Public Enemy, Swans, Lightning Bolt, Bardo Pond o.fl. bætt við ATP

ATP logo

Í fréttatilkynningu segir:

Pólitískt hlöðnu hipphopp sveitina Public Enemy ættu flestir að þekkja sem fremsta meðal jafningja, sem treður upp hér á landi í fyrsta sinn í ár. Hinnar goðsagnakenndu Swans hefur verið beðið af mikilli eftirvæntingu af æstum aðdéndum sveitarinnar hér á landi. Bardo Pond frá Philadelpiu bjóða upp á einstakt 90’s geim-rokk sitt og Lightning Bolt fylgja eftir plötu sinni Fantasy Empire með tónleikum sem munu án efa reyna á hávaðamörk áhorfenda. Íslensku hljómsveitirnar þarf svo varla að kynna, en saman sýna þær fjölbreytta flóru íslenskrar tónlistar, merkta sama gæðastimplinum. Þær eru : GrísalappalísaValdimar, Stafrænn Hákon, Oyama, Mr Silla og Kippi Kaninus.

Til að mæta fjölda fyrirspurna hefur hátíðin nú sett á laggirnar nýtt fyrirkomulag sem gerir áhugasömum kleift að skipta greiðslum helgarpassa (auk rútuferða) til helminga. Hér má greiða fyrri helming (til og með 30. apríl), en að því loknu fær viðkomandi sendan link með frekari upplýsingum um seinni greiðsluna (til og með 31. maí). Athugið: Mikilvægt er að greiða innan þessara dagsetninga, annars eru miðakaupin ógild.

Almenna miða má nálgast á midi.is þar sem einnig er hægt að lesa meira um fyrirkomulag miðasölu og þá möguleika sem eru í boði.

Hægt er að fjárfesta í þjónustu Rent-A-Tent sem bjóða upp á tilbúin tjöld ásamt fylgihlutum og aðgengi hátíðar-tjaldsvæðisins, svo það eina sem þarf að gera er að mæta á svæðið. Sjá meira hér.

ATP verður haldin á Ásbrú, fyrrum varnarliðssvæðinu, sem á sér sögu sem rekur aftur til ársins 1941 en bandaríski herinn yfirgaf svæðið árið 2006. Svæðið er staðsett í fimm mínútna aksturfjarlægð frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Reykjanesbæ, um korter frá Bláa Lóninu og hálftíma frá höfuðborgarsvæðinu. Á hátíðarsvæðinu verða tvö svið sem bæði eru innandyra, auk annars konar skipulagðrar dagskrár sem tilkynnt verður um síðar. Líkt og fyrri ár verður hægt að kaupa krásir á viðráðanlegu verði á hátíðarsvæðinu, en í ár verður úrvalið breikkað og sölustöðum bætt við flóruna.

Red Barnett – Útgáfutónleikar og söfnun á Karolina Fund

Í fréttatilkynningu segir:

Haraldur V. Sveinbjörnsson gefur út sólóplötuna Shine undir nafninu Red Barnett og hrindir af stað söfnun á Karolina Fund. Útgáfutónleikar eru fyrirhugaðir í Fríkirkjunni 17. apríl sama dag og listamaðurinn fagnar stórafmæli sínu. Lagið “Life Support” þegar komið á vinsældarlista Rásar 2.

Tónlistarmaðurinn Haraldur V. Sveinbjörnsson, sem öllu jafna er kallaður Halli, sendir bráðlega frá sér sína fyrstu sólóplötu undir listamannsnafninu Red Barnett. Halli er þúsundþjalasmiður í tónlist og hin síðari ár hefur hann verið í hringiðu margra af athyglisverðustu tónlistarviðburðum landsins, þótt hans hlutverk hafi á stundum verið talsvert falið. Hann útsetti tónlist Skálmaldar fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, en þeir tónleikar hlutu í síðasta mánuði Íslensku tónlistarverðlaunin sem viðburður ársins. Hann hefur auk þess útsett tónlist Gunnars Þórðarssonar, Pink Floyd og Páls Óskars fyrir Sinfó, svo fátt eitt sé nefnt.

