Iceland Airwaves ´10: Dagskráin!

Þá hafa aðstandendur Iceland Airwaves hátíðarinnar staðfest dagskrá hátíðarinnar í ár.
Þetta kemur fram á heimasíðu hátíðarinnar en þar kennir margra grasa en á boðstólnum er rjómi alls þess besta sem er að gerast hér á klakanum í bland við erlenda gesti á borð við Bombay Bicycle Club, Robyn,Rolo Tomassi og Moderat.

Hátíðin hefur einkennst af svokölluðum þema/label kvöldum en í ár eru það Metal Hammer, Record Records, Drowned In Sound, Moshi Moshi, Gogoyoko, Kimi og Kölski svo eitthvað sé nefnt, sem setja svip sinn á  kvöldin.

Að sögn skipuleggjenda rjúka miðarnir út og er ekki seinna vænna að tryggja sér miða á stærstu tónleikaveislu ársins ekki seinna en í gær!

Gamalt og gott – Swirlies

Man einhver eftir hljómsveitinni Swirlies? Ekki ég. Þessu bandi virðist ég alveg hafa misst af á sínum tíma en þau voru upp á sitt besta circa ’90 – ’95. Bandið hefur reyndar aldrei hætt þannig lagað, og spilaði nokkur gigg í fyrra, en lítið hefur farið fyrir þeim að öðru leyti seinustu árin.

Í árdaga sveitarinar var mikið að gerast í Bretlandi, Britpop og Shoegaze tröllréð öllu, og Swirlies voru einskonar mótsvar Bandaríkjanna við breska skóglápinu. Vissulega er einnig margt sem minnir á öðlingana í Sonic Youth, og bara plötuumslagshönnunin ber keim af því eins og sjá má.

Nú þekkja kannski ekki allir Shoegaze, en frægar sveitir af því taginu eru t.d. My Bloody Valentine, Slowdive og Ride. Shoegaze var og er oft á tíðum ofboðslega hávært en á sama tíma draumkennt og gjarnan í hægu tempói. Meðan þungarokkarar hafa tilhneygingu til að hneigja sig ítrekað fyrir áhorfendum og sveifla hárinu í allar áttir, þá voru shoegaze tónlistarmenn oftast grafkjurrir á sviðinu og störðu einbeittir niður fyrir sig, helst með toppinn fyrir andlitinu. Áhorfendur hentu gaman af þessu, einhver blaðamaður kallaði þetta “shoegazing” og nafnið festist við tónlistina. Líklegast hafa listamennirnir frekar horft einbeittir á alla chorus og delay effectana sína, en af slíku var alltaf nóg.

Það er hollt og gott að glápa á skóna sína öðru hvoru, og því ekki úr vegi að grafa upp úr glatkistunni þetta eðal band. Hérna eru nokkur tóndæmi. Lögin “Upstairs” og “Pancake” eru dæmigert skógláp, meðan “Park the car by the side of the road” minnir bæði á Sonic Youth og MBV. Við kíkjum svo á nýleg shoegaze bönd á næstu vikum.

Swirlies – Upstairs

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Swirlies – Chris R

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Swirlies – Pancake

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Swirlies – Park the car by the side of the road

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Myndband við lagið “Bell”:

Fleiri lög hér

The Shimmies

Annað slagið berast Rjómanum skeyti þar sem kynntar eru nánast óþekktar sveitir. Það verður að játast að flestar eru þær best geymdar í gleymskunar dái og ekki þess virði að kynna fyrir lesendum. Það kemur þó fyrir að maður rekst á stöku sveit sem virkilega kemur á óvart. Bræðrasveitin The Shimmies er ein þessara skemmtilegu undantekninga og er tilkomumikið og poppskotið rokkið sem þeir spila sannarlega þess virði að berast til eyrna lesenda Rjómans.

The Shimmies gáfu nýverið út plötuna To All Beloved Enemies og hefur þeim í kjölfarið verið líkt við bönd eins og Grizzly Bear, Fleet Foxes og Band Of Horses með Jeff heitinn Buckley í farabroddi. Sjálfum finnst mér nú meira í sveitina spunnið en einföld samlíking við framangreindar sveitir þó eflaust megi finna sameiginleg einkenni í tónlist þeirra. Hitt er þó víst að fólk sem vill rokkið sitt tilfinningaríkt, líðandi og ljúfsárt ættu ekki að láta The Shimmies fram hjá sér fara.

