Ching Ching Bling Bling

Hið vinalega og vænlega útgáfufyrirtæki Ching Ching Bling Bling er í stórsókn þessa dagana og dælir út hverri plötunni á fætur annari. Blingarar hafa einnig verið iðnir við að koma afurðum sínum í dreyfingu um jarðkringluna og geta tónlistarunnendur víðsvegar um heiminn nú nálgast þær á ekki minna en 40 tónlistarveitum á Netinu. Ein þeirra er hin stórgóða tónlistarveita Bandcamp en þar má heyra allar plötur útgáfunnar, gamlar sem nýjar.

Ching Ching Bling Bling á Bandcamp

Ég læt hér fylgja með eitt gamalt og gott með Pornopop af plötunni .​.​.​and the slow songs about the dead calm in your arms sem kom út 2006.

Fyrstu útgáfur TomTom Records líta dagsins ljós

Út er komin platan Andefni með tónlistarmanninum Prince Valium ásamt ep plötunni Life’s a Beach” með Tonik. Plöturnar eru gefnar út af nýju íslensku útgáfufyrirtæki, TomTom Records, sem sérhæfir sig í útgáfu á íslenskri raftónlist.

Útgáfurnar má nálgast í stafrænu formi á heimasíðu TomTom Records frá og með 24. febrúar 2011. Þar má einnig hlusta á plöturnar í gegn um streymi.

Andefni er önnur sólóplata listamansins Prince Valium en árið 2005 kom út hans fyrsta plata, Andlaus, á breska útgáfufyrirtækinu Resonant Records. Á nýju plötunni er Prince Valium svo sannarlega á sínum heimaslóðum í tónlistinni. Þar er að finna 12 lög, sem öll eiga það sameiginlegt að vera mjög ambient-skotin og melódísk, einkenni sem Prince Valium er vel þekktur fyrir í sínum tónsmíðum.

Life’s a Beach er stafræn smáskífa eftir Tonik sem áður hefur sent frá sér plötuna Form Follows (2009) og stuttskífuna Bogus Journey (2010). Þjóðlagamúsíkantinn Jóhann Kristinsson leggur til söng á Life’s a Beach og sjá íslenska rafsveitin Bypass og danski raftónlistamaðurinn Spejderrobot um endurhjóðblandanir (e. remix).

Yuck – Yuck

Útgáfuár: 2011
Útgefandi:
Fat Possum
Einkunn: 3,5

(Streymdu plötunni hér að neðan og bættu hljóði við lestur)

Yuck var stofnuð seint árið 2009 af félögunum Daniel Blumberg og Max Bloom eftir brottför þeirra úr hinni ungu en vinsælu Cajun Dance Party. Yuck eru þau Daniel Blumberg, Max Bloom, Mariko Doi og Jonny Rogofff og þann 15.febrúar leit frumburður ensku hljómsveitarinnar dagsins ljós.

Pavement, Grandaddy, Dinousaur Jr. og margir fleiri koma í hugann þegar fyrsta lag plötunnar, Get Away, keyrist í gang og slacker-inn nýtur sín vel. Gítararar eru sementið sem heldur laginu saman og sumar og gleði sjást í hyllingum er ég sný mér að myrkrinu úti við með heyrnartólin á hausnum.
Sonic Youth
áhrifin á sveitina koma vel fram í laginu The Wall en sumarylurinn og áhyggjuleysi stefnunnar heldur undirrituðum nokkuð föstum. Lágar harmoníur og yfirkeyrt mix breiða yfir annars ekkert spes texta og fremur óspennandi laglínu.

Þristurinn, Shook Down, keyrir nostalgíuna í botn og lo-fi gítarar og ljúfur söngur minna undirritaðan á góða tíma sem táningur. Shook Down er sannarlega lagið til að smella á þegar brunað er í útleiguna í sumar með sólgleraugun, brosið og sólina í fyrirrúmi og eins og eina tambúrínu í aftursætinu. Frábært og notalegt lag. Yuck smellir svo óvænt aftur í fjórða gír og fer á flug í laginu Holing Out þar sem einfaldir en háværir gítarar fleyta öllu vel sem og feitur og hrár bassi undirstrikar áhrifin frá 9. og 10.áratug síðustu aldar. Lagið virkar þó frekar þunnt en laglínan bjargar því ágætlega. Vinnukonugrip með nóg af distortion er gott kaffi. Oftast.

