Útidúr kynnir nýtt efni í Mengi 30. júlí

Hljómsveitin Útidúr heldur tónleika í Mengi fimmtudaginn 30. júlí þar sem hún mun flytja nýtt efni af komandi breiðskífu. Þetta er þriðja plata sveitarinnar sem er væntanleg í lok sumars.

Útidúr hefur starfað í sex ár og verið iðin við tónleikahald í Þýskalandi og Kanada en undanfarið ár hafa meðlimir sveitarinnar unnið hörðum höndum að gerð þriðju breiðskífu sinnar. Í Mengi munu meðlimir hljómsveitarinnar spila á harmonikku, gítar, trommur, bassa, hljómborð, saxófón og syntha ásamt því að raula.

Hús opnar 20:00 og tónleikar hefjast 21:00.

My Brother is Pale sendir frá sér sína fyrstu smáskífu

“Fields / I Forgot” er fyrsta smáskífa hljómsveitarinnar My Brother is Pale af væntanlegri fyrstu plötu hennar í fullri lengd, Battery Low. Smáskífan kemur út þann 30. júlí næstkomandi ásamt myndbandi. Mánuði síðar, eða hinn fyrsta september, mun platan líta dagsins ljós.

Ásamt upprunalega laginu fylgir endurhljóðblöndun af því sem hinn hæfileikaríki Tonik sá um að búa til. Telst sú endurhljóðblöndun henta einstaklega vel fyrir þá dansþyrstari.

Platan kemur eingöngu út stafrænt og verður aðgengileg á helstu tónlistarveitum og sölusíðum veraldarvefsins.

My Brother is Pale er íslensk/hollensk hljómsveit stofnuð af hollenska lagasmiðnum Matthijs van Issum eftir hann fluttist til Íslands árið 2009. Á árunum 2009 til 2013 gekk sveitin í gegnum þónokkrar mannabreytingar og samhliða þeim breyttist og þróaðist stefna og hljómur sveitarinnar. Hljómsveitin hóf að taka upp sína fyrstu plötu árið 2013 og gaf hún þá út smáskífu. Í upptökuferlinu tók platan stakkaskiptum er nýjir elektrónískir áhrifavaldar tóku völdin og á endanum var ekkert lag eftir af hinum upprunalega lagalista. Til var orðin ný 11 laga plata með ýmsum nýjum áhrifum sem að sveitin var ekki þekkt fyrir áður. Ásamt útgáfu plötunnar verða meðlimir My Brother is Pale iðnir við að spila fram eftir hausti. Einnig eru þeir strax farnir að huga að því að semja nýtt efni fyrir aðra plötu sína.

Monoglot

Monoglot

Kristinn Smári Kristinsson er ekki þekktur í íslensku tónlistarlífi enda verið búsettur í Sviss undanfarin ár. Kristinn er meðlimur hljómsveitarinnar Monoglot en hún gaf nýverið út sína fyrstu plötu. Á henni hrærir sveitin í ansi bragðgóðan jafning af djazz með indí ívafi og örlitlu pönki til bragðbætingar.

Þessa ágætis samnefndu plötu Monoglot má heyra hér að neðan.

Slowsteps gefur út lagið Closer

Slowsteps Hljómsveitin Slowsteps hefur gefið út lagið “Closer” sem er þriðja smáskífulag af væntanlegri breiðskífu þeirra The Longer Way Home. Áður hefur Slowsteps gefið út smáskífulögin “Trespass” og “Color Calling” sem hefur fengið spilun á Rás2 ásamt umfjöllun á erlendum tónlistarvefjum.

Slowsteps dregur nafn sitt af samnefndri hljóðupptöku sem Sebastian Storgaard, forsprakkara hljómsveitarinnar, gerði fyrir 10 árum og þann tíma (m.ö.o. þau hægu skref) sem hljómsveitin tók til að þróa þann hljóm sem þau eru sátt við. Útkoman er einstök hljómblanda af hljóðgervlum, taktföstum trommutakti og mjúkum söngstíl.

