Anthemico Records

Anthemico

Í apríl árið 2014 opnaði vefur örútgáfunnar Anthemico Records heimasíðu með kvikmyndaskotinni instrumental tónlist úr öllum áttum eftir Pétur Jónsson.

Pétur hefur starfað á bak við tjöldin í íslensku tónlistarlífi í mörg ár, en árið 2007 stofnaði hann Medialux, sem er leiðandi fyrirtæki í auglýsingatónlist og tónlist fyrir kvikmyndað efni á Íslandi. Erfitt er að horfa á sjónvarp í heilt kvöld án þess að heyra eitthvað sem Pétur hefur samið eða komið að upptökum á. Auk þess hefur hann látið að sér kveða sem upptökustjóri með ýmsum tónlistarmönnum.

Á Anthemico síðunni kveður þó við annan tón en í þeirri tónlist sem Pétur gerir vanalega fyrir auglýsingar, en á síðunni er að finna allt frá hádramatískri vísindaskáldsögutónlist yfir í mjúkar instrumental ballöður, og allt þar á milli. Hljóðmyndin er sambland af sinfónískum strengjapörtum og rafpoppi, stíll sem við þekkjum orðið vel úr kvikmyndum.

Eitthvað af tónlistinni hefur verið sérsamin fyrir kvikmynduð verk, eins og tónlistin úr norðurljósamyndinni Iceland Aurora, sem er að finna hér en önnur verk eru gjarnan samin í kringum þema eins og óravíddir alheimsins eða vorið sjálft.

ATP upphitun á Kex Hostel í kvöld

Tónlistarhátíðin ATP Festival fer fram um komandi helgi og KEX Hosteli fannst tilvalið að hita upp fyrir tónleikana með smá kvikmyndasýningum og tónleikum. Upphitun fer fram í kvöld á KEX Hostel en þar verða þrjár kvikmyndir sýndar ásamt því að Snorri Helgason mun halda tónleika.

Kvikmyndirnar sem verða sýndar hafa verið sérstaklega valdar af þeim listamönnum sem koma fram á hátíðinni. Þær eru:

Koyannisqatsi (1982)
Koyannisqatsi er einskonar heimildarmynd og sjónrænir tónleikar við tónverk eftir Philip Glass. Myndin er í raun samansafn mynda hvaðanæva að úr heiminum og mun breyta sýn áhorfandans á heiminn.

Au Hasard Balthazar (1966)
Au Hasard Balthazar fjallar um asnann Baltazar og erfiða ævi hans. Samhliða sjáum við sömuleiðis líf stúlkunnar sem nefndi hann en líf þeirra beggja er samtvinnað.

Repo Man (1984)
Repo Man fjallar um ungan mann sem gerist innheimtumaður og undarleg ævintýri hans í því starfi.

Dagskrá:

GYM & TONIC
17:00 – Koyannisqatsi (Valin af Valgeiri Sigurðssyni)
18:40 – Au Hasard Balthazar (Valin af Chelsea Light Moving)
20:30 – Repo Man (valin af Thee Oh Sees)

KEX RESTAURANT
22:15 – Snorri Helgason flytur tónlist sína

Fyrsta kvikmynd Bedroom Community komin út

Everything Everywhere All The TimeÚt er kominn fyrsti mynddiskur Bedroom Community útgáfunnar. Er hann í formi tvöfalds og einkar glæsilegs DVD-pakka sem kemur út í afar takmörkuðu upplagi og inniheldur heimildarmyndina Everything Everywhere All The Time, tónleikamyndina The Whale Watching Tour og sem aukaefni tónleika Daníels Bjarnasonar með hljómsveit auk 16 blaðsíðna bæklings og fjölda ljósmynda.

Everything Everywhere All The Time var frumsýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík árið 2011 og síðar sýnd á Airwaves, CPH:DOX, Air d’Islande og víðar, en hún fylgir eftir nokkrum listamanna útgáfunnar þegar þeir héldu í tónleikaferðalagið Whale Watching Tour árið 2010. The Whale Watching Tour inniheldur svo lokahnykk tónleikaferðalagsins, tónleika fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu á Listahátíð, í heild sinni.

Pakkinn góði er nú fáanlegur í helstu plötuverslunum landsins, en einnig má versla hann beint frá útgáfunni.

Nýtt lag frá Arcade Fire

Hljómsveitin Arcade Fire á lag í kvikmyndinni The Hunger Games sem væntanleg er í kvikmyndahús innan skamms. Lagið “Abraham’s Daughter” mun víst hljóma undir lokatitlum lagsins en meðal annara sem eiga munu lag á hljóðskori myndarinnar eru The Decemberists og Neko Case.

