Ný ábreiða frá Skurk – Gaggó Vest

Skurk

Akureyska hljómsveitin Skurk ákvað að fagna 70 ára afmæli Gunnars Þórðarsonar og 30 ára stórafmæli lagsins “Gaggó Vest” með því að taka það upp og deila með þeim sem vilja hlusta. Með Skurk eru söngvararnir Magni Ásgeirsson, Valur Hvanndal og sérstakur gestur er Björgvin (Böbbi) Sigurðsson. Haukur Pálmason tók upp og hljóðblandaði ásamt Herði Halldórssyni gítarleikara Skurk sem sá um upptökustjórn.

Skurk fagnar útgáfu Final Gift

Félagarnir í SKURK gáfu út diskinn Final Gift á árinu og ætluðu heldur betur að fylgja honum eftir með tónleikahaldi. Því miður varð sveitin fyrir því óhappi að Guðni, söngvari og gítarleikari, fótbrotnaði svo illa að hann þurfti að vera á hækjum í 6 mánuði og fóru því öll plön um tónleikahald skiljanlega út um gluggann.

Jón Heiðar bassaleikari SKURK hafði þetta að segja um málið:

Við ákváðum því að spila eins vel og við gætum úr aðstæðum og byrjuðum að semja næsta disk og erum nú rétt byrjaðir á stúdíovinnu í stúdíó GFG. Einnig tókum við upp myndband sem við erum nýlega búnir að gefa út.

Og þar sem söngvarakvikindið er farið að geta staulast um án hækjanna ætlum við að smella í eina tónleika á Gauknum 22. nóv. með eðalsveitinni Casio Fatso

Nánari upplýsingar um tónleikana má finna á Facebook

Eistnaflug 2014

Eistnaflug

Dagana 10.-12. júlí næstkomandi verður Eistnaflug sett upp í tíunda sinn. Miðvikudaginn 9. júlí verða tvennir upphitunartónleikar í Egilsbúð, annars vegar tónleikar fyrir alla aldurshópa sem byrja kl. 19:00 og standa til 22:00 og hins vegar tónleikar fyrir fullorðna sem hefjast kl. 23:00. Hljómsveitirnar Brain Police, Severed og Skálmöld koma fram á fyrri tónleikunum en hljómsveitin Sólstafir kemur fram á þeim síðari þar sem þeir spila m.a. frumflutt efni af nýrri plötu sem kemur út síðla sumars.

Mikil áhersla er lögð á fjölbreytta og góða dagskrá á Eistnaflugi. Þar verður ekkert lát á í ár, erlendu gestir okkar verða:

 • Goðsagnakennda hljómsveitin At The Gates, sem út af fyrir sig eru næg ástæða til þess að legga á sig langt ferðalag austur á firði. Árið í ár virðist svo sannarlega vera þeirra eftir tilkynningu um nýja plötu á haustmánuðum.
 • Bandaríska Thrash-hljómsveitin Havok sem er á stöðugu tónleikaferðalagi um heiminn
 • Svissneska sludge-skrímslið Zatokrev sem á eftir að valta yfir áhorfendur
 • Hollenska dauðarokksbandið The Monolith Deathcult sem heimsækja Eistnaflug í annað sinn

Hátíðin hefur þó alltaf lagt mesta áherslu á að bjóða upp á það besta og ferskasta í innlendri tónlist, innlendir gestir okkar í ár verða:

Agent Fresco, AMFJ, Angist , Azoic, Beneath, Benny Crespo’s Gang, Brain Police, Carpe Noctem, Darknote, Dimma, DJ Töfri, Endless Dark, Gone Postal, Grísalappalísa, HAM, Hindurvættir, Innvortis, In The Company Of Men, Jónas Sigurðsson og Ritvélar Framtíðarinnar, Kontinuum, Kælan Mikla, Malignant Mist, Mammút, Maus, Momentum, Morð, Nevolution, ONI, Ophidian I, Pink Street Boys, Retro Stefson, Reykjavíkurdætur, Rotþróin, Saktmóðigur, Severed, Sign, Skálmöld, Skelkur í Bringu, Skepna, Sólstafir, Strigaskór nr.42, The Vintage Caravan og Unun.

