Spikfeitur tónlistarmyndaflokkur á RIFF í ár

Reykjavík er þekkt fyrir fjörlegt tónlistarlíf og RIFF hefur leitast við að endurspegla það í dagskrá sinni undanfarin ár með sérstökum tónlistarmyndaflokki. Hann inniheldur myndir, heimildamyndir sem leiknar, sem með einhverjum hætti tengjast tónlist sérstaklega. Hátíðin 2011 er þar engin undantekning, en nú hefur flokkurinn í heild verið tilkynntur og inniheldur hann átta spennandi tónlistarmyndir.

Þegar hefur verið tilkynnt um tvær myndir, annars vegar The Miners’ Hymns eftir Bill Morrison en hún inniheldur tónlist eftir Jóhann Jóhannsson og svo hinsvegar tólf stuttmyndir við jafnmörg lög af nýrri plötu PJ Harvey, Let England Shake.

Aðrar myndir sem verða sýndar í tónlistarmyndaflokki hátíðarinnar í ár eru eftirfarandi:

Scenes from the Suburbs eftir Spike Jonze:
Stuttmynd sem fylgir eftir innihaldi plötunnar The Suburbs eftir Arcade Fire, en handritið er skrifað af hljómsveitarmeðlimum og Jonze.

Sing Your Song eftir Susanne Rostock:
Segir frá lífshlaupi söngvarans, leikarans og mannréttindafrömuðarins Harry Belafonte.

LENNONYC eftir Michael Epstein:
Í myndinni er fjallað um ár John Lennon í New York.

In the Garden of Sounds eftir Nicola Bellucci:
Óvenjuleg heimildamynd um Wolfgang Fasser, blindan tón- og hljóðlistamann sem vinnur með fötluðum börnum.

Mrs. Carey’s Concert eftir Bob Connolly og Sophie Raymond:
Fylgst með tónlistarstjóra stúlknaskóla í Sydney leiða unga flytjendur skólatónleika óperuhússins fræga í átt að fullkomnun.

Beats, Rhymes & Life: The Travels of A Tribe Called Quest eftir Michael Rapaport:
Heimildamynd um eina áhrifamestu hip-hop hljómsveit allra tíma.

RIFF fer fram dagana 22. september til 2. október næstkomandi. Fylgist með á www.riff.is.

Sigur Rós – Inni

Í nóvember er væntanleg frá Sigur Rós heimildamynd og tvöföld hljómleikaplata þar sem fjallað er um síðustu tónleika hljómsveitarinnar áður en hún fór í ótímabundið frí árið 2008. Myndin og platan voru tekin upp á lokatónleikum heimsreisu Sigur Rósar í Alexandra Palace í London og er þetta í fyrsta skipti þar sem sveitin sést á filmu í sinni upprunalegu fjögra manna mynd. Heimildamyndin hefur hlotið titilinn Inni og er henni leikstýrt af Vincent Morisset en hann hefur áður unnið með Arcade Fire of fleirum. Inni verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum þann 3. september næstkomandi.

Nánari upplýsingar er að finna á www.sigur-ros.co.uk

Scenes from the Suburbs eftir Spike Jonze

Stuttmynd Spike Jonze, sem hann gerði í samvinnu við Arcade Fire, Scenes from the Suburbs er farin að birtast víðsvegar á Netinu. Hér að neðan er myndin í fullri lengd en ekki veit ég hvort þessi útgáfa er birt með samþykki framleiðanda eða ekki. Hverju sem því líður er hægt að sjá hana hér að ofan og vonum við að hún fái að hanga uppi sem lengst.

Iceland: Beyond Sigur Rós

Út er komin heimildamyndin Iceland: Beyond Sigur Rós sem gerð er af Serious Feather en henni er ætlað að varpa ljósi á og kynna íslenskt tónlistarlíf. Eins og titillinn gefur til kynna er hér um að ræða tilraun til að fræða tónlistaráhugamenn erlendis um tónlistarsenuna hér heima og forða henni undan Sigur Rósar stimplinum sem oft virðist loða við hana. Ágætis framtak það.