Red BarnettHalli er lærður í klassískum tónsmíðum en er ekki einhamur í tónlist. Snemma vakti hann áhuga margra sem gítarleikari og helsti lagasmiður gruggsveitarinnar goðsagnakenndu Dead Sea Apple, sem freistaði gæfunnar í hinum stóra heimi. Hann er annar söngvara Manna Ársins og tók nú nýverið við stöðu bassaleikara í hljómsveitinni Buff. Hann hefur síðustu misserin komið reglulega fram með Dúndurfréttum og Skálmöld sem hljómborðsleikari. Þá hefur Halli unnið með og útsett fyrir fjölda tónlistarmenn bæði íslenska og erlenda.

Að sögn Halla er hugmyndin um að gefa út sólóplötu undir nafni Red Barnett orðin ríflega 10 ára gömul. Fyrsta lagið var tekið upp árið 2005 og undanfarinn áratug hafa lögin verið hljóðrituð samhliða öðrum, fyrirferðarmeiri verkefnum Halla. Smátt og smátt hefur sólóskífan því tekið á sig mynd og nú ætlar Halli að gefa sjálfum sér og aukasjálfinu Red Barnett, fullt pláss til þess að skína.

Tónlist Red Barnett er best lýst sem angurværri rökkurtónlist og yrkisefnið er lífið og tilveran í stóra samhenginu. Halli sér að langmestu leyti um upptökur og hljóðfæraleik sjálfur en nokkrir góðir kunningjar hafa lagt honum lið á langri leið. Nýlega fór lagið “Life Support” í spilun og við sama tækifæri tilkynnti Halli um hópsöfnun/forsölu á plötunni á vef Karolina Fund til að fjármagna lokahnykk útgáfunnar. Útgáfunni verðu svo fagnað með sérstökum útgáfutónleikum í Fríkirkjunni þann 17. apríl næstkomandi en miðasala verður auglýst fljótlega. Þess má geta að sama dag fagnar listamaðurinn 40 ára afmæli sínu.

Anna María sendir frá sér plötuna Hver stund með þér

Í fréttatilkynningu segir:

Anna María Björnsdóttir er að gefa út sína aðra sólóplötu Hver stund með þér. Anna María samdi alla tónlistina á plötunni við ástarljóð sem afi hennar, Ólafur Björn Guðmundsson, orti til ömmu hennar, Elínar Maríusdóttur, yfir 60 ára tímabil. Samhliða geisladisknum er verið að klára heimildarmynd um ljóðin, ástina, Óla og Ellu. Svavar Knútur Kristinsson syngur og spilar með Önnu Maríu á plötunni sem tekin var upp síðastliðið sumar á heimili foreldra Önnu Maríu í Garðabæ.

Anna María sá þessi ljóð fyrst eftir að afi hennar og amma voru bæði látin og fannst henni þau geyma mikinn fjársjóð um ástina og það fagra í heiminum.

,,Ljóð afa til ömmu fela í sér fallegan boðskap um hvernig ástin getur haldist hrein og vaxið og dafnað í heila mannsævi. Þau hafa haft sterk áhrif á mig og langaði mig að gera þau aðgengileg fleirum á þann hátt sem best liggur fyrir mér, með söng og tónlist. Ég settist því niður við píanóið mitt í Kaupmannahöfn fyrir tæpum tveimur árum og hóf að semja og útsetja tónlist við ljóðin. Árangurinn af því er þessi plata. Vona ég að ljóðin hans afa muni þannig lifa áfram og veita öðrum þá gleði sem þau hafa veitt mér.“

segir Anna María.

Útgáfutónleikarnir verða fimmtudagskvöldið 12.mars kl 20:00 í Salnum í Kópavogi. Miðasala á midi.is

Secret Swing Society á Café Rosenberg, 25. febrúar

Secret Swing Society

Í fréttatilkynningu segir:

Hljómsveitin Secret Swing Society heldur tónleika á Café Rosenberg, Klapparstíg, miðvikudagskvöldið 25. febrúar kl. 21:00.

