Hróarskeldudómur: Band of Horses – Cease to Begin

Hróarskeldudómur: Band of Horses - Cease to Begin
Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Sub Pop

Einfaldlega ein af plötum síðasta árs

Hróaskelduhátíðin nálgast og birtum við því aftur nokkra vel valda Rjómadóma yfir plötur þeirra flytjanda sem þar koma fram.

Band of Horses skaust uppá sjónarsviðið fyrir um það bil einu og hálfu ári síðan með frumburði sínum Everything all the time. Indie-hausar hvarvetna fögnuðu plötunni, sem og margir aðrir tónlistarunnendur. Nú hefur þessi hljómsveit frá Seattle sent aðra plötu sína frá sér, þessa margumtöluðu aðra plötu sem sögð er vera svo erfitt að gera ef fyrstu plötunni er vel tekið. Vissulega eru til dæmi um hljómsveitir og plötur sem falla undir þá kenningu, nýjasta dæmið væri líklega Kaiser Chiefs. Öðrum hljómsveitum tekst þó að standa undir álaginu og eftir að hafa hlustað á Cease to Begin flokka ég Band of Horses hiklaust í þann flokk.

Þeir taka enda ekki mikla u-beygju frá fyrri plötunni, og halda sig við sitt kántrí-skottna indie. Samt sem áður fæ ég það ekki á tilfinninguna að þeir séu að endurtaka sig, þetta er  semsagt allt voða ferskt ennþá hjá þeim. Enda eru vissar breytingar sem eiga sér stað á Cease to Begin frá Everything all the Time. Fyrsta breytingin er sú að annar stofnandi hljómsveitarinnar, Mat Brooke, hætti í hjómsveitinni og snéri sér að öðrum verkefnum. Tónlistarlega séð virðist það hafa orðið til þess að þeir hafi þroskast nokkuð á þessu eina og hálfa ári sem liðið er frá fyrstu plötunni.

Is There a Ghost

 

Í heildinna er platan þrælsterk, hún hefst á fyrstu smáskífunni ,,Is there a ghost” sem er virkilega gott, nóg af rokkuðum gíturum ekki ólíkt ,,the funeral” af Everything all the Time sem aldeilis slóg í gegn hér á Íslandi sem annars staðar. Þeir hætta ekki þar heldur halda áfram að skapa hin þægilegustu lög með klingjandi rafmagnsgíturum og bjartri rödd söngvarans Ben Bridwells. Heildarsvipur plötunar er það sterkur að hápunktarnir eru aldrei mikið hærri en afgangurinn, það er vissulega hægt að líta á það sem veikleika en ég vil meina að í þessu tilviki sé það styrkur, í það minnsta. Þó eru að sjálfssögðu lög sem skera sig úr og eyrun sækja meira í að heyra en önnur. Lög eins og fyrrnefnt, ,,Is There a Ghost”, ,,Ode to Irc”, ,,No ones Gonna Love You”, ,,Island on the Coast” og ,,Cigarettes wedding bands” eru öll lög sem eru í rokkaðri kanti plötunnar. Þau eiga það líka öll sameiginlegt að sækja í smiðju annara indierokks hljómsveita eins og Built to Spill og The Shins. Skýringin á því gæti reyndar legið í Producernum Phil Ek sem hefur unnið með báðum þessum hljómsveitum áður.

Platan á vel við á þessum árstíma, þegar þú keyrir um í stylltu nóvember veðri þegar jörðin er hvít og úti er kalt, þá hlustaru á Cease to Begin. Einfaldlega ein af plötum síðasta árs að mínu mati

No One's Gonna Love You

Hróarskeldudómur: Battles – Mirrored

Hróarskeldudómur: Battles - Mirrored
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: Warp Records

Orrusta sem tekur á.

Hróaskelduhátíðin nálgast og birtum við því aftur nokkra vel valda Rjómadóma yfir plötur þeirra flytjanda sem þar koma fram.

Það er ekki að ástæðulausu að Battles sé stundum titluð sem hálfgerð súper-grúppa. Forsprakki hennar, gítar- og hljómborðsleikarinn Ian Williams, plokkaði áður strengina í Don Caballero á meðan trommuleikarinn John Stanier er þekktastur fyrir afrek sín með Helmet og síðar Tomahawk. Þá var gítar- og bassaleikarinn Dave Konopka í Lynx og loks hefur fjórði meðlimurinn, Tyondai Braxton (sonur djassistans Anthony Braxton), sem spilar á hljómborð og gítar auk þess að syngja, m.a. unnið með Prefuse 73 og gefið út eigið efni.

Fjórmenningarnir stofnuðu Battles fyrir um fjórum árum og sendu í kjölfarið frá sér tvær stuttskífur, EP C og B EP, sem voru gefnar út saman undir merkjum Warp í fyrra. Nýverið leit fyrsta eiginlega breiðskífa sveitarinnar, Mirrored, síðan dagsins ljós á vegum sama útgáfufyrirtækis, sem hefur að sjálfsögðu verið með fjölda frábærra listamanna á sínum í gegnum tíðina. Það er hins vegar óhætt að fullyrða að Battles hljómar ekki eins neinn þeirra og í raun er afar erfitt að lýsa tónlist hennar í stuttu máli. Eins og ætla má af aldri og fyrri störfum hljómsveitarmeðlima er mikið um stílaflökt, flóknar pælingar og alls kyns óhljóð þannig að úr verður hinn undarlegasti hrærigrautur.

Viðtal við Battles (Stanier, Konopka, Braxton og Williams)

Platan fer vel af stað með laginu „Race:In“ og endar raunar á svipuðum nótum með „Race:Out“. Annað lagið, hið 7 mínútna langa „Atlas“ (sem NME valdi merkilegt nokk smáskífu vikunnar fyrir ekki margt löngu) er dásamlega grípandi og svalt í súrleika sínum og sömu sögu má segja af „Ddiamondd“ og „Tonto“. Eftir það fer hins vegar að halla örlítið undan fæti en ég ætla rétt að vona hljómsveitarinnar vegna að fimmta lagið, „Leyendecker“, sé eitthvað djók þó ég eigi erfitt með að fatta brandarann….eða bara hlusta á lagið yfirhöfuð. Að mínu mati hefðu þeir því mátt sleppa því og reyndar „Bad Trails“ líka þar sem það bætir afar litlu við plötuna. „Rainbow“ er aftur á móti öllu skemmtilegra, sérstaklega fyrstu 6 mínúturnar sem hljóma einna helst eins og býfluga á sýrutrippi þó síðasti fjórðungurinn sé í raun ekkert til hrópa húrra fyrir. Slíkt misræmi er einmitt eitt af einkennum plötunnar í heild sinni; það úir og grúir af athyglisverðum pælingum en á hinn bóginn fara fjórmenningarnir stundum vel yfir strikið í fáránleikanum, sérstaklega hvað varðar sönginn. Í flestum tilfellum syngur Braxton í gegnum raddgervil (nema hann sé í svona hryllilega þröngum buxum) og því hljómar Battles stundum eins og ef Don Caballero og Apparat Organ Quartet myndu sameina krafta sína og búa til sína eigin útgáfu af Haraldur í Skríplalandi.

Ég get ímyndað mér að fólk muni skiptast í tvær fylkingar hvað varðar álit á þessari plötu. Á meðan sumir dásama eflaust þá sýru og tilraunagleði sem einkennir hana vissulega munu aðrir finna henni allt til foráttu. Söngurinn fer þannig án efa í taugarnar á mörgum, hvort sem þeir hafa heyrt eldra efni sveitarinnar eður ei. Mirrored er sömuleiðis tæplega fyrir fólk með athyglisbrest á mjög háu stigi því hún fer út og suður og aftur til baka eins og hendi sé veifað. Eins og áður segir er þó margt mjög vel gert; trommuleikur John Stanier er jafn klikkaður og búast mátti við og þá er handbragð Ian Williams einnig auðþekkjanlegt. Lögin byggjast flest á mikilli endurtekningu og þungri hrynjandi sem virðist stundum ætla að gera út af við hátalarana. Engu að síður mæli ég með að fólk hækki vel í græjunum þegar það hlustar á Battles þó sú hætta skapist óhjákvæmilega að hringt verði á lögregluna….já, eða kallana í hvítu sloppunum.

