The Roulette – Ný íslensk hljómsveit

The Roulette

The Roulette er ný prog-rock hljómsveit frá Selfossi. Félagarnir Teitur (gítar) og Skúli (trommur) hittust fyrst í lok 2013 með það í huga að stofna band og var stefnan fljótlega tekin í átt að progginu. Eftir aðeins örfáar æfingar var byrjað að taka upp 4 laga EP plötu (sem aldrei leit dagsins ljós). Eftir miklar mannabreytingar hóf sveitin upptökur á sinni fyrstu breiðskífu sem koma mun út síðla 2015. Fyrsta lag af plötunni er komið á veraldarvefinn en það ber nafnið “Midnight Hours” var tekið upp í Stúdíó Himnaríki og unnið af Stúdíó Hljómi.

Hljómsveitin Eldberg sendir frá sér nýja plötu

Eldberg -  Þar er heimur hugans

Hljómsveitin Eldberg sendir frá sér nýja plötu eftir helgi og ber hún nafnið Þar er heimur hugans. Sveitin heldur útgáfutónleika 20. mars í Tjarnarbíói, en miðasla á þá tónleika hófst í gær á midi.is

Hljómsveitina Eldberg skipa þeir Eyþór Ingi Gunnlaugsson söngvari, Jakob Grétar Sigurðsson trymbill, Reynir Hauksson gítarleikari, Ásmundur Svavar Sigurðsson bassaleikari og Heimir Klemenzson hljómborðsleikari.

Eldberg gefur út sína fyrstu plötu

Hljómsveitin Eldberg gaf nýverið út sína fyrstu hljómplötu sem einfaldlega ber nafn sveitarinn, en sveitin hefur verið starfrækt frá lokum árs 2008.

Platan hefur fengið góða dóma hér á landi og gaf Dr. Gunni henni t.a.m. 4 af 5 stjörnum. Platan hefur fengið góðar viðtökur á erlendum markaði og fékk hljómplatan t.d. gríðarlega góða umfjöllun í iO Pages magazine.

Eldbergið skrifaði undir samning hjá Sílenska útfgáfurisanum Mylodon Records sem gefur plötuna út á geisladisk. Mylodon Records er stæðsta útgáfufyrirtæki progg rocks í heiminum og er plata Eldbergs strákanna ein af þeirra stærstu útgáfum þetta árið og það í sérstökum viðhafnarbúningi. Platan hefur selst gífurlega vel um allan heim og hefur vinylútgáfan, sem inniheldur frítt niðurhal af hljómplötunni af gogoyoko, vakið mikla lukku meðal tónlistaráhugamanna.

Platan er fáanleg í öllum helstu hljómplötuverslunum landsins.

Eldberg – Ég er lífsins brauð

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Roskilde 2011: Battles

New York sveitin Battles vakti gifurlega athygli tónlistarheimsins með frumburði sínum, Mirrored, árið 2007 en sveitin blandar saman ótrúlega mörgum geirum tónlistar í eina væna súpu sem heillar. Leikur sveitin experimental/progressive/math/post rock blöndu og virðist engin höft eiga sér í tilraunastarfsemi sinni. Battles samanstendur af þeim Ian Williams, John Stanier og Dave Konopka og var stofnuð í New York borg árið 2002.

Í dag sendi sveitin frá sér sína aðra breiðskífu, Gloss Drops og virðist ennþá vera að þróa hljóminn sem er bæði áhugavert og skemmtilegt. Rjóminn hvetur alla aðdáendur tilraunakennds og pælingarsprengdu stuði að skoða Battles frá New York á Hróarskeldu 2011.

Takið forskot á sæluna og streymið Gloss Drops með Battles HÉR og skoðið nett myndband við smáskífuna Ice Cream.

