Stafrænn Hákon – Eternal Horse

Stafrænn Hákon - Eternal Horse

Eternal Horse er níunda breiðskífa sveimrokkssveitarinnar Stafrænn Hákon. Á þessari 9 laga plötu skiptir hljómsveitin um gír og kannar kunnuglegar slóðir sem greina mátti á plötunni þeirra Sanitas frá árinu 2010.

Síðustu tvær plötur sveitarinnar voru vissulega skref í sitthvora áttina þar sem tvær ólíkar stefnur voru kannaðar. Á Eternal Horse má heyra 7 sungin poppskotin ásamt 2 instrumental lögum. Platan sækir í hljóðheim sem er hljómsveitinni vel kunnugur af fyrri verkum, þar sem flæðandi og bjagaðir gítarveggir eru í fyrirrúmi ásamt fallegum akústískum útfærslum ásamt melódískum söng. Magnús Freyr Gíslason er sem fyrr í fyrirrúmi með sína silkimjúku rödd og hinn hollenski Minco Eggersman ljáir sína djúpu rödd í 3 lög.

Eternal Horse er fyrsta plata Stafræns Hákons þar sem hljómsveitin sér um allan hljóðfæraleik og því eiginlega fyrsta “hljómsveitarplata” sveitarinnar. Sveitin er nú skipuð Ólafi Erni Josephssyni gítarleikara, Lárusi Sigurðssyni gítarleikara, Árna Þór Árnasyni bassaleikara, Róberti Má Runólssyni tommuleikara og Magnúsi Frey Gíslasyni söngvara. Einnig leggur Samuel White til á plötunni sem fyrr í tveimur lögum, en hann hefur verið Stafrænum innan handar frá því á annari plötu sveitarinnar Í Ástandi Rjúpunnar.

Platan var tekin upp í Vogor Studios 2011-2015 og var framleidd af Ólafi Erni Josephssyni. Um hljóðjöfnun sáu Daniel Lovegrove og Finnur Hákonarson. Plötuumslag og listaverk var hannað af Árna Þór Árnasyni. Það er Ameríska útgáfan Darla Records sem gefur plötuna út og dreifir.

I Wanna með Oyama komin út

Oyama - I Wanna

Fyrsta EP plata hljómsveitarinnar Oyama er nú komin út. Platan inniheldur sex lög og kallast I Wanna.

I Wanna er eingöngu hægt að nálgast í sérstakri sölu á tónlistarveitunni gogoyoko sem stendur, þar sem hægt er að streyma henni í heild sinni auk þess að kaupa stafrænt – en hægt verður að nálgast EP-ið á geisladiskaformi á útgáfutónleikum sveitarinnar á föstudaginn.

Tónleikarnir fara fram á Faktorý og einnig koma fram sveitirnar Tilbury og Samaris. Þeir hefjast upp úr 22:00 og kostar 1000 krónur inn.

Dream Central Station gefur út samnefnda breiðskífu

Hljómsveitin Dream Central Station gaf út sína fyrstu breiðskífu um daginn. Platan, sem er samnefnd sveitinni, kemur út á vegum útgáfufélagsins Kimi Records og fæst í öllum helstu hljómplötuverslunum landsins.

Hljómsveitin er skipuð þeim Hallbergi Daða Hallbergssyni og Elsu Maríu Blöndal en þau hafa verið að vinna að plötunni undanfarin ár. Hallberg gerði garðinn frægan með hljómsveitinni Jakobínurínu á sínum tíma en Elsa hefur starfað með hljómsveitinni The Go Go Darkness.

Oyama á mála hjá Projekta

Íslensk-breska umboðsskrifstofan Projekta hefur nú samstarf við Oyama, eina umtöluðustu hljómsveit landsins um þessar mundir.

Sveitin hefur getið sér gott orð á afar skömmum tíma en meðlimi hennar ætti fólk að þekkja úr hljómsveitum á borð við Sudden Weather Change, Útidúr, We Painted The Walls og Me, The Slumbering Napoleon svo fátt eitt sé nefnt. Oyama spiluðu daglega á meðan á Iceland Airwaves hátíðinni stóð og uppskáru mikið lof og umtal.

