Rjóminn gerir upp tónlistarárið 2015

Ég verð að vera hreinskilinn með að ekki fannst mér þetta tónlistarár sérlega merkilegt, hvort sem litið er til útgáfu hér heima eða erlendis. Þessu eru eflaust margir ósammála og tek ég hverskonar umræðu málefnalegri fagnandi, langi einhverjum þá á annað borð að sýna gömlum indíhundi eins og mér að ég hafi rangt fyrir mér. Tónlistarsmekkur fólks, sérstaklega þess sem reglulega treður marvaðann í stríðum tónlistarstraumum og stefnum, er einstaklega persónulegur og því oft erfitt að ræða hann án þess að tilfinningar ráði ferðinni. Ég er líka tilfinningavera mikil og á að til með að missa mig aðeins þegar tónlist og tónlistarumræða er annars vegar. Eins og ég er kannski að gera hér.

En hvað um það.

Ég leita mikið eftir tilfinningum í tónlist og þær kann oft að vanta þó ástríðan sé vissulega fyrir hendi. Í ár fannst mér skorta tilfinningar í tónlist, svona almennt séð. Það er eins og of margir tónlistarmenn séu að reyna að vera eitthvað annað en þeir eru, reyna að fanga einhverja ímynd sem hæfir þeim ekki, reyna að líkjast einhverjum öðrum eða þá að forðast samlíkingu við aðra. Á endanum fer þetta allt að renna saman í eitt og hljóma eins og eitthvað miðmoð, einhverskonar tónlistarleg málamyndun, sem fólk er hvorki með eða á móti. Lög taka að hljóma eins og eitthvað, kannski – kannski ekki, óttalega kunnugleg en samt ekki. Hreyfa samt ekkert sérstaklega við fólki en því finnst það samt allt í lagi þó þau ögri kannski ekki tónlistarvitun þess. Fínt að hafa þetta í eyrunum á meðan fólk er að gera eitthvað annað.

Í ár sakna ég í tónlist meiri frumleika, meiri dirfsku, meiri krafts og jafnvel smá greddu. Það er líka tilfinnanlegur skortur á ríkari laglínum. Það er eins og það sé einhver hræðsla í gangi við að semja grípandi laglínur í dag, eins og tónlistarmenn verði stimplaðir einhverskonar “sellout” ef þeir skyldu nú slysast til að búa til lag sem fólki langar til að syngja með.

Kannski er ég líka bara orðinn of gamall til að skilja hvað er í gangi. Hver veit?

En hvað um það, hér eru bestu plötur ársins að mínu mati:

5 bestu íslensku plöturnar

 Svavar Knútur - Brot

1. Brot – Svavar Knútur

Svavar sleppir hér aðeins af sér beislinu og keyrir upp tempóið en þó án þess að það sé á kostnað einlægninnar og tilfinningaseminnar sem einkennt hefur tónlist hans. Lögin sveifla manni til og frá í tónlistarlegum ólgusjó sem hæfir yrkisefnum Svavars fullkomlega. Glæsileg og einstaklega vel unnin plata sem á fyrsta sætið fullkomlega skilið.

2. The Truth, the Love, the Life – Markús & The Diversion Sessions
3. Snapshots – Tonik Ensemble
4. Few More Days to Go – Fufanu
5. Ólundardýr – Rúnar Þórisson

5 bestu erlendu plöturnar

Champs - Vamala

1. Vamala – Champs

Ég fer ekkert leynt með aðdáun mín á þeim Champion bræðrum sem skipa dúóið Champs. Fyrir mér hefur ljúfsár popptónlist sjaldan hljómað eins vel og hjá þeim. Ljúfar harmóníur, grípandi laglínur, beinskeyttar lagasmíðar og brothættur söngur gerir þessa aðra plötu sveitarinnar að bestu erlendu plötunni þetta árið.

2. Carrie & Lowell – Sufjan Stevens
3. Multi-Love – Unknown Mortal Orchestra
4. Paper Mâché Dream Balloon – King Gizzard And The Lizard Wizard
5. Thank You for Stickin’ with Twig – Slim Twig

Bestu lög ársins

Þó mér hafi fundist tónlistarárið frekar lítilfjörlega þá bárust mér nú til eyrna mörg góð lög. Hér að neðan mun ég birta þau allra áheyrilegustu, bæði íslensk og erlend, í engri sérstakri röð, fyrir utan að þau tvö fyrstu sem mér fannst bera af.

Unknown Mortal Orchestra – Multi-Love

Svavar Knútur – Slow Dance

Magnús Leifur – Stormur

José González – Leaf Off / The Cave

Django Django – First Light

Árstíðir – Friðþægingin

Champs – Vamala

BlackRivers – The Ship

Panic is Perfect – Bobby Black

Hjaltalín – We Will Live For Ages

Að sjálfsögðu eru lögin hér að ofan ekki tæmandi listi yfir áheyrilegustu lög ársins að mínu mati. Því til sönnunar færi ég ykkur hér hundrað og tveggja laga samantekt sem undirritaður dundaði sér við að púsla saman á árinu. Njótið vel.

Hverju ætlar Rjóminn svo að hlusta eftir á komandi tónlistarári íslensku?

Rjóminn ætlar að hlusta eftir hjónunum Ívari Páli Jónssyni og Ásdísi Rósu Þórðardóttur sem skipa sveitina Jane Telephonda. Ívar er kannski þekktastur fyrir að hafa samið konseptplötuna Revolution in the Elbow of Ragnar Agnarsson Furniture Painter, sem var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2014.

Einnig verður spennandi að heyra meira frá Magnúsi Leif (áður kenndur við Úlpu) en plata ætti að vera væntanleg frá honum á nýju ári. Einnig verður spennandi að heyra meira frá listamönnum á borð við Soffíu Björg, Unni Söru Eldjárn, Júníus Meyvant, Auður (Auðunn Lúthersson), hljómsveitinni FURA, sem leidd er af söngkonunni og lagahöfundinum Björt Sigfinnsdóttur og hljómsveitinni RIF en heyra má báðar síðastnefndu sveitirnar hér að neðan.

Tónlistarárið 2014 – Ársuppgjör Rjómans

Þá er komið að uppgjörsstund enn og aftur. Eins og Rjómans er vani verður reynt að brjótast út fyrir hið hefðbundna form árslistans og birta frekar einskonar upptalningu á því merkilegasta sem fyrir skilningsvitin bar á árinu. Tónlistarárið 2014 var í alla staði afar gjöfult, hvort sem litið er til innlendrar eða erlendrar tónlistar, og verður hér fjallað um rjómann af því sem á fjörur Rjómans bar. Stiklað verður á stóru og aðeins fjallað um það sem hreif Rjómann mest. Þó má ekki halda að þær plötur og listamenn sem ekki er fjallað um hér að neðan hafi á einhvern hátt fallið í grýttan jarðveg hjá þeim sem hér ritar. Svo er ekki. Hreint ekki. En einhverstaðar verður að draga mörkin og því er ársuppgjörið svona:

Íslenska deildin

Mono Town - In the eye of the storm

Það var margt áheyrilegt íslenskt á árinu en besta íslenska platan var án efa In The Eye of The Storm með Mono Town. Eitthvað sýnist mér sú ágæta plata hafa gleymst í íslenskri uppgjörsumræðu nú og því tilvalið að útnefna hana bestu íslensku plötuna á því herrans ári 2014.

Meðfylgjandi er titillag plötunar en í því kristallist allt það sem gerir In The Eye of The Storm að jafn einstökum tónlistargjörning og hún er. Hér elur alíslenskur metnaður og allt-lagt-í-sölurnar-mennska af sér enn eitt meistaraverkið.

Af öðrum plötum íslenskum sem runnu ljúflega í gegnum tónlistarlegan meltingarveg Rjómans má nefna Sorrí með Prins Póló en á henni er að finna margan hversdagsóðinn hvern öðrum límkenndari. Þó ekki hafi verið ætlunin að gera lista þá er Sorrí klárlega önnur besta plata ársins að mínu mati.

Einstaklingsframtakið Low Roar gerðist alíslensk hljómsveit á árinu og sendi frá sér stórgóða plötu sem reyndar átti að vera titilslaus en hlaut á endanum viðurnefnið 0. Hér er á ferðinni hádramatískt og tilfinningamikið verk sem lætur engan ósnortinn. Rjóminn mælir einnig eindregið með að tónlistarunnendur geri sér ferð og sjái Low Roar á tónleikum sé það í boði. Sveitin er reyndar nýkomin úr tónleikaferðalagi í Norður-Ameríku, þar sem hún hitaði upp fyrir sjálfan gullkálfinn Ásgeir Trausta, en ætti þó að stíga á stokk fljótlega aftur á nýju ári.

