Afskræming Svavars Knúts í Mengi

Afskræming Svavars

Útgáfu og viðburðafélagið FALK kynnir “AFSKRÆMINGU SVAVARS KNÚTS” einstakan tónlistarviðburð í Mengi, þar sem hljómfagrir tónar söngvaskáldsins Svavar Knúts drukkna í rafstraumum KRAKKKBOT og AMFJ.

Söngvaskáldið ástsæla Svavar Knútur mun ásamt raf- og óhljóðalistamönnunum KRAKKKBOT og AMFJ flytja lög sín í Mengi næstkomandi laugardagskvöld, 9. janúar klukkan 21:00 – húsið opnar klukkan 20:00.

Á tónleikunum mun Svavar leika úrval af lögum sínum á sinn einstaklega einlæga hátt, einn með gítarinn og röddina fögru. Hætt er þó við því að aðdáendum Svavars Knúts bregði í brún, því hljóð hans munu verða brotin og afskræmd, teygð og toguð, sléttuð og felld í meðförum þeirra félaga KRAKKKBOT og AMFJ.

Það verður sannkölluð hljóðveisla í Mengi þegar þessir andstæðu pólar mætast í samvinnu eða baráttu. Kvöldvaka sem fer allan skalann frá hinu mikilfenglega til hins viðkvæma, um ölduslóð sínusbylgjunnar að broti raddarinnar.

Hér að neðan má heyra viðtal tekið af Elísabetu Indru Ragnarsdóttur fyrir hönd Mengis, en þar ræða Baldur og Svavar Knútur um vináttu, andstæða póla í tónlist og hvers vænta má á laugardaginn kemur.

Kristín Lárusdóttir

 Kristín Lárusdóttir

Rjóminn vill vekja athygli á tónlist Kristínar Lárusdóttur. Lýsa má henni sem innblásinni af íslenskum tónlistararfi og náttúru. Hún spilar bæði á selló, kveður og notar ýmis rafhljóð. Tónlist Kristínar er lagræn, en líka tilraunakennd og smá teknó.

Hér að neðan má heyra plötu Kristínar, Hefring, en á henni sá hún sjálf um tónsmíðar, útsetningar, sellóleik, upptökur og hljóðblöndun. Orri Harðarson sá um hljómjöfnun.

Bedroom Community gefur út frumraun Jodie Landau

you of all things by Jodie Landau and wild Up
Í fréttatilkynningu segir:

Það er ekki á hverjum degi sem Bedroom Community bætir við sig listamönnum, en í ár gefur útgáfan út tvær plötur nýrra listamanna.

Fast á hæla útgáfu Folie à Deux með Emily Hall (20. júlí) gefur Bedroom Community út frumraun hins 23 árs gamla Jodie Landau ásamt nýstárlegu tónlistarsamsteypunni Wild Up. Platan ber nafnið You of all things og kemur út 2. október næstkomandi. Nú má forpanta hana á bandcamp og hlusta á fyrsta lag hennar, “An invitation”.

Jodie Landau er tónskáld, söngvari og slagverksleikari. Tónlist hans tvinnar saman ólíkum stefnum svo sem kammer, rokki og djass fyrir tónleika, kvikmyndir, leikhús- og dansverk. Þegar hann kemur fram einsamall singur hann ásamt því að spila á víbrafón og marimbu.

Wild Up er djörf kammersveit frá Los Angeles sem stefnir að því að skapa umhugsunarverð verk. Tónlistarfólk Wild Up trúir því að tónleikastaðir séu til þess gerðir að útbúa áskoranir, vekja spennu og sameina hlustendur.

Reykjavík Guitarama

Reykjavík Guitarama

Al Di Meola, Robben Ford, Björn Thoroddsen, Peo Alfonsi og Brynhildur Oddsdóttir á magnaðri gítarveislu Bjössa Thor í Háskólabíói, laugardaginn 3. október.

