Nýtt frá Squarepusher

Undirrituðum þykir það alltaf nokkuð tiltökumál þegar raftónlistarjötuninn Squarepusher sendir frá sér nýtt efni. Væntanleg er frá honum í maí platan Ufabulum og á henni mun vera meðfylgjandi lag sem ber heitið “Dark Steering”.

Ljóst er að kappinn er búinn að uppfæra aðeins hjá sér sándið og kominn með svaka ljósasjóv (sem minnir reyndar svoldið á Daft Punk) og ef eitthvað er að marka það sem fyrir augu ber hér að neðan eiga raftónlistarunnendur sannarlega von á góðu.

Valgeir Sigurðsson semur tónlist við The Architecture of Loss

Valgeir Sigurðsson hefur haft í nógu að snúast undanfarið, en þar ber hæst að nefna tónlist sem hann samdi fyrir glænýtt verk eftir Stephen Petronio, The Architecture of Loss.

Petronio er einn virtasti danshöfundur okkar tíma og þykir sérlega naskur á að velja sér samstarfsfólk sem hæfir verkunum hans. Hann hefur áður unnið með tónlistarmönnum á borð við Rufus Wainwright, Lou Reed, Nick Cave og Yoko Ono, til að nefna einhver nöfn. Árið 1984 stofnaði hann sitt eigið dansfélag sem hefur aðsetur í New York en hefur verið duglegt að ferðast um allan heim og setja upp sýningar víða.

The Architecture Of Loss er glæsilegt verk sem er samið fyrir ellefu dansara. Verkið á sér fleiri norrænar rætur en tónlist Valgeirs, því færeyska hönnunarteymið Gudrun & Gudrun sér um búningana og hin færeyska Rannvá Kunoy um sjónrænu hlið verksins.

Frumsýning á verkinu fór fram í Joyce leikhúsinu í New York í síðustu viku við frábærar undirtektir. Auk Valgeirs er flutningur tónlistarinnar í höndum Nadiu Sirota og Shahzad Ismaily, en þau hafa unnið mikið með Bedroom Community í gegnum árin. Fyrirhuguð er svo ferð um norðurlöndin í haust til að sýna verkið, að sjálfsögðu með stoppi í Reykjavík.

The Architecture of Loss from Blake Martin on Vimeo.

AMFJ sendir frá sér BÆN

Hljómplatan BÆN verður fáanleg í öllum betri hljómplötuverslunum 21. mars næst komandi. Platan er þriðja útgáfuverkefni AMFJ (Aðalsteins MotherFucking Jörundssonar) og það fyrsta sem kemur út á geisladiski. Tónlist AMFJ er að öllu jöfnu lýst sem óhljóðatónlist og/eða listrænt ágengri raftónlist. Platan er ágeng og hávær en AMFJ sækir innblástur víða og meðal annars til íslenskrar samtíðar, dauðarokks og þjóðsagna. Á plötunni er ekki fetaður meðalvegur heldur takast á brjálæðislegar hæðir og tilfinningaþrungnar lægðir. Það er því ekki hægt að segja að platan sé aðgengileg fyrir hinn dæmigerða tónlistarneytanda. BÆN er krefjandi plata fyrir lengra komna.

BÆN var unninn í samvinnu við Valdimar Jóhannsson (Reykjavík!, Lazyblood) og gefin út af FALK Í desember 2011.

Drekka á Íslandi

Drekka er alter-ego tilraunartónlistarmannsins og Blue Sanct gúrúsins Michael Anderson frá Bloomington, Indiana. Einhverjir ættu að kannast við Drekka, enda hefur hann komið og spilað í Reykjavík margoft á síðasta áratug. Tónlist Drekka er draumkennd og myndræn og er oft líkt við industrial sveitir níunda áratugarins á borð við Coil og cindytalk. Undanfarnar vikur hefur listamaðurinn verið á tónleikaferð um Evrópu með  Canid og lýkur tónleikaferð þeirra í Reykjavík dagana 4. og 5. Febrúar.

Tvennir tónleikar verða haldnir, þeir fyrri þann 4. Febrúar í Artíma Gallerí við Smiðjustíg 10. Ásamt Drekka og Canid spilar hljómsveitin MVNVMVNTS og hefjast tónleikarnir klukkan 20:00

Síðari tónleikarnir verða á Bakkus við Laugarveg 22 þann 5. Febrúar og hefjast 21:00. Í þetta skiptið sér Þórir Georg um upphitun, en í síðasta mánuði gaf hann út hina stórgóðu vetrarplötu Janúar.