Hér staldrar undirritaður örlítið við og hugsar hvort þetta sé ekki bara einfaldlega rip-off eða eitthvað sem hann hefur heyrt áður og virkar bara vel með þeim sem hafa flutt það áður. Sömuleiðis er hin hliðin tekin til ígrundunar að hér sé bókstaflega himnasending af frumburði stigin fram sem ekki einungis minnir á gamla og góða, heldur færir einnig nýtt fram. Hmm.

Suicide Policeman minnir nokkuð á James Mercer og co. í The Shins og hefur litla sérstöðu en gengur samt alveg upp. Ljúft lag en skilur þó lítið eftir sig þrátt fyrir skemmtilega pælingu, ….I could be your suicide policeman. Rómantísk pæling fyrir táningaangistina má hugleiða.

Vinnukonugripa/slacker-fílingurinn heldur áfram í Georgia, einum af tveimur smáskífum sem sveitin sendi frá sér á síðasta ári. Lagið er af mörgum talið gífurlega líkt hinu heilaga Friday I´m In Love eftir meistara The Cure en nær þó að halda ákveðinni sérstöðu. Það er líka alltaf töff að hafa stelpu í svona böndum og hér skín rödd Mariko Doi skærar en í öðrum lögum plötunnar.

Suck er lag sem klárlega gæti verið að nálgast tvítugt. Angist og ástaróður í lagi þar sem greint er frá vandkvæðum á trúarlegum aðstæðum einstaklings og því sem þeim aðstæðum fylgja. Undirritaður sér fyrir sér sveitina í sófa æfingarhúsnæðisins með gítara í kjöltum og hinn hárprúða trymbil í bakgrunni að grúva. Stutter fylgir eftir en blandast við forvera sinn. Lögin eru of svipuð í uppbyggingu og anda, því miður. Þó annað sé lágstemmdara gengur ekki að hafa þau samhliða, þó þau séu hin ágætustu í sitthvoru horninu.

Eftir Suck og Stutter er frekar erfitt að keyra upp stemmarann á ný en þau reyna það samt. Lagið Operation kryddar á rödduðum gíturum og ögn hraðari takt en keyrir þó ekki almennilega í gang fyrr en fremur seint og lagið passar ekki inn með Suck, Strutter og Sunday (sem fylgir Operation eftir).

Sunday er lag sem Stephen Malkmus (Pavement) hefði þess vel geta samið en hér eru það Yuck sem eiga heiðurinn. Lagið er ljúft og gefur gaum af nettum sunnudagsfíling. Smelltu laginu á með tebollann við eldhúsgluggann í morgunsólinni, þunn/ur! Eina instrumental lag plötunnar er Rose Gives A Lilly og er það jafnframt næstsíðasta lagið. Rose Gives A Lilly rennur frekar átakalaust inn í síðasta lag plötunnar og annað af smáskífulögum Yuck, Rubber. Þungt og þreytt líður það á surgi í bland við lágstemmda takt og spyr …should I give in? í tregafullum hljóðheimi af toga sem mætti líkja við skakkan og ölvaðan unglingspilt í tilvistarkreppu sem ákvað að semja lag. Fyrir vikið verður lagið melonkólískt mjög en þó nokkuð kraftmikið. Ágætis endir á plötu sem myndi án efa flokkast sem bi-polar sjúklingur ef hún væri mannleg.

Yuck er sannarlega frábær frumburður. Platan minnir á góða tíma og kveikir bæði í hamingju og depurð. Hér er alls ekkert nýtt að finna, heldur einungis krakka sem hlusta mikið á indie/slacker/shoegaze-risana og ákváðu að stofna band og semja músík. Ég mæli eindregið með því að fólk athugi þessa plötu! Sjálfsagt eru margir sem eru sáttir við plötusafnið í þessum geira og vilja bara halda því óhreyfðu en sömuleiðis eru án efa nokkrir sem vilja bæta smá Yuck (ísl. viðbrögð við viðbjóði) inn á sín heimili.