The Shimmies – The Thing That Seems The Hardest Is Actually The Easiest

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

The Shimmies – Judas

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

The Shimmies – Beloved Enemies

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Ice Cream Man

Matt Allen hefur frá árinu 2004 verið iðinn við að heimsækja tónlistarhátíðir og tónleika innan Bandaríkjanna. Það sérstaka við heimsóknir Allen er það að í stað þess að koma og skemmta sér einungis, kemur hann og gefur fólki ís. Frítt!
Stefnir Allen á að sigra heiminn einn daginn og koma við á öllum helstu hátíðum í heimi en ekki einungis innan Bandaríkjanna.

Eins og honum finnst gaman að gefa frá sér ís, finnst honum líka fjörugt að skrifa og láta aðra í crew-inu sínu skrifa um hina ýmsu tónleika í Bandaríkjunum. Nýjasta umfjöllun hans og Ice Cream Man-liðsins einblínir á nýafstaðna Lollapalooza hátíð.

Spurningin er hvort að ísbíllinn flauti einn daginn á gesti Iceland Airwaves hátíðarinnar…

Ice Cream Man

Extreme Chill Festival 2010 6.-8.ágúst

Undanfarna mánuði hafa raftónlistarmenn haldið fimmtudagskvöldin hátíðleg, aðra hvora viku á Nýlenduverslun Hemma & Valda við Laugarveg. Forsprakkar þessara kvölda, sem leidd eru af þeim Pan Thorarenson og Andra Má Arnlaugssyni, stefna nú að því að halda út á land með herlegheitin og efna til veislu á Hellisandi á Snæfellsnesi. Undir jökli, eins og hátíðin kallast, fæddist síðastliðið sumar þegar áðurnefndir félagar stóðu að útgáfutónleikum hljómsveitarinnar Stereo Hypnosis á þessum sama stað.
Ásamt því að ætla sér að spila sjálfir, hafa þeir Pan (Beatmakin Troopa) og Andri (DJ AnDre) tekið höndum saman við raftónlistarsenu landans og munu sveitir á borð við  Stereo Hypnosis, Legend, Biogen, Futurgrapher, Frank Murder, Ruxpin og svo lengi mætti telja, koma fram. Auk þess ætla Xerxes, frá Noregi og Moonlight Sonata, frá Frakklandi að stíga á stokk.

Miðaverði á hátíðina er stillt í hóf en nálgast má armbönd fyrir alla helgina í 12 tónum og Smekkleysu á aðeins 2500 krónur. Einnig má nálgast armbönd á svæðinu í Félagsheimilinu Röst (þar sem hátíðin mun fara fram). Ætti þetta að vera tilvalið tækifæri fyrir þá sem sátu fastir við vinnu sína síðastliðna helgi og einna helst unnendur raftónlistarsenunnar hér á landi sem erlendis en hátíð af þessu tagi hlýtur að teljast sjaldgæf hér á landi.

Allar nánari upplýsingar má finna á Facebook síðu hátíðarinnar.

SKVER í Risinu annað kvöld

Hljómsveitin SKVER mun stíga á stokk á hinum nýlega tónleikastað RISIÐ (gamli Glaumbar), annað kvöld á slaginu 21.00.
SKVER komu nýverið saman í hljóðveri síðla nætur í Reykjavík og tóku þar upp nokkur vel valin og frumsamin lög en plata er einmitt væntanleg frá sveitinni á næstunni.
Sveitina skipa þeir Steinar Guðjónsson (gítar), Leifur Gunnarsson (bassi), Höskuldur Eiríksson (trommur) og Helgi Rúnar Heiðarsson (saxófón).

Mun kvartettinn frumflytja efni af væntanlegri plötu sinni þetta kvöldið og eftir því sem Rjóminn best veit, er frítt inn!

For A Minor Reflection fögnuðu á Iðnó

Sólin var svo sannarlega komin á loft og glampaði á Reykjavíkurtjörn þegar gestir, jafnt erlendir sem innlendir, ungir sem aldnir, flykktust að Iðnó síðastliðið laugardagskvöld. Tilefnið: Útgáfutónleikar íslensku hljómsveitarinnar For A Minor Reflection.
Hljómsveitin, sem sendi frá sér frumburð sinn Reistu þig við, sólin er komin á loft árið 2007, fagnaði þetta kvöldið útgáfu sinnar annarrar, Höldum í átt að óreiðu en platan sem unnin er af hinum ameríska pródúsent Scott Hackwith, kom út þann 22.júlí síðastliðinn.