Oyama vinnur nú hörðum höndum að því að semja og taka upp nýtt efni auk þess sem skipulagning tónleikaferðar um Bretland er hafin en sveitin hefur þegar fengið talsverða athygli frá lykilmiðlum þar ytra.

Oyama

Oyama er shoegaze-sveit úr höfuðborginni sem hefur verið að geta sér góðs orðs undanfarið og mun m.a. spila á Airwaves nú í lok mánaðar. Fyrir tveim dögum sendi sveitin frá sér nýtt lag sem nefnist “Dinosaur” og hljómar það hér að neðan ásamt tveimur eldri lögum.

Á tónlistarvefnum Straum má svo sjá ágætis viðtal við sveitina.

Íslenskt shoegaze – Oyama

Það hefur illu heilli lítið borið á shoegaze áhrifum hjá íslenskum hljómsveitum hingað til, en núna er komin fram á sjónarsviðið hljómsveitin Oyama sem beinlínis tekur fram að hún spili “heiðarlegt shoegaze, með miklum áhrifum frá 9.-10. áratugnum.” Áhugafólk um My Bloody Valentine og aðrar fuzz-og-feedback sveitir ætti að taka þessu fagnandi enda sveitin undir nokkrum áhrifum frá Kevin Shields og félögum.

Oyama inniheldur stórskotalið úr íslensku grasrótarsenunni undanfarin ár. Þau eru: Úlfur Alexander (Fist fokkers, Swords of chaos, Útidúr), Kári Einarsson (Fist Fokkers), Rúnar Örn Marinósson (Me, The Slumbering Napoleon), Júla Hermannsdóttir (We Painted The Walls) og svo Bergur Anderson (Sudden Weather Change, Just Another Snake Cult).

Þau hafa spilað saman í núverandi mynd í nokkra mánuði, og munu næst koma fram á tónleikum í Bíó Paradís 9. ágúst og á Faktorý 13. ágúst. Á Faktorý spila þau ásamt íslenska hardcore bandinu Manslaughter og bandarísku powerviolence/hardcore hljómsveitinni Vaccine.

Hérna er lag til að hita upp fyrir herlegheitin og ekki sakar að fletta upp á eldri “shoegaze” færslum á Rjómanum ef fólk þyrstir svo í meiri hávaða.

Facebook viðburður 13. ágúst | Oyama á Facebook

Euro Hákon

Eurovisjón unnandinn Stafrænn Hákon gaf í gær út stuttskífu þar sem hann fer mjúkum höndum um þrjú uppáhalds Evróvisjón-lögin sín. Þeirra á meðal er hinn yndislegi friðaróður “Ein Bisschen Frieden” sem hin 17 ára Nicole sigraði keppnina með árið 1982 og hið magnaða lag “Fly on the wings of love” sem Olsen Bræður brennimerktu í vitund okkar um síðustu aldamót.

Gang Related senda frá sér breiðskífu

Fyrsta plata rokkhljómsveitarinnar Gang Related er komin út. Platan heitir Stunts & Rituals og inniheldur 10 lög og er gefin út af Brak hljómplötum. Meðlimir hljómsveitarinnar eru bræðurnir Albert og Gunnar Pétur sem syngja og spila á gítar, Helgi Pétur trommar og Jón Otti spilar á bassa.

Hljómsveitin spilar draumkennt rokk og sækir meðal annars áhrif frá The Kinks, Pavement og Bruce Springsteen. Öll lögin voru tekin upp í hljóðstofu Friðriks og Jóhanns. Albert söngvari sveitarinnar tók einnig þátt upptökum á plötunni og sá um hljóðblöndun. Platan var svo masteruð af Aroni Arnarsyni.

Hljómsveitin ætlar að fagna útgáfu plötunar með tónleikum á Bakkus föstudagskvöldið þann 28. október ásamt góðum gestum og svo aftur laugardaginn þann 29. október á Gauk á stöng á hrekkjavöku tónleikum með hljómsveitunum Bárujárni, The Dandelion Seeds og Súr.