Agent Fresco í Víking og Vídjó

Agent Fresco eru vart þekktir fyrir að sitja á afturendanum og glápa á blámann en í dag sendi sveitin frá sér myndband við lagið Implosions af plötunni A Long Time Listening, sem út kom seint á síðasta ári. Myndbandið var skotið af ljósmyndaranum Jónatani Grétarssyni þegar sveitin sat fyrir hjá kauða fyrr á árinu en Jónatan notaðist einungis við eina myndavél við verkið. Þykir útkoman ansi góð og tilurðin engu síðri. Sveitin  ber járnið vel á meðan það er heitt og heldur í víking um miðbik júnímánaðar nk. (n.t.t. 16.júní) Sveitin mun þá halda tónleika í Þýskalandi, Slóvakíu, Tékklandi, Hollandi, Sviss og Póllandi en ferðinni er einnig haldið á hina margrómuðu Hróarskelduhátíð í Danmörku. Þar mun Agent Fresco fylla landann stolti á Pavilion Junior sviði hátíðarinnar þann 28. og 29.júní.

Til þess að halda út með sjálfstraustið í botni ætlar sveitin að troða upp á Sódóma Reykjavík þann 1.júní nk. ásamt Benny Crespo´s Gang, Valdimar og Andvari. Eru íslenskir tónlistarunnendur þar með hvattir til að sýna stuðning og óska þeim góðrar ferðar en aðgangseyrir er aðeins 1000 krónur og dyrnar opna kl. 22.00. Æstir aðdáendur sem ókunnugir áhugamenn geta einnig sótt nýjustu smáskífu sveitarinnar, Implosions, hér. Gjaldfrjálst.

Rjóminn vill nota tækifærið og óska Agent Fresco alls hins besta í komandi ævintýrum á erlendri sem innlendri grund.

Mynd: manusbooking.com

Reykjavik Music Mess: Agent Fresco

Ein farsælasta rokksveit Íslands í dag, Agent Fresco, hefur verið iðin við tónleikahald allt frá sigurkvöldi Músíkiltrauna árið 2008 en drengirnir gáfu út frumburð sinn A Long Time Listening seint á síðasta ári. Hljómsveitin hélt svo upp á útgáfuna fyrir fullu húsi gesta í Austurbæ fyrir skömmu síðan og voru tónleikarnir að mörgum taldir þeir bestu í langan tíma á hinum íslenska markaði. Virðast öll hlið vera að opnast fyrir þessa ungu og efnilegu drengi en Hróarskelduhátíðin hefur boðið drengjunum að koma fram á Pavilion Junior sviði hátíðarinnar í ár ásamt stuðdrengjunum í Who Knew og fleirum góðum.

Sveitin hugar að erlendum markaði í auknu mæli og er von á fleiri tilkynningum um utanlandsævintýri Agent Fresco á næstu misserum. Gestir Reykjavik Music Mess ættu ekki að verða fyrir vonbrigðum með þessa drengi en sveitin er þekkt fyrir afar þétta og líflega sviðsframkomu sem dregur jafnt aldraðan jazz-unnenda sem ungan málmhaus að sér.

Agent Fresco kemur fram í Norræna húsinu sunnudagskvöldið 17.apríl nk. klukkan 22.30.

Agent Fresco og Orphic Oxtra á Norðurpólnum

,,Ef að rafmagnið væri tekið af gæti þetta fólk ekkert spilað” segir Afi minn og kímir. Þannig gerir hann lítið úr nútímatónlist; söngkonum sem hvísla í míkrófóna og teknóhausum sem lesa ekki nótur. Þó að hann hafi eflaust mikið til síns máls þá á slík fullyrðing svo sannarlega ekki við um tónleika Agent Fresco og Orphic Oxtra þann þriðja mars síðastliðinn. Tónleikarnir voru þeir fyrstu í tónleikaröð Norðurpólsins. Þar eru tvö bönd fengin hverju sinni til að spila órafmagnað sett, en einnig vinna að einhverri list saman.

Áhorfendur er furðu margir miðað við framboðið á tónleikum þetta kvöldið, sem og þá staðreynd að tónleikarnir eru haldnir í gamalli plastversmiðju úti á Seltjarnarnesi. Ljós lýsa daufri birtu á gömul húsgögn innan um tóma steinsteypuveggi, líkt og í listamannahústöku einhverrar stórborgar Evrópu.

Eðlislögmál smekks míns

Agent Fresco koma sér fyrir á huggulega heimilislegu sviðinu og telja í fyrsta lagið, “Anemoi.” Það er langt síðan ég gafst upp á að reyna að fíla ekki Agent Fresco. Samkvæmt öllum eðlislögmálum smekks míns ætti ég ekki að þola músíkina sem þeir gera. En Agent Fresco brjóta líka öll þau ómerkilegu lögmál sem tónlistarskríbentar og skilgreiningapervertar hafa sett um venjuleg mörk stefna og stíla. Þeir spila þungarokk sem amma mín gæti fílað, popp sem metalhausar syngja með, stærðfræðióperu fyrir sýrujazzara o.s.frv.

