Lay Low – Tónleikar, nýtt myndband og smáskífa

Lay Low fagnar nýrri smáskífu og myndbandi með tónleikum á Café Rósenberg laugardaginn 3. maí nk. Lay Low sendi nýverið frá sér plötuna Talking About the Weather á Íslandi. Nú gefur hún út lagið “Our Conversation” alþjóðlega ásamt nýju myndbandi sem er unnið í Berlín með Rut Sigurðardóttur og Dalia Catel. Myndbandið má sjá hér að ofan.

Lay Low heldur til Bretlands eftir þessa tónleika þar sem henni hefur verið boðið að koma fram á DayTrotter.com sem er vinsæl vefsíða með tónleikatökum af listmönnum.
Lay Low leikur síðan á tvennum tónleikum í London auk þess að koma fram á tvennum tónleikum á Great Escape hátíðinni í Brighton. Útgáfa smáskífunnar er liður í að undirbúa alþjóðlega útgáfu á Talking About the Weather í haust og kemur út 1 maí.

Tónleikarnir á laugardaginn hefjast klukkan 21.30 og munu þau spila eldra efni í bland við það nýja.

Miðar fást á www.midi.is og kosta 1900 krónur

CeaseTone – Remedy

Hér gefur að líta glænýtt efni frá CeaseTone en það er listamannsnafn Hafsteins Þráinssonar. Hingað til hefur Hafsteinn komið fram einn með kassagítarinn en hefur nû bætt við sig hljóðfæraleikurum til að aðstoða sig við að flytja tónlist sína á sviði. Búast má við fjölda tónleika CeaseTone í sumar að sögn Hafsteins.

Einnig mun stefnan sett á hljóðversdvöl til að vinna að nýrri plötu sem mun verða fyrsta útgáfa CeaseTone.

Sigga Eyrún – Lalíf

Eftir öll þessi ár hlaut að koma að því að einhver færði hið stórgóða lag Kjartans Ólafssonar, sem hann flutti með Smartbandinu á níunda áratugnum, í nýjan búning. Hér flytur tónlistarkonan Sigga Eyrún það í nýrri stórgóðri útsetningu. Lagið er af væntanlegri breiðskífu hennar Vaki eða sef.

Karl Olgeirsson leikur á öll hljóðfærin í laginu fyrir utan trommur sem voru í umsjá Sigtryggs Baldurssonar.

Ásgeir gefur út 7″ í tilefni Plötubúðadagsins

Ásgeir Record Store Day 7"

Plötubúðadeginum (Record Store Day) verður víða fagnað næst komandi laugardag, 19. apríl. Tónlistarmaðurinn Ásgeir ætlar ekki að láta sitt eftir liggja og gefur út 7″ myndavínyl með laginu “Here it Comes”, enska útgáfu af laginu “Nú hann blæs” sem frumflutt var í þættinum Stúdíó A á RÚV. Lagið er eftir Ásgeir Trausta en textann á Örvar Þóreyjarson Smárason, betur þekktur sem Örvar í múm. Ábreiða Ásgeirs af laginu “Heart-Shaped Box” með Nirvana skipar svo B-hliðina. Ásgeir tók sinn snúning á laginu fyrst í útvarpsþætti Dermot O’Leary á BBC Radio 2. Útgáfan vakti strax mikla lukku og var Ásgeir síðar beðinn um að gefa það út. Lagið var tekið upp í Hljóðrita en nýlegt stúdíómyndband við lagið má sjá hér að neðan.

Ljósmyndina sem prýðir vínylinn tók Jónatan Grétarsson en Snorri Eldjárn Snorrason hannaði útlit. Upptökum stjórnaði Guðmundur Kristinn Jónsson.

Vínyllinn kemur út í takmörkuðu upplagi og er fáanlegur í þeim plötubúðum sem taka þátt í Plötubúðadeginum. Verslanirnar er að finna á heimasíðu Record Store Day.

Ný plata væntanleg frá Epic Rain

Epic Rain

Epic Rain hefur nú lokið við nýjustu plötu sveitarinnar sen nefnist Somber Air sem kemur út bæði á vinyl og á geisladisk í lok apríl.
Lucky Records sá um framleiðslu á plötunni í samvinnu við Epic Rain.

Epic Rain er ný komn frá Frakklandi þar sem sveitin spilaði á nokkrum tónleikum og gerðu samning við tónlistarhátíð í Caen er nefnist Les Boréales, eða Festival of the lights.

Hér má sjá myndband frá tónleikum Epic Rain í París á festival Chorus 4.apríl síðastliðinn.

Næst á dagskrá hjá Epic Rain er að spila á nokkrum tónleikum í Berlín í byrjun Maí. Þar koma þeir fram meðal annars á Extreme Chill Showcase Festival sem er í umsjá Pan Thorarensen og spila þeir svo einnig á stórri hátíð er nefnið Xjazz festival þar sem fleiri íslensk bönd koma fram.