Oyama sendu frá sér sína fyrstu breiðskífu og nefndu hana Coolboy. Þar er á ferðinni einstaklega áheyrilegur gripur hlaðinn tilfinningu og tjáningu. Sveitinni tekst að mestu að losa sig við skóglápsstimpilsvertuna og bjóða hlustendum uppá nýjan persónlegri hljóðheim.

Íslenskt pönk vaknaði svo sannarlega til lífsins á árinu og fór fremst í flokki fyrir þeirri enduvakningu hljómsveitin Elín Helena. Sendi hún frá sér hina stórgóðu plötu Til þeirra er málið varðar en á henni er nóg af beittum boðskap til þeirra er málið varðar. Rjóminn var þess heiðurs aðnjótandi að fá að sjá sveitina tvisvar á sviði á árinu og er það upplifun sem auðvelt er að mæla með.

FM Belfast hefur fyrir löngu sannað sig sem ein allra hressasta sveit landsins og festi hún sig vel í sessi sem slík á árinu með útgáfu plötunnar Brighter Days. Þrátt fyrir að vera annálað gleðiband má greina á plötunni ögn alvarlegri tón og heilsteyptari útsetningar en á fyrri plötum og gerir það heildarmyndina sterkari fyrir vikið.

Ragga Gröndal sendi frá sér einstaklega ljóðræna og flotta plötu sem nefnist Svefnljóð og sannar enn og aftur að hún er ein af okkar allra bestu söngkonum. Rjómanum þykir leitt hve lítið hefur farið fyrir umfjöllum um þessa ágætu plötu og mælir hann eindregið með að tónlistarunnendur verði sér út um eintak.

Teitur Magnússon, söngvari og gítarleikari Ojba Rasta, sendi frá sér hina persónulegu og litríku plötu 27. Kannar Teitur þar sækadelískan og exótískan hljóðheim og tekst einkar vel upp. Meðfylgjandi er lagið “Nenni” og gefur það ágætis mynd af því sem hlustendur eiga von á við að hlýða á þessa fyrirtaks plötu.

Hljómsveitin Valdimar gaf út sína þriðju plötu sem ber titilinn Batnar útsýnið og verður að segjast að á henni batnar heldur betur það sem sveitin gerði þó vel fyrir. Hljóðheimur Valdimars hefur tekið nokkrum breytingum og má glöggt heyra ferska rafræna og akústíska strauma sem glæða oft tilfinningaþrungin lög sveitarinnar nýju lífi.

Erlenda deildin

Champs - Down like gold

Allra besta erlenda platan sem varð á vegi Rjómans á árinu var platan Down like gold með bræðrunum Michael and David Champion í dúóinu Champs. Hér er á ferð afar snaggarleg poppplata með ljúfsárum en einstaklega grípandi lögum sem heillaði undirritaðan alveg upp úr skónum. Hafir þú, lesandi góður, ekki kynnt þér þessa plötu mæli ég eindregið með því að þú beinir vafra þínum í átt að næstu tónlistarveitu og leggir vel við hlustir.

Hingað til lands kom maður að nafni Joel Thibodeau, sem allra jafna gengur undir listamannsnafninu Death Vessel, og tók upp plötu með þeim Jónsa og Alex. Afraksturinn er frábær plata, reyndar undir miklum áhrifum frá Jónsa og Alex, þar sem einstök söngrödd Thibodeau fær að njóta sín (aðra eins falsettu hef ég ekki heyrt hjá karlkyns söngvara). Lagasmíðarnar eru grípandi og áreynslulausar og þolir platan vel endurtekna hlustun.

Pólsku dauðarokkararnir í Behemoth, sem heiðra munu landann með nærveru sinni á næstu Eistnaflugshátíð, gáfu út hina mögnuðu plötu The Satanist. Það má auðveldlega halda því fram að Behemoth hafi blásið nýju lífi í tónlistargeira sem árum saman hefur verið í talsverðri lægð og hafið upp í hæstu hæðir að nýju. Dauðarokk er sannarlega ekki allra tebolli en ekki er annað hægt en mæla með þessari plötu fyrir alla alvöru tónlistarunnendur (fyrst mamma mín fór á Skálmaldar tónleika þá getur jú allt gerst).

Úr ösku Pete and the Pirates rís hljómsveitin Teleman og sendi hún frá sér hina látlausu en mjög svo áheyrilegu plötu Breakfast. Líkt og með Champs plötuna, sem ég minntist á hér að ofan, þá er Breakfast full af léttum og hnitmiðuðum lagasmíðum sem margar hverjar grípa mann strax við fyrstu hlustun og sitja svo ómandi fastar í toppstykkingu lengi á eftir.

Hooray for earth er áhugavert band sem Rjóminn hefur haft gætur á lengi. Eftir nokkrar sæmilegar útgáfur kom loksins á árinu plata þar sem sveitin sýnir sitt rétta andlit. Hooray for earth hefur mjög svo sérstakan hljóm sem einkennist af niðurtjúnuðum og þéttum gíturum, synth-um og angurværum laglínum. Blandan er frábær og skylduáheyrn fyrir hinn forvitna popprokkara. Tékkið á plötunni Racy við fyrsta tækifæri.

Ég ætla að enda erlenda yfirferð mína á hinum snarbilaða Kanadabúa Aaron Funk en hann er almennt betur þekktur undir listamannsnafninu Venetian Snares. Aaron þessi hefur verið afar iðinn við plötuútgáfu undanfarin ár og oft undir hinum ýmsu nöfnum. Á árinu gaf hann út plötuna My love is a bulldozer og er hún, eins furðulega og það kann að hljóma, líklega ein af hans aðgengilegri verkum. Venetian Snares er fyrir löngu orðið þekkt nafn í heimi raftónlistar og mætti vel skipa honum sess með listamönnum á borð við Squarepusher og Aphex Twin. Ég játa fúslega að þarf töluverða þolinmæði til að hlusta á svona tónlist en það er vel þess virði að leggja það á sig.

Tónlistarviðburður ársins

ATP Iceland 2014

ATP hátíðin í sumar var að mínu mati lang besti tónlistarviðburður ársins og voru tónleikar Portishead og Interpol hápunktur hátíðarinnar. Það er einhver undarlega afslöppuð og vinaleg stemming sem myndast þarna upp á Ásbrú sem aðrar hátíðir ná einfaldlega ekki að fanga jafn vel. Tómas Young og hans fólk fær fullt hús stiga frá Rjómanum fyrir glæsilega hátíð. Takk fyrir mig.

Í öðru sæti kemur svo Secret Solstice hátíðin sem haldin var í Laugardalnum en þar var allt utanumhald og skipulag eins og best verður á kosið og ekki skemmdi fyrir magnaðir tónleikar Massive Attack.

Ekki má svo gleyma árshatíð tónlistarunnenda, sjálfri Iceland Airwaves hátíðinni. Hún var að venju jafn stórfengleg og áður og á skilið sitt knús frá Rjómanum. Airwaves klikkar aldrei!

Lög ársins

Junius Meyvant

Að þessu sinni mun ég blanda saman erlendum og innlendum lögum og birta í engri sérstakri röð. Njótið.

Júníus Meyvant – Color Decay

Það bíða sjálfsagt allir eftir plötunni hans Júníusar Meyvant og það ekki af ástæðulausu. Því ef eitthvað er að marka þetta eina lag af plötunni sem fengið hefur að hljóma á öldum ljósvakans og í pípum Alnetsins þá eigum við tónlistarunnendur von á góðu.

Champs – My Spirit Is Broken

Uppgötvun ársins, plata ársins og viðlag ársins. Jú og rödd árins. Það er eitthvað við þessa brothættu og mjóróma rödd sem heillar.

Kishi Bashi – Carry on phenomenon

Hressilegur og upplífgandi geimrokksóður með óvenjulega svölum disco fíling. Á köflum er 70s sándið fangað fullkomlega.

Mono Town – Can deny

Það er oft þannig að fyrstu lögin sem maður heyrir af plötum eru þau sem sitja fastast og svo er sannarlega raunin með þennan sækadelíska og sinematíska ópus frá frændunum í Mono Town.

Teleman – Cristina

Róleg uppbyggingin, risið og grípandi viðlagið heilluðu við fyrstu hlustun…og gerir enn.

FM Belfast – We Are Faster Than You

Eitt allra besta íslenska stuðlag sem ég hef heyrt í lengri tíma. Og þetta bít! Maður getur ekki annað en bömpað náungan og brosað út í bæði þegar þetta lag tekur að hljóma.

Alt-J – Every other freckle

Bara ef platan hefði öll verið jafn fjölbreytt og skemmtileg og þetta lag þá hefði hún sjálfsagt endað ofar á uppgjörslistum spekúlantanna en raun ber vitni.

