Nýtt myndband frá UMTBS

“Babylo”n er nýjasta afurð Ultra Mega Technobandsins Stefáns af rétt óútkominni plötu sem hlotið hefur nafnið ! og er jafnframt önnur plata sveitarinnar. Mun platan vera væntanleg í lok mánaðarins.

Arnór Dan úr Agent Fresco syngur með UMTBS að þessu sinni og var myndbandið tekið upp í Flórens á Ítalíu en Unnar Ari sá um leikstjórn og klippti.

Platan ! verður frumflutt í heild sinni í fyrsta sinn í hlustendapartý sem haldið verður á skemmtistaðnum Harlem fimmtudaginn 24. október næstkomandi.

múm sendir frá sér nýja breiðskífu

Hljómsveitin múm sendir frá sér sína sjöttu breiðskífu föstudaginn 6. september. Platan heitir Smilewound og inniheldur rafpopplög í knöppum stíl. Það er þýska útgáfan Morr Music sem gefur út, en Smilewound er fyrsta plata múm sem einnig kemur út á kassettu og er það Blood and Biscuit útgáfan sem fjölritar spólurnar. Aukalag á Smilewound er lagið “Whistle” sem múm hljóðritaði með hinni áströlsku Kylie Minogue.

Hljómsveitin mun fylgja plötunni eftir með tónleikaferð um Evrópu í haust, en í sumar spilaði múm á nokkrum tónlistarhátíðum og fór meðal annars í hljómleikaferðalag til Asíu. Þau munu sömuleiðis koma fram á íslensku tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves í lok október.

ATP upphitun á Kex Hostel í kvöld

Tónlistarhátíðin ATP Festival fer fram um komandi helgi og KEX Hosteli fannst tilvalið að hita upp fyrir tónleikana með smá kvikmyndasýningum og tónleikum. Upphitun fer fram í kvöld á KEX Hostel en þar verða þrjár kvikmyndir sýndar ásamt því að Snorri Helgason mun halda tónleika.

Kvikmyndirnar sem verða sýndar hafa verið sérstaklega valdar af þeim listamönnum sem koma fram á hátíðinni. Þær eru:

Koyannisqatsi (1982)
Koyannisqatsi er einskonar heimildarmynd og sjónrænir tónleikar við tónverk eftir Philip Glass. Myndin er í raun samansafn mynda hvaðanæva að úr heiminum og mun breyta sýn áhorfandans á heiminn.

Au Hasard Balthazar (1966)
Au Hasard Balthazar fjallar um asnann Baltazar og erfiða ævi hans. Samhliða sjáum við sömuleiðis líf stúlkunnar sem nefndi hann en líf þeirra beggja er samtvinnað.

Repo Man (1984)
Repo Man fjallar um ungan mann sem gerist innheimtumaður og undarleg ævintýri hans í því starfi.

Dagskrá:

GYM & TONIC
17:00 – Koyannisqatsi (Valin af Valgeiri Sigurðssyni)
18:40 – Au Hasard Balthazar (Valin af Chelsea Light Moving)
20:30 – Repo Man (valin af Thee Oh Sees)

KEX RESTAURANT
22:15 – Snorri Helgason flytur tónlist sína

Nýtt lag og myndband frá Umma

Önnur breiðskífa listamannsins Umma Guðjónssonar mun líta dagsins ljós á næstu vikum og í tilefni af því hefur hann gefið út myndband við fyrstu smáskífu plötunnar,
“Bergmálið”.

Myndbandið var tekið upp á heimaslóðum Umma við strendur Djúpavogs í maí 2013 og fangar náttúru staðarins einkar vel.

„Með kvikmyndavél, einn gítar og heimaprjónaða lopapeysu frá mömmu að vopni var haldið út í veðrið og um það bil þremur klukkustundum síðar var allt myndefnið komið í hús. Undanfarnir dagar hafa svo farið í að klippa allt efnið saman og er útkoman myndband sem ég er virkilega stoltur af“, sagði Ummi um myndbandið sem leikstýrt var af Paul Arion, góðvini hans sem starfar í kvikmyndaiðnaðinum.

Nánar verður tilkynnt um útgáfu nýju breiðskífunnar á næstu dögum á ummig.com

Bellstop sendir frá sér breiðskífuna Karma

Dúóið Bellstop, sem samanstendur af þeim Elínu & Rúnari, hefur nú gefið út plötuna Karma en lagið “Trouble” hefur hljómað víða undanfarnar vikur og myndbandið við lagið hefur vakið mikla athygli.

Karma iniheldur 12 frumsamin lög sem tekin voru upp hjá Halldóri Björnssyni í Studio Neptunus, Hafnarfirði.

Karma verður dreift á Íslandi af Kongó ehf í allar helstu verslanir en verður einnig fáanleg á vefsíðu sveitarinnar, www.bellstop.is

Við dreifingu Karma hefur verið bryddað uppá nýbreytni. Í nokkrum eintökum, bæði rafrænum og órafrænum hefur verið komið fyrir óvæntum glaðningum frá Bellstop: póstkortum, veggspjöldum, handskrifuðum textum við lögin og síðast en ekki síst, acoustic tónleikum með Bellstop sem hinn heppni kaupandi fær í gegnum skype beint heim í stofu.

