Wish I Knew – ný smáskífa með Önnu Sóley

Söngkonan og lagasmiðurinn Anna Sóley hefur sent frá sér nýja smáskífu sem nefnist “Wish I Knew”. Stíllinn er persónulegy jazzað fönk í sálrænum búningi. Tríóið sem spilar á upptökunni er skipað einvala liði, Magnús Trygvason Eliassen á trommur, Pétur Sigurðsson á bassa og Mikael Máni Ásmundsson á gítar.

Upptaka, hljóðblöndun og tónjöfnun var í höndum Birgis Jóns Birgissonar og voru herlegheitin tekin upp í Sundlauginni.

Reykjavík Guitarama

Reykjavík Guitarama

Al Di Meola, Robben Ford, Björn Thoroddsen, Peo Alfonsi og Brynhildur Oddsdóttir á magnaðri gítarveislu Bjössa Thor í Háskólabíói, laugardaginn 3. október.

Þessa tónleika má enginn tónlistaráhugamaður láta fram hjá sér fara. Al Di Meola er einfaldlega einn virtasti gítarleikari sögunnar og Robben Ford er meðal fremstu blústónlistarmanna samtímans, sannur snillingur sem hefur spilað með þeim bestu, s.s. George Harrison, Miles Davis og Kiss.

Ítalski gítarleikarinn Peo Alfonsi og blúsarinn Brynhildur Oddsdóttir verða í sviðsljósinu ásamt gestgjafanum Birni Thoroddsen sem haldið hefur vinsælar gítarhátíðar í Kanada, Noregi og Bandaríkjunum.

Jóhann Hjörleifsson trommuleikari og Róbert Þórhallsson á bassaleikari sjá til þess að allir haldi takti.

Miðasala er hafin á Miði.is

Jazzhátíð Reykjavíkur 2015

Jazzhátíð Reykjavíkur verður haldin í 26. sinn dagana 12.-16. ágúst í Hörpu. Hátíðin í ár leggur áherslu á nýsköpun, íslenska útgáfu og samstarfsverkefni innlendra og erlendra tónlistarmanna. Jafnframt er sérstakur fókus á konur í jazzmúsík í tilefni af 100 ára kosningarafmælis kvenna á íslandi.

Snorri Sigurðarson

Mikill fjöldi af nýjum íslenskum jazzútgáfum verður kynntur á hátíðinni í ár og er það til marks um mikla grósku í íslensku jazzlífi. Trió Sunnu Gunnlaugsdóttur, Mógil, Scott McLemore ásamt Hilmari Jenssyni og Angeliku Niescier, Jónsson&More, Sigurður Flosason, Leifur Gunnarsson, Ásgeir Ásgeirsson, Tómas R. Einarsson ásamt Ómari Guðjónssyni kynna öll nýjar útgáfur á hátíðinni í ár og frumflytja efni sitt á Jazzhátíð Reykjavíkur 2015.

Tómas R.Jazzhátíð í ár verður þjófstartað í Bíó Paradís, þriðjudaginn 11. ágúst, með frumsýningu á nýrri heimildarmynd í leikstjórn Jóns Karls Helgasonar. Efnistök myndarinnar er Tómas R. Einarsson kontrabassaleikari og lagahöfundur sem er löngu landskunnur, ekki síst fyrir latín tónlist sína. Í kvikmyndinni Latínbóndinn kynnumst við manninum bak við bassann og lögin og því hvernig það vildi til að sveitastrákur úr Dölunum elti tónlistargyðjuna út í heim og alla leið til Havana á Kúbu og snéri loks til baka í heimahagana með heita og litríka latínveislu í farangrinum.

Nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á www.reykjavikjazz.is og á Facebook www.facebook.com/Rvk.Jazz

Skarkali tríó

Skarkali

Tríóið Skarkali var stofnað sumarið 2013. Áður hafa liðsmenn spilað saman í mörgum hópum við hin ýmsu tilefni eftir að hafa kynnst í Tónlistarskóla FÍH. Þaðan hafa þeir allir útskrifast á síðustu árum.