Ekki verður rukkað inn á tónleikana en beðið er um 500 – 1000 króna framlög til túrandi listamannanna.Öll Bítlalögin í einu

Hey, hversu mikið fílaru Bítlana? Nógu mikið til að hlusta á öll lögin í einu? Um daginn rakst ég á hljóðskrá þar sem einhver hefur tekið saman öll 226 lögin sem komu út með Bítlunum, sett þau saman  og stillt þau þannig af að þau enda á sama tíma. Það krefst mikils úthalds að komast í gegnum “lagið”. Eða eins og einn netverji sagði: ,,Þetta verður rosalega flókið undir lokin. En svoleiðis enduðu Bítlarnir líka.”

All Together Now – Everything the Beatles Ever Did

Sveim í svart/hvítu

Árið 1995 var haldið upp á 100 ára afmæli kvikmyndasýninga út um allan heim. Í tengslum við aldarafmælið fengu þástarfandi umsjónarmenn tónleika Hins húsins, Curver Thoroddsen og Birgir Örn Steinarsson, þá hugmynd um að setja saman kvöld þar sem framsæknar rafhljómsveitir spiluðu undir þöglum myndum. Á þeim tíma var lítið um tónleikatækifæri fyrir tilraunakenndar rafsveitir og var kvöldið hugsað sem athvarf fyrir þær. Viðburðurinn varð að föstum lið á Unglist á árunum 1995-2000 og þróaðist áfram. Margir af ástsælustu jaðartónlistarmönnum landsins hafa spilað á Sveimi í svart/hvítu m.a. Múm, Plastik, Reptilicus, Hilmar Jensson, Biogen heitinn og Sigur Rós. Í tilefni tuttugu ára afmæli Unglistar verður viðburðurinn endurvakinn með pompi, pragt og tilraunasveitum dagsins í dag. Þeir félagar Birgir og Curver sjá aftur um að skipuleggja herlegheitin.

Sérstaklega gaman er að fá Múm til að rifja upp gömul kynni við Sveimið. Sveitin spilaði tvisvar á viðburðinum, árið 2000 og 1998, en það var eitt af fyrstu skiptunum sem að Múm komu fram. Í ár ætla þau að spinna tónlist óundirbúið yfir seinni hluta kvikmyndarinnar Cabinet of Dr. Caligari. Um er að ræða hryllingsmynd frá árinu 1920 sem fjallar um hin vitskerta Dr. Caligari og svefngengilinn Cesare sem saman fremja hrottaleg morð. Sigursveit Músíktilrauna í ár, Samaris, spila yfir fyrri hluta myndarinnar.

Hin stórskemmtilega Dj. Flugvél og geimskip spilar sína furðutónlist undir surrealísku myndinni Un Chien Andalou eftir Salvador Dalí og Luis Bunuel.

Futuregrapher – TomTom Bike (album-sample)

Klassíska kvikmyndin Faust eftir F. W. Murnau fær við sig tónlist úr þremur áttum. Futuregrapher gaf nýverið út fjórðu breiðskífu sína, TomTom Bike, er inniheldur draumkennda ambient tónlist. Úlfur (listamaðurinn Úlfur Hansson, áður þekktur sem Klive) var að klára nýja plötu og hávaðaseggirnir í Pyrodulia skipta þessari skemmtilegu mynd á milli sín.

Föstudagur 11. nóv.
Tjarnarbíó v/Tjarnargötu kl: 20:00
Ókeypis er inn á alla viðburði Unglistar.

Amma Lo-Fi

Amma Lo-Fi er stuttheimildarmynd Orra Jónssonar og Kristínar Bjarkar Kristjánsdóttur með hreyfimyndum Ingibjargar Birgisdóttur um þýsk-dansk-íslensku tónlistarkonuna Sigríði Níelsdóttur. Sigríður er fædd 1930 en hóf að taka upp eigin tónlist þegar hún var komin yfir sjötugt og 7 árum seinna hafði hún gert fleiri en 600 lög sem hún hafði gefið út á 59 geisladiskum (eflaust eitthvað búið að bætast við síðan þá). Sigríður er greinilega ein af þeim fjölmörgu manneskjum sem láta lítið fyrir sér fara og eru eilítið á skjön við það sem eðlilegt þykir í samfélaginu, en þrátt fyrir það (eða einmitt þess vegna) búa yfir fullkomlega ósjálfsmeðvitaðri snilligáfu. Krúttsenan tók hana upp á sína arma, enda passar öll fagurfræði Sigríðar – dótahljóðfæri, eldhúsáhöld, gamaldags heimilisleiki, lo-fi – eins og flís að krúttrassinum.

Fyrir þá sem vilja vita meira, þá er hægt að finna viðtal sem Stuart Rogers tók við Sigríði og Kiru Kiru fyrir nokkrum árum hér.