Koman inn í salinn þetta kvöldið á Iðnó var sérstök. Gestir gengu inn úr þeirri ljúfu kvöldsól sem skein við tjörnina, inn í niðdimman, sveittan og troðfylltan sal þar sem nafn sveitarinnar skreytti stórt tjald á sviðinu tignarlega í faðmi fallegrar sviðslýsingar. Með því að draga stóra, þykka tjaldið sem hangir við innganginn, hafði ég í raun opnað dyr inn í allt annan heim en þann sem fyrir utan salinn var.Skuggaímyndir meðlima í bláma fallegrar sviðslýsingar í bland við þéttan flutning lagsins Kastljós, gaf góðan byr fyrir því sem koma skyldi. Þó bar nokkuð á tæknilegum örðugleikum í upphafi en þeir voru þó leystir áður en langt um leið.
Hljómsveitin steig á stokk með (að ég hafði haldið) fyrrum trymbil sinn, Jóhannes Ólafsson en núverandi trymbill sveitarinnar, Andri Þorgeirsson var fjarri góðu gamni en fylgdist stoltur með drengjunum úr sal. Þó kom hann inn til aðstoðar í einu lagana þetta kvöldið.
Sveitin var dugleg að halda sambandi við áhorfendur og kynnti hún lög sin hvert á fætur öðru sem og þeir kynntu gestahljóðfæraleikara sína á vingjarnlegan hátt við mikinn fögnuð áhorfenda. Lék sveitin öll lög plötu sinnar en mesta athygli mína vöktu þó lög þeirra Fjara, Dansidans og Sjáumst Í Virginíu, sem skreytt var með myndskeiði sem unnið var af hinum breska John Rixon. Var það verulega áhugavert að blanda við tónlistina og jók á þá tilfinningu að sjá fyrir sér ákveðin fyrirbæri sem tónlistin hendir oft fram í hugum hlustenda. Tónlist sveitarinnar ber það einmitt með sér að gott er að loka augunum og fljóta með tónlistinni sem alfarið er sneydd söng.

Þegar dágóð klukkustund var liðin hélt sveitin af sviðinu eftir feikigóða frammistöðu. Ekki voru gestir kvöldsins þó saddir enn og lék sveitin í dágóða stund og framreiddu góðan desert eftir fínasta dinner.

Þakkaði sveitin vel fyrir sig og hlaut mikið lófatak og lof frá áhorfendum.
Þótti mér það verulega gott að fá loksins að sjá þessa einstöku sveit leika á sviði eina síns liðs og má með sanni segja að ég hafi gengið sáttur frá Iðnó þetta kvöld með það í huga að næla mér í plötuna sem leikin hafði verið. Björt framtíð blasir við þessum rétt tvítugu fjórmenningum og mæli ég eindregið með þyrstir unnendur tónlistar athugi með þennan hóp.

Nýju plötu For A Minor Reflection, Höldum í átt að óreiðu, má nálgast í öllum helstu plötuverslunum í dag og auðvitað á gogoyoko.

Sól og Pönk

Á sumrin fæ ég undarlega mikla löngun til þess að hlusta á ýmiskonar þungapönk. Ég tók saman nokkur lög, gömul og ný sem eru föst í spilaranum mínum. Nú er um að gera að taka út rifnu gallabuxurnar, hjólabrettið og ota miðfingrinum upp í loftið.

Innvortis – Hvað Er Þetta Helvítis Eitthvað?

Það er ekki laust við að maður sakni húsvísku pönksveitarinnar Innvortis sem kemur æ sjaldnar saman til þess að spila á tónleikum. Ekki mikið efni liggur eftir sveitina þrátt fyrir laaaaaangan feril, en hér er eitt lag af EP plötunni Andrea.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Kid Dynamite – Bookworm

Kid Dynamite var viðurnefni Mike Tysons þegar hann var ennþá ungur og efnilegur boxari. Eins og Tyson er bandið Kid Dynamite löngu hætt að spila en arfleiðin er ekki dáin. “Bookworm” kom út á frumraun sveitarinnar árið 1998.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Ceremony – Back in 84

Ceremony eru tiltölulega nýlega búnir að gefa út plötuna Rohnert Park á Deathwish Inc., útgáfufyrirtæki Jacobs Bannons úr Converge. Platan er með þeim áhugaverðari sem ég hef heyrt á árinu.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Minor Threat – Stand Up

