Músíktilraunir : Orycto

Orycto er metal hljómsveit sem samanstendur af strákum á aldrinum 14 til 18 ára. Þeir voru einungis fjórir þangað til í byrjun þessa árs þegar að bassaleikarinn bættist við. Fyrstu lögin voru tilbúin í byrjun janúar og hafa þeir undanfarið verið að semja eins og brjálæðingar til þess að geta spilað opinberlega og halda tónleika. “Tónlistinni sem við spilum hefur verið líkt við Groove/progressive/hardstyle technometal en þó flokkum við okkur bara sem progressive metal …” urra þessir knáu flösuþeytarar, þegar þeir eru spurðir nánar út í tónlistarstefnuna.

Sveitina skipa Björn Rúnarsson, 15 ára trommari, Snorri Freyr Þórisson, 16 ára söngvari (og bongótrommari), Bjarni Friðrik Garðarsson 17 ára leikur á bassa, og Sævar Örn Kristjánsson (15) og Þorkell Ragnar Grétarsson (14) leika á rafgítara.

Orycto – Construction of the Fenek

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Orycto – The Day Today

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Músiktilraunir : Askur Yggdrasils

Askur Yggdrasils var stofnuð í Janúar árið 2007 og hefur verið misvirk síðan þá en á síðustu misserum, eftir að hafa loks mannað sveitina, hefur gangur hennar verið á uppávið. Undanfarið hefur sveitin haldið tónleikar verið nær allar helgar og hafa m.a. troðið upp með Skálmöld, Wistaria, Earendel, Dánarbeði ofl. Askur Yggdrasils spilar tilkomumikið þjóðlagaþungarokk.

Askur Yggdrasils – The Cold Sea

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Mastodon á Roskilde 2011

Bandaríska þungarokksveitin Mastodon hefur staðfest komu sína á Hróarskelduhátíðina í sumar. Tilkynntu aðstandendur hátíðarinnar þetta í morgun en Mastodon heimsækir hátíðina í þriðja sinn nú í sumar. Hefur sveitin þá komið fram bæði árið 2005 og 2007 við frábærar undirtektir.

Hljómsveitin, sem stofnuð var árið 1999 í Atlanta, hefur sankað að sér feiknastórum aðdáendahóp fyrir tilraunakenndan harðkjarna og hafa plötur þeirra á borð við Leviathan (2004) og Blood Mountain (2006) fengið ótrúlega jákvæð viðbrögð.

Ásamt Mastodon bættist dauða-trash/metal sveitin Daath og ástralska harðkjarnasveitin Parkway Drive.
Ættu þetta að vera gleðifregnir fyrir aðáendur harðkjarnarokks og áhugamenn um þungarokk almennt og hlakkar Rjóminn til að þeyta flösunni á komandi Hróarskelduhátíð.

Swords of Chaos fara í tónleikaferð til Bandaríkjanna

Hljómsveitin Swords of Chaos leggur land undir fót í næsta mánuði. Leið liggur til Bandaríkja Norður Ameríku þar sem sveitin mun leika á nokkrum tónleikum. Fyrst um sinn í New York borg í New York fylki en heldur síðan í átt að miðríkjunum og leikur loks á tónlistarhátíðinni South by Southwest (SXSW 2011) í Austin, Texas. Slíkt kostar heilmikla fjármuni og því hefur hljómsveitin ákveðið að halda smá tónleika á Sódóma Reykjavík. Tónleikarnir verða haldnir fimmtudaginn 24. febrúar og hefjast kl. 20:00. Miðaverð eru litlar 1.000 kr. og rennur öll innkoma í ferðasjóð hljómsveitarinnar.

FM Belfast, Quadruplos, Muck og Orphic Oxtra munu leggja Swords of Chaos lið á tónleikunum og sjá um að hita mannskapinn áður en ameríkufararnir stíga á stokk.

Húsið onar klukkan 20:00 og kostar litlar 1000 kr. íslenskar inn.