Passenger Peru – Heavy Drugs

Fríið, peningarnir og eiturlyfin búin. Alger bömmer. En samt er einhver hálf lúðaleg og heillandi gleði enn við völd.

Death Vessel – Ilsa Drown

Um leið og Jónsi lætur í sér heyra breytist lagið í hálfgert Sigur Rósar lag. En það er einmitt einhvern veginn svo heillandi alltaf finnst mér.

Ed Harcourt – We All Went Down With the Ship

Drífandi og taktfast lag með flottu viðlagi. Það þarf nú oft ekki meira til.

Painted Palms – Here It Comes

Draumkennt og létt-sækadelískt popplag sem hrífur mann með við fyrstu hlustun.

The Hidden Cameras – Doom

The Hidden Cameras er afar vanmetin hljómsveit að mínu mati. Meðfylgjandi lag er finna á plötu sveitarinnar sem kom út á árinu og nefnist Age. Rjóminn mælir með!

Árslistar Rjómans 2013

Tilbury - Northern Comfort

Jæja, það mátti ekki tæpara standa að birta árslista Rjómans fyrir tónlistarárið 2013. Segjast verður eins og er að oft hefur tíðin verið betri og var árið rétt yfir meðallagi. Engin ein plata eða flytjandi stóð sérstaklega uppúr á árinu en mörg góð lög og ágætis plötur komu þó út eins og sjá má á listunum hér að neðan. Til einföldunar valdi ég einungis fimm bestu innlendu og erlendu plöturnar og urðu niðurstöðurnar þessar:

Bestu íslensku plöturnar

1. Tilbury – Northern Comfort

Heilsteyptasta og áheyrilegasta plata ársins. Nánast fullkomið heildarverk.

2. Just Another Snake Cult – Cupid Makes A Fool of Me

Gallsúrt og frumlegt eyrnakonfekt fyrir lengra komna. Hér eru öllu tjaldað til og allir lúðrar þeyttir. Stórskemmtileg plata í alla staði með nokkrum afar grípandi lögum.

3. Íkorni – Íkorni

Tilfinningaþrungin, áleitin og innileg plata með kunnuglegum og vinalegum hljóðheim.

4. Sin Fang – Flowers

Aðgengilegasta plata Sing Fang til þessa. Án efa ein besta poppplata ársins.

5. Jóhann Kristinsson – Headphones

Headphones þarfnast nokkurar yfirlegu áður en galdrar hennar koma í ljós. En þegar það gerist er erfitt að hætta að hlusta.

 Vampire Weekend - Modern Vampires of the City

Bestu erlendu plöturnar

1. Vampire Weekend – Modern Vampires of the City

Helgarvampírurnar halda áfram að heilla með sínu klassíkskotna menntapoppi. Í þetta skiptið er þó aðeins meiri kraftur í lögunum og á köflum nokkuð dimm og myrk stemming sem er fullkomnuð með auknum raftónlistaráhrifum.

2. Foxygen – We Are The 21st Century Ambassadors of Peace and Magic

Sækadelikan átti gott “comeback” í ár og voru Foxygen þar frestir í flokki. Þó sveitin hafi náð að fanga hljóðheim og stemmingu fornfrægra sýrusveita fullkomlega, sem er í sjálfu sér ekkert nýtt, þá eru það léttar og heillandi lagasmíðarnar sem gera þessa þriðju plötu Foxygen jafn góða og raun ber vitni.

3. La Femme – Psycho Tropical Berlin

La Femme bjóða hér uppá frábæra samsuðu af Air, Kraftwerk, Velvet Underground, Yé Yé- og surftónlist, sækadeliku, nýbylgju og pönki. Að gera bragðgóðan graut úr jafn mörgum hráefnum er afrek útaf fyrir sig.

4. Deafheaven – Sunbather

Einstaklega áhugaverð post-rock, black metal og shoegaze fyrir lengra komna. Platan hefur verið vel hæpuð af öllum helstu tónlistarmiðlum og á það svo sannarlega skilið.

5. Woodkid – The Golden Age

Sjálfsævisöguleg fyrsta breiðskífa franska listamannsins Yoann Lemoine nær fimmst sætinu á þessum lista. Hér er á ferð afar dramtískt og tilraunakennt neo-folk með áhugaverðum vísunum í klassíska tónlist. Mjög áheyrilegt.

Bestu lög ársins

Sem fyrr vel ég bestu lög ársins en að þessu sinni vel ég aðeins tíu bestu innlendu og erlendu lögin í einum og sama listanum. Eins og mín er von og vísa eru lögin á listanum nokkuð langt frá því að vera þau sömu og finna má á listum annarsstaðar og er það vel.

1. Vampire Weekend – Step

2. San Fermin – Sonsick

3. Teleman – Cristina

4. Foxygen – San Francisco

5. Tilbury – Northern Comfort

6. John Grant – GMF

7. Oyama – Everything some of the time

8. Unknown Mortal Orchestra- Swim & Sleep (Like a Shark)

9. Foxygen – Shuggie

10. Irontom – Mind my halo

Bestu plötur ársins

Árslisti Rjómans er óhefðbundinn að þessu sinni að því leiti að tilkynntar verða 15 bestu innlendu og 5 bestu erlendu plöturnar sem þóttu bera af á árinu og verður einungis fjallað um 5 efstu í hvorum flokk sérstaklega.

Tvær megin ástæður eru fyrir þessu. Í fyrsta lagi breytti Rjóminn áherslum sínum í ár yfir í að fjalla nær engöngu um íslenska tónlist og þótti undirrituðum því lítið vit í því að fjalla ítarlega um fjölda erlenda platna sem ekki höfðu fengið umfjöllun á síðum vefsins. Í öðru lagi var tónlistarárið hér heima óvenjulega gott og var eiginlega annað ógerningur en að birta minnst 15 bestu plöturnar (sem reyndist líka með eindæmum erfitt).

Árslisti Rjómans fyrir árið 2012 er því sem hér segir:

Tilbury - Excorsie

Innlendar plötur ársins 2012

#1 Tilbury – Exorcise

Fyrsta platan súpergrúbbunar Tilbury er plata ársins að mati Rjómans. Við tónlistarnördarnir biðum spenntir eftir þessari plötu og urðum vel flestir svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Tónsmíðarnar eru marglaga og frumlega uppbyggðar, taktfastar og með áhugaverðri skírskotun í klassíska tónlist á köflum. Yfir öllu saman flýtur svo brothætt rödd söngvarans sem ljáir lögunum manneskjulegan blæ og magnar upp dramatíkina í þeim.

#2 Ásgeir Trausti – Dýrð í dauðaþögn

Ég man hreinlega ekki eftir sterkari nýliðun í íslenskri tónlist og magnaðri innkomu Ásgeirs Trausta. Ásgeir stekkur fram á sjónarsviðið að því er virðist fullskapaður tónlistarmaður og er Dýrð í dauðaþögn glæsilegur vitnisburður um hæfileika hans sem lagasmiðs og flytjanda. Lögin á plötunni hafa hvert af öðru fengið ítrekaða spilun hjá útvarpsstöðvum landsins og virðast þau höfða jafnt til allra óháð aldri og tónlistarsmekks. Þessi hæfileiki, að höfða til jafn breiðs hóps og Ásgeir virðist gera, er á fárra færi og undirstrikar enn frekar ágæti hans sem listamanns.

#3 Jónas Sigurðsson – Þar sem himinn ber við haf

Jónas stimplar sig inn sem einn af dáðustu tónlistarmönnum landsins með þessari þriðju plötu sinni. Á henni flakkar hann á milli aðgengilegra poppsöngva og áhugaverðra tilrauna með raftónlist á einkar vel heppnaðan hátt. Platan er talsvert persónulegri og dramatískari en fyrri plötur Jónasar, sem kemur á köflum aðeins niður á kraftinum og stuðinu sem við vorum farin að venjast, en hann kemur lögum og texta frá sér á það einlægan hátt að maður getur ekki annað en hrifist með.

#4 Ojba Rasta – Ojba Rasta

Þegar maður hélt að Hjálmar væru búnir að kreista síðasta dropann úr reggea-tónlistinni hér heima koma Ojba Rasta henni til bjargar með ferskum straumum, góðum tónsmíðum og almennum skemmtilegheitum. Mig grunaði ekki að hægt væri að blása jafn miklu lífi í jafn sérhæfða tónlistarstefnu og fyrir það fá Ojba Rasta fjórða sætið á þessum lista.

