Coral – The Perpetual Motion Picture

Coral - The Perpetual Motion Picture
Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Coral

Coral gáfu út sína fyrstu breiðskífu í lok seinasta árs og má með sanni segja að hér sé afar áhugaverð sveit á ferð

Coral ættu að vera flestum borgarbörnum kunnir og hafa verið starfandi í allmörg ár. Frammistöður þeirra á undanförnum Iceland Airwaves hátíðum hafa vakið mikla athygli og sveitin gefið sér gott orð fyrir frábæra sviðsframkomu og sér í lagi gott "presence" á sviði.
Nóg er um gesti á plötunni og var platan tekin upp víðast hvar í Reykjavík. Gestir á borð við Davíð Þór Jónsson aðstoða hér við tónlistina sem og ljúfur kór blandast inn í spilið. Allt er hér lagt í frumburðinn. Frumburð sem hefur verið í vinnslu að sögn sveitarinnar í nokkur ár.
Strax og fyrsta lag plötunnar "The Perpetual Motion Picture" keyrir í gang, grípur sveitin hlustandann vel með áhugaverðum strengjaútsetningum í bland við vel þétt grúv. Lagið "Steal From Masters" boðar gott áframhald. Keyrir sveitin hraðann upp í laginu "Bloodshot" og er hér í raun um allt annað að ræða en í fyrsta lagi plötunnar. Þétt keyrslan er nú í fyrirrúmi og laglínan er afar skemmtilega vafin um þétt og gott popprokk.
Þriðja lag plötunnar "The Glowing" má með sönnu flokka sem tónverk af besta toga. Hér eru píanó, hér eru strengir og effectar og hér er um eitt besta lag sveitarinnar að ræða frá stofnun hennar í kringum árið 2000. Fyrstu tvær mínúturnar einkennast af útópískum röddum í bland við einfalda strengjaútsetningar. Allt gengur upp og er lagið keyrt upp og sing-a-long kaflar taka við. Viðlagið hefur meira að segja að geyma fínt "pöbbatrall" þótt ótrúlegt megi virðast.
Söngur, sláttur, strengir, kór, píanó og í raun það helsta sem hægt er að troða saman blandast í frábært verk sem seint gleymist. Lagið hefur þó að bera sér keim af því að loka plötunni en tekst þó að komast frá því með ágætum.

Hálfgert "interlude" er lag númer 4. Hér er hætt við að hlustandi leggi aftur augun við fallegar melódíur og sofni. Má líkja laginu örlítið við það sem hefði kannski mátt vera falið lag.
Fimmta lag plötunnar keyrir þó hlustanda upp úr sófanum og meira en það. Líkur er á tryllingi.
Skruðningar og óreiða fleyta laginu áfram í flott rokk og ról. Þungt og drullugt vekur það hlustanda af þeirri væru ró sem einkenndi lag 4, "Shattered Glasshouse".
"One Dark Globe" er frábært rokklag glætt með rólyndis verse-um og geðveilandi ókyrrð.
Þrátt fyrir heilsteypt lag, sakna ég þess að hinar gæsahúðarframkallandi raddir Gunnars, sem mynda viðlagið, koma ekki mikið fram nema í eitt skipti. Það hefði mátt endurhugsa að mínu mati.
Einnig endar lagið á mjög skringilegu jazz-kenndu dútli. Mjög furðulegt en ef litið er á plötuna sem heildarverk á borð við plötur The Mars Volta og fleiri, má skilja þetta sem þátt í verki fremur en þátt í laginu sjálfu.
"Kroy Wen" tekur á móti hlustanda með einföldum gítar og poppuðum trommum. Laglínur eru mjög góðar og vel settar saman við ágætis músík. Greinileg eru áhrifin frá Botnleðju en gítarútsetningar minna á tímabili vel á þá hafnfirsku bílskúrsgoðsögn. "Come on home, where you´ll always be a star". New York afturábak er fínt en kemst ekki í hóp bestu laga plötunnar.
"Penniless" er næsta lag plötunnar. Vel yfirdrifinn bassi einkennir lagið og grúvið leynir sér ekki. Gott grúv og viðlag sem festist vel niðri hjá hlustanda. Trommuleikur og gítareffectar eru frábærir.
Allt er keyrt í botn, afturábak og áfram og lagið gengur upp.

Þegar staðar er numið er hér líklega um að ræða hálfgert verk fremur en nokkurn tímann niðurskipta plötu "per sei". Nafn plötunnar gefur þá ýmislegt til greina sem styður þá kenningu að hér sé um annað að ræða en hina hefðbundnu rokkplötu.
Coral hafa greinilega margar hliðar og áhrifavalda hlýtur að telja upp á nokkra tugi. "Superbus" einkennist af einföldu og góðu brjálæði sem blandað er við jazzandi og ljúfan blástur sem minnir á tíma big-band tónlistarinnar og er laginu svo aflokið með sinfóníukenndu píanói sem leiðir út í dularfulla og hálf óhugnalega óreiðu.

"Pack Your Bag" og "Teenage Mutants" enda svo plötuna.
Hið fyrrnefnda er í anda laga á borð við "Kroy Wen" og skilar af sér fínu rokki og rifinni rödd söngvarans. Coral klára svo frumburð sinn með laginu "Teenage Mutants".
Upphaf lagsins minnir ögn á bandarísku sveitina "Incubus" en söngvari sveitarinnar, Gunnar, rekur allar líkingar við aðrar sveitir frá þegar lagið hefst að fullu. Hugljúfir tónar, afbragðs viðlag og í einu frábært lag sem hefur að mörgu að státa.
Til að gera upp þessa sérstöku plötu má með sanni segja að hlustendur skulu ekki halda að hér sé um niðursneydda rokkplötu að ræða. Allt er tekið saman í eitt. Áhrifavaldar á borð The Mars Volta og Silverchair henda fram hér einni af áhugaverðustu sveitum landsins sem án efa á eftir að láta vel í sér heyra þegar fram í sækir. Textar plötunnar eru þó oft ógreinilegir og bæta hefði mátt úr því með textum í albúmi plötunnar, sem er þó afar vel uppsett og skemmtilegt.

Margt er hér að finna og má í raun segja að allir ættu að finna sér eitthvað sem svalar þeirra eigin kröfum um tónlist á einhverjum tímapunkti á plötunni.  

 

Coral á Iceland Airwaves – Steal From Masters 

 

Scarborough Fair í flutningi Coral Unplugged

 

Eddie Vedder – Into The Wild

Eddie Vedder - Into The Wild
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: J Records

Leikarinn og leikstjórinn Sean Penn fékk grugggoðsögnina Eddie Vedder til liðs við sig vegna kvikmyndarinnar "Into The Wild" sem frumsýnd verður hér á landi á næstunni.

Eddie Vedder er mörgum tónlistarunnendanum kunnur og er hér mættur með hugljúfa og hlýja breiðskífu með tónlist úr kvikmynd Sean Penn, Into The Wild. Til aðstoðar Vedder á plötunni var lagasmiðurinn Michael Brook. Myndin er byggð á samnefndri bók eftir John Krakauer um Chris McCandless sem ákvað að leggja land undir fót eftir útskrift úr menntaskóla og finna hina svokölluðu "köllun" sína hjálparlaus og allslaus út í náttúrunni. Saga hans er orðinn hálfgerð goðsögn í heimalandi hans og sömuleiðis er McCandless orðinn heimsfrægur vegna sögu sinnar og reynslu.

Kvikmyndin var frumsýnd hér á landi fyrir ekki svo löngu og hefur nú þegar fengið frábæra dóma og ekki sakar að tónlist Vedder hefur fengið lof gagnrýnenda hvert sem myndin leitar. Fyrsta lagið sem gefið var út af þessari einstöku breiðskífu var lagið "Hard Sun". Lagið, að vísu ekki samið af Vedder sjálfum, var notað í kynningarherferð myndarinnar ásamt því sem lagið fékk ágætis spilun á öldum ljósvakans fyrr í vetur. Lögin eru flest í styttri kantinum og lítið er um læti og æsing.

Það sem einkennir Eddie Vedder í verkum hans er einlægni. Vedder er hér látinn túlka innri rödd aðalpersónu myndarinnar og er dramatík, einmanaleiki, efasemdir og uppgötvanir meðal þeirra tilfinninga sem koma hve best fram á plötunni. Platan hefur upp á að bjóða 11 lög og eru þar af 2 af þeim samin af öðrum en Vedder sjálfum.

Platan er að mestu byggð upp á strengjaútsetningum og rólegum töktum í bland og er einfaldleikinn oft bestur. Lögin "No Ceiling", "Hard Sun", "Society" og "Guaranteed" (sem vann m.a. til Golden Globe verðlauna) eru öll frábær.

Ég hvet alla eindregið til að næla sér í þessa hugljúfu plötu sem lýsa má sem skemmtilegu og ævintýralegu ferðalagi einfarans. Sömuleiðis bendi ég á að líklega besta upplifunin á tónlistinni kemur frá því að sjá hvernig hún mótast í kringum kvikmyndina.

Afbragðs dægradvalarplata og get ég ekki beðið eftir að sjá hvernig tónlistin spilar inn í þessa afar áhugaverðu kvikmynd Sean Penn, Into The Wild.