Minor Threat voru aðeins starfandi í 3 ár frá 1980-83 en hafa haft gríðarleg áhrif á harðkjarnapönk um allan heim. Ian MacKaye hefur verið settur í hálfgerðan dýrlingastól fyrir staðfestu sína gegn ríkjandi öflum í tónlistarbransanum, ótrúlegan dugnað og heiðarleika í öllu því sem hann hefur látið frá sér. Þetta er annað lagið á fyrstu demó-plötu Minor Threat.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Fucked Up – Police

Fucked Up frá Toronto í Kanada er mögulega svartasti svanur pönksins í dag. Eitraður kokteill þungapönks og sækadelísks tilraunasúrkáls. Police er meira blátt áfram pönk heldur en það sem síðar hefur komið frá sveitinni.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Nýtt myndband frá Pains of Being Pure at Heart

New York bandið The Pains of Being Pure at Heart var að setja saman myndband við nýjustu smáskífu sína, “Say No To Love”:

Þrusugott að vanda. Nú þarf einhver að taka sig til og fá þetta band til landsins aftur.

Hér fljóta svo með nokkur eldri MP3 lög:

The Pains of Being Pure at Heart – Come Saturday:

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

The Pains of Being Pure at Heart – Stay Alive:

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

The Pains of Being Pure at Heart – Young Adult Friction:

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

ET Tumason í Póllandi

ET Tumason birtist um daginn í viðtali og flutti lag fyrir pólsku útgáfuna af netþáttaröðinni BalconyTV. Sá sem viðtalið tekur setur ný viðmið í vandræðaleika og froðusnakki, en lagið, “The Fly”, er hins vegar magnað. Hljómurinn er greinilega að þróast hjá ET sem hingað til hefur verið þekktur fyrir að flytja skítugan delta-blús með nóg af slædi og headslammi. Hvort að ný plata sé á leiðinni veit ég ekki. Það síðasta sem ég heyrði var að í maí 2008 fór ET í stúdíó í Berlín og tók upp helling af lögum undir styrkri upptökustjórn Antons Newcombe úr The Brian Jonestown Massacre. Vonandi fáum við að heyra útkomuna sem fyrst.

Skytturnar snúa aftur

Það er allt of sjaldan sem að ein allra besta rapphljómsveit Íslandssögunnar, Skytturnar, lætur í sér heyra. Nú ætla þessar rapphetjur norðurlandsins að draga míkrófónana úr slíðrunum, einn fyrir alla og allir fyrir einn, og halda eitt stykki tónleika. Tónleikarnir fara fram á Sjallanum á Akureyri annað kvöld, 4.júní, og hefjast upp úr klukkan 23 og verður hleranum skellt á klukkan eitt eftir miðnætti. Upphitun verður í höndum Konna Konfused, Darra og Rakelar og Kristmundar Axels.  Skyttunar búast við “ótrúlegu stuði og fáranlega góðum fíling” og segja að “í kjölfarið hafi almannavarnir lýst yfir hættuástandi vegna mögulegs goss í Súlum” enda verði stuðið svo mikið. Miðaverð eru litlar þúsund krónur.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Byltingarblús

Í fyrra var sýnd á Al Jazeera þáttaröð í 6 hlutum sem heitir Music of Resistance. Í þáttunum fer gítarleikarinn og aktivistinn Steve Chandra Savale úr Asian Dub Foundation um heiminn og heimsækir tónlistarmenn sem berjast fyrir betra samfélagi með tónlistina að vopni. Þeir syngja um kúgun, óréttlæti og vonina um sanngjarnari heim. Penninn er máttugri en sverðið, og gítarinn kröftugri en Kalishnikov riffill.

Ég mæli eindregið með því að allir kíki í það minnsta á þáttinn um Tuareg-hirðingjana í hljómsveitinni Tinariwen. Þar sjást þeir eitursvalir að syngja um byltingu og djammandi á rafmagnsgítara við varðeld í Sahara-eyðimörkinni. Tónlist er meira heldur en tómstundargaman fyrir þetta fólk.

Music of Resistance – Tinariwen (Fyrri hlutiSeinni hluti)

Hina þættina er svo hægt að sjá hér:
http://musicofresistance.com/episodes

Tinariwen -Amassakoul ‘n’ Tenere

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Plötubúðadagurinn

Í dag er haldinn í þriðja skipti hátíðlegur Hinn Alþjóðlegi Plötubúðadagur. Um allan heim gera óháðar plötubúðir sér glaðan dag með sérstökum viðburðum, útgáfum og tilboðum.

