Fjórar plötur á sex mánuðum!

omarLatínó-proggarinn og afróhausinn Omar Rodriguez-López sendi frá sér 2 stk. sólóplötur þann 26. Janúar síðastliðinn, Despair og Megaritual. Hann er þó ekki að baki dottinn og hyggst í byrjun Maí gefa út sína þriðju sólóskífu á þessu ári. Verkefni er nefnt því þjála nafni El Grupo Nuevo de Omar Rodriguez Lopez en platan sjálf kallast Cryptomnesia. Þeir Zach Hill og Jonathan Hischke úr stærðfræði-rokksveitinni Hella lögðu honum lið og ekki er ólíklegt að einhverjir Mars Volta-liðar láti í sér heyra. Platan er væntanleg þann 5. Maí en hefur nú þegar lekið á veraldarvefinn.

En ekki nóg með það!  Næsta breiðskífa Mars Volta er einnig væntanleg innan skamms, eða þann 23. Júní. Platan mun bera titilinn Octahedron og vilja Mars Volta-menn meina að þetta sé þeirra akústíska plata – hvað sem það nú þýðir. Ef ég þekki Mars Volta rétt mun þetta verða ‘konsept-plata’ en þeir hafa þó ekkert gefið upp í þeim efnum enn. Fyrsti singúllinn er nú þegar farinn að hljóma vestanhafs og nefna þeir lagið eftir Cotopaxi-fjalli í Ekvador.

Aðdáendur sveitarinnar ættu því að hafa úr nægu að moða á næstunni . . .

Mars Volta – Cotopaxi

Viðtal við Mars Volta

Í byrjun ársins 2008 sendi hljómsveitin The Mars Volta frá sér plötuna The Bedlam in Goliath. Sveitin fylgdi útgáfu plötunnar eftir með tónleikaferðalagi, sem meðal annars flutti sveitina alla leið til Danmerkur. Þar notaði Hildur Maral Hamíðsdóttir tækifærið og tók annan forsprakka hljómsveitarinnar, Omar Rodriguez-Lopez, tali.

(Viðtalið birtist upprunalega í Beneventum og var tekið fyrir Rás 2)

Mars Volta

Eruð þið spenntir fyrir tónleikunum í kvöld?
Já, að sjálfsögðu. Ég er spenntur hvert einasta kvöld sem ég fæ að spila!

Hafið þið spilað hér áður?
Já við spiluðum í Damörku 2000 og svo árið 2003.

Er einhver sérstök ástæða fyrir því að þið eruð ekki mikið í því að túra um Evrópu?
Við höfum reyndar verið töluvert að spila í Evrópu. Við bara gerðum ekki mikið af því frá 2005 og þangað til núna þar sem við höfðum staðið í smá veseni og fjárhagslegum örðugleikum, skipt um hljómsveitarmeðlimi  og svona. Þannig við vorum í US í langan tíma. En við höfum alltaf vitað að stór partur velgengni okkar hófst í Evrópu, svo við höfum passað að fara þangað allavega tvisvar til þrisvar sinnum á ári. Fyrsti túrinn okkar var einmitt um Evrópu! Svo það eru í rauninni bara síðustu þrjú ár sem við höfum ekki getað kíkt í heimsókn.

En hvað með Ísland, hafið þið í huga að koma hingað í náinni framtíð…?
Já, við værum mjög til í að fara til Íslands! En okkur hefur bara ekki verið boðið að koma og spila. Okkur var ekki einu sinni boðið á tónlistarhátíðina þar (Iceland Airwaves) sem allir aðrir fengu að fara á. Svo okkur langar alla mjög að fara.. Paul (gítarleikari The Mars Volta, áður bassaleikari  At The Drive-In og Sparta) var boðið að spila á Airwaves með Sparta (árið 2001).. svo já, okkur langar að vera boðið að koma.

Svo þið farið bara ef ykkur er boðið að spila, annars ekki?
Mars VoltaJa, sko.. vegna fyrirkomulags og stærðar hljómsveitarinnar eins og hún er í dag getum við ekki farið neitt lengur nema okkur sé boðið að koma og spila. Þetta er ekki eins og það var áður fyrr, þegar við gátum bara hoppað upp í rútu og bókað tónleika hvar sem var. Í gamla daga gátum við farið hvert sem við vildum. Núna, jafnvel þótt okkur dauðlangi eitthvert,  þurfum við „The Manpower“ – einhvern sem er viljugur til að koma okkur að og svoleiðis… ég meina, við erum tuttugu manns! Það eru átta hljómsveitarmeðlimir, tíu aðstoðarmenn, umboðsmaður sem skipuleggur tónleika.. við komum með okkar eigin mixborð og ljós. Umgjörðin er orðin mun stærri en hún var svo þetta er ekki eins auðvelt og hér á árum áður.

Ég skil. En varðandi íslensku hátíðina sem þú minntist á áðan, Iceland Airwaves, mynduð  þið semsagt vilja spila þar? Hátíðin er svona í minni kantinum miðað við staði sem þið hafið verið að spila á hingað til.
Já, ekki spurning! Stærðin skiptir mig engu máli. Við viljum bara hafa tækifæri til að ferðast til Íslands, sjá íslensku hljómsveitirnar og svona..