 

 

Bearsuit – Oh:io

Bearsuit - Oh:io
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: Fantastic Plastic Records

Svo er hún bara svo skemmtileg

Hin ofurhressa sveit Bearsuit frá Norwich í Bretlandi hefur frá árinu 2001 verið dugleg í að koma súrustu fýlupúkum í gott skap og lífga allhressilega upp á tónlistarflóruna. Eins og svo margar aðrar góðar sveitir var Bearsuit í miklu dálæti hjá John heitnum Peel sem bókaði sveitina hvað eftir annað í þáttinn sinn og lentu lög með henni þrisvar á topp 5 lista yfir bestu lög ársins hjá kallinum áður en hann féll frá árið 2004. Sama ár gaf Bearsuit út sína fyrstu breiðskífu, Cat Spectacular!, og ári seinna kom út Team Ping Pong sem safnaði saman lögum af hinum fjölmörgu smáskífum sem sveitin hafði þá sent frá sér. Nú nýlega kom svo önnur eiginleg plata sveitarinnar, Oh:io, sem er næstum því óþolandi skemmtileg og ávanabindandi.

Tónlist Bearsuit er allhressileg og stundum jafnvel pönkuð popptónlist sem flestir myndu skella merkimiðanum „indí“ á – eins óræður og hann getur verið. Áberandi eru hin fjölbreytilegustu hljóðfæri sem sveitarmeðlimir skella óhikað í súpuna til bragðbætingar og má þar m.a. heyra í hinum ýmsu blásturshljóðfærum, þeramíni, harmónikku og breiðrar flóru hljóðgervla. Tónlistin minnir t.d. á Bis (áður en sú sveit varð al-diskó), Deerhoof, Danielson og Architecture in Helsinki á hressum degi. Af einhverjum ástæðum hefur Bearsuit þó oftast verið líkt við Belle and Sebastian og þó sú líking eigi við í einhverjum tilviku er Bearsuit þó allverulega ofvirkari.

More Soul Than Wigan Casino:

 

Á Oh:io hefur sveitin vaxið nokkuð frá fyrri útgáfum, bæði er hún öll orðin þéttari og framför hefur orðið í lagasmíðunum án þess þó að leikgleðin og ófyrirsjáanlegt andrúmsloftið tapi sér. Með hrópum og köllum renna þau sér í gegnum tólf lög á tæpum 30 mínútum og slaka hvergi á. Fyrstu tvö smáskífulögin „More Soul Than Wigan Casino“ og „Steven F***ing Spielberg“ eru kannski ekki endilega sterkustu lögin á plötunni en nýjasta smáskífan, „Foxy Boxer“, sýnir sveitina upp á sitt besta. Þrátt fyrir að það væri hægt að flokka Bearsuit einfaldlega sem enn eina indípopp sveitina þá sýnir hún á sér ýmsar skemmtilegar hliðar. Það er mikið stuð á krökkunum í „Love Will Never Find You“ og „Keep it Together, Somehow“, í „Dinasaur Heart“ og „Shh Get Out“ rokkar þau á Deerhoof-legan hátt, rólega hliðin heyrist í „Look A Bleached Coral Faced Crow With Jewels For Eyes og í laginu „Mission Io Must Not Fail“ ægir svo öllu saman.

Bearsuit er hress og skemmtileg sveit, full af lífs- og leikgleði og kemur undirrituðum alltaf í gott skap. Það kæmi svo sem lítið á óvart þó einhverjum finnist hún óþolandi – enda mun hróp og öskur, furðuleg hljóð og óvænt stopp og taktskiptingar ekki vera hvers manns tebolli. Þeir sem á annað borð eru óhræddir við skemmtilega tónlist ættu vart að verða fyrir vonbrigðum með Oh:io. Platan er kannski of ögrandi fyrir lærdóminn en hefur dugað vel í að lífga upp á daufa vinnudaga, verma manni á köldum vetrardögum og koma manni í rétta gírinn í ræktinni. Svo er hún bara svo skemmtileg.

 

Steven F***ing Spielberg:

 

 

Against Me! – New wave

Against Me! - New wave
Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Sire

New wave er alveg indælt spark í andlitið.

Það kemur mér nokkuð stöðugt á óvart hvernig mér tekst að missa gjörsamlega af vissum hljómsveitum. Belle & Sebastian, Meatloaf og Elliott Smith eru öll meðal þessara listamanna sem hafa farið framhjá mér í lengri tíma, og nú hafa Against Me! bæst í þann hóp. New Wave, sem kom út í júlí síðastliðinn, er fjórða plata þessarar sveitar sem hóf ferilinn fyrir sirka tíu árum og hefur þróast frá eins manns sólóverkefni yfir í rokkband sem sparkar almennlega í rass.

Aðdáendamyndband við ,,Borne on the FM waves of the heart''

Eins og áður sagði er þetta fjórða plata sveitarinnar og hún hljómar alveg yndislega; fyrsta lagið byrjar á kraftmiklum trommum, bjöguðum gítörum og söng Tom Gabel sem er hrár og góður, og þetta er formúla sem heldur sér út plötuna. Meðlimir Against Me! eru pönkarar í annan fótinn, sem skilar sér prýðilega í stuttum, áköfum og hnitmiðuðum lögum sem svala rokkþörfinni ágætlega. Að vísu gerir það að verkum að New wave er bara hálftími að lengd, en fyrir vikið hef ég oftar en einu sinni og tvisvar rennt henni í gegn nokkrum sinnum í röð.

Hinn fótur Against Me! stendur svo kyrfilega á sveitalagagrunni, í upphafi samanstóð bandið aðeins af söngvaranum, gítarnum hans og gömlum mótmælalögum. Maður finnur alveg fyrir því; bæði er uppbygging laganna á New wave aðeins flóknari en hins hefðbundna pönklags, og þrátt fyrir grófleikann í hljómi hljóðfæranna og söngvarans kunna strákarnir í Against Me! alveg á melódíurnar. Það þarf ekki annað en að heyra brot af ,,Borne on the FM waves of the heart'' til að sannfærast um það.

En það sem stendur alveg upp úr við New wave eru textarnir við lögin. Söngvarinn Tom Gabel nær að troða fleiri orðum inn í setningu en ég hélt að væri mögulegt og nýtir það í botn; í ,,White people for peace'' er talað um getuleysi mótmælalaga til að hafa áhrif á stríð, ,,Trash unreal'' er saga af stelpu og eyturlyfjum hennar, og jafnvel í hinu diskótaktknúna ,,Stop'' má heyra ábendingar um sjálfstæða hugsun. Þó ég sé kannski ekki sammála öllum þessum boðskap finnst mér hann alveg gríðarlega hressandi. Ég meina, ég fríka við Mika eins og næsti maður, en stundum er gaman að heyra álit tónlistarmanna á öðru en dúndrandi taktinum.

Myndbandið við ,,Trash unreal''

Það styttist í að ég missi algerlega stjórn á mér í þessari lofræðu, þannig ég ætti kannski að tala um galla New wave. Þó það hafi verið freistandi að benda hér á að hún býr ekki um rúmið mitt og láta þar við skilið verð ég að minnast á ,,Ocean'', sem er síðasta lagið á plötunni. Þar breytir hr. Gabel aðeins til og fer að syngja um svolítið abstrakt hluti, í staðinn fyrir þessa nokkuð jarðbundnu sem hafa rutt leiðina, en það tekst bara alls ekki og virkar falskt. Ef maður skilur ekki ensku er nákvæmlega ekkert að þessu lagi, en eins og það stendur er það kryptónít fyrir stemminguna á undan.

Þannig er það nú: Fyrstu níu lög New wave mynda alveg ekta rokkplötu sem sparkar í rassa, og það síðasta er fínt þar til maður fer að hlusta á textann. En ef maður er tilbúinn að fyrirgefa þetta litla hliðarspor, eða alla vega haga sér eins og apinn sem heyrir ekkert illt síðustu fjórar mínútur plötunnar, er New wave besta rokkplatan sem þú hlustaðir ekki á árið 2007.

Cat Power – Jukebox

Cat Power - Jukebox
Einkunn: 3
Utgafuar: 2008
Label: Matador

Chan er full af sál og bara ekkert feimin lengur

Það verður að viðurkennast að sá sem hér skrifar hefur á fáum tónlistarkonum haft jafn miklar mætur og á henni Chan Marshall, sem alla jafna hljóðritar undir heitinu Cat Power. Á undanförnum þrettán árum hefur hún sent frá sér átta breiðskífur og var sú nýjasta, Jukebox, nú að koma í hús. Platan er nokkurs konar óbeint framhald af The Covers Record (2000), enda var vinnuheiti hennar um tíma Covers II, en platan er þó allólík þessum fyrirrennara sínum – en í raun í rökréttu samhengi við þá þróun sem hefur orðið á tónlistarferli Cat Power.

Tökulagaplötur hafa oftar en ekki verið þyrnir í augum þeirra sem tjá sig opinberlega um tónlist, enda er meginþorri slíkra útgáfa sálarlausar endurtekningar á klisjum ætlaðar til að hala inn sem mestum pening án mikils tilkostnaðar. Nokkrar undantekningar eru þó frá þessu og er þá ætíð um að ræða flytjendur sem sannað hafa sig sem lagahöfundar og eru tökulagaplötur þeirra fremur virðingarvottur við áhrifavalda fremur en gróðramaskína. Á The Covers Record söng Cat Power á sinn hátt lög eftir m.a. Bob Dylan, Velvet Underground og Moby Grape en áhugaverðasta ábreiðan var líklega „(I Can't Get No) Satisfaction“ sem í meðförum hennar hljómaði nákvæmlega ekkert í líkingu við neina aðra útgáfu lagsins.