Swords of Chaos – Nashkel Mines

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Útgáfutónleikar Endless Dark

Endless Dark ættu flestir að kannast við úr rokksenu landans þessi misseri en þessa unga sveit fór sem fulltrúi Íslands í Global Battle of The Bands hér um árið og hlaut þar 2.sæti. Hljómsveitin hefur unnið að EP plötu á öðru hundraðinu síðan þá en í millitíðinni hefur hún verið iðin við tónleikhald bæði hér heima og erlendis.
Sveitin lék ásamt nokkrum íslenskum sveitum á Eurosonic hátíðinni í Hollandi í ár og þótti skila sínu og meira en það. Sömuleiðis átti sveitin góðu gengi að fagna á Sonisphere rokkhátíðinni í fyrra.

Endless Dark áætlar að halda útgáfutónleika sína í tilefni EP plötu sinnar, Made of Glass, á Sódóma annað kvöld (19.febrúar) en tónleikarnir eru liður af svokölluðum Tvípunkti Rásar 2. Hljómsveitin kemur fram ásamt Helga Val klukkan 16.00 og eru tónleikarnir opnir öllum aldurshópum en kirkjuklukkan glymur síðar um kvöldið eða klukkan 22.00 þegar sveitin hyggst koma fram ásamt Blazroca og Helga Val.
Tvípunktar Rásar 2 eru áætlaðir einn laugardag í hverjum mánuði en næstir í röðinni eru Agent Fresco þann 19.mars nk.

Rjóminn hvetur rokkara sem rappara að líta við á Sódóma Reykjavík annað kvöld og athuga málið.

Skálmöld rokkar

Íslenska rokksveitin Skálmöld lék fyrir húsfylli sveittra unnenda rokksins á Paddy´s í Keflavík í gærkvöld. Skálmöld sendi frá sér frumburðinn Baldur þann 15.desember sl. og fékk platan feikigóða dóma í pressunni. Seldist fyrsta upplag plötunnar loks upp en platan er nú aftur orðin fáanleg fyrir þyrsta.

Skálmöld kom fram ásamt Wistaria, Dánarbeð, Mystic Dragon, Earendel og Ask Yggdrasils á Paddy’s í gærkvöldi og lék nokkur lög við góða undirtekt sveittra og æstra gesta. Fyrsta lag sveitarinnar (sem ég man ekki hvað heitir) vakti ekki mikla lukku hjá undirrituðum en bandinu óx ásmegin með hverri nótunni eftir það og hreif loks undirritaðan með sér í folk/víking-metal stemmingu sem samanstóð af vel útsettum söng og öruggum hljóðfæraleik. Kryddaði sveitin góðan fjölbreytileika í geiranum og sérstakur gestur, Aðalbjörn Tryggvason (Sólstafir) tók lagið með drengjunum. Afbragðs rokksjóv með tilheyrandi flösuþeytingu og pung.

Hljómsveitin heldur útgáfutónleika sína í Tjarnarbíói þann 24.febrúar nk. en uppselt er á þá tónleika. Hyggur sveitin þá í víking til Færeyja á G!Festival en einnig áætlar sveitin að koma frá á komandi Wacken hátíð. Sveitin ætlar þá að heiðra unnendur Baldurs með nærveru sinni á Eistnaflugi á Neskaupsstað í júlí. Skálmöld er einnig tilnefnd fyrir besta plötucover á Íslensku tónlistarverðlaunum í ár.

Plötuna Baldur má nálgast hjá vinum okkar á gogoyoko.com

Eistnaflug 2011

Aðstandendur rokkhátíðarinnar Eistnaflug 2011 hafa nú tilkynnt um forsölu miða á heimasíðu sinni Eistnaflug.is. Hátíðin fer fram á Neskaupsstað dagana 7. – 9.júlí nk.