Hér að neðan er trailerinn fyrir myndina en hana má svo sjá í heild sinni á vef Serious Feather.

Backyard gerir góða ferð til Kaupmannahafnar

Heimildarmyndin Backyard var sýnd á alþjóðlegu heimildarmyndahátíðinni CPH:DOX í Kaupmannahöfn síðastliðna viku. Myndin keppti í flokknum “Sight & Sound” og hlaut sérstök aukaverðlaun hátíðarinnar, en þau eru veitt í samvinnu við TV5 Monde í Frakklandi. Backyard fékk þau verðlaun vegna frumlegrar framsetningu eða “authentic expression” eins og dómnefndin komst að orði. Myndin vakti mikla athygli gesta hátíðarinnar og varð stemningin í hámarki á sunnudagskvöldinu, þegar Backyard hópurinn bauð í sérstaka veislu. Aðalverðlaunin fóru til bresku myndarinnar Seperado eftir Dylan Coch og Íslandsvinarins Gruff Rhys (úr Super Furry Animals). Í tilefni af þátttöku myndarinnar í hátíðinni kom hljómsveitin Hjaltalín fram á lokakvöldi hennar og spilaði fyrir fullum sal undir videoverkum Sögu Sigurðardóttur og Hildar Yeoman.

Tónleikaplata og kvikmynd frá Jónsa

Í lok nóvember er væntanleg ný útgáfa frá honum Jónsa í Sigur Rós, en eins og flestir ættu að vita þá gaf hann út sólóplötuna Go fyrr á þessu ári. Þann 29. nóvember kemur nefnilega út tvöfaldi pakkinn Go Live, tónleikaplata og kvikmynd á geisladiski og DVD. Tónleikaplatan inniheldur upptökur frá tónleikaferð Jónsa og hljómsveitar nú í sumar og þar má heyra öll lögin af Go í tónleikaútsetningum auk fimm laga sem ekki voru á plötunni. DVD-inn geymir svo upptöku af lokaæfingunni fyrir tónleikaferðina, sem haldin var fyrir lítinn hóp áheyrenda íklæddum dýrabúningum, auk þess sem baksviðsupptökum og viðtölum er bætt í. Kaupa má pakkann í forsölu á heimasíðu Jónsa, bæði sem niðurhal og í föstu formi.

Jónsi er enn á tónleikaferð um heiminn og mun að sjálfsögðu enda hana á Íslandi þann 29. desember og ku enn nokkrir miðar vera til á tónleikana.

Written in Blood Vol. 1 – 5

Eins sú hyldjúpasta tónlistarlega gullnáma sem ég hef haft þá ánægju að kafa ofan í nýlega birtist mér í formi safnplatnanna Written in Blood sem maður að nafni Nate Ashley setti saman. Segir sagan að hann hafi verið allan síðasta áratug að safna saman tónlistinni í þetta stórmerkilega safn en það inniheldur sjaldgæfa, óútgefna og illfáanlega tónlist úr hryllingsmyndum síðustu hálfrar aldar.

Safnið inniheldur vel yfir 100 lög og er þar að finna verk eftir meistara eins og Ennio Morricone, Johan Soderqvist, Lalo Schifrin, François de Roubaix, Hans Zimmer, Roy Budd og John Carpenter.

Erfitt er að nálgast Written in Blood safnið en áhugasömum bendi ég á að athuga vef Nate Ashley, www.lefthandedlabel.com, eða tónlistarbloggið Ghostcapital en þar er sérstök kynning á safninu.

Ég hvet alla alvöru tónlistaráhugamenn, grúskara, safnara og tónlistarnörda að kynna sér þetta einstaka safn og verða sér úti um eintak sé þess kostur. Hver myndi annars ekki vilja eiga gullmola eins og þá sem hér fylgja í safninu?

