Rokk Innrásin

Dagana 25 Júní til 4. Júlí munu sveitirnar Nögl, Endless Dark, At Dodge City & Gordon Riots fara á tónleikaferðalag um landið. Túrinn hefur fengið nafnið Rokk Innrásin og er studdur af Kraumi tónlistarsjóð, en stuðningur Kraums við tónleikahald innanlands er hluti af Innrásar-átakinu. Viðkomustaðir eru: Reykjavík, Grundarfjörður, Ísafjörður, Keflavík, Sauðakrókur og Egilstaðir. Auk sveitanna fjögurra munu heimamenn á hverjum stað spila og verða til dæmis Sigurvegarar músiktilrauna Bróðir Svartúlfs með á tónleikunum á Sauðakróki.

Rokk Innrásin hefst á fimmutdaginn kemur (25.06.09) með tónleikum á Dillon Rockbar Laugavegi. Hefjast tónleikarnir klukkan 20:00 og ekki kostar nema 500 kall inn.

Nögl með tónleika í kvöld á Bar 11

NöglHljómsveitin Nögl ætlar að hita upp fyrir viðburðaríkt sumar með tónleikum á Bar11 í kvöld. Sveitin mun túra um allt landið en í lok sumars mun hún fara til Bandaríkjanna, þar sem hún kemur fram á sex tónleikum. Má rekja þessa ferðagleði hljómsveitarinnar til þess að fyrsta platan hennar er væntanleg í næsta mánuði og hefur hún hlotið titilinn I Proudly Present.

Strákarnir í Nögl eru búnir að æfa á fullu upp á síðkastið og ætla nýta þetta kvöld til þess að kynna nýjasta Naglar meðliminn. Þeir fengu böndin Cosmic Call og Missing til þess að vera með sér og það kostar ekkert inn.

Tónleikarnir byrja kl 22 og hvetjum við fólk til þess að mæta enda má búast við hörkustuði.

Daath – The Concealers

Einkunn: 4,0
Útgáfuár: 2009
Útgáfa: Roadrunner/Century Media

The ConcealersÞað er allt of sjaldgæft að manni berist til eyrna þunga- eða dauðarokk sem er þess virði að segja frá. Platan sem hér um ræðir kemur því eins og ferskur andblær ofan í þann fúla drullupytt sem þessar tónlistarstefnur eru sokknar í.

The Concealers er þriðja stóra plata suðuríkjametalsveitarinnar Daath en hún hefur getið sér góðs nafns fyrir fjölbreyttan stíl sinn og nánast óaðfinnanlega spilamennsku. Sveitin var stofnuð um mitt ár 2003 og rúmu ári seinna gaf hún út, á eigin vegum, sína fyrstu plötu sem nefnist Futility. Rúmum þremur árum seinna gera liðsmenn Daath samning við hið goðsagnakennda þungarokkslabel Roadrunner Records og gefa í kjölfarið út plötuna The Hinderers en á henni sá sjálft gítargoðið James Murphy (Obituary, Death, Testament) um upptökustjórn.

Stuttu eftir útgáfu The Hinderers gætti mikils ósættis innan raða Daath og urðu málalok þau að söngvari (ef mér leyfist að nota það orð) sveitarinnar yfirgaf sveitina. Einhverjar mannabreytingar hafa einnig orðið í bandinu nýlega þó mér sé ekki kunnugt hvort viðkomandi aðilar hafi náð að spila á plötunni sem hér er til umræðu eður ei.

Snúum okkur nú að efninu. Ef fjölbreytni, óaðfinnanleg spilamennska, kristaltært sánd, melódísk, frumleg og tæknilega fullkomin riff er það sem þú leitar að þá er þessi plata einmitt fyrir þig. Hér er boðið uppá sannkallað þungarokks hlaðborð enda úir og grúir af ólíkum stefnum og straumum sem sveitinni tekst að bera fram sem nánast fullkomna heild.