Atlas (edit)

Hróarskeldudómur: MGMT – Oracular Spectacular

Hróarskeldudómur: MGMT - Oracular Spectacular
Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Columbia

Hróaskelduhátíðin nálgast og birtum við því aftur nokkra vel valda Rjómadóma yfir plötur þeirra flytjanda sem þar koma fram.

Hróaskelduhátíðin nálgast og birtum við því aftur nokkra vel valda Rjómadóma yfir plötur þeirra flytjanda sem þar koma fram.

Í október á síðasta ári kom út sem stafrænt niðurhal frumburður hinnar frábæru MGMT, Oracular Spectacular, en þar blandar sveitin saman glysirokki, diskói, elektróník, sækadelíu og nútíma indípoppi á stórkostlegan hátt. Platan vakti fljótlega athygli tónlistarnördanna sem geta glaðst yfir því að nú í janúar kemur platan út í föstu formi á vegum stórútgáfunnar Columbia. Því er ekki úr vegi að kynna lesendum Rjómans aðeins fyrir þessari frábæru plötu.

MGMT (borið fram Management) var stofnuð af þeim Andrew VanWyngarden og Ben Goldwasser árið 2002 og sendi frá sér EP-plötuna Time To Pretend þremur árum síðar, en titillag hennar auk hins frábæra „Kids“ er einnig að finna á Oracular Spectacular. Nú hefur sveitin stækkað í fimm manna læf-band og hefur m.a. tvívegis túrað með Of Montreal, nú síðast í haust – og því synd að MGMT skyldi ekki slæðast með á Airwaves hátíðina (við skulum bara krossleggja fingur fyrir næstu hátíð). Fyrir áhugasama má svo minnast á það að VanWyngarden og Kevin Barnes úr Of Montreal hafa eitthvað sýslað saman undir nafninu Blikk Fang og vonandi kemur afraksturinn af því einhvern tímann út.

 „Electric Feel“

Eins og áður segir blanda MGMT ótrúlegustu tónlistarstefnum saman tvist og bast og skapa þannig sinn sérstæða stíl þar sem allt virðist leyfileg. Á Oracular Spectacular heyrast tilvísanir hingað og þangað í tónlistarsöguna án þess að MGMT hverfi frá sínum eigin stíl. Í „Electric Feel“ umbreytast þeir í úrkynjað geldingadiskóband, í „Of Moons, Birds and Monster“ minna þeir á Sparks (sveit sem er nú sjálf þekkt fyrir að fara um víðan völl á plötum sínum) og í „Kids“ framkalla þeir ómótstæðilegt elektróstuð sem fær mann nær sjálfkrafa til þess að fá sér pillu og reifa fram á morgun.

Lagasmíðarnar eru allar frábærar og hvergi er dauðan punkt að finna á plötunni. Auk áðurnefndra laga má einnig minnast á „Weekend Wars“, „The Handshake“ og „Pieces of What“ þar sem sveitin sýnir fram á bragðskyn sitt fyrir allra handa poppmelódíum. Upphafslagið „Time To Pretend“ er svo einhverskonar stefnuyfirlýsing þar sem þeir tjá hlustendum m.a. ætlun sína að giftast fyrirsætum og taka nóg af heróíni – hvort slíkt sé vísun í ákveðnar persónur getið þið sjálf skorið úr um.

Oracular Spectacular er ein af þessum fágætu plötum sem hreinlega kalla á að vera spilaðar aftur og aftur. Jafnvel undirritaður, sem sjaldnast getur hugsað sér að hlusta á sömu plötuna oftar en einu sinni í viku, stendur sig að því að spila Oracular Spectacular tvisvar – jafnvel þrisvar – í röð án þess að finna fyrir vott af endurtekningu. MGMT hafa tekist frábærlega upp með frumburð sinn og nú er bara að vona, almennings vegna, að hróður þeirra eigi eftir að aukast um muna næstu mánuði – enda virðist allt líta út fyrir það. 

 „Time To Pretend“ læf hjá Letterman
 

 

Fleet Foxes – Fleet Foxes

Fleet Foxes - Fleet Foxes
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2008
Label: Sub Pop

Án efa ein allra besta plata ársins!

Hann pabbi minn hafði orð á því um daginn, þegar hann heyrði hjá mér nokkur nýleg lög, hvað það væri skemmtilegt að stefnur og straumar í tónlist færi alltaf í hringi. Ég gat auðvitað ekki annað en verið sammála enda vorum við að hlusta á Fleet Foxes, hljómsveitina sem hér um ræðir, en hún er lifandi sönnun þess að tónlistarstefnur endurholdgast og ganga í hringi.

Það er greinilegt að þessir fimmmenningar frá Seattle hafa legið yfir plötusafni foreldra sinna og sogað í kosmíska krafta frá löngu liðnum tíma. Áhrifavaldarnir eru þó ekki eins greinilegir og halda mætti. Auðvitað eru auðheyrð áhrif frá Beach Boys, Fairport Convention og Crosby, Stills og Nash en einnig má greina áhrif þjóðlagatónlistar ýmiskonar, amerískrar kirkjutónlistar (hvítrar), kántrí tónlistar af óræðum uppruna og jafnvel má greina austurlenskar fléttur á stöku stað. Við þetta blanda liðsmenn Fleet Foxes svo sígildu og allt að því barokk-legu poppi svo úr verður einn ljúfasti og braðgmesti tónlistarbræðingur sem undirritaður man eftir.

Það sem heillar mest við þessa samnefndu plötu Fleet Foxes er áreinsluleysið og viðkunnanleikinn sem blasir við manni þó tónlistin sé fullkomlega einstök og óvænt. Það er eins og Robin Pecknold, söngvari og lagasmiður sveitarinnar, hafi ekkert fyrir því að semja lögin og þau hrökkvi af honum eins og hversdagleg og ómerkileg orð. Það vottar heldur ekki fyrir tilgerðarleikanum sem svo oft hrjáir listamenn sem ætla sér stóra hluti og vilja fremja ódauðleg og æðri listaverk. Hér er tónlistin hrein og einlæg og samin af heilum hug og ber þess merki að skaparar hennar og flytjendur hafa lagt sig alla fram við að koma henni á koppinn.

Lögin á plötunni er hvert öðru betra en þó ber að nefna nokkur lykil lög. "White Winter Hymnal" er með eindæmum grípandi og viðkunnanlegt lag og "Ragged Wood", sem fylgir strax á eftir, margslungin tónsmíð sem bókstaflega heimtar ítrekaða áheyrn. Því næst tekur við hin ljúfsára ballaða "Tiger Mountain Peasant Song" en klassískur undirtónninn í því minnir mann óneitanlega á lag eins "Scarborough Fair" og er það vel. "He Doesn't Know Why", "Your Protector" og "Blue Rigde Mountain" eru einnig afar sterkar tónsmíðar og vinna ótrúlega á með hverri hlustun.

Fleet Foxes hafa ekki einungis leitað til fortíðar hvað stefnur og strauma varðar heldur ber upptökustjórnin þess einnig merki. Sem dæmi um þetta er hinn mikli og alltumliggjandi hljómur sem sveitin magnar upp á köflum og minnir óneitanlega á Wall Of Sound aðferðina sem furðufuglinn Phil Spector fullkomnaði fyrir um fjörutíu árum síðan. Það er líka eitthvað svo gamaldags við Fleet Foxes að ætla mætti að þarna séu á ferð miðaldra popphetjur með frábært kombakk heldur en hópur drengja sem rétt eru skriðnir yfir tvítugt.