Skarkali flytur frumsamda jazztónlist eftir píanóleikarann Inga Bjarna Skúlason þar sem fjölbreytnin er höfð í fyrirrúmi. Fágaður bassaleikur Valdimars Olgeirssonar og kraftmikill trommuleikur Óskars Kjartanssonar setja tónlistina á hærra plan.

Skarkali tríó hefur gefið út sína fyrstu plötu og heitir hún einfaldlega Skarkali. Platan er nú fáanleg í helstu plötubúðum landsins. Á disknum eru níu frumsamin lög í fjölbreyttum jazz útsetningum. Upptökur á disknum fóru fram í Amsterdam í febrúar síðastliðnum þar sem tveir meðlima tríósins stunda tónlistarnám í Hollandi.

Haldnir verða glæsilegir útgáfutónleikar í Hannesarholti, Reykjavík þann 16. júlí. Á tónleikunum verða að sjálfsögðu öll lög plötunnar flutt. Að flutningi loknum gefst tónleikagestum kostur á að kaupa plötuna á sérstöku tónleikaverði.

Hljómsveitin 23/8 og Björkologi

Jazzbandið 23/8 mun ferðast um landið nú í lok mánaðar og spila prógram sem þau kalla Björkologi en það samanstendur af vel völdum lögum úr safni Bjarkar og útsett á jazzvísu. Bandið skipa tvær íslenskar stelpur og tveir útlenskir strákar, öll búsett í Stokkhólmi.

Ljóst er að allir alvöru jazzgeggjarar og aðdáendur Bjarkar hreinlega verða að láta sjá sig ef eitthvað er að marka meðfylgjandi tóndæmi:

Tónleikar 23/8 verða haldnir á eftirfarandi stöðum:

23. júlí kl.21:00 Bryggjan, Grindavík, ókeypis
24. júlí kl.20:00 Norræna Húsið, Reykjavík, 2000 kr.
25. júlí kl.20:00 Norræna Húsið, Reykjavík, 2000 kr.
26. júlí kl.20:00 Stykkishólmskirkja, ókeypis
28. júlí kl.21:00 Græni Hatturinn, Akureyri, 2000 kr.
29. júlí kl.22:00 Gamli Bærinn, Mývatni, ókeypis

Unnur Sara Eldjárn gefur út sína fyrstu sólóplötu

Unnur Sara

Tónlistarkonan Unnur Sara Eldjárn gaf út sína fyrstu sólóplötu í síðasta mánuði og ber platan nafnið „Unnur Sara“. Lögin á plötunni eru öll eftir hana en tónlistinni má lýsa sem grípandi popptónlist undir áhrifum frá ýmsum tónlistarstefnum eins og jazz og rokktónlist.

Unnur Sara er 22 ára gömul en hefur þrátt fyrir ungan aldur haldið fjölda tónleika og tekið þátt í alls konar tónlistarverkefnum. Hún hefur vakið athygli fyrir góða túlkun á lögum franska tónlistarmannsins, Serge Gainsbourg en sú tónleikadagskrá var fyrst flutt á Þjóðlagahátíð á Siglufirði 2014.

Gerð þessarar plötu var aðalverkefni Unnar í vetur ásamt undirbúning á burtfarartónleikum úr söngnámi við Tónlistarskóla FÍH sem hún lauk í mars. Lögin á plötunni eru mjög fljölbreytt en eitt þeirra tileinkar Unnur pabba sínum, gítarleikaranum Kristjáni Eldjárn sem lést langt fyrir aldur fram, þegar Unnur var níu ára gömul. Einnig samdi Unnur laglínu og texta yfir gítarupptöku frá honum sem hann hafði tekið upp þegar hann var við nám í Helsinki árið 1998, lagið heitir „Litli lampinn”.

Fjöldi af hæfileikaríku tónlistarfólki kom að gerð plötunnar og sáu Kjartan Kjartansson og Halldór Eldjárn um upptökur.