Eins kröftugir og Fresco geta verið með rafmagni, þá er það á hreinu að á órafmögnuðum tónleikum skína frábærar lagasmíðarnar betur í gegn. Þeir eru líka vel æfðir í listinni eftir heilt sumar í sumarstarfi hjá Reykjavíkurborg við það eitt að útsetja lögin sín órafmagnað og einnig frábæra ,,acoustic”-tónleika í norræna húsinu síðustu tvær Airwaves-hátíðir.

Það tekur Arnór söngvara svolitla stund að komast í gang. Þegar komið er að “Silhouette Palette” hafa vatnssopi og ræskingar, slípað raddböndin og allt smellur saman. Hann lifir sig af öllum sálarkröftum inn í lögin, líkaminn fylgir hljómunum, taktinum, melódíunni, orðunum. Nærveran er áþreyfanleg, og þó að ég skilja engan veginn hvað textarnir (sem eru einstaklega abstrakt) þýða, er hægt að lesa tilfinningarnar úr svipbrigðum söngvarans.

(Agent Fresco, Ég mana ykkur í að gera svona Radiohead-dansmyndband við eitthvað af lögunum ykkar, Arnór á mun áhugaverðari dansspor heldur en Thom Yorke)

Eitt af því fáa sem mér leiðist þó við Agent Fresco eru hinar, af því er virðist, algjörlega tilgangslausu taktæfingarnar í lok nokkurra laga. Baramm….Bamm… Barammbammbamm…. bamm… … … bamm bamm baramm… þið vitið hvað ég meina. Eini tilgangurinn sem mér dettur í hug er að fokka í þeim sem eru að slamma á tónleikum. Ekki gæti ég slammað í takt við þetta.

En allavega. Fresco renna í rúmlega 10 lög, þar á meðal alla helstu slagarana. Hápunktarnir eru að mínu mati þau lög sem leikin eru á píanó: “Almost at a Whisper”/”Pianossimo” er sterkt og “Eyes of a Cloud Catcher” epískt að venju. Í heildina er þetta alveg frábær frammistaða hjá sveitinni.

Eftir stutt hlé mæta Fresco aftur á svið ásamt krökkunum úr Orphic Oxtra og flytja gjörning sem inniheldur m.a. mynband af háhæluðum skóm að kremja pulsu, 10 rafmagnsgítara spilandi Smoke on the Water og ,,költ”-ískan upplestur úr orðum Hildar og Lindu (partýhaldara landsins).

Sígaunar á amfetamíni

Eftir þessa djöflasýru stíga balkanrokkararnir í Orphic Oxtra á svið og byrja á “Núna”. Hljómsveitina skipa 10 manns: á trommur, bassa, píanó, fiðlu, básúnu, saxófón, trompet, flautu og tvö horn.

Fyrir fólkið sem skilur ekki fræðin á bakvið tónlist Orphic (þ.m.t. undirritaðan), mætti segja að balkansveifla sveitarinnar hljómi kaótísk en grípandi og alveg glæpsamlega dansvæn; líkt og sígaunar á amfetamíni. Það er þó líka greinanleg áhrif á rokktónlist og jazzi.

Slagarar á borð við “Hey” og “Adrian” af frumrauninni (samnefndri sveitinni) fá að hljóma og ég bölva skorti á dansrými fyrir framan sviðið. Þar sem ég fæ ekki að dansa ferðast ég í huganum til meginlands Evrópu og hugsa til þjóðarinnar sem gaf okkur þennan magnaða tónlistararf, en er hötuð hvar sem hún fer. En um leið og Orphic Oxtra byrja á lokalaginu, búlgörsku þjóðlagi í eigin útsetningu, gleymi ég þjáningum Róma-fólksins og dilli mér í sætinu.

Æsingurinn í sóló-i Helga saxófónleikara verður ofboðslegur, hann skoppar um sviðið og blæs tóna sem ég hvorki vissi að mætti, né hægt væri að, spila. Hann er einhverstaðar á milli þess að líta út eins og free-jazzari í trans og ofvirkur krakki í barnaafmæli. Klikkað stöff!