Allur flutningur á plötunni er til fyrirmyndar og þá sérstaklega röddun og samsöngur meðlima sveitarinnar en það er sannarlega ánægjulegt að heyra svo mikið lagt upp úr söngi og samhljóm í nútíma popptónlist eins og gert er á þessari plötu. Tónlistartímaritið Mojo lýsti því yfir ekki fyrir löngu að Fleet Foxes væru, eins og þeir orðuðu það, "America's next great band". Eftir að hafa hlustað á þessa samnefndu plötu Fleet Foxes í meira en tuttugu skipti undanfarnar vikur og ávallt orðið fyrir jafn sterkum áhrifum í hvert skipti verð ég að segja að ég er hjartanlega sammála. Þetta band á eftir að verða stórt. Mjög stórt!

[MP3]

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Weezer – Weezer (Red album)

Weezer - Weezer (Red album)
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2008
Label: Geffen

Á stöku stað glittir í gamla góða Weezer sjarmann. En það er ekki nóg, langt því frá.

Weezer er undarlegt band. Einmitt þegar maður var við það að gefa þá endanlega upp á bátinn ná þeir einhvernvegin að fanga hug manns aftur með sínu hráa og kæruleysislega kraftpoppi. Ég verð að játa að ég er alltaf pínulítið spenntur fyrir nýju efni frá Weezer en óttast þó alltaf það versta hvað útkomuna varðar. Weezer er afskaplega viðkunnanleg sveit og á sér aðdáendur í ólíklegustu hornum og afkimum samfélagsins. Það er þó sá hópur fólks sem sveitin heillaði upprunalega (með tveim fyrstu plötum sínum) sem hefur hvað mest út á tónlist hennar að setja, því svo langt hefur hún farið frá uppruna sínum og svo djúpt hefur hún sokkið í fúlan pytt meðalmennsku og söluvæns útvarpspopps, að menn mega teljast úthaldsgóðir með eindæmum að halda tryggð við hana enn í dag.

Ég er sjálfur einn af þeim sem beit á agnið þegar fyrsta platan (bláa platan) kom út og verður hún að teljast ein af þeim bestu sem ég hef á ævinni heyrt. Næsta útspil Weezer var hin grugguga og kraftmikla Pinkerton sem hlotið hefur einskonar "cult status" í gegnum árin. Nær hún ekki fyrstu plötunni að gæðum en er engu að síður mjög góð og eiguleg plata.

En með útgáfu þriðju plötu sveitarinnar, þeirrar grænu, fór að halla undan fæti. Hinn þungi, hrái og ljúfsári hljómur og hversdagsleg hetjuímyndin fékk að víkja fyrir sykursætum og útvarpsvænum tónum. Horfin var angist og tilvistarkreppa utangarðsmannsins og ásýnd hallærislegs flottræfils sem gerir allt til að passa í hópinn tekin við. Ekki skánaði það með næstu plötu, Maladroid, og var botninum svo endanlega náð með hinni vægast sagt ömurlegu Make Believe þar sem ofur-pródusentinn Rick Rubin gat lítið gert til að bjarga sveitinni frá sjálfri sér.

Rubin er aftur við stjórntækin á þessari plötu og verð ég að játa að ég gerði mér ekki miklar vonir um að hann næði að gera betur heldur en síðast. Eitthvað virðist hann þó hafa gert rétt því greina má viss batamerki á tónlist Weezer og á köflum glittir jafnvel í gamla góða sjarmann, taktana sem heilluðu mann upp úr skónum á sínum tíma.

Kannski það sé best að færa ykkur góðu fréttirnar fyrst. Það eru tvö góð lög á plötunni. Lög sem bera keim af fornri frægð í bland við sjaldséð frumlegheit. Það jafnvel vottar fyrir smá tilvísun í sjálfa Beach Boys og er þá nú mikið sagt. Hljómurinn er hrár og kröftugur og minnir á gamla góða Weezer. Slíkt afturhvarf til fortíðar er velkomið og eitthvað sem sveitin ætti að gera meira af. Einnig ber að nefna ábreiðu af gamla slagaranum "The Weight" (UK Bonus Track) sem The Band gerðu frægt í gamladaga.

Slæmu fréttirnar eru að restin af plötunni er mikið til tilgerðarlegt rusl. Hallærislegt rokk-rapp, ófrumlegt háskólarokk og ballöður, með svo berorðuðum textum að maður fer hjá sér af aulahrolli, er það sem manni er boðið uppá. Lög eins og "Heart Songs", "Everybody Get Dangerous", "Thought I Knew", "Cold Dark World" og "Automatic" eru afar ómerkileg og auðgleymanleg og þá sérstaklega það fyrsta, en það er með eindæmum slæmt. Af einhverjum ástæðum lætur svo Rivers Cuomo söngvari hinum hljómsveitarmeðlimunum það eftir að syngja sitt lagið hver og gera þeir lítið annað en að auka á eymdina. Það er nógu slæmt að lögin séu ömurleg en ekki skánar það ef sjálfur forsprakki sveitarinnar og aðal ímynd treystir sér ekki til að syngja þau.

Niðurstaðan er því þessi: hálf stjarna á sitt hvort góða lagið, hálf stjarna fyrir að reyna að endurvekja gamla góða Weezer hljóminn, hálf stjarna fyrir áhugavert cover-lag og hálf stjarna fyrir frumlegt myndband (af því mér datt ekkert annað í hug).

Moby – Last Night

Moby - Last Night
Einkunn: 3
Utgafuar: 2008
Label: Mute Records

Dansinn ræður ríkjum á nýjustu plötu Mobys

Last Night er dálítið eins og hús sem þú hefur séð auglýst í dagblaðinu og allir eru að tala um. Að utan er húsið í allkonar litum og með flottari húsum í þessum partýbæ sem þú býrð í. Þú pantar tíma með fasteignasala til að skoða húsið og ert eins og lítið barn í dótabúð þegar þú gengur inn. Þegar inn er komið tekur þó annað við, öll herbergin eru mjög ágæt og praktísk en eru máluð hvít og óspennandi. Hinsvegar eru diskóljós í öllum herbergjunum, og þú gleymir þér og ferð ekki út úr húsinu fyrr en tekur að morgna því dansinn ræður ríkjum. Þegar þú gengur út þá hugsarðu með þér að þetta sé ekki hús sem þig myndi langa til að kaupa, en tvímælalaust brjótast inní seinna meir til að halda partý.

Þegar hlustað er á Last Night á það kannski ekki við að líkja plötunni saman við fyrri plötur Mobys því að með Last night stefnir hann tónlist sinni í örlítið nýja átt. Moby sagði í viðtali áður en platan kom út að vinna hans sem plötusnúður í New York undanfarin ár hefði haft mikil áhrif á hann á meðan hann vann plötuna og þar með plötuna sjálfa. Moby sagði alveg satt, því þegar hlustað er á plötuna fær maður á tilfinninguna að maður sé staddur í klúbb í New York á þeim tíma þegar gullskeið “I love NY” og MTV stóð sem hæst.

Myndband við lagið Alice með Moby

Ég efast um að þú eigir eftir að liggja uppi í rúmi hlustandi á Last Night með það í huga að upplifa eitthvað skynörvandi. Hinsvegar er mjög líklegt að þú eigir eftir að spila einhver lög af þessari plötu í partýi sem þú átt eftir að halda. Ekki hugsa um hversu formúlukennd, ófrumleg og örugg platan er, því það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að dansa.

Dansaðu!

Dodos – Visiter

Dodos - Visiter
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2008
Label: Frenchkiss

Án efa einn óvæntasti glaðningur ársins!

Hún kom mér sannarlega á óvart þessi. Ég verð að játa að ég hafði aldrei heyrt minnst á dúóið Dodos áður og gerði mér því engar vonir. Hélt þetta væri, af nafninu að dæma, í mesta lagi sykursætt og áheyrilegt krúttpopp. En svo er sannarlega ekki. Langt því frá.