Þekkirðu til einhverra íslenskra hljómsveita?
Nei í rauninni ekki, fyrir utan þessar týpísku hljómsveitir sem allir nefna eins og t.d. Sigur Rós og Björk. Ég þekki ekki þessar „ekta“ íslensku hljómsveitir.

Þá er greinilega kominn tími á að kíkja hingað. En nú flugu fjölmargir íslendingar til Danmerkur gagngert til að sjá ykkur spila, bjóstu einhverntíman við því að sá dagur myndi renna upp, að fólk flykktist erlendis frá til að komast á tónleika með þér?
Nei, alls ekki! Við höfum eytt mestum okkar tíma í að spila fyrir nánast engan. Fyrstu sex árin spiluðum við venjulega fyrir um tvo til sex manns. Þegar við spiluðum hér í Danmörku árið 2000 var það fyrir níu til tíu manns. Þegar við spiluðum svo hér árið 2003 var það fyrir um 30-35 manns. En nú spilum við hér á landi aftur og þá er uppselt og allt (Store Vega rúmar 1500 manns)… hvert einasta skipti sem við spilum er eins og ævintýri. Okkur óraði aldrei fyrir að við ættum eftir að geta gert þá hluti sem við höfum verið að gera.

Nú er platan ykkar Bedlam in Goliath nýútkomin, hefur hún verið að fá góðar viðtökur?
Bedlam in GoliathÉg held það já! Allavega er jákvæð orka í kring um hana og fólk virðist kunna að meta hana.. viðtölin sem eru tekin við okkur segja margir vera sín uppáhalds o.sv.frv.. En þó veit ég það ekki fyrir  víst þar sem ég les ekki plötudóma okkar og ekkert um okkur á netinu. En miðað við tónleikaáhorfendur og fólkið í kringum okkur virðast flestir elska þessa plötu mest. Það geri ég líka persónulega, hún hefur fengið góðar viðtökur hjá mér! (hlær)

En hvað geturðu sagt okkur um hugmyndina að baki plötunnar?
Tónlistarlega séð þá? Þetta byrjaði allt á þeim tíma sem ég bjó í Evrópu, í Hollandi nánar tiltekið. Ég var fullur af innblæstri og samdi mikið af tónlistinni sem síðar varð að lögunum á Bedlam in Goliath. Reynsla mín í Amsterdam og fólkið þar urðu mín andagift. Hins vegar er önnur saga á bak við texta Cedrics (Bixler-Zavala, söngvara/textasmiðs hljómsveitarinnar). Andaglas sem ég gaf honum frá ferðalagi mínum um Ísrael (fyrsta frí Omars í sex ár)urðu honum innblástur að lýríkinni á Bedlam.Mig grunaði ekki að hann myndi vilja prófa það, því í okkar menningu vitum við að það á ekki að leika sér með svona hluti og að það getur haft alvarlegar afleiðingar.  Svo þetta var í rauninni bara gjöf í gamni handa honum, fallegur antík munur sem ég hélt að hann myndi geyma uppi í hillu hjá sér.  En í staðin tók hann andaglasið með sér í næsta tónleikaferðalag og eitt leyddi af öðru þar sem við erum aðeins mannlegir, og sjúklega forvitnir. Við höfum átt mikið af vinum í gegnum tíðina sem hafa látist svo við fórum að fikta aðeins við þetta.. og í rauninni þróaðist allt sem gerðist út frá því yfir í grunnhugmynd textanna hans Cedrics. Þannig að margt sem var talað til okkar í gegnum glasið notaði Cedric beint sem titil laga og sem efnisvið í texta. Þetta heltók hann upp að vissu marki og endaði með því að taka yfir plötuna, textalega séð. Tónlistin var löngu kláruð.

En virkaði andaglasið semsagt í alvörunni?
Já, að sjálfsögðu. Hefurðu aldrei heyrt um það áður? (hlær)

Ég á svolítið bágt með að trúa þessu og útskýri fyrir Omari að venjulega þegar andaglas berist í tal séu þar á ferð gróusögur sem erfitt sé að taka mark á. Fáir hafi prófað gripinn og hann virkað fyrir alvöru, og að í mínu tilviki hafi eina skiptið sem ég hafi tekið þátt í þessum voveifilega atburði verið í Halloween partýi í sjöunda bekk þar sem allir kepptust um að ýta glasinu þvers og kruss um borðið með kámugum puttunum. Ekkert dularfullt við það. En aftur að viðtalinu.

