Russel M. Harmon – Tragedy Fractures

Rjóminn hefur áður fjallað um tónskáldið enska Russel M. Harmon, sem búsettur er í Reykjavík, en hann sendi síðast frá sér plötuna We Are Failed. Russel hefur nú sent frá sér myndband við lag af plötunni en það heitir “Tragedy Fractures”.

Myndbandið má sjá hér að ofan en plötuna góðu má heyra hér að neðan.

Úsland kynnir sína sjöttu spunaplötu

ÚÚ6

Úsland er sjálfstæð hljóðverka útgáfa sem sérhæfir sig í spuna og tilraunum í tónlist. Markmið útgáfunnar er að koma saman fólki sem ekki hefur áður skapað saman tónlist og gefa þeim frjálsan vetvang til að kanna nýjar slóðir í sameiningu. Skapalón Úslands er þannig að listamenn eru leitaðir uppi og boðið að taka þátt í tilraunum í tónlist í hljóðveri útgáfunnar. Þar verja þeir kvöldstund/eftirmiðdegi/morgni og tilraunir þeirra festar á hljóðrit. Ekkert er átt við hljóðritið eftir upptöku og er það gefið út á internetinu strax í kjölfarið gegn vægu gjaldi. Ein hljómplata er gefin út á mánuði í 12 mánuði. Eftir 12 hljóðrit er stefna sett á fýsíska heildarútgáfu í vandaðri umgjörð.

Spunaröð útgáfunnar er nú hálfnuð. Sjötta hljóðrit Úslands útgáfu kom út á páskadag, 31. mars síðastliðinn. Platan, sem fékk nafnið ÚÚ 6, í samræmi við nafnalög útgáfunnar, er tímamótaverk í stuttri sögu Úslands. Ekki markar hún aðeins miðgildi útgáfunnar, heldur varð hún til úr fjölmennasta “sessíjóni” Úslands til þessa sem einnig var fyrsta fjölþjóða samstarfið sem Úsland hefur staðið fyrir.

Úsland fékk nú í síðasta mánuði styrk frá Kraum Tónlistarsjóð og heldur ótrautt áfram í tónlistarsköpun sinni, en styrkurinn verður nýttur til að bæta hljómburð hljóðversins svo að framtíðar plötur geti hljómað enn betur!

Hlusta má á og kaupa, fyrir lítin pening, allar útgáfur Úslands á www.uslandrecords.bandcamp.com

Allur ágóði fer til að viðhalda verkefninu, viðhalda spuna og viðhalda frelsi!

Colin Stetson kemur til Íslands

Colin Stetson

Bandaríski tónlistarmaðurinn Colin Stetson mun halda tónleika á tónleikastaðnum Volta þann 17. mars næstkomandi. Miðasala á tónleikana hefst föstudaginn 1. mars og fer fram á www.midi.is. Um upphitun sér Úlfur.

Colin Stetson er saxófónleikari frá Michigan fylki Bandaríkjanna en hefur gert út frá Montreal í Kanada undanfarin ár. Hann hefur starfað með fjölmörgum tónlistarfólki og hljómsveitum síðustu árin samhliða því að reka sinn eigin sólóferil. Arcade Fire, Tom Waits, TV on the Radio, Bon Iver, LCD Soundsystem, The National, David Byrne og Feist eru meðal þeirra sem hafa unnið með Colin Stetson.

Úlfur gefur út sína fyrstu breiðskífu undir eigin nafni þann 5. mars næstkomandi þegar platan White Mountain kemur út hjá bandaríska útgáfufélaginu Western Vinyl.

Úlfur sendir frá sér plötuna White Mountain

Úlfur

Tónlistarmaðurinn Úlfur hefur sent frá sér plötuna White Mountain og er hún sú fyrsta undir hans eigin nafni.

Úlfur hefur komið víða við í íslenskri jaðartónlistarsenu undanfarin ár, þá helst sem liðsmaður harðkjarnasveitarinnar Swords of Chaos og svo sem bassaleikari í tónleikahljómsveit Jónsa úr Sigur Rós.

White Mountain var gefin út í sérstakri japanskri útgáfu árið 2012, en kemur nú út á vínyl og geisladisk á öllum mörkuðum á bandaríska plötuútgáfufyrirtækinu Western Vinyl (Sem gefa meðal annars út Dirty Projectors, Balmorhea og Here We Go Magic).