#5 Hjaltalín – Enter 4

Hvernig Hjaltalín náðu að halda því leyndu að ný plata væri á leiðinni frá þeim (sem enginn var annars að bíða eftir) er rannsóknarefni útaf fyrir sig. En allt í einu var platan komin út og Hjaltalín höfðu á svipstundu farið í gegnum algera endurnýjun og ryðjast fram á völlinn sem ný sveit nánast. Ég verð að játa að ég er enn að meðtaka þessa plötu en það var ljóst strax við fyrstu hlustun að hér var ein af plötum ársins á ferð. Hjaltalín fá fimmta sætið en ég er tilbúinn að endurskoða afstöðu mína þegar ég hef rennt plötunni í gegn tvisvar til þrisvar í viðbót. Enter 4 gæti allt eins farið upp í þriðja sæti eftir það.

Sæti 6 – 15 skipa eftirfarandi plötur:

#6 Pétur Ben – God’s Lonely Man
#7 Moses Hightower – Önnur Mósebók
#8 Retro Stefson – Retro Stefson
#9 Borko – Born to be free
#10 Nóra – Himinbrim
#11 Pascal Pinon – Twosomeness
#12 Sin Fang – Half Dreams EP
#13 Legend – Fearless
#14 Valdimar – Um stund
#15 Ghostigital – Division of Culture & Tourism

Kishi Bashi - 151a

Erlendar plötur ársins 2012

#1 Kishi Bashi – 151

Besta erlenda plata ársins að þessu sinni er fyrsta sólóplata tónlistarmannsins K Ishibashi eða Kishi Bashi eins og hann kallar sig. Kishi Bashi hefur hingað til verið þekktastur sem meðlimur indie-rokk sveitarinnar Jupiter One og fyrir að túra með of Montreal og Regina Spektor. Hann stígur nú fram á sjónarsviðið einn og óstuddur með plötu sem hann tók upp, flutti, fjármagnaði og gaf út sjálfur og er útkoman hreint út sagt stórfengleg.

Plötuna má heyra í heild sinni hér að neðan og þarf varla að taka fram að Rjóminn mælir eindregið með þeirri áheyrn.

#2 Oberhofer – Time Capsules II

Það kæmi mér ekki á óvart ef meirihluti lesenda hefur ekki heyrt um Brad nokkurn Oberhofer og samnefnda hljómsveit hans. Enn síður geri ég ráð fyrir að lesendur viti að Time Capsules II er, þrátt fyrir að titillinn gefi annað til kynna, í raun fyrsta plata Oberhofer. Að mínu mati er þessi frumraun ein sú magnaðasta á árinu erlendis frá og ætti að hjóma í eyrum sem flestra. Hér er tóndæmi:

#3 Alt-J – An Awesome Wave

Vinningshafar Mercury verðlaunanna 2012, enska sveitin Alt-J (∆), skipa þriðja sætið. Líkt og í sætunum tveimur hér að ofan er hér um frumburð að ræða. Það sem heillaði mig einna mest við þessa plötu er hvernig sveitin virðist geta flakkað á milli strauma og stefna á óhefðbundinn hátt en missa aldrei sjónar af heildamyndinni. An Awesome Wave er þrælmenntuð plata sem reynist á einhvern undarlegan hátt, þrátt fyrir að vera á köflum afar óhefðbundin, einkar aðgengileg. Án efa frumlegasta plata ársins erlendis frá.

#4 Communist Daughter – Lions and Lambs EP

Ljúft, upphefjandi og afar grípandi folk-tónlist Communist Daughter féll vel í kramið hjá mér og þá sérstaklega lagið “Speed of sound”, sem hljómar hér að neðan. Það verður seint sagt að Communist Daughter feti ótroðnar slóðir í tónlisti sinni en lagasmíðarnar eru bæði aðgengilegar og grípandi og stundum þarf hreinlega ekki meira til en það til að gera góða plötu.

#5 Lord Huron – Time To Run EP

Nú er það svo að Lord Huron, sem er listamannsnafn Michiganbúans Benji Schneider, gaf einnig út breiðskífuna Lonesome Dreams í ár en ég ákvað að velja EP plötuna þar sem hún er einfaldlega aðgengilegra og heilsteyptara verk. Hér er á ferð viðkunnanleg og íburðarmikil folk-tónlist með sækadelískum og austurlenskum áhrifum í bland við kunnugleg minni úr indie-poppi síðustu ára.

20 Bestu lög ársins

Born To Be Free - Borko

Þá er komið að því að kunngjöra bestu og áheyrilegustu lög ársins, innlend og erlend, að mati Rjómans. Að þessu sinni mun ég ekki flokka innlend og erlend lög sérstaklega heldur birta þau öll saman

Það ætti eflaust ekki að fara framhjá fastagestum Rjómans að tónlistarárið hér heima hefur verið einstaklega gjöfult og verður að segjast að framboðið erlendis frá stenst hreinlega ekki samanburð þetta árið. Það er því engin tilviljun að íslensk lög eru í algerum meirihluta á þessum lista og er það að sjálfsöðgu einstaklega ánægjulegt.

Listinn er annars svona, frá 20 sæti að því fyrsta:

#20 Jóhann Kristinsson – No Need To Hasitate
Fyrsta lagið af væntanlegri breiðskífu sem lét svo aldrei sjá sig. Bíð en spenntur eftir að fá að heyra meira.

#19 Svavar Knútur – Humble Hymn
Hinn hugljúfi Svavar hitti vel á mjúka manninn í mér með þessu ljúfsára lagi.

#18 Pojke – She Moves Through The Air
Afar vel heppnað hliðarskref Sindra Más Sigfússonar (Seabear, Sin Fang) yfir í elektrónískar pælingar. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

# 17 Momentum – The Freak is Alive
Fyrsta lagið af væntanlegri plötu Momentum en vinnsla á henni hefst á næstu mánuðum.

#16 Nóra – Sporvagnar
Tilkomumikið upphafslag nýjustu plötu Nóru hreyfði vel við manni við fyrstu hlustun og vinnur á við hverja spilun.

#15 Dream Central Station – I’m All on My Own
Alíslensk og einstaklega vel heppnuð samsuða af Velvet Underground og Sonic Youth með vænni shoegaze skvettu.

#14 Shearwater – Animal Life
Flott lag með kröftugum stíganda. Sækir á við hverja hlustun. Tekið af plötunni Animal Joy sem er sjötta breiðskífa sveitarinnar.

#13 Valdimar – Sýn
Án efa sterkasta lagið af Um Stund, annari breiðskífu Valdimars.

#12 Pascal Pinon – Ekki Vanmeta
Fyrsta lagið af nýjustu plötu tvíburasystranna setur sannarlega tóninn fyrir það sem á eftir kemur. Einfalt en sérlega grípandi lag.

#11 Pétur Ben – God Lonely Man
Kraftmikið titillag annarar plötu Péturs Ben á sannarlega heima á þessum lista. Ekki láta ykkur bregða þó þið sjáið plötuna sjálfa ofarlega á öðrum lista sem birtast mun hér síðar.

#10 Lord Huron – Time to Run
Hressilegt lag með sækadelískum undirtón og austurlenskum áhrifum á stöku stað. Tekið af hinni ágætu plötu Lonesome Dreams en reyndar fannst mér Time to Run EP platan betri, en þar er lagið einnig að finna

#9 Cheek Mountain Thief – Cheek Mountain
Eina lagið á listanum sem gæti bæði flokkast sem innlent og erlent. Flytjandinn, Mike Lindsay, er breti en platan var öll tekin upp hér á landi og flytjendurnir eru, að ég held, flestir ef ekki allir íslenskir.

#8 Retro Stefson – Glow
Það er erfitt að skaka ekki bakendanum þegar Retro Stefson telur í og nánast ógerningur þegar jafn grípandi lag og þetta tekur að hljóma.

#7 Jónas Sigurðsson og Lúðrasveit Þorlákshafnar – Hafið er svart
Eflaust eitt aðgengilegasta lagið á listanum enda hefur það heyrst spilað á nær öllum útvarpsstöðvum landsins. Fallegt og afar vel heppnað lag og textinn virðist hafa snert streng í þjóðarsálinni.

#6 Monotown – Can Deny
Fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu þeirra bræðra Barkar og Daða og söngvarans Bjarka Sigurðssonar (B.Sig). Leggið nafnið Monotown á minnið því platan, sem kemur út fljótlega á næsta ári, verður svakaleg! Því get ég lofað.

#5 Oberhofer – HEART
Upphafslag plötunnar Time Capsules II sem virðist almennt ekki hafa fengið góða dóma þegar hún kom út en er á ófáum árslistum erlendis engu að síður. Rjóminn er afar hrifinn af plötunni og telur hana eina af bestu erlendu plötum ársins.

#4 Ojba Rasta – Baldursbrá
Ojba Rasta bauð upp á eina af skemmtilegustu skífum ársins og var “Baldursbrá” klárlega sterkasta tónsmíðin á henni. Ég sá sveitina spila þetta lag fjórum eða fimm sinnum á meðan á Airwaves hátíðinni stóð og það hljómaði alltaf jafn vel.