Ég spyr Omar hvaðan hann sæki sinn innblástur sem aðal lagahöfundur The Mars Volta.
Ég fæ innblástur frá öllum hlutum. Lifandi eða dauðum, góðum eða slæmum.  Hvort sem það eru góðar/illar kvikmyndir, málverk, samtöl,… allt býr þetta innra með þér og brýst út í formi tónlistarinnar. Fólk er alltaf að reyna að komast til botns í öllu. Þess vegna fundum við upp tungumálið, fötin, byggingarnar. Allt er þetta í formi tjáningarinnar. Og þetta gengur í rauninni aldrei upp, því alltaf er eitthvað nýtt að bætast við. Þannig að á því augnabliki sem þú nærð að beisla orku í smá textabút, ljósmynd, mat, kynlíf eða hvað sem er, þá allt í einu grípur þig eitthvað glænýtt. Og þú segir „guð minn góður, hvernig get ég útskýrt þetta?“. Svo innblástur kemur í rauninni hvaðanæva af. Við getum aldrei gert nógu mikla grein fyrir okkur með orðum. Ég kann mörg tungumál, þú kannt mörg tungumál, en öll heimsins orð nægja ekki til að segja frá manns innstu tilfinningum og þrám. Svo þaðan kemur þessi tjáning, list, kjaftæði eða hvað sem þú vilt kalla það (hlær).

Þannig þín leið er að setja þetta bara í form tónlistar. En hvaða tónlist hefur haft áhrif á þig í gegnum árin?
Öll tónlist. Sama dæmi og ég tók áðan, góð eða slæm tónlist, bara alltsaman. Aðaláhrifavaldur minn er þó tónlistarlegur menningararfur minn (Omar er frá Puerto Ríco), salsa o.fl. stefnur. En hins vegar hefur ýmislegt annað mótað mig, líkt og tónlist Billie Holiday, málverk Fridu Kahlo, bækur Miguel de Cervantes, listamaðurinn Salvador Dalí…  og svo ótalmargt annað.

Svo þú ert tryggur uppruna þínum, og notar hann í tónlistinni.
Já, algjörlega. Ég gæti ekki flúið rætur mínar þótt ég vildi. Ef ég reyndi að drepa þær myndu þær ásækja mig frá dauðum. Þær eru mjög mikilvægar. Þegar einhver heyrir tónlistina okkar, heyrir hann uppruna okkar. Sem er líklega ástæða þess að The Mars Volta hljómar öðruvísi en aðrar hljómsveitir. Frá rótunum sprettur upp tréið. Svo ekkert er mögulegt án þeirra.

Jæja, en varðandi tónleikana í kvöld. Við hverju megum við búast?
Mars VoltaÉg veit það í rauninni ekki. The Mars Volta er mjög heiðarleg hljómsveit. Það sem við erum að ganga í gegnum eins og er mun sjást í kvöld. Við munum spila gömul lög, ný lög, sitt af hverju, og allt mjög hátt. Sum kvöld erum við fullir orku, önnur kvöld erum við þreyttir.  Sum kvöld göngum við í gegnum einhverja ævintýralega uppljómun og erum tengdir áhorfendunum, önnur kvöld erum við gjörsamlega á okkar eigin spýtum og einangraðir, sum kvöld gerum við mistök hægri vinstri og það sést að við erum illa upplagðir, á meðan önnur kvöld springa út í dýrðarljóma.  Svo þetta er alltaf áhættusamt og speglar daginn okkar. Ef við höfum átt erfiðan dag, eða einhver kemur upp að okkur á síðustu stundu og segir bara gjörsamlega rangan hlut, þá endurspeglast það í sviðsframkomu okkar um kvöldið. En ef dagurinn hefur verið góður er hæglega hægt að búast við frábærum tónleikum.

Og hefur dagurinn í dag verið góður?
(Hlær) Svo sannarlega. Svo þetta ætti að verða gott kvöld.

Gott að heyra. En hvernig er með plönin eftir tónleikana í kvöld?
Við keyrum til Berlínar í nótt. En fyrir það höngum við saman og spjöllum við vini okkar, svo við verðum líklegast hér til um þrjú í nótt. Svo tekur næsta hættuspil við (hlær).

Já, það er ekkert annað. En þetta ætti að vera komið, nema það sé eitthvað sem þú vilt segja?
Hmm. Ekkert nema… vinsamlegast bjóðið okkur til Íslands. Og sjáið til þess að við getum verið þar í viku!  Við munum spila á eins mörgum tónleikum og við þurfum.

Ókei, snilld. Sjáumst á Íslandi!

– Hildur Maral Hamíðsdóttir
02/09/2008

Other Lives

Frá Stillwater í Oklahoma í Bandaríkjunum kemur ein áhugaverðasta sveit sem undirritaður hefur heyrt í það sem af er árinu.

Other LivesOther Lives heitir hún og samanstendur af Jesse Tabish (söngur og hljómborð), Josh Onstott (bassi), Jenny Hsu (selló og bakraddir), Colby Owens (trommur) og Jonathon Mooney (píanó, gítar og fiðla). Saman hafa þessir fimmmenningar spilað í ein fimm ár og þróað með sér einstakan hljóm sem er frumleg blanda af þjóðlagatónlist, prog-rokki og klassískri tónlist.

Samnefnd fyrsta stóra plata sveitarinnar kemur út formlega einhverntímann um mitt sumar en eintaki af henni hefur engu að síður verið komið í umferð til fjölmiðla (og í vissum hópum á netinu líka).

Hér er eitt besta lag plötunnar, hið stórgóða “End of the year”.

Other Lives – End of the year

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.