Myndir frá sýningu Bjarkar í MoMA

SAMSUNG CSC

Um helgina opnaði í MoMA (Museum of Modern Art) í New York yfirlitssýning um feril Bjarkar Guðmundsdóttur, sem vart hefur farið fram hjá neinum.

Sýningin sem tekur á margþættum verkum tónskáldsins, tónlistarmannsins og söngkonunnar, Bjarkar, spannar rúm 20 ára af ferli listamannsins. Björk hefur ávallt verið áræðinn, skapandi og á margan hátt hefur hún verðið leiðandi í popptónlist samtímans á hverjum tíma, hvað hljóm, myndbanda-/kvikmyndagerð, tísku og notkun og þróun nýrra hljóðfæra varðar í tónlistarsköpuninni.

segir Klaus Biesenbach sýningarstjóri MoMA

Sýningin hefur fengið gríðarlega umfjöllun í helstu fjölmiðlum heims, svo og á samfélagsmiðlum. Alls staðar má finna fyrir undirliggjandi aðdáun og virðingu á verkum og ferli Bjarkar.

DSC_0266 DSC_0304 DSC_0340 DSC_0359 DSC_0401 SAMSUNG CSC SAMSUNG CSC SAMSUNG CSC SAMSUNG CSC

Tina – HEK

Listamaðurinn HEK var að gefa út nýtt lag og myndband. Lagið heitir “Tina” og var tekið upp af Björgvini Gíslasyni en hann spilaði einnig á rafmagnsgítar, píanó og hljómborð. Þórdís Claessen slær bassann, Eyþór Østerby gælir við kassagítarinn og María Einarsdóttir sér um bakraddir. HEK samdi lag og texta en myndbandið gerði Magnús Unnar.

Myndir : Pascal Pinon og Eldberg Rafmagnslaus á Norðurpólnum

Fimmtudagskvöldið 2.júní síðastliðinn var aftur Rafmagnslaust á Norðurpólnum. Ljósmyndari Rjómans, Daníel Pétursson, var á staðnum og sá að þessu sinni ungu stúlkurnar í Pascal Pinon og proggarana síðhærðu í Eldberg koma fram. Að auki opnaði Low Roar, eða Ryan Karazija kvöldið og heillaði áhorfendur með angurværum tónum. Leyfum myndunum að tala sínu máli.

[nggallery id=9]

Rafmagnslausar myndir

Tónleikaröðin Rafmagnslaust á Norðurpólnum hélt áfram á síðasta fimmtudagskvöld en þá komu fram Lára Rúnars og hljómsveitin Valdimar. Saman gerðu þau kvöldstundina afar huggulega í þessari gömlu plastverksmiðju útá Seltjarnarnesi. Líkt og venja er í þessari tónleikaröð komu listamennirnir fram í sitthvoru lagi en einnig saman í einu atriði og völdu Lára og Valdimar Guðmundsson að taka ábreiðulag. Fyrir valinu varð hið undurfagra lag Vestfjarðavíkingsins Mugison, “2 Birds”, sem kom út á plötu hans, Mugimama – is this monkeymusic. Svo sannarlega flutningur sem lét engan ósnortinn. Ljósmyndari Rjómans, Daníel Pétursson, var á staðnum og smellti af.

[nggallery id=7]

Útgáfutónleikar Ensími

Ensími fögnuðu útgáfu nýjustu plötu sinnar, Gæludýr, síðastliðið laugardagskvöld á Nasa við Austurvöll. Platan, sem kom út seint á síðasta ári, hefur fengið þónokkuð góða dóma í fjölmiðlum hér á landi og virðist hljómsveitin vera að feta ákveðin spor sem ekki hafa verið tengd við sveitina áður. Tilhlökkun aðdáenda var mikil, enda tilhlökkunarefnið ein vinsælasta rokksveit Íslands í frábæru kerfi á frábærum stað. Rjóminn leit við og athugað málin.