#3 Tilbury – Drama
Ég hefði allt eins geta valið “Tenderloin” á þennan lista en það er eitthvað við “Drama” sem gerir það örlítið ljúfara áheyrnar. Hef ekki enn geta stillt mig um að syngja með þegar söngvarinn syngur “…when she throws the furniture around”.

#2 Kishi Bashi – Manchester
Annað besta lag ársins, og það áheyrilegasta erlendis frá, er með tónlistarmanninum K Ishibashi eða Kishi Bashi eins og hann kallar sig. Plötuna tók hann sjálfur upp, flutti og fjármagnaði og er útkoman stórfengleg. Lagið er óhefðbundinn en tilfinningaríkur ástaróður sem undirritaður steinlá fyrir við fyrstu spilun.

#1 Borko – Born To Be Free
Besta lag ársins að mati Rjómans er titillag annarar breiðskífu Borko. Frábær tónsmíð, ljúfsár og upphefjandi og hvetjandi boðskapurinn ætti að hreyfa við flestum sem eftir honum hlusta.

Árslisti lesenda 2011

Þá er komið að því. Árslisti lesenda Rjómans er loksins tilbúinn. Fjöldinn allur af tillögum voru sendar inn og þrátt fyrir að tilnefningar voru fjölbreyttar þá voru úrslitin nokkuð afgerandi bæði á innlenda og erlenda listanum.

Líkt og á aðallista Rjómans þá stóð Bon Iver upp úr sem augljós sigurvegari á erlenda listanum en Mugison var jafnvel enn vinsælli hjá lesendum, og fékk nærri því helmingi fleiri stig en GusGus sem lentu í öðru sætinu á þeim íslenska.

 

Bestu plötur ársins að mati lesenda Rjómans

Íslenskar plötur

1. Mugison – Haglél
2. GusGus – Arabian Horse
3. HAM – Svik, harmur og dauði
4. Sóley – We Sink
5. Of Monsters And Men – My Head Is An Animal
6. Snorri Helgason – Winter Sun
7. Sólstafir – Svartir sandar
8. Sin Fang – Summer Echoes
9. Nolo – Nology
10. Björk – Biophilia

Erlendar plötur

1. Bon Iver – Bon Iver
2. PJ Harvey – Let England Shake
3. Radiohead – King of Limbs
4. tUnE-yArDs – W H O K I L L
5. The Black Keys – El Camino
6. Fleet Foxes – Helplessness Blues
7. Feist – Metals
8. Florence and the Machine – ceremonials
9.-10. Kurt Vile – Smoke Ring For My Halo
9.-10. St. Vincent – Strange Mercy

Árslisti Rjómans 2011

Stóra stundin er runnin upp. Eftir langa umhugsun hafa Rjómverjar valið þær 20 plötur innlendar og erlendar sem standa upp úr á árinu sem nú er að líða. Tónlistarárið 2011 var fjölbreytt og komu margar plötur til greina en eftirfarandi plötur þóttu þó bera af að mati ritstjórnar Rjómans.

Rjóminn þakkar lesendum sínum samfylgdina á árinu sem nú er að líða og óskar þeim um leið farsælda á nýju ári.

Árslisti Rjómans gjörið svo vel:

 

Fylgist svo með Rjómanum því á næstu dögum mun árslisti lesenda líta dagsins ljós

Árslisti lesenda 2011

Nú sá tími árs að árslistar renna í hús hver af öðrum og eins og venjulega þá mun Rjóminn birta sinn lista hvað úr hverju …

… en Rjóminn hefur ekki síður áhuga á að vita hvað lesendum finnst og efnir því til lesendakönnunar þetta árið. Það eina sem þú þarft að gera er að velja þrjár bestu íslensku og erlendu plötur ársins 2011 og skrifa í formið hér að neðan. Hver veit svo nema einhver heppinn þátttakandi fái tónlistartengdan glaðning að launum …

Skilafrestur er til 27. desember og niðurstöður verða svo kunngjörðar öðru hvoru megin við áramótin!

Fimmtíu plötur á eiturlyfjum

Einhver mælti þau fleygu orð eitt sinn, að tónlistarmenn á eiturlyjum væru eins og íþróttamenn á sterum. Hvort sú skoðun stenst læt ég liggja á milli hluta en geri mér fyllilega grein fyrir því að ýmislegt sniðugt hefur nú verið brasað á dópi.

En hverju sem því líður, þá tók breska tónritið NME nýverið saman lista yfir 50 dópuðustu plötur sögunnar. Þarna er að finna gallsúr og dópkeyrð ferðalög á borð við Piper at the Gates of Dawn með Pink Floyd, White Light/White Heat með Velvet Underground, Loveless með My Bloody Valentine, Junk Yard með Cave og félögum í The Birthday Party, og fleira og fleira. Listan getið þið skoðað í heild hér.

Að sjálfsögðu er listinn ekki tæmandi og eru raunar fjöldinn allur af titlum sem ég sakna þarna inni. Í fljótu bragði dettur mér í hug plötur eins og Live/Dead með Grateful Dead, Sgt. Pepper’s með Bítlunum, Closer með Joy Division, Boces með Mercury Rev, Druqks með Aphex TwinMerriweather Post Pavilion með Animal Collective.

En hvað segja lesendur – hver er dópaðasta plata sögunnar?

Bestu lög ársins – Egill

Betra seint en aldrei og seint kemur sumt en kemur þó. Hér er að neðan eru bestu (eða ölluheldur uppáhalds) lögin, erlend og íslensk, frá árinu sem var að líða.

Ég ákvað að taka erlendu lögin saman, án nánari útskýringa, í einum fyrirmyndar playlista en þar fyrir neðan birti ég, í engri sérstakri röð, bestu, áhugaverðustu og skemmtilegustu íslensku lögin.

Bestu erlendu lög ársins 2010

Bestu íslensku lög ársins 2010

Hér er svo innlend framleiðsla. Ég er ekkert að birta þetta í neinni sérstakri röð eftir gæðum eða uppáhaldi og útskýri val mitt ekkert frekar. Þetta er allt saman einstaklega góð músik og hún segir meira en þúsund orð frá mér.

Apparat Organ Quartet – Konami

Skver – Ó,ó

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Lazyblood – Once upon a time (demo)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar – Allt er eitthvað

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Benni Hemm Hemm – Ljósið sem að slokknar aldrei

Prinspóló – Mjaðmir

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Retro Stefson – Mama Angola

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Pétur Ben og Eberg – Come On Come Over

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

For a Minor Reflection – Dansi Dans

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Who Knew – We Do

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Reykjavík! og Mugison – Sumarást

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Króna – Maðurinn sem vildi verða Guð

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Lockerbie – Snjóljón

Markús and The Diversion Sessions – Stay

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Gísli Þór Ólafsson – Andrés Önd

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Rökkurró – Sólin Mun Skína

Jónsi – Boy Lilikoi

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Saytan – Empire

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Orri Harðarson – Málið Dautt

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Hljómsveitin Ég – Tíu fingur og tær

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Stína August – Concrete World

Ensími – Aldanna ró

Tvær íslenskar plötur keppa til úrslita um Norrænu tónlistarverðlaunin

Rétt í þessu var verið að tilkynna hvaða tólf plötur keppa til úrslita um Norrænu tónlistarverðlaunin og eiga tveir íslenskir listamenn plötur á listanum, þau Ólöf Arnalds og Jónsi.

Plöturnar tólf sem hlotið hafa útnefningu eru:

• Dungen – Skit i allt
• Paleface Helsinki – Shangri-La
• Frisk Frugt – Dansktoppen møder Burkina Faso i det himmelblå rum hvor solen bor, suite
• Susanne Sundfør – The Brothel
• Robyn – Body talk
• Jónsi – Go Do
• Efterklang – Magic Chairs
• Serena Maneesh – S-M 2: Abyss in B Minor
• The Radio Dept. – Clinging to a scheme
• Ólöf Arnalds – Innundir skinni
• Kvelertak – Kvelertak
• First Aid Kit – The big black & the blue

Úrslitin verða tilkynnt á by:Larm í Osló 17. til 19. febrúar næstkomandi.

Árslisti Rjómans 2010

Þá er loksins komið að uppgjöri Rjómverja fyrir árið 2010. Tónlistarárið sem nú er nýliðið var afar gjöfult og gott en eftirfarandi plötur, innanlands og utan, þóttu þó bera af að mati ritstjórnar Rjómans.

Rjóminn þakkar lesendum sínum samfylgdina á árinu sem nú er liðið og óskar þeim um leið farsælda á nýju ári.