Miðaverð í forsölu eru 9.000 krónur en eftirtaldar hljómsveitir hafa boðað komu sína á hátíðina 2011:

 • Agent Fresco
 • Alice in Chains (Tribute)
 • Ask The Slave
 • Atrum
 • Beneath
 • Benny Crespo´s Gang
 • Black Earth
 • Carpe Noctem
 • Celestine
 • Chao
 • Dánarbeð
 • Dimma
 • Dr.Spock
 • Eiríkur Hauksson
 • Elín Helena
 • Gone Postal
 • HAM
 • Hamferð
 • Innvortis
 • Mammút
 • Manslaughter
 • Momentum
 • Muck
 • Offerings
 • Plastic Gods
 • S.H. Draumur
 • Sakmóðigur
 • Secrets of The Moon
 • Skálmöld
 • Sólstafir
 • The Monolith Deathcult
 • Trassar
 • Triptykon
 • Witches

Það sem kitlar þó einna helst við þessa uppröðun sveita á heimasíðu hátíðarinnar er endurkoma hinnar stórkostlegu Brain Police. Eins og flestum er kunnugt sendi hljómsveitin frá sér tilkynningu hér um árið að hún væri hætt til óráðins tíma en nú geta aðdáendur bakaranna og rokkhundanna í Brain Police tekið gleði sína á ný og tekið stefnuna á Neskaupsstað þann 7.júlí nk. Virðist listinn þó ótæmandi af áhugaverðum hljómsveitum og dregur nærvera þessara sveita alla aldurshópa austur í sumar.

Rjóminn hvetur lesendur sína til að fylgjast grannt með gangi mála en Eistnaflug er orðin ein vinsælasta rokkhátíð landans og er um að gera að halda þroska og þróun hennar áfram til lengri tíma.

Ham á Nasa

Forsala er hafin á midi.is á tónleika Ham sem haldnir verða á Nasa föstudaginn 25. febrúar nk. Þar mun sveitin koma fram með sérstökum gestum – sem er ekki hljómsveit – heldur sérstakir gestir sem verða kynntir til leiks þegar nær dregur. Miðaverði er stillt í talsvert hóf eða 2.000 kr. í forsölu sem er ódýrara að en við hurð hvar miðinn kostar 2.500 kr. ef ekki verður uppselt löngu áður.

Ham þarf vart að kynna fyrir landsmönnum en sveitin hóf feril sinn árið 1988. Sveitin málaði bæinn rauðan með tónleikahaldi og krafti næstu ár, það eru ugglaust margir sem ósjálfrátt fara að hreyfa höfuðið í taktfastri sveiflu þegar þeir rifja um tónleika í Norðurkjallara MH eða á Duus húsi.

Stuttskífan Hold kom út árið 1988 og er hún fyrir marga hluti merkileg. Þar má finna lög eins og: “Hold”, “Svín”, “Auður Sif”, “Transylvanía” og “Trúboðssleikjari” en Hrafn Gunnlaugsson, sem þekktur er fyrir annað en tepruskap, bannaði sýningu myndbandsins í Ríkissjónvarpinu vegna ofbeldis. Buffalo Virgin kom út ári síðar og var stefnt á heimsfrægð. Þrátt fyrir hæfileika, frábært efni og síðast en ekki síst frábæra sviðsframkomu varð ekkert úr heimsfrægð Ham.

Aðrar plötur Ham eru Saga Rokksins 1988 til 1993, Dauður Hestur og tónleikaplöturnar: Ham lengi lifi, CBGB‘s 7. ágúst 1993 og Skert flog.

Hljómsveitin kom fram á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni sl. haust þar sem hún þótti fara á kostum og flutti m.a. 6 ný lög.

Ham – Transylvania

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Corey Taylor í Velvet Revolver

Nýlega fóru að heyrast orðrómar um að súpergrúppan Velvet Revolver hefðu ráðið til sín nýjan söngvara. Hinir ýmsu menn á borð við Myles Kennedy (Alter Bridge, Slash) og Sebastian Bach (Skid Row) báru á góma en nú hafa þeir Slash, Duff McKagan, Matt Sorum og Dave Kushner loks gefið það út að Corey Taylor úr Slipknot og Stone Sour fái það hlutverk að leggja barka sinn við bandið.