Ennio Morricone – Magic and Ecstacy

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Lalo Schifrin – Scorpio’s Theme

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

François De Roubaix –  Les Dunes D’Ostende

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Bruno Nicolai – La Dama Rossa Uccide Sette Volte (Preludio & Titoli)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Strange Powers: Stephin Merritt and the Magnetic Fields

Meðfylgjandi er trailer fyrir heimildamynd sem margir af lesendum Rjómans ættu að vera talsvert spenntir fyrir. Myndin heitir Strange Powers og er um Stephin Merritt, hinn magnaða indie lagasmið og forsprakka The Magnetic Fields. Myndin var tekin til sýninga í kvikmyndahúsum vestanhafs í gær og því vonandi ekki langt þangað til hún berst að ströndum Klakans í einhverju formi.

Kraumur og Backyard á Airwaves

Kraumur og tónlistarmennirnir bakvið heimildarmyndina Backyard taka höndum saman á Airwaves. Opnir ókeypis tónleikar verða fyrir alla aldurshópa á föstudaginn, þar sem fram koma nokkrar hljómsveitir úr myndinni. Á föstudaginn verður ’spurt & svarað’ (Q&A) og umræður í kjölfar sýningar á myndinni. Myndin verður sýnd og kynnt yfir alla Airwaves helgina og eru allir velkomnir.

Viðburðirnir fara fram í Bíó Paradís (gamla Regnboganum), Hverfisgötu 54, 101 Reykjavík. Airwaves gestir fá helmings afslátt á sýningunum, en ókeypis er á tónleikana. Þær hljómsveitir sem koma fram í myndinni eru Borko, múm, Hjaltalín, Reykjavík!, Retro Stefson, Sin Fang Bous og Fm Belfast.

Where’s The Snow?

Heimildamyndin Where’s The Snow?, eftir þá Bowen Staines og Gunnar B.Guðbjörnsson, sem fjallar um bestu tónlistarhátíð í heimi, Iceland Airwaves, verður frumsýnd sunnudaginn 26. september kl. 19.30 í Iðnó.

Myndin var tekin á Iceland Airwaves 2009 og lýsir stemningunni sem myndast iðulega á Airwaveshátíðum vel auk þess að spyrja tónlistarfólk og tónlistaráhugafólk hinnar stóru spurningar: “Hvað er það eiginlega sem gerir Airwaves svona frábæra?”

Í myndinni koma meðal annars fram eftirfarandi hljómsveitir og listamenn: Reykjavík!, Mammút, Páll Óskar, Hjaltalín, Agent Fresco, Dikta, Ourlives, Ólafur Arnalds, Retro Stefson, Dr.Spock, Kimono og Esja.

Sýning myndarinnar hefst kl. 20.00 í Iðnó en á undan sýningunni koma hljómsveitirnar Agent Fresco og Mammút fram í anddyrinu og leika nokkur lög fyrir gesti. Viðburðurinn verður kvikmyndaður og þær tökur notaðar sem aukaefni fyrir myndina þegar hún verður gefin út. Jafnframt verður Q&A eftir sýningu hennar með leikstjórum myndarinnar.

Miðaverð á sýninguna er kr. 1.000 og fer miðasala fram á Riff.is, í Eymundsson í Austurstræti og á sýningarstað. Opnunartímar eru frá kl. 12 til 19.

Serge Gainsbourg: Hetjuleg Ævi

Í sumar kom út kvikmyndin Gainsbourg: Vie héroïque um ævi franska tónlistarmannsins og sjarmörsins Serge Gainsbourg. Myndin, eins og ævi Gainsbourg, er stórundarleg, en nokkuð góð. Hér má heyra góðan pistil Freys Eyjólfssonar um myndina og fyrir neðan má sjá stikluna.