Á Jukebox kveður við nokkuð annan hljóm en á forveranum, í stað þeirrar brothættu inn-í-sig stemmningar sem einkenndi The Covers Record hefur Cat Power nú með sér Dirty Delta Blues sem spilað hefur með henni á tónleikaferðalögum undanfarin tvö ár. Hljómur plötunnar er í rökréttu framhaldi af The Greatest (2006) en þó er allt önnur stemmning í gangi. Það er meiri soul í Cat Power núna en áður, en oftar en ekki koma fyrir andartök sem minna mig óljóst á einhverja af plötum Arethu Franklin. Kannski er soul-fílingurinn bara tilkominn vegna þess hversu mörg „svört“ lög Chan syngur, en hér má hana fara höndum um James Brown, George Jackson, Jessie Mae Hemphill og Billie Holiday.
 

„Don't Explain“ á tónleikum

 

Eins og á fyrri ábreiðuplötunni hefur Cat Power Jukebox á óhóflega vinsælli ábreiðu, en hún gefur „New York“ Sinatra glænýja og skemmtileg vídd. Það kemur líklega lítið á óvart að heyra hana hneigja sig fyrir Janis Joplin, Joni Mitchell, Hank Williams og Dylan en upprifjun á kántrý-ofursveitinni The Highwaymen kemur skemmtilega á óvart. Smellur þeirra „Silver Stallion“ er eitt það best heppnaðasta á plötunni ásamt hennar eigin smíð „Song To Bobby“.

Í „Song To Bobby“ syngur Cat Power til Bob Dylans sem líklega hefur haft meiri áhrif á hana en nokkur annar tónlistarmaður. Það má t.d. sjá á fjölda Dylan laga sem Chan hefur sungið, bæði á plötum sínum og tónleikum, en þetta lag hér er reyndar hálfgerð endursköpun á lagi Dylans, „Song To Woody“, þar sem hann söng til átrúnargoðsins síns. Annað lag eftir hana sjálfa er að finna á plötunni, ný gerð af hinu frábæra „Metal Heart“ sem upphaflega var að finna á Moon Pix (1998). Þessi útgáfa missir nokkuð marks, því þrátt fyrir að lagið standi enn fyrir sínu vantar eitthvað upp á hina einlægu töfra sem fylgdu upprunalegu útgáfunni.

Ef vilji er fyrir má fá sérstaka deluxe útgáfu af plötunni sem er í veglegra umslagi og inniheldur fimm laga aukadisk. Sá gripur bætir svo sem ekki miklu við þann fyrri og helst er áhugaverð ný og fjörugri upptaka af Moby Grape laginu „Naked If I Want To“ sem var á fyrri ábreiðuplötunni. Persónulega tek ég fyrri útgáfu Cat Power á laginu fram fyrir en báðar eru þær mun betri en upprunaleg útgáfa þess.

Jukebox er í raun allt öðruvísi plata en The Covers Record og samanburður þeirra ef til vill ósanngjarn. Það er svo sem ekkert nema gott um það að segja að Cat Power skuli sífellt vera að þróa stíl sinn í stað þess að endurtaka það sem áður hefur virkað. Það heppnaðist ágætlega á síðustu plötu, The Greatest, og Jukebox er ágætis varða á leiðinni þó hún skilji minna eftir sig en aðrar plötur hennar. Cat Power hefur brotist út úr skelinni sinni og er gripurinn aðgengilegri en mörg önnur verk hennar – kannski full mikið fyrir minn smekk og leyfi ég mér því enn að halda meira upp á hina gömlu og feimnu Chan.

„Metal Heart“ á tónleikum 1998

 

MGMT – Oracular Spectacular

MGMT - Oracular Spectacular
Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Columbia

.

Í október á síðasta ári kom út sem stafrænt niðurhal frumburður hinnar frábæru MGMT, Oracular Spectacular, en þar blandar sveitin saman glysirokki, diskói, elektróník, sækadelíu og nútíma indípoppi á stórkostlegan hátt. Platan vakti fljótlega athygli tónlistarnördanna sem geta glaðst yfir því að nú í janúar kemur platan út í föstu formi á vegum stórútgáfunnar Columbia. Því er ekki úr vegi að kynna lesendum Rjómans aðeins fyrir þessari frábæru plötu.

MGMT (borið fram Management) var stofnuð af þeim Andrew VanWyngarden og Ben Goldwasser árið 2002 og sendi frá sér EP-plötuna Time To Pretend þremur árum síðar, en titillag hennar auk hins frábæra „Kids“ er einnig að finna á Oracular Spectacular. Nú hefur sveitin stækkað í fimm manna læf-band og hefur m.a. tvívegis túrað með Of Montreal, nú síðast í haust – og því synd að MGMT skyldi ekki slæðast með á Airwaves hátíðina (við skulum bara krossleggja fingur fyrir næstu hátíð). Fyrir áhugasama má svo minnast á það að VanWyngarden og Kevin Barnes úr Of Montreal hafa eitthvað sýslað saman undir nafninu Blikk Fang og vonandi kemur afraksturinn af því einhvern tímann út.

 „Electric Feel“

Eins og áður segir blanda MGMT ótrúlegustu tónlistarstefnum saman tvist og bast og skapa þannig sinn sérstæða stíl þar sem allt virðist leyfileg. Á Oracular Spectacular heyrast tilvísanir hingað og þangað í tónlistarsöguna án þess að MGMT hverfi frá sínum eigin stíl. Í „Electric Feel“ umbreytast þeir í úrkynjað geldingadiskóband, í „Of Moons, Birds and Monster“ minna þeir á Sparks (sveit sem er nú sjálf þekkt fyrir að fara um víðan völl á plötum sínum) og í „Kids“ framkalla þeir ómótstæðilegt elektróstuð sem fær mann nær sjálfkrafa til þess að fá sér pillu og reifa fram á morgun.

Lagasmíðarnar eru allar frábærar og hvergi er dauðan punkt að finna á plötunni. Auk áðurnefndra laga má einnig minnast á „Weekend Wars“, „The Handshake“ og „Pieces of What“ þar sem sveitin sýnir fram á bragðskyn sitt fyrir allra handa poppmelódíum. Upphafslagið „Time To Pretend“ er svo einhverskonar stefnuyfirlýsing þar sem þeir tjá hlustendum m.a. ætlun sína að giftast fyrirsætum og taka nóg af heróíni – hvort slíkt sé vísun í ákveðnar persónur getið þið sjálf skorið úr um.

Oracular Spectacular er ein af þessum fágætu plötum sem hreinlega kalla á að vera spilaðar aftur og aftur. Jafnvel undirritaður, sem sjaldnast getur hugsað sér að hlusta á sömu plötuna oftar en einu sinni í viku, stendur sig að því að spila Oracular Spectacular tvisvar – jafnvel þrisvar – í röð án þess að finna fyrir vott af endurtekningu. MGMT hafa tekist frábærlega upp með frumburð sinn og nú er bara að vona, almennings vegna, að hróður þeirra eigi eftir að aukast um muna næstu mánuði – enda virðist allt líta út fyrir það. 

 „Time To Pretend“ læf hjá Letterman
 

The Magnetic Fields – Distorsion

The Magnetic Fields - Distorsion
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: Nonesuch

Stephin Merritt heppnast vel að umlykja ómótstæðilegar poppmelódíur sínar með sækókandískum hljóm

Jæja, þá er árið 2008 komið og nýjar plötur eru um það bil að byrja að renna í hús. Ein fyrsta athyglisverða útgáfa ársins er áttunda plata The Magnetic Fields sem nefnist Distorsion. Það virðist vera orðinn vani hjá sveitinni á undanförnum plötum að umlykja þær einhverskonar þema; sveitin söng 69 ástarlög á 69 Love Songs (1999) og öll lög i (2004) byrjuðu á bókstafnum i. Distorsion ber þannig nafn með rentu því meldódískum poppballöðum Stephin Merritts er drekkt í feedbacki svo manni finnst helst að Reid bræður hafi komist í upptökurnar og leikið lausum hala.

Fáir tónlistarmenn voru eins ofvirkir á síðasta ártug 20. aldarinnar eins og Stephin Merritt. Ekki einungis sendi hann frá sér plötur með The Magnetic Fields í gríð og erg heldur hafði hann einnig tíma fyrir hin ýmsu hliðarverkefni, t.d. Future Bible Heroes, The 6ths og The Gothic Archies. Þessi sköpunargleði sést kannski best á hinni metnaðarfullu og þreföldu 69 Love Songs en það sem af er þessum áratug hefur Merritt að mestu einbeitt sér að tónlist fyrir kvikmyndir og leiksvið og er Distorsion aðeins önnur plata Magnetic Fields á öldinni.