Velvet Revolver spruttu fram á sjónarsviðið árið 2004 með plötunni Contraband og endurtóku rokkhundalætin með plötunni Libertad árið 2007. Scott Weiland úr Stone Temple Pilots sá þá um barkasirkusinn en hljómsveitin ákvað að henda söngvaranum á dyr stuttu síðar en söngvarinn á langa og erfiða sögu tengda fíkniefnum og virðist ekki geta hamið sig í þeim efnum. Stone Temple Pilots ákváðu þá að henda frá sér breiðskífu en lítið hefur spurst til sveitarinnar í þónokkurn tíma.

Corey Taylor kemur sem fersk sprauta inn í Velvet Revolver en söngvarinn hefur ekki haft úr miklu að moða með hljómsveit sinni Slipknot undanfarin misseri en hefur þó verið duglegur með hliðarverkefninu Stone Sour. Spennandi verður að heyra og sjá þennan feikigóða rokksöngvara á meðal Guns N Roses mannanna en hljómsveitin hefur tilkynnt um útgáfu á árinu.

Gott combo??

Píanómetall á Sódómu 29. jan.

Laugardaginn 29. janúar verður boðið upp á óvenjulega tónlistarblöndu á tónleikastaðnum Sódómu Reykjavík.

Klassískt menntaði píanóleikarinn Vika Yermoleva, og trommarinn Brian Viglione (The Dresden Dolls) leiða þar saman hesta sína. Þau komust í samband á internetinu, og ákváðu að mætast miðja vegu milli heimalanda sinna tveggja, og koma fram í fyrsta skipti hér á Íslandi. Á efnisskránni eru klassískur metall eftir sveitir eins og Slayer, Pantera og Metallica, auk nýrra efnis. Af myndböndum af tvímenningunum á netinu að dæma verður boðið uppá sveittan píanómetal fram á nótt!

Vika Yermoleva – Fight Fire With Fire (Metallica piano cover)

Rehearsal with Brian and Vika

Mammút startar kvöldinu með einum af tvennum tónleikum þeirra hér á landi áður en þau spila ásamt fjölda íslenskra hljómsveita á by:Larm festivalinu í febrúar. Nýja platan þeirra er í lokavinnslu, fyrsti og síðasti sjens til að heyra nýtt efni áður en platan kemur út.

1000 kall inn. Húsið opnar klukkan 22:00 en tónlistin hefst á slaginu 23:00.

Ikea Satan

Ikea Satan spilar léttan satanískan blúsmetal og var að gefa út sína fyrstu smáskífu hjá litlu vinalegu útgáfunni Ching Ching Bling Bling. Smáskífan ber nafnið Sound of the planet og inniheldur þrjú lög. Hægt er að nálgast þau til hlustunar eða kaups inn á gogoyoko.com

Unnur Kolka (Rollan) trommar, Pétur Úlfur (Pornopop, Black Valentine, Peter and wolf etc.) syngur og leikur á gítar og nýlega bættist við Hannes Þór (Spírandi Baunir, Skorpulifur)á bassa.

Bandið var stofnað í fyrra. Við æfingar einn sumardag rann skipuleggjandi Eistnaflugs á hljóðið, heillaðist upp úr skónum og bauð sveitinni að leika á hátíðinni. Eftir þá ævintýraferð var ekki aftur snúið. Ikea Satan hefur haldið tónleika hér og þar en er nú að vinna efni fyrir stóru plötuna sem kemur út um miðjan mars.

Eins og glöggt má sjá á myndinni þá aðhyllist bandið heilbrigðan lífsstíl, stundar jóga þrisvar í viku og er undir áhrifum frá rithöfundinum Thomas Campbell (My Big TOE, Binaural Beats), lífskúnstnernum Terence McKenna (Psychedelic Drugs and their Role in Society) og rótaranum Steve Albini (Big Black). Eiga þau það til að vitna í þessa meistara og þeirra verk í textum sínum. Nema Hannes. Hann er lesblindur.