Gang Related – Mona

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Náttfari gefur út plötur eftir 10 ára töf

Hljómsveitin Náttfari gaf út sína fyrstu breiðskífu „Töf “ í dag og inniheldur hún níu lög sem tekin voru upp í Reykjavík í desember 2010.

Náttfari var stofnuð árið 2000 og lét að sér kveða í reykvísku neðanjarðarrokksenunni upp úr aldamótunum. Sveitin fékk afgerandi góða dóma fyrir spilamennsku sína, m.a. í New York Times eftir Iceland Airwaves 2001 þar sem blaðamaður lýsti tónleikum hennar sem „mind-blowing performance“.

Sveitin kom aftur saman árið 2010 eftir 8 ára hlé. Hún spilaði á Airwaves það árið og voru tónleikar hennar valdir eitt af 15 bestu atriðunum á hátíðinni af Reykjavík Grapevine tímaritinu. Tónleikar sveitarinnar á nýliðinni Airwaves hátíð vöktu ekki síður athygli og fengu m.a. fjögurra stjörnu dóm í Fréttablaðinu.

Tónlist Náttfara mætti lýsa sem draumkenndu síðrokki með kraftmiklum trommuleik og melódískum hljóðfæraleik.

Meðlimir Náttfara eru Nói Steinn Einarsson, Andri Ásgrímsson, Haraldur Þorsteinsson og Ólafur Josephson.

Rjómalagið 5. október: Plastic Girl in Closet – Pretty Little Bag

Það var í apríl síðastliðnum sem ég gerði japönsku shoegaze sveitinni Plastic Girl In Closet fyrst skil, en þá var sveitin dúett með eina plötu í farteskinu. Þau skötuhjúin Yuji og Ayako hafa nú fengið til liðs við sig tvo nýja meðlimi, og gáfu út aðra plötu sína í sumar. Þetta er í meira lagi poppað shoegaze, blessunarlega sungið á japönsku þótt titlarnir séu á ensku. Hérna er fyrsti smellurinn af plötunni Cocoro; “Pretty Little Bag”. Skondið hvað það eru oft magnaðir titlar á japönskum lögum og hljómsveitum.

Heimasíða hljómsveitarinnar | Eldri færsla á Rjómanum

Rjómalagið 3. október: Ringo Deathstarr – Sweet Girl

Smashing Pumpkins eru á leið í túr um Evrópu núna í nóvember og desember. Það er í sjálfu sér nokkuð spennandi, þótt þau gleymi að koma við hér á Íslandi, en það sem gerir þetta ennþá svalara er að lítt þekkt sveit frá Austin í Texas mun hita upp fyrir graskerin á túrnum, nefninlega Ringo Deathstarr. Sú sveit sækir áhrif mikið til sveita eins og Jesus and Mary Chain og My Bloody Valentine og er það vel. Ég ætla að leika fyrir ykkur eitt af elstu lögum Ringo Deathstarr sem stendur alltaf fyrir sínu, lagið “Sweet Girl”.

Ringo Deathstarr – Sweet Girl

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Ringo Deathstarr á Facebook

Gauntlet Hair eftir Gauntlet Hair

Gauntlet Hair samanstendur af Andy og Craig, tveimur gaurum frá Colorado, sem hafa í nokkur ár búið til tónlist saman. Í fyrra sendu þeir frá sér tvær smáskífur og vöktu athygli í netheimum – m.a. hjá útgáfufyrirtækinu Dead Oceans. Átjánda október næstkomandi kemur út fyrsta verk þeirra í fullri lengd, skífan Gauntlet Hair. Tvö lög af plötunni er nú þegar aðgengileg á netinu og hafa vakið mikla lukku hjá undirrituðum. Tónlistinni mætti lýsa sem einskonar samsuðu af Animal Collective og Deerhunter á krakki. Svo verður bara að koma í ljós hvort frumraunin reynist jafn bragðgóð og forsmekkurinn.