Ég viðurkenni að við fyrstu hlustun höfðaði Distorsion alls ekki til mín og mátti litlu muna að hún fengi ekki annan séns. Þó ég hafi alla jafna gaman að surgi, ískri og öðrum skemmtilegum óhljóðum fannst mér platan hljóma eins og Merrit hefði farið tuttugu ár aftur í tímann og fengið Jesus & Mary Chain til að spila á bak við sig. Það var svo sem ætlun hans enda notar hann feedback á öll hljóðfæri fyrir utan trommurnar, jafnvel á harmónikku og píanó, sem gefur plötunni svo sannarlega distortaðan hljóm. Strax við aðra hlustun hætti slíkt þó að trufla mig og tók ég því betur eftir öllum frábæru melódíunum sem læddust aftan að mér úr hljóðasúpunni og gripu heljartaki.

Magnetic Fields fara eiginlega í þveröfuga átt við það sem búast mátti við eftir hommadiskóslagarann og næstumþvíhittarann „I Thought You Were My Boyfriend“ á i. Fyrirfram bjóst ég við því að næst myndi sveitin senda frá sér guðdómlega sykursæta poppplötu sem myndi færa henni löngu verðskuldaðan stað á himnaríki vinsældarlistana. Nei, þess í stað umlykur sveitin lögin með sækókandískum hljóm sem varla skorar mjög hátt hjá útvarpsráðum poppstöðva.

Þrátt fyrir rafmagnaðann hljóminn eru lagasmíðarnar jafn yndislega poppaðar og grípandi sem áður. Vart er hægt að stilla sig um að raula fjölmargar ómótstæðilegar laglínur plötunnar og greinilegt er að Merritt hefur ennþá náðargáfuna sína. Hæst ber þó lagið „The Nun's Litany“ þar sem saman fer frábær laglína og snilldartexti sem kallar fram í hugskotinu mynd af nunnunni sem lætur sig dreyma um að vera playboy kanína, topplaus gengilbeina og vændiskona. Sjálfur þarf ég a.m.k. að stilla mig um að syngja ekki upphátt „I want to be a dominatrix / Which isn't like me, but I can dream“ þegar ég er úti á gangi með iPod í eyrum.

Distorsion tekur eilítið lengri tíma að venjast en fyrri plötur Magnetic Fields en er vel þess virði. Þeir sem á annað borð hafa gaman af sveitinni verða varla fyrir vonbrigðum með gripinn og fyrir aðra er hún alls ekki slæmur upphafspunktur. Því þrátt fyrir að hljóma nokkuð öðruvísi en aðrar plötur þeirra er þefskyn Stephin Merritt fyrir góðum lagasmíðum alveg jafn sterkt og áður.

 „All my Little Words af 69 Love Songs (1999):

 

múm – Go Go Smear The Poison Ivy

múm - Go Go Smear The Poison Ivy
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: Fat Cat

Ferskur andblær leikur um múm

Það er alltaf gaman að láta koma sér á óvart. Það hefur verið ákveðin þróun í tónlist múm sem smátt og smátt hefur færst frá hinum leikandi og óvænta hljómi sem einkenndi Yesterday Was Dramatic, Today is OK til þess stirða og dauflega sem heyrðist á Summer Make Good. Það var því óvænt og gleðilegt að heyra múm kollvarpa tónlistinni á Go Go Smear The Poison Ivy með því að bæta fjölbreyttum stílbrigðum – og jafnvel hressleika! – inn í tónlistina sína án þess að missa tengslin við hljóðheim sveitarinnar sem gerir múm að múm.

Á síðustu plötu múm-liða var sveitin komin í öngstræti þar sem hún sat föst og virtist hvergi geta sig hrært. Platan var uppfull af mis-áhugaverðum laglstúfum sem í besta falli minntu á fyrri verk, yfir öllu hvíslaði svo söngkona sveitarinnar á barnslegan hátt og gerði plötuna nær óþolandi áheyrnar. Söngur tvíburasystranna hafði nú alltaf verið umdeildur, en átti sína aðdáendur, og álíka umdeildur hefur söngurinn á nýju plötunni verið. Nú hefur annar upphafsmanna sveitarinnar hafið upp rausn sína og í stað hvísls síðustu platna eru Hildur Guðnadóttir, Ólöf Arnalds og Mr. Silla óhræddar við að láta loft leika úr lungum. Það þarf því vart að taka fram að þeir sem dáðu hvíslið finnst þetta hinn mesti óskapnaður á meðan þeir (og ég þar á meðal) sem hundleiðir voru á því, gleðjast yfir löngu tímabærri tilbreytingunni.

Strax í upphafslaginu „Blessed Brambles" gefur þessi samsöngur tóninn fyrir plötuna, en lagið sjálft – sem er líklega að „múm"-legasta á plötunni, sannfærir hlustendur um að hann sé ekki örugglega að hlusta á rétta hljómsveit. Svo dvelja þau ekki lengur við gamla tíma og taka til við að endurskapa og umsnúa múm-hljómnum á skemmtilegan hátt. Platan tekur almennilega við sér í „They Made Frogs Smoke Til They Exploded", lagi sem hefði verið óhugsandi á síðustu tveim múm plötu.
 

 They Made Frogs Smoke Til They Exploded:

  

Já, á Go Go Smear The Poison Ivy er eins og lífið færist aftur í múm og geislar platan af sköpunargleði. Það má t.d. heyra á gleðinni sem skín í gegnum lögin og fjölbreytninni sem á plötunni er að finna. Yfirleitt heldur múm sig við sinn einkennandi hljóm en breytir út af vananum með óvæntum laglínum og skemmtilegum stílbrögðum héðan og þaðan. Þannig eru t.d. „Marmalade Fires", „Guilty Rocks" og „Winter (What We Never Were After All)" greinilega múm-lög en bera með sér ferskan andblæ. „Moon Pulls" hljómar ólíkt öllu sem sveitin hefur sent frá sér en „Dancing Behind My Eyelids" minnir eilítið á hinn stórgóða frumburð sveitarinnar. 

Go Go Smear The Poison Ivy er fjölbreyttasta plata múm og hafa mannabreytingar greinilega gert sveitinni gott. Það mátti varla eiga von á einhverjum ferskleika frá sveitinni, svo föst og niðurnjörvuð var hún orðin í stíl sínum, en á þessari skífu er líkt og hún enduruppgötvi sig og leyfi sér að leika lausum hala. Platan er kannski ekki sú besta frá múm því hvergi nær hún stórkostlegum hæðum, líkt og kom fyrir á fyrstu tveim breiðskífunum, en hins vegar tekur hún Summer Make Good í nefið.
 

Dancing Behind My Eyelids (aðdáendamyndband):

 

Band of Horses – Cease to Begin

Band of Horses - Cease to Begin
Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Sub Pop

Einfaldlega ein af plötum síðasta árs

Band of Horses skaust uppá sjónarsviðið fyrir um það bil einu og hálfu ári síðan með frumburði sínum Everything all the time. Indie-hausar hvarvetna fögnuðu plötunni, sem og margir aðrir tónlistarunnendur. Nú hefur þessi hljómsveit frá Seattle sent aðra plötu sína frá sér, þessa margumtöluðu aðra plötu sem sögð er vera svo erfitt að gera ef fyrstu plötunni er vel tekið. Vissulega eru til dæmi um hljómsveitir og plötur sem falla undir þá kenningu, nýjasta dæmið væri líklega Kaiser Chiefs. Öðrum hljómsveitum tekst þó að standa undir álaginu og eftir að hafa hlustað á Cease to Begin flokka ég Band of Horses hiklaust í þann flokk.

Þeir taka enda ekki mikla u-beygju frá fyrri plötunni, og halda sig við sitt kántrí-skottna indie. Samt sem áður fæ ég það ekki á tilfinninguna að þeir séu að endurtaka sig, þetta er  semsagt allt voða ferskt ennþá hjá þeim. Enda eru vissar breytingar sem eiga sér stað á Cease to Begin frá Everything all the Time. Fyrsta breytingin er sú að annar stofnandi hljómsveitarinnar, Mat Brooke, hætti í hjómsveitinni og snéri sér að öðrum verkefnum. Tónlistarlega séð virðist það hafa orðið til þess að þeir hafi þroskast nokkuð á þessu eina og hálfa ári sem liðið er frá fyrstu plötunni.

Is There a Ghost

 

Í heildinna er platan þrælsterk, hún hefst á fyrstu smáskífunni ,,Is there a ghost” sem er virkilega gott, nóg af rokkuðum gíturum ekki ólíkt ,,the funeral” af Everything all the Time sem aldeilis slóg í gegn hér á Íslandi sem annars staðar. Þeir hætta ekki þar heldur halda áfram að skapa hin þægilegustu lög með klingjandi rafmagnsgíturum og bjartri rödd söngvarans Ben Bridwells. Heildarsvipur plötunar er það sterkur að hápunktarnir eru aldrei mikið hærri en afgangurinn, það er vissulega hægt að líta á það sem veikleika en ég vil meina að í þessu tilviki sé það styrkur, í það minnsta. Þó eru að sjálfssögðu lög sem skera sig úr og eyrun sækja meira í að heyra en önnur. Lög eins og fyrrnefnt, ,,Is There a Ghost”, ,,Ode to Irc”, ,,No ones Gonna Love You”, ,,Island on the Coast” og ,,Cigarettes wedding bands” eru öll lög sem eru í rokkaðri kanti plötunnar. Þau eiga það líka öll sameiginlegt að sækja í smiðju annara indierokks hljómsveita eins og Built to Spill og The Shins. Skýringin á því gæti reyndar legið í Producernum Phil Ek sem hefur unnið með báðum þessum hljómsveitum áður.