Arcade Fire – Abraham’s Daughter

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

 

 

Tónlistin úr Backyard komin út

Árni Rúnar Hlöðversson bauð, eins og frægt er orðið, nokkrum vinum sínum til að halda tónleika í garðinum hjá sér og voru herlegheitin fest á filmu. Úr varð hin margfræga heimildamynd Backyard og nú er tónlistin úr myndinni komin út þar sem vinir Árna, sem m.a. telja listamenn á borð við múm, Reykjavík!, Retro Stefson, Borko, Prinspóló og Hjaltalín, komu fram auk FM Belfast sem Árni er sjálfur meðlimur í.

Stansað Dansað Öskrað

Í tilefni útgáfu heimildarmyndar um ísfirsku hljómsveitina Grafík og að 30 ár eru liðin frá stofnun hennar verður efnt til sýningar og tónleika í Austurbæ 1. desember n.k. Þar munu m.a. hljóma vinsælustu lög hljómsveitarinnar, lög á borð við “Mér finnst rigningin góð”, “Þúsund sinnum segðu já” og “Presley”. Þessi lög eru farin að skipa fastan sess í flóru íslenskra popplaga og hafa ýmsir tónlistarmenn séð ástæðu til að gera ábreiður af þeim þ.á.m. hljómsveitin Hjálmar og hljómsveitin Ourlives í samstarfi við Barða Jóhansson.

Leikstjórar myndarinnar eru ljósmyndarinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Bjarni Grímsson og Frosti Runólfsson en einnig kom Jónatan Garðarsson að verkinu. Myndin spannar feril hljómsveitarinnar og hefur verið meira og minna í vinnslu síðan árið 2004.

Jafnframt fylgja með tveir diskar með úrvali laga hljómsveitarinnar ásamt tveimur nýjum lögum þ.á.m. laginu “Bláir fuglar” sem þegar er farið að hljóma á öldum ljósvakans. Lagið er samið rétt fyrir andlát trommuleikarans Rafns Jónssonar af þeim Helga Björnssyni, Rúnari Þórissyni og Rafni en textinn er eftir Helga.

Grafík – Húsið og Ég

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Nýtt lag frá Jónsa

Já, þó að Inni Sigur Rósar sé enn glóðvolg þá opinberaði Jónsi nýtt lag nú í vikunni. Um er að ræða lagið “Gathering Stories” sem hann samdi ásamt leikstjóranum Cameron Crowe, en lagið er einmitt að finna í væntanlegri kvikmynd Crowe’s We Bought A Zoo. Jónsi sér reyndar um allt hljóðskorið og er það væntanlegt á diski þann 13. desember. Diskurinn er 15 laga og inniheldur að mestu ný lög og stemmur auk nokkurra kunnuglegra vina, en “Boy Lilikoi”, “Go Do” og “Sinking Friendships” af Go og “Hoppípolla” af Takk Sigur Rósar er einnig að finna þar.

Jónsi – Gathering Stories

Sveim í svart/hvítu

Árið 1995 var haldið upp á 100 ára afmæli kvikmyndasýninga út um allan heim. Í tengslum við aldarafmælið fengu þástarfandi umsjónarmenn tónleika Hins húsins, Curver Thoroddsen og Birgir Örn Steinarsson, þá hugmynd um að setja saman kvöld þar sem framsæknar rafhljómsveitir spiluðu undir þöglum myndum. Á þeim tíma var lítið um tónleikatækifæri fyrir tilraunakenndar rafsveitir og var kvöldið hugsað sem athvarf fyrir þær. Viðburðurinn varð að föstum lið á Unglist á árunum 1995-2000 og þróaðist áfram. Margir af ástsælustu jaðartónlistarmönnum landsins hafa spilað á Sveimi í svart/hvítu m.a. Múm, Plastik, Reptilicus, Hilmar Jensson, Biogen heitinn og Sigur Rós. Í tilefni tuttugu ára afmæli Unglistar verður viðburðurinn endurvakinn með pompi, pragt og tilraunasveitum dagsins í dag. Þeir félagar Birgir og Curver sjá aftur um að skipuleggja herlegheitin.