Gleðivíman í blóðinu sýnir sig í brosi á andlitinu mínu þegar ég geng út undir stjörnubjartan Seltjarnarneshimininn. Ég horfi út á ljósin frá Akranesi, hlusta á sjóinn og velti því fyrir mér hvort að ég ætti að finna mér partý. Meistara Megas skýtur upp í kollinn á mér og ég raula fyrir munni:

“Og ef ekki býðst neitt partý eftir ballið er allavega hægt um vik // að eigra út á Seltjarnarnes og drekkja sér í sjónum augnablik
oooóó, Reykjavíkurnætur…”

Meðfylgjandi eru myndir sem ljósmyndari Rjómans Daníel Pétursson tók.

[nggallery id=3]

Eldberg

Doktor Íslands í poppfræðum, sjálfur Gunnar Lárus, sagði nýlega frá því á bloggi sínu að fram væri komin afar efnileg íslensk proggrokk-hljómsveit sem kallar sig Eldberg. Er sveitin sú víst nýbúin að taka upp sína fyrstu plötu og er stefnt á að hún komi út á næstu mánuðum. Fjórir Borgarfirðingar skipa bandið en það eru þeir Heimir Klemenzson á hljómborð, Jakob Grétar Sigurðsson trommari, Ásmundur Sigurðsson á bassa og Reynir Hauksson á gítar. Söngvarinn er Dalvíkingurinn Eyþór Ingi Gunnlaugsson sem einhverjir muna eflaust eftir sem sigurvegarann úr Bandinu hans Bubba. Hér er á ferð úrvals hipparokk sem minnir, eins og Doktorinn góði benti réttilega á, á hina fornfrægu sveithljómsveit Mána.

Eldberg á Facebook

Eldberg – Enginn friður

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Agent Fresco og Orphic Oxtra eru Rafmagnslaus á Norðurpólnum

Á fimmtudagskvöldið kemur verða haldnir fyrstu tónleikarnir í nýrri tónleikaröð sem ber heitið Rafmagnslaust á Norðurpólnum. Eins og nafnið bendir til fara tónleikarnir fram í húsnæði Norðurpólsins úti á Seltjarnarnesi og verður eins lítið rafmagn og kostur er notað til flutningsins. Á hverju tónleikakvöldi koma fram tvær ólíkar hljómsveitir í sitt hvoru lagi ásamt því að eiga með sér samstarf í einhverri mynd en það er síðan í höndum hljómsveitanna að útfæra það frekar.

Balkansveitin Orphic Oxtra og hinir mögnuðu Agent Fresco fá þann heiður að hefja tónleikaröðina á fimmtudagskvöldið. Hróður hinnar 13 manna gleðisveitar Orphic Oxtra hefur farið mjög vaxandi en hljómsveitin spilar lífræna, dansvæna tónlist undir balkan áhrifum. Fyrsta plata þeirra, sem ber titil hljómsveitarinnar, kom út 1. nóvember síðastliðinn og er afar skemmtileg viðbót við íslenskt tónlistarlíf. Sveitin kom fram á Aldrei fór ég suður og Airwaves í fyrra en hún hefur vakið athygli fyrir hressandi sviðsframkomu og mikla spilagleði.

Agent Fresco fer mikinn þessa dagana en drengirnir héldu fyrir skemmstu afar vel heppnaða útgáfutónleika í Austurbæ. Þá fengu þeir þrjár tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna, sem tónlistarflytjandi ársins, rödd ársins og fyrir hljómplötu ársins en auk þess eru þeir tilnefndir til menningarverðlauna DV fyrir árið 2010. Í janúar síðastliðnum komu þeir fram í Danmörku með akústískt sett ásamt Mugison og Lay Low við mjög góðar undirtektir.

Miðaverð er 1500 krónur og fæst 10% afsláttur í Lucky Records við Hverfisgötu gegn framvísun miðans. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl.21:00 og opnar húsið kl.20:00. Rjóminn verður á staðnum og fylgist með.