Platan á vel við á þessum árstíma, þegar þú keyrir um í stylltu nóvember veðri þegar jörðin er hvít og úti er kalt, þá hlustaru á Cease to Begin. Einfaldlega ein af plötum síðasta árs að mínu mati

No One's Gonna Love You

Hjálmar – Ferðasót

Hjálmar - Ferðasót
Einkunn: 3
Utgafuar: 2008
Label: Sena

Sama gamla tuggan, nema bragðbætt!

Hljómsveitina Hjálma ættu flestir íslendingar að kannast við, en þeir félagarnir unnu hug og hjörtu þjóðarinnar með notalegum reggí lögum sem komu eins og ferskur andblær inn í íslenskt tónlistarlíf með frumburði hljómsveitarinnar, Hljóðlega af stað. Platan sú kom út árið  2004 en síðan þá hafa Hjálmar sent frá sér tvær plötur; Hjálmar (2005) og svo hina ljúfu Ferðasót sem kom út seint á síðasta ári.

Við fyrstu hlustun veldur Ferðasót hlustanda sínum vissulega vonbrigðum. Hvar eru grípandi laglínurnar, skemmtilegu reggítaktarnir og frumlegu pælingarnar? Þegar betur er að gáð kemur þó svarið glögglega í ljós; þær eru þarna, það þarf bara að venjast plötunni fyrst. Það tekur nefnilega lengri tíma að sættast við Ferðasót en ég hefði haldið. Þótt platan hafi lítið sem ekkert nýtt fram að færa (sömu taktpælingar, svipaðar textasmíðar) er hún rökrétt framhald af plötunni Hjálmar og kærkomin viðót í jóladiskaflóruna.

Það fer ekki mikið fyrir mannabreytingum hljómsveitarinnar á þessari nýjustu plötu hennar, en svíarnir Petter Winnberg, Nils Olof Törnqvist og Mikael Svensson sögðu skilið við hljómsveitina og í þeirra stað komu þeir Helgi Svavar, Davíð Þór og Valdimar úr Flís. Gamla góða reggíið er enn við völd, en eitt og eitt lag sker sig þó úr  sem eilítið íslenskari lagasmíð en áður. Í því samhengi má meðal annars nefna lagið „Ferðasót“, en þar yrkja Hjálmar undir ferskeytluhætti sem kemur skemmtilega út og lífgar upp á plötuna. Meðal annarra laga sem standa upp úr á Ferðasót má nefna lögin „Nú er lag“, „Úr varabálki“ og „Vagga vagga“ auk hins frábæra „Vísa úr álftamýri“, en það lag er að mínu mati eitt besta lag ársins 2007 og verður eflaust langt þar til það hættir að hljóma á öldum ljósvakans. Plötunni líkur svo á krúttlega laginu „Sálmur Boeves“ og skilur hlustandann eftir sáttan með sitt.  

Það er samt ekki laust við að ég sakni hinnar myrku hliðar Hjálmaliða, ef svo má kalla lögin sem ekki er eins bjart yfir. Þau hafa verið nokkur í gegnum tíðina („Hljóðlega af stað“, „Húsið hrynur“…) og eru yfirleitt flottustu lögin hverju sinni. En þá er bara að bíða og vona að næsta plata verði í myrkari kantinum – þar sem ég er strax farin að hlakka til næstu plötu og þess sem hún mun hafa upp á að bjóða. Þangað til mun Ferðasót sjá mér fyrir afþreyingu á köldum vetrarkvöldum eins og henni einni er lagið.
 

Rökkurró – Það kólnar í kvöld

Rökkurró - Það kólnar í kvöld
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2007
Label: 12 Tónar

Jólahreingerningin er búin uppá háalofti, nú er bara að taka hljóðfærin fram og spila…

Rökkurró er hljómsveit skipuð 5 ungmennum úr Reykjavík. Meðlimir Rökkurróar komu saman í byrjun árs 2006 og var markmið bandsins í fyrstu að covera lög úr kvikmyndinni Amélie.  En (sem betur fer) varð ekkert úr því heldur tóku þau upp á því að gera sína eigin ´Amélie´-tónlist.  Þegar árið 2006 var rétt hálfnað var Rökkurró búin að gefa út fjögurra laga EP plötu sem seldist upp og gerði þeim kleift að fá plötusamning hjá 12 tónum.

Dyggir hlustendur Rásar 2 ættu að kannski að kannast við Rökkurró þar sem lagið Ringulreið hefur verið mikið spilað þar síðustu mánuði.

Ég verð að viðurkenna að þegar ég fékk fyrst Það kólnar í kvöld í hendurnar þá vissi ég ekkert um þetta band. Ég hélt að þetta væri einhvers konar þungarokksband. Boy, was I wrong. Rökkurró sko allt annað en þung. Hún er meira klassísk, seiðandi og full af dulúð uppi á illa lýstu háalofti.

Mér finnst svolítið erfitt að skilgreina hvernig tónlist Rökkurró spilar. Á vefsíðu Rökkurróar segja þau sína áhrifavalda vera rökkur, háaloft og pöndur (??) og hjálpar það svona dálítið við að útskýra tónlist þeirra því að hún minnir mig ótrúlega á einhvers konar háaloftsstemmingu og rökkrið sem liggur yfir landinu þessa daganna. Ég hef ekki enn fundið hvað pöndur hafa með málið að gera en það kemur kannski seinna.

Það kólnar í kvöld hefur varla farið úr spilaranum mínum síðan ég fékk hana og ég verð að segja að þetta er ein af þessum plötum sem mér finnst alveg magnaðar.  Hún hefur gjörsamlega brætt hjarta mitt (og það er ekki auðvelt).

Platan hefur nánast allt það sem mér finnst oftast leiðinlegt að hlusta á eins og klassísk hljóðfæri (fiðlur, selló og slíkt) og íslenska texta. Hér eru allir textarnir á  íslensku, textar sem segja sögur og eru góð tilbreytni í þeirri stækkandi flóru íslenskra banda sem syngja eingöngu á ensku.  Þessi plata tekur mig aftur í tímann en er á sama tíma nútímaleg. Mér finnst ég verða lítil stelpa aftur. Lítil stelpa að hlusta á sögustund. Textarnir ná til mín, þeir eru um eitthvað, þeir segja sögur. Sögur sem ég vil hlusta á.

Hér er smá textabrot úr fyrsta lagi plötunnar – „Hún".

 

Börnin grétu gleði tárum því hún var komin aftur…sú sem allir elskuðu…endurheimt úr helju..

  „Hún" er að mínu mati eitt besta lag plötunnar. Einnig eru „Ringulreið" og „Heiðskýr heimsendir" góð. Annars eru öll lögin góð. Ég get varla gert upp á milli þeirra.

Ég gæti farið út í langa romsu um hvað það er sem gerir þessa plötu svo frábæra en ég ætla ekki að blaðra og blaðra heldur bara mæla með að allir upplifi Það kólnar í kvöld sjálfir. Þið munið ekki sjá eftir því.

Einhvers staðar las ég umfjöllun um Rökkurró þar sem hún var sett í hóp svokallaðra ´krútthljómsveita´ (eins og Sigur Rós, Múm og álíka bönd) en ég verð að segja að mér finnst Rökkurró ekki alveg falla inní þann hóp. Jú, þau eru svo sannarlega krúttleg en þau hafa nokkuð fram yfir þessi týpísku krúttbönd að færa. Þau eru með jólaljósin kveikt á háaloftinu.

Þessi plata fær 4,5 í einkunn hjá mér.  Mér finnst hún frábær, vel spiluð, vel sungin og augljóslega hefur verið sett mikil sál í hana.  Það eina sem ég gæti fundið að henni er að ég held ég eigi ekki eftir að hlusta mikið á hana svona rétt yfir hásumarið.

Rökkurró á tónleikum @ Lantaren/Venster, Rotterdam Netherlands

 

Hjaltalín – Sleepdrunk Seasons

Hjaltalín - Sleepdrunk Seasons
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2007
Label: Kimi Records

Kokteill kraftmikillar poppsmíðar með klassískum krækiberjum og smá salti.

Frumburðar Hjaltalín hefur verið beðið lengi. Allt frá því að sveitin lét fyrst á sér kræla í þeirri mynd sem við þekkjum hana á Airwaves í fyrra og vakti mikla athygli. Platan Sleepdrunk seasons hefur nú litið dagsins ljós og er kærkominn gleðigjafi á köldu og dimmu ísaköldu landi.

Til þess að lesendur haldi alveg örugglega áfram að lesa þá er þessi plata að mínum dómi mjög góð.

Enginn MH-sykur lengur
Eins og margar góðar sveitir á Hjaltalín rætur að rekja í Menntaskólann við Hamrahlíð. Þar steig sveitin sín fyrstu spor fyrir margt löngu með lögum framreiddum í formi sykurhúðaðs spilverkspopps eins og þau sjálf hafa kallað bernskubrekin. Þau hafa þó fyrir löngu látið öðrum gömlum skólafélögum eftir þann kaleik.