Klukkan var rúmlega ellefu þegar mætt var á Nasa. Virtust gestir ætla að láta bíða eitthvað eftir sér, enda þekkt fyrirbæri í íslenskri menningu að mæta fremur seint á tónleika, þá sérstaklega ef um helgardagsetningar er að ræða. Upphitunarsveit kvöldsins var hin unga og efnilega Cliff Clavin en sveitin gaf út plötu sína The Thief´s Manual á síðasta ári við góðar undirtektir senunnar hér á landi. Eitthvað virtist sveitin þó líflaus og þróttlítil þetta kvöldið en þó, líkt og ávallt, var hún verulega samstillt og þétt. Lög á borð við “As It Seems”, “Midnight Getaways” og “This Is Where We Kill More Than Time” hituðu gestum vel og opnuðu fyrir flóðgátt eyrnakonfekts.

Ensími létu ekki bíða lengi eftir sér og virtist salurinn nú hægt og rólega fyllast af aðdáendum stórum sem smáum. Gestir supu ölið vel og færðu sig nær sviðinu þegar Gæludýra-smellurinn “Í Aldanna R”ó með hinu grípandi synthastefi tók öll völd. Fögnuður áhorfenda var gríðarlegur og stemmingin góð. Þeir Hrafn Thoroddsen, Franz Gunnarsson, Arnar Gíslason, Guðni Finnsson og Þorbjörn Sigurðsson voru boðnir velkomnir með öskrum, lófataki og öllum leið vel. Launuðu Ensími gestum sínum lófatakið vel.

Ensími – Aldanna ró

Opnunarlag einnar bestu plötu rokksögu landans, Kafbátamúsík, “Flotkví”, hristi svo tryllilega upp í fjöldanum og  fylgdi nýja laginu eftir og fundu aðdáendur sveitarinnar sem ekki höfðu enn nælt sér í Gæludýr nú góðan sess á Nasa. Nostalgían tók öll völd og undirritaður viðurkennir gæsahúð. Ensími börðu járnið ruddalega á meðan það var heitt og hver smellurinn tók við af öðrum. Virtist kemistrían vera rétt og fínpússuð.

Gestir Nasa sungu með og dönsuðu og stemmingin var feikna góð. Skipti þá litlu máli hvort aðdáendur kærðu sig um eina plötu fremur en aðra frá sveitinni, því öllum var gert til geðs (sem gerist ekkert alltof oft). 12 ára útgáfuferill sveitarinnar var þá í raun gerður upp á mögnuðum tónleikum með virkilega fagmennlegum vinnubrögðum í bæði hljóði og ljósum. Það er heldur ekkert alltof oft sem maður gengur frá Nasa ákaflega sáttur við hljóðblöndun kvöldsins sem leið. Vonar undirritaður þó að önnur 12 ár fylgi.

Kafbátamúsík-smellirnir “Kælibox”, “Gaur” og “Atari” fengu öll að hljóma með BMX-systkinum sínum “Böstaður í Tollinum” og “Tungubrögð” auk “Brighter” af plötunni Ensími frá árinu 2002. Smáskífan vinsæla “Slow Retur”n fékk einnig góðan hljómgrunn. Telur undirritaður það ákaflega huggandi að hugsa sér áframhaldandi starfsemi Ensími en Gæludýr er fyrsta plata sveitarinnar í um átta ár en hápunktar Gæludýra-smella kvöldsins voru án efa taktskiptu gullmolarnir “Fylkingar” og “Heilræði” auk hins flæðandi “Ráfandi”. Síðastnefnda lagið minnir óneitanlega á gullöld sveitarinnar en skemmtilegt er að skoða nýju lögin út frá sögu sveitarinnar. Margt hefur breyst og tilraunir hafa borið ágætis árangur en þó, heldur sveitin í grunninn. Gott mál!

Ekki kom á óvart og biðu margir með eftirvæntingu eftir tryllingnum “Arpeggiator/Gulu”r sem sveitin lokaði þessu frábæra kvöldi nostalgíu, nýmetis og unaðs með en aðdáendur slepptu sveitinni ekki svo auðveldlega. Renndi sveitin þá í ágæta syrpu og þökkuðu svo fyrir sig.