Þessa tónleika má enginn tónlistaráhugamaður láta fram hjá sér fara. Al Di Meola er einfaldlega einn virtasti gítarleikari sögunnar og Robben Ford er meðal fremstu blústónlistarmanna samtímans, sannur snillingur sem hefur spilað með þeim bestu, s.s. George Harrison, Miles Davis og Kiss.

Ítalski gítarleikarinn Peo Alfonsi og blúsarinn Brynhildur Oddsdóttir verða í sviðsljósinu ásamt gestgjafanum Birni Thoroddsen sem haldið hefur vinsælar gítarhátíðar í Kanada, Noregi og Bandaríkjunum.

Jóhann Hjörleifsson trommuleikari og Róbert Þórhallsson á bassaleikari sjá til þess að allir haldi takti.

Miðasala er hafin á Miði.is

Sasha Siem – Most Of The Boys

Sasha Siem

Norsk-enska tónlistarkonan Sasha Siem gaf út sína fyrstu plötu, Most Of The Boys, þann 2. mars síðastliðinn. Platan tengist Íslandi sterkum böndum en um pródúseringu, hljóðblöndun- og jöfnun sá Valgeir Sigurðsson í hljóðverinu Gróðurhúsinu.

Sasha Siem er jafnframt Íslandsvinur mikill og bjó um tíma hér á landi auk þess að vera sérstök áhugakona um íslenskar bókmenntir. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem parið vinnur saman, en tónlistarkonan söng eitt aðalhlutverk verksins Wide Slumber sem Valgeir samdi tónlistina við og var frumsýnt á Listahátíð í Reykjavík í fyrra.

Hér er á ferðinni mjög áhugaverð plata sem íslenskir tónlistaráhugamenn ættu að gera heiðarlega tilraun til að nálgast.

HACKER FARM á Íslandi 4. og 6. desember

Hacker Farm poster

Fimmtudaginn 4. desember og laugardaginn 6. desember stendur FALK fyrir tvennum tónleikum með bresku tilraunarmúsíköntunum í Hacker Farm. Þessir tónleikar, sem verða haldnir í Mengi og á Paloma Bar, eru frumflutningur Hacker Farm á Íslandi og munu aðstandendur FALK, tónlistamaðurinn AMFJ og Krakkbot ásamt sérvöldum listamönnum úr raftónlistargeiranum hita upp.

Búast má við rafrænni óreiðu, kasettuúrgangi og breyttu leikjasándi. Pínku pönkað, en án þess að fá lánað þriggjastrengja hljóma og takta frá The Kinks. Smáskammtaútgáfa af betra líferni.

Krokkbot : Amateur of the Year – Crammed with Cock

Krakkbot kassettur

Krakkbot er tónslistarmaður sem flytur dómsdags-raftónlist. Hann vinnur einkum með drunur, takta og hávæða. Hann lýsir tónlist sinni sem síþróandi skrýmsli, og daðrar við þungarokk, hipp-hopp, heimatilbúin raftæki, feedback og hreinar hljómtíðnir í tilraunum sínum til að skapa martraðarkenndt draumalandslag.

Þetta er fimmta útgáfa Ladyboy Records og tekur form sitt sem 50 kassettur í sægrænum, bleikum, bláum og gráum geislaígröfðum umbúðum. Hvert eintak er einstakt og byggt á teikningum listamannsins.

Útgáfuhóf verður haldið á Húrra föstudaginn 30. maí. Dj. Flugvél & Geimskip og Pyrodulia hita upp.

Kalel Cosmo gefur út smáskífuna Earth Rise

Kalel Cosmo

Tónlistarmaðurinn Kalel Cosmo hefur gefið út sína fyrstu smáskífu sem ber nafnið Earth Rise. Hugmyndin á bak við smáskífuna er geimurinn og ferðalag í gegnum tíma og rúm sem myndar fjögur samtengd en fjölbreytt lög plötunnar; “Earth Rise”, “Lost in time”, “Perihelion” og “Welcome to my world”. Lögin eru samin og tekin upp af Kalel sjálfum og einkennist tónlistin af popp-innskotinni raftónlist með nútíma hip-hop ívafi.