Árslisti Rjómans gjörið svo vel:

Lög ársins – Hildur

Ég er sammála Guðmundi í færslu hér að neðan þar sem hann segir að ómögulegt sé að taka saman bestu lög ársins 2010. Því er listinn hér að neðan mín upplifun á árinu 2010, lögin sem stóðu upp úr fyrir mér persónulega. Reyndar náði ég ekki að hlusta á eins margar plötur og ég hefði viljað á árinu, enda heilmargt gott sem kom út. En þetta hlustaði ég á, og alveg grimmt, og vona að þið njótið!

Uppáhalds lögin mín árið 2010 – Íslenskt:

10. Nóra – Apóteles

‘Er einhver að hlusta?’ með hljómsveitinni Nóru er tvímælalaust sú íslenska plata sem kom mér hvað mest á óvart árið 2010. Skemmtilegt og grípandi popp með sterkum karaktereinkennum eftir vel spilandi hljómsveit sem syngur á íslensku. „Apóteles“ hefur á sér ungæðislegan brag og póstrokklega uppbyggingu sem skilar sér í kraftmiklum hápunkti þar sem allt er keyrt í botn.

9. Reykjavík! – Cats

Kettir Reykjavíkur eru snilld. Lagið „Cats“ með Reykjavík! líka…

8. Dansi Dans – For a Minor Reflection

„Dansi Dans“ er óíkt því sem hefur áður komið úr smiðju FaMR, enda kalla þeir lagið ‘poppsmellinn’ sinn. Myndbandið var tekið á Hellnum fyrir Inspired by Iceland herferðina.

7. Sjónarspil – Rökkurró

Ef „Dansi Dans“ er poppsmellur FaMR er „Sjónarspil“ rokkballaða Rökkurróar. Fallegur texti, sunginn á íslensku, áður ókunnur kraftur í söng Hildar söngkonu og töfrandi lag sem hægt er að hlusta á aftur og aftur. Hef séð hljómsveitina spila það órafmagnað og er það hvergi síðra í þeirri útsetningu.

6. Draugar – Miri

Fallega kaflaskipt lag af frábærum frumburði Miri. Örvar í múm á góðan gestasprett í laginu.

5. Surrender – Ólöf Arnalds & Björk

Töfrandi dúett frá drottningu og prinsessu íslensku tónlistarsenunnar. Björk er auðvitað bara í aukahlutverki en kryddar þó lagið svo um munar.

4. Translations – Agent Fresco

Ég man þegar ég sá Agent Fresco spila í fyrsta sinn, á Músíktilraunum árið 2008  – sem þeir svo unnu. Þá þegar voru lögin og spilamennskan svo kraftmikil að það þurfti engan sérfræðing til að sjá hvað gæti orðið úr sveitinni. Tveimur og hálfu ári, meðlimabreytingu og EP plötu síðar sendu þeir svo frá sér plötuna ‘A Long Time Listening’ og „Translations“ er hinn fullkomni kandidat af þeirri plötu: kraftmikið og hrátt, vel unnið, spilað og sungið, grípandi og frumlegt.

3. Warm Blood – Seabear

Þrátt fyrir að mér finnist Seabear platan ‘We Built a Fire’ eiga heima í hópi bestu íslensku platna ársins 2010 náði hún ekki að grípa mig alveg nógu vel. Þangað til komið var að lagi nr.9 – „Warm Blood“. Ég kolféll fyrir því, og ligg enn.

2. Cargo Frakt – Apparat Organ Quartet

Orgelkvartettinn Apparat sneri aftur með hvelli með nýja plötu í farteskinu eftir átta ára bið. Það voru þó flestir sammála um að biðin hefði verið þess virði um leið og þeir heyrðu fyrsta síngúl plötunnar Pólýfóníu – „Cargo Frakt“ – en kraftmikið lagið gefur smellinum „Romantika“ ekkert eftir.

1. Kolniður  – Jónsi


Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Gullfallegt lag og tilheyrandi gæsahúð sem fylgir í hvert sinn sem hlustað er á það. Klárlega hápunktur plötunnar ‘Go’. Útsetningar Nico Muhly fá að njóta sín og Jónsi syngur eins og engill. Svo einfalt er það!

Uppáhalds lögin mín árið 2010 – erlent:

10. Little Lion Man – Mumford and Sons

Þó að plata Mumford and Sons hafi kannski ekki beint hitt í mark hjá mér verð ég að viðurkenna annarlegt blæti fyrir þessu lagi. Ljúft en þó hressandi, með stuðkeyrslumillikafla og epískum endi. Namm.

9. Modern Drift – Efterklang

Að mörgu leiti poppslagari ársins og gaman að sjá sveitina taka lagið á Airwaves. Ég er alveg fáránlega veik fyrir fiðlunum í bakgrunni um miðbik lagsins…

8. Gorillaz – On Melancholy Hill

Heyrði lagið, fannst það fínt. Heyrði svo akústík útgáfuna og fannst hún yndisleg. Horfði svo á myndbandið og fannst það undarlegt. Yfir höfuð bara mjög gott!

7. Susanne Sundfør – The Brothel

Tónlist hinnar norsku Susanne heyrði ég fyrst snemma á árinu þegar ég rakst á þetta lag á netinu og varð frekar skotin i því enda raddbeitingin brjáluð. Það var svo fyrir einskæra tilviljun að ég rambaði á tónleika með henni á tónlistarhátíðinni The Great Escape í Brighton í maí þegar hún var einmitt að spila þetta lag!

6. Dance Yourself Clean – LCD Soundsystem

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Að mínu mati partílag ársins 2010. Lágstemmd byrjunin magnast upp í trylltan danskafla sem fær hvaða mann sem er til að skella sér út á gólf!

5. Pray For Rain – Massive Attack

Dulúðlegt undirspil setur tóninn fyrir þessa myrku melódíu Massive Attack. Um söng sér Tunde Adebimpe úr TV on the Radio og væri ekki slæmt að heyra meira samstarf þarna á milli í framtíðinni.

4. Norway – Beach House

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.


Ahhahhaaaa ahhahhahhahh… o.sv.frv. Sérlega ávanabindandi laglína og töfrandi söngur Victoriu Legrand gera þetta lag að því snilldarverki sem það er.

3. No Words/No Thoughts – Swans

Meistararnir í Swans hafa snúið aftur, eins og fyrsta lag nýju plötu þeirra sannar. Það byrjar með bjölluspili en brátt verður allt klikkað… Ég var svo heppin að ná tónleikum með þeim fyrir nokkrum mánuðum og eftir að hafa séð hljómsveitina spila lagið þar var ekki aftur snúið.

2. Lemonworld – The National

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

‘I gave my heart to the Army/The only sentimental thing I could think of/With cousins and colors and somewhere overseas/But it’ll take a better war to kill a college man like me’

Fallega flæðandi og angurvær texti smellir The National í annað sætið með „Lemonworld“.

1. Relief – Sam Amidon

…Hvern hefði grunað að R.Kelly ætti lag ársins? Það er þó Sam Amidon sem á heiðurinn að því í þetta sinn,  en í útsetningu sinni gerir hann lagið að sínu og er það nánast óþekkjanlegt í hans höndum auk þess sem textinn öðlast nýtt líf þegar brothætt rödd Amidons raular línurnar.

Lög ársins – Guðmundur

Mér þykir hugmyndin um að taka saman lista yfir “lög ársins” í rauninni fremur fáránleg. Hvernig í ósköpunum á að færa rök fyrir því að eitt stakt lag sé endilega betra en eitthvað annað án samhengis eða einhverskonar afmörkunar? Sérstaklega ef þau koma nú úr sitthvorri áttinni, eru sett fram á gjörólíkan hátt eða með ólíkum markmiðum? Þessvegna kýs ég að kalla þennan lista “Upphálds lögin mín frá árinu 2010“. Ég er að tala á persónulegum nótum, gera grein fyrir persónulegri upplifun og hirði lítið um rökfærslur eða argúment. Ég vona bara að þið hafið gaman af – því það er akkúrat tilgangur þessarar færslu.

Uppáhalds lögin mín árið 2010 – Íslenskt:

10. Jónsi – Animal Arithmetic

“Animal Arithmetic” er að mínu mati sterkasta popplag Jónsa á frumburði hans, Go. Samuli, finnski trommarinn knái, fer á kostum í laginu og Jónsi rekur hverja melódíuna á fætur annarri. Textinn er reyndar vandræðalega vondur, en það breytir því ekki að hér er á ferðinni virkilega flott og grípandi lag.

9. Skúli Sverrisson – Her Looking Back

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Skúli Sverrisson útbýr dulúðlega stemningu á annarri plötu sinni í Seríunni. “Her looking back” er sú smíð sem hreyf hvað mest við mér. Seyðandi hljóðfæraleikurinn og draumkenndur hljóðheimurinn í bland við grípandi melódíurnar mynda dásamlega fagra heild.