Airwaves dagbók Kristjáns: Fimmtudagur

Dagurinn minn byrjaði í 12 tónum þar sem söngvaskáldið Þórir Georg bar tilfinningar sínar ofur-hreinskilnislega á borð að venju. Textarnir eru núna allir á íslensku og finnst mér það vel. Það virtist heldur ekki trufla dolfallna útlendingana. Það er synd og skömm að Þórir skuli ekki vera að spila á hátíðinni ár en hann hefur verið fastagestur síðustu árin. Eftir innilegt lokalag Þóris hitti ég óvænt góða vini sem sögðu mér að þeir færu að fara spila á sínum fyrstu tónleikum í plötubúðinni eftir nokkrar mínútur. Ég ákvað að staldra við.

Sonic Youth bolur trommarans og ítrekaðar ábendingar söngvarans um að hækka í öllu gáfu vísbendingar um hvað væri í vændum. Tónlistin var einhvers konar twee-shoegaze með stráka-stelpu dúettasöng . Hljómsveitir eins og My Bloody Valentine, Sonic Youth og jafnvel Deerhof og Brian Jonestown Massacre komu fyrst upp í hugann. Lögin lofa ótrúlega góðu og þrátt fyrir að hljómsveitin, sem kallar sig í augnablikinu O-Yama (ekki endanlegt nafn þó), hafi einungis spilað saman í tvo mánuði gengu tónleikarnir mjög vel. Meðlimirnir eru enda engir nýgræðingar og hafa gert garðinn frægan m.a. með rokkböndum á borð við Me, The Slumbering Napoleon, Fist Fokkers, Skelkur í Bringu og Swords of Chaos. Óvænt og alveg ótrúlega ánægjuleg uppgötvun og mæli ég sterklega með að þið fylgist með þessu bandi á næstunni. Ánægjan með þetta nýja band var svo mikil að ég steingleymdi að fara að sjá annað band spila sína fyrstu tónleika: drungapönkbandið NORN. Ég vona innilega að sú sveit muni spila aftur á næstunni.

Næstu viðkomustaður var Eldborgarsalur Hörpunnar þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands, undir stjórn Daníels Bjarnasonar, spilaði tónlist Valgeirs Sigurðssonar úr kvikmyndinni Draumalandið. Tónleikarnir hófust á ,,Grýlukvæði”, stórskemmtilegu þjóðlagi sem bandaríkjamaðurinn Sam Amidon syngur á íslensku. Valgeir, skeggjaður og klæddur í síða svarta kuflslega skyrtu og víðar buxur, minnti helst á japanskan ninjameistara þar sem hann sat spakur á bakvið tölvu og sá til þess að allt færi eðlilega fram. Fyrir utan fyrsta lagið voru verkin að mestu leyti, eins og kvikmyndatónlist er venjulega, fljótandi tilfinningaþrungin bakgrunnstónlist með stöðugri uppbyggingu. Tónlist Valgeirs reynir að draga fram andstæðurnar milli íslenskrar náttúru og stóriðjunnar sem draumaland markaðarins byggir á. Stundum komu því inn lífrænir industrial taktar sem minnti á hina hlið peningsins. Einstaklega glæsilegt.

Nú varð ég að taka ákvörðun um hvort að ég ætti að fara og standa í röð til að ná Beach House í Hafnarhúsinu eða að sjá Víking Heiðar leika verk Daníels Bjarnasonar ,,Processions“ og ,,Birting“ með Sinfóníunni. Ég ákvað að halda mig í Hörpunni og sá ekki eftir því.

Það gleður mig alveg rosalega mikið að Airwaves-hátíðin skuli vera að færa út kvíarnar og auka fjölbreytnina í tónlistarvali. Á síðustu árum hafa klassísk tónlist og alternatíf popptónlist verið að blandast saman m.a. með listamönnum á borð við Ólaf Arnalds, Nico Muhly og öllu Bedroom Community genginu. Þessir listamenn eru að nýta sér ákveðna hluta fagurfræðinnar úr tilraunakenndu alternatífu poppi til að búa til ný-klassíska tónlist og svo klassískari útsetningar til að styðja við popplagasmíðar. Því er innkoma Sinfóníunnar á indítónlistarhátíð á einhvern hátt mjög eðlileg. (Nú vantar bara vettvang á hátíðinni fyrir enn tilraunakenndari tónlist, hvar eru t.d. tónskáldin úr S.L.Á.T.U.R.?)