Platan er komin í sölu á Gogoyoko en jafnframt er hægt að hlusta á plötuna og hala henni ókeypis niður á Soundcloud.

Lady Boy Records komin út

Lady Boy Records 004

Plötuútgáfan Lady Boy Records kunngerir útgáfu nýrrar safnkassettu, en umrætt verk er fallegur safngripur skreyttur með leysigreftri. Kassettan er önnur safnkassetta Ladyboy Records, en á henni má finna tónlist frá DJ Flugvél & geimskip, Bix Vs. Agzilla, AMFJ, Fist Fokkers, Thizone, Krakkbot og Harry Knuckles, Nicolas Kunysz, X.O.C Gravediggers INC.(/Apacitated), Sindri Vortex og Syrgir Digurljón. Kassettan er fjórða útgáfa Lady Boy Records og er gefin út í takmörkuðu upplagi sem telur fimmtíu eintök.

Útgáfunni verður fagnað á öldurhúsinu Paloma föstudaginn 18 Apríl.

Áður hefur útgáfan gefið út aðra safnkassettu í takmörkuðu upplagi (eins og áður sagði), geisladiskinn Þorgeirsbola með Slugs (en honum var dreift í vakúmpakkningum) og mandarínu eftir Nicolas Kunysz með leysergröfnum niðurhalskóða, sem bar nafnið Rainbows in Micronesia.

Atónal Blús sendir frá sér plötu

Atónal Blús - Höfuðsynd

Atónal Blús hefur sent frá sér sína fyrstu breiðskífu sem ber nafnið Höfuðsynd og er platan er komin í sölu á gogoyoko, Tónlist.is, Bandcamp og í helstu plötubúðum á höfuðborgarsvæðinu.

Tónlistina má flokka sem “avant-garde rokk” eða tilraunarokk og spannar hún allt frá frekar léttu og melódísku acoustic poppi með þjóðlagaáhrifum yfir í níðþungt og rafmagnað rokk með viðkomu í eletróník. Hún sveiflast frá því að vera falleg og melódísk yfir í að vera drungaleg og ómstríð og frá því að vera hæg og epísk yfir í að vera villt og hröð. Blandað er saman dauðarokki, nútímaklassík og blús, dans og balkantónlist, klassísku rokki, raf og heimstónlist ásamt því sem platan inniheldur dreymandi hugljúfar ballöður og 80s poppmetal.

Textar eru sungnir bæði á íslensku og ensku og stundum er tungumálunum blandað saman.

ÍRiS sendir frá sér nýtt lag

PENUMBRA

Listamaðurinn ÍRiS sendi nýverið frá sér lag sem er að finna á nýútkominni plötu hennar sem nefnist PENUMBRA.

Á hljómplötunni PENUMBRA leikur ÍRiS með andstæður í tónlist. Tvinnuð eru saman hefðbundin hljóðfæri á borð við selló, píanó og antíkhljóðfæri við ýmsa rafhljóðgjafa. Úr verður lifandi samsetning sem er í senn lífræn og rafræn. Nafn plötunnar er tilvísun í þessa nálgun, en „Penumbra“ táknar það svæði þar sem algjört myrkur og algjört ljós mætast – eða í þessu tilviki, þar sem andstæður í tónlist mætast.

Plötuna sjálfa má heyra og versla á irismusiciris.bandcamp.com

Nýtt lag og myndband frá Ben Frost

Bedroom Community vinna nú að útgáfu nýrrar plötu með Ben Frost og kallast hún A U R O R A. Platan er gefin út á heimsvísu þann 26. maí næstkomandi í samstarfi við Mute útgáfufyrirtækið.

A U R O R A er fyrsta sólóplata Ben síðan BY THE THROAT (2009), en hún hlaut frábærar viðtökur og hefur nýju sólóefni frá Ben verið beðið með mikilli eftirvæntingu síðan.