Á hátíðinni verður boðið uppá pallborðsumræður fyrir hljómsveitir og áhugasaman gesti. Hópurinn sem stýrir umræðunum samanstendur af tveimur blaðamönnum og tveimur starfsmönnum plötufyrirtækjum. Einnig verður boðið uppá tengslamyndunar fund fyrir hljómsveitirnar og erlenda gesti.

Tónleika dagskráin í Egilsbúð er tilbúin og er hægt að nálgast hana á eistnaflug.is

Miðasalan er í fullum gangi á midi.is

Angist leggur land undir fót

Angist

Dauðarokkssveitin Angist er að leggja land undir fót þessa helgi en sveitin mun koma fram á SWR Barroselas metalhátíðinni í Portúgal ásamt þungavigtarnöfnum eins og Gorguts, Misery Index, Grave Miasma, b, Discharge og fleirum. Angist er önnur íslenska hljómsveitin sem fer á þessa hátíð en Beneath komu þar fram á síðasta ári.

Þröngskífa sveitarinnar, Circle of Suffering, kemur út á vínyl hjá Hollenska plötufyrirtækinu Hammerheart Records 2. júní. Hammerheart Records er þekkt fyrirtæki sem hefur gefið vínyl frá sveitum á borð við The Monolith Deathcult, b, Cryptopsy og mörg fleiri stór nöfn svo það er mikill heiður fyrir sveitina að gefa út hjá þessu fyrirtæki.

Angist er einnig að leggja lokahönd á plötuna sína sem mun koma út síðsumars og að sjálfsögðu spila á árshátíð þungarokkara, Eistnaflugi.

Svartidauði – The Synthesis of Whore and Beast

he Synthesis of Whore and Beast

Á Valborgarmessu, þann 30. apríl næstkomandi, mun íslenska dauðarokksveitin Svartidauði gefur út þröngskífuna The Synthesis of Whore and Beast. Platan mun innihalda tvö ný lög og eru þau fyrstu sem heyrast eftir útgáfu fyrstu breiðskífu sveitarinar, Flesh Cathedral, sem kom út í desember 2012.

The Synthesis of Whore and Beast var tekin upp í ágúst 2013 af Stephen Lockhart í Emissary Stúdio. Plötukápuna prýða verk eftir finnska myndlistarmanninn Timo Ketola og tékknenska myndlistarmanninn David Glomba sem voru unnin í samstarfi við hljómsveitina fyrir þessa útgáfu. Þröngskífan verður bæði gefin út sem hefðbundin geisladiskur og sem 45 snúninga 12″ vinyl.

Svartidauði leggur í Evróputúr

Svartidauði

Íslenska dauðarokkssveitin Svartidauði leggur upp í tónleikaferðalag um Evrópu í mars næstkomandi og mun sveitin koma fram í 9 löndum á jafn mörgum dögum. Með í för verða hljómsveitirnar Mgla (POL) og One Tail, One Head (NOR).

Ferðini lýkur svo á tónlistarhátíðini Speyer Grey Mass í Þýskalandi þar sem meðal annars koma fram hljómsveitirnar Archgoat (FIN), Ofermod (SE), Nightbringer (USA) ásamt fleirum.

Undanfarið ár hefur sveitin komið fram víðsvegar um Evrópu, meðal annars á tónleikahátíðunum Nidrosian Black Mass í Belgíu, Prague Death Mass í Tékklandi, Hells Pleasures í Þýskalandi og Black Flames of Blasphemy í Finlandi, auk Iceland Airwaves.

Fyrsta breiðskífa Svartadauða, Flesh Cathedral, fagnar eins árs afmæli sínu um þessar mundir. Flesh Cathedral hlaut einróma lof gagnrýnanda og hafnaði í efstu sætum árslista margra erlendra tímarita árið 2012 og seldist platan svo hratt að útgáfendur plötunar höfðu ekki við eftirspurnini og hefur hún nú verið endurpressuð nokkrum sinnum, bæði á geisladisk og vínyl.