Hljómsveitin Dodos samanstendur af þeim Meric Long, söngvara og gítarleikara, og Logan Kroeber sem sér um trommur og áslátt hverskonar. Saman ná þeir félagar að framkalla skemmtilega hráann hljóm og ótrúlega frumlega samsuðu ýmiskonar gítara og tryllingslegs ásláttar. Heillandi söngur Long fullkomnar svo jöfnuna en rödd hans, hróp og köll virka oft sem þriðja hljóðfærið og fullkomin viðbót við undirleikinn.

Ég gæti auðveldlega farið út í miklar og langar pælingar í tilraun minni að útskýra og finna tónlist Dodos stað í tónlistarflórunni. Við fyrstu hlustun dettur manni strax í hug að tengja þetta tvíeyki við álíka sveitir eins og Two Gallants og The White Stripes en tónlistarlega séð eiga þeir Long og Kroeber meira sameiginlegt með böndum eins og Animal Collective og Akron/Family. Á vissum köflum á plötunni, þar sem trúbador stemmingin ræður ríkjum, má jafnvel finna samsvaranir við Sufjan Stevens og Jeff Buckley heitinn.

Það sem heillar mig mest við þessa þriðju plötu Dodos er hvernig hrár og óheflaður hljómurinn, ljúf bæði og tryllingsleg lögin sameinast í einni bragðmikilli heild. Það getur ekki verið auðvelt verkefni að halda athygli hlustandans með jafn einfaldri uppstillingu en þeir félagar Long og Kroeber fara létt með það og bæta jafnvel meiru til.

Fjöldi hljóðfæra er notaður á plötunni þó undirstaðan sé ásláttur og gítar- og banjóleikur. Þessi hljóðfæri eru þó í algeru aukahlutverki en eiga þó fullkomnar innkomur þegar þeim er beitt. Lögin eru stutt og hnitmiðuð og algerlega laus við tilraunasamar langlokur sem svo oft plaga sveitir sem eru með puttana í art-rokki og folk-tónlist sem þessari.

Meric Long er lagasmiður góður og ágætis textasmiður. Þó lögin á plötunni séu á heildina litið öll mjög góð eru þó nokkur sem standa uppúr. "Fools" er e.t.v. eftirminnalegasta lag plötunnar en það er orðið að hálfgerðu einkennislagi sveitarinnar eftir að hafa gengið manna á milli á netinu undanfarin misseri. "Winter" er einfalt og viðkunnanlegt lag sem minnir mann óneitanlega á áðurnefndan Sufjan Stevens og "Undeclared" er eins og grípandi ballaða í vitlausu tempói.

Þegar öllu er á botninn hvolft er hér um að ræða afar skemmtilega plötu sem er án efa einn óvæntasti glaðningur ársins. Nú er bara að grafa upp tvær fyrri plötur Dodos því ef þær eru eitthvað líkar þessari er það fyrirhafnarinnar virði.

Dodos – Fools

[MP3]

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.


[MP3]

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Jim Noir – Jim Noir

Jim Noir - Jim Noir
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: Barsuk

Platan er rökkrétt framhald og framfaraskref fyrir einn áhugaverðasta tónlistamann Breta en skortir þó nokkuð til að ná forvera sínum í gæðum.

Ég held þeir séu fáir tónlistarmenn samtímans sem eru undir jafn miklum áhrifum af sýrupoppi sjötta og sjöunda áratugarins og Jim Noir. Þeir eru jafnvel enn færri sem náð hafa að endurskapa þá tilfinningu og þann hljóm sem einkenndi þessi umbrots- og gróskumiklu tímabil í tónlistarsögunni á jafn áhrifaríkan og einlægan hátt og hann. Hann er með hljóminn á hreinu, hvernig spilað var á hljóðfærin, hvaða hljóðfæri voru notuð, hvernig lögin voru uppbyggð, hvernig raddanirnar voru og hvernig beita átti brellum til að skapa óraunverulega og hugútvíkkandi stemmingu. Við þetta bætir hann svo hæfilegum skammti af látlausri raftónlist og hæfilega áhyggjulausu og allt að því barnalegu gleðipoppi.

Eitt af því sem hellar mig við þessa nýjustu samnefndu plötu Jim Noir (eða Alan Roberts eins og hann heitir víst) er hvernig hann tekur fyrirmyndir sínar, poppara gærdagsins, fyrir eina af annarri. Á einum stað má heyra greinilega tilvitnun í Beach Boys og á öðrum stað bregður hinum ofursvala Marc Bolan fyrir sem væri hann mættur ljóslifandi. Eitt eða tvö lög bera mikinn og þægilegan keim af Bítlunum um það leiti og þeir fóru í Magical Mistery Tour og má heyra bæði einkennandi bassaleik Paul McCartney og latan en áhrifamikinn trommuleik Ringo Starr jafn greinilega og þeir væru mættir sjálfir til að spila undir. Það sem heillar mig þó mest er að Jim Noir spilar á öll hljóðfæri sjálfur, semur og syngur lögin, útsetur, forritar og tekur upp! Þetta þykir mér umfram allt sönnun þess hversu fjölhæfur og skapandi einstaklingur er hér á ferð.

En áhrifavaldarnir eru fleiri en bara Bítlar og Beach Boys. Það eru einnig afar sterk frönsk áhrif á plötunni í anda Jean Jaques Perrey og jafnvel meistara Serge Gainsbourg og ljóst að félagi Noir hefur legið vel og lengi yfir verkum þeirra. Lag eins og "Don't You Worry" (sjá hér að neðan) er gott dæmi um þetta og kannist einhver við lög eins og "E.V.A." eftir áðurnefndann Perrey þá vitið þið hvað ég á við.

Hitt er annað mál að þó Herra Noir hafi unnið heimavinnuna sína samviskusamlega og sé með fræðin á hreinu þá er það ekki endilega nóg til að útkoman sé ódauðleg snilld. Það háir nefnilega plötunni nokkuð að lagasmíðarnar, sjálft kjötið á beininu, eru ekki nægilega sterkar og segja má að þó umbúðirnar séu glæsilegar þá er innihaldið frekar rýrt. Eitt skýrasta dæmið um þetta er að ekkert laganna á plötunni stendur neitt sérstaklega uppúr eða er nægilega eftirminnalegt til að verðskulda sérstaka umfjöllun. Lögin eru ekki endilega slæm, þau eru bara…eru. Eru skemmtileg áheyrnar og líða ljúflega í gegn en skilja lítið eftir.

Þrátt fyrir þetta er skemmtanagildi plötunnar þó töluvert og hún vel þess virði að mæla með. Hún er rökrétt framahald fyrri plötu Jim Noir, Tower Of Love sem kom út fyrir tveimur árum, og sýnir greinileg þroskamerki hans sem tónlistarmanns. Það er einnig gaman að nördast yfir því hvaðan áhrifavaldarnir koma og hvað brögðum og brellum Noir beitir til að fanga hljóma fortíðarinnar. Hann hefði þó kannski mátt eyða aðeins meiri tíma í að fullkomna tónsmíðarnar frekar en að gleyma sér í öllum smáatriðunum, tækninni og tónlistarlegum tilvitnunum.

[MP3]

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

 

Mates Of State – Re-arrange Us

Mates Of State - Re-arrange Us
Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Barsuk

Fimmta plata hjónakornanna Kori og Jason nær ekki alveg sömu hæðum og forveri hennar en er engu að síður afbragðs popplata sem á allt gott skilið.

Ég elska Mates Of State og fer ekki leynt með það. Þau íslandsvinir og hjónakorn Kori og Jason eru hreint út sagt yndisleg. Ég kemst alltaf í gott skap þegar ég hlusta á glaðlegan og snilldarlega samofinn söng þeirra og skrítin en skemmtileg lögin. Og mig langar alltaf að syngja með enda semja þau ein límkenndustu og mest grípandi lög sem fangað hafa huga minn.