Berlin X Reykjavík Festival

Poster

Extreme Chill Festival og tónlistarhátíðin Berlín XJAZZ kynna : Berlin x Reykjavík Festival – Reykjavík 26-28. Febrúar og Berlín 5-7. Mars.

Hátíðin í Reykjavík verður haldin á Kex Hostel og á Húrra dagana 26 – 28 Febrúar.
það verða um 23 hljómsveitir og tónlistarmenn sem munu troða upp í Reykjavík og Berlín.

Dagskráin er ekki af verra endanum en tónlistarmenn á borð við. Emiliana Torrini ásamt Ensemble X frá Berlín, Claudio Puntin, Skúli Sverrisson, Jazzanova, Christian Prommer, Studnitzky Trio & Strings, Epic Rain, Qeaux Qeaux Joans, o.fl.ofl.

Passin á hátíðina kostar aðeins 5900 kr. alla þrjá dagana í Reykjavík og fyrir þá sem ætla líka að skella sér til Berlínar munu geta notað passann sinn þar en hátíðin í Berlín verður dagana 5-7 Mars á hinum magnaða stað Neau Heimat.

Miðasala er  á midi.is

Nýtt lag og myndband frá Contalgen Funeral

Í október á seinasta ári fór Contalgen Funeral í stúdíó og tók upp nokkur lög „live“. Fyrr á þessu ári var leikurinn endurtekinn og út er komið fyrsta lag af væntanlegri plötu sem tekin er upp með þessum hætti. Lagið nefnist „Killer Duet“ og var tekið upp af Fúsa Ben í Stúdíó Benmen. Hjá liggur myndbandsupptaka en myndbandsvélin rúllaði á meðan lagið var æft og tekið upp.

Contalgen Funeral gaf út sína fyrstu plötu, Pretty Red Dress árið 2012. Bandið hefur spilað víða síðan, m.a. á Bræðslunni, Gærunni, Blúshátið í Reykjavík og á Airwaves.

Unnur Sara Eldjárn sendir frá sér sitt fyrsta lag

Tónlistarkonan Unnur Sara Eldjárn hefur sent frá sér sitt fyrsta lag, ásamt myndbandi, en það heitir “Sama hvað”. Tónlist Unnar má lýsa sem draumkenndu poppi undir áhrifum frá jazz og þjóðlagatónlist og er, ef dæma má af laginu hér að ofan, bæði angurvær og heillandi.

Með Unni spila þeir Bragi Þór Ólafsson og Benjamín Náttmörður Árnason á gítar, Ingibjörg Elsa Turchi á bassa og Elías Bjartur Einarsson á trommur.

Myndbandið var unnið af Leikhópnum Svavari en handrit og leikstjórn var í höndum Vilhelm Þórs.

Bassanótt frá Tómasi R

Kominn er út geisladiskurinn Bassanótt sem hefur að geyma nýja latíntónlist Tómasar R. Hún var frumflutt á Jazzhátíð Reykjavíkur 2013 og hljóðrituð í kjölfarið. Á diskinum eru átta ný lög sem eiga það samt sameiginlegt að þar er vísað til margvíslegra forma latíntónlistarinnar og latíndjassins.

Gagnrýnandinn Vernharður Linnet gaf jazzhátíðartónleikunum fjóra og hálfa stjörnu í dómi sínum og skrifaði m.a.:

,Á tónleikunum í Fríkirkjunni skiptust á ljúfar ballöður og kúbönsk sveifla og ekki hægt annað en hrífast af lögum hans, þar sem drungaleg fegurð ríkti eins og í ,,Janúar”, jafnt og heitum kúburyþmanum í ,,Bassanótt”… Heit og þétt tónlist og gaman verður að heyra hana aftur á væntanlegri plötu.