Bjartasti punktur þessa frumburðar er án efa sá að hann veitir æsku dagsins í dag að uppgötva þennan sérstaka hljóm sem mörg okkar uppgötvuðum sjálf sem unglingar.
Skoðum Yuck sem eldbera ákveðins gulltíma í tónlist af þessum toga inn í tónlist dagsins í dag fremur en surgandi eftirhermur.

Hvað finnst þér?
Streymdu Yuck með Yuck HÉR og sjáðu til!

Streymdu The Decemberists

Sjötta breiðskífu folk/rock sveitarinnar The Decemberists lítur dagsins ljós þann 18.janúar næstkomandi en platan kallast The King Is Dead og kemur út á vegum Capitol Records. Hljómsveitin sem á rætur sínar að rekja til Portland í Bandaríkjunum sendi síðast frá sér plötuna The Hazards of Love árið 2009 og hefur verið iðin við plötuútgáfu allt frá árinu 2002 en sveitin var stofnuð árið 2000. Platan féll misvel í kramið hjá pressunni en sveitin sankaði þó að sér auknum aðdáendahóp og hitaði meðal annars upp fyrir meistara Bob Dylan nýverið.

Streymdu The King Is Dead frá The Decemberists HÉR og taktu forskot á sæluna.

Deftones – Diamond Eyes

(Löngu tímabær dómur)

Útgáfurár: 2010
Label: Reprise/Warner Bros

Sjötta breiðskífa Deftones frá Sacramento er svo sannarlega ein af betri rokkplötum síðasta árs. Hljómsveitin snýr hér aftur eftir fjögurra ára fjarveru frá útgáfu en þeirra síðasta plata, Saturday Night Wrist, kom út á haustdögum árið 2006. Árið 2008 bárust fregnir um að hljómsveitin hefði klárað plötu. Platan hafði hlotið nafnið Eros og horfði hljómsveitin fram á útgáfu snemma árs 2009. Hljómsveitin ákvað að hætta við útgáfu og setja plötuna á hilluna þegar bassaleikari sveitarinnar, Chi Cheng, lenti í hræðilegu bílslysi seint árið 2008. Liggur Cheng víst enn í dái en þó er kappinn eitthvað að braggast.

Árið 2009 var lagst í tveggja mánaða vinnu í hljóðveri ásamt bassaleikaranum Sergio Vega og úr varð platan Diamond Eyes.

Diamond Eyes heilsar hlustanda með virkilega vænni sprengju. Eitt allra besta rokklag ársins 2010, Diamond Eyes, býður upp á það besta sem Deftones hefur fram að færa. Harka mætir melodíu og tilfinningaþrunginn er greinilegur. Hér má einnig finna fyrir nærveru Frank Delgado (hljómborðsleikara/plötusnúð sveitarinnar) mun meira en oft áður. Frábært stykki til að byrja rússíbanann.
Lögin Royal og CMND/CTRL henda manni aftur um nokkur ár og koma fyrri verk eins og Adrenaline (1995) og Around The Fur (1997) upp í hugann. Það er ekkert nema yndislegt. Chino Moreno leiðir hesta og gæsahúðin ætlar vart að láta undan.

You´ve Seen The Butcher er fjarkinn og með því besta á plötunni. Delgado er hér aftur ögn framar í mixinu en áður og grúvið og þunginn er brilliant. Týpísk gæsahúð og lagið virkar ótrúlega vel á tónleikum. Var þetta eitt af þeim sem stóð upp úr eftir tónleika sveitarinnar í Stokkhólmi í nóvember sl. Ekki skemmir myndbandið fyrir!

Deftones plata er ekki Deftones plata nema það komi smá grúv/rólegheit inn á milli. Í laginu Beauty School bremsar sveitin sig örlítið af og poppar sig ögn í mallann og Sergio Vega smyr bassann vel í  Prince og bæði lögin virka vel með sing-a-long viðlögum og allt í góðu grúvi (Verst hvað sænskir tónleikagestir geta verið latir og súrir).
Þunginn kraumar þó alltaf undir og fer Chino Moreno á kostum hér eins og annars staðar og félagarnir Stephen Carpenter (gítar) og Abe Cunningham (trommur) eiga erfitt með að valda vonbrigðum.