Tónlist Daníels Bjarnasonar er á vissan hátt aggressífari heldur en tónlist Valgeirs. Daníel skapar ofboðslega mikla dýnamík í verkunum með því að nýta sér andstæður lágra píanónóta og sínfónísks hávaða.  (Vá, maður er aleg týndur þegar maður reynir að skrifa um klassíska tónlist, engin bönd til að vísa í, maður þekkir ekki stílana og getur þar af leiðandi ekki lokað listina í kassa.) Daníel dansaði fagmannlega um með sprotann og stjórnaði áslætti, strengjum og blásturshljóðfærum sem spiluðu öll vegamikil hlutverk. Aðalleikarinn var þó Víkingur Heiðar sem var stórkostlegur. Píanóleikurinn stundum allt að því manískur og fyrir óvant eyra jafnvel falskur. Slíkt skapaði því sterkt tilfinningalegt viðbragð. Ryþminn í píanóleiknum var fastur og Víkingur Heiðar sagði víst að síðasti hluti ,,Birtinga” væri teknó… eins og það ætti að vera. Stórkostlegt.

Það var reyndar alveg ofboðslega pirrandi að fólki var hleypt inn löngu eftir að tónleikarnir hófust og trufluðu sífellt ráp upplifinina að einhverju leyti.

Eftir Sinfóníuna lagði í að stað í átt að Hafnarhúsinu. Þar náði röðin u.þ.b. að Kolaportinu, en þar sem ég var vel búinn (húfa og regnstakkur) lét ég mig hafa það. Hálftíma seinna hafði myndast mikil útilegustemmning í röðinni: þjóðverjar buðu upp á hnetur og fólk var sent í bjórleiðangur á Zimsen. Hins vegar sá ég ekki fram á að ná inn á tónleikana fyrr en langt yrði liðið á giggið svo ég lét mig hverfa til að sjá Sin Fang enn einu sinni.

Hvítklædd og ofvirk Caged Animals voru að slá síðasta tóninn þegar ég gekk inn í Iðnó. Ég keypti mér bjór og beið.

Það er orðin svolítil hefð fyrir því að nefna letilegt fas Sindra þegar skrifað erum Sin Fang. Ótrúlegt en satt þá virtist hann reyndar bara frekar hress og brosmildur í þetta skiptið þó að míkrófónstatíf hafi ekki höndlað að halda uppi öllum þrem míkrófónunum hans. Upphafslagið var ,,Clangour and Flutes” og kom mjög vel út með klappi hljómsveitarinnar sem taktmæli. Mér finnst ég stundum hafa séð Sin Fang betri og nýja lagið þeirra virtist svolítið stirt. En ágætir tónleikar hjá Sin Fang eru þó betri en góðir hjá flestum böndum.

Ég náði síðustu þremur lögunum hjá Fist Fokkers. Vafnir inn í jólaseríur voru þeir að hamast á Sinead O‘Connor með sinni útgáfu af ,,Nothing Compares 2 U”. Svo renndu þeir í kóver af Kelly Clarkson og Beastie Boys með miklum krafti. Hljóðmaðurinn reyndi að taka þá úr sambandi en lýðurinn trylltist. „Besta band á Íslandi“ sagði einhver í krádinu. Og ég get alveg tekið undir það að Fist Fokkers eru eitt skemmtilegasta tónleikaband landsins.

Einhver hafði sagt mér að Space Chiefs 3 sem lokuðu kvöldinu í Iðnó, spiluðu Balkan-metal og annars staðar hafði ég heyrt að bandið innihéldi meðlimi Mr.Bungle. Það var því ekkert annað í stöðunni en að stökkva aftur inn í Iðnó og athuga hvað væri í gangi. Space Chiefs voru klæddir í svarta hettukufla og með fiðluleikara með dulu fyrir andlitinu. Hljómsveitin bauð svo upp á einhverja geðsturluðustu tónleikaupplifun sem mögulegt er. Hún tók rúnk-attitúd Fusion tónlistar yfir á annað level með því að bræða saman austræna þjóðlagatónlist, balkanbrjálæði, hryllingsvestramúsík og grjótharðan sýrumetal. Ég varð líkamlega þreyttur af þvi að horfa á átök fiðluleikarans og andlega þreyttur af endalausri keyrslunni. Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Þó að tónlistin sé ekki eitthvað sem ég myndi skella á fóninn heima var þetta svo sannarlega þess virði að upplifa.