Það er því skiljanlega sem ég beið nýju plötunnar með vægast sagt mikilli eftirvæntingu. Ef til vill var ég búinn að gera mér of miklar vonir en við fyrstu hlustun var ég ekki jafn yfir mig hrifinn og ég hafði gert ráð fyrir. Jú, lögin eru góð og þau skötuhjúin halda tryggð við þá stefnu sem lagt var upp með á síðustu plötu. Hljómurinn er lagskiptari, þéttari og meiri og útsetningar íburðarmeiri. Búið er að bæta við strengjum, rafgítar, bassa og jafnvel einstaka sömplum og öðrum hljóðbútum á stöku stað. Allt gott og blessað en einhvernvegin vantar eitthvað uppá. Einhverja tilfinningu eða kraft til að gera plötuna jafn fullkomna og áheyrilega og forvera hennar Bring It Back (sem var reyndar stjarnfræðilega góð plata). Það er eins og það vanti herslumuninn. Þetta eina litla sem skiptir, þegar upp er staðið, svo miklu máli.

Ekki halda þó að ég sé að búa þig undir einhvern dauðadóm lesandi góður. Þvert á móti er þetta það eina sem ég finn þessari annars frábæru plötu til vansa. Þetta hljómaði kannski eins og stórmál hjá mér en er það í raun ekki. Ekki nema fyrir svona forfallna og trygga aðdáendur eins og mig.

Fyrir hinn almenna tónlistarunnenda er hér á ferð einstaklega góð og ánægjuleg poppplata sem vinnur á með hverri hlustun. Full af óvæntum en afar grípandi laglínum, frumlegum uppbyggingum laga og glimrandi góðar útsetningar. Það er hreint ótrúlegt hvað þessi dúett hljómborðsleikara og trommara nær að gefa frá sér þéttan og mikinn hljóm. Ef maður vissi ekki betur myndi maður halda að hér væri á ferð ekki minni en fjögra til fimm manna flokkur. Ef Rearrange Us hefur eitthvað umfram síðustu plötu Mates of State þá er það hljómurinn og er það sjálfsagt ágætri upptökustjórn þeirra félaga Peter Katis, Jim Eno úr Spoon og Chris Walla úr Death Cab For Cutie að þakka.

En, eins og áður sagði, er eitthvað sem vantar. Einhverja upplifun, eitthvað sem hrífur mann með á vit ævintýranna. Ég held það gæti verið að Rearrange Us þjáist ef til vill af full mikilli íhaldssemi. En mér er samt eiginlega alveg sama. Ég dýrka þessa sveit og ætla að hlusta á þessa plötu í tætlur í syngjandi sveiflu í sól- og sumaryl.

[MP3]

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

 

Myndbandið við Get Better 

The Last Shadow Puppets – The Age Of The Understatement

The Last Shadow Puppets - The Age Of The Understatement
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2008
Label: Domino

Tignarleg, mikilfengleg og drífandi plata þar sem andi spagetti-vestra og James Bond mynda svífur yfir vötnum.

The Last Shadow Puppets er hugarfóstur þeirra Alex Turner úr The Arctic Monkeys og Miles Kane, forsprakka hinnar efnilegu sveitar The Rascals. Þeir Turner og Kane hafa verið perluvinir síðan fyrrverandi sveit þess síðarnefnda, The Little Frames, túraði með The Arctic Monkeys hérna um árið. Þeir félagar komust fljótt að því að þeir deildu sama tónlistarsmekk og höfðu m.a. sérstakt dálæti á eldri verkum David Bowie, söngvaranum Scott Walker (sem var m.a. í The Walker Brothers) og barrokk popparanum og djassgeggjaranum David Axelrod. Segja má að afrakstur samstarfs þessa tvíeykis, platan sem hér er til umfjöllunar, sé að mörgu leiti óður til þessara fornfrægu listamanna og tónlistarinnar sem einkenndi gullaldarárin á ferli þeirra.

Þó þeir Turner og Kane hafi gefið það út að The Age Of The Understatement sé undir sterkum áhrifum af áðurnefndum listamönnum er ekki laust við að maður finnist einnig andi meistara á borð við Ennio Morricone og Lalo Schifrin svífa yfir vötnum og það oft á nokkuð afgerandi hátt. Finnst mér t.d. titillag plötunnar vera eitthvað sem Morricone hefði verið full sæmdur af. Reyndar er spagetti-vestra og James Bond hljómurinn hið einkennandi þema og rauði þráðurinn sem rennur í gegnum plötuna. Það verður að játast að tilraun þeirra Turner og Kane til að blanda saman pönk skotnu britpoppinu og kvikmyndapoppi gærdagsins heppnast fullkomlega og er á köflum hrein unun á að hlíða.

The Age Of The Understatement ber með sér öll helstu einkenni popp- og kvikmyndatónlistar frá sjötta og sjöunda áratug síðust aldar: íburðarmiklar útsetningar, tilkomumikinn og allt að því ýktan hljómburð (sjá Wall Of Sound), hinn bælda en heillandi bjöllubassa (sem Serge Gainsbourg notaði m.a. óspart), sækadelískan reverb hljóminn í gíturunum og minimalískan og hálf-djassaðann trommuleikinn. Einnig hefur verið reynt að líkja eftir gamla tvískipta steríó sándinu og er gaman að heyra hvernig hin ýmsu hljóðfæri og jafnvel hluti undirleiksins falla á víxl annað hvort til hægri eða vinstri. 

The Age Of The Understatement er drífandi og kraftmikil plata og frábær vitnisburður um sköpunargáfu og tónlistarhæfileika skapara sinna. Ungæringshátturinn sem einkennt hefur fyrri verk þeirra Turner og Kane er ekki lengur það sem drífur tónlistina áfram og hefur honum verið skipt út fyrir beittum, litríkum og alvörugefnum tónsmíðum. Sanna þeir félagar með þessari plötu að þrátt fyrir ungann aldur eru þeir alvöru tónskáld og einstakir lagasmiðir sem ber að taka mjög alvarlega. Ef þetta er það sem þeir eru færir um rétt skriðnir yfir tvítugt ímyndið ykkur þá hvað þeir verða búnir að afreka um þrítugt.

Klárlega ein af plötum ársins!

The Last Shadow Puppets – The Age Of Understatment 

The Advisory Circle – Other Channels

The Advisory Circle - Other Channels
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: Ghost Box

Dularfull og nostalgísk raftónlist sem flytur hlustendur í ævintýralega draumaveröld

Ein áhugaverðasta raftónlistarútgáfan í Bretlandi þessa dagana er hin agnarsmáa Ghost Box. Fyrir utan það að útgáfur Ghost Box séu flestar stórgóðar eiga þær allar það sameiginlegt að kalla fram ansi sérstakt andrúmsloft. Það er yfirleitt nostalgískur og ögn draugalegur blær sem liggur yfir plötum útgáfunnar sem skapaður er með mjúkum analog rafhljóm og mínimalískum og fíngerðum taktar. Til lýsingar á tónlist þeirri sem Ghost Box hefur gefið út hafa komið fram orðskrýpi eins og hauntology og memoradelia, illþýðanleg orð sem gefa þó ágætis hugmynd um andrúmsloft þess konar raftónlistar.

The Advisory Circle gaf út stórgóða EP plötu á Ghost Box árið 2005 og fylgdi henni loks eftir með fyrstu breiðsífunni, Other Channels, fyrr á þessu ári. Sveitina skipar maður að nafni Jon Brooks og hefur hann reyndar áður gefið út annarskonar raftónlist undir nöfnunum King of Woolworths og Georges Vert, en virðist hafa fundið sinn rétta stað með tilkomu Advisory Circle.