Hjaltalín er huguð hljómsveit sem leitar á önnur mið en samferðamennirnir óhrædd við þær áskoranir sem þar kunna að verða fyrir þeim. Þau þurfa ekki að taka sérstaklega fram í viðtölum að þau taki sköpun sína alvarlega eða séu metnaðarfull sveit. Slíkt er algjörlega augljóst þegar hlustað er á sveitina.

Hjaltalín er samansett af níu öflugum hljóðfæraleikurum og söngvurum með breiða skírskotun í klassíkri tónlistarmenntun. Hljóðfæraskipan er fjölbreytt með bæði brass og strengi í síst minna hlutverki en gítar eða bassi hjá flestum sveitum. Útsetningar eru oft flóknar, taktskiptingar áberandi og form laganna ekki í hefðbundnum dægurlagastíl.

Gömul og rótgróin tónleikalög í bland við nýrri
Aðdáendur sveitarinnar munu þekkja flest lögin á plötunni enda hafa þau grundvallað tónleikaprógram sveitarinnar síðustu misserin. Lög eins og „Traffic Music“, „The Boy Next Door“, „Debussy“, „The Trees Don't Like The Smoke“ og „Selur“ sem maður vissi varla hvað hétu fyrr en nú eru gamlir kunningjar af tónleikum (og sum hver af MySpace) og njóta sín vel á plötunni. Ópusinn „Goodbye July / Margt að ugga“ er auðvitað á plötunni en þar er á ferð eitt óvæntasta hitt síðustu ára. Óhefðbundið lag á allan hátt en grípandi og töfrandi í furðulegheitum sínum með hinu óvæntu kaflaskilum og töfrandi söng Sigríðar Thorlacius. Textinn lagsins er líka eftirtektarverður, bútur frá einu af kunnustu skáldum 16. aldar, Þórði Magnússon, lögréttumanns Gunnsteinssonar settur saman við texta Örvars Þóreyjarsonar Smárasonar sem er sveitinni víðar á plötunni innan handar við textagerðina.

Airwaves mynd eftir Leó Stefánsson 
Mynd eftir Leó Stefánsson af vef Airwaves

Ekkert Eurovision hér
Lögin eru sum hver tormelt. Þetta eru sko engin Eurovision lög þar sem byrjað er að dansa með við fyrstu hlustun. Þau lög sem maður hefur oftast heyrt áður eru lögin sem hljóma best við fyrstu hlustun á plötunni. Hin lögin þarfnast tíma og yfirlegu. Þessa plötu þarf að hlusta á. Hún hentar ekki vel undir í matarboðum. Hér þarf annaðhvort heyrnartól eða fulla einbeitingu að hátölurunum – að minnsta kostu við fyrstu hlustun.

Hjaltalín birtist mér á Airwaves í fyrra sem gríðarlega efnileg og áhugaverð sveit. Nú þegar fyrsta platan er komin út, löngu löngu eftir að biðin eftir henni hófst, er ljóst að sveitin er ekki lengur bara efnileg heldur eitt frambærilegasta afsprengi íslensku tónlistarbylgjunnar sem ég hef rekist á lengi. Platan er kokteill kraftmikillar poppsmíða með klassísk ættuðum krækiberjum og smá salti. Sem er gott.

Besta íslenska plata ársins
Á svakalega sterku íslensku tónlistarári stendur frumburður Hjaltalín upp úr og hvetur mann enn frekar en áður til að fylgjast með sveitinni í framtíðinni. Sem fyrr mæli ég eindregið með því að áhugasamir mæti á tónleika sveitarinnar því hún er sérlega skemmtileg á sviði. Biðin eftir næstu plötu er hafin og vonandi verður hún ekki löng. Fram að því hlusta ég vafalaust reglulega á Sleepdrunk Seasons, bestu íslensku plötu ársins 2007.

es. ef þú hefur enga trú á gæðum þessarar plötu og finnst þetta bara hið sæmilegasta byrjendaverk en alls engin plata til að missa sig yfir líkar þér eflaust dómur Monitor um plötuna betur en þessi. Þar er lítil hrifning á ferð. 

Mr. Silla & Mongoose – Foxbite

Mr. Silla & Mongoose - Foxbite
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2007
Label: Rafraf

Portishead Light, Diet múm og Björk Zero

Nöfn þessara tónlistarmanna sem nú senda frá sér plötuna Foxbite hafa heyrst reglulega undanfarin misseri. Sérstaklega nafn Mr. Sillu sem, auk þess að koma fram undir eigin nafni, hefur verið viðriðin sveitirnar Fræ og múm. Mongoose kann ég minni deili á en af því sem lesa má á síðu sveitarinnar sér hann um rafvæddari hluta samstarfsins. Silla sér að mestu um sönginn en elgurinn rymur þó í nokkrum lögum. 

Foxbite er frumburður þessara tónlistarmanna og virkar við fyrstu hlustun frekar óspennandi. Platan vinnur þó á við frekari hlustanir (gera flestar plötur það ekki annars?) og fram koma nokkrar fínar melódíur en platan nær þó aldrei að hífa sig almennilega upp. Nokkur fín lög eru á plötunni og eru þau flesta á fyrri hluta hennar, t.d. „Raggedypack", „I Don't", „Wanna Million" og svo er „How Do You" fínt uppbrot þar sem Mongoose syngur lag töluvert frábrugðið öðrum á plötunni. Þegar líða fer á hana fækkar þó eftirminnilegum melódíum og á seinni hlutanum verður Foxbite ansi langdregin. 

Mr. Silla og Mongoose blanda saman einföldum létt-blúsuðum gítarslætti við rafvædda undirtóna og er sú blanda þannig séð ágæt. Raftónarnir eru að miklu leyti ýmiskonar snark og stöku rafpíp hér og þar, en slíkt var voða inn fyrir nokkrum árum þegar Morr útgáfan var upp á sitt besta. Nú hljómar þetta örlítið þreyttur stíll, enda nýbrumið farið af honum og eftirstöðvarnar gegnsæjar og fyrirsjáanlegar.

Hér má heyra áhrif héðan og þaðan í tónlist Mr. Sillu og Mongoose; snarkið minnir stundum á múm á rólegum degi, „I Don't" er frekar Portishead-legt og í „Foxbyte" reynir Mr. Silla augljóslega að stæla Björk. Samblöndunin á þessum ýmsu áhrifum verður einhvern veginn aldrei frumleg, heldur hljómar einmitt eins og brotabrot af ýmsu í bala. Svo er eins og lím vanti til þess að halda þessu saman eða fyllingu til að gera tónlistina virkilega áhugaverða.

Platan hljómar eins og ýmsum upptökum héðan og þaðan hafi verið safnað saman á skífu. Það kæmi mér því ekki á óvart þótt platan væri tekin hér og þar við ólíkar aðstæður yfir langan tíma. Þannig er platan verulega óheildstæð og þar sem mörg lög eru á henni (15) virkar hún óhemju langdregin. Hún er þó ekki nema tæpar 55 mínútur en líklega hefði verið sniðugt að stytta hana um 15 mínútur og þannig væri hún örugglega hin fínasta plata. Þónokkur lög virka hvort sem er eins og uppfyllingarefni og mættu vel missa sín.

Foxbite er alveg sæmilegur frumburður en hefði líklega getað orðið mun betri ef höfundar hefðu ritskoðað sig betur og reynt að samræma hljóm plötunnar svo úr yrði heildstæðara verk.Ef tónlist væri gosdrykkur er Foxbite sykurlaus eftirlíking bragðgóðra tegunda, maður finnur alveg sætubragðið en það er ekki alvöru. Þannig er hún eina stundina Portishead Light, aðra Diet múm og stundum Björk Zero. 

Ólafur Arnalds – Variations of Static

Ólafur Arnalds - Variations of Static
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2007
Label: Progress(ion) Records

Svo fögur

Sjaldan þegar að ég hlusta á tónlist gerist það, að ég þarf nánast að stoppa í öllu sem ég er að gera til þess að geta hlustað. Maður hendir frá sér skóladóti, tekur sér frí frá mannlegum samskiptum og langar helst til að leggjast upp í rúm með heyrnatólin og sæng yfir hausnum.  Þegar að maður finnur sér tónlistarmann, plötu eða jafnvel lag sem getur haft svona völd í lífi manns ætti maður að vera þakklátur og leita í þær tilfiningar sem tónlistin magnar fram í manni. Þannig hafa listamenn eins og Death Cab For Cutie, Sigurrós, Snow Patrol haft grip á mér. En nú upp á síðkastið og aldrei meira en nú, Ólafur Arnalds. Hann spilar sjálfur á píanó og semur alla tónlistina, og ásamt strengjasveitinni sinni töfrar hann fram klassíska tónlist sem er undir töluverðum áhrifum af tónlistarstefnum nútímans, m.a. Indie, electro og ambient svo eitthvað sé nefnt.