Backyard frumsýnd á morgun

Fyrsta myndin sem tekin verður til sýninga í nýja kvikmyndahúsinu Bíó Paradís er tónlistarheimildarmyndin “Backyard”. Myndin fjallar um nokkrar hljómsveitir sem héldu tónleika sem haldnir voru á Menningarnótt 2009 í bakgarði einum við Frakkastíg. Tónleikarnir og myndin eru hugarfóstur Árna Rúnars Hlöðverssonar, tónlistarmanns úr Fm Belfast, og Árna Sveinssonar, sem leikstýrir einnig myndinni. Backyard beinir sjónum sínum að nokkrum íslenskum hljómsveitum sem tengjast vináttuböndum og starfa mikið saman, þrátt fyrir ólíkar áherslur í tónlistarsköpun. Þær hljómsveitir sem koma fram í myndinni eru Borko, múm, Hjaltalín, Reykjavík!, Retro Stefson, Sin Fang Bous og Fm Belfast.

Myndin hefur hlotið frábærar viðtökur og hlaut meðal annars Skjaldborgarverðlaunin á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg 2010. Myndin þykir skemmtileg og heiðarleg lýsing á tónlistarlífi Reykjavíkur og sýnir okkur hvernig fólk af ólíkum toga sameinast í því að koma sköpun sinni á framfæri.

Myndin verður frumsýnd á morgun og verður eingöngu í almennri sýningu í um vikubil. Það er því um að gera og skella sér tímanlega!

Plumtree – Scott Pilgrim

Ég skellti mér á kvikmyndina Scott Pilgrim vs. the World núna á laugardaginn, vitandi ekki neitt um myndina eða bakgrunn hennar. Það má með sanni segja að myndin sú hafi blásið af mér sokkana og skilið mig eftir í sæluvímu, og ég mæli með henni við alla, nema kannski mömmu mína, hún myndi ekkert skilja í þessum látum.

Fyrir ókunnuga þá má nefna að myndin er gerð eftir teiknimyndasögunum Scott Pilgrim eftir Bryan Lee O’Malley sem er Kanadískur að uppruna. Söguhetjan er bassaleikari í ótrúlega svölu bandi sem heitir Sex Bob-omb. Hann verður ástfanginn af hinni fögru Ramonu en sá böggull fylgir skammrifi að fyrrum ástmenn og ástkonur, samtals sjö að tölu, skora hann á hólm og verður hann að sigra þau öll í æðisgengnum bardögum upp á líf og dauða. Hljómar eins og tóm vitleysa? Það er akkúrat það sem myndin er, tóm steypa frá upphafi til enda og einmitt það sem er svo skemmtilegt.

En þetta er nú ekki kvikmyndablogg, enda kvikmyndir upp til hópa leiðinlegar, nema auðvitað það sé fullt af tónlist í þeim. Ekki ómerkari menn en Beck og Broken Social Scene eiga lög í myndinni. Það er hinsvegar mun skemmtilegra að grafa upp gamla og algerlega óþekkta sveit, Plumtree, sem nokkuð kemur við sögu á bakvið tjöldin.

Hljómsveitin Plumtree var stofnuð í Halifax á Nýfundnalandi árið 1993 af fjórum telpum sem þá voru á aldrinum 14-17 ára. Árið 1995 kom út fyrsta stóra platan þeirra, Mass Teen Fainting, en þær voru þá þegar að hita upp fyrir virtari sveitir eins og Jale og Velocity Girl. Önnur platan, Predicts the Future, kom svo út árið 1997 og innihélt meðal annars slagarann “Scott Pilgrim”. Lagið er skíteinfalt grípandi popplag með rifnum gítörum. Nafnið sjálft er upprunnið úr nafnaruglingi, en þær stöllur áttu kunningja að nafni Scott Ingram og Philip Pilgrim, og rugluðu einhverntíman nöfnum þeirra saman sér til ómældrar kátínu:

“I was 19 or 20 when I wrote the lyrics to ‘Scott Pilgrim’ and in the throes of probably half a dozen crushes at the time,” Carla Gillis said. “There is one person who comes to mind because he was someone I’d liked for many years but, even at that, I think the lyrics came out of a general feeling of liking people but being afraid to act on those feelings.” The name itself was an inside joke among the band members- a friend named Scott Ingram had his name juxtaposed with another acquaintance named Philip Pilgrim.” (sjá hér)