Ný plata frá Earth

Sumir þekkja tónlistarmanninn Dylan Carlson eingöngu út af haglabyssu. Byssan hafði ófyrirsjánleg (a.m.k. fyrir eiturlyfjafíkil með bullandi fráhvarfseinkenni) áhrif á rokksöguna eftir að Dylan seldi hana góðvini sínum og kollega, Kurt Cobain.

Sem betur fer verður hans þó ekki einungis minnst fyrir þessi sorglegu byssuviðskipti, heldur hefur hann í 22 ár haldið úti einhverju magnaðasta rokkbandi jarðarinnar (ég veit); Earth.

Earth eru frumkvöðlar stefnu sem nefnd hefur verið drone-metal (nið-málmur) eða drone-doom (dómsdags-niður), sem er minimalískt, geigvænlega þungt, hægt og oftast ósungið afbrigði af öfgarokki, einhvers konar þunga-framúrstefna. Tónlistarlegir afkomendur hljómsveitarinnar eru m.a. Sunn O))), Burning Witch, Nadja, og hin íslenska The Heavy Experience.

Ný plata frá Dylan og félögum kemur upp á yfirborð jarðar 7.febrúar og nefnist því epíska (og Earth-lega) nafni Angels of Darkness, Demons of Light I. Framhaldið: AoD, DoL II, á svo víst að koma seinna á árinu.

Platan á víst að vera undir áhrifum frá bresku þjóðlagakrökkunum í Fairport Convention sem og Malí-sku hirðingjunum í Tinariwen. Hún fylgir því líklega í fótspor snilldarverksins The Bees Made Honey in the Lion’s Skull frá 2008, sem var ekki jafn þung en á sama tíma mun þjóðlaga-, sýru- og jafnvel vestra-kenndari en fyrri verk. Hinn einkennandi heimsendafílíngur verður þó á sínum stað, ef fyrsta lagið “Old Black” gefur rétta mynd af skífunni.

Liðskipan hljómsveitarinnar er síbreytileg (fyrir utan Carlson) en núna skipa bandið sellóleikonanan Lori Goldstein (sem lék með Nirvana á sínum tíma), bassaleikarinn Karl Blau (sem er innvígður í K-útgáfumafíuna og hefur m.a. leikið með The Microphones/ Mt.Eerie og Lauru Veirs fyrir utan að spila sína eigin tónlist) og trommuleikkonan Adrienne Davies.

Earth – Old Black

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Deftones – Diamond Eyes

(Löngu tímabær dómur)

Útgáfurár: 2010
Label: Reprise/Warner Bros

Sjötta breiðskífa Deftones frá Sacramento er svo sannarlega ein af betri rokkplötum síðasta árs. Hljómsveitin snýr hér aftur eftir fjögurra ára fjarveru frá útgáfu en þeirra síðasta plata, Saturday Night Wrist, kom út á haustdögum árið 2006. Árið 2008 bárust fregnir um að hljómsveitin hefði klárað plötu. Platan hafði hlotið nafnið Eros og horfði hljómsveitin fram á útgáfu snemma árs 2009. Hljómsveitin ákvað að hætta við útgáfu og setja plötuna á hilluna þegar bassaleikari sveitarinnar, Chi Cheng, lenti í hræðilegu bílslysi seint árið 2008. Liggur Cheng víst enn í dái en þó er kappinn eitthvað að braggast.

Árið 2009 var lagst í tveggja mánaða vinnu í hljóðveri ásamt bassaleikaranum Sergio Vega og úr varð platan Diamond Eyes.

Diamond Eyes heilsar hlustanda með virkilega vænni sprengju. Eitt allra besta rokklag ársins 2010, Diamond Eyes, býður upp á það besta sem Deftones hefur fram að færa. Harka mætir melodíu og tilfinningaþrunginn er greinilegur. Hér má einnig finna fyrir nærveru Frank Delgado (hljómborðsleikara/plötusnúð sveitarinnar) mun meira en oft áður. Frábært stykki til að byrja rússíbanann.
Lögin Royal og CMND/CTRL henda manni aftur um nokkur ár og koma fyrri verk eins og Adrenaline (1995) og Around The Fur (1997) upp í hugann. Það er ekkert nema yndislegt. Chino Moreno leiðir hesta og gæsahúðin ætlar vart að láta undan.