Nýtt myndband frá Útidúr

Hljómsveitin Útidúr frumsýni í gær nýtt myndband við lagið “Vultures” en það er að finna á plötunni Detour sem sveiitn sendi frá sér á dögunum. Myndbandið var tekið hér á landi og var leikstjórn í höndum Nathan Drillot.

Fyrsta kvikmynd Bedroom Community komin út

Everything Everywhere All The TimeÚt er kominn fyrsti mynddiskur Bedroom Community útgáfunnar. Er hann í formi tvöfalds og einkar glæsilegs DVD-pakka sem kemur út í afar takmörkuðu upplagi og inniheldur heimildarmyndina Everything Everywhere All The Time, tónleikamyndina The Whale Watching Tour og sem aukaefni tónleika Daníels Bjarnasonar með hljómsveit auk 16 blaðsíðna bæklings og fjölda ljósmynda.

Everything Everywhere All The Time var frumsýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík árið 2011 og síðar sýnd á Airwaves, CPH:DOX, Air d’Islande og víðar, en hún fylgir eftir nokkrum listamanna útgáfunnar þegar þeir héldu í tónleikaferðalagið Whale Watching Tour árið 2010. The Whale Watching Tour inniheldur svo lokahnykk tónleikaferðalagsins, tónleika fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu á Listahátíð, í heild sinni.

Pakkinn góði er nú fáanlegur í helstu plötuverslunum landsins, en einnig má versla hann beint frá útgáfunni.

ÍRiS gefur út nýja smáskífu og myndband

Eins og áður hefur komið fram er listamaðurinn ÍRiS nú á fullu að fjármagna útgáfu plötunnar Penumbra í gegnum vefinn Karolinafund. 7 dagar eru nú eftir að söfnuninni og til að auka framlög hefur ÍRiS nú sent frá sér glænýja smáskífu með laginu “Swiftly Siren” og magnað myndband við. Leikstjóri myndbandsins er Peter Szewczyk.

Rjómin hvetur alla aflögufæra til að styrkja ÍRis og hjálpa henni að fjármagna plötuna með því að smella hér.

Ásgeir Trausti – Going Home

Ég má til með að birta þetta ágæta myndband hér á Rjómanum þó það hafi þegar gengið hringinn á samfélagsmiðlunum. Persónulega finnst mér John Grant hafa tekist nokkuð vel til með að snúa upprunalegum texta Einars Georg yfir á engilsaxneskuna.

Spurningin er þó, hvað finnst lesendum Rjómans?

My Brother Is Pale – Lost

My Brother is Pale er íslensk hljómsveit sem stofnuð var af hollenska lagasmiðinum Matthijs van Issum eftir hann fluttist hingað til lands fyrir rúmum fjórum árum. Síðan þá hefur sveitin staðið í reglulegu tónleikahaldi en gengið í gegnum nokkrar mannabreytingar þó. Sveitin hefur starfað í núverandi mynd síðan um haustið 2012. Nú í ársbyrjun hófu My Brother is Pale upptökur á sinni fyrstu plötu og var fyrsta lagið af henni gefið út auk tónlistarmyndbands þann 9. maí síðastliðinn.

Nýtt myndband frá Sin Fang

Sin Fang hefur sent frá sér nýtt myndband og er það við lagið “What’s wrong with your eyes?” sem finna má á plötunni Flowers sem kom út nýverið. Leikstjóri myndbandsins er Máni M. Sigfússon en hann hefur áður leikstýrt flestum ef ekki öllum myndböndum sveitarinnar.

Nýtt tónleikamyndband og stórtónleikar hjá Sólstöfum

Hljómsveitin Sólstafir sendi nýlega frá sér nýtt tónleikamyndband þar sem upptökur frá áhorfendum spila stórt hlutverk. Áhorfendur voru beðnir um að taka upp myndskeið á síma og senda inn, sem skilaði sér í líflegu myndefni og fjölbreyttum sjónarhornum.

Sólstafir verða með stórtónleika í Austurbæ annaðkvöld, fimmtudaginn 2.maí, ásamt Dimmu, en hljómsveitirnar tvær hafa spilað mikið á landsbyggðinni undanfarið við góðar undirtektir. Tónleikarnir í Austurbæ eru hápunkturinn á þeirri tónleikaröð og verður öllu til tjaldað.

Dagpassar í sölu á All Tomorrow’s Parties

ATP Iceland 2013

Boðið verður upp á takmarkað magn dagpassa á ATP Iceland á Ásbrú í sumar en eins og kunnugt er munu Nick Cave & The Bad Seeds ásamt fjölda erlendra og innlendra sveita koma fram helgina 28. og 29. júní. Einnig verður einni erlendri hljómsveit bætt við á föstudeginum á næstu vikum.

Miðaverð á dagpössum er 9.900 kr. en miðaverð fyrir báða daga er 16.900 kr. Hægt er að kaupa miða á miði.is. Einnig er hægt að kaupa miða með gistingu á Ásbrúarsvæðinu kjósi fólk að gista en rútuferðir verða á milli Reykjavíkur og Ásbrúar.

Nánar um ATP Iceland

Nýtt myndband frá RIF

Andri Ásgrímsson sem tónlistarunnendur ættu að kannast við sem meðlim hljómsveitanna Náttfara og Leaves setti nýlega á laggirnar nýtt tónlistarverkefni er kallast RIF. Hér að ofan getur að líta nýjasta myndband RIF en það er við lagið “Draumur”. Það eru þeir Emil og Andri Ásgrímssynir sem leikstýra myndbandinu.