Ekki bara var lagið þeirra innblástur fyrir Bryan heldur hljómsveitin sem slík, og nafnið Plumtree kemur fyrir hér og þar í verkum hans, sem og nöfn meðlimanna. Carla Gillis, söng- og gítarleikkona sveitarinnar skrifar um það hér hvernig lagið varð til, en sagan endar svo:

“”Scott Pilgrim” became the B-side to The Inbreds’ glorious “North Window,” a limited-edition release on wax that landed in the hands of then-fledgling cartoonist Bryan Lee O’Malley. Bryan was a fan of the east coast scene and was once one of just three people in attendance at a sad-sack Plumtree show at The Whippet Lounge in London, Ontario. He liked our song enough to use its name for the title character in a comic book he was writing about a slacker musician who falls for a girl with seven evil exes. That comic became a series, that series became a hit, that hit series just became a movie.”

Texti lagsins er einfaldur:

I’ve liked you for a thousand years.
I can’t wait until I see you.

You can’t stand to see me that way.
No matter what I do, no matter what I say.
Yeah!

Sveitin hætti svo störfum árið 2000.

Kíkjum þá á myndbandið við þetta ágæta lag, og sjáum hvað það hefur til brunns að bera:

MP3: Plumtree – Scott Pilgrim

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Þess má svo geta að annað lag með Plumtree heyrist örstutt í myndinni, það er lagið “Go!

Þannig er nú það.

Gagnvirk Arcade Fire

Kanadísku indíhetjurnar í Arcade Fire sitja ekki auðum höndum þessa dagana. Bandið á fullt í fangi með að fylgja eftir sinni stórgóðu The Suburbs, fyrst í Bandaríkjunum og Kanada, en svo á meginlandi Evrópu og Bretlandi. Nú dögunum leit svo dagsins ljós gangvirk kvikmynd, eða tónlistarmyndband öllu heldur, við lagið ‘We Used to Wait’. Myndin, sem ber nafnið The Wilderness Downtown, er hægt að horfa á hér. Notendur verða þó að hafa Google Chrome vafrarann uppsettann á tölvunni til að geta notið myndar og hljóðs.

Backyard og Bíó Paradís

Þetta er fyrir þessa fjóra sem ekki voru búnir að sjá treilerinn úr heimildarmyndinni Backyard sem kemur út 15.september. Hún virðist vera mikil stuðmynd og er fyrsta kvikmyndin um íslenska tónlist í langan tíma sem ekki er að drukkna í náttúruslefi. Fram koma Hjaltalín, FM Belfast, Retro Stefsson, Sin Fang Bous, Borko, Reykjavík! og einhverjir fleiri. Myndin verður opnunarmynd kvikmyndahússins Bíó Paradís, sem opnar í húsi Regnbogans. Lifi miðbærinn!

Björk og múmínálfarnir

Björk var að senda frá sér nýtt lag, “The Comet Song”, sem finna má í nýrri kvikmynd um finnsku frændur okkar múmínálfana. Kvikmyndin The Moomins and the Comet Chase var frumsýnd fyrr í þessum mánuði í Finnlandi en lagið hennar Bjarkar kom út á iTunes í gær og fer allur ágóði af sölu þess til UNICEF hjálparstarfsins í Pakistan. Það var að sjálfsögðu gert myndband við lagið sem lítur svona út:

Daft Punk skora Tron

Það eru víst varla fréttir að Daft Punk skuli sjá um tónlistina fyrir kvikmyndina Tron: Legacy enda hefur mikið verið rætt um það af tónlistar- sem og kvikmyndaáhugamönnum undanfarna mánuði. Kvikmyndin verður frumsýnd í lok ársins og kemur hljóðskorið líklega út um svipað leyti.

Framleiðendur kvikmyndarinnar slepptu þó á dögunum nokkrum tóndæmum út á netið og er ansi forvitnilegt að hlusta á hvernig tónlist Daft Punk hefur samið fyrir þessa tölvuleikjafantasíu, enda virðist verkefnið vera sniðið að ímynd hljómsveitarinnar. Tékkum á þessum sex ótitluðu brotum:

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.