Á Other Channels galdrar Advisory Circle fram undurljúfa og nostalgíska raftónlist sem minnir helst á tónlist þá er samlandar hans John Baker, Delia Derbyshire og félagar hjá BBC Radiophonic Workshop gerðu á sjöunda áratugnum. Tónlistin er svo skreytt með allra handa hljóðbútum úr gömlum breskum fræðslumyndum og sjónvarpsþáttum sem festir enn betur hinn nostalgíska heim plötunnar í sessi.

Platan er einskonar órætt ferðalag um ævintýralega draumaveröld skapaða úr tónum og tekst Brooks nokkuð vel að skila þessu sérstaka andrúmslofti til hlustenda. Lögin á Other Channels mynda heild sem líður prýðilega í gegn og þó svo að nokkur lög standi óneytanlega upp úr þjóna hin öll tilgangi plötunnar vel. Other Channels er enn ein dularfull skrautfjöður í hatt Ghost Box og ekki er annað hægt en að vona að svo lítil og sérhæfð útgáfa eigi eftir að halda áfram að dafna.

 

The Advisory Circle – Sundial 

 

Meshuggah – obZen

Meshuggah - obZen
Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Nuclear Blast

Sjötta plata hinnar sænsku Meshuggah er þegar farin að gera tilkall til þungarokksplötu ársins.

Þær eru ekki margar þungarokksplöturnar sem ná að vekja athygli mína í seinni tíð. Hér á árum áður lifði ég og hrærðist í heimi þungmálms og dauða en eftir því sem árin færðust yfir minnkaði áhugi minn á þessu þungmelta tónlistarformi. Ég kann ekki að útskýra það. Kannski er tónlistin ekki jafn góð og hún var hér fyrir um tuttugu árum þegar sveitir eins og Death, Carcass, Obituary, Sepultura og hvað þær hétu nú allar, stigu fram á sjónarsviðið. Einhvernvegin finnst mér sem gerjunin, hugmyndaauðgin og sköpunargleðin hafi verið meiri á þessum árum og að þær sveitir sem á eftir komu hafi einungis verið að herma eftir þessum frumkvöðlum. Skýringin gæti líka allt eins verið að tónlistarformið hafi breyst og þróast en skilningur minn á því ekki.

Hverju sem því líður þá eru enn einstaka þungarokksplötur sem ná að fanga athygli mína og platan sem hér um ræðir nær því og vel það. obZen er sjötta stúdíóplata þessarar sænsku sveitar og er þegar farin að gera tilkall til að verða þeirra besta verk þó ekki séu liðnir nema tæpir tveir mánuðir síðan hún kom út. Þær eru einnig nokkuð háværar raddirnar sem segja obZen vera kandídat í þungarokksplötu ársins. Fyrir mitt leiti er ég sammála, hér er á ferð afbragðs plata. Stórgóð meira að segja.

Það besta við obZen er sú fína lína milli einfaldleika og tæknilegra flækjustiga (sem of mörg metal bönd eiga til að gleyma sér í) sem liðsmenn Meshuggah ná að dansa á án þess að skrika fótur. Þó alltaf sé gaman að heyra flókna takta og tæknileg riff eru það oft einföldu hlutirnir sem heilla mann mest og þessi sveit kann svo sannarlega að notfæra sér þá staðreynd hvenær sem tækifæri gefst.

Krafturinn er annað sem gerir obZen svona heillandi. Lögin á plötunni eru eins og stanslaus árás á skilningsvitin. Sumir gætu ályktað svo að það sé sjálfgefið að þungarokk sé kröftugt en svo er alls ekki. Þvert á móti eru afar fáar sveitir sem ná að beisla þann kraft sem tónlistarformið býður upp á. Það er nefnilega ekki nóg að hamast sem mest á hljóðfærunum og öskra sem hæst til að koma kraftinum almennilega til skila. Krafturinn býr m.a. í hægu "mosh" köflunum, flottu og grípandi gítarriffunum, þéttum bassanum, drífandi slagverkinu, raddböndum söngvarans og dynjandi og einkennandi hljómnum. Allir þurfa þessir þættir, og fleiri, að koma saman og ná fullkomnum samhljómi til að krafturinn og reiðin skili sér til hlustandans og veiti honum þá útrás sem hann leitar að.

Meshuggah ná þessu takmarki nánast fullkomlega. Uppbygging lagana er á köflum unun að hlusta á og oft aðdáunarvert hvernig þeir ná að magna upp spennu fyrir tilkomumikla lokakafla í sumum þeirra. Hljómfæraleikurinn er fyrsta flokks og fær trommuleikarinn einn heilann fyrir sitt framlag til plötunnar þar sem hann ber af. Samspil gítarleikaranna er einnig á köflum snilldarlegt og öll hljómar sveitin reyndar eins og fullkomlega stillt og vel smurð vél.

Á obZen hverfa liðsmenn Meshuggah aftur til fortíðar þegar rokkið var örlítið einfaldara og meira var lagt upp úr því að mynda almennilega stemmningu frekar en að eyða of miklum tíma í flóknar útsetningar og tæknileg smáatriði. Það er einmitt þessi kunnuglegi fortíðarljómi sem er yfir plötunni sem gerir hana svo heillandi og ég hef persónulega ekkert á móti því að hverfa aðeins aftur í tímann með Meshuggah mér við hlið.

[MP3] Meshuggah – Bleed 

No Kids – Come Into My House

No Kids - Come Into My House
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2008
Label: Tomlab

Áreynslulaust og auðgleymanlegt

Meðlimir kanadísku sveitarinnar No Kids líta út fyrir að vera rétt komast á miðjan aldur. Þrátt fyrir það og nafngift bandsins er tónlist þeirra létt og leikandi indípopp með slettu af skemmtilega barnalegum undirtónum. Tríóið á rætur sínar í sveitinni P:ano en gaf út frumburð sinn, Come Into My House, í febrúar á hina ágæta Tomlab merki.

Tónlist No Kids er þægileg og áreynslulaust indípopp sem minnir á stundum á sveitir eins og t.d. Yo La Tengo, High Llamas, Half-Handed Cloud og jafnvel Hot Chip eins og þeir hljómuðu á fyrstu breiðskífu sinni. Einnig sveimar innblástur frá Brian Wilson og Burt Bacharat yfir plötunni. Allt hið besta mál og rennur Come Into My House nokkuð vel í gegn, vekur upp þægilegar tilfinningar og sópar burt áhyggjum hversdagsins. 

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

   

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Það sem  plötuna vanhagar um er hins vegar sterkar og eftirminnilegar lagasmíðar. No Kids bera fram nokkur fín og vel áheyrileg lög; upphafslagið „Great Escape“ er líklega besta lagið, „I Love The Weekend“ er fínasta indípopp og hið r'n'b-skotna „The Beaches All Closed“ er með því eftirminnilegasta á plötunni. Flest annað á plötunni líður framhjá hlustendanum svo áreynslulaust að fátt vekur sérstaka eftirtekt. Hér er þó ekkert slæmt á ferðinni – þvert á móti – það má humma með víða og slá takta létt með útlimum. En það er því miður lítið annað sem platan skilur eftir sig og er nær ómögulegt að muna eftir flestum lögum hennar.

Eftir stendur að Come Into My House er öll hin áheyrilegasta en því miður svo auðgleymanleg að hún vekur litla löngun hjá hlustendanum til þess að setja plötuna aftur á. Slíkt verður auðvitað til þess að hún mun falla fljótt í gleymsku, kannski of fljótt. No Kids kunna nefnilega alveg listina að gleðja hlustendur og í þeim lögum sem standa upp úr er sveitin alveg frábær. Nú er bara að spurningin hvernig þau fá okkur til þess að hlusta oftar í framtíðinni…

 

Borko – Celebrating Life

Borko - Celebrating Life
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: Morr Music/Kimi Records

Frumleg og skemmtileg!