Epic Rain er einnig að vinna í því að spila með stóru bandi á Iceland Airwaves hátíðinni í ár sem verður mjög skemmtilegt að sjá.

Somber Air verður gefin út í nokkrum eintökum á hinum alþjóðlega Record Store Day sem verður laugardaginn 19.apríl og mun sveitin spila í plötubúðinni Lucky Records, við Rauðarárstíg, við það tækifæri.

Hér að neðan má sjá nýjasta myndband sveitarinnar við lagið “Nowhere Street” er kom út í lok nóvember og er að finna á væntanlegri plötu þeirra.

Iceland Airwaves kynnir fleiri listamenn

Skipuleggjendur Iceland Airwaves tilkynntu nú í morgunsárið fleiri listamenn sem fram koma á hátíðinni í ár. Hátíðin verður haldin í sextánda sinn í ár, dagana 5. til 9. nóvember og er undirbúningur í fullum gangi. Miðasalan er hafin á heimasíðu Iceland Airwaves.

Af þeim listamönnum sem bætast við föngulegan hópinn ber helst að nefna The War on Drugs, Caribou og Future Islands, en myndband af flutningi þeirra á laginu “Seasons (Waiting On You)” í þætti David Letterman hefur vakið mikla athygli á netinu undafarið. Það er best að láta umrætt myndband fylgja með og ylja sér við tilhugsunina að fá að sjá þessa snillinga stíga á stokk í vetur.

Þeir listamenn sem nú bætast við listann eru:

 • The War on Drugs (US)
  Sveitin sú mun loka hátíðinni ásamt Flaming Lips sunnudaginn 9. nóvember.
 • Caribou (CA)
 • Future Islands (US)
 • Oyama
 • Farao (NO)
 • Kaleo
 • Zhala (SE)
 • Spray Paint (US)
 • Rökkurró
 • Emilie Nicolas (NO)
 • Endless Dark
 • Kippi Kaninus
 • King Gizzard & The Lizard Wizard (AU)
 • Brain Police
 • Beneath
 • Þórir Georg
 • Fufanu
 • Epic Rain
 • Skurken
 • AMFJ
 • Kontinuum
 • Ophidian I
 • Var
 • Atónal Blús
 • Mafama
 • Vio
 • Lucy in Blue
 • Conflictions

Kimono vantar hjálp ykkar að endurútgefa plötur þeirra á vínyl

Kimono

Til að fagna 13 ára afmæli sínu ætlar hljómsveitin Kimono að endurútgefa á vínyl plöturnar Mineur-Aggressif (2003), Arctic Death Ship (2005) og Easy Music for Difficult People (2009). Til að útgáfan verði að veruleika óskar sveitin eftir aðstoð aðdáanda sinna og tónlistarunnenda víðsvegar og hefur hún farið af stað með forsölu-herferð til að hjálpa til við að framleiða og dreifa plötunum. Hver plata kemur í takmörkuðu upplagi og verður endurhljóðjöfnuð (re-mastered) og pressuð á glæsilegan 180 gr. vínyl í númeruðum tvöföldum (gatefold) hulstrum. Hver plata mun innihalda listaverk í sérstakri útgáfu, þar á meðal einstakar myndir frá Hugleiki Dagssyni og textablöðum inni í albúminu.

Nánari upplýsingar um forsöluherferðina má finna á vefsíðunni Karolinafund.

Umræddar plötur má heyra í heild sinni hér að neðan:

Nýtt myndband Urban Lumber

Hljómsveitin Urban Lumber sendi í gær frá sér sitt annað tónlistarmyndband við lagið “Up To The Sky”.

Myndbandið var tekið upp á fallegum sumardegi 2013 rétt fyrir utan Reykjavík og einnig hjá framleiðslufyrirtækinu Tjarnargötunni í janúar 2014. Fengin var til liðs fyrirsætan Brynja Jónbjarnardóttir, en hún leikur hlutverk í myndbandinu, ásamt Þóri Ólafssyni.

Fengu þau að rústa tölvum, sjónvörpum, tölvuskjám og fleirri hlutum í slow-mo og háskerpu, eins og má sjá í myndbandinu.

Myndband frá útgáfutónleikum Rúnars Þórissonar

Meðfylgjandi er upptaka frá útgáfutónleikum Rúnars Þórsissonar í Iðnó þann 20. febrúar síðastliðinn. Lagið sem Rúnar flytur hér ásamt dætrum sínum og gangverki Pollapönks heitir “Fugl” og er að finna á nýlegri plötu Rúnars sem nefnist Sérhver Vá.

Þess má að lokum geta að Rúnar, ásamt hljómsveit, mun koma fram á Bar 11 þann 5. apríl næstkomandi.

Nýtt lag og myndband frá Contalgen Funeral

Í október á seinasta ári fór Contalgen Funeral í stúdíó og tók upp nokkur lög „live“. Fyrr á þessu ári var leikurinn endurtekinn og út er komið fyrsta lag af væntanlegri plötu sem tekin er upp með þessum hætti. Lagið nefnist „Killer Duet“ og var tekið upp af Fúsa Ben í Stúdíó Benmen. Hjá liggur myndbandsupptaka en myndbandsvélin rúllaði á meðan lagið var æft og tekið upp.