Útgáfutónleikar Ensími á Nasa styrktu trú undirritaðs á sveitinni en sönnuðu einnig fyrir aðdáendum og nýrri kynslóð unnenda að hér er alvöru sveit á ferð. Sama hvort það sé Kafbátamúsík sem tryllir nostalgíuna og minnir á bílskúrsdaga fyrstu hljómsveitarinnar þinnar, BMX og Vínrauðvín sem lék í bakgrunni á meðan þú kelaðir við einhverja guðdómlega manneskju, Ensími í framhaldsskóla eða hvað að þá styrkir Gæludýr sveitina og gæðir hana lífi. Lífi sem nær tók enda fyrir 8 árum síðan.

Við skulum gleðjast fyrir áframhaldandi tilvist Ensími og taka nýju sem eldra efni opnum örmum, gleðjast og syngja með en sveitin heldur næst norður á land og halda tónleika á Akureyri og Húsavík dagana 25. og 26.mars nk.

Meðfylgjandi eru myndir frá tónleikunum sem Daníel Pétursson ljósmyndari Rjómans tók.

[nggallery id=2]

Útgáfutónleikar Agent Fresco

Ljósmyndir: Daníel Pétursson – www.danielpeturs.com

Fimmtudaginn síðastliðinn héldu penni og ljósmyndari Rjómans á útgáfutónleika Agent Fresco vegna plötunnar A Long Time Listening sem kom út seint á síðasta ári á vegum Record Records.

Ansi viðeigandi var að tónleikarnir skyldu vera haldnir í Austurbæ, en það var einmitt þar, fyrir þremur árum, sem Agent Fresco steig í fyrsta sinn á svið – á undankvöldi Músíktilrauna, sem hljómsveitin svo vann. Austurbær hefur á sér hátíðarbrag sem hentaði vel fyrir kvöldið þar sem öllu var tjaldað til eins og átti eftir að koma í ljós. Gaman hlýtur að hafa verið fyrir strákana að halda útgáfutónleikana þarna, líka í ljósi þess að venjan er að þeir troðfylli bari Reykjavíkur en sjaldgæfara að þeir spili á stöðum þar sem setið er.  Svo er alltaf gaman að fá tækifæri til að fara á tónleika í Austurbæ, þar sem lítið hefur farið fyrir þeim undanfarið og þótt undirrituð sé algjört tónleikadýr má telja upplifða tónleika í Austurbæ á fingrum annarrar handar.

Það er óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þetta örlagaríka kvöld á Músíktilraunum 2008. Í raun voru þessir tónleikar einskonar endurfæðing hljómsveitarinnar, úr Músíktilraunahljómsveit yfir í eina þéttustu hljómsveit landsins. Krafturinn lét að sér kveða allt frá fyrsta lagi,  hinu draumkennda „Anemoi“ og var ljóst á upphafstónunum að stórtónleikar voru í vændum. Gæsahúðin gerði vart við sig, sem er tvímælalaust gæðastimpill. Greinilegt var að áhorfendur voru því sammála en mikil fagnaðarlæti brutust út að laginu loknu og áttu eftir að halda áfram það sem eftir var kvöldsins. Tilkynnt var í upphafi tónleikanna að platan sem verið var að fagna þetta kvöld yrði spiluð í heild sinni en á henni eru 17 lög sem mikilvægt er að hlusta á í réttri röð fyrir heildaráhrif.  Þannig fæst betri tilfinning fyrir gríðarlega flottum lagasmíðunum og samhengi laganna. Þau eru þó vissulega missterk og uppskáru þekktari lögin (sem áður höfðu komið út á stuttskífunni Lightbulb Universe) mestu fagnaðarlætin á tónleikunum, eins og við var að búast.