Sérstaklega gaman er að fá Múm til að rifja upp gömul kynni við Sveimið. Sveitin spilaði tvisvar á viðburðinum, árið 2000 og 1998, en það var eitt af fyrstu skiptunum sem að Múm komu fram. Í ár ætla þau að spinna tónlist óundirbúið yfir seinni hluta kvikmyndarinnar Cabinet of Dr. Caligari. Um er að ræða hryllingsmynd frá árinu 1920 sem fjallar um hin vitskerta Dr. Caligari og svefngengilinn Cesare sem saman fremja hrottaleg morð. Sigursveit Músíktilrauna í ár, Samaris, spila yfir fyrri hluta myndarinnar.

Hin stórskemmtilega Dj. Flugvél og geimskip spilar sína furðutónlist undir surrealísku myndinni Un Chien Andalou eftir Salvador Dalí og Luis Bunuel.

Futuregrapher – TomTom Bike (album-sample)

Klassíska kvikmyndin Faust eftir F. W. Murnau fær við sig tónlist úr þremur áttum. Futuregrapher gaf nýverið út fjórðu breiðskífu sína, TomTom Bike, er inniheldur draumkennda ambient tónlist. Úlfur (listamaðurinn Úlfur Hansson, áður þekktur sem Klive) var að klára nýja plötu og hávaðaseggirnir í Pyrodulia skipta þessari skemmtilegu mynd á milli sín.

Föstudagur 11. nóv.
Tjarnarbíó v/Tjarnargötu kl: 20:00
Ókeypis er inn á alla viðburði Unglistar.

Uppvakningahátíð & kvikmyndatónleikar

Aðdáendur uppvakningamynda hafa nú ástæðu til að gleðjast því kammerpönksveitin Malneirophrenia og Bíó Paradís standa fyrir Uppvakningahátíð og kvikmyndatónleikum 29. og 30. október næstkomandi.

Malneirophrenia hefur valið fimm sígildar uppvakningamyndir sem verða sýndar yfir tvö kvöld. Þar að auki heldur sveitin kvikmyndatónleika í tilefni 100 ára afmælis þögla meistaraverkisins L’Inferno (1911), fyrstu ítölsku kvikmyndarinnar í fullri lengd. Rafdúettinn Radio Karlsson hitar upp fyrir sýninguna.

Dagskrá:

29. október

18:00 Night of the Living Dead (1968)
20:00 Kvikmyndatónleikar – L’Inferno (1911)
(Malneirophrenia og Radio Karlsson)
22:00 The Grapes of Death (1978)

30. október

18:00 White Zombie (1932)
20:00 Let Sleeping Corpses Lie (1974)
22:00 Zombi 2 (1979)

1000 kr stök sýning / 2000 kr kvöldið / 3500 kr bæði kvöldin

Nánari upplýsingar á bioparadis.is og malneirophrenia.com. Einnig á facebook!

 

PressPausePlay

Ein allra athyglisverðasta heimildamynd ársins er án efa PressPausePlay eftir þá David Dworsky og Victor Köhler. Fjallar hún um stafræna byltingu síðasta áratugar og áhrif hennar á sköpunargáfuna og möguleikana sem okkur nú bjóðast til að koma hæfileikum okkar á framfæri. Í myndinni er einnig velt upp þeirri spurningu hvort menning okkar sé betri eða verri fyrir vikið og hvort aukið framboð og gæði haldist í hendur.

Meðal þeirra sem fram koma í myndinni eru Ólafur Arnalds, Moby, Robyn, Hot Chip og Sean Parker höfundur Napster.

The Miners’ Hymns á Íslandi

Tónlistarmaðurinn Jóhann Jóhannsson gaf nýverið út plötuna The Miners’ Hymns, sem er samstarf á milli hans og kvikmyndagerðarmannsins Bill Morrisons en kvikmyndin var frumsýnd á Tribeca kvikmyndahátíðinni í New York. Platan kemur út á vegum 12 Tóna á Íslandi og Fat Cat/130701 erlendis og hefur fengið feikigóðar viðtökur hér heima jafnt sem úti og hefur meðal annars verið hlaðin lofi hjá MOJO, Uncut, Pitchfork, Drowned in Sound og BBC svo eitthvað sé nefnt.

Jóhann mun koma fram á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni sem fram fer 12. – 16. október þar sem gera má ráð fyrir að tónleikagestir fái að heyra eitthvað af nýju plötunni. Hann spilar á sérstöku Fat Cat/130701 kvöldi í Fríkirkjunni þann 13. október, en aðrir listamenn það kvöldið eru Dustin O’Halloran og Hauschka.