Fyrsta plata Björns Kristjánssonar, eða Borko, hefur litið dagsins ljós á vegum Kimi Records. Platan ber nafnið Celebrating Life og inniheldur átta hressandi lög sem allir ættu að tékka á. Af hverju? Jú, hér eru allavega þrjár ástæður;

 

1. Tónlistin er frumleg. Einhvers konar tilraunakennd tónlist með skírskotun í klassískan grunn og þó mikið grúv á köflum. 

2. Borko er fullur af skemmtilegum hugmyndum og lætur þær verða að veruleika. Ekki skemmir fyrir að hann er með viðkunnalega rödd og er dúlla. 

3. Þetta er einfaldlega flottasta íslenska plata sem ég hef heyrt í langan tíma. Mig hefði aldrei getað grunað að þvílíkur dýrgripur biði þess að vera uppgtötvaður. Lögin á Celebrating Life gætu hæglega verið undirspil frábærrar kvikmyndar, og það er einmitt svolítið þannig sem ég upplifi tónlistina – sem eyrnakonfekt gert til að bragða á og búa til góðar minningar um leið.

 

Eins og vill oft verða tekur þó að halla aðeins undan fæti þegar nær dregur lokum plötunnar en seinni helmingurinn skilur ekki eins mikið eftir sig og sá fyrri. Hann nær til dæmis ekki sömu hæðum og "Spoonstabber", en þar gætir Mugison áhrifa og fuglasöngs sem minnir á 17.júní-fuglakallana sem keppast um að blístra til ágóða. Ég hefði aldrei getað giskað á að ég ætti nokkurntíman eftir að hugsa um þá í jákvæðu samhengi, en svona er lífið óútreiknanlegt. Önnur frábær lög eru til að mynda "Continental Love", þar sem manni líður svolítið eins og maður sé neðansjávar að hlusta – og "Sushi Stakeout", sem ber mann til fjarlægari landa. 

Hin lögin eru þó nægilega góð til að hægt sé að kalla Celebrating Life afbragðs frumraun og ferska viðbót við íslenska tónlist. Frekari sannfæring er óþörf – hvet alla til að hlusta á þessa!

Motorfly – Drög – No Return

Motorfly - Drög - No Return
Einkunn: 0
Utgafuar: 2008
Label: Töfrahellirinn

Íslenskur hliðarverkefnisfrumburður með keim af ágætu framhaldi

-dgh

Hljómsveitin Motorfly ætti að vera flestum nýtt nafn í eyra en þessi sveit hefur verið starfandi sem hliðarverkefni meðlima úr sveitunum Sign, Atomstation og Single Drop m.a.
Frumburður sveitarinnar, No Return, leit dagsins ljós þann 25.apríl s.l. og hefur af mörgu að státa. Mörgu sem aðdáendur sveitanna hér að ofan ætti að koma á óvart.

Rólegheitin eru hér allsráðandi og gerir sveitin lítið úr því að færa sig upp á skaftið og hrista upp í lögum sínum með látum á borð við yfirdrifna gítara og gredduslátt á symbala.
Það sem vekur strax athygli við fyrstu hlustun er uppbygging einhverskonar sýru í bland við áhrif frá listamönnum á borð við Nick Cave og fleiri. Söngurinn er saklaus og textarnir draumkenndir og fínir. Í bland við gítarlínur frá Birki Rafn (Single Drop) og seiðandi takta frá Agli Rafnssyni (Sign, Single Drop) gengur söngstíllinn vel upp og verður aldrei þreytandi.
Þó er uppbygging laganna ansi lík út plötuna og við fyrstu hlustun eiga lögin oft á tíðum til að gleymast og blandast saman á þann hátt að hlustandi man lítið eftir laginu sem áður fór.

Plötuumslagið er dimmt og drungalegt og gefur til kynna að hér sé um ansi þunga plötu að ræða. Tónlistin er þó ögn þægilegri en plötuumslagið gefur til kynna en án efa gæti hinn almenni kúnni í plötuverslun misskilið Motorfly sem harða rokkhljómsveit í anda sænsku risanna Opeth.
Umslagið sýnir fuglabúr sem stendur opið í dimmu og ansi drungalegu umhverfi en þó getur hver og einn reynt að túlka textagerðina í samræmi við plötuumslagið og þannig fengið þá mynd af því sem við á.
Að umslaginu undanskildu er Motorfly ekki að plata neinn. Tónlistin er fín og kemst vel til skila til lengri tíma litið. Þó þarf platan nokkrar hlustanir til að hrífa hlustanda með sér á þann hátt sem skilar árangri. Frumburður er skífan fín og lög eins og Catch My Fear og titillag plötunnar, No Return, mættu vel heyrast á öldum ljósvakans þegar tekur að líða á sumarið.

 

 

Bottom of the Hudson – Fantastic Hawk

Bottom of the Hudson - Fantastic Hawk
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2008
Label: Absolutely Kosher

…einstök fyrir það að vera ekki neitt.

Eftir að ég hlustaði á Fantastic Hawk þá var bara einn hlutur sem ég gat hugsað og það var „Vá, þetta er alveg eins og Death Cab For Cutie með lélegum söngvara“. Þetta á kannski ekki jafn vel við við ítarlegri hlustun, en er þó alls ekki langt frá því.

Fantastic Hawk er fyrsta platan sem gefin er út af Bottom of the Hudson sem hljómsveit. Áður hafa tvær plötur verið gefnar út undir þessu nafni en þá frá forsprakka hljómsveitarinnar, Eli Simon, sem sóló-verkefni. Við fyrstu hlustun lofaði platan góðu, þrátt fyrir nokkra galla. Það sem truflar marga, meðal annars mig, er að söngvari og gítarleikari sveitarinnar, Eli Simon, hefur ekki rödd í nema helming laga plötunnar. Það segir sig nokkuð sjálft að þegar svo er verður platan ekki alveg jafn hlustunarvæn, en á köflum vildi ég helst sleppa því að hlusta á viss lög, sem ég varð þó að gera til að geta skrifað marktækan dóm.

Annar galli við plötuna er hversu einsleit hún er. Þó er hægt að þræta um þetta og segja að platan sé að vera trú sinni stefnu. Það er fullkomlega rétt en jafnframt gerist það að platan verður leiðinlegri sem heildarverk þar sem hún hefur ekki þann eiginleika að fara með hlustandann víða. Platan heldur hlustandanum á sama stað, sem var í mínu tilviki eldhúsborðið mitt, allan þann tíma sem að hún spilast og engar tilfinningar koma fram við hlustunina. Það er sjaldgæft að tónlist kalli alls ekki fram neinar tilfinningar, góð tónlist fer með mig í góðan rússíbana og léleg kallar fram ákveðna skemmtun þar sem hægt er að kvarta yfir henni og telja upp allt sem slæmt er við hana. Fantastic Hawk er þó stór undantekning þar sem hún kallar ekki fram einn einasta hlut. Hún er ekki nógu góð til að njóta hennar uppí rúmi með heyrnatól og er heldur ekki nógu léleg til að kvarta yfir henni. Hún er einstök fyrir það að vera ekki neitt.

 

 

 

Allt þetta þýðir þó ekki að mér hafi þótt Fantastic Hawk léleg eða leiðinleg. Ég reyndar naut þess töluvert að hlusta á hana þrátt fyrir alla hennar galla og ófrumleika, og eru nokkur lög á henni mjög góð. Þó er auðvelt fyrir aðdáendur indie-stefnunnar að hlusta á betri og áhugaverðari indie-tónlist en Bottom of the Hudson og er þetta ekki plata sem vert er að eyða miklum tíma eða fjármunum í.

Portishead – Third

Portishead - Third
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2008
Label: Island

Loksins!

Upphrópunin í fyrirsögninni hér að ofan getur vísað á fleiri en eina setningu. Loksins er komin út ný plata með Portishead! er jú það fyrsta sem kemur upp í hugann. Eftir að hafa hlustað á plötuna er þó annað sem blasir við manni – Loksins hefur Portishead gefið út sína bestu plötu! Seinni staðhæfingin eru öllu umdeilanlegri og er óvíst að allir muni taka undir hana með undirrituðum.

