Bestu plötur ársins

Árslisti Rjómans er óhefðbundinn að þessu sinni að því leiti að tilkynntar verða 15 bestu innlendu og 5 bestu erlendu plöturnar sem þóttu bera af á árinu og verður einungis fjallað um 5 efstu í hvorum flokk sérstaklega.

Tvær megin ástæður eru fyrir þessu. Í fyrsta lagi breytti Rjóminn áherslum sínum í ár yfir í að fjalla nær engöngu um íslenska tónlist og þótti undirrituðum því lítið vit í því að fjalla ítarlega um fjölda erlenda platna sem ekki höfðu fengið umfjöllun á síðum vefsins. Í öðru lagi var tónlistarárið hér heima óvenjulega gott og var eiginlega annað ógerningur en að birta minnst 15 bestu plöturnar (sem reyndist líka með eindæmum erfitt).

Árslisti Rjómans fyrir árið 2012 er því sem hér segir:

Tilbury - Excorsie

Innlendar plötur ársins 2012

#1 Tilbury – Exorcise

Fyrsta platan súpergrúbbunar Tilbury er plata ársins að mati Rjómans. Við tónlistarnördarnir biðum spenntir eftir þessari plötu og urðum vel flestir svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Tónsmíðarnar eru marglaga og frumlega uppbyggðar, taktfastar og með áhugaverðri skírskotun í klassíska tónlist á köflum. Yfir öllu saman flýtur svo brothætt rödd söngvarans sem ljáir lögunum manneskjulegan blæ og magnar upp dramatíkina í þeim.

#2 Ásgeir Trausti – Dýrð í dauðaþögn

Ég man hreinlega ekki eftir sterkari nýliðun í íslenskri tónlist og magnaðri innkomu Ásgeirs Trausta. Ásgeir stekkur fram á sjónarsviðið að því er virðist fullskapaður tónlistarmaður og er Dýrð í dauðaþögn glæsilegur vitnisburður um hæfileika hans sem lagasmiðs og flytjanda. Lögin á plötunni hafa hvert af öðru fengið ítrekaða spilun hjá útvarpsstöðvum landsins og virðast þau höfða jafnt til allra óháð aldri og tónlistarsmekks. Þessi hæfileiki, að höfða til jafn breiðs hóps og Ásgeir virðist gera, er á fárra færi og undirstrikar enn frekar ágæti hans sem listamanns.

#3 Jónas Sigurðsson – Þar sem himinn ber við haf

Jónas stimplar sig inn sem einn af dáðustu tónlistarmönnum landsins með þessari þriðju plötu sinni. Á henni flakkar hann á milli aðgengilegra poppsöngva og áhugaverðra tilrauna með raftónlist á einkar vel heppnaðan hátt. Platan er talsvert persónulegri og dramatískari en fyrri plötur Jónasar, sem kemur á köflum aðeins niður á kraftinum og stuðinu sem við vorum farin að venjast, en hann kemur lögum og texta frá sér á það einlægan hátt að maður getur ekki annað en hrifist með.

#4 Ojba Rasta – Ojba Rasta

Þegar maður hélt að Hjálmar væru búnir að kreista síðasta dropann úr reggea-tónlistinni hér heima koma Ojba Rasta henni til bjargar með ferskum straumum, góðum tónsmíðum og almennum skemmtilegheitum. Mig grunaði ekki að hægt væri að blása jafn miklu lífi í jafn sérhæfða tónlistarstefnu og fyrir það fá Ojba Rasta fjórða sætið á þessum lista.

#5 Hjaltalín – Enter 4

Hvernig Hjaltalín náðu að halda því leyndu að ný plata væri á leiðinni frá þeim (sem enginn var annars að bíða eftir) er rannsóknarefni útaf fyrir sig. En allt í einu var platan komin út og Hjaltalín höfðu á svipstundu farið í gegnum algera endurnýjun og ryðjast fram á völlinn sem ný sveit nánast. Ég verð að játa að ég er enn að meðtaka þessa plötu en það var ljóst strax við fyrstu hlustun að hér var ein af plötum ársins á ferð. Hjaltalín fá fimmta sætið en ég er tilbúinn að endurskoða afstöðu mína þegar ég hef rennt plötunni í gegn tvisvar til þrisvar í viðbót. Enter 4 gæti allt eins farið upp í þriðja sæti eftir það.

Sæti 6 – 15 skipa eftirfarandi plötur:

#6 Pétur Ben – God’s Lonely Man
#7 Moses Hightower – Önnur Mósebók
#8 Retro Stefson – Retro Stefson
#9 Borko – Born to be free
#10 Nóra – Himinbrim
#11 Pascal Pinon – Twosomeness
#12 Sin Fang – Half Dreams EP
#13 Legend – Fearless
#14 Valdimar – Um stund
#15 Ghostigital – Division of Culture & Tourism

Kishi Bashi - 151a

Erlendar plötur ársins 2012

#1 Kishi Bashi – 151

Besta erlenda plata ársins að þessu sinni er fyrsta sólóplata tónlistarmannsins K Ishibashi eða Kishi Bashi eins og hann kallar sig. Kishi Bashi hefur hingað til verið þekktastur sem meðlimur indie-rokk sveitarinnar Jupiter One og fyrir að túra með of Montreal og Regina Spektor. Hann stígur nú fram á sjónarsviðið einn og óstuddur með plötu sem hann tók upp, flutti, fjármagnaði og gaf út sjálfur og er útkoman hreint út sagt stórfengleg.

Plötuna má heyra í heild sinni hér að neðan og þarf varla að taka fram að Rjóminn mælir eindregið með þeirri áheyrn.

#2 Oberhofer – Time Capsules II

Það kæmi mér ekki á óvart ef meirihluti lesenda hefur ekki heyrt um Brad nokkurn Oberhofer og samnefnda hljómsveit hans. Enn síður geri ég ráð fyrir að lesendur viti að Time Capsules II er, þrátt fyrir að titillinn gefi annað til kynna, í raun fyrsta plata Oberhofer. Að mínu mati er þessi frumraun ein sú magnaðasta á árinu erlendis frá og ætti að hjóma í eyrum sem flestra. Hér er tóndæmi:

#3 Alt-J – An Awesome Wave

Vinningshafar Mercury verðlaunanna 2012, enska sveitin Alt-J (∆), skipa þriðja sætið. Líkt og í sætunum tveimur hér að ofan er hér um frumburð að ræða. Það sem heillaði mig einna mest við þessa plötu er hvernig sveitin virðist geta flakkað á milli strauma og stefna á óhefðbundinn hátt en missa aldrei sjónar af heildamyndinni. An Awesome Wave er þrælmenntuð plata sem reynist á einhvern undarlegan hátt, þrátt fyrir að vera á köflum afar óhefðbundin, einkar aðgengileg. Án efa frumlegasta plata ársins erlendis frá.

#4 Communist Daughter – Lions and Lambs EP

Ljúft, upphefjandi og afar grípandi folk-tónlist Communist Daughter féll vel í kramið hjá mér og þá sérstaklega lagið “Speed of sound”, sem hljómar hér að neðan. Það verður seint sagt að Communist Daughter feti ótroðnar slóðir í tónlisti sinni en lagasmíðarnar eru bæði aðgengilegar og grípandi og stundum þarf hreinlega ekki meira til en það til að gera góða plötu.

#5 Lord Huron – Time To Run EP

Nú er það svo að Lord Huron, sem er listamannsnafn Michiganbúans Benji Schneider, gaf einnig út breiðskífuna Lonesome Dreams í ár en ég ákvað að velja EP plötuna þar sem hún er einfaldlega aðgengilegra og heilsteyptara verk. Hér er á ferð viðkunnanleg og íburðarmikil folk-tónlist með sækadelískum og austurlenskum áhrifum í bland við kunnugleg minni úr indie-poppi síðustu ára.

The Strokes – Angles

Útgáfuár: 2011
Útgefandi: RCA/Rough Trade
Einkunn: 4

Fjórða breiðskífa óskadrengja New York borgar The Strokes, Angles, hefur nú loksins litið dagsins ljós, fjórum árum eftir útkomu First Impressions of Earth (2006).

Julian Casablancas og félagar hafa lýst upptökuferlinu á Angles sem bæði andlega erfiðu og pirrandi verkefni þar sem ágreiningur innan sveitarinnar hafi litað hljóðverið frá fyrsta degi fram að þeim síðasta. Varð raunin sú að meðlimir tóku í raun plötuna upp í sitthvoru lagi en hittust svo loks til að fara yfir lokasamþjöppun plötunnar. Casablancas, sem gaf út sína fyrstu sólóplötu, Phrazes For The Young, árið 2009, smyr Angles með áhrifum frá 9.áratuginum og elektróník á meðan félagar hans í The Strokes minna hlustendur á frumburð sveitarinnar, Is This It, frá 2001.

Angles hefst á laginu Machu Picchu þar sem bein áhrif frá verkum Casablancas utan Strokes blandast gíturum Albert Hammond Jr. og Nick Valensi. Góð blanda! Gítarútsetningarnar eru feikilega skemmtilegar og lagið virkar mjúkt en hrátt. Ofboðslega er gott að heyra þessa drengi saman aftur á plötu.

Fyrsta smáskífa plötunnar, Under Cover of Darkness, er tvisturinn og rífur upp stuðið. Tjúttari með hressum gíturum og töktum sem virka vel til að dilla sér. Ósamræmdir gítarar Hammond Jr. og Valensi í samblandi við raul Casablancas og fastan rhytma þeirra Fabrizio Moretti og Nikolai Fraiture gera lagið að einu sterkasta djæfi plötunnar.

Nýbylgjupopparinn Two Kinds of Happiness drífur vel eftir stuðið í forvera sínum og keyrir í kraftmikið viðlag. Lagið hefði sómað sér ágætlega á vinsældarlistum 9.áratugarins og án efa staðið ágætlega samhliða risum nýbylgjurokksins. Þó hefur lagið þennan sérstaka Strokes-keim og gengur þar afleiðandi vel upp. Góð uppvakning sem leiðir þó í hið óspennandi You´re So Right. Laglína Casablancas virkar einhæf og þreytt og lagið gleymist fljótt. Algjör synd það en ekki er hægt að segja það sama um fimmuna, Taken For A Fool. Lagið minnir vel á upphafsár sveitarinnar og laglínan er fjölbreytt og gítarar spennandi og áhugaverðir. Töffarastælarnir eru allsráðandi og lyktin af leðri, nýjum gítarstrengjum og strætum New York borgar finnst út um hátalarana.

Grúvið og dansgólfið býður Games velkomið en þar ríður bassaleikarinn Fraiture vel á vaðið. Lagið er greinilega hægt að tengja við einstaklingspælingar Casablancas en þó er Nick Valensi einnig titlaður sem höfundur lagsins.

Call Me Back er hugljúf og einlæg blanda þar sem tregi og hógværð mætast. Lagið líður fallega í gegn og mætti vel kalla ballöðu Angles. Frábært lag sem hlustandi hefði þó vilja heyra í lok plötunnar. Gratisfaction hendir þó aftur í góða blöndu þar sem partýið er keyrt aftur upp á ögn öðruvísi hátt en áður og hlustandi finnur sig dillandi mjöðmum og þyrstan í hópfögnuð með léttum veigum. Fíl gúd poppari plötunnar án nokkurs vafa.

Hröð efnaskipti í Metabolism sjá til þess að partýið er enn í fullu fjöri. Þó eru einhverjir farnir að lúra sér og örlítill tregi einkennir þetta annars ljúfa lag. Eitthvert myrkur breiðist þó yfir og blendnar tilfinngar skjótast fram. Lagið virkar ansi vel sem næstsíðasta lag plötunnar og lífið virðist einfalt í tunglskininu. Life is Simple in The Moonlight flæðir vel í gegn og minnir nokkuð á fyrri verk sveitarinnar. Bæði af Is This It og Room on Fire. Seiðandi flæðið í laginu skilur hlustanda eftir sáttan.

Fjórða breiðskífa The Strokes er líklega ekki sú besta við fyrstu hlustun en þó, ágerist og ávinnst hún því oftar sem henni er rennt í gegn. Einnig er gaman að heyra að Julian Casablancas er nú farinn að koma félögum sínum mun meira inn í lagasmíðar sveitarinnar.
Aðdáendur sveitarinnar ættu alls ekki að verða fyrir vonbrigðum og höfundur telur svo sannarlega að sveitin öðlist enn fleiri aðdáendur á komandi misserum. Því þótt grunnurinn sé mestmegnis keyrður í svipuðum dúr og fyrri verk sveitarinnar er ofanálagið og keimurinn ferskur og nýr og það er ljúft.