The Concealers inniheldur allt sem þungarokkarinn gæti óskað sér, allt frá rafrænum industrial málmi að hætti Rammstein yfir í hömlulaus blackmetal. Strangt til tekið spila Daath það sem kallað er “groove metal” eða “modern metal“, stefna sem sveit eins og Lamb of God eru hvað þekktust fyrir. Málið er þó ekki svo einfalt því liðsmenn Daath flakka áreynslulaust frá yfirlýstri eða einkennandi stefnu sinni yfir í dauðarokk af gamla skólanum og þaðan yfir þær stefnur tvær sem ég nefndi hér að ofan. Inn á milli má svo jafnvel greina smávægilegar skírskotanir í thrashmetal og hreint og klárt rokk og ról.

Það eina sem kemur í veg fyrir að manni finnist maður hafa hér hina fullkomnu þungarokksplötu í höndunum er einhver nagandi tilfinning að, þó allt sé hér eins og best verði á kosið, þá eigi liðsmenn Daath enn meira inni en þeir bjóða upp á hér. Ég get ekki losað mig við þann grun að sum lögin, og jafnvel platan í heild, hefði getað orðið svo miklu betri en hún er.

En hverju sem því líður þá er hér, að mínu mati, ein besta þungarokksplata ársins sem enginn sannur metalhaus ætti að láta fram hjá sér fara.

Daath – The Unbinding Truth

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Dordingull 10 ára

DordingullHeimasíðan www.dordingull.com hélt upp á 10 ára afmæli sitt þann 23. mars. Fyrir 10 árum var vefsetrið www.dordingull.com stofnað í þeirri von að láta bera meira á íslenskri rokk tónlist, hvort sem er innanlands eða erlendis.  Síðunni var vel tekið af íslenskum rokkurum sem áttu þar loksins sér samstað á netinu og fólk sem undir venjulegum kringumstæðum hefði ekki hist myndaði í gegnum vefinn vináttubönd sem staðið hafa í mörg ár.

Fyrir hinn venjulega rokkunnenda var oft erfitt kynnast íslenskri rokktónlist og í kjölfarið að komast að hvar og hvenær tónleikar voru í vændum.  www.dordingull.com var því sett saman til þess að kynna Íslenskar hljómsveitir og einnig til þess að vera upplýsingasíða fyrir alla hina. Með öflugu spjallborði (taflan.org) og virku veftímariti (hardkjarni.com) var takmarkinu náð.  Í gegnum árin hefur www.dordingull.com vefurinn náð langt út fyrir einfaldan upplýsingavef, þar sem aðilar á vegum síðunnar hafa unnið að útgáfu, tónleikahaldi, grafískri vinnslu og í rauninni allri mögulegri aðstoð sem hægt er að veita íslenskri rokk menningu.

Síðunni hefur verið vel tekið öll þessi 10 ár og fjölbreyttir notendur hafa gefið henni líf.  Væntanlegar eru viðbætur sem munu styrkja og efla Harðkjarna og von er á fleirum nýjum hljómsveitasíðum í viðbót við aukinn stuðning við hljómsveitir sem vilja koma sér á framfæri. Í vinnslu eru stuttir vefsjónvarpsþættir tileinkaðir Íslensku rokki í viðbót við fjöldann allan af minni og áhugaverðum verkefnum. Framtíð síðunnar er björt og mun hún halda áfram að þróast um ókomna tíð.

Í tilefni afmælisins verða haldnir 2 tónleikar:

10 ára afmælis tónleikar – dordingull.com (fyrri hluti)
Föstudagurinn 27. mars – hefst klukkan 20:00 (húsið opnar 19:30)
800 kr – Fyrir alla aldurshópa
TÞM, Hólmaslóð 2

Fram koma:

Dys
Andlát
Changer
Beneath
Logn

10 ára afmælis tónleikar – dordingull.com (seinni hluti)
Laugardagurinn 28. mars – hefst klukkan 22:00
800 kr – 20 ára aldurstakmark
Sódóma, Tryggvagata 22