Mynd 1: Reykjavík Grapevine – Mynd 2: Alexander Matukhno – Mynd 4: Katrín Ólafs

Iceland Airwaves ´11: JD McPherson

Elvis er steindauður! Hins vegar er tónlist herra Presley og félaga frá árdögum 6.áratugarins langt í frá týnd og tröllum gefin. Það er að minnsta kosti ekki hugar hins magnaða rockabilly(hunds) JD McPherson frá Alabama-fylki í Bandaríkjunum. Með fjölskyldbakgrunn sinn (hörkuvinnandi föður og guðhrædda móður) afar suðurríkja/Cash/Presley-ilmandi, gítar, rödd sem selur grimmt og brilliantín í hárinu hefur McPherson endurreist trú heimsins á þessari einstaklega heillandi tónlistarstefnu, rockabilly. Þó svo megininntak tónlistar kappans sé tengd fyrrnefndri stefnu hefur McPherson náð að blanda áhrifum frá Talking Heads og Bad Brains inn í lagasmíðar sínar og er það einfaldlega alveg geggjaðslega spennandi. Frumburðurinn Signs & Signifiers hefur vakið mikla lukku í tónlistarheiminum en platan, sem kom út fyrir sléttu ári síðan, hefur alið af sér súpersmellinn North Side Gal og Fire Bug. Hafa fáir ölþyrstir næturgalar vart misst af rokk og ról sveiflu við undirleik McPherson á knæpum landans og er nú um að gera að henda brilliantíni í hárið, henda sér í gallann, pússa stígvélin vel og ná JD McPherson á Iceland Airwaves 2011. Ætli það verði ekki hól lott of sjeikíng góin on? Ef Jerry Lee Lewis er sama. Já, svo er vert að minnast á að sólgleraugu innandyra eru fyrirgefin þetta kvöldið.

JD McPherson stígur á svið á Gauk á Stöng laugardagskvöldið 15.október klukkan 23.20.

Nevermind á Gauknum

Í tilefni 20 ára afmælis plötunnar Nevermind eftir hina goðsagnakenndu sveit Nirvana hefur hópur tónlistarmanna tekið sig saman og hyggst halda heiðurstónleika á Gauk á Stöng (áður Sódóma Reykjavík) annað kvöld. Nevermind, sem út kom þann 24.september árið 1991, hefur lengi verið talin ein áhrifamesta rokkplata 20.aldarinnar en platan hefur nú selst í ríflega 26 milljónum eintaka út um allan heim. Platan hlaut ekki síður vægi eftir andlát Kurt Cobain árið 1994 og lifir góðu lífi enn þann í dag. Það eru þeir félagar Franz Gunnarsson (Ensími/Dr.Spock), Þórhallur Stefánsson (Lights On The Highway) og Jón S. Sveinsson (Hoffman) sem leika gruggið þetta kvöldið en þremenningarnir þessir ættu að vera orðnir flestum kunnir eftir heiðurstónleika hljómsveita á borð við Alice in Chains, Stone Temple Pilots og Smashing Pumpkins (svo eitthvað sé nefnt). Það er þó í hlutverki Einars Vilbergs Einarssonar að túlka hinn goðsagnakennda Kurt Cobain á sinn eigin hátt en Einar ættu flestir að þekkja sem forsprakka rokksveitarinnar noise. Ekki þarf að hamra á hollustu þessara félaga til Nirvana en allir hafa þeir verið undir miklum áhrifum þessarar sveitar í sínum eigin lagasmíðum í gegnum árin. Auk þeirra mun Agnar Eldberg úr hljómsveitunum Lights on The Highway og Klink vera sérstakur gestur.