Agent Fresco – Eyes of a Cloud Catcher (acoustic)

Orphic Oxtra – Núna

Útgáfutónleikar Agent Fresco

Ljósmyndir: Daníel Pétursson – www.danielpeturs.com

Fimmtudaginn síðastliðinn héldu penni og ljósmyndari Rjómans á útgáfutónleika Agent Fresco vegna plötunnar A Long Time Listening sem kom út seint á síðasta ári á vegum Record Records.

Ansi viðeigandi var að tónleikarnir skyldu vera haldnir í Austurbæ, en það var einmitt þar, fyrir þremur árum, sem Agent Fresco steig í fyrsta sinn á svið – á undankvöldi Músíktilrauna, sem hljómsveitin svo vann. Austurbær hefur á sér hátíðarbrag sem hentaði vel fyrir kvöldið þar sem öllu var tjaldað til eins og átti eftir að koma í ljós. Gaman hlýtur að hafa verið fyrir strákana að halda útgáfutónleikana þarna, líka í ljósi þess að venjan er að þeir troðfylli bari Reykjavíkur en sjaldgæfara að þeir spili á stöðum þar sem setið er.  Svo er alltaf gaman að fá tækifæri til að fara á tónleika í Austurbæ, þar sem lítið hefur farið fyrir þeim undanfarið og þótt undirrituð sé algjört tónleikadýr má telja upplifða tónleika í Austurbæ á fingrum annarrar handar.

Það er óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þetta örlagaríka kvöld á Músíktilraunum 2008. Í raun voru þessir tónleikar einskonar endurfæðing hljómsveitarinnar, úr Músíktilraunahljómsveit yfir í eina þéttustu hljómsveit landsins. Krafturinn lét að sér kveða allt frá fyrsta lagi,  hinu draumkennda „Anemoi“ og var ljóst á upphafstónunum að stórtónleikar voru í vændum. Gæsahúðin gerði vart við sig, sem er tvímælalaust gæðastimpill. Greinilegt var að áhorfendur voru því sammála en mikil fagnaðarlæti brutust út að laginu loknu og áttu eftir að halda áfram það sem eftir var kvöldsins. Tilkynnt var í upphafi tónleikanna að platan sem verið var að fagna þetta kvöld yrði spiluð í heild sinni en á henni eru 17 lög sem mikilvægt er að hlusta á í réttri röð fyrir heildaráhrif.  Þannig fæst betri tilfinning fyrir gríðarlega flottum lagasmíðunum og samhengi laganna. Þau eru þó vissulega missterk og uppskáru þekktari lögin (sem áður höfðu komið út á stuttskífunni Lightbulb Universe) mestu fagnaðarlætin á tónleikunum, eins og við var að búast.

„Anemoi“

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

A Long Time Listening er heillandi plata sem vinnur á við hverja hlustun og er magnað hversu flottir hljóðfæraleikarar strákarnir eru, hver á sínu sviði. Þeir voru í fantaformi og var greinilegt að þeir höfðu lagt allt í þessa tónleika. Mikið var um gestagang en þó hljómsveitin sjálf í forgrunni eins og klæðaburðurinn bar vitni um, en strákarnir fjórir voru allir klæddir í hvíta boli og svartar buxur en gestaleikarar í svörtu frá toppi til táar. Strengjakvintett lék listir sínar í nokkrum lögum, í öðrum voru auka hljóðfæraleikarar mættir til að hjálpa (rokkuð harmonikka, töff!), þar á meðal gamli bassaleikari hljómsveitarinnar, Borgþór. Haukur Heiðar, söngvari Diktu, söng bakraddir í nánast öllum lögum og gerði það mikið fyrir tónleikana. Þegar hann tók yfir laglínu Arnórs söngvara í „Translations“ var þó ljóst að karaktereinkenni raddar Arnórs er hljómsveitinni algjörlega nauðsynleg en Patton-öskrin hans hafa einmitt aldrei hljómað betur en þetta kvöld.