Ef ég vitna í dóm Árna Viðars Þórarinnssonar hér á síðunni um ónefnda plötu sem mér finnst eiga svo svakalega vel við "Þó ambient-tónlist kunni að virka afar einföld á yfirborðinu krefst vinna hennar gífurlegrar natni og næmni fyrir réttu stemmningunni. Andrúmsloftið skiptir höfuðmáli og það er auðvelt að falla í hinar ýmsu gryfjur eða villast af leið. Það er því algjört lykilatriði að leyfa sköpunarverkinu að vaxa og dafna án þess að halda of fast eða laust um tauminn þar sem tónlistin verður í senn að vera áhugaverð, ögrandi og afslappandi"

Þessi orð eru svo sönn, andrúmsloftið sem Óli skapaði á fyrstu plötunni sinni var dulardullt, fallegt, nánast eins og æviskeið einhvers einstaklings. Ekkert er sungið þannig að smáatriðin og vandvirknin verða áberandi, fyrir vikið á maður erfitt með að taka plötuna úr eyrunum. Þegar að svona viðkvæmar, ljúfar og rólegar plötur eru gerðar má lítið út af bregða. Listamaðurinn getur ekki leyft sér að gera nokkur góð lög og nokkur ekki svo góð til þess að fylla upp í plötuna, svona plötur verða að hafa heildarsvip og fátt má því fara úrskeiðis eins og Árni skrifaði. Platan stendur og fellur í rauninni á þessu atriði.

Á þessari EP plötu sem er rúmar 23 mínútur er svipaður tónn og á fyrstu plötu Óla. Hann er með strengjasveit með sér, 2 fiðlur, víólu og selló. Variations of Static er 5 laga plata, en lögin renna ofan í hvort annað þannig að úr verður eitt langt tónverk. Hljómurinn er alls ekkert ósvipaður og á Euoligy for Evoltion, þægilegt og rólegt píanó og allur annar hljóðfæraleikur er einlægur og fallegur. Hins vegar hefur Óli bætt við tölvueffektum og er þessi plata kannski fjölbreyttari að því leiti. Fyrsta lagið á plötunni brotnar til dæmis upp í netta Album Leaf stemmningu, sem passar einstaklega vel við lagið. Í síðasta laginu eru líka alls konar tölvuhljóð bakvið áhrifaríkan fiðluleik, sem eru gegnum gangandi í gegnum lagið og magnar það bara upp þessa "misteríu" sem maður upplifir þegar maður heyrir tónlistina. Hins vegar eru einhvers konar tölvurödd sem kemur upp nokkrum sinnum í gegn um verkið sem ég átta mig eiginlega ekki alveg á. Mér finnst þessi rödd bæta alls engu við lögin því tónlistin er svo fögur, að hún talar einfaldlega fyrir sig sjálf.  Það fær mann til að spyrja sig hvort að Óli viti jafnvel ekki hversu tær og klassísk hún er, sem væri náttúrulega einum of fyndið. En það kæmi þó heim og samann við sviðsframkomu hans, því hann er svo svakalega auðmjúkur, lítill í sér og sjarmerandi að þessi getgáta gæti kannski gengið hjá mér.

En fyrir utan það, þá heillar þessi plata mig algjörlega upp úr skónum. Öll lögin á henni sem eru í raun bara eitt stórt lag eins og ég upplifi hana og eru jafn fjölbreytt og þau eru falleg. Ólafur er þrátt fyrir ungann aldur að festa sig í sessi sem einn af okkar allra flottustu tónlistarmönnum og það kæmi mér persónulega ekkert á óvart að sjá hann spila í stærstu tónleikahöllum Evrópu í nánustu framtíð.  Stemmningin yfir tónlistinni kveikir í ákveðni ævintýraþrá og þegar að maður lætur hugann reika á sama tíma og maður hlustar á Variations of Static eða Eulogy for Evolution endar maður á ótrúlegustu stöðum.

Mugison – Mugiboogie

Mugison - Mugiboogie
Einkunn: 3
Utgafuar: 2007
Label: Mugison

10: Gefa út Mugimama…
20: Goto 10

Það þarf sennilega ekki að hafa mörg orð um Mugison; eftir útgáfu Mugimama, is this monkeymusic? er hann orðinn óskabarn þjóðarinnar númer eitt og hefur skipað sér rækilega á sess með betri tónlistarmönnum okkar. Ekki slæmt það. Nú, aðeins tveim árum eftir útgáfu Mugimama…, er Mugison mættur með nýja plötu sem ber hið aðeins þjálla heiti Mugiboogie. Og eðlilega er spurt; getur Mugison endurtekið snilldarleikinn sem Mugimama… var, eða er kjánalegt að vænta svo mikils?

Á Mugiboogie er höggvið í svipaðann knérunn og á síðustu óskaplötu þjóðarinnar; hún byrjar all hressilega á titillaginu ,,Mugiboogie'' sem er grípandi blúsrokkari og rúllar svo í gegnum rússíbana af tilraunamennsku og tónlistarstefnum. Sérstaklega ber þar að minnast á helgispjallaslagarann ,,Jesus is a good name to moan'', sem fer nýjar leiðir í að minna okkur á frelsara vorn, og ,,Two thumb sucking son of a boyo'' sem daðrar skemmtilega við dauðamálm. Inn á milli leynast svo rólegri lög, eins og ,,The pathetic anthem'', svo grunnuppstillingin minnir nokkuð á Mugimama… og boðar gott.

Skarpir lesendur hafa þó tekið eftir að næstum öll lögin sem er minnst á hér að ofan eru í hressari og þyngri kantinum. Það er alls ekki svo að Mugiboogie sé öll þannig, eins og áður sagði er fullt af rólegri lögum inn á milli, en mér finnast þau ekkert sérstaklega grípandi eða eftirtektarverð þegar út í það er farið. Hér er ekki að finna neitt í líkingu við ,,2 birds'' eða ,,What I would say in your funeral'', heldur sverja þessi rólegri lög sig meira í ætt við ,,I'd ask''. Sem er voða fínt ef maður fílaði hið síðarnefnda af Mugimama, en ég gerði það ekki.

Málið er bara að þegar Mugison fer út í einhverjar undarlegri pælingar kemur yfirleitt eitthvað rosalega skemmtilegt út, sjáiði bara ,,Salt'', en hann hefur næstum algerlega sleppt þessari tilraunastarfsemi á Mugiboogie. Í staðinn samanstendur hún að mestu af frábærum flösuþeyturum sem eru brotnir upp af frekar stöðluðum rólegri lögum; vers hér, viðlag þar og smá söngl um frið og ást þar á milli. Þetta eru alls ekkert slæmar lagasmíðar, en það er frústerandi að hlusta á þær þegar maður veit að Mugison á miklu betri hluti til í sér.

Ég er reyndar orðinn hálf sannfærður að þetta sé skipulagður leikur hjá Mugison. Það er örugglega erfiðara en margt annað að fylgja eftir plötu eins og Mugimama… og ég öfunda hann alls ekki í þeim efnum. Kannski er best að dúndra út fylgifisk hið snarasta, sama þó hann sé ekki alveg með fulle fem, og fá þá frið til að dúlla sér næstu nokkur árin? Kannski, kannski ekki, en á meðan við bíðum eftir svarinu við þeirri spurningu höfum við Mugiboogie. Hún er aðeins eldri en systir sín, glettilega svipuð í fjarska, en alls ekki jafn skemmtileg þegar nær er gáð.

Mugison og Pétur Ben spila ,,Jesus is a good name to moan''

Sunset Rubdown – Random Spirit Lover

Sunset Rubdown - Random Spirit Lover
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2007
Label: Jagjaguwar

Spencer Krug fer um víðan völl á útpældu meistaraverki

Fáir tónlistarmenn hafa verið eins ofvirkir undanfarin ár eins og Kanadamaðurinn Spencer Krug. Hann er líklegast þekkastur sem hljómborðsleikari og annar söngvari hinnar ágætu Wolf Parade en hefur auk þess verið ansi duglegur að senda frá sér hinar ýmsu aukaafurðir. Spencer á þannig hlut í bæði Swan Lake og Frog Eyes en hans aðal-hliðarverkefni hefur verið sveitin Sunset Rudown og frá árinu 2005 hefur sú sveit sent frá sér þrjár plötur og einni EP betur.

Sunset Rubdown byrjaði sem sólóverkefni Krug þar sem hann fékk útrás fyrir öðruvísi tónlist en Wolf Parade fékkst við. Þannig var fyrsta skífan, Snake's Got a Leg (2005), einherjaskífa en brátt sánkaði Krug fleiri liðsmönnum að sér. Með hinni ævintýralega góðu Shut Up I Am Dreaming (2006) var svo ljóst að Sunset Rubdown var meira en bara eitthvað hliðarverkefni, enda skaut Krug þar félögum sínum í Wolf Parade ref fyrri rass. Það kom því líklega flestum á óvart þegar tilkynnt var um þriðju plötuna úr ranni Sunset Rubdown fyrr á árinu enda slík útgáfugleði fáheyrð nú á dögum.

Random Spirit Lover kom út nú á haustdögum og var rokkaðri en fyrri verk sveitarinnar, Slíkt heyrst strax í fyrsta laginu „The Mending of the Gown" en hamrandi píanó og drífandi gítarleikurinn í laginu gefur strax tóninn fyrir það sem koma skal. Síðan rekur hvert eðallagið annað þar sem sveitin skiptir áreynslulaust á milli rokkgírsins og þess rólega, stundum í einu og sama laginu. Tvö ágæt mp3-dæmi gefur Jagjaguwar útgáfan netverjum: 

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

    

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Eins frábær og fyrri hluti plötunnar er þá springur sveitin virkilega út á seinni hluta hennar. Hið epíska „Stallion" undirbýr hlustendann fyrir „For the Pier (and dead shimmering)", gullfallegt lag sem er ekki síst eftirminnilegt fyrir skemmtilega notkun á hljómhörpu (e. autoharp) en leynir svo á sér með ýmsum kaflaskiptingum. Besta lag plötunnar er „The Taming of the Hands that Came Back to Live" sem er ómótstæðilega grípandi og líklega er eitt langbesta lag ársins. Sunset Rubdown rokkar svo úr eyrum blæðir í „Trumpet, Trumpet, Toot! Toot!" áður en hún lokar plötunni með hinu rólega og fallega  „Child-Heart Losers". 