Nú þegar 20 ár eru liðin frá útgáfu einnar áhrifamestu rokkplötu sögunnar er ekki seinna vænna en að halda niður á Gauk á Stöng, ungnir sem aldnir og taka þátt í gleðinni. Dyrnar opna á slaginu 22:00 og er miðaverð 1500 kr. Aldurstakmark að þessu sinni eru 18 ár. Fuglinn hvíslar að hljómsveitin mundi sín vopn á slaginu 23.30.

Rjóminn hvetur lesendur til að fikta við nostalgíuna, þeyta flösu og athuga hvernig Gaukur á Stöng lítur út eftir endurlífgun.

 

 

Halla Norðfjörð á svölum í Hamburg

Halla Norðfjörð hefur verið dugleg við tónleikahald undanfarin ár. Þó hefur hún ekki vakið jafn mikla athygli og hún á skilið, en það skýrist líklega helst vegna þess að hún er oftast búsett erlendis. Hún hefur leikið á tónleikum víðsvegar um Evrópu en allt of sjaldan í Reykjavík. Halla spilar angurværa og tilfinningaþrungna kassagítartónlist og syngur með fallegri en brothættri rödd. Tónlistin er lágstemmd hippaþjóðlagamúsík sem mætti eflaust líkja við tóna Joni Mitchell (eða er það ekki venjan þegar konur spila á kassagítar og syngja?).

Á dögunum ferðaðist Halla til Þýskalands og spilaði á Melodica-festivalinu, sem er haldið víðsvegar um heim á hverju ári, m.a. í Reykjavík. Fjölþjóðlega netsjónvarpsstöðin Balcony TV fékk hana til þess að spila fyrir sig lagið “Tip Tap” á svölum einhversstaðar í Hamburg.

Halla Norðfjörð – Tímaþrá

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Halla Norðfjörð – Tip Tap

Nýtt: Kimya Dawson (feat. Aesop Rock)

Loksins er væntanleg sjöunda breiðskífa and-þýðu (en. anti-folk) tónlistarkonunnar Kimya Dawson, Thunder Thighs.

Hún hefur ekki verið iðin við músikkolann frá því að hún sló gegn með tónlistinni úr óskarsverðlauna-myndinni Juno. Síðan þá hefur hún einbeitt sér að barnauppeldi og aðeins gefið út eina plötu, en það var einmitt barnaplatan Alpabutt sem kom út 2008.

Thunder Thighs kemur út hjá útgáfufyrirtæki Calvins Johnsons K. Tvö lög eru komin á netið, “Walk Like Thunder”  og “Miami Advice.” Hún er á kunnulegum slóðum textalega: að venju syngur hún hvert einasta lag eins og það sé það mikilvægasta sem hún hefur sungið, en tónlistarlega er hún að þróast að einhverju leyti, þó að einfaldleikinn og einlægnin séu ávallt í fyrirrúmi.  Ein skýring á þróuninni er eflaust að í báðum lögunum fær hún hjálp frá rapparanum góðkunna Aesop Rock.

Eins undarlega og það hljómar þá hafa Kimya og Aesop verið að spila mikið saman undanfarið og kemur hann fram í helming laganna á nýju plötunni. Ekki nóg með það heldur hefur heyrst að þau séu með aðra plötu í vinnslu, sem dúett.

Kimya Dawson (feat. Aesop Rock & The Olympia Free Choir) – Miami Advice

Kimya Dawson (feat. Aesop Rock) – Walk Like Thunder

X-ið 977 kynnir: Mars Attacks

Það verður öllu tjaldað til á Sódóma Reykjavík um næstu helgi þegar rjómi tónlistarsenu Íslands tekur höndum saman í samstarfi við X-ið 977 og Tuborg á tónlistarhátíðinni Mars Attacks.

Hátíðin stendur yfir dagana 11. – 12.mars nk. og munu eftirfarandi sveitir stíga á stokk:

 • Benny Crespo´s Gang
 • Blaz Roca
 • Cliff Clavin
 • Endless Dark
 • Hoffman
 • Insol
 • Jónas Sig. og Ritvélar framtíðarinnar
 • Legend
 • noise
 • Reason To Believe
 • Sing For Me Sandra
 • XIII
 • Valdimar
 • Vicky

Miðaverð á hátíðina eru litlar 1500 krónur fyrir báða dagana en forsala fer fram í Levi´s búðinni Kringlunni og Smáralind.
Þyrstir gestir geta einnig fest kaup á 10 stykkja *bíb*korti en guðaveigarnar verða annars á verði sem enginn ætti að vera ósáttur við.