Gauntlet Hair – Keep Time

Shoegaze á sunnudegi – Burrrn

Algjör þögn er best. En góður hávaði er góður líka! Svo kvað skáldið hér forðum daga og japanska hljómsveitin Burrrn hefur komist að þessari sömu niðurstöðu. Þessa sveit hef ég rekist á fyrir nokkru síðan og sett í spjaldskrána undir “hlusta á seinna”, og þegar loksins varð af því mundi ég ekki hvar ég fann tónlistina, og fann fátt gáfulegt um hljómsveitina á netinu, enda vill svo til að hún heitir sama nafni og nokkuð algengt forrit sem notað er við brennslu á geisladiskum. Það var því upp á von og óvon sem ég sendi þeim skilaboð í gegnum Myspace án þess að eiga von á miklu, en viti menn, eftir nokkra daga barst mér svar á skemmtilega bjagaðri ensku.

Þá kemur upp úr kafinu að Burrrn var stofnuð fyrir 6 árum síðan í Tokyo, og þau telja upp My Bloody Valentine, Sonic Youth og Velvet Underground sem helstu áhrifavalda. Árið 2007 kom út EP platan “Song without words” og núna nýverið fyrsta breiðskífa sveitarinnar, “Blaze down his way like the space show”. Skífan sú er að sjálfsögðu gefin út af þeirra eigin útgáfu sem heitir Rrrrecords

Ég spái því að við heyrum brátt meira af þessari sveit, í það minnsta í Shoegaze heiminum, enda hafa þau nýverið túrað um Japan með þeirri stórmerku sveit Die!Die!Die! (sem ku ekki vera þýsk). Mér finnst þó heldur merkilegra að Burrrn spilaði með hinni frábæru sveit Ceremony sem fjallað hefur verið lofsamlega um hér á rjómanum áður.

Hérna er allavegana lagið sem kveikti í mér, og svei mér þá ef það eru ekki smá MBV áhrif á ferðinni hér! Þetta er eiginlega bara alveg klikkað, og skal að sjálfsögðu spila á hæsta mögulega styrk.

Burrrn – Shut my eyes

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Vefsíða sveitarinnar

 

Shoegaze á sunnudegi – Hartfield

Sumt shoegaze er poppaðra en annað, og er þá stundum kallað Tweegaze eða Noise Pop. Japanska sveitin Hartfield getur flokkast undir þessa kategoríu og ekki laust við að bakraddirnar minni á Beach Boys meðan annað er meira í ætt við t.d. Ride eða Boo Radleys.

Hartfield var stofnuð árið 2000 og fyrstu árin birtust lög með þeim á hinum og þessum safnplötum þar til þau gáfu út fyrstu breiðskífuna, True Color True Lie árið 2003, og EP plötuna L.I.B.R.A árið eftir. Sveitin kom fram sem heildstæð hljómsveit en það voru hinsvegar parið Takateru og Yukari sem voru aðalsprauturnar í bandinu, og taldist sveitin því vera dúett í raun. Þau náðu að túra um Japan, Kóreu og Bandaríkin, meðal annars með A Place to Bury Strangers, en seinustu fréttir af bandinu benda til að þau hafi hætt í fyrra þegar útséð var með að það fyndist útgefandi að þriðju plötunni.

Hartfield – She Knows (af plötunni L.I.B.R.A., 2004)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Hartfield – Reason (af plötunni True Color True Lie, 2003)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Hartfield – Blow Away (af True Color True Lie)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Today Forever (af L.I.B.R.A.):

Shoegaze á sunnudegi – Ceremony

Photo: Chris Becker

Ceremony er dúett frá Fredericksburg í Virginia, sem samanstendur af þeim félögum Paul Baker og John Fedowitz. Þeir félagar gerðu garðinn frægan í hljómsveitinni Skywave á árunum 1998 – 2003 ásamt Oliver Ackerman, en leiðir þeirra skildu þegar Oliver flutti til New York. Hann sló síðan rækilega í gegn með hljómsveit sinni A Place to Bury Strangers ásamt því að reka effekta-pedala fyrirtækið Death By Audio.