„Anemoi“

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

A Long Time Listening er heillandi plata sem vinnur á við hverja hlustun og er magnað hversu flottir hljóðfæraleikarar strákarnir eru, hver á sínu sviði. Þeir voru í fantaformi og var greinilegt að þeir höfðu lagt allt í þessa tónleika. Mikið var um gestagang en þó hljómsveitin sjálf í forgrunni eins og klæðaburðurinn bar vitni um, en strákarnir fjórir voru allir klæddir í hvíta boli og svartar buxur en gestaleikarar í svörtu frá toppi til táar. Strengjakvintett lék listir sínar í nokkrum lögum, í öðrum voru auka hljóðfæraleikarar mættir til að hjálpa (rokkuð harmonikka, töff!), þar á meðal gamli bassaleikari hljómsveitarinnar, Borgþór. Haukur Heiðar, söngvari Diktu, söng bakraddir í nánast öllum lögum og gerði það mikið fyrir tónleikana. Þegar hann tók yfir laglínu Arnórs söngvara í „Translations“ var þó ljóst að karaktereinkenni raddar Arnórs er hljómsveitinni algjörlega nauðsynleg en Patton-öskrin hans hafa einmitt aldrei hljómað betur en þetta kvöld.

„A Long Time Listening“

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Einn af hápunktum kvöldsins var tvímælalaust þegar inn á sviðið gekk kór samsettur af vinum strákanna úr tónlistarheiminum til að leggja hönd á plóg í titillagi plötunnar, „A Long Time Listening“ – sem inniheldur mest grípandi laglínur sem ég hef heyrt lengi. Verst er að lítið heyrðist í kórnum til að byrja með en hann sótti í sig veðrið eftir því sem leið á lagið. Á hæla þess var vaðið í hið fallega „In the Dirtiest Deep of Hope“ þar sem söngur Arnórs og píanóspil Þórarins gítarleikara tvinnuðust saman á meðan áhorfendur sátu sem fastast, dáleiddir. Er þetta enn eitt dæmi um mikilfengi þessarar sveitar, sem getur á nokkrum mínútum farið úr hinu harðasta rokki í viðkvæmar og ljúfsárar melódíur sem fá hárin til þess að rísa á hausnum. Í því liggur styrkur Agent Fresco.

„In the Dirtiest Deep of Hope“

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Gert var hlé á tónleikunum um miðbik plötunnar sem hentaði ágætlega, enda mikið að gerast í lögunum og fínt að fá smá pásu.  Austurbær var gjörsamlega troðinn þetta kvöld enda uppselt og meiraðsegja tvíbókað í sum sætanna svo að margir þurftu frá að hverfa. Áhorfendur voru af öllum stærðum og gerðum og virtust allir skemmta sér vel. Áhorfendurnir voru þó í yngri kantinum þar sem tónleikarnir voru opnir öllum aldurshópum og mættu fleiri hljómsveitir taka sér það til fyrirmyndar.

Eftir hlé var krafturinn hvergi farinn að þverra og keyrt var í lög á borð við stuðlagið „Implosions“, hið brothætta „Pianissimo“ og „Above These City Lights“, en í því sást glöggt hversu vel hljómsveitin hefur þróað tónlistina sína. Strengjum var þó ofaukið í laginu og óþarfi að hlaða á það enda stendur það vel í hráleika sínum. Reyndar heyrðist almennt ekki nóg í strengjunum á tónleikunum og er það miður. Almennt séð runnu þó tónleikarnir ótrúlega smurt í gegn og er óhætt að segja að Agent Fresco hafi aldrei hljómað betur. Ein og ein feilnóta kann að hafa hljómað en það er ekki einu sinni þess virði að fjalla um þegar heildin er eins glæsileg og raun ber vitni. Við lok tónleikanna sást glöggt hversu hrærðir strákarnir voru og var ljóst að allir fóru sáttir úr Austurbæ. Með þessari plötu og tónleikum hefur Agent Fresco tekist að skapa fullkominn hljóðheim og er bara tímaspursmál hvenær þeir fara að spila á risasviðum úti í heimi með grúppíur á hælunum – þeir hafa að minnsta kosti alla burði til þess.

[nggallery id=1]