Fleiri The Miners’ Hymns tónleikar eru á dagskrá hjá Jóhanni, þar á meðal sýning á kvikmyndinni með tónlistinni undir í World Financial Center í New York í janúar 2012 en kvikmyndin fer svo í sýningu hjá Film Forum í framhaldinu. Fyrirhugaðar eru fleiri kvikmyndasýningar, þar á meðal á Festival du Nouveau Cinema, Montreal (október), Doclisboa (október), IDFA (nóvember) og Göteborg IFF (janúar).

Þá verður kvikmyndin sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, en hátíðin hefst næstkomandi fimmtudag og stendur til 2. október. Myndin er sýnd fjórum sinnum á meðan á hátíðinni stendyr, en nánari sýningartíma og upplýsingar má nálgast hér.

The Miners’ Hymns fæst í helstu plötuverslunum landsins, en einnig má nálgast hana stafrænt á heimasíðu 12 Tóna, tonlist.is og á tónlistarsíðunni Gogoyoko sem og eldri plötur hans.

Af öðrum Jóhanns-fréttum má nefna að hann er sem stendur staddur erlendis í stuttri hljómleikaferð með hljómsveit sinni Apparat Organ Quartet. Er hljómsveitin að fylgja eftir plötunni Pólýfóníu sem er nýkomin út í Evrópu á vegum dönsku útgáfunnar Crunchy Frog. Hófst ferðin með tónleikum á hinum fallega stað Volksbühne í Berlín, því næst er haldið á Reeperbahn hátíðina í Hamborg og ferðinni lokið með tónleikum í Lille Vega í Kaupmannahöfn.

Ýmislegt er svo framundan hjá Jóhanni, en í febrúar verður nýtt verk Jóhanns fyrir sinfóníuhljómsveit frumflutt í Monitoba Centennial Hall í Winnipeg af Winnipeg Symphony Orchestra og heldur Jóhann síðan í Bandaríkjatúr í framhaldinu með viðkomu í Seattle, Portland, San Francisco og Los Angeles. Ný plata með tónlist úr kvikmyndinni Copenhagen Dreams er svo væntanleg snemma á næsta ári.

www.johannjohannsson.com

Heimasæla á RIFF

Nú eru örfáir dagar í að Alþjóðlega Kvikmyndahátíðin hefjist og tímabært að ná sér í eintak af dagskránni og byrja að finna sýningar við hæfi.

Góð tilbreyting frá áhorfi í bíósölunum getur verið að mæta heim í stofu. Árið 2009 buðu þjóðþekktir kvikmyndagerðar- og kvikmyndaáhugamenn gestum heim í stofu, þar sem þeir poppuðu fyrir gesti og tóku kvikmynd úr safni sínu til sýningar.

Það ár mætti ég heim til Friðriks Þórs á Bjarkagötuna. Þar hafði Friðrik poppað fyrir gesti og sýndi einn af gullmolum Armenískar kvikmyndagerðar, Color of Pomegranates eftir Sayat Nova.

Í ár munu Hrafn Gunnlaugsson leikstjóri, Ásgeir Kolbeins sjónvarpsmaður og systkynin Hugleikur og Úlfhildur Dagsbörn bjóða fólki heim í stofuna. Hópurinn er fjölbreyttur og verður spennandi að sjá hvað þeir munu dragar úr hillunni handa gestum.

Heimabíóin verða 27. september kl. 21:00. Nánari upplýsingar getið þið nálgast á riff.is.

Mynd eftir Camilo Rueda López

Miðnæturmyndir á RIFF

Miðnæturmyndirnar hafa löngum verið einn vinsælasti flokkur hátíðarinnar. Hryllingsmyndir, költmyndir, furðumyndir, og nóg af poppkorni – þannig hljómar lýsingin á þessum þætti RIFF. Þrjár myndir prýða flokkinn í ár og ljóst að hver og ein þeirra mun hrista upp í áhorfendum, þótt ólíkar séu.

Tröllaveiðarinn (Trollhunter) er norsk spennu- og ævintýramynd eftir André Øvredal. Þrír norskir háskólanemar elta dularfullan veiðþjóf sem vill ekkert með þau hafa. Áður en þau vita af eru þau komin á slóð bráðarinnar – tröllanna í óbyggðum Noregs – og fá að kynnast þessu ólíkindatóli, tröllaveiðaranum, og þjóðsagnaverunum sem hann hefur eytt lífi sínu í að eltast við. Fljótlega snýst þó taflið við og bráðin tekur til við veiðarnar.