Tilgangurinn er að fagna þeirri menningu sem þrífst í kringum litlar, óháðar plötubúðir, menningu sem á í hættu að glatast með aukri netsölu og ólöglegu niðurhali. Plötubúðin hefur í gegnum áratugina verið félagsmiðstöð, fréttablað og hálfgert heimili tónlistargrúskara.

Bæði Havarí í Austurstræti og Lucky Records á Hverfisgötu verða með hátíðardagskrá í dag.

Í HAVARÍ verður deginum fagnað með eftirfarandi hætti:
14.00: Einar Örn Benediktsson setur hátíðina með hátíðarræðu.
14.01: Hljómsveitin Tonik (Anton Kaldal meðlimur Tonik er hönnuðurinn að Veggspjaldi vikunnar í Havarí)
14.30: Haukur S. Magnússon ritstjóri Reykjavík Grapevine og Halldór Ingi Andrésson úr Plötubúðinni sálugu ræða stöðu plötubúðarinnar í dag.
Léttar veitingar í boði hússins.
16.00: Sóley og hljómsveit leika lög af nýútkominni hljómplötu, Theater Island.
Dj. Apfelblut mun leika vel valin íslensk dægurlög á milli atriða.

Og dagskráin í LUCKY RECORDS lítur svona út:
13.00-15.00: Beatmakin Troopa + Gestir
15.00: Weapons
16.00: Jagúar
17.30: Ómar og Óskar Guðjónssynir ásamt Matta Heimstock
20.00: Crackers
Ekki nóg með það, heldur verður einnig 20% afsláttur af öllu í LR og boðið upp á vöfflur yfir daginn.

Það er því ærin ástæða til þess að skella sér út í næstu plötubúð, njóta hátíðarinnar og kaupa fullt af plötum. Góða skemmtun!

Lærðu að elska…

Það að list hafi áhrif á mann er gríðarlega einstaklingsbundin tilfinning, tilfinning sem er sjaldnast studd rökum, a.m.k. ekki rökum sem eru sýnileg í fyrstu. Maður þarf að grafa djúpt í sálarlífið og undirmeðvitundina til þess að finna þessa strengi sem tengja mann listinni svo náið. Þess vegna getur það oft verið erfitt að útskýra fyrir öðrum hvað það er sem heillar mann við tiltekið verk, maður veit það varla sjálfur.

Ég hef alltaf átt í erfiðleikum með að velja mér uppáhalds. Hvort sem það er litur, matur, staður, bíómynd eða tónlistarmaður. Það sem er í mestu uppáhaldi virðist alltaf svo ómerkilegt þegar maður ætlar að reyna að setja puttann á það sem heillar mann. Þrír hljómar, vers-viðlag-vers og einfaldur texti geta snert mann á einhvern djúpstæðan hátt sem er óskiljanlegur öðrum.

Ég ætlast þess vegna ekki til þess að allir skilji aðdáun mína á nútímaskáldinu, teiknimyndasögu-og alþýðutónlistarmanninum Jeffrey Lewis, en ég ætla samt að reyna að útskýra hana.

…Jeffrey Lewis

don’t let showmanship become more important than honesty,
if you don’t want to be so many singers you see.
You don’t have to act crazy to do something amazing,
you can be just like you should and still do something really good.
And even when you know there’s nobody listening,
say it to yourself because it’s good to your health.
I know nothing makes sense if you think too much,
religion, a pigeon, radios and television.
Though it takes so much strength just not to suck,
and not to be a cynic but defer another gimmick.”

-Jeffrey Lewis – Don’t let the record labels take you out for lunch-

Við fyrstu hlustun gæti tónlist Jeff Lewis jafnvel hljómað eins og slappur brandari; veik og hálf-nördaleg röddin, ofhlaðnir bulltextarnir og gítarhljómar svo einfaldir að litla frænka þín gæti spilað þá eftir fyrsta gítartímann sinn. En ef skyggnst er undir yfirborðið leynist þar ljóðrænn snillingur með einstakan hæfileika til þess að segja sögur sem lýsa hinu mannlega ástandi og orða hugsanir á einfaldan og hnyttinn hátt, hvort sem að lagið fjallar um það að flytja í nýja íbúð, ástarsorg eða það að vera nauðgað af tvífara Will Oldham á yfirgefnum lestarteinum. Hann er intellektjúal bítnikkskáld myndasögukynslóðarinnar og Bob Dylan YouTube-kynslóðarinnar.