Rjóminn hvetur tón – og *bíb*þyrsta að líta við, skoða og heyra það sem í gangi er í íslenskri tónlist í dag.

The Prids

The Prids er band frá Portland í Oregon sem fyrst greip hlustir mínar þegar datt niður á myndband við lagið “Break” og var undir eins minntur á ágæta íslenska sveit sem heitir Botnleðja. Það er ekki leiðum að líkjast, þótt líkindin nái reyndar ekki ýkja langt og þeim er alla jafna líkt við The Cure og/eða My Bloody Valentine. En hérna er lagið sem minnti mig á Botnleðju, og látum reyna á það hvort einhver líkindi heyrast:

Sveitin var stofnuð árið 1995 í Missouri af hjónakornunum David Frederickson og  Mistina la Fave. Þau fluttu sig síðar um set til Portland og hafa síðan skilið að borði og sæng en spila enn saman í hljómsveitinni. Þriðja plata þeirra kom út í fyrra og bar nafnið Chronosynclastic, og þar er á ferðinni eðal shoegaze plata sem óhætt er að mæla með. 

Árið 2008 lentu þau í hræðilegu bílslysi á leið frá San Fransisco til Los Angeles, og slösuðust þau öll nokkuð mikið utan að missa öll hljóðfæri og græjur. Vinir þeirra og aðdáendur rökuðu saman jafnvirði 16.000 dollara til að hjálpa til við sjúkrakostnað og græjukaup, og meðal annars var gefin út tribute plata þar sem t.d. A Place to Bury Strangers tóku lög þeirra upp á arma sína til að safna pening.

Hérna er svo glænýtt bullandi kraumandi sizzlandi myndband við annað lag af Chronosynclastic:

The Prids á Facebook | Opinber síða sveitarinnar

Hitt og þetta nýlegt

Ég var eitthvað að velta fyrir mér um daginn hvað hefði orðið um hið stórskemmtilega band I’m from Barcelona, en þessi stórsveit (27 manns núna) náði mér gersamlega á sitt vald með fyrstu plötu sinni, Let me introduce my friends, árið 2006. Hæst bar þar bráðsmellið lag sem heitir “We’re from Barcelona” sem er svo frábært að ég gerði það að hringitón í símanum mínum, og núna þoli ég ekki að hlusta á það þar sem mér finnst alltaf að það sé verið að hringja í mig.

Hljómsveitin, sem er nota bene frá Svíþjóð en ekki Spáni, gefur út sína þriðju plötu í apríl og mun hún heita Forever, Today. Hér er forsmekkur að því sem koma skal, grípandi sænskt sólskinspopp sem minnir mig meira en lítið á íslandsvinina í Junior Senior. 

Ég minntist um daginn á ágæta hljómsveit frá Chile sem heitir Dënver. Það er allt á uppleið hjá þessu ágæta fólki og reyndar virðist popptónlist frá Chile eiga vel upp á pallborðið hjá tónlistarunnendum þessa dagana. Nýlega kom út safnplata með spænskumælandi böndum á vegum veftímarits sem heitir Plástica (held ég, skil ekki spænsku), og þar er meðal annars nýtt lag frá Dënver sem heitir “De Explosiones y Delitos“.

Safnskífan heitir “Plásticos y Etéreos 2011 Vol​.​1” og má hlýða á alla skífuna á þessum link og ýmislegt annað  spennandi má finna þarna. Myndband við lagið er hér, og fyrir þá sem halda illa athygli við myndbandaáhorf má benda á að dinglumdangl og bossar koma eilítið við sögu, og þetta fer ekki óklippt í MTV frekar en önnur myndbönd þeirra.

