með Damo Suzuki úr CAN seint á síðasta ári. kimono leggja til nýja stuttskífu, Aquarium, sem inniheldur rúmlega 20 mínútna langt lag samnefnt plötunni, en lagið er afrakstur áframhaldandi vinnu tríósins með hið lifandi upptökuform sem birtist á síðustu plötu þeirra í fullri lengd, Easy Music For Difficult People. Aquarium mætti túlka sem einhverskonar afturhvarf kimono til uppruna síns áður en mestur óróleiki tónlistar þeirra var brostinn fram.

Plötuna má streyma á Soundcloud eða kaupa til niðurhals á Bandcamp.

Miðasala opnar kl 21:00 og hefjast tónleikarnir svo stundvíslega kl 22:00.
Miðaverð er 1500 kr.

Grísalappalísa gefur út ALI á morgun

Grísalappalísa - ALI

Hljómsveitin Grísalappalísa var stofnuð árið 2012 af þeim Gunnari Ragnarssyni (áður: forsöngvari hljómsveitarinnar Jakobínurínu, sem vann Músíktilraunir árið 2005 og gaf út breiðskífuna, The First Crusade, árið 2007) og góðvini hans Baldri Baldurssyni, en félagarnir syngja og semja báðir texta sveitarinnar.

Gunnar og Baldur hópuðu saman tónlistarmönnum úr vinahópi sínum, en allir eru þeir rótfastir í grasrót íslensk tónlistarlífs. Það eru þeir Bergur Thomas Anderson og Rúnar Örn Marínóson (Oyama), Tumi Árnason og Albert Finnbogason (The Heavy Experience) og Sigurður Möller Sívertsen (Jakobínarína).

Hugmyndin við stofnun sveitarinnar var að blanda saman hnífbeittum íslenskum textum sem sækja innblástur í íslenska bókmenntahefð og minni úr rokksögunni við hráan og frjálslegan rokkkokteill hljóðfæraleikarana. Upp úr þessari hugmynd varð til breiðskífan ALI sem kemur í helstu plötuverslanir landsins á morgun, miðvikudaginn 10 júlí, undir merkjum 12 Tóna. Platan var hljóðrituð seinni hluta árs 2012 af Alberti Finnbogasyni en hljóðblönduð (af Alberti) og hljómjöfnuð (af Finni Hákonarsyni í Finnlandi) á fyrsta ársfjórðungi ársins 2013.

Nýtt lag og myndband frá Umma

Önnur breiðskífa listamannsins Umma Guðjónssonar mun líta dagsins ljós á næstu vikum og í tilefni af því hefur hann gefið út myndband við fyrstu smáskífu plötunnar,
“Bergmálið”.

Myndbandið var tekið upp á heimaslóðum Umma við strendur Djúpavogs í maí 2013 og fangar náttúru staðarins einkar vel.

„Með kvikmyndavél, einn gítar og heimaprjónaða lopapeysu frá mömmu að vopni var haldið út í veðrið og um það bil þremur klukkustundum síðar var allt myndefnið komið í hús. Undanfarnir dagar hafa svo farið í að klippa allt efnið saman og er útkoman myndband sem ég er virkilega stoltur af“, sagði Ummi um myndbandið sem leikstýrt var af Paul Arion, góðvini hans sem starfar í kvikmyndaiðnaðinum.

Nánar verður tilkynnt um útgáfu nýju breiðskífunnar á næstu dögum á ummig.com

Bellstop sendir frá sér breiðskífuna Karma

Dúóið Bellstop, sem samanstendur af þeim Elínu & Rúnari, hefur nú gefið út plötuna Karma en lagið “Trouble” hefur hljómað víða undanfarnar vikur og myndbandið við lagið hefur vakið mikla athygli.

Karma iniheldur 12 frumsamin lög sem tekin voru upp hjá Halldóri Björnssyni í Studio Neptunus, Hafnarfirði.

Karma verður dreift á Íslandi af Kongó ehf í allar helstu verslanir en verður einnig fáanleg á vefsíðu sveitarinnar, www.bellstop.is

Við dreifingu Karma hefur verið bryddað uppá nýbreytni. Í nokkrum eintökum, bæði rafrænum og órafrænum hefur verið komið fyrir óvæntum glaðningum frá Bellstop: póstkortum, veggspjöldum, handskrifuðum textum við lögin og síðast en ekki síst, acoustic tónleikum með Bellstop sem hinn heppni kaupandi fær í gegnum skype beint heim í stofu.