Meðan þessar tvær hljómsveitir eru um margt líkar, þá þykja Ceremony nokkuð melódískari og ekki eins fókusaðir á að framleiða hávaða og sprengja hátalara. Nægur er þó hávaðinn þó eins og heyra má í meðfylgjandi tóndæmum, en mörg laga þeirra minna mig hinsvegar á New Order eða Slowdive. Sjálfur er ég meira hallur undir hávaðann og hef valið lögin dálítið eftir því hversu vel þau fræsa burt eyrnamerg, en lagið “Clouds” hér að neðan er gott dæmi um Slowdive áhrifin. Þeir félagar eru sérdeilis duglegir að setja myndbönd á YouTube og til gamans má geta að sonur Johns, Max Fedowitz, sér um myndatökuna í mörgum þeirra, en hann er núna á tíunda ári.

Sveitin gaf út tvær frábærar plötur hjá Safranin Sound útgáfunni, en flutti sig svo til Killer Pimp sem gaf út breiðskífuna Rocket Fire í fyrra, og það má segja að þá fyrst hafi hjólin farið að snúast. Það er ekki hægt annað en að mæla með þessu fyrir áhugafólk um hávaða og feedback í anda Jesus and Mary Chain og My Bloody Valentine. Ég á bágt með að velja á milli laga og hef því frekar fleiri en færri, en “Stars Fall” þykir mér hinsvegar sérstaklega vænt um.

Ceremony – I heard you call my name (af plötunni Disappear, 2007)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Ceremony – Clouds (af plötunni Ceremony, 2005)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Marrianne (af EP plötunni Our Last Goodbye, 2007):

Stars Fall (af plötunni Rocket Fire, 2010):

Silhouette (einnig af Rocket Fire):

Facebook | Killer Pimp

Shoegaze á sunnudegi – Cruyff in the Bedroom

Við höldum okkur við Japan enn um sinn í umfjöllun okkar um shoegaze hljómsveitir. Cruyff in the Bedroom er í fullu fjöri og þeir félagar virðast almennt álitnir einskonar konungar skóglápsins í Japan. Þeir hafa meðal annars hitað upp fyrir The Pains of Being Pure at Heart, Asobi Seksu og Ringo Deathstarr í tónleikaferðum sveitanna þarlendis.

Nafnið vekur furðu, sér í lagi ef maður þekkir ekkert til fótbolta eins og ég, en það var valið til heiðurs Hollenskum fótboltakappa sem heitir Johan Cruyff. Ég hef aldrei heyrt á hann minnst áður, og hef ekki grænan grun um hvað hann þeir félagar telja hann vera að bralla í svefnherberginu sínu. Það er þó ljóst að fótbolti spilar stóra rullu hjá hljómsveitinni en hún var sett á laggirnar árið 1998, sama ár og Japan tók fyrst þátt í HM í fótbolta. Fyrsta platan þeirra kom út á fyrsta degi lokariðils HM í fótbolta árið 2002, og á geisladisknum sjálfum var mynd af fótbolta. Sum myndbönd þeirra skarta líka títtnefndum bolta í aðalhlutverki.

En nóg um sparktuðrur. Cruyff in the Bedroom hefur í það heila gefið út fjórar breiðskífur hjá sinni eigin hljómplötuútgáfu, Only Feedback, sem einnig gefur út Plastic Girl in Closet. Hérna fylgja með tvö myndbönd, og nokkur sérvalin tóndæmi að auki. Það er sérdeilis forvitnilegt  að sjá effectaúrvalið í seinna myndbandinu.

Og þetta á að sjálfsögðu að spila á hæsta styrk.

Clear light, white cloud (af plötunni Saudargia, 2008):

Ukiyogunjou (af samnefndri plötu, 2010):

Cruyff in the Bedroom – I see the moonlight (af Ukiyogunjou, 2010)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Cruyff in the Bedroom – Eurio (af Saudargia, 2008)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Cruyff in the Bedroom – Sunflowers bloom in dark (af Hikarihimawari, 2003)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Facebook

Shoegaze á sunnudegi – Plastic Girl in Closet

Þá er komið að fyrsta hluta af væntanlega vikulegum pistlum um Shoegaze hljómsveitir, lífs og liðnar. Hefjum leik í Japan, en þar, sem og víðast hvar í austur-asíu, er shoegaze í fullu fjöri og mikið af spennandi hljómsveitum.