Sin Fang – Summer Echoes

Útgáfuár: 2011
Útgefandi: Kimi Records
Einkunn:4,5

Afkastasemi er orð sem þarf vart að kynna fyrir Sindra Má Sigfússyni enda afköst tónlistarmannsins, sem kennt sig hefur við hljómsveitina Seabear, Sin Fang Bous og nú loks Sin Fang, verið gífurleg á undanförnum árum. Ekki einungis gífurleg í magni, heldur gífurleg í gæðum sömuleiðis.

Sindri Már sprettur hér fram sem Sin Fang með plötuna Summer Echoes og má svo sannarlega segja að titill plötunnar gefi nákvæman gaum af innihaldinu. Sin Fang hefur fært okkur gjöf, sumargjöf fylltri hlýju, auðmýkt og fegurð á köldum degi þó enn séu 42 dagar eftir af vetri þegar þetta er skrifað.

Strax við fyrstu tóna er hlustanda fleytt áfram með smjörmjúkum vókalískum harmoníum í bland við akústískar strengjaútsetningar í polli af frábærum töktum í lögunum Easier og Bruises og þemað er sett. Raddútsetningar í samblandi við tónlist Sin Fang fá hlustanda til að skipta litlu um textasmíð, heldur svífa frekar með augun lokuð, heyra fuglasöng og finna hlýju sumars í algleymingi.

Sin Fang – Fall Down Slow

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Fall Down Slow opnar mun poppaðari pælingar og opnast á yljandi úkelele sem hristist svo vel yfir í poppaðan takt og hefbundnari gítarútsetningar og vellíðun er allsráðandi.

Smáskífan Because of The Blood opnast svo varlega með synthum og hugljúfum harmoníum en keyrir í kassagítarstuð með draumkennda rödd Sindra Más í forgrunni. Þó Sindri sé án efa ekki besti söngvari heimsins hefur þessi rödd og sú einlægni og auðmýkt sem yfir henni býr, gríðarleg áhrif á það hvernig tónlist Sin Fang er túlkuð og kemst til skila. Sem er frábær kostur hjá listamanni sem þessum.

Rituals mætti líkja við sumarkvöld þegar sólin tekur að síga seint um kvöld og himininn skiptir litum. Gítarar eru hér ögn framar í grunninum en áður á plötunni og strengjaútsetningar vægast sagt frábærar. Hlustandi fer hægt og rólega að skilja rödd Sindra Más sem hljóðfæri í stað forgrunns í tónlistinni. Hvernig röddin blandast alsælukenndri tónlistinni og verður partur af henni í stað aðskildur hlutur er einstaklega fallegt og skemmtilegt. Ættbálkalegt groove í lokin fullkomnar frábært lag.

Textar verða loksins afar áheyranlegir og vel ortir í Always Everything og suðræn stemming hvílir yfir laginu sem er hið notalegasta og virðist engum áhrifum né stefnum sneydd. Æði.

Áhrifunum fjölgar ef eitthvað er í Sing From Dream þar sem ómandi raddútsetningar í bland við hip-hop ættaða takta þar sem hlustandi kemst seint frá því að dilla sér og slá í takt. Lagið er svo slegið niður í píanó af Thom Yorke skólanum og líður út af eins og barn sem hefur hoppað og dansað tímunum saman. Mætti skilja lokakafla lagsins sem forgrunn fyrir komandi rólegheit næstu laga.

Þó rólegheit séu kannski ekki rétta orðið hægist aðeins á Summer Echoes í Nineteen og loks Choir, folk-skotnu kassagítarlagi sem þenur sig til og frá stuðinu sem fyrir var á plötunni á einstaklega vel heppnaðan hátt. Stysta lag plötunnar en jafnframt eitt það fallegasta er Two Boys en hér kveður við nýjan tón á plötunni. Draumkenndar raddir og píanó segja sögu tveggja drengja og hörpustrengir keyra undir gæsahúðina sem færa hlustanda inn í Nothings. Endirinn er nærri og lagið virkar vel sem næstsíðasta lag Summer Echoes.

Sin Fang – Choir

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Slow Lights endar eina af magnþrungnustu plötum ársins (án efa) en er þó furðulega valið sem lokalag. Þó, ef rýnt er aðeins í textann, kemst maður að því að þetta virkar bara ágætlega. Gítarar eru funky til að byrja með og margbreytileiki annarra laga plötunnar skilar sér hér sömuleiðis. Lagið endar þó á fremur óspennandi hátt miðað við það sem á undan er gengið.

Summer Echoes heillaði við fyrstu hlustun. Hún yljar, hún kætir, hún grætir og jafnvel svæfir á köflum. Hér er komin alvöru sumarplata fyrir okkur Íslendinga og það íslensk plata. Þó frostið bíti og snjórinn fenni okkur í kaf þessa dagana, getum við heyrt sumarið óma í formi tónlistar Sindra Más Sigfússonar, Sin Fang og beðið eftir því að komandi sumar taki okkur með sér með sól í hjarta og Summer Echoes með Sin Fang í eyrum.

Plötu Sin Fang, Summer Echoes, má nálgast hjá vinum okkar á gogoyoko.com

Yuck – Yuck

Útgáfuár: 2011
Útgefandi:
Fat Possum
Einkunn: 3,5

(Streymdu plötunni hér að neðan og bættu hljóði við lestur)

Yuck var stofnuð seint árið 2009 af félögunum Daniel Blumberg og Max Bloom eftir brottför þeirra úr hinni ungu en vinsælu Cajun Dance Party. Yuck eru þau Daniel Blumberg, Max Bloom, Mariko Doi og Jonny Rogofff og þann 15.febrúar leit frumburður ensku hljómsveitarinnar dagsins ljós.

Pavement, Grandaddy, Dinousaur Jr. og margir fleiri koma í hugann þegar fyrsta lag plötunnar, Get Away, keyrist í gang og slacker-inn nýtur sín vel. Gítararar eru sementið sem heldur laginu saman og sumar og gleði sjást í hyllingum er ég sný mér að myrkrinu úti við með heyrnartólin á hausnum.
Sonic Youth
áhrifin á sveitina koma vel fram í laginu The Wall en sumarylurinn og áhyggjuleysi stefnunnar heldur undirrituðum nokkuð föstum. Lágar harmoníur og yfirkeyrt mix breiða yfir annars ekkert spes texta og fremur óspennandi laglínu.

Þristurinn, Shook Down, keyrir nostalgíuna í botn og lo-fi gítarar og ljúfur söngur minna undirritaðan á góða tíma sem táningur. Shook Down er sannarlega lagið til að smella á þegar brunað er í útleiguna í sumar með sólgleraugun, brosið og sólina í fyrirrúmi og eins og eina tambúrínu í aftursætinu. Frábært og notalegt lag. Yuck smellir svo óvænt aftur í fjórða gír og fer á flug í laginu Holing Out þar sem einfaldir en háværir gítarar fleyta öllu vel sem og feitur og hrár bassi undirstrikar áhrifin frá 9. og 10.áratug síðustu aldar. Lagið virkar þó frekar þunnt en laglínan bjargar því ágætlega. Vinnukonugrip með nóg af distortion er gott kaffi. Oftast.

Hér staldrar undirritaður örlítið við og hugsar hvort þetta sé ekki bara einfaldlega rip-off eða eitthvað sem hann hefur heyrt áður og virkar bara vel með þeim sem hafa flutt það áður. Sömuleiðis er hin hliðin tekin til ígrundunar að hér sé bókstaflega himnasending af frumburði stigin fram sem ekki einungis minnir á gamla og góða, heldur færir einnig nýtt fram. Hmm.

Suicide Policeman minnir nokkuð á James Mercer og co. í The Shins og hefur litla sérstöðu en gengur samt alveg upp. Ljúft lag en skilur þó lítið eftir sig þrátt fyrir skemmtilega pælingu, ….I could be your suicide policeman. Rómantísk pæling fyrir táningaangistina má hugleiða.

Vinnukonugripa/slacker-fílingurinn heldur áfram í Georgia, einum af tveimur smáskífum sem sveitin sendi frá sér á síðasta ári. Lagið er af mörgum talið gífurlega líkt hinu heilaga Friday I´m In Love eftir meistara The Cure en nær þó að halda ákveðinni sérstöðu. Það er líka alltaf töff að hafa stelpu í svona böndum og hér skín rödd Mariko Doi skærar en í öðrum lögum plötunnar.

Suck er lag sem klárlega gæti verið að nálgast tvítugt. Angist og ástaróður í lagi þar sem greint er frá vandkvæðum á trúarlegum aðstæðum einstaklings og því sem þeim aðstæðum fylgja. Undirritaður sér fyrir sér sveitina í sófa æfingarhúsnæðisins með gítara í kjöltum og hinn hárprúða trymbil í bakgrunni að grúva. Stutter fylgir eftir en blandast við forvera sinn. Lögin eru of svipuð í uppbyggingu og anda, því miður. Þó annað sé lágstemmdara gengur ekki að hafa þau samhliða, þó þau séu hin ágætustu í sitthvoru horninu.

Eftir Suck og Stutter er frekar erfitt að keyra upp stemmarann á ný en þau reyna það samt. Lagið Operation kryddar á rödduðum gíturum og ögn hraðari takt en keyrir þó ekki almennilega í gang fyrr en fremur seint og lagið passar ekki inn með Suck, Strutter og Sunday (sem fylgir Operation eftir).

Sunday er lag sem Stephen Malkmus (Pavement) hefði þess vel geta samið en hér eru það Yuck sem eiga heiðurinn. Lagið er ljúft og gefur gaum af nettum sunnudagsfíling. Smelltu laginu á með tebollann við eldhúsgluggann í morgunsólinni, þunn/ur! Eina instrumental lag plötunnar er Rose Gives A Lilly og er það jafnframt næstsíðasta lagið. Rose Gives A Lilly rennur frekar átakalaust inn í síðasta lag plötunnar og annað af smáskífulögum Yuck, Rubber. Þungt og þreytt líður það á surgi í bland við lágstemmda takt og spyr …should I give in? í tregafullum hljóðheimi af toga sem mætti líkja við skakkan og ölvaðan unglingspilt í tilvistarkreppu sem ákvað að semja lag. Fyrir vikið verður lagið melonkólískt mjög en þó nokkuð kraftmikið. Ágætis endir á plötu sem myndi án efa flokkast sem bi-polar sjúklingur ef hún væri mannleg.

Yuck er sannarlega frábær frumburður. Platan minnir á góða tíma og kveikir bæði í hamingju og depurð. Hér er alls ekkert nýtt að finna, heldur einungis krakka sem hlusta mikið á indie/slacker/shoegaze-risana og ákváðu að stofna band og semja músík. Ég mæli eindregið með því að fólk athugi þessa plötu! Sjálfsagt eru margir sem eru sáttir við plötusafnið í þessum geira og vilja bara halda því óhreyfðu en sömuleiðis eru án efa nokkrir sem vilja bæta smá Yuck (ísl. viðbrögð við viðbjóði) inn á sín heimili.

Bjartasti punktur þessa frumburðar er án efa sá að hann veitir æsku dagsins í dag að uppgötva þennan sérstaka hljóm sem mörg okkar uppgötvuðum sjálf sem unglingar.
Skoðum Yuck sem eldbera ákveðins gulltíma í tónlist af þessum toga inn í tónlist dagsins í dag fremur en surgandi eftirhermur.

Hvað finnst þér?
Streymdu Yuck með Yuck HÉR og sjáðu til!

Bright Eyes – People’s Key

Útgáfuár: 2011
Útgáfa:
Saddle Creek Records
Einkunn: 3,0

Það er erfitt að skilja á milli Bright Eyes og forsprakkans Conor Oberst. Conor er Bright Eyes og Bright Eyes er Conor þó í sveitinni séu alltaf fleiri en hann. Án hans væri ekki Bright Eyes. Nóg um það.

Hvernig fylgirðu eftir snilld?
Í mínum huga er Bright Eyes svolítill fangi glæstrar fortíðar. Það er erfitt að fylgja eftir eins frábærri plötu og Lifted or The Story Is in the Soil, Keep Your Ear to the Ground. Þó liðin séu 11 ár frá útkomu plötunnar og stórra yfirlýsinga um að Conor sé “Bob Dylan sinnar kynslóðar” miðar maður allt við þessa plötu. Það er talsverð pressa að gefa út snilld 19 ára.