13 leigumorðingjar (13 Assassins) er stórbrotin hasar- og búningamynd, í leikstjórn Takashi Miike. Myndin gerist undir lok lénsskipulagsins í Japan. Hópur háttsettra samúræja eru ráðnir á laun til þess að steypa af stóli grimmum lénsherra til að koma í veg fyrir að hann hrifsi til sín hásætið með valdi og steypi Japan þannig í hyldýpi borgarastyrjaldar.

Rautt fylki (Red State) eftir Kevin Smith er frumraun leikstjórans á vettvangi spennu og hryllings. Þrír unglingsstrákar svara auglýsingu frá eldri konu í leit að drengjum sem eru til í að stunda með henni hópkynlíf. Kynórar piltanna verða þó fljótlega að martröð þegar í ljós kemur að um er að ræða brellu sem íhaldssamur bókstafstrúarsöfnuður stendur fyrir. Í framhaldinu má segja að hinir ólánssömu unglingspiltar fái að kynnast góðum ástæðum fyrir guðsótta.

Sýningartíma myndanna má nálgast á riff.is og ennfremur í dagskrárblaði hátíðarinnar sem finna má í ókeypis dreifingu um alla borg. Miðasölu- og upplýsingamiðstöð RIFF er í Eymundsson við Austurstæti, og er hún opin frá 12-19 alla daga.

RIFF 2011 stendur yfir 22.september til 2.október.

Kvikmyndaumfjöllun : Howl

Kvikmyndin Howl (Ýlfur) hefur verið í sýningu í Bíó Paradís undanfarnar vikur. Myndin var frumsýnd hér heima í júní á nýendurvöktum Hinsegin bíódögum ásamt þrem öðrum myndum. Myndin fjallar um skáldið Allen Ginsberg og endurupplifanir hans á ástarævintýrum, ferðalögum og fleiru sem varð kveikjan að ljóðunum í bókinni Howl and Other Poems, og málaferli í kjölfar útgáfu hennar, en útgefandi bókarinnar var kærður árið 1957 fyrir klámfengið innihald ljóðanna.

Myndinn er byggð á upplestri Ginsbergs og viðtölum. Túlkun James Franco á upplestrinum byggist líklegast á upptökum frá 1955 þar sem Ginsberg las ljóðin af mikilli innlifun fyrir áhorfendur á Six Gallery.

Sjálfur þekkti ég ljóðin ekki áður en ég sá myndina, og vissi lítið um Allen Ginsberg, en myndin vakti strax áhuga hjá mér á skáldinu og ljóðum hans. Myndin er að stórum hlutu uppbyggð af teikni- og hreyfimyndum Erics Drooker. Eru þessir kaflar nokkur af athyglisverðustu atriðum myndarinnar og falla þau fullkomlega að upplestri Franco. Myndefnið er á köflum djarft sem er vel í anda við efnið.

Franco veldur ekki vonbrygðum í hlutverki sínu frekar en fyrri daginn en annars er myndinn er stútfull af góðum leikurum og flottum senum. Það eru örfáar sýningar eftir af myndinni og hvet ég kvikmyndaáhugamenn eindregið til að drífa þig að sjá myndinna á stóra skjánum.

Leikstjórar:
Rob Epstein
Jeffrey Friedman

Leikarar:
James Franco
David Strathairn
Jon Hamm
Bob Balaban
Jeff Daniels
Treat Williams

Tommy

Fortíðarljóminn hefur heltekið mig undanfarna daga. Nýlega tók ég mig til og gróf upp rokkóperuna Tommy sem The Who gáfu út 1969. Sjálfur hef ég mest dálæti á tónlistinni við kvikmyndaútgáfuna af Tommy sem leikstýrt var af Ken Russell og kom út 1975 en þar eru í aðalhlutverkum Roger Daltrey, söngvari The Who, ásamt þeim Ann-Margret, Oliver Reed, Eric Clapton, Tina Turner, Elton John og Jack Nicholson.

Meðfylgjandi eru brot úr myndinni þar sem þeir Elton John og Eric Clapton eru í aðalhlutverkum. Elton sem “The Champ” og Clapton sem “The Preacher”. Ég ætla ekki að fara nánar út í söguþráð myndarinnar en mæli eindregið með að áhugasamir skelli sér á næstu leigu og leigi sér eintak. Svo verður auðvitað ekki hjá því komist að velta því fyrir sér hvort leikhúsin hér á landi taki sig ekki til að setji verkið upp í staðin fyrir að hjakka á Hárinu eða Jesus Christ Superstar enn eitt skiptið enn?

Elton John – Pinball Wizard

Eric Clapton – Eyesight To The Blind