Á plötunni hefur Úlfur fengið ýmsa tónlistarmenn til liðs við sig, en þar má helst nefna Skúla Sverrisson, Ólaf Björn Ólafsson og Alexöndru Sauser-Monnig. Platan var að hluta til tekin upp á tónleikaferðalögum um Evrópu og Bandaríkin, en hljóðblönduð í hljóðveri Alex Somers í Reykjavík.

ADHD 3 og 4

ADHD

Hljómsveitin ADHD, sem skipuð er nokkrum fremstu tónlistarmönnum landsins, gaf á síðasta ári út plöturnar ADHD3 og ADHD4. Upptökur fóru fram í Logalandi í ágúst og áttu upphaflega að vera fyrir eina plötu en sköpunargleðin var greinilega slík að úr varð efni í tvær plötur.

Lögin af plötunum má nú heyra í heild sinni á gogoyoko og eru lesendur hvattir til að kynna sér þau, þó ekki væri nema til að næra sálartetrið á smá djassi.

Evulög

Evulög

Evulög er samvinnuverkefni þeirra Gímaldins (Gísla Magnússonar) og Evu Hauksdóttur. Tónlistin er eftir neðanjarðarpopparann Gímaldin en textarnir eftir Evu. Ýmsir listamenn koma fram á plötunni og má þar m.a. nefna Megas, Láru Sveinsdóttur, Karl Hallgrímsson og Rúnar Þór.

Jólaglaðningur frá Bedroom Community

Þriðja árið í röð býður Bedroom Community hlustendum sínum upp á frítt jólamix, Yule, þegar keypt er í gegnum vefbúð útgáfunnar. Mix þetta inniheldur áður óútgefin lög frá öllum Bedroom Community listamönnunum: Ben Frost, Valgeiri Sigurðssyni, Nico Muhly, Daníel Bjarnasyni, Sam Amidon, Puzzle Muteson & Paul Corley – auk gesta á borð við söngkonuna Dawn Landes, raftónlistarmanninn Scanner og víóluleikarann Nadiu Sirota.

Gímaldin og HEK í Eurovision

Jaðarpoppararnir Gímaldin Magíster og HEK vinna um þessar mundir að elektró plötu. Tvö laganna þótti þeim það áheyrileg að þeir ákváðu að senda þau í forkeppni Eurovision. Því miður sá dómnefnd ekki ástæðu til að leyfa lögunum að fara áfram í aðalkeppnina og er það miður. Þessir úrvals poppslagarar hljóma hér að neðan, í öllu sínu veldi, Eurovision aðdáendum til ánægju og yndisauka.

Kóbrapopp fyrir kvikmyndir

Ármann Örn Friðriksson er ungur og upprennandi tónlistarmaður. Nýverið sendi hann frá sér EP plötuna Kóbrapopp fyrir kvikmyndir þar sem hann kannar kvikmyndatónlistaformið á skondinn og frumlegan hátt. Ármann flutti sjálfur, tók upp og hljóðjafnaði og blandaði.

Epic Rain – Elegy

Í síðustu viku kom út platan Elegy með hljómsveitinni Epic Rain en hún er um þessar mundir að fagna útgáfunni með tonleikaferðalagi um Frakkland og Ítalíu. Epic Rain er skipuð þeim Jóhannesi Pálmasyni, Bragar Eiríki, Stefáni Sampling, Guðmundi Rósusyni & Daða Jenssyni. 

Á plötunni nutu Epic Rain m.a. aðstoðar Roland Hartwell fiðluleikara, Magnúsar Elíassen trommuleikara, Héðins Björnsonar kontrabassaleikara og Elínar Ey söngkonu. Upptökur voru í höndum Finns Hákonar.

Ghostigital – Division of Culture & Tourism

Heilum sex árum eftir að hafa hrist heiminn með 2. plötu sinni; In God We Trust eru Ghostigital komnir aftur í öllu sínu veldi með nýja plötu. Unnin af ”hávaða snillingunum“ Einari Erni Benediktssyni og Curver. Tímanum hefur þó verið vel varið í millitíðinni í margvíslegum hljóð verkefnum en fyrst og fremst í að hljóðrita þriðju plötu blóðbræðranna, Division of Culture & Tourism.

Á plötunni fá þeir ýmsa listamenn til liðs við sig í einskonar túristahlutverk á plötunni. Þar ber að nefna rapparana Dälek og Sensational, gítarguðina King Buzzo (úr Melvins), listræna pönkara á borð við David Byrne úr Talking Heads og Alan Vega úr 70’s bandinu Suicide, magnaðan Nick Winner úr The Yeah Yeah Yeah’s, britpop meistarann Damon Albarn og til að toppa þetta allt saman, hina goðsagnakenndu íslensku experimental/noice hljómsveit Stilluppsteypa sem samdi fyrsta lag plötunnar, tileinkað Ghostdigital.