Öppdeit: Myndin verður víst frumsýmd í Kaupmannahöfn um helgina

Nýtt og gott: Sandro Perri – Impossible Spaces

Líklega besta nýja platan sem ég hef heyrt í nokkrar vikur er platan Impossible Spaces með Toronto-búanum Sandro Perri. Sandro tekst á lúmskan hátt að blanda saman tilraunamennsku og pabbatónlist. Hann notar bæði jazzhljóma, pólýryþma, blásturshljóðfæri og elektróník til að búa til vinalega dramatískt þjóðlagapopp. Kannski hljómar þetta ekki spennandi, en stundum eru það einmitt hlutirnir sem virka ekki á blaði sem virka fullkomlega í hljómi. Það er hægt að hlusta á Impossible Spaces í heild sinni á heimasíðu Constellation Records útgáfunnar, eða þá bara hérna fyrir neðan. Þú gætir allavega notað næstu 10 mínútur í mun heimskulegri hluti en að hlusta á lagið  “Wolfman”.

Nýtt 24 tíma lag frá The Flaming Lips

Það hefði kannski frekar verið við hæfi að hafa nýja 24 tíma lagið með The Flaming Lips, “7 Skies H3” sem rjómalag dagsins. Hægt er að hlýða á lagið í live-streami á netinu í dag og væri því upplagt að hringja í Sigga Sýru, bjóða honum í heimsókn og hanga inni í allan dag og hlusta á nýja tónlist með Flaming Lips. Ef maður er hins vegar upptekinn getur maður bara keypt lagið á USB-lykli sem er inni í alvöru hauskúpu af manneskju. Kostar litla 5000 dollara.

Hlustið eða kaupið á http://flaminglipstwentyfourhoursong.com/

Rjómalagið 30.október: The Books – Free Translator

Eitt frumlegasta og hugmyndaríkasta band síðustu ára er, að mínu mati, hollensk-ameríska hljómsveitin The Books. Tónlist sveitarinnar er að mestu leyti unnin upp úr og í kringum hljóð sem meðlimirnir finna á förnum vegi og klippa saman í nýja heild. Ólíkt t.d. Girl Talk sem blandar allskonar tónlist saman í mash-up, notast The Books að miklu leyti við talað mál og búa þannig til frásögn eða söguþráð sem tónlistin er unnin í kringum. Í sköpun hljóðmyndarinnar notast The Books oftast við rafræn hljóð til að túlka slagverk og svo órafmögnuð hljóðfæri, gítar og selló, ofan á.  Klippimyndaviðhorfið til listarinnar nær þó lengra en einungis til þess að blanda inn í tónlistina gömlum hljóðbútum, því að ef sveitin syngur sjálf eru textarnir unnir upp úr orðum annarra. Gott dæmi er lagið “Free Translator” af nýjustu plötu sveitarinnar The Way Out sem kom út í fyrra. Gítarleikarinn og söngvarinn Nick Zammuto segir frá tilurð texta lagsins.

“Fyrir þetta lag tókum við þekkt þjóðlag (sem okkur hefur verið ráðlagt að nefna ekki) og með því að nota frían þýðingarbúnað, þýddum við textann milli mála: til dæmis yfir á þýsku, þaðan yfir á ítölsku, úr henni yfir á frönsku, svo á sænsku og svo að lokum yfir á ensku. Útkoman var mögnuð. Allt myndmálið varð fullkomlega öfugsnúið, setningabyggingin var snilldarlega brengluð,  óvenjuleg nafnorð birtust óútskýranlega í undarlegum samhengjum… þetta vað frjálst hugsanaflæði tölvunnar byggt á upprunalega textanum að svo miklu marki að “kóverið” var orðið að nýju lagi. Þegar hingað var komið var því algjörlega óljóst hver hafði samið lagið… þetta var einhverskonar fjöldasamstarf málfræðinga, forritara og lagasmiða. Bæði Paul [de Jong sellóleikari og hinn helmingur The Books] og ég þýddum og endurþýddum textann þangað til nýju stafirnir fóru smám saman að birtast og þá söfnuðum við bestu augnablikunum saman í textann okkar.”

Það hafa verið færð nokkuð sannfærandi rök fyrir því að lagið sem um ræðir sé “Subterranean Homesick Blues” eftir Bob Dylan, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Undirleikurinn í laginu er svo m.a. unninn upp úr gamalli gítarkennsluplötu og Svissneskri heimildarplötu.

The Books – Free Translator

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

7oi vinnur að röð myndbanda við eigin tónlist

Jóhann Friðgeir Jóhannsson, sem gengur allra jafna undir listamannsnafninu 7oi, vinnur nú að röð minimalískra myndbanda við eigin tónlist, efni sem hann hefur langað að gefa út í langan tíma.

Fyrsta myndbandið má sjá hér að ofan en von er á fleiri myndböndum og má auk þess fastlega búast við að tónlistin verði gefin út stafrænt eða í takmörkuðu upplagi á annan máta.

Fylgjast má með myndböndum 7oi hér á Youtube.