Fyrir þá sem lítið þekkja til þá er Shoegaze tónlist gjarnan hávær í meira lagi, og ber þá mest á gítörum eðlilega (frekar en ofboðslega háværum xylophonum eða munnhörpum!), effectapedalar eru í hávegum hafðir og söngur er angurvær og stundum drukknar hann undir, tjah, flóðbylgjum af rifnum gítar og feedbacki. En “shoegaze” nafnið er upprunalega tengt því að tónlistarmennirnir störðu gjarnan niður fyrir sig á tónleikum, kannski á skóna sína, en líklegast hefur athyglin meira beinst að effectasúpunni á gólfinu.

Plastic Girl in Closet er shoegaze band frá Japan, nánar tiltekið frá Morioka í norður-Japan, en borgin varð að því er virðist nokkuð illa úti í hamförum þeim sem dunið hafa á landinu undanfarið. Yuji Takahashi stofnaði bandið árið 2003 þegar hann var í menntaskóla, og ári seinna fékk hann til liðs við sig skvísuna Ayako Sugai sem spilar á bassa og syngur. Þannig skipuð gaf sveitin út sína fyrstu plötu á seinast ári hjá Only Feedback Records í Japan. Í kringum áramótin gáfu þau út nokkrar stafrænar smáskífur og myndböndin hér að neðan eru við tvö af þeim lögum, en hljóðdæmin eru af breiðskífunni Toy.

Stilla hátt!

Plastic Girl in Closet – Black Bear Magcup

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Plastic Girl in Closet – Stars Falling Down

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Plastic Girl in Closet – Like a Strawberry

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Heimasíða | OnlyFeedback.net

Yuck – Yuck

Útgáfuár: 2011
Útgefandi:
Fat Possum
Einkunn: 3,5

(Streymdu plötunni hér að neðan og bættu hljóði við lestur)

Yuck var stofnuð seint árið 2009 af félögunum Daniel Blumberg og Max Bloom eftir brottför þeirra úr hinni ungu en vinsælu Cajun Dance Party. Yuck eru þau Daniel Blumberg, Max Bloom, Mariko Doi og Jonny Rogofff og þann 15.febrúar leit frumburður ensku hljómsveitarinnar dagsins ljós.

Pavement, Grandaddy, Dinousaur Jr. og margir fleiri koma í hugann þegar fyrsta lag plötunnar, Get Away, keyrist í gang og slacker-inn nýtur sín vel. Gítararar eru sementið sem heldur laginu saman og sumar og gleði sjást í hyllingum er ég sný mér að myrkrinu úti við með heyrnartólin á hausnum.
Sonic Youth
áhrifin á sveitina koma vel fram í laginu The Wall en sumarylurinn og áhyggjuleysi stefnunnar heldur undirrituðum nokkuð föstum. Lágar harmoníur og yfirkeyrt mix breiða yfir annars ekkert spes texta og fremur óspennandi laglínu.

Þristurinn, Shook Down, keyrir nostalgíuna í botn og lo-fi gítarar og ljúfur söngur minna undirritaðan á góða tíma sem táningur. Shook Down er sannarlega lagið til að smella á þegar brunað er í útleiguna í sumar með sólgleraugun, brosið og sólina í fyrirrúmi og eins og eina tambúrínu í aftursætinu. Frábært og notalegt lag. Yuck smellir svo óvænt aftur í fjórða gír og fer á flug í laginu Holing Out þar sem einfaldir en háværir gítarar fleyta öllu vel sem og feitur og hrár bassi undirstrikar áhrifin frá 9. og 10.áratug síðustu aldar. Lagið virkar þó frekar þunnt en laglínan bjargar því ágætlega. Vinnukonugrip með nóg af distortion er gott kaffi. Oftast.

Hér staldrar undirritaður örlítið við og hugsar hvort þetta sé ekki bara einfaldlega rip-off eða eitthvað sem hann hefur heyrt áður og virkar bara vel með þeim sem hafa flutt það áður. Sömuleiðis er hin hliðin tekin til ígrundunar að hér sé bókstaflega himnasending af frumburði stigin fram sem ekki einungis minnir á gamla og góða, heldur færir einnig nýtt fram. Hmm.