Fram koma:

Brain Police
Skítur
In Siren
Gordon Riots

Sólstafir – Köld

Einkunn: 4,0
Útgáfuár: 2009
Label: Ranka Recordings

SólstafirHér er komin þriðja breiðskífa Sólstafa og ber hún heitið Köld. Þessi lítt þekkta íslenska sveit (utan þungarokkssenunnar) hóf feril sinn á frekar hefðbundinn hátt sem svartmálmssveit en tók síðan að blanda hinu og þessu saman við, t.d. einhvers konar áhrifum frá bæði Motörhead og Mogwai. Einnig mætti nefna það að sumir hafa viljað líkja Sólstöfum við blöndu af Sigur rós og Darkthrone, hversu rökrænt sem það kann að hljóma. Það er hreint ekki svo auðvelt að koma böndum á Sólstafi með skilgreiningum og flokkunum en sjálfur hef ég samt sem áður kosið að kalla tónlist Sólstafa epískt kúrekarokk.

Þetta furðulega hugtak „epískt kúrekarokk“ finnst mér einmitt fanga stemmningu þessarar plötu, því þetta eru tvö helstu þemu plötunnar. Epíkin og rík og atmosferísk hljóðumhverfi eru gegnumgangandi en einnig kúrekastemmning og áhrif frá klassísku rokki sem og pungarokki að hætti Motörhead. Fyrsta lag plötunnar, „78 Days in the Desert“, er gott dæmi um þetta. Lagið er rúmlega átta mínútna epískt sönglaust lag eins og það gerist best hjá Sólstöfum, fangar kúrekatilfinninguna á epískan hátt og gerir afskaplega vel sem upphafslag plötunnar því það skilgreinir hana. Þarna mætast annars vegar epísk gerð af klassískum rokklögum og hinsvegar ríkt og náttúrulegt andrúmsloft sem minnir á vegferð um sanda Suðurlands á sólbjörtum degi. Kúreki ekur götuna í hitamollunni með sólgleraugu en í stað amerískrar eyðimerkur blasa við út um bílgluggann stórbrotnir jöklar sem sitja mikilfenglegir á hásæti sínu.

Svo maður hlaupi yfir nokkur önnur góð lög mætti nefna titillag plötunnar sem er nokkurs konar blanda af eðal svartmálmsslagara og jarðarfararsálmi að hætti Sigur Rósar. Lagið er  tilfinningaríkt og -sterkt og þar hjálpar til að textagerð er á íslensku. Annað áhugavert lag er „She Destroys Again“ sem fangar kúrekastemmninguna en minnir einnig framan af á það ef hljómsveitin Ensími færi að spila svartmálm. Sem fyrr koma áhrifin á tónsköpun Sólstafa víða að eins og vel heyrist á þessu lagi.

Fyrri hluti plötunnar er mestmegnis innan þessarar stemmningar og á útopnu en seinni hlutinn er að mestu innhverfari og íhugulli. Mætti þar t.d. nefna „World Void of Souls“ sem minnir einna helst á hljómsveitina Godspeed You! Black Emperor. Seinni hluti plötunnar er almennt í rólegri kantinum miðað við þann fyrri og nær heldur ekki alveg sama flugi í lagasmíðum ef frá er talið eina lagið í seinni hlutanum sem ekki er á rólegu nótunum, „Love is the Devil (and I am in Love)“. Það er aukinheldur langstysta lag plötunnar, innan við fimm mínútur að lengd og fetar að mestu slóð hefðbundins rokks og brýtur ágætlega upp seinni hlutann. Rólegri lög seinni hlutans eiga sér ágætan efnivið en missa eilítið marks og þá aðallega fyrir aðeins of langar útsetningar þó að ákveðnir kaflar inni á milli séu til fyrirmyndar.

Í það heila er þetta virkilega góð plata, frumleg og í rauninni einstök, þó að hún endi hinsvegar ekki jafn vel og hún byrjar.