Fyrsta smáskífa plötunnar, Rocket Skates, róar ekkert niður og lætur hlustanda langa til að hoppa um sveifla höndum og hreinlega missa vitið í smástund (fínt i lyftingarsalinn fyrir þá sem vilja?). Viðlagið “Guns, razors, knives…fuck with me!” segir allt sem segja þarf og þó töluvert sé um endurtekningu í laginu skemmir það ekki fyrir.
Stuð og reiði í bland svæfa loks hlustanda í skýjaborgum og fegurð í laginu Sextape og minnir lagið ögn á meistaraverkið White Pony (2000). Einfalt og gott fyrir lokakafla þessarar brjálæðu plötu.

“This one´s for Chi!” kallaði Moreno í mækinn í Arenan í Stokkhólmi áður en sveitin renndi í níunda lag plötunnar, Risk. Hér talar Moreno beint til vinar síns og hljómsveitarfélaga Chi Cheng og lagið grúvar vel og textinn er þrælfínn og hreinskilinn. Sveitin er orðin gríðarleg sem hljómsveit á sviði og eftir að hafa ekki séð Deftones frá því á Roskilde 2006, ætlaði ég vart að trúa hvað sveitin datt í mörg gömul og góð og hvað allt hljómaði stórkostlega vel.

Diamond Eyes tekur lokasnúning með lögunum 976-Evil og This Place Is Death. 976-Evil er poppaðasta lag plötunnar og minnir gítar Carpenter dálítið á 90´s pop/rock stílinn í stað hans hefðbundna stíls. Ekkert skemmandi en þó rís lagið ekki mjög hátt og hverfur í skuggann. Falsettur Moreno og yfirvegun lagsins heillar þó án efa marga og þá sérstaklega kvenaðdáendur sveitarinnar að mínu mati.
Frank Delgado opnar This Place Is Death og nær lagið að binda vel fyrir þessa frábæru plötu. Líðandi grúv en líkt og 976-Evil rís lagið ekki eins hátt og forverar þess á plötunni og skilur hlustanda eftir þyrstan í meira en þó, sáttan við heildarverkið og meira en það.

Diamond Eyes er svo sannarlega besta verk Deftones í áratug. Hún státar af hörku Adrenaline, grúvi Around The Fur og mjúkri melodíu White Pony en færir einnig fram nýjar og spennandi stefnur. Eftir að hafa bæði kynnt mér plötuna í meira en hálft ár og séð sveitina lifandi á sviði seint á árinu, get ég með fullri samvisku sagt að þetta sé ein besta rokksveit okkar tíma og að þessi plata sé ein besta rokkplata ársins 2010. Út í búð, núna!

Einkunn: 4,5

We Made God gefur út fyrstu plötu ársins 2011

Fyrsta plata ársins 2011 leit dagsins ljós föstudaginn 7. janúar síðastliðinn. Síðþungarokkssveitin We Made God á heiðurinn að henni og nefnist hún It’s Getting Colder. Platan inniheldur 10 lög og er gefin út af þeim sjálfum hér á landi en nýverið gerðu þeir samning við ítalska útgáfufélagið Avantgarde Music, sem starfar í Rómarborg. Avantgarde Music mun gefa plötuna út á erlendum mörkuðum.

It’s Getting Colder er önnur breiðskífa We Made God en þeir hafa vakið talsverða athygli fyrir frumburð sinn, As We Sleep, sem fékk meðal annars fjórar stjörnur af fimm í Q magazine á sínum tíma. Einnig er tónleikahald þeirra og framkoma, bæði hér heima og erlendis, umtöluð.

Viðburðaríkt ár hjá Bedroom Community

Nýliðið ár var það stærsta og viðburðarríkasta í sögu Bedroom Community til þessa með útgáfu á fjórum plötum og tónleikaferðalaginu Whale Watching tour. Listamenn útgáfunnar höfðu nóg fyrir stafni, en hér fyrir neðan verður stiklað á stóru um minnisstæða viðburði á árinu.