Síðan hafa fylgt á eftir frábærar plötur eins og uppáhaldið mitt, Wide Awake it is morning, frá 2005 (eftir hana kallaði Rolling Stone hann besta lagahöfund í Ameríku) og aðrar heldur slakari.

Í mínum huga nær People’s Key alls ekki að ryðja Lifted… eða Wide Awake… af stallinum og er í raun aldrei nálægt því. Platan sem kom út 15. febrúar, á þrítugsafmæli Conors gæti verið síðasta platan undir Bright Eyes nafninu. Hann hefur oft sagt að aukasjálfið Bright Eyes hafi runnið sitt skeið og maður skilur alveg af hverju.

Ég er einnig orðinn hálfleiður á þessum eintölum sem plöturnar hafa oft byrjað á og eru gegnumgandandi á þessari plötu. Þetta er í mínum huga eitthvað flipp sem gat alveg verið sniðugt á einni og einni plötu en ekkert sem nauðsynlegt er að praktísera alltaf. Á People’s Key er það Denny Brewer, vinur Conors frá Texas sem blaðrar víða á plötunni og bætir ekki miklu við það sem annars hefði orðið.

Ekki platan sem breytir lífi þínu
Platan er í raun ágæt og ef maður hefði ekki hinar glæstu viðmiðanir þá þætti mér örugglega miklu betra. Textarnir eru flestir mjög flottir en lögin ná aldrei að stíga upp úr meðalmennskunni þó séu í raun ágæt. Ekkert kallar á mann sem algjör snilld eða eitthvað sem maður á eftir að hlusta á milljón sinnum næstu árin.

Conor hefur alltaf blandað skemmtilega saman áhrifum úr ýmsum áttum. Hann er einlægur þjóðlagasöngvari, æstur pönkari sem og heimsendaspámaður og sálarleitandi í senn.  Conor heggur í sama knérunn og oft áður og er heldur heimakær í tónlistarsköpuninni. Hann er smeykur við að fara langt frá því sem hann hefur gert áður sem er synd og skömm. Að gera eithvað nýtt er akkúrat það sem ég og aðrir aðdáendur Bright Eyes þurfa á að halda.

Uppáhaldslögin mín eru önnur smáskífan Haile Selassie sem er frábær slagari, Approximate Sunlight flottur rólegheitasöngur og píanótjillið Ladder Song sem er mínum dómi hápunktur plötunnar. Heildin er bara ekki alveg nógu sterk og hápunktarnir eru allt of fáir og rísa ekki nógu hátt. Auðvitað eru ekki allir sammála. NPR segir til dæmis að þessi plata sé hans albesta.

Hlustaðu á plötuna í heild sinni

15. mars koma Bright Eyes í heimsókn til mín til Chicago. Ég vonast innilega eftir algjörum snilldartónleikum og að platan fái nýja þýðingu fyrir mig eftir þá tónleika. Tónleikar breyta oft skoðun á plötum til hins betra. Vonandi á það við þessa plötu (því hún má alveg við því).

Arcade Fire – The Suburbs

Útgáfuár: 2010
Útgáfa:
Merge Records
Einkunn: 4,0

Eldur í úthverfinu

Á níunda áratugnum spratt indítónlistin upp úr pirringi og útskúfunartilfinningu bandarískra úthverfakrakka; af sömu rót og pönkið spratt í innhverfum Bretlands áratug áður.

Munurinn er hinsvegar sá að pönkið var viðbragð við ómanneskjuleika og félagslegu óréttlæti hins breska heimsveldis . Hin stjórnlausa og níhílíska reiði pönkarans var óhjákvæmileg afleiðing af ömurlegum aðstæðum verkamannastéttarinnar, uppreisnin byggðist á raunverulegum efnislegum skorti.

Indí-ið fæddist hins vegar vegna ofgnóttar. Það varð til meðal úthverfakrakka sem efnislega höfðu allt til alls og þrátt fyrir að hafa öll tækifæri heimsins í höndunum skynjuðu sjálf sig sem olnbogabörn. Kröfurnar sem gerðar voru til krakkans voru einfaldar: ,,vertu eins og þeir.”

,,Grab your mother’s keys we’re leaving“

hrópar Win Butler söngvari Arcade Fire í fyrsta lagi The Suburbs. Ógnvaldurinn sem hann vill flýja undan er augljós; ómanneskjuleg úthverfavæðing nútímans og normalisering. Úthverfin eru staðirnir þar sem allir eru steyptir í sama mót, draumar eru brotnir og fólk vaknar upp á fimmtugsaldri í mannskemmandi skrifstofuvinnu lífsgæðakapphlaupsins, með skuldir í bankanum og magann fullan af Prozac-i.

Indíkrakkinn var bitur og reiður vegna þess að hann fittaði ekki inn, hlustaði á öðruvísi tónlist og vildi aðra hluti heldur en meirihlutinn. Hann var tilfinningaríkur og rómantískur (líkt og náin tengsl frum-emó tónlistar og indísins vitna til um). Honum fannst hann, með réttu eða röngu, vera útskúfaður, þjáður og einn.

Það eru fáar hljómsveitir sem koma jafn augljóslega úr þessum jarðvegi og Arcade Fire. Þau hafa frá upphafi gert tilfinningum útskúfunar og marklausrar uppreisnar góð skil: The Funeral hljómaði eins og samstöðuhróp krakka í byltingu gegn hinum kúgandi fullorðinsgildum, Neon Bible angistaróp tilfinningaríks rómantíkusar gegn köldum og ósanngjörnum heimi. Núna er spjótunum beint að úthverfunum.

Hér eru þó engin svör, lausnir né útskýringar (kannski er það ekki hlutverk listarinnar) og virðist reiðin því leisast upp í öskur út í vindinn. Uppresinin er ekki hugsjónabarátta og verður því stefnu- og marklaus, uppreisnarmaðurinn fyllist vonleysi.

“We run away, but we don’t know why.”

Það er þetta fullkomna vonleysi ,,hugsjóna”mannsins sem Win Butler er snillingur í að koma í tóna og viðeigandi frasa. Eina mótstaðan gegn ríkjandi ástandi virðist vera afturhvarf til barnslegrar einlægni, byltingin felst í því að hjóla út í næsta almenningsgarð, sitja undir rólunum og kyssast. Veruleikinn mun þó hrifsa mann inn í hringiðu stimpilklukkna, biðraða og verslunarmiðstöðva. Þitt hlutverk er að vera góður samfélagsþegn, ekki skapandi eða hamingjusamur.

“They heard me singing and they told me to stop, Quit these pretentious things and just punch the clock”

Hljómsveitin hefur verið gagnrýnd fyrir að nýta sér ofnotað og klisjukennt þema (hversu margar bíómyndir fjalla um sálardauða úthverfanna?), en mér finnst það viðeigandi engu að síður. Úthverfin eru ein augljósasta birtingarmynd þess konformisma og hjarðeðlis sem við öll eigum til að fela okkar inn í.

Öll ætlum við okkar að verða öðruvísi, verða eitthvað meira, en endum eflaust flest í sama steríllitaða kassanum.

Hljómur úthverfisins

Meðlimir Arcade Fire ólust upp í úthverfum Houston og Montreal á níunda áratugnum og segja sjálf að platan sé afturhvarf til þeirra tíma. Tónlistinni hefur verið lýst sem blöndu af Neil Young og Depeche Mode, lýsing sem hefur ákveðinn sannleikskjarna.

Eftir að hafa orðið fyrir talsvert miklum vonbrigðum með Neon Bible og heyrt þessa lýsingu á The Suburbs hafði ég vægast sagt litlar væntingar, þetta hljómaði allt eitthvað svo kjánalega. En mér var komið skemmtilega óvart.

Platan hefst ekki á rólegum inngangi eða hljóðum sem feida inn, heldur byrja hljóðfærin af krafti frá fyrstu sekúndu. Symbalar, píanó, kassagítar og bassi, byrja öll í fyrsta slagi svo maður hrekkur í kút. Melankólískur söngur Win Butlers dettur svo inn stuttu seinna.

Lagasmíðarnar eru ekki flóknar, en vinna einstaklega mikið á. Hver melódía síast hægt og rólega inn í undirmeðvitundina og hreiðrar þar um sig þangað til maður stendur sig að því að raula hana á meðan sinnir sínum hefðbundnu úthverfaskyldum. Einkennandi kammer-indí hljómurinn býður mann velkominn og smekklegar útsetningarnar halda manni við efnið.

Kaldir hljóðgervlar sem vísa í nýrómantísk elektróbönd líkt og The Cure, Tears for Fears og New Order, spila stærra hlutverk en áður, og (afsakið að ég segi það) sér-amerískur hallærisleiki í anda Bruce Springsteen er áberandi. En þessi fílingur passar raunar fullkomlega við þema plötunnar og því ekkert út á það að setja.

The Suburbs er rúmur klukkutími að lengd (15 mínútum lengri en báðar fyrri plöturnar) og telur heil 16 lög. Örlítillar einsleitni fer að gæta á seinni hluta plötunnar, og þrátt fyrir að öll lögin hafi sinn sjarma (og í rauninni ekkert þeirra áberandi best) mættu nokkur þeirra alveg missa sig, heildarinnar vegna. Persónulega hefði ég mögulega endurskoðað lögin Rococo, Modern Man, Sprawl I og tilgangslausa endurtekninguna á The Suburbs.

Óvæntasti slagarinn er vafalaust hið Blondie-lega Sprawl II (Mountains Beyond Mountains), sem er sungið af Régine Chassagne með veikri en sjarmerandi röddu.

Dauði indí-sins

Löngu áður en The Suburbs skaust í efsta sæti bandaríska vinsældarlistans var orðið augljóst að indí-tónlist væri hætt að vera sú unglingauppreisn og sá útskúfaði menningarkimi sem hún var í upphafi. Indí er meinstrím.

Þó að Arcade Fire sé leitandi band, og Win Butler einhver hæfileikaríkasti popplagahöfundur nútímans, er augljóst að hljómsveitin stefnir ekki að því að bylta hlutunum sem þau bölva í söng. Þvert á móti eru Arcade Fire að gelda hugmyndina um indí sem einhverskonar uppreisn (því sú list sem ögrar ekki ríkjandi dreifingakerfi verður jú ávallt gagnbyltingarsinnuð). Ég græt hinsvegar ekki indí-ið, heldur bíð spenntur eftir næstu uppreisn. Þangað til mun ég eflaust hlusta oft á The Suburbs, enda mögnuð poppplata.

Meirihluti ykkar sem þetta les er alinn upp í úthverfi; Garðabæ, Grafarvogi, Breiðholti, Seltjarnarnesi eða Hafnarfirði (og jafnvel þó að þið séuð úr 101 eða af Ísafirði, eruð þið líklega bölvuð úthverfabörn). Vegna þess að Arcade Fire gera það ekki sjálf ætla ég að taka mér það bessaleyfi að ákalla ykkur öll.  Kæru úthverfakrakkar: sameinumst um að breyta heiminum, elskum hvert annað, tröðkum á tabú-um smáborgaranna, brjótumst undan eigin hömlum og gerum samfélagið opnara, frjálsara, víðsýnna, manneskjulegra. Þegar okkur tekst það þurfum við ekki lengur að troða okkur inn í kassa annarra, kassana sem Arcade Fire syngja um: inn í steríllituð úthverfaraðhús, tveggja fermetra skrifstofubása, forvaldar útvarpsstöðvar, úrkynjuð siðferðisgildi og fyrirframgefnar staðalmyndir.

Arcade Fire – We Used to Wait

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Arcade Fire – Sprawl II (Mountains Beyond Mountains)

Deftones – Diamond Eyes

(Löngu tímabær dómur)

Útgáfurár: 2010
Label: Reprise/Warner Bros

Sjötta breiðskífa Deftones frá Sacramento er svo sannarlega ein af betri rokkplötum síðasta árs. Hljómsveitin snýr hér aftur eftir fjögurra ára fjarveru frá útgáfu en þeirra síðasta plata, Saturday Night Wrist, kom út á haustdögum árið 2006. Árið 2008 bárust fregnir um að hljómsveitin hefði klárað plötu. Platan hafði hlotið nafnið Eros og horfði hljómsveitin fram á útgáfu snemma árs 2009. Hljómsveitin ákvað að hætta við útgáfu og setja plötuna á hilluna þegar bassaleikari sveitarinnar, Chi Cheng, lenti í hræðilegu bílslysi seint árið 2008. Liggur Cheng víst enn í dái en þó er kappinn eitthvað að braggast.

Árið 2009 var lagst í tveggja mánaða vinnu í hljóðveri ásamt bassaleikaranum Sergio Vega og úr varð platan Diamond Eyes.