Jeffrey Lightning Lewis hóf ekki að semja tónlist fyrr en hann var orðinn rúmlega tvítugur. Eftir að hafa verið í nokkrum blúsrokk böndum og Greatful Dead ábreiðuhljómsveitum í mennta- og háskóla hafði hann misst alla trú á því að tónlist gæti skipt máli. En það breyttist þegar að hann heyrði í lo-fi goðsögninni Daniel Johnston í fyrsta skipti. Hið fullomlega skeytingarleysi fyrir hljómi, kunnáttu og tækni og hin algjöra áhersla á að nota listina til einlægrar og sannrar tjáningar opnaði augu hans fyrir því sem hægt var að afreka með tónlist.

Jeff hóf að semja tónlist á kassagítar pabba síns eftir þessa uppljómun sína, og tók upp á lítið fjögurra rása upptökutæki. Hann bjóst ekki við að gefa upptökurnar nokkurn tímann út.

Tónlistin var alþýðutónlist, einfaldar melódíur og textinn í aðalhlutverk, ýmist sunginn eða talaður (stundum næstum því rappaður). Áhrifin komu aðallega frá myndasögum, New York-borg, Pönki, Amerískri alþýðu-tónlist, mannkynssögu, bókmenntum og indíkúltúr. Lögin voru skondnar smásögur og ævisögulegar pælingar um hversdagslega hluti, oft á tíðum svo opinskáar að sársaukafullt er að hlusta á þær.

Hann ákvað að mögulega væru þessi lög nógu góð til þess að deila með öðrum og fór að spila á tónleikum og selja upptökurnar. Fljótt var hann farinn að vekja þónokkra athygli innan hinnar svonefndu Anti-Folk senu í New York rétt fyrir aldamótin, þar sem hópur tónlistarlegra utangarðsmanna byrjaði að safnast saman á open-mic kvöldum á Sidewalk kaffihúsinu á austurhluta Manhattan. Flestir listarmennirnir spiluðu órafmagnaða tónlist með Gerðu-Það-Sjálfur (D.I.Y.) og pólitískum viðhorfum pönksins með meiri áherslu á texta, innlifun og gleði en hæfileika og færni. Þessi einkenni hafa verið kjarninn í tónlist Jeffs alla tíð.

Vinir hans úr New York senunni, Kimya Dawson og Adam Green úr The Moldy Peaches hjálpuðu honum að komast inn undir hjá Rough Trade útgáfunni í Bretlandi og árið 2001 kom út frumraunin, The Last Time I Did Acid I Went Insane.

,,Einsamall maður er einlægur, en við innkomu annars hefst hræsnin.” sagði Ralph Waldo Emerson og á það vel við tónlistina. Sá sem semur tónlist bara fyrir sjálfan getur ekki verið annað en fullkomlega einlægur í sköpun sinni, en aðeins við vitneskjuna um að annar muni heyra verkið breytist sköpunarferlið. Listamaðurinn verður meðvitaður um sjálfan sig, listina og þau viðbrögð sem hún mun fá. Það er á þeim tímapunkti sem að margir listamenn fara útaf brautinni og byrja að hugsa um hvernig þeir líta út. Við viljum að öllum líki við okkur og reynum að gera það sem við teljum að geðjist öðrum. Við viljum sýnast klárari, fyndnari, fallegri og meira hipp og kúl en við erum. Listamaðurinn fer að semja tónlist sem hann heldur að aðrir vilji að hann geri. Broddurinn hverfur og allir listamennirnir byrja að hljóma eins, og þeir sem synda á móti straumnum fá litla eða enga athygli.

Í þennan listræna heiðarleika hefur Jeff einbeitt sér við að halda, og þar af leiðandi ekki verið í uppáhaldi hjá tískumótandi miðlum í tónlistarbransanum (indí-yfirvaldið Pitchforkmedia virðist m.a. ekki hafa mikið álit á Jeff, eða reyndar nokkrum sem hefur komið úr Anti-Folk senunnni ef út í það er farið). Ég reyndar skil vandamálið sem gagnrýnendur standa frammi fyrir þegar þeir meta plöturnar, þær eru gríðarlega ójafnar. Þegar listamaður gerir tónlist gagngert fyrir sjálfan sig verða til gullmolar en einnig hellingur af dóti sem á ekkert erindi við aðra. En persónulega fyrir mig bæta demantarnir allt annað upp.

Snilldin í list Jeff’s felst í stórkostlegum hæfileika til þess að segja sögur á einfaldan, einlægan og frumlegan hátt. Flest lögin endurspegla níhílíska heimsmynd en þó ávallt með jákvæðum boðskap fullum af von og bjartsýni. Einlægni felst nefnilega í því að þora að horfast framan í grimman heiminn án þess að falla í pytt sýndarmennsku eða sýnikalisma. Að taka öllu sem gríni og kaldhæðni er huglaus flótti frá raunveruleikanum, en að takast á við hann með bros á vör er hugrekki.