Suicide Policeman minnir nokkuð á James Mercer og co. í The Shins og hefur litla sérstöðu en gengur samt alveg upp. Ljúft lag en skilur þó lítið eftir sig þrátt fyrir skemmtilega pælingu, ….I could be your suicide policeman. Rómantísk pæling fyrir táningaangistina má hugleiða.

Vinnukonugripa/slacker-fílingurinn heldur áfram í Georgia, einum af tveimur smáskífum sem sveitin sendi frá sér á síðasta ári. Lagið er af mörgum talið gífurlega líkt hinu heilaga Friday I´m In Love eftir meistara The Cure en nær þó að halda ákveðinni sérstöðu. Það er líka alltaf töff að hafa stelpu í svona böndum og hér skín rödd Mariko Doi skærar en í öðrum lögum plötunnar.

Suck er lag sem klárlega gæti verið að nálgast tvítugt. Angist og ástaróður í lagi þar sem greint er frá vandkvæðum á trúarlegum aðstæðum einstaklings og því sem þeim aðstæðum fylgja. Undirritaður sér fyrir sér sveitina í sófa æfingarhúsnæðisins með gítara í kjöltum og hinn hárprúða trymbil í bakgrunni að grúva. Stutter fylgir eftir en blandast við forvera sinn. Lögin eru of svipuð í uppbyggingu og anda, því miður. Þó annað sé lágstemmdara gengur ekki að hafa þau samhliða, þó þau séu hin ágætustu í sitthvoru horninu.

Eftir Suck og Stutter er frekar erfitt að keyra upp stemmarann á ný en þau reyna það samt. Lagið Operation kryddar á rödduðum gíturum og ögn hraðari takt en keyrir þó ekki almennilega í gang fyrr en fremur seint og lagið passar ekki inn með Suck, Strutter og Sunday (sem fylgir Operation eftir).

Sunday er lag sem Stephen Malkmus (Pavement) hefði þess vel geta samið en hér eru það Yuck sem eiga heiðurinn. Lagið er ljúft og gefur gaum af nettum sunnudagsfíling. Smelltu laginu á með tebollann við eldhúsgluggann í morgunsólinni, þunn/ur! Eina instrumental lag plötunnar er Rose Gives A Lilly og er það jafnframt næstsíðasta lagið. Rose Gives A Lilly rennur frekar átakalaust inn í síðasta lag plötunnar og annað af smáskífulögum Yuck, Rubber. Þungt og þreytt líður það á surgi í bland við lágstemmda takt og spyr …should I give in? í tregafullum hljóðheimi af toga sem mætti líkja við skakkan og ölvaðan unglingspilt í tilvistarkreppu sem ákvað að semja lag. Fyrir vikið verður lagið melonkólískt mjög en þó nokkuð kraftmikið. Ágætis endir á plötu sem myndi án efa flokkast sem bi-polar sjúklingur ef hún væri mannleg.

Yuck er sannarlega frábær frumburður. Platan minnir á góða tíma og kveikir bæði í hamingju og depurð. Hér er alls ekkert nýtt að finna, heldur einungis krakka sem hlusta mikið á indie/slacker/shoegaze-risana og ákváðu að stofna band og semja músík. Ég mæli eindregið með því að fólk athugi þessa plötu! Sjálfsagt eru margir sem eru sáttir við plötusafnið í þessum geira og vilja bara halda því óhreyfðu en sömuleiðis eru án efa nokkrir sem vilja bæta smá Yuck (ísl. viðbrögð við viðbjóði) inn á sín heimili.

Bjartasti punktur þessa frumburðar er án efa sá að hann veitir æsku dagsins í dag að uppgötva þennan sérstaka hljóm sem mörg okkar uppgötvuðum sjálf sem unglingar.
Skoðum Yuck sem eldbera ákveðins gulltíma í tónlist af þessum toga inn í tónlist dagsins í dag fremur en surgandi eftirhermur.

Hvað finnst þér?
Streymdu Yuck með Yuck HÉR og sjáðu til!