Sign gefa út Hermd

Hljómsveitin Sign gaf út sína fimmtu breiðskífu fyrir nokkru og nefnist hún Hermd. Mun þetta vera þroskaðasta og þyngsta afurð Sign til þessa, en þó má ennþá greina melódísk og grípandi viðlög sem einkennt hafa tónlist þeirra í gegnum tíðina.

Platan er var 3 ár í vinnslu og var Ragnar Zolberg forsprakki sveitarinnar byrjaður að vinna að henni í Þýskalandi árið 2010. Í fyrra vor var sú ákvörðun tekin að vinna með sænska upptökustjóranum Daniel Bergstrand en hann hefur m.a. unnið með hljómsveitum á borð við Meshuggah, In Flames, Soilwork, Raised Fist, Strapping Young Lad o.fl.

Platan er nú aðeins fáanleg í búðum á Íslandi og munu Sign stofna til stórra útgáfutónleika nú í janúar þar sem þeir munu spila pötuna í heild sinni. Verður það að sjálfsögðu auglýst nánar hér.

Cult of Luna spila á Gamla Gaunum

Cult of Luna. Photographer Anna Ledin

Sænska postmetalsveitin Cult of Luna er á leið til landsins. Mun hún spila á Gamla Gauknum laugardaginn 21. sept. ásamt Roadburnförunum í Momentum, Wackenhetjunum Gone Postal og dauðarokksskvísunum í Angist.

Cult of Luna var stofnuð í þungarokksmekkanu Umea árið 1998 og hefur hróður hennar vaxið mikið undanfarið en sveitin er oft nefnd í sömu andrá og Neurosis og Isis og hefur nýjasta afurð þeirra Vertikal hlotið lofsamlega gagnrýni víðast hvar.

Húsið opnar kl 10:00 og kostar miðinn 2500 í forsölu.

Eistnaflug rokkar í níunda sinn

Eistnaflug

Tónlistarhátíðin Eistnaflug verður haldin í níunda sinn í sumar, dagana 11.-13. júlí, í Egilsbúð Neskaupstað. Alls mun 41 hljómsveit stíga á stokk og þar af 7 erlendar.Markmið Eistnaflugs er að bjóða ferska og fjölbreytta dagskrá rokktónlistar sem spannar allt frá indí rokki yfir í þungan metal. Áhersla er lögð á að kynna það besta í íslensku rokki hverju sinni í bland við áhugaverðar erlendar sveitir.

Meðal íslenskra hljómsveita koma fram Sólstafir, Skálmöld, Brain Police, Dimma, Legend, Muck, Kontinuum, The Vintage Caravan, Angist, Ophidian I, Singapore Sling, Plastic Gods, Endless Dark, Agent Fresco, Momentum, Ojba Rasta, Saktmóðigur, AMFJ, Innvortis, Logn, Norn og Morðingjarnir.

Fremst í flokki erlendra hljómsveita er Red Fang frá Bandaríkjunum sem mun enda Evróputúr sinn á Neskaupstað. Þá munu Íslandsvinirnir í The Psyke Project, Helhorse og Whorls frá Danmörku sækja hátíðina ásamt thrash metal sveitinni Contradiction frá Þýskalandi. Sigurvegarar Wacken Metal Battle 2012, Hamferð, frá Færeyjum mun einnig mæta ásamt hljómsveitinni Earth Divide.

Í ár verður breytt til og bætt við tónleikum fyrir alla aldurshópa miðvikudaginn 10. júlí klukkan 19:00. Hljómsveitirnar Skálmöld, Sólstafir og Dimma koma fram og kostar 2000 kr. Miðasala fer fram í Egilsbúð Neskaupstað.

Upplýsingar um hátíðina má finna á www.eistnaflug.is og á Facebook síðu hátíðarinnar. Miðasala fer fram á Midi.is og er miðaverð 9900 kr.

Nýtt smáskífulag frá Sólstöfum

Sólstafir á tónleikum nýverið

Hljómsveitin Sólstafir er þessa stundina á fyrsta legg Evróputúrs sem í það heila spannar hálft ár. Hljómsveitin fékk viðurkenningu Loftbrúar á Íslensku Tónlistarverðlaununum í síðasta mánuði fyrir vel unnin störf á erlendri grundu, en þessi fyrsti leggur Evróputúrsins er mánaðarlangur túr með þýsku sveitinni Long Distance Calling og Norðmönnunum Audrey Horne og Sahg.