Diamond Eyes heilsar hlustanda með virkilega vænni sprengju. Eitt allra besta rokklag ársins 2010, Diamond Eyes, býður upp á það besta sem Deftones hefur fram að færa. Harka mætir melodíu og tilfinningaþrunginn er greinilegur. Hér má einnig finna fyrir nærveru Frank Delgado (hljómborðsleikara/plötusnúð sveitarinnar) mun meira en oft áður. Frábært stykki til að byrja rússíbanann.
Lögin Royal og CMND/CTRL henda manni aftur um nokkur ár og koma fyrri verk eins og Adrenaline (1995) og Around The Fur (1997) upp í hugann. Það er ekkert nema yndislegt. Chino Moreno leiðir hesta og gæsahúðin ætlar vart að láta undan.

You´ve Seen The Butcher er fjarkinn og með því besta á plötunni. Delgado er hér aftur ögn framar í mixinu en áður og grúvið og þunginn er brilliant. Týpísk gæsahúð og lagið virkar ótrúlega vel á tónleikum. Var þetta eitt af þeim sem stóð upp úr eftir tónleika sveitarinnar í Stokkhólmi í nóvember sl. Ekki skemmir myndbandið fyrir!

Deftones plata er ekki Deftones plata nema það komi smá grúv/rólegheit inn á milli. Í laginu Beauty School bremsar sveitin sig örlítið af og poppar sig ögn í mallann og Sergio Vega smyr bassann vel í  Prince og bæði lögin virka vel með sing-a-long viðlögum og allt í góðu grúvi (Verst hvað sænskir tónleikagestir geta verið latir og súrir).
Þunginn kraumar þó alltaf undir og fer Chino Moreno á kostum hér eins og annars staðar og félagarnir Stephen Carpenter (gítar) og Abe Cunningham (trommur) eiga erfitt með að valda vonbrigðum.

Fyrsta smáskífa plötunnar, Rocket Skates, róar ekkert niður og lætur hlustanda langa til að hoppa um sveifla höndum og hreinlega missa vitið í smástund (fínt i lyftingarsalinn fyrir þá sem vilja?). Viðlagið “Guns, razors, knives…fuck with me!” segir allt sem segja þarf og þó töluvert sé um endurtekningu í laginu skemmir það ekki fyrir.
Stuð og reiði í bland svæfa loks hlustanda í skýjaborgum og fegurð í laginu Sextape og minnir lagið ögn á meistaraverkið White Pony (2000). Einfalt og gott fyrir lokakafla þessarar brjálæðu plötu.

“This one´s for Chi!” kallaði Moreno í mækinn í Arenan í Stokkhólmi áður en sveitin renndi í níunda lag plötunnar, Risk. Hér talar Moreno beint til vinar síns og hljómsveitarfélaga Chi Cheng og lagið grúvar vel og textinn er þrælfínn og hreinskilinn. Sveitin er orðin gríðarleg sem hljómsveit á sviði og eftir að hafa ekki séð Deftones frá því á Roskilde 2006, ætlaði ég vart að trúa hvað sveitin datt í mörg gömul og góð og hvað allt hljómaði stórkostlega vel.

Diamond Eyes tekur lokasnúning með lögunum 976-Evil og This Place Is Death. 976-Evil er poppaðasta lag plötunnar og minnir gítar Carpenter dálítið á 90´s pop/rock stílinn í stað hans hefðbundna stíls. Ekkert skemmandi en þó rís lagið ekki mjög hátt og hverfur í skuggann. Falsettur Moreno og yfirvegun lagsins heillar þó án efa marga og þá sérstaklega kvenaðdáendur sveitarinnar að mínu mati.
Frank Delgado opnar This Place Is Death og nær lagið að binda vel fyrir þessa frábæru plötu. Líðandi grúv en líkt og 976-Evil rís lagið ekki eins hátt og forverar þess á plötunni og skilur hlustanda eftir þyrstan í meira en þó, sáttan við heildarverkið og meira en það.

Diamond Eyes er svo sannarlega besta verk Deftones í áratug. Hún státar af hörku Adrenaline, grúvi Around The Fur og mjúkri melodíu White Pony en færir einnig fram nýjar og spennandi stefnur. Eftir að hafa bæði kynnt mér plötuna í meira en hálft ár og séð sveitina lifandi á sviði seint á árinu, get ég með fullri samvisku sagt að þetta sé ein besta rokksveit okkar tíma og að þessi plata sé ein besta rokkplata ársins 2010. Út í búð, núna!

Einkunn: 4,5

Avey Tare – Down There

Einkunn: 3.5
Útgáfurár: 2010
Label: Paw Tracks

Nafnið Avey Tare hringir eflaust bjöllum hjá aðdáendum Animal Collective, en kappinn er einmitt einkennisrödd bandsins ásamt félaga sínum Panda Bear. Avey, eða Dave eins og foreldrar hans nefndu hann, hefur þó ekki verið jafn iðinn við að koma nafni sínu á framfæri sem sólólistamaður líkt og félagi hans Noah (þ.e. Panda Bear). Árið 2007 gaf hann út hina stórskrýtnu Pullhair Rubeye ásamt þáverandi eiginkonu sinni, hinni íslensku Kríu Brekkan. Einnig hefur hann starfað með meðlimum Black Dice í óhljóðaverkefni sem kallast Terrestrial Tones. Down There er því fyrsta eiginlega sólóskífa kappans en hún kom út á dögunum á vegum Paw Tracks. Þess má til gamans geta að Deakin, annar meðlimur Animal Collective, kemur svolítið við sögu Down There en hann sá um pródúktsjón á plötunni.

Það er margt á seyði hér sem minnir óneitanlega á Animal Collective. Það er kannski ekki að undra þar ½ bandsins leggur hönd á plóg. Helst væri að nefna síðustu breiðskífu hljómsveitarinnar, Merriweather Post Pavillion, í þessu samhengi. Hljóðheimurinn er alfarið rafrænn og lítið fer fyrir fólk og indírokk áhrifum eins og á síðustu plötum bandsins. Það er þó ekki eins og Avey Tare sé að fylgja eftir einhverri formúlu. Platan er mun dimmari og drungalegri en nokkuð sem hefur heyrst frá Animal Collective. Andrúmsloft skífunnar er þrúgandi, fyrirferðamikið og Avey gefur sér nægt svigrúm til að byggja upp þessa óhugnanlegu stemningu sína.

Avey Tare hefur sýnt það og sannað að hann hefur eyra fyrir melódíum. Nokkur lög Down There birta þennan hæfileika glöggt. Fyrsta lag plötunnar, “Laughing Hieroglyphic”, er gott dæmi um þetta. Yfir snilldarlega taktsmíði og dáleiðandi orgvél leggur Avey grípandi sönglínur, melódískt elektróskraut og nær að seyða fram eitthvað albesta lag þessa árs. “3 Umbrellas” er annað dæmi um þetta: lagið er vissulega svolítið mínimalískara en engu að síður sneisafullt af litlum stefum sem síast hægt og rólega inn í heilabúið.

Avey Tare – Laughing Hieroglyphic

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Það verður þó að segjast eins og er: Down There er fremur tormelt og á köflum hreinlega erfið plata. Það liggur beint við að horfa á hana sem ferðalag um hljóðheim frekar en sérviskulega poppsmíði. Avey Tare dregur hlustandann með sér í leiðslu þar sem fagrir hljóðskúlptúrar og litlar melódíur rekast á myrka syntha og drungaleg tónhryðjuverk. Hann gefur sér líka nægan tíma í að byggja upp þess rafmögnuðu leiðslu, stundum heilu lögin, og því er freistandi að horfa á plötuna sem eina heild fremur en safn laga. Platan fellur þó aldrei í þá gryfju að verða eingöngu bakgrunnstónlist: Avey nær alltaf að kalla á athygli hlustandans með einhverjum brögðum.

Ég var svolítið hræddur um að Avey Tare myndi týna sér í tilraunagleði, samanber Pullhair Rubeye og fyrstu skífur Animal Collective. Svo er þó ekki raunin, enda er Avey eflaust orðinn það reyndur og fær tónlistarmaður að hann veit hvað gengur upp og hvað ekki. Helst er hann að leika sér með hugmyndir um söng og röddun – oft og tíðum með krassandi útkomu. Sem dæmi mætti nefna lagið “Heads Hammock” þar sem söngurinn er leiddur í gegnum sækadellíska effektasúpu og verður að hljóðfæri frekar en eiginlegri sönglínu.

Lagasmíðarnar eru flestar fremur spunakenndar og óhefðbundnar en það gengur upp fyrir tilstilli hljóðheimsins sem er hér skapaður. Hljómur plötunnar er nefnilega algjörlega tímalaus. Það eru engar óþarfa vísanir í eitthvað 80’s eða 90’s og fyrir vikið verður hljómurinn svolítið ‘ekta’. Hann vitnar ekkert utan fyrir sig og er snilldarlega heilsteyptur. Í því liggur raunar frumleiki og styrkur plötunnar.

Frumraun Avey Tare er alls ekki það besta sem heyrst hefur frá kappanum, en skrambi gott þó! Þeir sem hafa áhuga á raftónlist sem keyrir ekki á töktum og lúppum ættu að geta fundið eitthvað fyrir sinn snúð á Down There. Hljóðheimur plötunnar er heillandi og nýtur sín best í heyrnartólum. Platan verður sennilega seint sett á fóninn í gleðskap góðra vina. Hinsvegar er hún alveg tilvalin til að sökkva sér í þegar maður er einn í félagsskap Sennheiser og hefur smá tíma til aflögu.

Avey Tare – Lucky 1 (tónlistarmyndband)

Ensími – Gæludýr

Einkunn: 4,0
Útgáfa: Record Records

Það er afar áhugavert að renna þessari fjórðu breiðskífu Ensími í gegn í fyrsta skipti. Það eru óteljandi tilfinningar sem grípa mann tengdar tónlistinni og sveiflast maður á milli þeirra eins og í stórsjó á meðan á flutningi stendur.

Í fyrstu finnst manni sem Ensími hafi einfaldlega tekið upp þráðinn þaðan sem frá var horfið fyrir um átta árum síðan (þegar síðasta plata sveitarinnar kom út) og lítið gert nema skerpa eilítið á tónsmíðunum og uppfæra hljóminn aðeins. En áður en sú hugsun nær að koma sér þægilega fyrir í huga manns tekur tónlistin nýja stefnu og hugmyndinni er kollvarpað algerlega. Þá fer maður, eins og gerist, að reyna að skilgreina það sem til eyrna berst og leita jafnvel að samlíkingum einhversstaðar í tónlistarflórunni. “Örlar á smá Sigur Rós þarna inn á milli?” hugsar maður og sperrir eyrun. “Er þetta eitthvað Diktu-legt?” spyr maður sig líka. Auðvitað kemst maður heldur ekki hjá því að hugsa hvort þátttaka hljómsveitarmeðlima í öðrum tónlistarverkefnum hafi haft áhrif á lagasmíðina og mögulega smitað út frá sér?

Með ítrekaðri hlustun hætti ég þó jafnt og þétt að velta fyrir mér mögulegum samlíkingum, áhrifavöldum eða stefnu- og straumlegum smitberum hverskonar og ákvað að leyfa tónlistinni að sýna sitt rétta andlit ef svo má að orði komast. Ensími er nefnilega nokkuð einstök sveit enda er engin tilviljun að hún eigi einn dyggasta aðdáendahóp landins (og það án þess að hafa gefið út plötu í heil átta ár!). Það er eitthvað svo þægilega viðkunnanlegt og upphefjandi við tónlist þeirra án þess að hún nái beint að grípa mann. Svona eins og þægileg nærvera gamals kunningja. Tónlistin er tímalaus, hvorki gömul né ný. Hún bara er þarna og fær viðurkenningu manns nánast umsvifalaust án þess að gera sérstaka kröfu til þess.

Gæludýr er afar góð plata, fáguð og stílhrein en laus við tilgerð og óþarfa rembing. Hún rennur nokkuð ljúflega og átakalaust í gegn og krefst kannski ekki nógu mikils af hlustandanum. Það má þó varla teljast henni það til vansa og ef eitthvað er bætir skemmtanagildið upp fyrir slíka vankanta. Það er vel hægt að “detta inn í” þessa plötu enda upptökustjórn og hljóðblöndun (sem var í höndum Sundlaugarvarðarins Birgis Jóns Birgissonar) slík að nóg er af allskonar smáatriðum til að pæla í. Það má reyndar deila um hvort sándið sé hreinlega svona gott eða það sé  “over produced”. Sé hinsvegar litið til þess að Ensími hafa alltaf verið með mjög “pródúseraðann” hljóm verður það eiginlega að teljast smekksatriði hvað fólki finnst og legg ég því ekki dóm á það hér.