Sam Amidon ferðaðist um heiminn til að kynna nýjustu plötu sína I See The Sign, sem endaði ofarlega á topplistum ársins 2010 hjá stórum jafnt sem smáum miðlum, til að mynda lista New York Times og MOJO.

Daníel Bjarnason gaf út plötuna Processions og fékk platan frábærar viðtökur en Daníel hlaut meðal annars titilinn „höfundur ársins“ og „Bow to String“ var kosið „tónverk ársins“ á Íslensku tónlistarverðlaununum. Processions var einnig ein af sex verðlaunaplötum Kraumslistans og „Bow to String“ var tilnefnd til Norrænu tónskáldaverðlaunanna.

Ben Frost hlaut hin eftirsóttu Rolex verðlaun (og mun því njóta handleiðslu tónlistarmannsins Brian Eno í heilt ár), samdi tónlist við dansverk Wayne McGregors, FAR, og var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir plötuna BY THE THROAT.

Ben og Daníel voru fengnir af Unsound hátíðinni til að vinna að Solaris, tónverki innblásnu af samnefndri kvikmynd Andre Tarkovsky frá 1972 sem byggð er á skáldsögu Stanislaw Lem. Verkið var frumflutt í Kraká síðastliðið haust.

Nico Muhly gaf út tvær plötur; I Drink the Air Before Me hjá Bedroom Community og Decca Classics og hjá Decca eingöngu plötuna A Good Understanding. Hann samdi jafnframt tvær óperur, eina fyrir Metropolitan óperuhúsið og English National óperuhúsið og aðra fyrir Gotham Chamber óperuhúsið.

Valgeir Sigurðsson gaf út plötuna Draumalandið með frumsaminni tónlist úr samnefndri kvikmynd Þorfinns Guðnasonar og Andra Snæs Magnasonar. Allir listamenn Bedroom Community leggja Valgeiri lið á plötunni en hún var síðar tilnefnd til Eddunnar.

Síðast en ekki síst var ákveðið að gefa út fría jólaplötu rétt fyrir jólin. Hún hlaut nafnið Yule og innihélt lög eftir alla listamenn útgáfunnar; áður óútgefin, endurhljóðblönduð og illfáanleg.

Fyrsta smáskífan frá Jungle Fiction

“Heat Of The Nite” er fyrsta smáskífan frá ungu og upprennandi íslensku raftónlistarmönnunum Jungle Fiction. Nú þegar eru þeir með stór remix undir sér (Kele, Acid Washed, Neon Indian) og fyrsta smáskífan þeirra verður gefin út frí á vefsíðunni þeirra www.junglefiction.com og á Soundcloud.

“Heat Of The Nite” tónlistarvídeóið, sem tekið var upp í Las Vegas, er eftir grafíska hönnuðinn Jesse Nikette. Smáskífan inniheldur þrjú lög með áhrifum frá Ennio Morricone, Tom Tom Club og Sylvester svo dæmi séu nefnd. Einnig eru þrjú remix frá Fukkk Offf (Þýskaland), F.O.O.L (Svíþjóð) og Ishivu (frá Svíþjóð). Jungle Fictioneru nú þegar að leita eftir bókunum í Evrópu og Bandaríkjunum fyrir næsta ár.

Smáskífan var tekin upp á Íslandi og mixuð og masteruð af Jungle Fiction.

10 bestu EP plötur ársins að mati ritstjóra.

Í uppgjörsumræðunni sem öllu tröllríður á þessum tíma ár hvert vill oft gleymast að minnast á blessaðar EP plöturnar en slík útgáfa hefur heldur betur aukist síðustu ár. Ég sá mig því knúinn að telja til 10 bestu (eða áhugaverðustu öllu heldur) EP plöturnar sem borist hafa mér til eyrna á árinu. Þótt útgáfa á EP plötum sé ekki fyrirferðamikil hér á landi náðu þó tvær slíkar inn á listann (önnur er reyndar gefin út erlendis en flytjandinn er íslenskur) og sú þriðja, Varrior með Sudden Weather Change, var alveg við það að ná inn á listann.

En nóg um það. Hér að neðan er listinn og þar fyrir neðan nokkur vel valin tóndæmi.