„A Long Time Listening“

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Einn af hápunktum kvöldsins var tvímælalaust þegar inn á sviðið gekk kór samsettur af vinum strákanna úr tónlistarheiminum til að leggja hönd á plóg í titillagi plötunnar, „A Long Time Listening“ – sem inniheldur mest grípandi laglínur sem ég hef heyrt lengi. Verst er að lítið heyrðist í kórnum til að byrja með en hann sótti í sig veðrið eftir því sem leið á lagið. Á hæla þess var vaðið í hið fallega „In the Dirtiest Deep of Hope“ þar sem söngur Arnórs og píanóspil Þórarins gítarleikara tvinnuðust saman á meðan áhorfendur sátu sem fastast, dáleiddir. Er þetta enn eitt dæmi um mikilfengi þessarar sveitar, sem getur á nokkrum mínútum farið úr hinu harðasta rokki í viðkvæmar og ljúfsárar melódíur sem fá hárin til þess að rísa á hausnum. Í því liggur styrkur Agent Fresco.

„In the Dirtiest Deep of Hope“

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Gert var hlé á tónleikunum um miðbik plötunnar sem hentaði ágætlega, enda mikið að gerast í lögunum og fínt að fá smá pásu.  Austurbær var gjörsamlega troðinn þetta kvöld enda uppselt og meiraðsegja tvíbókað í sum sætanna svo að margir þurftu frá að hverfa. Áhorfendur voru af öllum stærðum og gerðum og virtust allir skemmta sér vel. Áhorfendurnir voru þó í yngri kantinum þar sem tónleikarnir voru opnir öllum aldurshópum og mættu fleiri hljómsveitir taka sér það til fyrirmyndar.

Eftir hlé var krafturinn hvergi farinn að þverra og keyrt var í lög á borð við stuðlagið „Implosions“, hið brothætta „Pianissimo“ og „Above These City Lights“, en í því sást glöggt hversu vel hljómsveitin hefur þróað tónlistina sína. Strengjum var þó ofaukið í laginu og óþarfi að hlaða á það enda stendur það vel í hráleika sínum. Reyndar heyrðist almennt ekki nóg í strengjunum á tónleikunum og er það miður. Almennt séð runnu þó tónleikarnir ótrúlega smurt í gegn og er óhætt að segja að Agent Fresco hafi aldrei hljómað betur. Ein og ein feilnóta kann að hafa hljómað en það er ekki einu sinni þess virði að fjalla um þegar heildin er eins glæsileg og raun ber vitni. Við lok tónleikanna sást glöggt hversu hrærðir strákarnir voru og var ljóst að allir fóru sáttir úr Austurbæ. Með þessari plötu og tónleikum hefur Agent Fresco tekist að skapa fullkominn hljóðheim og er bara tímaspursmál hvenær þeir fara að spila á risasviðum úti í heimi með grúppíur á hælunum – þeir hafa að minnsta kosti alla burði til þess.

[nggallery id=1]

Útgáfutónleikar Agent Fresco

Miðar rjúka út á útgáfutónleika íslensku hljómsveitarinnar Agent Fresco í Austurbæ þann 17.febrúar nk. (fimmtudag).
Forsala miða fer fram á miði.is um þessar mundir en óseldir miðar telja nú vart fingur beggja handa og virðist spennan vera mikil.
Arnór Dan
, söngvari sveitarinnar, lýsti yfir gríðarlegum undirbúning innan sveitarinnar og þar í kring vegna tónleikanna og hyggst sveitin tjalda öllu til og þiggur meðal annars gríðarlega aðstoð hljóðfæraleikara og vina við flutning laga plötu sinnar, A Long Time Listening, sem út kom seint á síðasta ári. Arnór ræddi við Andreu Jónsdóttur í Popppressunni í kvöld og saman renndu þau yfir lög plötunnar, sögu sveitarinnar og tilurð hinna og þessa laga. Arnór sagðist verulega spenntur fyrir komandi tónleikum en einna helst var rætt um tónsmíðar gítarleikarans Þórarins Guðnasonar innan herbúða sveitarinnar. Þau Arnór og Andrea supu te og kjömsuðu á kleinum og bauðst Andrea loks að skutla söngvaranum farsæla á æfingu eftir viðtalið en farsími Arnórs þagði vart í andartak á meðan á viðtalinu stóð.

Útgáfutónleikar Agent Fresco hefjast klukkan 21.00 og sér Haukur úr Dikta um að bjóða fólk velkomið. Miðaverði er stillt í hóf í forsölu og kostar miðinn 2000 krónur við hurð (ef einhverjir slíkir verða til eftir forsölu).
Agent Fresco hyggst flytja plötuna A Long Time Listening í heild sinni og eins og kom fram hér að ofan, hyggur sveitin á stærstu og flottustu tónleika sína hingað til.