A U R O R A er einstaklega metnaðarfull plata sem sýnir nýja og spennandi hlið á Ben. Hún var að miklu leiti tekin upp í Kongó en auk Ben eru hljóðfæraleikarar hennar þeir Shahzad Ismaily, Greg Fox (Liturgy) og Thor Harris (Swans). Um pródúseringu sáu Ben ásamt Valgeiri Sigurðssyni, Daniel Rejmer og Paul Corley.

Að ofan má sjá fyrsta myndband í seríu sem unnin var af Trevor Tweeten og Richard Mosse.

Ghostigital gefur út safnplötu og spilar á Merry Kexmas

Ghostigital

Ghostigital mun spila á “Have a Merry Merry Kexmas” tónleikaröðinni núna á fimmtudagskvöldið. Tónleikaröðin samanstendur af 3-4 stuttum tónleikum í veitingasal Kex Hostel út desember. Þar munu hljómsveitir kynna útgáfur sínar fyrir jólin og leika tónlist fyrir gesti staðarins. Ekkert kostar á tónleikana og hefjast þeir klukkan 20:30 og standa til 21:30.

Ghostigital var með útgáfupartý á Kex um seinustu helgi fyrir safnplötu sína The Antimatter Boutique. Safnplatan samanstendur af einstökum villilömbum sem ekki er að finna á breiðskífum sveitarinnar auk enduhljóðblandanna eftir listamenn eins og GusGus, Captain Fufanu, Gluteus Maximus, Futuregrapher, New York pródúserateymið MRC Riddims ofl.. Smekkleysa gefur plötuna út.

Áríðandi fréttatilkynning frá Per:Segulsvið

Per: Segulsvið - Tónlist fyrir hana

Per:Segulsvið hefur nú svipt hulunni af tveimur verkum sínum. Bókinni, Smiður finnur lúður og 12 laga breiðskífunni, Tónlist fyrir hana.

Per:Segulsvið hefur síðustu ár unnið að smíði þessara afurða til að fylgja eftir tónverkinu, Kysstu mig þungi Spánverji, sem var gefið út í takmörkuðu upplagi árið 2004.

Smiður finnur lúður, var upphaflega hugsuð sem barnabók en þróaðist yfir í að verða lesefni fyrir alla aldurshópa. Bókin hentar í senn miðaldra gröfumanni, 9 ára skólabarni og 16 ára sveitradreng með eyrnalokka. Bókin, sem er heiðarlega myndskreytt, segir frá smið nokkrum sem finnur lúður á förnum vegi og heillast snarlega af kostum hans.

Tónlist fyrir hana, er önnur hljómafurð Per:Segulsvið. Per skiptir nú um gír og fæst við poppskotið bændarokk og færir sig þannig frá örsöguforminu sem var allsráðandi á fyrri afurð.  Hér má heyra Per yrkja um ekki ómerkilegri hluti en Vikartind, Rene Russo, samnorræna vináttu, innrás Hitlers í Munaðarnes, þungan Spánverja og tugþrautarmann sem saknar móður sinnar. Verkið er sneisafullt af ilmandi dægurlögum og gómsætri dansmúsík sem heillar hvert mannsbarn.

Per:Segulsvið gefur báðar afurðirnar út á eigin vegum, í gegnum útgáfufyrirtæki sitt Vogor Recordings. Máttur alnetsins er mikill og þar má nú nálgast góssið gegnum slóðina www.persegulsvid.co.nf.

Ný plata frá Just Another Snake Cult

Cupid Makes a Fool of Me

Í lok síðasta mánaðar kom út nýjasta plata Just Another Snake Cult en hún nefnist Cupid Makes a Fool of Me. Platan er að öllu leiti samin, flutt, útsett, forrituð, hljóðblönduð og hljóðjöfnuð, hönnuð, klippt, skorin og límd af hljómsveitinni sjálfri. Það eru þau Þórir Bogason og Helga Jónsdóttir sem leiða sveitina en með þeim á plötunni koma m.a. fram Tumi Árnason, Tyler Martin, Shelby Turner og Dylan McKeever.