8. Útidúr – Fisherman’s Friend

Fyrsta plata stórsveitarinnar Útidúr inniheldur ansi marga efnilega kandídata, s.s. hina þrælíslensku “Ballöðu” og titillag plötunnar, “This Mess We Made”. “Fisherman’s Friend” stendur þó uppúr – hressandi heilalím framreitt í poppskotnum búningu en þó undir framandi áhrifum. Flutningur að öllu leiti til fyrirmyndar, grípandi og skemmtilegt.

7. Prinspóló – Skærlitað gúmmelaði

Fyrst þegar ég heyrði “Skærlitað gúmmelaði” hélt ég að The Dodos væru að flytja fyrir mig nýtt lag. Þegar prinsinn Svavar fór að syngja varð það þó ljóst að afurðin var alíslensk. Hrár krafturinn og hófstilltur tryllingurinn gera þetta lag að einu því hressasta sem út hefur komið í ár. Prinsinum tekst líka að sýna fram á að það þarf ekkert að vera að flækja hlutina til að smíða skemmtileg lög. Ekkert jukk hér á ferð!

6. Ólöf Arnalds – Crazy Car

Dúett Ólafar með Rassa Prump er afar lágstemdur og fallegur. Rétt eins og lagið hér á undan, þá liggur galdurinn í einfaldleikanum og einlægum fluttningi. Áður en ég vissi af var ég farinn að blístra lagið í strætó án þess að skammast mín og raula það á bókhlöðunni.  Rólegt og rómantískt, í krúttskilningnum þó. Bara gott, gott.

5. Jónas Sigurðsson – Allt er eitthvað

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Þessi singúll númer tvö hjá Jónasi og Ritvélunum hans vann á mig með hverri hlustuninni. Þetta er ofboðslega flott og vandað popplag – og svo er textinn svona dásamlega margræður og spennandi. Virkilega vel gert.

4. Sudden Weather Change – The Whaler

Djöfull er Sudden ógeðslega kraftmiklir og flottir í þessu lagi! Þéttur gítarmúrinn kallar fram gæsahúð á völdum köflum og keyrslan fær mann til að hrista höfuðið svolítið duglega. Ég bið ekki um mikið meira en það.

3. Miri – Draugar.

“Draugar” er eina sungna lag plötunnar Okkar og að mínu mati það best heppnaða. Þetta er alveg ekta “allt-í-botn-lag”; Örvar í Múm leiðir okkur í gegnum draumkenndan gítarheim og svo skellur keyrslan á manni af fullum krafti undir lok. Sándið, sem er í höndum Curvers, er algjör bölvuð snilld.

2. Seabear – Cold Summer

Það er langt síðan ég hef heyrt lag sem jafn fallega byggt upp og “Cold Summer”. Það grípur kannski ekki við fyrstu hlustun, en þegar maður er farinn að kannast við sig í þessu nöturlega sumarlagi, þá fara blómin að springa út í allri sinni dýrð.

1. Apparat Organ Quartet – Pólýnesía

Lag ársins á Orgelkvartettinn Apparat. Hér er ýmislegt kunnuglegt á ferð en Apparat er samt enganveginn að endurtaka sig. Aldrei bjóst ég við að heyra þá félaga svona poppaða – en það klæðir þá bara vel!

Uppáhalds lögin mín árið 2010 – Erlent:

10. MGMT – Flash Delerium

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Ég var lítt hrifinn af Congratulations, nýjustu plötu MGMT. Aftur á móti tók ég ástfóstri við þennan fyrsta singúl bandsins. Þó svo að stíft sé sótt í arf rokksins, þá er eitthvað ofboðslega ferskt og hressandi við þetta lag. Ég meina, hvað er langt síðan þið hafið heyrt blokkflautusóló í índírokklagi? Ætli að það hafi bara ekki verið The Unicorns árið 2003?

9. Avey Tare – Laughing Hieroglyphic

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Þetta lag Avey Tare er afskaplega ávanabindandi á mjög undarlega hátt. Kannski er það taktsmíðin, eða hljóðgervlarnir, eða sönglínurnar. Eða eitthvað allt annað. Ég er bara ekki viss. En eitt veit ég þó: Avey Tare stendur sig vel einn og óstuddur.

8. Broken Social Scene – World Sick

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Opnunarlag Forgiveness Rock Album er dýrðlegt dæmi um hvernig hægt er að nostra við og skreyta einfalda lagasmíði. Að vanda er pródúsering á bandinu til fyrirmyndar; frumleg og áhugaverð. Þetta lag er glöggt dæmi um sköpurnargleði Broken Social Scene.

7. Vampire Weekend – Diplomat’s Son

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

“Diplomat’s Son” sameinar aðalsmerki og einkenni Vampire Weekend í einu lagi. Það er glaðlegt en samt pínu angistarfullt, undir greinilegum afro-beat áhrifum en sver sig samt í ætt við amerískt indírokk, melódíur stíga dularfullan dans við hrynjandi og textinn er svo fullkomlega einfaldur og naív. Og þessar taktbreytingar! Þær gera mig alveg vitlausan.

6. Four Tet – Sing

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um “Sing”. Þetta er besta fyrirpartí sem ég hef lent í þetta árið. Það er bara svo einfalt.

5. Beach House – Silver Soul

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Dúónum Beach House er að takast að festa sig í sessi sem ein af mínum uppáhalds böndum síðustu ára. Bandið virðist vera ótæmandi brunnur sköpunnar; hver snilldarplatan kemur á fæti annarrar. “Silver Soul” af Teen Dream er tregafullt og fallegt popplag sem ég hreinlega fæ ekki nóg af.

4. LCD Soundsystem – All I Want

Þessi óður James Murphy til David Bowie er hápunktur þriðju plötu LCD Soundsystem. Bandið sækir í fornan popparf og endurvinnur á sinn frumlega máta. Útkoman er dansvænt og áhugavert rafpopp sem flestir ættu að getað tengt eða dillað sér við. Ég vona svo sannarlega að This is Happening sé ekki síðasta plata LCD Soundsystem líkt og lýst var yfir.

3. Arcade Fire – Sprawl II (Mountains Beyond Mountains)

Þegar ég heyrði “Sprawl númer tvö” í fyrsta sinn, þá ætlaði ég alveg að vera með stæla út í það. Ég skildi ekki alveg hvað Arcade Fire voru að reyna að áorka með þessu Blondie-lagi sínu. En svo þýddi bara ekkert að vera með stæla: þetta er ógeðslega grípandi og gott popplag!

2. Caribou – Odessa

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

“Sing” er besta fyrirpartí þessa árs en “Odessa” er hinsvegar besta partíið. Caribou klippir og límir saman snilldarlegt stuðmósaík sem auðvelt er að hrífast af. Sömplin eru svöl, bassalínan er feit, taktarnir þéttir og söngur Daniels Snaith er eitthvað svo yndislega ámátlegur.

1. Titus Andronicus – A More Perfect Union

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Sko. Fyrst þrumar Abraham Lincoln yfir þér, svo tekur við ný-pönk stemning í anda Against Me!, eftir það ómar eðal gítarrokk að hætti Dinousaur Jr. – svona heldur þessi ófyrirsjáanleg atburðarás endalaust áfram. Hinar og þessar stefnur rokksins eru ýmist endurskapaðar, skopstældar eða afbakaðar í þessu sjö mínútna verki. Titus Andronicus útbýr hér lag sem er allt í senn kraftmikið, grípandi, óþolandi, eitursvalt, melódískt, kaótískt, fyndið, frumlegt, kunnuglegt,  … ég er læt þetta gott heita. Hlustið bara á þessa snilld!

10 bestu EP plötur ársins að mati ritstjóra.

Í uppgjörsumræðunni sem öllu tröllríður á þessum tíma ár hvert vill oft gleymast að minnast á blessaðar EP plöturnar en slík útgáfa hefur heldur betur aukist síðustu ár. Ég sá mig því knúinn að telja til 10 bestu (eða áhugaverðustu öllu heldur) EP plöturnar sem borist hafa mér til eyrna á árinu. Þótt útgáfa á EP plötum sé ekki fyrirferðamikil hér á landi náðu þó tvær slíkar inn á listann (önnur er reyndar gefin út erlendis en flytjandinn er íslenskur) og sú þriðja, Varrior með Sudden Weather Change, var alveg við það að ná inn á listann.

En nóg um það. Hér að neðan er listinn og þar fyrir neðan nokkur vel valin tóndæmi.