(Mbl. 28/8 2013)

Hljóðfæraleikarar:

Tómas R. Einarsson: kontrabassi
Eyþór Gunnarsson: píanó, Wurlitzer
Ómar Guðjónsson: gítar
Sigtryggur Baldursson: kóngatrommur
Matthías MD Hemstock: trommur/slagverk
Samúel Jón Samúelsson: básúna, güiro

Nýtt og nýlegt íslenskt

1860

Við hefjum þessa yfirferð á splunkunýrri hljómsveit sem kallar sig Blóðberg. Hljómsveitin spilar dansvænt rafpopptónlist og hefur seinustu mánuði unnið að sex laga smáskífu þar sem sungið er bæði á íslensku og ensku. Upptökur fóru fram í Hljómi á Seltjarnarnesi og var upptökustjórn í höndum Páls Orra Péturssonar.

Meðlimir hljómsveitarinnar hafa komið víða við á sínum tónlistarferli og hafa leikið með hljómsveitum á borð við Lovely Lion, Ásgeiri Trausta, Ylju, Orphic Oxtra, Útidúr, Fjallabræðrum, Vicky og Of Monsters and Men.

Eðalsveitin 1860 sendi í upphafi síðasta mánaðar frá sér plötuna Artificial Daylight og verður hún að teljast skylduhlustun fyrir alla tónlistarunnendur. Hér er vænt hljóðbrot af plötunni.

Hljómsveitin Johnny And The Rest sendu nýverið frá sér nýtt lag sem ber það skemmtilega nafn, “Mama Ganja”. Lagið er fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu strákanna og hefur lagið fengið mjög góðar viðtökur.

Triphop sveitin Urban Lumber, sem komin er með nýja söngkonu, Kareni nokkra Pálsdóttur, er komin með nýtt lag. Sveitn er á fullu að klára plötu og er von til að hún komi út í haust.

Það heyrist allt of lítið frá djössurum þessa lands hér á Rjómanum finnst mér og skal nú bætt fyrir það. Hér að neðan má heyra upptökur jazz kvartettins Kliður hjá Rás 2 en hann var stofnaður haustið 2012 og spilar melódískan jazz með skandinvískum blæ. Lög hópsins koma öll úr smiðju meðlima og hafa vakið athygli fyrir öðrvísi hljóðfæraskipan, enda þykir bandið hafa nokkuð sérstakan hljóm.

Fyrst við erum í jazz deildinni er gráupplagt að heyra nýjustu plötu píanistans Sunnu Gunnlaugs sem kallast Distilled. Með henni á plötunni spila Þorgrímur Jónsson á bassa og Scott McLemore á trommur.

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum að múm gaf nýverið út plötuna Smilewound. Á henni er m.a. að finna þennan hressilega lagstúf.

Brynhildur Oddsdóttir með tónleika á Café Rósenberg

BeeBee and the Bluebirds

Miðvikudaginn 19. júní verður blús og djass-söngkonan Brynhildur Oddsdóttir með tónleika á Café Rósenberg. Með henni leika Kjartan Valdemarsson á píanó, Birgir Bragason á kontrabassa og Óskar Kjartansson á trommur. Sérstakur gestur kvöldsins er söngvarinn Arnar Ingi Richardsson.

Brynhildur mun flytja frumsamið efni í bland við vel valdar blús og djassábreiður. Aðgangseyrir er 1500 kr og enginn posi. Tónleikarnir hefjast kl 21.00.

ÍRiS – That Morning

ÍRiS. Mynd: Nanna Dís

Listamaðurinn ÍRiS var að senda frá mér nýtt lag á sunnudaginn í tilefni af Karolina Fund fjáröfluninni sem hún var að setja á fót til að fjármagna útgáfu plötunnar Penumbra. Áhugasamir geta lesið nánar um verkefnið og vonandi styrkt útgáfuna með því að smella hér.

Ég minni aftur á viðtal við listamanninn sem birt var á vefnum Snoop Around  og er forvitnilegt aflestrar.