FALK safnar fyrir tónleikaferð á Karolina Fund

FALK

Óhljóða og jaðarlista félagskapurinn FALK (Fuck Art Let’s Kill) hefur á Karolina Fund hafið söfnun til að fjármagna 10 daga á tónleikaferð um Belgíu, Holland og Þýskaland.

FALK samanstendur af AUXPAN, OBERDADA von BRÛTAL, AMFJ og KRAKKKBOT, sem allir eru að gefa út nýja tónlist mánaðarlega frá og með október en tveir síðast nefndu fara í tónleikaferð, dagana 10. – 20. október til að kynna téðar útgáfur sem og félagsskapinn. Með í för verður sjónmyndasmiðurinn FIZK sem sér um að galdra fram myndræna framsetningu tónleikanna.

Tónleikaferðin hefur hlotið yfirskriftina FALK ÜBER EVROPA TOUR 2013 og liggur um N-þýskaland til Berlínar og þaðan til Hollands og niður til Belgíu. Eins og fyrr segir mun söfnunin fara fram á lýðsöfnunarsíðunni Karolina Fund og mun peningur sem safnast verða notaður til að standa undir kostnaði fyrir lestarferðum, gistingu og næringu á ferðinni.

Þessi fyrsta tónleikaferð FALK á erlendri grundu hefur í raun tvennan tilgang; bæði ætlum við að kynna okkur fyrir tónlistarunnendum þessara landa en á sama tíma starta tímabili af massívri útgáfuröð frá félagsskapnum sem verður rækilega kynnt á túrnum.

AMFJ leikur tilraunakennda óhljóða og industrial tónlist. Hann hefur verið að síðan 2008 þegar Aðalsteinn Jörundsson hóf að koma fram undir þessu nafni. Hann hefur gefið út nokkrar plötur, sú síðasta var BÆN sem kom út árið 2011.

KRAKKKBOT spilar einnig tilraunakennda raftónlist en blandar saman ólíkum pólum eins og hip hop og þungarokki inn í hljóð frá heimasmíðuðum drunboxum og hljóðbitar.

þann 26. september eru fjáröflunar tónleikar á Gauk á Stöng. Þóranna aka Trouble og Harry Knuckles, bæði snillingar á sviðinu, hita upp fyrir KRAKKKBOT og AMFJ. Tónleikar hefjast klukkan 21:00 1000 krónur inn

Allir sem leggja til aðstoð við verkefnið fá svo lítinn glaðning fyrir ómakið, eins og til dæmis áritað eintak af vinyl plötu eða jafnvel noise tónleika í heimahúsi.

Zoon van snooK – The Bridge Between Life & Death

Zoon van snooK

Mér barst til eyrna nokkuð áhugaverð plata með breska listamanninum Zoon van snooK sem nefnist The Bridge Between Life & Death en á henni er að finna fíngerða raftónlist með “folk” áhrifum eða “folktronica” eins og stefnan er oft nefnd. Hljóðin (sömplin) sem heyra má á plötunni eru að miklu leiti tekin upp hér á landi en einnig koma fram á plötunni íslenskir listamenn, nánar tiltekið Amiina, Benni Hemm Hemm og Sin Fang. Einnig munu liðsmenn múm hafa lagt til remix fyrir aðra smáskífu plötunnar.

Sjálfur segir Zoon van snooK frá dvöl sinni hér á landi á þessa leið:

In 2009 I finally managed to pull off the big trip: from the South West of England to the South West of Iceland. I knew it would be a great opportunity to gather the requisite sounds on which to base a whole new album. I was able to collect recordings from the centre, port and outskirts of Reykjavik, and the surrounding South Western area. From national parks to canyons; from hot springs to glaciers; from folk songs to folklore… I love being able to use an entire field recording.

Hér að neðan má heyra 12 mínútna “sampler”sem gefur greinilega til kynna að hér er afar forvitnileg plata á ferð.