Contalgen Funeral gaf út sína fyrstu plötu, Pretty Red Dress árið 2012. Bandið hefur spilað víða síðan, m.a. á Bræðslunni, Gærunni, Blúshátið í Reykjavík og á Airwaves.

Nýtt lag og myndband frá Ben Frost

Bedroom Community vinna nú að útgáfu nýrrar plötu með Ben Frost og kallast hún A U R O R A. Platan er gefin út á heimsvísu þann 26. maí næstkomandi í samstarfi við Mute útgáfufyrirtækið.

A U R O R A er fyrsta sólóplata Ben síðan BY THE THROAT (2009), en hún hlaut frábærar viðtökur og hefur nýju sólóefni frá Ben verið beðið með mikilli eftirvæntingu síðan.

A U R O R A er einstaklega metnaðarfull plata sem sýnir nýja og spennandi hlið á Ben. Hún var að miklu leiti tekin upp í Kongó en auk Ben eru hljóðfæraleikarar hennar þeir Shahzad Ismaily, Greg Fox (Liturgy) og Thor Harris (Swans). Um pródúseringu sáu Ben ásamt Valgeiri Sigurðssyni, Daniel Rejmer og Paul Corley.

Að ofan má sjá fyrsta myndband í seríu sem unnin var af Trevor Tweeten og Richard Mosse.

Guðjón Óskar – I Know

Guðjón Óskar

Guðjón Óskar nefnist ungur lagasmiður sem nýlega gaf út sín fyrstu lög. Er hann nýfluttur til landsins aftur eftir dvöl í London þar sem hann var í tónlistarnámi.

Fyrstu tvö lög Guðjóns Óskar heita “I know” og “White lies” og hljóma þau hér að neðan.

Guðjón Óskar er á fullu í upptökum þessa dagana og má búast við fleiri lögum þegar á líður. Öll lögin eru tekin upp í Bakarí Hljóðveri og sá Sindri Þór Kárason um að stýra upptökum. Einnig er Guðjón Óskar með úrvalslið hljóðfæraleikara með mér í för.

Ný plata frá Skakkamanage

Laugardaginn næstkomandi, þann 1. mars, gefur hljómsveitin Skakkamanage út sína þriðju hljómplötu. Hún heitir Sounds of Merrymaking.

Hljómsveitin Skakkamanage var stofnuð árið 2004 og eftir hana liggja plöturnar Lab of Love frá 2006 og All Over The Face frá 2008. Auk þess nokkrar smáskífur, jólaplata og sjötomma.

Í ársbyrjun 2009 fór að fjara undan sveitinni. Forsprakkar sveitarinnar, þau Svavar og Berglind, bjuggu þá á Seyðisfirði þar sem Svavar samdi flest lögin, en þau fluttu til Reykjavíkur um haustið og stofnuðu menningarafurðastöðina Havarí.

Þegar lítið var um að vera í Havarí fór Svavar niður í kjallara og hóf að hljóðrita lögin. Þormóður Dagsson kom og lék á trommur og Berglind söng og lék á hljómborð. Sú vinna átti sér stað með hléum þar til Gunnar Örn Tynes úr múm tók verkið yfir og hófst handa við að hljóðblanda og pródúsera.

Pétur Már Gunnarsson og Þórunn Hafstað hafa gert myndband við lagið “Free from Love”, sem sjá má hér að ofan, en þau sátu einmitt fyrir á umslaginu á All Over the Face.

Unnur Sara Eldjárn sendir frá sér sitt fyrsta lag

Tónlistarkonan Unnur Sara Eldjárn hefur sent frá sér sitt fyrsta lag, ásamt myndbandi, en það heitir “Sama hvað”. Tónlist Unnar má lýsa sem draumkenndu poppi undir áhrifum frá jazz og þjóðlagatónlist og er, ef dæma má af laginu hér að ofan, bæði angurvær og heillandi.

Með Unni spila þeir Bragi Þór Ólafsson og Benjamín Náttmörður Árnason á gítar, Ingibjörg Elsa Turchi á bassa og Elías Bjartur Einarsson á trommur.

Myndbandið var unnið af Leikhópnum Svavari en handrit og leikstjórn var í höndum Vilhelm Þórs.

Heyrið nýjustu plötu Benna Hemm Hemm í heild sinni

Eliminate Evil, Revive Good Times heitir nýjasta og fimmta plata Benna Hemm Hemm en hún er væntanleg í búðir á allra næstu misserum. Benni er gjafmilt ljúfmenni hið mesta og býður hann aðdáendum sínum að hlíða á plötuna í heild sinni alveg gratis. Platan hljómar hér að neðan en einnig fylgir með glænýtt myndband frá Hemma við lagið “Lucano & Ramona”.

Lucano & Ramona by Benni Hemm Hemm from Benni Hemm Hemm on Vimeo.