You´ve Seen The Butcher er fjarkinn og með því besta á plötunni. Delgado er hér aftur ögn framar í mixinu en áður og grúvið og þunginn er brilliant. Týpísk gæsahúð og lagið virkar ótrúlega vel á tónleikum. Var þetta eitt af þeim sem stóð upp úr eftir tónleika sveitarinnar í Stokkhólmi í nóvember sl. Ekki skemmir myndbandið fyrir!

Deftones plata er ekki Deftones plata nema það komi smá grúv/rólegheit inn á milli. Í laginu Beauty School bremsar sveitin sig örlítið af og poppar sig ögn í mallann og Sergio Vega smyr bassann vel í  Prince og bæði lögin virka vel með sing-a-long viðlögum og allt í góðu grúvi (Verst hvað sænskir tónleikagestir geta verið latir og súrir).
Þunginn kraumar þó alltaf undir og fer Chino Moreno á kostum hér eins og annars staðar og félagarnir Stephen Carpenter (gítar) og Abe Cunningham (trommur) eiga erfitt með að valda vonbrigðum.

Fyrsta smáskífa plötunnar, Rocket Skates, róar ekkert niður og lætur hlustanda langa til að hoppa um sveifla höndum og hreinlega missa vitið í smástund (fínt i lyftingarsalinn fyrir þá sem vilja?). Viðlagið “Guns, razors, knives…fuck with me!” segir allt sem segja þarf og þó töluvert sé um endurtekningu í laginu skemmir það ekki fyrir.
Stuð og reiði í bland svæfa loks hlustanda í skýjaborgum og fegurð í laginu Sextape og minnir lagið ögn á meistaraverkið White Pony (2000). Einfalt og gott fyrir lokakafla þessarar brjálæðu plötu.

“This one´s for Chi!” kallaði Moreno í mækinn í Arenan í Stokkhólmi áður en sveitin renndi í níunda lag plötunnar, Risk. Hér talar Moreno beint til vinar síns og hljómsveitarfélaga Chi Cheng og lagið grúvar vel og textinn er þrælfínn og hreinskilinn. Sveitin er orðin gríðarleg sem hljómsveit á sviði og eftir að hafa ekki séð Deftones frá því á Roskilde 2006, ætlaði ég vart að trúa hvað sveitin datt í mörg gömul og góð og hvað allt hljómaði stórkostlega vel.

Diamond Eyes tekur lokasnúning með lögunum 976-Evil og This Place Is Death. 976-Evil er poppaðasta lag plötunnar og minnir gítar Carpenter dálítið á 90´s pop/rock stílinn í stað hans hefðbundna stíls. Ekkert skemmandi en þó rís lagið ekki mjög hátt og hverfur í skuggann. Falsettur Moreno og yfirvegun lagsins heillar þó án efa marga og þá sérstaklega kvenaðdáendur sveitarinnar að mínu mati.
Frank Delgado opnar This Place Is Death og nær lagið að binda vel fyrir þessa frábæru plötu. Líðandi grúv en líkt og 976-Evil rís lagið ekki eins hátt og forverar þess á plötunni og skilur hlustanda eftir þyrstan í meira en þó, sáttan við heildarverkið og meira en það.

Diamond Eyes er svo sannarlega besta verk Deftones í áratug. Hún státar af hörku Adrenaline, grúvi Around The Fur og mjúkri melodíu White Pony en færir einnig fram nýjar og spennandi stefnur. Eftir að hafa bæði kynnt mér plötuna í meira en hálft ár og séð sveitina lifandi á sviði seint á árinu, get ég með fullri samvisku sagt að þetta sé ein besta rokksveit okkar tíma og að þessi plata sé ein besta rokkplata ársins 2010. Út í búð, núna!