Gæludýr er gripur til að eignast. Hún er eins og gamall kunningi sem þú hefur ekki séð í mörg ár og tekur fagnandi þegar þú hittir hann.

Jónas Sigurðsson & Ritvélar framtíðarinnar – Allt er eitthvað

Einkunn: 4,0
Útgáfuár: 2010
Útgáfa: Cod Music

Jónas Sigurðsson er þrælmerkilegur músíkant fyrir margar sakir. Fyrir það fyrsta mætti nefna að hann samdi vinsælasta lag gítargutlara Íslands fyrir einhverjum rúmum áratugi: “Rangur maður”. Þar að auki skilst mér að um árabil hafi hann verið einn frambærilegasti trommari landsins. Og svo náði hann að heilla gagnrýnendur upp úr skónum með sinni fyrstu sólóskífu árið 2007, Þar sem malbikið svífur mun ég dansa. Platan kom eins og þruma úr heiðskíru lofti með sinn þétta, útpælda og þroskaða hljóm. Á dögunum kom út nýjasta afurð Jónasar, Allt er eitthvað, á vegum Cod Music. Á plötunni er hann studdur af einvala liði hljóðfæraleikara sem kemur saman undir nafninu Ritvélar framtíðarinnar.

Jónas skiptir Allt er eitthvað í tvo hluta og aðgreinir þá með þremur stuttum lögum sem eru leikin án texta. Platan hefst á “Framtíðin er hin nýja fortíð”, einfalt en aðlaðandi intró sem leiðir hlustanda inn í fyrri part plötunnar. “Konstantinus Spectrum” er staðsett undir miðju og tengir saman fyrri og seinni hluta. Þetta er dísætt og melódískt stef, svolítið í anda 8-bita tölvuleikjatónlistar. Jónas lokar svo seinni hlutanum með “Konstantinus finale” – sem er í raun nafni “Spectrum” í nýjum búningi. Í bæklingnum má finna einhverskonar texta sem tilheyra þessum lögum: þetta er tölvu- og forritunarmál sem vísar þannig óbeint í dagvinnu Jónasar sem tölvunarfræðings. Oft þykja mér intró, outró og hvað þetta nú heitir allt saman fremur leiðingjörn hugmynd sem virkar eins og uppfyllingarefni. En á þessari plötu heppnast það. Tilgangur laganna er skýr: að hjálpa hlustandanum að ferðast á milli hlutanna tveggja – hefja ferðalagið, færa sig áleiðis – og ljúka því.

Þannig er “Skuldaólin” óeiginlegt opnunarlag plötunnar og setur tóninn fyrir part númer eitt: taktfast og svolítið pólitískt popp-rokk, skreytt með blásturshljóðfærum og rafdútli. Þessi fyrri hluti er keyrður á kraftinum og hrynjandinni. Textarnir tjá oft reiði, biturð og stundum vonleysi. “Hleypið mér út úr þessu partýi” er einnig glöggt dæmi um áðurnefnd atriði – bara í öðruveldi. Á köflum minnir músíkin svolítið á það sem Nick Cave hefur verið að bauka undanfarið: töffararokk með dassi af soul og gospeli. Veikasta blett plötunnar er þó að finna á þessum fyrri hluta hennar en það er þegar Jónas býður okkur á “Diskótek djöfulsins”. Lagið virkar fremur kraftlaus og dauft á mig – sérstaklega þar sem því er stillt upp á milli þessara tveggja laga.

Jónas Sigurðsson & Ritvélar framtíðarinnar – Allt er eitthvað

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Á meðan fyrri hluti plötunnar er keyrður áfram á kraftinum þá er seinni hlutinn á rólegri nótum. Jónas fær fyrir vikið meira svigrúm til að leyfa melódíum að springa út og lögunum að byggjast upp í rólegheitum. Það fer Jónasi ekkert verr að vera svolítið afslappaður og rólegur því nokkur af sterkustu lögum plötunnar eru einmitt í þessum síðarnefnda hóp.

Á seinni hluta plötunnar er að finna tvö ættjarðarlög. Það fyrr er hið dulúðlega “Eiðavatn”. Þar spila orgvélar og bassi aðalhlutverk framan af en í seinni hlutanum taka svo blásturshljóðfærin við. Það verður seint sagt að lagið sé melódískt en það nær að framkalla fram kyrrð og ókyrrð á þessum sex mínútum sem það varir. Svolítið eins og landið okkar kannski? “Rokið” er svo hinn ættjarðarsöngurinn. Ólíkt rokinu sjálfu er þetta stillt og ljúft lag sem hægt og rólega byggist upp. Kvenmannsraddir styðja við söng Jónasar og útkoman er virkilega flott. Það er langt síðan ég hef hlustað á ættjarðaróð án þess að fá kjánahroll. Smekklega gert.

Þorri laganna krefst þess að maður gefi þeim smá tíma. Það er nefnilega ekki fyrr en eftir nokkrar hlustanir sem þau springa út í allri sinni dýrð. Þó eru nokkur lög sem eru þrælgrípandi. Mætti þar kannski helst nefna þau lög sem hafa hvað mest verið spiluð í útvarpinu: “Hamingjan er hér” og “Allt er eitthvað”. Bæði státa þau af eitursvalri hrynjandi og flottum viðlögum. Einnig mætti nefna “Þessi endalausi vegur endar vel”. Lagið er í skemmtilegum, léttfönkuðum búningi sem er vandlega prýddur grípandi melódíum.

Jónas Sigurðsson & Ritvélar framtíðarinnar – Hamingjan er hér

Hvað textasmíðar Jónasar varða þá eru þær ekki til að draga plötuna niður. Á köflum eru textarnir beinskeyttir og fullir gagnrýni, á köflum óræðir og ljóðræðnir. Hann talar á samfélagslegum nótum sem og persónulegum og vinnur þannig hlustandann á sitt band – maður vill heyra hvað hann hefur að segja. Sumir þeirra eru glettnir og skemmtilegir en aðrir angistafullir og einlægir.

Allt er eitthvað er ofboðslega vönduð og metnaðarfull plata – og það skín svo sannarlega í gegn. Jónas hefur greinilega nostrað við hana lengi og fyrir vikið er hún stútfull af fíngerðum smáatriðum og skrauti sem gera góðar lagasmíðar betri. Hljóðfæraleikur er óaðfinnanlegur og útsetningarnar á lögunum til fyrirmyndar. Eins og ég sagði áður, þá krefst platan smá tíma en í staðinn verðlaunar hún mann rækilega fyrir þolinmæðina. Allt er eitthvað er góð plata, raunar virkilega góð. Það er eitthvað.

noise – Divided

Hljómsveit: noise
Plata: Divided
Útgefandi: noise (2010)

Í nær áratug hefur hljómsveitin noise sett svip sinn á rokksenu Íslands. Allt frá því að hafa skriðið úr bílskúrnum árið 2001 og tekið þátt í Músíktilraunum með ágætum árangri. Hljómsveitin gaf svo út sína fyrstu breiðskífu tveimur árum síðar og nú, árið 2010, sendir hún frá sér sína þriðju; Divided.

Tvíburabræðurnir Einar Vilberg og Stefán Vilberg Einarssynir hafa leitt sveitina áfram í breytilegu formi allt frá útgáfu fyrstu plötu en nú hafa bræðurnir tekið höndum saman við þá Arnar Grétarsson og Egil Rafnsson, sem fóru mikinn með rokksveitinni Sign.

Divided tekur á móti hlustanda með mun meira poppi en sveitin er þekkt fyrir. Stab In The Dark byggir á fínni laglínu sem sest ofan á einfaldan og þungan gítar sem fleytir laginu loks í verulega grípandi viðlag. Lagið, sem hefur fengið þónokkra útvarpsspilun, er hreint, einfalt og grípandi popp/rokk sem boðar þónokkrar breytingar í herbúðum noise.

Hljómsveitin má sannarlega eiga það að hún kann að grúva vel í rokkinu og koma sveitir á borð við Silverchair ,Velvet Revolver og oftar en ekki Alice in Chains (svo eitthvað sé nefnt) upp í hugann en þó helst sveitin þétt og sjálfstæð. Sea of Hurt lyktar vel af áhrifum frá Ástralíu á 10.áratuginum og Beautiful Distraction tengir sveitina við yngra rokk stórsveita í kringum aldamót. Áhrifin eru greinileg en þó engan veginn kæfandi.

Lögin The Brightest Day og Divided eru einna sterkust þegar fram í sækir á plötunni. Hröð og þungt riff í bland við sterkan söng gera lögin grípandi, dáleiðandi og oftar en ekki að örlitlum fiðringarvald fyrir neðraveldið.

noise heldur rígfast í klassíska orgíu (ef ég má orða það á þann veg) gítars, bassa og slagverka en nú eru lögin frekar skreytt harmoníum og raddútsetningum og rödd Einars er orðin mun meira hljóðfæri en áður. Textar eru ágætir á plötunni og örlítið opnari en áður. Heavy Mellow er auðskiljanlegt og endar plötuna eins og góðum rokkskífum sæmir; með góðri ballöðu í anda rokkgoða 9.áratugarins.

Platan er ekki sú frumlegasta en er heldur ekki að reyna að finna upp hjólið. Hér er einfaldlega verið að tala um þétta, grúví, grípandi og vel hljómandi rokkplötu sem ætti ekki að svíkja neinn aðdáenda rokksins né sveitarinnar sjálfrar. noise hefur hér gefið út sitt besta efni hingað til og tók það ágætis tíma að fullkomna verkið. Þetta er það sem þeim greinilega hentar best og þeir finna sig best í og það er ekkert nema gott. Plötuna má að sjálfsögðu nálgast hjá vinum okkar á gogoyoko og í öllum helstu plötuverslunum.

noise fagnar útgáfu Divided á Sódóma Reykjavík í kvöld og opnar húsið kl. 22. Miðaverð er 1000 krónur við hurð og sjá Ten Steps Away og Coral um upphitun.

Einkunn: 4

Band of Horses – Infinite Arms

Hljómsveit: Band of Horses
Plata:
Infinite Arms
Útgefandi:
Fat Possum, Columbia & Brown Records (2010)

Þriðja plata Band of Horses leit dagsins ljós í maí á þessu ári en lögin Compliments og Factory hafa fengið ágæta spilun á öldum ljósvakans hér á landi allt frá útgáfu.
Platan, sem ber heitið Infinite Arms ber fram ágætis blöndu af því sem aðdáendur sveitarinnar þekkja frá fyrri verkum hennar en þó er hér eitthvað ferskt og spennandi að finna um leið. Vælukennd og tregafull rödd Ben Bridwell leiðir þétt, beislandi og grípandi sveitaskotið indie-rokk sveitarinnar á kaflaskiptri, ljúfri og sterkri plötu. Harmoníur þeirra Ben Bridwell og Ryan Monroe eru sem fyrr í forgrunni lagasmíða en Monroe leikur þó stærra hlutverk á plötunni en á fyrri plötum. Lög á borð við Older einkennast af hlutverkaskiptum Monroe og Bridwell og er Monroe þar í aðalhlutverki. Fer þá Bridwell mikinn í að gera viðlag lagsins afar grípandi. Getur undirritaður viðurkennt fúslega að hafa haft viðlag lagsins á heilanum frá því að sveitin lék það á frábærum tónleikum Hróarskeldu 2008.
Ljúft þykir mér einnig að hugsa til þess að lagið skuli hafa lifað af upptökuferlið.

Band of Horses – Older

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Infinite Arms er í sjálfri sér ekki frumlegasta plata sem fyrirfinnst á tónlistarmarkaðinum í dag en hún hefur þó þá fjölbreytni sem góðar hljómplötur verða að stæra sig af til að lifa af. Platan er einnig sú fyrsta sem hljómsveitin vinnur án faðmlags Sub Pop plötufyrirtækisins og má með sönnu segja að sveitin hafi fengið frjálsari hendur en áður í ferlinu. Meðlimir hafa komið og farið en hljómsveitin gefur nú út undir merkjum Fat Possum, Columbia og Brown Records (sem Ben Bridwell á þátt í).