Kjarr

Frumraun tónlistarmannsins Kjarr (Kjartan Ólafsson) er nú komin út. Breiðskífan, sem ber nafn höfundar síns, var þrjú ár í vinnslu og fór vinnsla plötunnar fram í Reykjavík, Hafnarfirði og Glasgow. Öll lögin eru úr hugarheimi Kjartans Ólafssonar, sem gerði garðinn frægann með hljómsveitunum Ampop og Leaves, og eru þau öll í gegnsýrðum stíl fyrir neðan marka meðvitaðrar skynjunar. Platan er nú einungis fáanleg á hinum íslenska tónlistarvef Gogoyoko, en kemur út viku síðar í geisladiskaformi í allar helstu plötubúðir landsins.

Bix – Animalog

Þann 7. september síðastliðinn kom út breiðskífan Animalog með raftónlistamanninum Bix (Birgir Sigurðsson).  Bix hefur verið síðustu þrettán árin starfandi í Nýju Jórvík og Borg Englanna og getið sér gott orð í auglýsingabransanum þar ytra. Hann hefur m.a. unnið  auglýsingar fyrir leikjarisann EA Games, Replay Jeans og Austin Mini Cooper.

Nú hefur týndi sonurinn snúið heim og hefur verið að trylla lýðinn á raftónlistarkvöldum hér og þar. Nú kætir hann okkur enn frekar með útgáfu þessarar nýju breiðskífu sem hefur að geyma vandaðar rafsmíðar og vel heppnaðar taktvinnslur, eins og honum er einum lagið. Platan kemur út á hans eigin vegum, Muhaha Records, og hefur að geyma tíu vel heppnaðar lagasmíðar.

Nýja platan Animalog er fáanlega á Bandcamp fyrir einungis 9,99 dollara (1,157 isk samkvæmt núverandi gengi).

Ólafur Arnalds : Living Room Songs

Fyrir tveimur árum tók Ólafur Arnalds sig til og samdi og gaf frjálst til niðurhals eitt lag á dag í heila viku. Verkefnið kallaði hann Found Songs. Nú ætlar Ólafur að endurtaka leikinn undir heitinu Living Room Songs en í þetta skiptið býður hann aðdáendum sínum að fylgjast með sér við tónsmíðarnar og ætlar því að festa framvinduna á filmu og streyma yfir Alnetið.

Við skulum leyfa Ólafi að útskýra þetta sjálfum:

Verkefnið hefst í dag og verður út vikuna. Ætti fyrsta lagið og myndbandið að vera fáanlegt á livingroomsongs.olafurarnalds.com uppúr klukkan tíu í kvöld. Fylgist með.

Ghostigital sendir frá sér nýtt lag

Ghostigital var að senda frá sér nýtt lag svona rétt til að minna á sig og láta vita af stórri plötu sem þeir munu gefa út seinna á árinu.

Lagið heitir “Don’ Push Me” og eru á því eru tveir góðir gestir. Eru það goðsagnakenndi experimental rapparinn og rugludallurinn Sensational annars vegar og Nick Zinner, sem spilar á gítar en hann er gítarleikari bandarísku rokksveitarinnar Yeah Yeah Yeahs,

Sensational hefur áður unnið með Ghostdigital en nýlega kom út heimildarmynd um hann í fullri lengd, The Rise and Fall and Rise of Sensational þar sem Curver er meðal viðmælenda. Nick þekkja svo flestir en hann er frægur fyrir sérstaka nálgun á gítarleik og fyrir að hafa einstakt sánd.

Síðustu vikur hafa meðlimir Ghostdigital unnið við að mixa nýju plötuna með Alap Momin (a.k.a. Oktopus úr Dälek) í gegnum netið en hann bý í New York. Mun platan verða 11 laga og kemur hún út hjá Smekkleysu.

Ghostigital – Don’t Push Me ft. Sensational + Nick Zinner

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Battles hjá Blogotheque

Á rápi mínu um netið rakst ég á tvö læv myndbönd af Battles frá hinni stórskemmtilegu síðu Blogotheque.  Þar má sjá tríóinn leika tvö lög af hinni frábæru Gloss Drop í mjög svo konunglegum sal einhversstaðar í Parísarborg. Meðlimir sveitarinnar eru augljóslega í miklu stuði og má sjá þá súpu rauðvín á milli þess sem þeir hálfpartinn ganga af göflunum.

Hér fyrir neðan má svo líka sjá nýlegt myndband Battles við lagið “My Machines”. Aðalleikarar eru Gary Numan og ónefndur maður sem á í einhverjum vandræðum með að koma sér úr rúllustiga.

Battles – Wall Street (frá Blogotheque.net)

Battles – Futura (frá Blogotheque.net)

Battles feat. Gary Numan – My Machines