Á þeim 11 árum sem liðið hafa síðan Portishead gaf út sína aðra plötu, samnefnda sveitinni, hefur margt breyst. Sú plata var reyndar endurómur, dauf spegilmynd, frumburðarins Dummy frá 1994. Ennþá fleira hefur breyst síðan sú plata kom út. Fyrirfram átti maður alveg eins von á því að á Third heyrðist nákvæmlega það sama og á fyrri plötunum tveimur; dub-skotið triphopp yfirfullt af gömlum jazz-sömplum og plöturispi – eitthvað sem myndi minna mann óþægilega mikið á löngu liðinn 10. áratuginn. Ég reyndar bjóst við einhverju þvíumlíku og var búinn að setja mig í þær stellingar að fussa og sveia yfir stöðnun og ófrumleika fyrrum hæfileikaríkra miðaldra tónlistarmanna – enda hafði ég engan áhuga á framhaldsmyndinni Dummy III. Sem betur fer voru væntingar mínar öllu minni en tilefni stóð til; Portishead höfðu engan áhuga heldur á því að endurtaka gömul trix og bera óvænt á borð eina ferskustu plötu ársins. 

Machine Gun:

 

Já, hvíldin hefur gert meðlimum Portishead gott. Þau hafa losað sig undan spennunni og álaginu sem fylgir því að þurfa ætíð að gera betur og geðjast öllum áhangendum sveitarinnar. Portishead hafa dregið andann djúpt, byrjað frá grunni og einblínt á tónlistina sjálfa. Ellefu ár er langur tími en var biðin þess virði? Já, Third er meistaraverk sem hefði ekki orðið til nema sveitin hefði haft tækifæri til þess að hvíla sig og fjarlægjast gamla hljóminn, sem var bæði orðinn úreltur og hefði hamlað sköpunarþörfinni sem hlýtur jú að vera helsti drifkraftur hvers tónlistarmanns.

Allt frá fyrstu augnablikum Third er hlustendum ljóst að hér bera Portishead nýja og ferska tóna á borð. Fyrstu mínúturnar af „Silence“ eiga eiginlega lítið skylt við þá hljómsveit sem við þekkjum af fyrri plötum, en þegar Beth Gibbons hefur upp rausn er engum blöðum um að fletta hverjir séu hér á ferð. Því jafnvel þótt Portishead hafi uppfært hljóm sinn er breytingin ekki svo byltingarkennd að maður greini ekki grunnelementin í tónlist sveitarinnar. Eftir sem áður er það einkennandi rödd Gibbons og hið heillandi myrka andrúmsloft sem umlykur plötuna og setur hana í samhengi við eldri verk sveitarinnar.

Það er svo á fjórða lagi sem platan fer almennilega á flug, „The Rip“ minnir í byrjun eilítið á það sem Gibbons gerði á frábæru Out Of Season (2002) en þegar trommurnar og hljómborðið læðist inn í lagið verður útkoman unaðsleg. Ekki ósvipuð snilld á sér stað í „We Carry On“ sem minnir um margt á frumrafsveitina Silver Apples, en hljómar reyndar mun flottara en nokkuð sem sú sveit gerði. Þriðji hápunktur plötunnar er svo smáskífan „Machine Gun“ sem hlýtur að vera eitt alsvalasta lag ársins. Þessi lög eiga það sameiginlegt að vera öll ólík þeirri Portishead sem við þekkjum, en þau eru einnig bestu lög plötunnar svo þessi framþróun er mjög svo af hinu góða.

 We Carry On:

  

Önnur lög Third liggja nær eldri tónsmíðum þeirra, lokalagið „Threads“ er t.d. hvað næst því sem við eigum að venjast frá sveitin. Lögin eru þó mun eftirminnilegri en þorrinn af síðustu plötu og yfirleitt tekst Portishead að búa til skemmtilega og óvænta snúninga á þá, hlustendum til mikillar ánægju (a.m.k. í mínu tilviki). Hið frábæra „Small“ byrjar t.d. ekki ósvipað mörgum eldri lögum sveitarinnar en tekur skemmtilega stefnu um miðbiki lagsins og minnir þá jafnvel ögn á hina frábæru sveit Broadcast.

Eftir stendur að Third er líklega besta endurkomu plata nokkurrar hljómsveitar. Það er aldrei auðvelt fyrir goðsagnakenndar sveitir að snúa aftur með nýtt efni og Third hefur vafalaust ekki verið auðveld að búa til. Útkoman talar þó sínu máli og Portishead hefur tekist það sem fáir höfðu trúað; að vera betri og ferskari en nokkru sinni áður.

 

Neon Neon – Stainless Style

Neon Neon - Stainless Style
Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Lex

Þemaplata um bílaframleiðandann og glaumgosann John DeLorean? Með Gruff Rhys og Boom Bip í aðalhlutverkum? Snilld!

Hver man ekki eftir bílnum sem Marty McFly ók um fram og til baka í gegnum framtíð og fortíð í Back To The Future? Sá hét DeLorean og var nefndur eftir skapara sínum, bílaframleiðandanum og glaumgosanum John DeLorean. DeLorean þessi lifði hátt, átti í ástarsambandi við Hollywood-leikkonur, sveik fleiri milljónir punda útúr bresku ríkisstjórninni og var að lokum handtekinn af FBI fyrir kókaínsmygl.

Gruff Rhys, hinn óútreiknanlegi forsprakki Super Furry Animals, er, ásamt Bryan 'Boom Bip' Hollon, maðurinn á bakvið þessa undarlega en engu að síður stórgóðu þemaplötu. Rhys og Hallon hafa greinilega einsett sér að fanga stemmningu og tónlist áttunda áratugarins, þegar DeLorean var á hátindi frægðar sinnar, og leita óspart í verk þeirra listamanna sem mest áhrif höfðu á tónlist þess tíma. Útkoman er engu lík og verður segjast að það er langt síðan 80's hljómurinn, yacht-rokkið, ítalo diskóið, Prince og Moroder hafa verið túlkaðir á jafn trúverðuglegan hátt. Ef ég vissi ekki betur gæti ég auðveldlega trúað því að sum lögin á plötunni væru tekin upp fyrir allt að 30 árum.

Stainless Style er þó ekki bara óður til 80's tónlistar því inn á milli má heyra nýmóðins elektrópopp takta með tilheyrandi hljóðgervlum og sömplum. Nokkuð er líka um gegstagang á plötunni og má í því sambandi nefna rapparana Spank Rock og Yo Majesty. Þeirra innkoma, þó ágæt sé, er þó það sem heillar mig síst við plötuna og finnst mér sem rappið passi illa við heildarmyndina, hið hljómborðsdrifna tölvupopp sem er undirstaða plötunnar.

Annar gestur sem ber að nefna, sem á mikið glæsilegri innkomu en rappararnir ágætu, er söngkonan Cate Le Bon en dúett hennar og Gruff Rhys í laginu "I Lust You" er einn af hápunktum plötunnar. Ég ímyndaði mér að ég gæti allt eins verið að hlusta á lag með Human League frá þeim tíma er sú sveit var upp á sitt besta. Hér er á ferð sannkallaður "hittari".

I Lust U (featuring Cate Le Bon)

Ég er ekki frá því að þessi plata sem með því besta sem Gruff Rhys hefur komið nálægt. Hann er einstakur lagasmiður, fjölhæfur og óhræddur við að fara ótroðnar slóðir. Stainless Style er lang forvitnilegasta plata ársins sem ég hef heyrt hingað til og örugglega líka einn óvæntasti smellur ársins, ef hægt er að nota það orð yfir heila plötu, sem fram hefur komið. Það var líka fyrir löngu kominn tími á almennilega þemaplötu og þær eru gerast vart betri þessi.