Zoon van snooK – The Bridge Between Life & Death

Zoon van snooK

Mér barst til eyrna nokkuð áhugaverð plata með breska listamanninum Zoon van snooK sem nefnist The Bridge Between Life & Death en á henni er að finna fíngerða raftónlist með “folk” áhrifum eða “folktronica” eins og stefnan er oft nefnd. Hljóðin (sömplin) sem heyra má á plötunni eru að miklu leiti tekin upp hér á landi en einnig koma fram á plötunni íslenskir listamenn, nánar tiltekið Amiina, Benni Hemm Hemm og Sin Fang. Einnig munu liðsmenn múm hafa lagt til remix fyrir aðra smáskífu plötunnar.

Sjálfur segir Zoon van snooK frá dvöl sinni hér á landi á þessa leið:

In 2009 I finally managed to pull off the big trip: from the South West of England to the South West of Iceland. I knew it would be a great opportunity to gather the requisite sounds on which to base a whole new album. I was able to collect recordings from the centre, port and outskirts of Reykjavik, and the surrounding South Western area. From national parks to canyons; from hot springs to glaciers; from folk songs to folklore… I love being able to use an entire field recording.

Hér að neðan má heyra 12 mínútna “sampler”sem gefur greinilega til kynna að hér er afar forvitnileg plata á ferð.

Í Áhyggjunarkoti

Kne Kne

Það er eitthvað merkilegt að gerast á Akureyri ef marka má þá fersku, tilraunakenndu raftóna sem þaðan berast. Hér að neðan hljómar lagið “Í Áhyggjunarkoti” með norðlenska dúóinu Kne Kne sem skipað er þeim Agnesi Ársælsdóttur og Þórði Indriða Björnssyni. Þórð kannast einhverjir við undir listamannsnafninu DeerGod en heyra má tónsmíðar hans hér.

Indigo – 100 Wrong Turns

Indigo - 100 wrong turns

Synthadelia Records gaf í gær út nýja smáskífu með listamanninum Indigo (Ingólfur Þórs Árnason) af væntanlegri plötu hans sem koma mun út í haust. Mun þetta verða þriðja plata Indigo því árið 2007 gaf Smekkleysa út geisladiskinn Indigo sem innihélt tónlist samda og flutta af Völu Gestsdóttur og Ingólfi Þór en þremur árum áður gáfu þau út diskinn Too late to shine.

Gísli Þór Ólafsson – Hvílíkt undur!

Mynd eftir Margréti Nilsdóttur

Væntanleg er platan Bláar raddir en hún inniheldur lög Gísla Þórs Ólafssonar við ljóð Geirlaugs Magnússonar úr bók hans Þrítengt (1996). Lögin voru flest samin í byrjun árs 1999 en hafa fengið að þróast og dafna þangað til upptökur hófust fyrir u.þ.b. ári. Tekið var upp með hléum í Stúdíó Benmen og sá Sigfús Arnar Benediktsson um upptökustjórn á plötunni sem væntaleg er  í júlí næstkomandi.

Meðfylgjandi mynd gerði Margrét Nilsdóttir.

Lil Peep the Sheep

Lil Peep the Sheep er soló verkefni Dags Árna Guðmundssonar sem búsettur er í Kaliforníu, en fer til Íslands hvert sumar, og stefnir á að taka upp plötu hér í næstu ferð.

Meðfylgjandi er fyrsta lagið sem Dagur Árni festi á band fyrir sóló verkefni sitt en hann var áður meðlimur í rokkhljómsveitini Second Hand Suburbia en sveitin sú hefur nú lagt upp laupana.

Nýtt lag með DJ Flugvél og Geimskip

DJ Flugvél og Geimskip

DJ Flugvél og Geimskip hafa gefið út nýtt lag sem nefnist ,,Draumar töframannsins” og er það fyrsta af væntanlegri plötu sem bera mun titilinn Glamúr í geimnum. Platan mun koma út seinna í sumar en hún mun hafa verið tekin upp að nóttu til með það í huga að láta lögin tengjast tunglinu, óravíddum geimsins og draumum.

Annað kvöld, miðvikudaginn 5. júní á Faktorý, mun DJ Flugvél og Geimskip troða upp ásamt Sóley.

Hægt er að nálgast lagið á tónlistarveitunni gogoyoko.