Einkunn: 4,5

Andkristnihátíð 2010

Andkristnihátíð er árleg þungarokkshátíð sem haldin hefur verið í Reykjavík frá árinu 2000. Engin þungarokkstónleikaröð hefur verið haldin lengur samfellt á Íslandi. Sigurður Harðarson, söngvari Forgarðs helvítis, Aðalbjörn Tryggvason og Guðmundur Óli Pálmason, meðlimir Sólstafa, stofnuðu hana. Kristnihátíð hafði verið haldin þá um sumarið og kostaði ríkissjóð mikið fé. Ýmislegt var umdeilt í kring um hana, svo Sigurði og Aðalbirni þótti við hæfi að „svara“ henni með því að halda tónlistarhátíð með þessu nafni.

Fyrsta hátíðin var haldin á Gauki á Stöng en hátíðin hefur tvisvar verið haldin undir öðru nafni, „Sólstöðuhátíð“ (2001 og 2006) (enda er hún vanalega haldin nálægt vetrarsólstöðum). Flestar hljómsveitirnar sem spila á henni spila dauðarokk eða svartmálm en aðrar þétt pönk, grindcore og ýmislegt annað.

Hátíðin verður nú haldin í tíunda sinn. Á vetrarsólstöðum þriðjudaginn 21. Desember, á Sódómu bar. Húsið opnar kl 21:00 og er aðgangseyrir litlar 500 kr. Kynningar- og söluborð verða til staðar frá hljómsveitunum sem og róttæk bókadreifing og -útgáfa.

Fram koma:

Skálmöld
Forgarður Helvítis
Gone Postal
Hylur
Otto Katz Orchestra

Öfgajólatónleikar

Þann 17. desember munu fjórar af öfgafyllstu öfgasveitum landsins í dag koma saman á tónleikum og byrja jólafríið með trompi, beint eftir próf. Tilvalinn vettvangur til að hrista úr sér prófastressið.

Logn
Landsins grimmasti kvartet með íhugandi texta. Crust, grind og metall sem hefur slípast með aukinni reynslu bandsins á sama tíma og tónlistin hefur orðið opnari og ákafari.

Muck
hefur á skömmum tíma orðið óútreiknanlegasta öfgasveit landsins. Áfergjan, sjálfseyðingarhvötin og vægðarleysið er hratt og órólega að finna sinn hljóðheim.

Gone Postal
halda áfram að opna nýjar dyr og fikra sig inn á nýjar slóðir á sínum eigin tíma og á sínum forsendum. “Nýja” lænöppið meira sannfærandi með hverju gigginu, meiri sorti og drungi en áður en ávallt brútal dauðarokk.

World Narcosis
Powerviolence og mulningsmetall sem á engan sinn líkan á Íslandi. Blast beats, örvænting og sjúkasti vókall sem heyrst hefur í háa herrans tíð.

Tónleikarnir verða haldnir á Kaffistofunni á Hverfisgötu 42 og kostar 800 krónur inn. Húsið opnar klukkan 19:30 og mun fyrsta hljómsveit stíga á svið klukkan 20:00. Einnig verða kökur og kakó í boði fyrir klink.

Hljómsveitirnar eru allar á fullu að vinna í útgáfum sem eru væntanlegar á fyrri hluta næsta árs og munu þær flytja efni af þessum útgáfum en það er aldrei að vita nema það heyrist eitthvað ennþá nýrra, jafnvel áður óheyrt efni. Ágóðinn af þessum tónleikum fer upp í útgáfukostnað sveitanna.

Skálmöld á Wacken 2011

Íslenska víkingametalsveitin Skálmöld mun leika á stærstu þungarokkshátíð heims, Wacken Open Air, næsta sumar. Aðstandendur hátíðarinnar tilkynntu þetta á heimasíðu Wacken, www.wacken.com, snemma í gærmorgun, en tilkynningin er liður í einskonar jóladagatali það sem nýr gluggi opnast daglega og ljóstrar uppi um eina hljómsveit sem koma mun fram. Skálmöld leyndist eins og áður sagði bak við glugga númer 7, en áður höfðu t.d. birst hljómsveitirnar Sepultura og Knorkator.