  1. Sufjan Stevens – All Delighted People
  2. Unknown Mortal Orchestra – Unknown Mortal Orchestra
  3. Mondrian – Pop Shop
  4. Cool Runnings – Babes Forever
  5. TV Girl – TV Girl
  6. Dad Rocks! – Digital Age
  7. Beat Connection – Surf Noir
  8. Benni Hemm Hemm – Retaliate
  9. Generationals – Trust
  10. Port St. Willow – Even // Wasteland

Sufjan Stevens – All Delighted People

Unknown Mortal Orchestra – Unknown Mortal Orchestra EP

Mondrian – Pop Shop

Cool Runnings – Babes Forever

TV Girl – TV Girl

Dad Rocks! – Digital Age

Port St. Willow – Even // Wasteland

Band of Horses – Infinite Arms

Hljómsveit: Band of Horses
Plata:
Infinite Arms
Útgefandi:
Fat Possum, Columbia & Brown Records (2010)

Þriðja plata Band of Horses leit dagsins ljós í maí á þessu ári en lögin Compliments og Factory hafa fengið ágæta spilun á öldum ljósvakans hér á landi allt frá útgáfu.
Platan, sem ber heitið Infinite Arms ber fram ágætis blöndu af því sem aðdáendur sveitarinnar þekkja frá fyrri verkum hennar en þó er hér eitthvað ferskt og spennandi að finna um leið. Vælukennd og tregafull rödd Ben Bridwell leiðir þétt, beislandi og grípandi sveitaskotið indie-rokk sveitarinnar á kaflaskiptri, ljúfri og sterkri plötu. Harmoníur þeirra Ben Bridwell og Ryan Monroe eru sem fyrr í forgrunni lagasmíða en Monroe leikur þó stærra hlutverk á plötunni en á fyrri plötum. Lög á borð við Older einkennast af hlutverkaskiptum Monroe og Bridwell og er Monroe þar í aðalhlutverki. Fer þá Bridwell mikinn í að gera viðlag lagsins afar grípandi. Getur undirritaður viðurkennt fúslega að hafa haft viðlag lagsins á heilanum frá því að sveitin lék það á frábærum tónleikum Hróarskeldu 2008.
Ljúft þykir mér einnig að hugsa til þess að lagið skuli hafa lifað af upptökuferlið.

Band of Horses – Older

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Infinite Arms er í sjálfri sér ekki frumlegasta plata sem fyrirfinnst á tónlistarmarkaðinum í dag en hún hefur þó þá fjölbreytni sem góðar hljómplötur verða að stæra sig af til að lifa af. Platan er einnig sú fyrsta sem hljómsveitin vinnur án faðmlags Sub Pop plötufyrirtækisins og má með sönnu segja að sveitin hafi fengið frjálsari hendur en áður í ferlinu. Meðlimir hafa komið og farið en hljómsveitin gefur nú út undir merkjum Fat Possum, Columbia og Brown Records (sem Ben Bridwell á þátt í).

Einn sterkasti þáttur tónlistar Band of Horses finnst mér vera rólegri kanturinn. Sveitin kann alveg að halda uppi stuði en ég vil meina að þeirra áhrifamesti þáttur séu rólegri lögin. Lög á borð við For Annabelle, Evening Kitchen og titillag plötunnar, Infinite Arms eru að mínu mati með öflugri lögum plötunnar. Sömuleiðis sem On My Way Back Home kveikir ófáa neista. Það er einfaldlega eitthvað við þessar raddir þeirra Bridwell og Monroe sem upphefja mann í alsælu.

Band of Horses – On My Way Back Home

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Hljómsveitin styður sig við hið örugga í flestum lögum sínum og hverfur sjaldan frá klassískri orgíu gítars, bassa, hljómborðs og slagverka en það gengur samt upp. Hér er ekki reynt við eitthvað nýtt, heldur haldið fast í það sem virkar. Sem er bara hið ágætasta. Það sem er þá helsta breytingin frá Cease To Begin er fráhvarf Bridwell frá alvaldi. Meðlimir sveitarinnar eru meira sameinaðir en áður og í kjölfarið; ferskari og fjölbreyttari.
Hér hefur sveitin aftur gert plötu sem flestir unnendur þessarar stefnu ættu að digga. Plötu sem laðar nýtt fólk sömuleiðis að með grípandi smáskífum og leyndum demöntum þegar nánar er ígrundað. Passar sveitin sig að missa sig ekki út í eitt né annað og rokkar sig upp og niður. Hlustandi grúvar, dillir sér, hoppar, brosir og jafnvel tárast.