Einn sterkasti þáttur tónlistar Band of Horses finnst mér vera rólegri kanturinn. Sveitin kann alveg að halda uppi stuði en ég vil meina að þeirra áhrifamesti þáttur séu rólegri lögin. Lög á borð við For Annabelle, Evening Kitchen og titillag plötunnar, Infinite Arms eru að mínu mati með öflugri lögum plötunnar. Sömuleiðis sem On My Way Back Home kveikir ófáa neista. Það er einfaldlega eitthvað við þessar raddir þeirra Bridwell og Monroe sem upphefja mann í alsælu.

Band of Horses – On My Way Back Home

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Hljómsveitin styður sig við hið örugga í flestum lögum sínum og hverfur sjaldan frá klassískri orgíu gítars, bassa, hljómborðs og slagverka en það gengur samt upp. Hér er ekki reynt við eitthvað nýtt, heldur haldið fast í það sem virkar. Sem er bara hið ágætasta. Það sem er þá helsta breytingin frá Cease To Begin er fráhvarf Bridwell frá alvaldi. Meðlimir sveitarinnar eru meira sameinaðir en áður og í kjölfarið; ferskari og fjölbreyttari.
Hér hefur sveitin aftur gert plötu sem flestir unnendur þessarar stefnu ættu að digga. Plötu sem laðar nýtt fólk sömuleiðis að með grípandi smáskífum og leyndum demöntum þegar nánar er ígrundað. Passar sveitin sig að missa sig ekki út í eitt né annað og rokkar sig upp og niður. Hlustandi grúvar, dillir sér, hoppar, brosir og jafnvel tárast.

Fínt combo, ekki satt? Það finnst mér allavegana.

Einkunn: 4

Markús & The Diversion Sessions – Now I Know

Einkunn: 2
Útgáfuár: 2010
Útgáfa: Brak

ATH. Hinn eiginlegi plötudómur hefst fyrir neðan strik.

Einkunnagjöf sökkar – bæði í skólum og plötudómum.

En þó að ég sé mótfallinn þeirri ofuráherslu sem lögð er á skalamat í skólum, skil ég gildi þess, og þó að einkunn segi sjaldnast mikið um raunverulega færni, segir hún margt innan ákveðins kerfis. Sigga gat reiknað margföldunardæmi á prófi og kann því að reikna samsvarandi margföldunardæmi (nema auðvitað að hún hafi giskað á rétt svar eða kíkt á blaðið hjá næsta manni). Einkunnin hefur upplýsingagildi vegna þess að matsatriðið er tiltölulega hlutlægt.

En þegar við komum að algjörlega huglægum dómum, eins og listgagnrýni, vandast málin.

Einkunn á skalanum núll til fimm, sem einhver gæji út í bæ gefur listaverki, er merkingarlaus. Hún hefur kannski skemmtanagildi, en lítið sem ekkert upplýsingagildi, hún segir okkur ekkert um verkið sjálft. Hún segir okkur meira að segja ekki, ólíkt því sem flestir halda, mikið um álit gagnrýnisins á plötunni.

Plötugagnrýnandinn stendur nefnilega frammi fyrir tveimur kostum; annaðhvort að meta plötuna í algildu samhengi, þ.e. hann metur plötuna út frá allri þeirri tónlist sem hann hefur heyrt áður og staðsetur hana innan síns matskerfis. ,,Ég fíla plötuna betur en nýju Coldplay-plötuna en ekki jafn mikið og fyrstu NEU!-plötuna, þar af leiðandi fær hún 4 í einkunn.” Það þarf varla að fjölyrða um ófullkomleika slíkra dóma því þeir eru algjörlega einstaklingsbundnir. Mörgum finnst Coldplay platan snilld og NEU! vera einhæft drasl, hvernig eiga þeir að geta tekið mark á mér?

Hinn póllinn sem gagnrýnandi getur tekið (og það er sá sem ég tek yfirleitt) er að meta plötuna aðeins út frá innri aðstæðum. Matið byggist þá á því hvort að platan uppfylli þau markmið sem hún setur sjálfri sér. Þegar einhver ákveður að gera alvarlega klassíska tónlist en spilar hana illa og tilfinningalaust stendur hún ekki undir stöðlunum sem hún setur sjálfri sér. Hins vegar hefur góð spilamennska lítið vægi ef þú ert að meta plötu með No-Wave bandi. Plata sem er langt yfir meðallagi í gæðum platna getur því fengið lélega einkunn, og öfugt. En það er líka hægt að leggja mat á markmiðið. Það er ósköp auðvelt að ákveða að gera lélega og leiðinlega plötu. En ef það er enginn listrænn ásetningur á bakvið markmiðið, er það einfaldlega vont markmið og á skilið einkunn eftir því. Þó að það væri fáránlegt að segja að slíkir dómar væru hlutlægir, eða giltu fyrir alla (því að sjálfsögðu velta þeir bara á einni manneskju, gagnrýnandanum), þá finnst mér þeir örlítið nær því, vegna þess að þeir velta ekki á annarri tónlist.

Kannski segir þetta sig allt sjálft, en mér fannst alveg við hæfi að rifja þetta upp fyrir sjálfum mér og ykkur. Sérstaklega þar sem gagnrýnendur fá (nánast) aldrei tækifæri til að útskýra einkunnagjöfina sína, vegna þeirra takmarkana sem þeim eru settar í blöðum og útvarpi.

Og nú ætla ég að tala um plötuna.

Now I Know er fyrsta plata tónlistarmannsins Markúsar Bjarnasonar, undir nafninu Markús & The Diversion Sessions. Áður hefur Markús m.a. Spilað með síð-rokksveitinni Sofandi og sungið í skrýtirokkbandinu Skátar. Bæði þessi bönd voru stórkostleg og Markús átti stóran þátt í aðdráttarafli hljómsveitanna.

Sóló-tónlist Markúsar er frumstæð kassagítartónlist, að mestu tekin upp á fjögurra rása upptökutæki og ekkert fitlað við hljóðritin. Þar sem útsetningarnar eru engar og hljómurinn á ekki að vera góður færist öll vigtin á flutning, lög og texta. Það er skemmst frá því að segja að ég er mikill aðdáandi slíkrar tónlistar og það voru því ekki litlar væntingar sem ég lagði á herðar Markúsi og dægrastyttingar hans þegar ég tróð brakandi nýjum disknum í gömlu Pioneer-græjurnar mínar og ýtti á play takkann.

Fyrsta lagið ,,Stay” byrjar á kassagítar og söng. Inn kemur skítugur en minimalískur tölvutaktur og passar frábærlega inn í lagið. Textinn er á ensku, ómerkilegur en nógu óræður til að maður geti blokkað hann út og einbeitt sér að frábærri melódíunni og gítarnum.

Mjög góð byrjun á plötunni. Snilldin heldur áfram í laginu ,,Now I Know”, en þar skín sterkur persónuleiki raddar Markúsar í gegn. Lagið flýtur ljúflega sína leið og nær hápunkti undir lokin, þegar gítarinn stoppar og melódían fer á óvænt flug í sing-a-longinu.

,,Yes it is safe to say I already miss you, but what I miss more is the man I was before I met you and I should have told you much sooner than today”

Ég finn mig knúinn til að hlusta ítrekað á lokakaflann og syngja með.

Svo kemur óvænt, alveg hundleiðinlegt lag. Tilbreytingarlaus gítar spilar undir leiðinlegri hálf-vælandi melódíu syngjandi orð sem hljóma eins og merkingarlaust væl. Beint eftir þetta auðgleymalega lag bisst Markús assökunar.

,,É bisst assökunar” er textalega langbesta lag plötunnar, Megasarlegt og hresst. Lagið er sorgarsaga ógæfumanns sem er búinn að brenna allar brýr að baki sér.

,,Ég tek það allt aftur sem ég sagði við þig
æ ég sagði það bara af því að það var sagt við mig
og ég tek það allt aftur, ég skal meirað segja bæta þér þetta upp,
og ég skal gera allt, allt, allt nema vaska upp”

Þrjú síðustu lögin hljóma svo eiginlega bara eins og lagahugmyndir. Það er hálf sárt að Markús ætli ekki að gera eitthvað meira út lögunum, af því að þarna er flottir hlutir í gangi, bara ekki nógu kláraðir.

,,Orð og Morð” virðist vera spuni út frá einum hljómagangi. ,,Kung fú Ást” er hins vegar byggt á mjög góðri textahugmynd og flottri melódíu, en það verður aldrei neitt úr því. Línurnar eru bara endurteknar og svo er ,,úúúúúú”-að í hálfa mínútu. Þó að lokalagið ,,Blessed”, sé mun lengra en hin lögin virkar það líka óklárað. Kannski krefst lagið bara fleiri hljóðfæraleika, enda er nánast engin dýnamík í flutningnum.

Ég er alls ekki á móti þeirri hugmynd að gefa út hálfunnin lög, en hvernig maður metur slíkt fer eftir þeim formerkjunum sem lagahugmyndirnar eru gefnar út undir. Democrazy plata Damons Albarns var t.d. gott dæmi um það hvernig ókláraðar lagahugmyndir geta verið góð heimild um lagasamningarferlið og hugarheim tónlistarmannsins. En Now I Know gefur sig ekki út fyrir að vera slík heimild, heldur heildstætt verk.

Lágstemmdar kassagítarplötur velta algjörlega á styrk laga og texta og því ómögulegt að trassa annaðhvort eða bæði, það verður alltaf plötunni til lasts, sama hversu lo-fi platan á að vera.

Á Now I Know standa 3 lög af 7 undir væntingum og þar sem skalinn nær upp í fimm lítur einkunnarreikningurinn minn svona út (3 / 7) x 5 = 2,142857 og það námundum við samkvæmt kúnstarinnar reglum niður í 2.

Tónlist Markúsar hefur alla burði til þess að vera frábær, en af einhverjum ástæðum ákvað hann ekki að fara alla leið með hana. Einkunnagjöfin er því ekki hraun heldur spark í rassinn. Ég vona að hann haldi áfram að hlýða blessun sinni og byrði; að syngja lög og færa heiminum gleði. Bara aðeins betur.

Markús & The Diversion Sessions – Now I Know

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Markús & The Diversion Sessions – Orð og Morð

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

p.s. umslagið er flott.

Anaїs Mitchell – Hadestown

Einkunn: 4,5
Útgáfuár: 2010
Útgáfa: Righteous Babe

Fyrr á árinu kom út platan Hadestown með Anaїs Mitchell og er þetta hennar fjórða stóra plata. Hér er þó engin venjuleg plata á ferðinni. Fyrir það fyrsta er hún kynnt sem folk opera og er afrakstur margra ára vinnu Mitchell og félaga hennar, jafnt á sviði sem og í hljóðveri. Efni plötunnar byggir á grísku goðsögunni um Orfeus og Evridísi en á sér stað í Ameríku á tímum mikillar kreppu. Mitchell sjálf tekur sér hlutverk Evridísar en með hlutverk Orfeusar fer Justin Vernon, betur þekktur sem Bon Iver. Önnur helstu hlutverk eru í höndum Greg Brown sem Hades, sem í upprunalegu útgáfunni er guð undirheima og dauða, Ani DiFranco sem Persefóna, kona Hadesar og Ben Knox Miller úr the Low Anthem sem sendiboðinn Hermes.

Í sem stystu máli gerist sagan í heimi fátæktar og Evridís efast um hvort Orfeus geti fætt hana og klætt. Orfeus er draumóramaður og hefur engar slíkar áhyggjur enda muni fagur söngur hans framfleyta þeim. Evridís er forvitin um hinn dimma Hadestown hvar nóg er af auðæfum og Hades ræður ríkjum. Hades tælir Evridísi en Orfeus er ákveðinn í að endurheimta ástina sína. Hann syngur harmkvæði sín um Evridísi og nær til Persefónu sem biðlar til Hadesar um að leyfa Orfeusi að fara burt með Evridísi. Hades samþykkir með semingi en leggur gildru fyrir Orfeus; hann þurfi að ganga á undan Evridísi og megi ekki líta tilbaka fyrr en þau bæði séu komin útúr Hadestown, annars verður hún honum töpuð að eilífu…

Platan er bræðingur svo ólíkra tilfinninga, tónlistarstefna, persóna, söngstíla og radda að það er mesta furða að þetta gangi upp en staðreyndin er sú að þetta meira en gengur upp. Þrátt fyrir að lögin standi flest vel ein og sér þá er summa heildarinnar klárlega meiri en summa hlutanna og þessi marglaga plata verðlaunar ríkulega sé henni gefinn gaumur. Þó að textarnir séu hluti af stærri sögu er snert á ýmsum þemum. Þar má nefna þverrandi siðgæði á harðindatímum og hvernig samfélög sem girða sig frá nágrönnum sínum. Það er vert að gefa sér tíma í að lesa textana því þeir eru einstaklega ljóðrænir og hjálpa auðvitað til við að njóta sögunnar til fullnustu.