Platan var tekin upp í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna og í B109 í Reykjavík. Alap Morrin (Dälek) sá um hljóðblöndun í borginni New Jersey.

Nico Muhly – Drones & Violin

Í kjölfar útgáfu Drones & Piano í maí og Drones & Viola í júlí kemur nú út þriðja og síðasta “Drones” skáskífan eftir Nico Muhly á vegum Bedroom Community.

Drones & Violin inniheldur fjögur lög og var unnin af Valgeiri Sigurðssyni í Gróðurhúsinu. Um flutning sér finnski fiðluleikarinn Pekka Kuusisto sem ætti að vera Íslendingum kunnugur en hann hefur til að mynda komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Auk hans eru flytjendur Nadia Sirota – sem var í aðalhlutverki á Drones & Viola – og Nico sjálfur.

Plötuna má nú nálgast í sérstakri Bedroom Community forsölu á Bandcamp en hún verður svo fáanleg mánudaginn 27. ágúst á öllum helstu tónlistarveitum.

The Heavy Experience gefa út SLOWSCOPE

Kvintettinn The Heavy Experience mun gaf út plötuna SLOWSCOPE fimmtudaginn 16. ágúst síðastliðinn. Þetta er fyrsta breiðskífa sveitarinnar en áður hafa þeir gefið út samnenfnda stuttskífu, en hún kom út á 10 tommu hljómplötu síðla árs 2010 á vegum Kimi Records. Tónlist The Heavy Experience er illlýsanleg blanda drunutónlistar og djass; einföld en ákveðin, þunglamaleg en skýr.

The Heavy Experience hefur verið starfrækt frá árinu 2010 og er sveitin skipuð þeim Alberti Finnbogasyni, gítarleikara (Jarðfræðingur, Skelkur í Bringu, sóley, Swords of Chaos), Þórði Hermannssyni, bassaleikara (Tónsmiður, Enkidú, Heróglymur, Ólafur Arnalds), Brynjari Helgasyni (Myndlistarnemi, gítarleikara (Me, the Slumbering Napoleon, Carpet Show), Tuma Árnasyni, saxófónleikara (Frístundaleiðbeinandi, Just Another Snake Cult, Carpet Show) og Oddi Júlíussyni, trommuleikara (Leikaranemi, Doctuz, The Ministry of Foreign Affairs).

Feathermagnetik eftir Kira Kira

Hljómplatan Feathermagnetik eftir Kira Kira kom út í gær og er fáanleg í öllum helstu plötuverslunum landsins. Kira Kira er hliðarsjálf tónskáldsins og leikstjórans Kristínar Bjarkar Kristjánsdóttur og er hljómplatan hennar þriðja breiðskífa.

Feathermagnetik inniheldur 9 tónverk sem flokka má sem tilraunakennda raftónlist. Hljómur hennar er dekkri en á fyrri verkum Kira Kira og segja má að það kveði við nýjan tón í ferli hennar.

Platan kemur út á undirmerki þýska útgáfufélagsins Morr Music, Sound of a Handshake. Útgáfutónleikar vegna Feathermagnetik verða svo haldnir í Berlín þann 8. júlí og svo síðar í Reykjavík, en þeir verða auglýstir síðar.

Per : Segulsvið

Hin magnaða sveit Per : Segulsvið er komin aftur á kreik. Tónlistarunnendur muna eflaust eftir fyrstu og einu plötu sveitarinnar sem kom út síðla árs 2004 og bar titilinn Kysstu mig þungi Spánverji. Féll sú plata afar vel í kramið hjá hinum almenna íslending og hafði Jóhann, starfsmaður barnafatadeildar Hagkaups, þetta að segja um hana:

Per er náladofi svanga mannsins. Hann er þungur höggdeyfir á þilfari, goggrót straumandarinnar, ökli sílamávsins og naglaband emúans.

Eins og áður sagði eru fagrir tónar farnir að berast úr herbúðum Per : Segulsviðs og hefur sveitin nú sent frá sér hina hugljúfu ballöðu “Kjöthundur” en hún hljómar einmitt svona:

Ófært er svo annað en að láta lagið “Ufsanagga” af Þunga Spánverjanum fylgja með en þar segir m.a. frá, á átakanlegan hátt, hátekjumanninum Jóhanni og örlögum hans.