Ringo Deathstarr er eitt af mínum uppáhaldsböndum, þótt ekki væri nema bara fyrir nafnið. En þau standa reyndar fyllilega fyrir sínu að öðru leyti líka, þótt þetta nýjasta lag sé ekki að fá alveg 10 stig hjá þessum shoegaze aðdáanda. Þau voru að gefa út fyrstu breiðskífu sína núna nýverið, Colour Trip, og hérna er lag af henni:

Nú og krakkarnir í The Pains of Being Pure at Heart eru alveg að fara að unga út nýrri plötu sem á að heita Belong og mun koma út 29 mars næstkomandi. Helst í fréttum varðandi þessa plötu ku vera að hún er pródúseruð af Mark nokkrum Ellis sem gengur einnig undir heitinu Flood. Nú var ég ekki nógu mikill spekúlant til að kveikja á ljósaperum við þessar fréttir, en hann mun hafa með-pródúserað allar bestu plötu Nick Cave, og einnig skífur með Depeche Mode, Charlatans, U2, Nine Inch Nails og Smashing Pumpkins, en mörgum þykir einmitt fyrstu singullinn af þessari nýju skífu Pains minna um margt á Graskerin. Jú og svo hljóðritaði þessi gaur plötuna Með suð í eyrum við spilum endalaust með þekkri íslenskri dægurlagahljómsveit. Hérna er titillagið af væntanlegri plötu Pains, “Belong”:

Ta ta …

Avenged Sevenfold með nýjan trommara

Það hryllti og hryggði aðáendur rokkhundanna í Avenged Sevenfold seint árið 2009 þegar tilkynnt var um andlát trommara sveitarinnar, James “The Rev” Sullivan. Sullivan, sem var aðeins 28 ára gamall hafði verið viðriðinn sveitina allt frá stofnun hennar árið 1999.
Eftir andlát trommarans fékk sveitin til liðs við sig Dream Theater trommarann, Matt Portnoy en þó til skamms tíma. Portnoy kvaðst of trúr draumaleikhúsinu og kvaddi hann því sveitina seint á síðasta ári og sneri aftur í leikhúsið.

Í dag greindi sveitin frá því að til liðs við sveitina væri genginn trommarinn Arin Illejay en Illejay kemur til rokkaranna úr metalcore sveitinni Confide frá Los Angeles.
Avenged Sevenfold sendi frá sér sína fimmtu plötu, Nightmare, í fyrra og hefur nú boðað komu sína á bæði Rock Am Ring og Rock Am Park í Þýskalandi í sumar. Sveitin er þó helst þekkt fyrir þriðju breiðskífu sína, City of Evil, sem út kom árið 2005.
Þessir tæplega þrítugu drengir eru taldir afar þéttir á sviði og hafa vakið athygli fyrir rokklíferni sitt með öllu tilheyrandi í anda sveita á borð við Guns ´N´Roses og Mötley Crue.

Pearl Jam heimildarmynd í vinnslu

Gruggrokkararnir í Pearl Jam hafa nú tekið höndum saman við leikstjórann alkunna Cameron Crowe. Tilefnið er heimildarmynd um sveitina en hljómsveitin hefur unnið við myndina, ásamt Crowe, allt frá árinu 2009.
Pearl Jam Twenty (eins og myndin kallast) kemur út á árinu, greinir frá þeim 20 árum sem liðin eru frá útgáfu einnar bestu gruggplötu allra tíma, Ten og er byggð á myndbrotum frá þessum tveimur áratugum, viðtölum við meðlimi sveitarinnar, lifandi upptökum og ýmislegu góðgæti.

Cameron Crowe ættu flestir að þekkja sem leikstjóra kvikmyndarinnar Almost Famous frá árinu 2000 en kappinn hefur verið iðinn við leikstjórn um þónokkurt skeið og skyggndist hann ögn inn í Seattle-senuna árið 1992 með kvikmyndinni Singles. Myndin státaði t.a.m. af gestahlutverkum Chris Cornell og Alice in Chains (svo eitthvað sé nefnt).
Nýjasta útgefna samstarfsverkefni þeirra Pearl Jam og Crowe er þó myndband við lagið The Fixer af plötu sveitarinnar, Backspacer, frá árinu 2009.

Low gefa út í apríl

Íslandsvinirnir í hljómsveitinni Low hafa nú tilkynnt um útgáfu fyrstu plötu sinnar í þrjú ár þann 12.apríl nk.
Low sendi frá sér plötuna Drums And Guns árið 2007 en nýja platan hefur hlotið nafnið C´mon og mun innihalda 10 fersk lög frá sveitinni. Lögin eru sögð ögn frábrugðnari eldra efni frá sveitinni en Low eru einna helst þekkt fyrir lágstemmda og yfirvegaða stemmingu í sinni tónlist.