 1. Sufjan Stevens – All Delighted People
 2. Unknown Mortal Orchestra – Unknown Mortal Orchestra
 3. Mondrian – Pop Shop
 4. Cool Runnings – Babes Forever
 5. TV Girl – TV Girl
 6. Dad Rocks! – Digital Age
 7. Beat Connection – Surf Noir
 8. Benni Hemm Hemm – Retaliate
 9. Generationals – Trust
 10. Port St. Willow – Even // Wasteland

Sufjan Stevens – All Delighted People

Unknown Mortal Orchestra – Unknown Mortal Orchestra EP

Mondrian – Pop Shop

Cool Runnings – Babes Forever

TV Girl – TV Girl

Dad Rocks! – Digital Age

Port St. Willow – Even // Wasteland

Kraumslistinn 2010

Kraumslistinn – árleg plötuverðlaun Kraums tónlistarsjóðs til þeirra verka í íslenskri plötuútgáfu sem þótt hafa framúrskarandi og spennandi á árinu – verður kynntur þriðja árið í röð síðar í desember. Dómnefnd Kraumslistans, sem skipuð er 12 aðilum sem hafa verið liðtækir við umfjöllun og spilun á íslenskri tónlist á ýmsum sviðum fjölmiðlunar, hafa nú komist að niðurstöðu um 20 hljómplatna úrvalista, tilnefningar til verðlaunanna, sem er hér með er kynntur til leiks.

Framkvæmd Kraumslistans er með þeim hætti að nú þegar dómnefnd hefur valið úrvalslistann (20 plötur) heldur hún áfram við að velja sjálfann Kraumslistann 2010, 5 plötur sem verðlaunaðar verða sérstaklega. Síðustu tvö ár, 2008 og 2009, urðu verðlaunaplöturnar reyndar 6 talsins – en samkvæmt reglum Kraumslistans hefur dómnefnd leyfi til að auka við fjölda verðlaunaplatna, ef sérstakt tilefni þykir til. Samtals 12 hljómplötur – frá flytjendum á borð við Hjaltalín, Huga Guðmundsson, Ísafold kammersveit, Agent Fresco og FM Belfast – hafa komist á lokalista Kraumslistans árin 2008 og 2009.

Val dómnefndar Kraumslistans, bæði hvað varðar tilnefningar og verðlaunaplötur, kemur oft á óvart og þar leynast oft hljómplötur sem með valinu fá verðskuldaða athygli. Í ár geta verðlaunahafar síðustu ára í fyrsta sinn náð verðlaunum á nýjan leik, þar sem bæði Agent Fresco og Retro Stefson – sem hlutu verðlaun fyrir plötur sínar árið 2008, eru tilnefndar fyrir plötur sínar í ár.

Óhætt að segja að árið í ár hafi verið öflugt hvað plötuútgáfu varðar, enda fjölmargir spennandi titlar sem ekki komast á úrvalslista Kraumslistans fyrir árið 2010.

Eftirtalda plötur eru tilnefndar til Kraumslistans 2010:

 • Agent Fresco – A Long Time Listening
 • Amiina – Puzzle
 • Apparat Organ Quartet – Pólyfónía
 • Daníel Bjarnason – Processions
 • Ég – Lúxus upplifun
 • Jónas Sigurðsson – Allt er eitthvað
 • Kammerkór Suðurlands – Iepo Oneipo
 • Miri – Okkar
 • Momentum – Fixation, At Rest
 • Moses Hightower – Búum til börn
 • Nolo – No-Lo-Fi
 • Ólöf Arnalds – Innundir skinni
 • Prinspóló – Jukk
 • Retro Stefson – Kimbabwe
 • Samúel Jón Samúelsson Big Band – Helvítis Fokking Funk
 • Seabear – We Built a Fire
 • Sóley – Theater Island
 • Stafrænn Hákon – Sanitas
 • Valdimar – Valdimar
 • Quadruplos – Quadroplos

Tilnefningar til Norrænu Tónlistarverðlaunanna tilkynntar

Um 300 tónlistarspekúlantar og bransafólk frá skandinavíu, þ.á.m.  Rjóminn, sendu nýlega inn tilnefningar sínar til Norrænu Tónlistarverðlaunanna og voru þær plötur sem hlutu flestar tilnefningar tilkynntar í gær. Tilnefna átti 10 plötur og listamenn frá íslandi, Noregi, Danmörku, Finlandi og Svíðþjóð en hver einstaklingur mátti aðeins velja plötur frá eigin landi.

Hér að neðan má sjá listann yfir þær 50 plötur sem hlutu flestar tilnefningar en aðeins 12 þeirra munu keppa um verðlaunin. Sigurvegarinn verður tilkynntur á by:Larm ráðstefnunni þann 5. janúar næstkomandi.

Svíþjóð

• Familjen – Mänskligheten
• The Radio Dept. – Clinging to a scheme
• Robyn Body talk
• Anna von Hausswolff – Singing from the grave
• Håkan Hellström – 2 steg från Paradise
• Dungen – Skit i allt
• The Tallest Man On Earth – The wild hunt
• First Aid Kit – The big black & the blue
• This Is Head – 0001
• Watain – Lawless darkness

Finland

• Minä ja Ville Ahonen – Minä ja Ville Ahonen
• Uusi Fantasia – Heimo
• Magenta Skycode – Relief
• Circle – Rautatie
• Paleface – Helsinki – Shangri-La
• Stam1na – Viimeinen Atlantis
• Jenni Vartiainen – Seili
• Pariisin kevät – Astronautti
• Jo Stance – Jo Stance
• Yona Pilvet – liikkuu, minä en

Ísland

• Blood Group – Dry Land
• Kimono – Easy music for difficult people
• Seabear – We Built a Fire
• Hjaltalín – Terminal
• Ólöf Arnalds – Innundir skinni
• Jónsi – Go Do
• Agent Fresco – A Long Time Listening
• Retro Stefson – Kimbabwe
• Jónas Sigurðsson – Allt er eitthvað
• Nolo – No-Lo-Fi

Danmörk

• Under Byen – Alt er tabt
• Agnes Obel – Philharmonics
• Murder – Gospel of Man
• Chimes and Bells – Chimes and Bells
• Trentemøller – Into The Great Wide Yonder
• Frisk Frugt – Dansktoppen møder Burkina Faso i det himmelblå rum hvor solen bor, suite
• Efterklang – Magic Chairs
• Sleep Party People – Sleep Party People
• Fallulah – The Black Cat Neighborhood
• Bjørn Svin – Browen

Noregur

• Shining – Blackjazz
• Casiokids – Topp Stemning På Lokal Bar
• Susanne Sundfør – The Brothel
• Motorpsycho – Heavy Metal Fruit
• Lars Vaular – Helt om natten, helt om dagen
• Serena Maneesh – S-M 2: Abyss in B Minor
• Lindstrøm & Christabelle – Real Life is No Cool
• Kvelertak – Kvelertak
• Kråkesølv – Bomtur til jorda
• Enslaved – Axioma Ethica Odini

Nokkur af áhugaverðustu erlendu myndböndum ársins.

Nú þegar síga fer á sinni hlutann á árinu er ekki úr vegi að taka stöðuna á ákveðnum tónlistartengdum hlutum. Í þetta skiptið eru það tónlistarmyndbönd erlendis frá en þaðan hafa nokkur ansi merkileg myndböndin borist okkur í gegnum þröngar pípur Alnetsins.

Byrjum á besta myndbandi ársins sem er án efa við lag Arcade Fire “We used to wait” en það er einungis hægt að sjá og upplifa á slóðinni www.thewildernessdowntown.com og með því að nota Google Chrome vafrann.

Hér að neðan eru svo nokkur vel valin myndbönd sem vakið hafa verðskuldaða athygli í ár. Ég hvet lesendur eindregið til að skilja eftir athugasemdir við þessa færslu með sínum tilnefningum til áhugaverðustu myndbanda ársins.

Vampire Weekend – Giving Up The Gun

LCD Soundsystem – Drunk Girls
Spike Jonze mistekst eiginlega aldrei í myndbandagerð sinni og gerir það sannarlega ekki hér þar sem hljómsveitinni er misþyrmt af hópi fólks í einhverskonar panda búningum.

Hot Chip – I Feel Better
Skemmtilega súrt myndband frá Hot Chip þar sem JLS, sigurvegarar X-Factor í Bretlandi, verða fyrir barðinu á einhverri Moby-legri fígúru.

HEALTH – We are Water
Án efa blóðugasta myndband ársins. Leikstjóri er Eric Wareheim.

M.I.A. – Born free
Rauðhærðir eru hundeltir af yfirvöldum í þessu magnaða myndbandi eftir Romain Gavras.

OK Go – White Knuckles
Það eru skiptar skoðanir um ágæti tónlistar OK Go en það verður ekki frá þeim tekið að myndböndin þeirra eru algert meistaraverk. Þetta myndband er að margra mati það besta sem sést hefur á árinu.

OK Go – This Too Shall Pass
Hér eru svo tvö afar ólík myndbönd við sama lagið. Ég veit ekki hvort mér finnst betra en hið seinna, sem er óður til meistara Rube Goldberg, hefur án efa verið talsvert erfiðara í framleiðslu.