Í tilefni af þessu góða gengi hefur hljómsveitin ákveðið að gefa þriðja og síðasta smáskífulag sveitarinnar, “Þín Orð”, af plötunni Svartir Sandar til ókeypis niðurhals. Lagið má nálgast á síðu sveitarinnar www.solstafir.net/thinord

Sólstafir – Þín orð

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Sólstafir í borg óttans

Sólstafir

Sólstafir halda tónleika laugardaginn 26. janúar á Gauki á Stöng. Þetta eru fyrstu tónleikarnir sem hljómsveitin heldur undir sínum eigin formerkjum síðan fyrir tæpu ári síðan, og þeir síðustu áður en þeir leggja af stað í Evróputúr. Vinna við næstu plötu er nú í fullum gangi.

Tónleikarnir hefjast klukkan 22.00 og er aðgangseyrir er 1500 kr. Hljómsveitin Kontinuum hitar upp.

Skráning í Wacken Metal Battle 2013 að hefjast

W:O:A Metal Battle 2013

Opnað hefur verið fyrir þátttöku í hljómsveitakeppninni Wacken Metal Battle 2013 og er umsóknarfrestur til og með 7. febrúar 2013.

Á hverju ári stendur Wacken fyrir hljómsveitakeppninni METAL BATTLE með þátttöku frá yfir 30 þjóðum sem hver um sig sendir fulltrúa til Þýskalands. Íslenska undankeppnin verður haldin laugardaginn 6. apríl og markar það fimmta sinn sem keppnin er haldin hér á landi en hún er fyrir löngu búin að stimpla sig inn sem einn af glæsilegustu þungarokksviðburðum landsins.

Nánari upplýsingar má finna á www.metal-battle.com og á Facebook síðu keppninnar, www.facebook.com/WackenMetalBattleIceland

Fjandinn Metalfest 14. og 15. desember

Um miðjan desember verður boðið upp á sannkallaða veislu fyrir rokkþyrsta íslendinga þegar til landsins mæta frönsku þungarokkssveitirnar L’ESPRIT DU CLAN og HANGMAN’S CHAIR.

Er hátíð þessi hugarfóstur Íslandsvinarins Kalchat sem hefur skipulagt hana síðan 2007. Vinnur hann hjá bókunarskrifstofunni Rage Tour sem þykir me þeim stærri í bransanum og sér m.a. um að bóka tónleika fyrir sveitir eins og: Napalm Death, Entombed, Hatebreed, Sepultura og Brutal Truth, ýmist í Frakklandi eða út um alla Evrópu.

Hefur hátíðin ferðast um allt Frakkland og er nú komið að því að halda hana á Íslandi en hátíðin er tveggja daga hátíð þar sem fyrri dagurinn fer fram 14. des á Gauki á Stöng í Reykjavík, og sá seinni á Græna Hattinum á Akureyri 15. des.

Risastór hópur af vinahópi Kalchat mætir hingað með honum (við erum að tala um nokkra tugi manna) og hér verður mikið partý og rokk og metalhausum landsins er boðið til veislu. Miðaverði er stillt í algjört hóf miðað við umfang.

Lænöppið fyrir kvöldin er sem hér segir:

Reykjavík

 • L’ESPRIT DU CLAN
 • HANGMAN’S CHAIR
 • MOMENTUM
 • DIMMA
 • ANGIST
 • MOLDUN
 • OPHIDIAN I
 • ásamt DJ KIDDA ROKK

Akureyri

 • L’ESPRIT DU CLAN
 • HANGMAN’S CHAIR
 • MOMENTUM
 • SKURK

Miðaverð: 1.500 í Reykjavík / 2.000 á Akureyri
Aldurstakmark: 18 ára
Húsin opna kl. 20:00 en lætin hefjast kl. 21:00.