Fínt combo, ekki satt? Það finnst mér allavegana.

Einkunn: 4

Brainlove Records á Iceland Airwaves

Þrjár hljómsveitir munu spila á Airwaves hátíðinni sem eru á mála hjá breska útgáfufyrirtækinu Brainlove Records. Þetta eru hljómsveitirnar Bastardgeist, Pagan Wanderer Lu og We Are Astronauts. Hafa forráðmenn Brainlove hent saman mixi með sex lögum frá þessum sveitum og deilt með okkur á netinu. Þremur þessara laga má svo hala niður í gegnum spilarann hér að neðan.

Njótið vel.

Íslenskt að sjálfsögðu

Íslenskir tónlistarmenn eru flestir afar duglegir að nýta sér kynningar- og dreyfingarmátt hinna ýmsu netmiðla og vefþjónusta. Ég tók mér, fyrir forvitnissakir, smá rúnt á tónlistarvefnum Soundcloud og fann þar eitt og annað ansi áhugavert. Rétt er að taka fram að hér er aðeins um lítið brot af þeirri íslensku tónlist sem á vef þessum er að finna. Þar af eru raftónlistarmenn afar fyrirferðamiklir en ég held ég splæsi nú bara sér færslu á þá seinna, slíkur er fjöldinn.

Berndsen – Young Boy

Leaves – Dragonflies

Pollapönk – Pönkafinn

Reykjavík! – Repticon

Yoda Remote – Spacelove

Úlfynja – Rabbit in a hat

Snorri helgason – Gone

Pondus – Not Again

Sigur Rós – Starálfur

Sunnudagstónlist

Það er eitthvað við sunnudaga sem fær mann til að vilja hlusta á ákveðna tegund tónlistar. Sunnudagar sem þessi, votur haustdagur, kallar á ljúfsár og jafnvel örlítið sorgleg lög. Ég setti saman smá mixtape handa ykkur til að ylja ykkur með kaffinu. Svo er bara að skríða undir sæng og láta ljúfa tónana leika um.

Lagalistinn er þessi:

1. Castaways með Shearwater
2. Oslo Novelist með Grand Archives
3. Young Bride með Midlake
4. Fables með The Dodos
5. King Of Carrot Flowers Part 1 með Neutral Milk Hotel
6. 100,000 Thoughts með Tap Tap
7. Just to See My Holly Home með Bonnie “Prince” Billy
8. Roots of Oak með Donovan
9. Safe Travels með Peter & The Wolf
10. The Monitor með Bishop Allen
11. Exodus Damage með John Vanderslice
12. God’s Highway með Tobias Froberg
13. And Now The Day Is Done með Ron Sexsmith

Ath. að lögin geta birst í annari röð en hér að ofan og að ekki er hægt aðhlaupa yfir nema 3 lög.

Hlustaðu á Sufjan

Í tilefni útkomu nýjustu plötu Sufjan Stevens, All Delighted People EP, sem við fjölluðum um hér um daginn, er vert að benda áhugasömum á að hægt er að hlusta á 5 aðrar allar plötur kappans á Bandcamp síðu hans. Er þetta tilvalið tækifæri fyrir trygga aðdáendur Sufjan að rifja upp eldri verk hans og fyrir þá sem ekki þekkja til listamannsins að kynnast honum.

Meðfylgjandi er í heild sinni meistaraverkið Illinois sem kom út 2005.

The DJ Shadow Remix Project

DJ Shadow, sem teljast verður með frægari plötu- og takkasnúningamönnum sögunnar, hefur um árabil safnað í kringum sig stórum hópi aðdáenda sem margir hverjir hafa sent honum remix og ábreiður af hans eigin lögum. Skuggasnúður hefur nú tekið saman úppáhalds remixin sín og gefið út á safnplötunni The DJ Shadow Remix Project en hún fæst gefins með hverjum keyptum hlut úr búðinni hans.