Jeff sver sig í ætt við marga aðra alþýðutónlistarmenn þar sem hann er hvorki sérstaklega fær hljóðfæraleikari né söngvari, tónlistin er aðeins miðill fyrir orðin, sögurnar og tilfinningar. Hann tjáir sig einnig á svipaðan hátt í myndasögunum, sem eru ýmist ævisögulegar eða vísindaskáldsögur. Teikningarnar og sögurnar eru einfaldar og húmorinn og sjálfsháð í fyrirrúmi. Oft virðast listformin skarast, annars vegar í lögum um uppvakninga og ofurhetjur og hins vegar rímuðum myndasögum. En það er helst í því sem að hann kallar ,,low-budget heimildarmyndir” sem að formin sameinast fullkomlega í eitthvað nýtt og ferskt. Þar rekur hann sögu einhvers fyrirbæris í söng og teikningum. Það er sérstaklega skemmtilegt fyrir áhugamenn um tónlist að fara í gegnum sögu Rough Trade, The Fall, K-records og sérstaklega hinn 8 mínútna langa, og 1500 orða, ljóðabálk The Complete History of the Development of Punk on New York’s Lower East Side from 1950 to 1975. YouTube hefur reynst honum góður vettvangur til að miðla listinni, því að ,,í eigin persónu” njóta sjarmi og gáfur Jeffs sín enn betur en á plötunum.

Jeff Lewis hefur gefið út 5 breiðskífur (þar af eina aðeins með lögum eftir bresku anarkó-pönksveitina Crass) og fjöldann allan af lögum á sjálfútgefnum stuttskífum, safnplötum og samvinnuplötum. Hann skipuleggur ennþá allar tónleikaferðir sínar sjálfur og sefur ósjaldan á gólfum vina og aðdáenda um allan heim til þess að láta enda ná saman á ferðalögunum.

Að velja nokkur lög úr safni á annað hundruð laga er ekki auðvelt mál, en hér eru 5 lög (eitt af hverri breiðskífu),og svo fjögur myndbönd. Saman gefur þetta fólki vonandi ágætis mynd af list Jeffrey Lewis.

Jeffrey & Jack Lewis – Williamsburg Will Oldham Horror (af City & Eastern Songs [2005])

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Jeffrey Lewis & The Junkyard – If Life Exists (af Em Are I [2009])

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Jeffrey Lewis – East River (af The Last Time I Did Acid I Went Insane [2001])

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Jeffrey Lewis & The Jitters – End Result (af 12 Crass Songs [2007])

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Jeffrey Lewis – If You Shoot The Head You Kill The Ghoul (af It’s The Ones Who’ve Cracked That The Light Shines Through [2003])

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

The Complete History of the Development of Punk on New York’s Lower East Side from 1950 to 1975.
http://www.youtube.com/watch?v=88QLxLHQW_M

The Chelsea Hotel Oral Sex Song
http://www.youtube.com/watch?v=lfQzqgsch8w

Low-Budget History of Communism in China
http://www.youtube.com/watch?v=-ryogcssMvg

Tristram

Líkt og Rjóminn greindi frá ætlar breski tónlistarmaðurinn Tristram að heimsækja landið og halda tónleika á Sódómu á laugardaginn næstkomandi í boði OkiDoki. Tristram gaf nýverið út sína fyrstu plötu, EP-ið Someone Told Me A Poem, við góðar undirtektir. Tristram framreiðir angurvært og þjóðlagaskotið indí-popp og hefur kappanum gjarnan verið líkt við tónlistarmenn á borð við Nick Drake og Conor Oberst. Er ekki bara málið að taka forskot á sæluna og heyra nokkur tóndæmi?

Tristram – Someone Told Me A Poem (af Someone Told Me A Poem EP)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Tristram – Me and James Dead (af Someone Told Me A Poem EP)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Tónleikarnir hefjast kl.21.00, miðaverð er litlar 1000 krónur og 18 ára aldurstakmark er inn á tónleikana. Ásamt Tristram leika íslensku böndin Rökkurró, Miri og Nolo.