The Memorials

Undratrymbillinn Thomas Pridgen yfirgaf herbúðir hinnar ótrúlegu sveitar The Mars Volta í október 2009 og sneri sér strax að nýju verkefni. Hljómsveitinni The Memorials.

Pridgen fékk til sín félaga úr Berklee College of Music þau Viveca Hawkins (söngur) og Nick Brewer (gítar) og hóf vinnu að fyrstu plötu sveitarinnar, samnefndri sveitinni, sem kom út þann 18.janúar sl.
Hljómsveitin leikur þungarokk með Pridgen í frammi en truflaður trommuleikur Pridgen vakti fyrst athygli þegar Pridgen var aðeins 9 ára gamall þegar hann gerði sér lítið fyrir og vann trommukeppni Guitar Center.

Kynnið ykkur þetta band sem fer ekki leynt með lífernið og virkar áhugavert með nóg af sál og þunga. Hér að neðan má sjá kynningarmyndband um hljómsveitina og tilkomu hennar ásamt nýjasta tónlistarmyndbandi sveitarinnar við lagið We Go To War.

Agent Fresco með nýtt myndband

Nýlega sendi íslenska hljómsveitin Agent Fresco frá sér myndband við lag sitt In The Dirtiest Deep of Hope af plötunni A Long Time Listening. Upptakan sýnir sveitina í hljóðverinu Sundlaugin og státar meðal annars af útskýringum söngvara sveitarinnar, Arnórs Dan, á tilkomu lagsins á plötuna. Myndbandinu er leikstýrt af Bowen Staines í gegnum fyrirtækið Don´t Panic en Bowen sá meðal annars um upptökur og leikstjórn á nýlegum myndböndum Rökkurró og Bróðir Svartúlfs. Flestir ættu einnig að kannast við verk hans, Where´s The Snow, þar sem Iceland Airwaves hátíðin 2009 er kynnt og ígrunduð.

Myndband Agent Fresco gefur aðdáendum góða innsýn í upptökuferli A Long Time Listening og hendir einnig fram viðkvæmri og hugljúfri hlið á bandinu í þeirra eigin vídd. Njótið!

Fuglabúrið : Lára Rúnars og Rúnar Þórisson

Aðrir tónleikarnir í “Fuglabúrinu”, tónleikaröðinni á Café Rósenberg, fara fram n.k. þriðjudagskvöld 30.nóvember og að þessu sinni koma fram feðginin Rúnar Þórisson og Lára Rúnarsdóttir.

Rúnar er mörgum Íslendingum að góðu kunnur frá því hann sló gítarstrengina með hljómsveitinni Grafík í fjölda ára en sú hljómsveit naut fádæma vinsælda meðal landsmanna. Fyrir skemmstu sendi hann frá sér sólóplötuna Fall sem hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda.

Lára, dóttir hans, hefur sent frá sér 3 breiðskífur og er í örri framför sem listamaður. Melódískt popp hennar hefur farið vel í Íslendinga auk þess sem hún hefur verið nokk iðin við að breiða út fagnaðarerindi sitt á erlendri grund.

Tónleikarnir eru hugarfóstur FTT, Félags tónskálda og textahöfunda, auk þess sem Rás 2 og Reykjavík Grapevine koma að kynningu Fuglabúrsins.

Í Fuglabúrinu mætast einatt fulltrúar ólíkra kynslóða og í síðasta mánuði deildu þeir sviðinu á Rósenberg þeir Bjartmar Guðlaugsson og Erpur Eyvindarson; báðir ljónharðir.

Skemmtunin hefst kl.20.30 og miðaverð er 1.500 kr.-

Rúnar Þórisson – When I Was

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Lára Rúnars – In Between

The Nice – America

Meðfylgjandi er upptaka frá BBC frá 1968 þar sem hljómsveitin The Nice fer hamförum í flutningi sínum á “America” eftir Leonard Bernstein. Keith Emerson, sem seinna gekk í Emerson, Lake & Palmer, var frægur fyrir að misþyrma hammond orgelum og sést vel hér hvers vegna.

Já börnin góð. Svona gerðu menn þetta í gamla daga!