Wacken Open Air fer fram í Þýskalandi 4. til 6. ágúst og búist er við að um 80.000 manns sæki hana. Skálmaldarliðar, sem eru á leið í tónleikaferð til Svíþjóðar, eru að vonum hæstánægðir með þennan heiður, en þeir feta þarna í fótspor íslenskra hljómsveita á borð við Sólstafi, Beneath og Wistaria.

Hljómsveitin Skálmöld var stofnuð á haustmánuðum árið 2009. Sveitin spilar melódískt þungarokk í víkingastíl, og sækir innblástur í sagnaarfinn og goðafræðina, hefðbundinni bragfræði er gert hátt undir höfði og vandað er til verka. Meðlimir hafa verið lengi að í íslenskri tónlist og hafa verið viðloða hljómsveitir á borð við Ampop, Hraun, Klamedíu X, Innvortis og Ljótu hálfvitana, hér heyrast þó þyngri tónar en frá fyrri böndum. Fyrsta plata Skálmaldar hefur hlotið nafnið Baldur og rekur sögu víkings, allt frá því áður en hann missir allt sitt í árás, fjölskyldu, bú og land, til dauða og reyndar enn lengra. Eftir þessar raunir hefur hann aðeins eitt markmið, að hefna fyrir vígin og voðaverkin og fylgjum við honum eftir í þeim aðgerðum. Hvert lag plötunnar er því ómissandi hluti sögunnar og textarnir mjög svo mikilvægir. Enda þótt sagan um Baldur sé í raun ný skáldsaga eru í henni margar tilvísanir og minni í ætt við fornsögurnar og hina fornu goðafræði.

Platan Baldur kemur út 15. desember, og það er færeyska útgáfufyrirtækið Tutl sem gefur hana út.

Skálmöld – Árás

Deftones í blóði og….bókum?

Í síðasta mánuði spratt glænýtt myndband fram frá hljómsveitinni Deftones. Myndbandið er við lagið You´ve Seen The Butcher af plötunni Diamond Eyes sem út kom í maí síðastliðinn og sýnir meðlimi rokka þungan á gömlu bókasafni í fylgd þokkadísa. Bækurnar fljúga og fyrr en varir syndir hljómsveitin í blóði ásamt fáklæddum stúlkum. Lagið er þriðja smáskífa plötunnar en undanfarar voru lögin Rocket Skates og Diamond Eyes.

Væntanleg er ítarleg umfjöllun um plötuna sem og umfjöllun um tónleika Deftones í Stokkhólmi næstkomandi mánudag.

Fylgist með hér á Rjómanum!

Swords of Chaos leika fyrir dansi

Swords of Chaos munu halda tónleika á Hemma & Valda við Laugaveg næstkomandi fimmtudag kl. 22:00. Hljómsveitin Loji hitar upp og það er frítt inn. Hægt verður að kaupa plötur og boli.

Swords of Chaos gáfu nýverið út plötuna The End is As Near As Your Teeth við góðan orðstír. Hljómsveitin hefur þó ekki getað verið eins iðinn við tónleikahald og aðdáendur hafa átt von á vegna flakks bassaleikarans um heim allan, en Úlfur Hansson plokkar bassann fyrir Jónsa á alheimstúr hans. Úlfur er þó í stuttu stoppi hér á landi þessa dagana áður en hann heldur af stað aftur til Evrópu og Japan og því var ákveðið að henda í þessa tónleika með mjög skömmum fyrirvara. Tónleikarnir eru einnig hugsaðir sem ákveðið mótefni við yfirkrútti hljómsveitarmeðlima, en Úlfur Alexander, söngvari sveitarinnar, leikur eins og kunnugt er með Útidúr. Kunnugir segja að það sé eins og að Gulli Falk myndi ganga til liðs við Amiinu.