The Taming of the Hands that Came Back to Live" á tónleikum:

Þrátt fyrir að sveitin fari um víðan völl á plötunni rennur hún ótrúlega vel saman og lögin virka í raun sem ein heild sé platan spiluð í gegn. Sveitin hafði víst ákveðið uppröðun laga áður en upptökur hófust þannig að allar skiptingar á milli þeirra eru útpældar. Þetta heppnast einstaklega vel og er oft á tíðum hrein unun á að hlýða hvernig sveitin skiptir úr einu lagi í annað.

Á Random Spirit Lover hafa Spencer og félagar nærri farið fram úr sjálfum sér og skila af sér frábærri plötu sem er útpæld en alltaf frumleg og fersk. Random Spirit Lover er eina plata þessa árs sem gæti talist til meistaraverka, en við skulum leyfa tímanum að leiða það í ljós, en hún hefur flest það til að bera sem þarf. Hér var vissulega freistandi að draga fram hina fágætu 5.0 einkunn en það vantar kannski rétt herslumuninn. En ef Sunset Rubdown heldur sér á því flugi sem það hefur verið á undanfarin ár gæti ég vel trúað því að þeir myndu jafnvel gera enn betri skífu næst … við skulum að minnsta kosti vona það.

„For the Pier (and dead shimmering)" (aðdáendamyndband):


„Child-Heart Losers" (aðdáendamyndband):

 

Akron/Family – Love is Simple

Akron/Family - Love is Simple
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2007
Label: Young God Records

Ljúf, óvænt og ögrandi plata frá tilvonandi Íslandsvinum

Fyrstu mánuði ársins virtist sem tónlistarárið 2007 ætlaði að verða ansi slappt en sem betur fer fór að rætast úr því þegar líða tók á. Nú í haust kom svo út urmull af frábærum skífum sem hafa gert þetta eitt besta árið tónlistarlega séð langa lengi. Þar framarlega í flokki er nýjasta plata bandarísku sveitarinnar Akron/Family, Love is Simple, sem snögglega tók sér stöðu sem ein áhugaverðasta og skemmtilegasta plata ársins. 

Sveitin mun hafa aðsetur sitt í New York en meðlimir hennar koma víst víða að úr Bandaríkjunum. Það útskýrir afhverju lítill stórborgarbragur sé af tónlistinni, en hún sækir mikið í þjóðlagahefðina auk þess sem við blandast sækadelía og önnur sýra á ansi skemmtilegan hátt. Hér ægir því ýmsu saman og minnir útkoman stundum fremur á skrýtinn syngjandi sértrúarsöfnuð útí eyðimörkinni en hljómsveit úr helsta metrópóli Bandaríkjanna. Þótt það sé undirliggjandi folk-bragur á tónlist Akron/Family fer sveitin um víðan völl í tónlistarsköpun sinni og má t.d. heyra fjölbreytnina í þeim tveim lögum plötunnar sem sveitin býður frítt á heimasíðu sinni: 

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

    

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Akron/Family á það til að brydda upp á hinum ólíkustu stílum í sama laginu en þrátt fyrir fjölbreytnina þá tekst þeim alltaf að mynda heildstæð lög sem flest eru ómótstæðileg. Sem dæmi um þetta eru hin frábæru „Lake Song/New Ceremonial Music For Moms", „I've Got Some Friends" og „There's So Many Colors". Stílflöktið kann að virðast of súrt fyrir marga við fyrstu hlustun en verður eftir nokkrar hlustanir ómissandi þáttur í tónlistinni. Ljúfari hliðin á sveitinni er síður en svo síðri og má þá nefna „Crickets", „Pony's O.G." og upphafs/lokalagið „Love, Love, Love". Það lag sem þó stendur upp úr á plötunni er hið stórkostlega „Don't Be Afraid, You're Already Dead", lag sem byrjar eins og vögguvísa en breytist hægt og sígandi í ómótstæðilegan hópsöng.

Don't Be Afraid, You're Already Dead" í sjónvarpsþætti
 

Love is Simple vinnur hægt á í fyrstu en þeir sem gefa henni góðan gaum fá það margfalt endurgoldið. Eftir nokkrar sæmilegar skífur hefur Akron/Family tekist að koma öllum á óvörum með bráðskemmtilegri plötu sem er í senn ljúf, óvænt og ögrandi. Af öllum þeim prýðilegu plötum sem komið hafa út á árinu er Love is Simple ein þeirra sem stendur upp úr og verður væntanlega á mörgum topplistum í enda ársins.

Það er ekki oft sem við Íslendingar fáum tækifæri til þess að sjá sveitir spila þegar þær eru á hæsta flugi á sköpunarferli sínum. Það er því mikið gleðiefni að Akron/Family skuli spila á Organ nú 7. desember. Af myndbandsbrotum að dæma eru tónleikar sveitarinnar mikið fjör og sjónarspil og því lítið annað hægt að gera en að hlakka verulega til.

There's So Many Colors" á tónleikum

Megas og Senuþjófarnir – Hold er mold

Megas og Senuþjófarnir - Hold er mold
Einkunn: 4
Utgafuar: 2007
Label: Sena

Ár Megasar!

Hold er mold er seinni platan sem Megas og Senuþjófarnir sendu frá sér á árinu og kom út nú á haustdögum. Um mitt sumar kom fyrri platan Frágangur út, poppað verk sem var einkar þétt og grípandi plata. Plöturnar voru teknar upp á sama tíma og skiptingin á milli þeirra í raun ekki ákveðin fyrr en að upptökum loknum. Það er því ekki fjarri lagi að kalla þær tvíburaplötur og sé goðsögninni um góða og illa tvíburann skellt á plöturnar má segja að Frágangur sé hin poppaða og sumarlega plata á meðan Hold er mold er aðeins tormeltari og þyngri. Þetta er þó kannski ekki algilt enda nóg af léttum sprettum á nýju plötunni.

Fyrirfram grunaði mig að Hold er mold væri hálfgerð afgangsplata en sem betur fer er ekki slíkt að heyra á henni. Platan virkar kannski ekki eins grípandi við fyrstu hlustun og er síður en svo eins auðmeltanleg og fyrirrennarinn. Hún leynir þó svo sannarlega á sér og kemur sífellt á óvart við hverja hlustun.

Senuþjófarnir standa sig vel líkt og á fyrri plötunni og er hljómur hennar jafn skemmtilega tímalaus. Saman mynda plöturnar góða heild og kallast skemmtilega á séu þær spilaðar hvor eftir annarri. Öll umgjörð þeirra samsvarar sér líka, t.d. hönnun umslaganna og því greinilegt að vilji sé til að spyrna þeim saman. Það verður þó að minnast á verk Ragnars Kjartanssonar á forsíðu Holdsins þar sem sjá má nokkrar stórbrjósta gálur njóta smóks á leiði Jónasar Hallgrímssonar og samsvarar titli plötunnar á skemmtilegan hátt.

Það er mikið um kræsingar á plötunni og í fljótu bragði má nefna „Hvörsu fánýt að fordildin sé", „Kæra Karí", „Ná þér" og „Upprisubúðir" sem hápunkta. Gaman er að heyra hið frábæra „Tímamót" fullbúið en demó af laginu leyndist á endurútgáfunni af Hættuleg hljómsveit & glæpakvendið Stella (1990) sem kom út í fyrra. „Tóbaksvísa" er frábært lag með skemmtilegum bakröddum en mætti alveg vera mun lengra. Í lokalaginu „Úr skúmlum skotum" heyrist svo á ný í kórnum sem opnaði Frágang og því má segja plöturnar séu þannig snyrtilega hnýttar saman.

Pakkinn er vissulega stór og safaríkur en því miður ekki alveg jafn þéttur og fyrri plata ársins og stendur því kannski hálfu skrefi aftar en Frágangur. Aðdáendur meistarans hafa hér nóg að kjamsa enda er Hold er mold fjölbreyttari og að sumu leyti bitastæðari en fyrirrennarinn. Hinn almenni hlustandi mun líklega hafa mun meira gaman af Frágangi en þeir sem virkilega vilja sökkva sér í Holdið fá ríkulega uppskeru.

Nú er bara vonandi að útgefendur haldi áfram að styðja við bakið á Megasi og sjálfur myndi ég ekki slá hendinni á móti tveim plötum á ári frá meistaranum í framtíðinni. Á þessum tveim skífum hefur Megas sýnt að hann á enn nóg inni og með réttum samstarfsmönnum (sem Senuþjófarnir voru svo sannarlega) getur útkoman verið stórkostleg.  Plöturnar standa saman sem eitt það besta sem hann hefur sent frá sér og því er ekki úr vegi að útnefna þetta ár Megasar!