Meðfylgjandi er stykkið í heild sinni en þarna er að finna nokkrar magnaðar útgáfur af þekktum lögum meistarans eins og “Organ Donor” og “Building Steam with a Grain of Salt”.

The DJ Shadow Remix Project

Ný útvarpsstöð : Nálin FM 101,5

Nálin, ný og afar áhugaverð útvarpsstöð hefur hafið útsendingar á bylgjulengdinni 101,5 á FM skalanum. Á Facebook síðu stöðvarinnar segir að á stöðinni sé spilað í raun allt milli himins og jarðar en þó með klassísku rokki í bakgrunninn. Vonandi er þó ekki um eitthvað GullBylgju síbylju dæmi að ræða heldur frumlegt tónlistarval og krefjandi og áhugaverða tónlistarumfjöllun. Sjáum hvað setur.

Þess ber að geta að Rjómapenninn Hildur Maral er með þriggja tíma útvarpsþátt á Nálinni á þriðjudagskvöldum milli 19:00 og 22:00.

Rjóminn hvetur lesendur sína til að stilla viðtækin á FM 101,5 eða hlusta hér á netinu.

Úr pósthólfinu

Þá er komið að því enn eina ferða að skyggnast í fimbuldjúpar hvelfingar pósthólfa Rjómans og sjá hvaða furður og fantastík leynast þar.

Styrofoam Ones er áhugaverð kanadísk rokksveit sem vinnur nú að sinni fyrstu plötu með upptökustjóranum Jon Drew (Tokyo Police Club, Fucked Up) og er áætlað að hún komi út snemma á næsta ári. Meðfylgjandi er hinsvegar smáskífan “Blue Lines” af nýlegri samnefndri EP plötu sveitarinnar.

Styrofoam Ones – BlueLines

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Dúóið enska Black Cherry hefur tekið sérstöku ástfóstri við Rjómann og senda þau okkur hvert lagið og remixið á fætur öðru. Hér eru tvö áheyrileg tóndæmi:

Black Cherry – Diamonds and Pearls (Chromatic Remix)

Black Cherry – White Gold

Einhver sem kallar sig Hope Less sendi Rjómanum lag með furðulegri frásögn af því hvernig hann lét crew-ið sitt lemja Tom Baily, fyrrverandi meðlim Thompson Twins, í buff en ákvað svo engu að síður að gera cover af einu laga hans, “Lies, Lies, Lies”. Þessi frásögn er eflaust bara uppspuni en lagið er, eins og spunameistarinn sagði, tussufínt.

Hope Less – Lies, Lies, Lies

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Ankur Bulsara, trommari sveitarinnar Seneca Hawk sendi Rjómanum póst. Þar kynnir hann til sögunnar sveitina og fyrstu plötu þeirra Sun Year Long sem tekin var upp af Adam Lasus en einhverjir kannast eflaust við hann eftir samstarf hans með Clap Your Hands Say Yeah. Seneca Hawk er enn án plötusamnings og sinna hljomsveitarmeðlimir sjálfir sínu kynningarstarfi. Meðfylgjandi er platan Sun Year Long í heild sinni og heyrist mér ekki annað en að hún afli þeim félugum plötusamnings áður en um langt líður. Hvað finnst þér?

Seneca Hawk – Sun Year Long

Maximo Park gefur út fría remix plötu

Eftir margra mánaða vinnu Maximo Park og fjölda lítt þekktra neðanjarðar listamanna á norð-austur horni Englands er nú tilbúin og frjáls til niðurhals 33 laga remix plata sem nefnist Quicken The Heart : Remixed. Lukas Wooller, hljómborðleikari sveitarinnar, útskýrir nánar tilurð verkefnisins:

Hér er svo platan, lag fyrir lag, eins og sveitin setti hana inn á hina mögnuðu tónlistarveitu Soundcloud. Nánari upplýsingar er að finna á vef Maximo Park.

Maximo Park – Quicken The Heart Remixed