Localice Live á Nasa í kvöld 9.apríl

Localice Productions í samstarfi við Kerrang! og Bacardi, halda stórtónleika á Nasa við Austurvöll klukkan 20 í kvöld. Þær hljómsveitir sem koma fram eru Sign, For A Minor Reflection, Cliff Clavin, noise, OurLives, Ten Steps Away og Nevolution en megnið af þessum sveitum hefur nýverið unnið myndbönd við tónlist sína í samstarfi við Localice hér á landi.

Miðar verða seldir við hurð fram að tónleikum í kvöld en forsala hefur að sögn aðstandenda gengið vel. Miðaverð er 1500 krónur og aldurstakmarkið að sjálfsögðu 20 ár.

Hér er um að ræða rjómann í rokkinu á Íslandi í dag og má sannlega segja að þetta sé skyldumæting fyrir rokkara landsins.
Þeir sem sjá sér þó ekki fært um að mæta á Nasa í kvöld, geta horft á sveitirnar stíga á stokk í beinni útsetndingu hér.

Rjóminn verður að sjálfsögðu á staðnum fyrir þennan glæsta viðburð.
Hvar verður þú?

Smá stærðfræði

Ég tók saman nokkur hressandi hljóðdæmi frá böndum sem eiga það eitt sameiginlegt að þvæla saman einhversskonar stærðfræðirokki og elektróník með vel þokkalega áheyrilegri útkomu. Sumt er nýútkominð en annað væntanlegt. Já, enn kemur fyrir að ferskir vindar gusti um póstrokk-heiminn . . .

The Redneck Manifesto er ekki frá suðurríkjunum líkt og ætla mætti heldur frá Dyflinni á Írlandi. Í mars kom út þriðja breiðskífa Íranna, Friendship, og er alveg óhætt að mæla með þeim grip. Platan er full af dásamlegu gítarrúnki, tíðum kaflaskiptum og elektrónískum skreytingum.

The Redneck Manifesto – Black Apple (af Friendship)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Kanadamennirnir í Holy Fuck hafa hlotið mikið fyrir lof sitt einkar dansvæna rokk en önnur breiðskífa bandsins, LP, sem kom út 2007 var einn af óvæntustu glaðningum þess árs. Um miðjan maí lítur svo þriðja breiðskífa bandins dagsins ljós og nefnist sú Latin.

Holy Fuck – Latin America (af Latin)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Þó svo að þýska sveitin To Rococo Rot hneigist nú fremur í átt að raftónlist en rokki má hún alveg fljóta með. Tríóinn gaf nýverið út sína níundu breiðskífu sem nefnist Speculation. Bandið hefur starfað í nærri tvo áratugi og reis frægðarsól bandsins eflaust hæst árið 1999 við útkomu The Amateur View – albúm sem að mínu mati er skildueign í öllum góðum plötusöfnum.

To Rococo Rot – Horses (af Speculation)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Nú í byrjun apríl kom út á vegum Warp útgáfunnar frumburður Portland sveitarinnar Nice Nice en platan er nefnist Extra Wow. Nice Nice-liðar hafa nú reyndar spilað saman í rúman áratug ekkert hefur þó verið fest á plasti fyrr en nú. Extra Wow tók þrjú ár í vinnslu, samkvæmt meðlimum hljómsveitarinnar, og er uppskera þessarar vinnu vel áþreyfanleg. Flott og frammúrstefnulega plata hér á ferð!

Nice Nice – Nien (af Extra Wow)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Fanfarlo í Bræðslunni

Hið sænsk/breska indípopp band Fanfarlo hefur staðfest komu sína á Bræðsluna 2010. Bandið gaf út frumburð sinn í fyrra, plötuna Reservoir, sem fékk fína dóma hjá gangrýnendum og endaði m.a. í 6.-8. sæti á Árslista Rjómans. Hljómsveitin komst svo raunar í fréttirnar hér á landi, ekki fyrir tónlist sína heldur sökum þess að stúlkan Sigurrós (sem bandið er nefnt eftir) prýðir plötukoverið.

Bræðslan er nú haldin í fimmta árið í röð á Borgarfirði Eystri. Undanfarin ár hafa listamenn á borð við Belle and Sebastian, Emílíönu Torrini og Damien Rice troðið þar upp. Hátíðin verður haldin í lok júlí í gamalli fiskibræðslunni í þessum fagra firði austur á landi. Þess má geta að forsvaramönnum hátíðarinnar var afhent Eyrarrósin snemma á þessu ári.

Auk Fanfarlo, hafa Dikta, KK & Ellen og 200.000 Naglbítar staðfest komu sína þetta árið.

Fanfarlo – Luna

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Fanfarlo – Fire Escape

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.