Lögin á plötunni eiga kannski ekki eftir að toppa neina vinsældarlista en platan sjálf á heima meðal þeirra efstu á árslistum 2010. Ekki bíða eftir árslistunum – hlustaðu á plötuna strax.

Anais Mitchell – Flowers

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Anais Mitchell – Wait

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

S.H. Draumur – Goð+

Einkunn: 5+
Útgáfuár: 2010
Útgáfa:
Kimi

Hljómsveitin S.H. Draumur hefur nú komið saman aftur 22 árum eftir að hún lagði upp laupana og spilar á Airwaves hátíðinni í ár. Tilefnið er útkoma Goð+ sem eins og nafnið gefur til kynna inniheldur plötuna Goð frá árinu 1987 auk valins aukaefnis á tveimur geislaplötum, þ.e. stuttskífurnar Bensín skrímslið skríður (1985), Drap mann með skóflu EP (1987) og Bless (1988) og óútgefin demó og tónleikaupptökur. Árið 1993 kom út safndiskurinn Allt heila klabbið sem seldist fljótlega upp en útgáfan nú er mun veglegri, bæði eru hljómgæðin bætt svo um munar og aukalögin eru mun fleiri. Útgáfan nú er því þörf, tímabær og vel þegin.

S.H. Draumur – Glæpur gegn ríkinu (af Goð, 1987)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Fyrri diskurinn inniheldur Goð sjálfa, sem hefst með upphafslínunum “mér stendur á sama…” og setur tóninn fyrir plötuna þar sem pönkandi, unglingauppreisn og angist svífur yfir vötnum. Goð er ein af þessum fágætu plötum sem virðast fullkomnar; fjölbreytt en þó heilsteypt – útpæld en þó áreynslulaus. Textarnir eru hnyttnir og skemmtilegir og smella frábærlega við tónlistina. Þeir vekja upp myndræna stemningu og eru hver eins og lítil saga – það er ekki vart hægt að hlusta á lögin án þess að sjá samstundis fyrir sér leðurklæddan mótorhjólakappa á ferð yfir auðnina (Helmút á mótorhjóli), hræsnandi hippa (Sýrubælið brennur), einmana fullann sjómann (Engin ævintýri) eða ungling frjósandi í hel eftir misheppnaðan flótta af heimavistinni (Öxnardalsheiði).

S.H. Draumur – Öxnadalsheiði (af Goð, 1987)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Hinar plötur S.H. Draums standa Goð lítt að baki, þó hún sé klárlega sveitarinnar þéttasta og fullkomnasta verk. Þær hafa hver um sig sín einkenni, Bensín skrímslið skríður er hrárri, Drap mann með skóflu er pönkaðri og Bless er fínpússaðri en fyrri verk, vísbending um hvað hefði getað orðið ef sveitin hefði haldið áfram (hluti meðlima hélt reyndar áfram undir nafninu Bless en áherslur og hljómur breyttist nokkuð með nafninu nýja).

Aukaefnið í G0ð+ pakkanum er veglegt. Meginuppistaðan eru demóupptökur frá árunum 1982-1984 og má á þeim heyra þróun sveitarinnar frá stofnun og að útgáfu Bensín skrímslið skríður. Heyra má hvernig sveitin færði sig hægt og bítandi úr kröftugu hrápönki yfir á þróaðri nýbylgjulendur og má vel ímynda sér sveitarmeðlimi sitja og pæla í Birthday Party og skyldum sveitum milli æfinga (lagið “Gunni kóngur” minnir mig a.m.k. ögn á “Nick The Stripper”). Einnig fylgja nokkrar tónleikaupptökur frá seinni hluta ferlisins og stendur “Nótt eins og þessi” klárlega upp úr, en lagið hefur sérstakan tónleikasjarma sem ef til vill hefði týnst í hljóðversupptöku. Vert er að geta að ef pakkinn er verslaður á heimasíðu Havarí fylgir með stafrænt niðurhal af plötunni Goð++ sem inniheldur 14 óútgefin lög til viðbótar! Gaman hefði verið að heyra einnig demó og læf upptökur af þeim lögum sem rötuðu á opinberar útgáfu sveitarinnar – en það verður líklega að bíða um sinn (hint hint fyrir næstu endurútgáfu).

Ég hef átt langt samband við þessa S.H. Draum – allt frá því að ég keypti Allt heila klabbið á útsölu í Takti fyrir meira en 15 árum síðan, hafandi rétt heyrt eitt eða tvö lög með sveitinni. Ég féll gjörsamlega fyrir tónlistinni og bjargaði hljómsveitin mér frá leiðindum í löngu kennaraverkfalli. Útgáfa Goð+ er því eins og heimsókn frá gömlum vini, sem nú hefur ekki eingungis fengið vel heppnaða yfirhalningu heldur einnig elst alveg einstaklega vel.

S.H. Draumur – Dýr á braut (af Bless, 1988)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Goð er líklega eitt vanmetnasta meistaraverk íslenskrar tónlistarsögu, sem að hluta til má kenna því um hversu lengi hún og annað efni sveitarinnar hefur verið ófáanlegt. Plötur S.H. Draums voru sjálfútgefnar og í litlum upplögum enda var sveitin kyrfilega staðsett utangarðs og neðanjarðar þegar hún starfaði, en er þó klárlega meðal bestu hljómsveita sem störfuðu hér á landi á 9. áratugnum – og jafnvel þó víða væri leitað í tíma og rúmi. Það hefur því verið fámennur en tryggur hlustendahópur sem haldið hefur minningu hljómsveitarinnar í heiðri, á meðan flestir þekkja hana rétt af afspurn eða hreint alls ekki. En þessi endurútgáfa núna ætti að vekja nýjar kynslóðir til vitundar um þessa frábæru tónlist og skipa sveitina á þann stall í íslenskri tónlistarsögu sem hún á skilið – sem ein besta rokksveit sem landið okkar hefur af sér alið.

For a Minor Reflection – Höldum í átt að óreiðu

Einkunn: 3,5
Útgáfuár: 2010
Útgáfa: Sjálfútgefið

Höldum í átt að óreiðu er önnur plata For a Minor Reflection en áður hafði sveitin gefið út plötuna Reistu þig við, sólin er komin á loft… sem kom út 2007. Inniheldur platan tíu frumsamin lög sem tekin voru upp í Sundlauginni í Mosfellsbæ haustið 2009. Var upptökustjórn var í höndum Scott Hackwith en hann hefur unnið með ekki ómerkari listamönnum en The Ramones og Iggy Pop.

Höldum í átt að óreiðu er fáguð plata og er hljómur FaMR á henni afar tær og hreinn. Venjulega þættu slík ummæli vera til vitnis um ótvírætt ágæti viðeigandi plötu en í þessu tilfelli finnst mér þau ekki endilega af hinu góða. Ég sakna nefnilega dálítið kraftsins sem FaMR ná að magna upp á tónleikum, þegar þeir reisa í kringum sig sinn órjúfanlegan og stórkostlega hljóðvegg, og finnst hann líða fyrir fágun og tæran hljóm. Það vantar einhvernveginn meiri skít og meiri drullu. Að tjúna græjurnar í botn og gera allt vitlaust.

Kannski er þetta bara ný stefna hjá sveitinni? Einhverskonar málamiðlun til þess að laða að breiðari hóp hlustenda?

For a Minor Reflection – A Moll

En hverju sem því líður þá tekur þessi vöntun á krafti í hljómnum á plötunni ekkert frá sjálfum tónsmíðunum en þær eru jú það sem allt snýst um, ekki satt? Á Höldum í átt að óreiðu sýna meðlimir FaMR okkur og sanna, svo ekki verði um villst, að þeir eru mjög hæfir lagasmiðir sem ná, með draumkenndum og áleitnum og jafnvel ljúfsárum melódíum, að fanga nánast allan tilfinningaskalann. Og það án þess að segja né syngja eitt einasta orð. Lögin eru mjög myndræn og er hvert lag er eins og lítill stuttmynd þar sem sögð er saga sem hlustandinn býr til í huga sér.

For a Minor Reflection – Dansi Dans

Það er erfitt að velja eitt lag umfram annað þó óneitanlega standi tvö lög örlítið uppúr. Það eru smellurinn “Dansi Dans”, sem hlotið hefur hvað mesta útvarpsspilun, enda afar grípandi lag, og hið magnaða og epíska  “Sjáumst í Virginíu” en það er nánast korter á lengd. Fyrir utan þessi tvö lög, sem vissulega falla vel að heildarsvip plötunnar, rennur hún nokkuð ljúflega í gegn. Það myndast ákveðið munstur í uppbyggingu sumra laganna, sem byrja hægt en vinna sig svo upp í kraftmikinn lokakafla, en með lögum eins “Fjara”, “Tómarúm” og “Átta” tekst  liðsmönnum FaMR tekt að gera nægilega sterkar undantekningar til þess að ekki myndist einhæf regla.

Höldum í átt að óreiðu er góð plata og einmitt vel þess virði að eignast einmitt nú, því tónlistin er sem sniðin til áheyrnar á dimmu haustkvöldi þegar maður kúrir sig upp í sófa með teppi, heitann bolla og góða bók.

Joanna Newsom – Have One On Me

Einkunn: 5,0
Útgáfuár: 2010
Útgáfa: Drag City

Hversu oft sagði ég einhverja plötu þá bestu sem ég hafði heyrt? Hversu margir tónlistarmenn snertu mig á einhvern djúpstæðan hátt eða töluðu til mín? Á unglingsárunum var það næstum því daglegur viðburður. Hver nýr hljómur gat sagt eitthvað nýtt, að hlusta á útvarpið var bæði fræðandi og fullnægjandi.

Þegar maður eldist þá heyrir maður æ sjaldnar tónlist sem snertir mann á sama hátt og þegar maður var yngri. Er maður búinn að deyfa tilfinningarnar með ofgnótt af músík, eins og eiturlyfjafíkill sem þarf ávallt stærri skammt til þess að komast í sitt ,,eðlilega ástand”, eða verður maður bara sjálfkrafa raunsærri, veraldarvanari og tortryggnari með árunum? Það er þó einstaka sinnum sem maður finnur þessar æskutilfinningar aftur. Maður fellur gjörsamlega fyrir listamanni; hann getur ekki brugðist manni, allt sem hann gerir er stórkostlegt. Þetta eru þeir einstaklingar sem réttlæta þá óheyrilegu tíma og peningaeyðslu sem fer í þessa fíkn.

Einn af örfáum nútímatónlistarmönnum sem vekur upp slíka geðshræringu hjá mér er bandaríski tónsmiðurinn, hörpuleik- og söngkonan Joanna Newsom. Já, það er rétt. Ég ætla að slást í hóp með lofkórnum; óteljandi tónlistargagnrýnendum víðsvegar um heim sem missa alla mögulega líkamsvessa í hvert skipti sem þessi unga Kaliforníumær hefur upp raust sína.

Joanna, ljós lífs míns, eldur mjaðma minna. Synd mín og sál. Jo-ann-a.

Það er hvorki af einhverjum tónfræðilegum pervertisma né indíhipster-popúlisma sem ég heillast af músíkinni (vona ég). Það er eitthvað himneskt sem gerist þegar ég hlusta á hana. Ég veit ekki hvað það er sem snertir mig. Ég skil ekki tónlistina og fatta ekki textana, en fegurðin skín úr hverri nótu og hverju atkvæði. Það er eins og ég komist í snertingu við hið háleita, göfuga, himneska, sem svo margir vitrir menn hafa talað um.

Ég veit ekki hvernig ég ætti mögulega að útskýra það fyrir einhverjum sem ekki hefur upplifað slíkt. Þess vegna ætla ég einungis að segja frá nýjustu plötu Joönnu Newsom í tiltölulega jarðbundnu, ódramatísku en vonandi upplýsandi máli.

Frumraun Newsom, The Milk-Eyed Mender [2005] var fersk og gáskafull. Hljómurinn var nýr. Undarleg rödd, sem marraði eins og ískrandi hjólin á sjúkrabörum, söng kímna texta með gamaldags sögumennskuaðferðum og undir lék harpa í anda keltneskra þjóðlaga. Ys [2007] var hinsvegar dramatísk fantasía, epísk þemaplata og rómantískt endurreisnarverk. Báður þessar skífur voru stórkostlegar á sinn hátt (sú síðari reyndar líklega sú magnaðasta sem komið hefur út eftir aldamótin). Hins vegar mætti segja að Have One On Me, sem kom út í febrúar á þessu ári, sé bæði þroskaðri og afslappaðri en fyrri plöturnar (ekki að það þurfi endilega að vera eitthvað betra).