Úsland kynnir sína sjöttu spunaplötu

ÚÚ6

Úsland er sjálfstæð hljóðverka útgáfa sem sérhæfir sig í spuna og tilraunum í tónlist. Markmið útgáfunnar er að koma saman fólki sem ekki hefur áður skapað saman tónlist og gefa þeim frjálsan vetvang til að kanna nýjar slóðir í sameiningu. Skapalón Úslands er þannig að listamenn eru leitaðir uppi og boðið að taka þátt í tilraunum í tónlist í hljóðveri útgáfunnar. Þar verja þeir kvöldstund/eftirmiðdegi/morgni og tilraunir þeirra festar á hljóðrit. Ekkert er átt við hljóðritið eftir upptöku og er það gefið út á internetinu strax í kjölfarið gegn vægu gjaldi. Ein hljómplata er gefin út á mánuði í 12 mánuði. Eftir 12 hljóðrit er stefna sett á fýsíska heildarútgáfu í vandaðri umgjörð.

Spunaröð útgáfunnar er nú hálfnuð. Sjötta hljóðrit Úslands útgáfu kom út á páskadag, 31. mars síðastliðinn. Platan, sem fékk nafnið ÚÚ 6, í samræmi við nafnalög útgáfunnar, er tímamótaverk í stuttri sögu Úslands. Ekki markar hún aðeins miðgildi útgáfunnar, heldur varð hún til úr fjölmennasta “sessíjóni” Úslands til þessa sem einnig var fyrsta fjölþjóða samstarfið sem Úsland hefur staðið fyrir.

Úsland fékk nú í síðasta mánuði styrk frá Kraum Tónlistarsjóð og heldur ótrautt áfram í tónlistarsköpun sinni, en styrkurinn verður nýttur til að bæta hljómburð hljóðversins svo að framtíðar plötur geti hljómað enn betur!

Hlusta má á og kaupa, fyrir lítin pening, allar útgáfur Úslands á www.uslandrecords.bandcamp.com

Allur ágóði fer til að viðhalda verkefninu, viðhalda spuna og viðhalda frelsi!

ADHD 3 og 4

ADHD

Hljómsveitin ADHD, sem skipuð er nokkrum fremstu tónlistarmönnum landsins, gaf á síðasta ári út plöturnar ADHD3 og ADHD4. Upptökur fóru fram í Logalandi í ágúst og áttu upphaflega að vera fyrir eina plötu en sköpunargleðin var greinilega slík að úr varð efni í tvær plötur.

Lögin af plötunum má nú heyra í heild sinni á gogoyoko og eru lesendur hvattir til að kynna sér þau, þó ekki væri nema til að næra sálartetrið á smá djassi.

Skúli Sverrisson og Óskar Guðjónsson senda frá sér hljómplötuna The Box Tree

Út er komin ný hljómplata Skúla Sverrissonar og Óskars Guðjónssonar. Ber hún nafnið The Box Tree. Þetta er önnur hljómplata þeirra félaga en 10 ár eru liðinn frá því að fyrri plata þeirra, hin goðsagnakennda Eftir þögn kom út.

Skúli og Óskar eru fyrir löngu búnir að skipa sér sess sem á meðal fremstu tónlistarmanna Íslands og þótt víðar væri leitað. Skúli var nýverið settur á lista yfir fremstu jassrafbassaleikara heims af hinu virta tímariti Downbeat en hann hefur um langt árabil búið og starfað í New York auk þess sem hann hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi. Hljómplötur hans, Sería I og Sería II eru án efa á meðal eftirtektarverðustu tónverka síðustu ára á Íslandi.

Óskar er einhver afkastamesti og athyglisverðasti tónlistarmaður sem Ísland á. Auk þess að hafa gefið út fjórar sólóplötur er hann er meðlimur í hljómsveitunum Mezzoforte og ADHD. Báðir eru þeir margverðlaunaðir á Tónlistarverðlaunum Íslands og má geta þess að saman voru á sínum tíma útnefndir Jazz tónlistarflytjendur ársins 2002 í tenglum við fyrri plötu þeirra.

Upptökum á hljómplötunni stjórnaði Orri Jónsson en hann og Ingibjörg Birgisdóttur hönnuðu einnig einstakt umslag plötunnar.

Skúli Sverrisson og Óskar Guðjónsson – The Box Tree

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.