C´mon verður níunda plata Low en sveitin var stofnuð af þeim Alan Sparhawk, John Nichols og eiginkonu þess fyrrnefnda, Mimi Parker, árið 1993 í Minnesota í Bandaríkjunum. Hljómsveitin stökk þó ekki fram í sviðsljósið/meginstrauminn almennilega fyrr en eftir aldamót með plötu sinni The Great Destroyer undir merkjum Sub Pop útgáfunnar. Sveitin á einnig ófá aðdáendur hér á landi sem smella jólaplötu sveitarinnar frá árinu 1999, Christmas, á fóninn hver jól.

Cake setja met

Hljómsveitin Cake hefur nú sett nýtt met í plötusölu í Bandaríkjunum. Metið er af þeim toga að hljómsveitin hefur náð toppsæti með því að selja einungis 44.000 eintök af nýjustu plötu sinni, Showroom of Compassion, fyrstu vikuna í sölu.
Cake, sem þekktust er fyrir lög á borð við Never There, Sheep Go To Heaven og Shirt Skirt/Long Jacket sendi síðast frá sér plötuna Pressure Chief en platan kom út árið 2004 og er þetta því fyrsta plata sveitarinnar í ein 7 ár. Sveitin átti smellinn No Phone af þeirri plötu en hefur eftir það legið í skugganum, þó hér og þar hafi ábreiða eftir sveitina litið dagsins ljós.

Ekki eru þetta góð tíðindi fyrir plötusölu í heiminum í dag en Cake mega þó sáttir sitja þó þeir maki vart krókinn. Sem dæmi má nefna að fyrir aðeins áratug seldist plata smjörsteiktu apanna í NSYNC, No Strings Attached, í 2,41 milljón eintaka í sinni fyrstu viku í Bandaríkjunum. Það er smotterís munur.

Reznor og Ross unnu Golden Globe

Eins og greint var frá á Rjómanum hér um daginn, hafa þeir félagar Trent Reznor og Atticus Ross tekið að sér að semja tónlist við fyrstu endurgerð þríleiks Stieg Larson, The Girl With The Dragon Tattoo, eftir David Fincher.

Fyrr í vikunni voru Golden Globe verðlaunin veitt og voru þeir félagar tilnefndir fyrir frumsamda tónlist í kvikmyndinni The Social Network en myndinni er einnig leikstýrt af David Fincher.
Reznor og Ross þóttu fremstir meðal jafningja og unnu sér eitt stykki verðlaun fyrir bestu tónlist í kvikmynd en meðal þeirra sem tilnefndir voru voru snillingarnir Hanz Zimmer (Inception) og Danny Elfman (Alice in Wonderland).
Þykir þetta gríðarleg viðurkenning og spurning er hvort þeir félagar endurtaki leikinn með næsta verkefni sínu sem kemur út þann 21.desember nk.

The Vines á lífi?

Ástralska hljómsveitin The Vines hefur verið í skugganum undanfarin ár en lítið hefur gengið hjá sveitinni eftir útgáfu frumburðarins frábæra, Highly Evolved (2002) og hinnar fínu Winning Days (2004).
Hljómsveitin sendi þó frá sér plöturnar Vision Valley árið 2006 og Melodia árið 2008 en sú síðari hvarf algjörlega inn í næsta húsasund og fékk vægast sagt slaka dóma. Átök innan sveitarinnar hafa sömuleiðis sett strik í reikninginn t.a.m. slagsmál á sviði og annað fjör.

Hljómsveitin sem hefur verið starfandi í tæpan áratug hyggst nú senda frá sér nýja breiðskífu á árinu. Plötuna Future Primitive.
Spurning er hvort sveitin hafi enn eitthvað fram að færa en Future Primitive hefur verið í vinnslu í ansi langan tíma og lengi vel sá hljómsveitin ekki fram á útgáfu.

Rifjum þó upp góðu daga sveitarinnar og vonum það besta!