Nýtt lag frá hljómsveitinni Momentum

Í dag gefur hljómsveitin Momentum frá sér fyrsta lagið af komandi plötu sveitarinnar. Lagið er titillag plötunnar og ber heitið “The Freak is Alive”. Upptaka og hljóðblöndun á laginu var í traustum höndum Axel “Flex” Árnasonar og hljómsveitarinnar sjálfrar. Vinnsla á plötunni hefst svo á næstu mánuðum og er áætlað að hún komi út fyrri hluta ársins 2013.

Framundan hjá sveitinni er tónlistarhátíðin Iceland Airwaves en Momentum spilar nú í fjórða sinn á hátíðinni og í þetta skipti kemur hún tvisvar fram. Laugardaginn 3. nóvember á Gamla Gauknum og sunnudaginn 4. nóvember á Café Amsterdam. Eftir það mun sveitin að mestu leyti leggjast undir feld og komandi plata kláruð ásamt nokkrum tónleikum.

Celestine gefa út samnefnda plötu

Þriðja hljómplata Celestine kom út nýverið. Nefnist hún einfaldlega Celestine og inniheldur 11 grjóthörð lög. Eins og flösuþeytarar landisins eflaust þekkja leikur sveitin harðkjarnarokk af bestu gerð og hefur vakið athygli víða um heim fyrir kraftmikla tónleika og sterkar lagasmíðar. Plötur sveitarinnar hafa fengið frábæra dóma og þykir þeirra fyrsta hljómplata, At the Borders of Arcadia, vera mikið meistaraverk.

Dynfari skrifar undir erlendan plötusamning

Íslenska svartmálmshljómsveitin Dynfari hefur skrifað undir plötusamning við ítalska útgáfurisann Aural Music. Samningurinn felur í sér samvinnu við undirfyrirtækið Code666 Records til tveggja ára. Önnur breiðskífa Dynfara, Sem Skugginn mun koma út á vegum þeirra núna í haust og verður því fagnað með góðum gestum, pompi og pragt á veglegum útgáfutónleikum þegar þar að kemur.

Angist skrifar undir plötusamning

Íslenska dauðarokkssveitin Angist hefur skrifað undir plötusamning við bandaríska útgáfufyrirtækið Abyss Records.Angist gaf út tveggja laga demo sumarið 2010 og fóru þá hjólin að snúast því sveitin landaði mörgum stórum tónleikum eins og Iceland Airwaves, upphitunarbönd fyrir erlendar sveitir eins og Heaven shall Burn og L’esprit du Clan og höfnuðu í öðru sæti á Wacken Metal Battle keppninni 2011.

Tónlist Angistar hefur fengið góða dóma hérlendis sem erlendis og hefur sveitin fengið umfjöllun í dagblöðum, tímaritum, vefritum og útvarpi víða um heim. Árið 2011 endaði með útgáfu þröngskífunnar Circle of Suffering og tónleikaferðalagi um Frakkland þar sem Angist hitaði meðal annars upp fyrir L’esprit du Clan og
Loudblast.

Abyss Records mun gefa út plötu sveitarinnar á næsta ári þar sem hún mun fá dreifingu um allan heim því á bakvið plötufyrirtækið er mjög stórt kynningarfyrirtæki sem sér um að kynna þær hljómsveitir sem eru á mála hjá fyrirtækinu á heimsvísu og nær til óteljandi tímarita, vefsíðna, plötufyrirtækja, tónleikahaldara, útvarpsstöðva og svo mætti lengi telja.

Sólstafir senda frá sér annað smáskífulag Svartra Sanda

Eftir gríðarlega velgengni “Fjöru”, fyrsta smáskifulags Sólstafa af plötunni Svartir Sandar hefur bandið nú sent frá sér sína aðra smáskífu af áðurnefndri plötu. Lagið, sem heitir “Æra”, er nú aðgengilegt á heimasíðu bandsins Solstafir.net til ókeypis niðurhals.

Sólstafir eru þessa stundina á tónleikaferðalagi um Evrópu og koma þar fram á mörgum af helstu þungarokkshátíðum heims, en bandið hefur spilað á yfir 40 tónleikum á meginlandinu síðan í mars, auk nokkura vel valda tónleika á Íslandi.