Platan er þrekvirki: þrefaldur 18 laga pakki, rétt rúmir tveir tímar af tónlist. Slíkt magn er erfitt að innbyrða í einni yfirferð, en sem betur fer er þess ekki krafist af manni. Það er varla hægt að gera upp á milli platnanna þriggja, það er enginn sérstakur eðlismunur á þeim og hver hefur sína hápunkta. Hver þeirra gæti staðið ein og sér sem sterk breiðskífa.

Þó að platan virðist í fyrstu bara vera samansafn sjálfstæðra laga, er greinilegt að ákveðnir þræðir ganga í gegnum alla plötuna (ást að sjálfsögðu), og mann byrjar að gruna að mögulega sé hún einstaklega vel ofinn vefur, og einhversstaðar sé falin merking líkt þrívíddarmynd sem falin er í mynstrinu. Eins og það sé hægt að hlusta á plötuna og njóta hennar á svo mörgum stigum, fletirnir sem hægt sé að einblína á séu óteljandi. Kannski er það ekki vísvitandi, heldur sýnir hvert lag okkur bara lítinn hluta af persónu Newsom og eins og bútasaumur safnast þau saman í eina mynd.

Það er greinilegt að röddin í Joönnu hefur breyst. Hið einkennandi ískur í háu nótunum er næstum því alveg fjarverandi. Hún þurfti að breyta söngstílnum sínum eftir að hafa misst röddina í nokkra mánuði árið 2009 vegna hnúða í raddböndunum. Hnúðana hafði hún fengið vegna þessarar óvenjulegu notkunar á röddinni. Það er þó ekki svo að skilja að þetta komi niður á söngnum, röddin hljómar á einhvern hátt ekki jafn unggæðingslega undarleg en fullorðnari og vitrari.

I may have changed. It’s hard to gauge.
Time won’t account for how I’ve aged

Á Have One On Me þróar Newsom hljóðheim sinn enn frekar með ýmsum nýjungum. Hinar yfirdrifnu útsetningar sem einkenndu síðustu plötu hafa verið dempaðar og fjölbreytni í hljóðfæravali er meira. Ryan Francesconi er helsti hjálparkokkur Joönnu á plötunni og gæðir útsetningarnar lífi með austur-evrópskum strengja og blásturshljóðfærum, rafmagnsgítar og fleiru. Í sumum lögum fær harpan jafnvel frí, t.d. í einum óvæntasta smell plötunnar;  “The Good Intentions Paving Company”, en þar minnir Joanna mig einna helst á sveitasöngkonur eins og Dolly Parton.

Sum lögin gætu virst stefnulaus, óljósar línur milli parta í lögunum og melódíurnar einkennilega fljótandi. En eins og að líða niður fljót með mikilfenglega náttúru á báðar hliðar þarf maður að geta gleymt sér og flotið með. Ekki vitað hvað bíður framundan, aðeins notið stöðugs en óreiðikennds niðarins. Joanna Newsom er einna helst þekkt fyrir sín flóknu og löngu tónverk, en þrátt fyrir það kann hún enn þá list að halda hlutunum einföldum. Eitt besta lag plötunnar að mínu mati er hið einnar og hálfrar mínútu langa “On a Bad Day”.

Formið á textum Joönnu er frjálsara heldur en flestra annarra söngvaskálda, meiri áhersla er á fallegan hljóm orða og setninga heldur en hina dæmigerðu áherslu á réttan atkvæðafjölda og endarím. Hún er menntuð í bókmenntafræði og mörgum þykir hún kannski tilgerðarleg, með langsóttar líkingar og miðaldaorðalag, en það passar svo fullkomlega við tónlistina. Fallegustu ljóðin eru því oft þau sem eru óræðust og óskiljanlegust, maður hættir að velta merkingu orðanna fyrir sér, merkingunni sem er kannski bara aukaatriði.

Not informed of the natural law
squatting, lordly, on a stool, in a stall
we spun gold clear out of straw
and when our bullion were stored
you burned me like a barn
I burned safe and warm in your arms.

Textarnir eru flestir listilega málaðar og ævintýralegar orðamyndir.

The phantom of love
moves among us at will.
Each phantom-limb lost
has got an angel
(So confused
Like the wagging bobbed-tail of a bulldog).
Kindness, kindness prevails.

en fjalla þó um tilfinningar sem flestir þekkja.

I was tired of being drunk
my face cracked like a joke
so I swung through here
like a brace of jackrabbits,

with their necks all broke
I stumbled through the door with my boot.
I knocked against the jamb.
I scrabbled at your chest, like a mute,
with my fists of ham,
trying to tell you
that I am telling you, I can –
I can love you again

Platan fær 5 stjörnur frá mér af því að hún er enn ein sönnun þess að Joanna Newsom er einhver stórkostlegasti lagasmiður dagsins í dag, lög, textar og útsetningar eru eins og best verður á kosið.

Að nefna einstök lög er næstum því tilgangslaust, uppáhaldið er venjulega það lag sem maður er að hlusta á hverju sinni. En skyldunnar vegna get ég t.d. nefnt ’81, In California, Esme og Kingfisher sem nokkur af eftirminnilegustu augnablikum plötunnar. Have One On Me er búin að sitja föst í spilaranum mínum (með smá hléum) í hálft ár og mun án efa vera tíður gestur þar næstu árin, áratugina og vonandi eitthvað lengur. Eða eins og Joanna segir sjálf:

All these songs,
when you and I are long gone,
will carry on.
Mud in your eye

Joanna Newsom – ’81

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Joanna Newsom – Kingfisher

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.


Johnny Stronghands – Good People of Mine

Einkunn: 3,5
Útgáfuár: 2010
Útgáfa: Sjálfútgefið

Djammviskubit Johnnys

Eins og þungarokksbandið sem málar sig og klæðir sig í svart og syngur um dauðann, fer Jóhann Páll Hreinsson líka í sérstakan búning þegar hann grípur í gítarinn og breytist í Johnny Stronghands: hann setur á sig hatt, fyllir glasið af viskí og byrjar að syngja um kvennaskort og vín. Textarnir eru uppfullir af blúsklisjum og tónlistin gamaldags deltablús, en guð minn góður hvað hann lifir sig inn músíkina svo það er nánast ómögulegt að hrífast ekki með.

Blúsinn er bundinn ströngu hljómfræðilegu formi og kannski örlítið lúmskara, en þó ekki minna ströngu, textalegu formi. Í svo föstu formi er falið ákveðið öryggi, sem leysir tónlistarmanninn frá því að þurfa að hugsa út fyrir þann ramma. Þetta er að vissu leyti kostur, maður veit að hverju maður gengur, en að sama skapi er það galli, þar sem fátt óvænt eða spennandi gerist.

Það er kannski það fyrsta sem maður tekur eftir við plötu Johnny Stronghands, Good People of Mine, hún ræðst ekki á þig með valdi og þröngvar þér til að hlusta. En ef þú ert tilbúinn til þess að gefa þig henni á vald sjálfviljugur munt þú svo sannarlega fá heilmikið fyrir þinn snúð. Þetta er ekki nauðgun, heldur innilegar ástarlotur.

Hingað til hefur íslenskur blús verið að mestu fastur í tengslum við Jazz eða Rokk. Blúsinn hefur orðið einskonar opinn vettvangur hæfileikra hljóðfæraleikara til þess að sýna fingrafimi og færni innan fasts forms. Svo við höldum áfram með kynlífslíkinguna þá er þeirra blús sjálfsfróun.

En nú er ég kominn út á hálan ís. Ein helsta gryfjan sem listgagnrýnendur eiga til að falla í þegar þeir fjalla um verk listamanna er að þröngva sinni eigin merkingu upp á verkin, horfa ekki á hvað tilgangur og markmið verksins er í sjálfu sér, heldur krefjast þess að það uppfylli þá staðla og mælikvarða sem þeir vilja fá út úr listinni.

Pönk á ekki að hljóma vel og lounge-tónlist á ekki að vera tilfinningarík, það er ekki aðalatriðið. Að sama skapi á sá blús sem Johnny Stronghands spilar hvorki að vera flókinn né frumlegur. En hvernig ætlum við þá að meta plötu sem reynir þetta hvorugt?

Við getum til dæmis athugað hvað tónlistarmaðurinn segir sjálfur og notað það sem mælikvarða.

Jóhann sagði í viðtali við Rás 2 að allir bestu blúslistamennirnir finndu sér sinn eigin einkennisstíl. Ef þú heyrir í Muddy Waters, Skip James eða Blind Willie McTell, þá veistu strax frá fyrstu tónunum hver á í hlut. Það er það sem Johnny er búinn að gera, hann hefur skapað sér sinn eigin letilega sunnudagsstíl, með falsetturödd og naumhyggjulegu gítarspili. Stór plús fyrir það.

Hann hittir sjálfur naglann á höfuðið þegar hann viðurkennir í sama viðtali að tónlistina hans vanti ákveðna greddu sem baðmullarblúsarar suðurríkjanna voru svo uppfullir af. Þá var tónlistin upp á líf og dauða, eina leiðin út úr volæðinu, hinn sanni farvegur tilfinninga, bitrar reiði og vonbrigða, en einnig æstrar gleði og kynferðislegrar orku, sem er bæld og fær aðeins útrás í dulkóðuðum textum og frummannlegum hrópum – ,,you can squeeze my lemon ’til the juice runs down my leg” söng Robert Johnson. Sem betur fer reynir Johnny Stronghands ekki að gera sér upp slíka greddu, greddu sem ungur íslenskur karlmaður getur líklegast ekki fundið, kynferðislega orkan er ekki bæld, og biturðin sem fylgir kynþáttahatri og stéttaskiptingu er ekki til staðar Þó að tónlistin sé þessvegna ekki jafn beitt og blúsaranna forðum, er hún heiðarleg, en í mínum bókum er það líklega besti eiginleiki sem hægt er að eigna tónlist. Lífið er ekki blús, heldur er blúsinn lífið.

Það er erfitt að gera upp á milli laganna enda eru þau öll vel samin og vel spiluð, ekki einni nótu er ofaukið og innlifunin algjör. Svo ég nefni aðeins nokkra af hápunktum plötunnar þá tekst honum m.a. að gera laginu ,,What’s the matter now?”, eftir blúsgoðsögnina Mississippi Fred McDowell, góð skil, það er helst að maður sakni stelpuskrækjanna sem fylla bakgrunninn í upprunalegu útgáfunni. En þetta er ekki endurgerð, heldur endurtúlkun, og hún er full af tilfinningu. Jafnvel þegar Jóhann syngur ,,bring me my pistol honey bring me my shotgun too” og kveður svo elskuna sína í hinsta sinn, þá skín alvaran úr rödd hans. Einmanalegur gítarinn styður við laglínuna og fóturinn heldur taktinn, maður finnur fyrir nærveru Johnnys. Á þessu augnabliki þakka ég fyrir að hann ákvað að vera ekki að fikta við upptökurnar meira, bæta við aukahljóðfærum og óverdöbbum.

,,Got’s to leave” er annar gullmoli en þar treður Johnny flöskuhálsi á fingur sér og ,,slædar” upp og niður gítarinn með góðum árangri. Ég er nokkuð viss um að ég hafi heyrt afbrigði af melódíunni í einhverju popplagi, en það dregur ekki úr gæðum lagsins (er það ekki líka bara saga þjóðlagatónlistarinnar í hnotskurn?).

,,Nine Girl Night” er stuðslagari plötunnar, skemmtileg hrakfallasaga kvennabósa með kröftugu gítarsólói.

Plötunni lýkur svo með hinu ljúfsára, ,,Lay It All On Me” sem er sungið frá sjónarhóli einnar af hetjum hversdagsins.

Good People of Mine verður seint talin frumleg, en hún er persónuleg og falleg. Johnny þekkir blúshefðina út ystu æsar og þess vegna gengur þetta upp hjá honum, hann lifir og andar blúsnum. Þó að sögurnar séu kannski ekki sannar, meinar Johnny hvert orð; hver nóta kemur frá dýpstu rótum hjarta hans. Hann sannar hér að þrátt fyrir að formið sé gamalt er ennþá hægt að tjá sig heiðarlega í gegnum það.

Johnny Stronghands – Ain’t it hard?

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Johnny Stronghands – Nine Girl Night

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.