Hljómsveitin leikur og syngur gamaldags sveiflutónlist, frumsamda og ættaða frá höfundum og flytjendum á borð við Duke Ellington, Gershwin bræðrum, Louis Armstrong, The Mills Brothers, Louis Prima, Django Reinhardt og Fats Waller.

Hljómsveitin var stofnuð í Amsterdam árið 2010, meðan meðlimir hennar stunduðu þar tónlistarnám, og hefur hún spilað mikið úti á götum, mörkuðum og síkjum borgarinnar. Einnig hefur hún ferðast til fleiri borga í Hollandi, Belgíu, Frakklandi, Þýskalandi, Litháen og á austurströnd Bandaríkjanna, ýmist til að spila á jazzhátíðum, tónleikum eða úti á götum. Secret Swing Society hafa tvisvar komið fram á Jazzhátíð Reykjavíkur, ásamt því að standa sjálfir fyrir tónleikum og dansleikjum í Reykjavík og úti á landi.

Meðlimir eru Andri Ólafsson á kontrabassa, Grímur Helgason klarinettleikari, franski gítaristinn Guillaume Heurtebize, trompetleikarinn Dominykas Vysniauskas frá Litháen, og píanistinn, Hafnfirðingurinn og harmónikkuleikarinn Kristján Tryggvi Martinsson, en þeir syngja allir.

Cheddy Carter á Kex Hostel í kvöld

Cheddy Carter

Í kvöld mun hip-hop hljómsveitin Cheddy Carter frumflytja nýtt efni fyrir gesti og gangandi á Kex Hostel. Tónlistarmaðurinn Vrong mun mýkja hljóðhimnur gesta frá kl. 21:00, áður en Cheddy Carter stígur á stokk. Aðgangur er ókeypis.

Cheddy Carter er nýtt hip-hop band sem saman stendur af Fonetik Simbol, IMMO og Charlie Marlowe. Hljómsveitin var stofnuð í byrjun árs 2014 og hefur síðan þá eytt sínum tíma í að skola niður nautakjöti og ostum með rauðvíni í hljóðveri sínu.

Meðlimir Cheddy hafa unnið saman undir öðrum formerkjum síðan árið 2002 og má segja að Cheddy Carter sé ein af þeim fáu sem halda lífi í íslensku hip-hopi á enskri tungu.

Fyrsta myndband Antimony

Antimony er nýbylgju drunga-popp sveit frá Reykjavík og samanstendur af RX Beckett, Birgi Sigurjóni Birgissyni, og Sigurði Angantýssyni. Þau blanda saman straumum og stefnum frá jaðar- tónlist níunda áratugarins á borð við goth og cold wave. Ímyndin og hugmyndafræðin á bakvið útlit og stefnu bandsins eru dregin frá ýmsum menningarkimum og má þar nefna myndir eftir David Lynch, pönk, óhefðbundnar kynímyndir, vísindaskáldsskapur og hryllingsmyndir.

Antimony hefur gefið út sitt fyrsta lag sem nefnist “So Bad” og myndband við af frumburði sínum OVA sem kemur út 11.Febrúar.

Sveitin spilar sama dag á Húrra ásamt russian.girls, Döpur og Börn. Aðgangseyrir er 1000 kr. og rennur ágóðinn óskertur til Krabbameinsfélagsins.

Frumsýningargleði Sesar A í kvöld

Sesar A Banner

Í tilefni af frumsýningu nýrra tónlistarmyndbanda Sesar A og enduropnun heimasíðunnar, www.sesar-a.com, verður slegið upp gleðskap á Gauknum í kvöld.

Heimasíðan, sem fór fyrst í loftið árið 2000, er núna orðin miðstöð tengla fyrir það helsta sem tengist Sesar A á netinu. Þar er m.a. beintenging inn á samfélagsmiðlana, myndbandsrásir á vimeo og þúskjánum (youtube) sem og Bandcamp síðu Sesar A.

Síðastnefnda síðan, www.sesara.bandcamp.com, býður upp á frítt niðurhal af nýja laginu “Láttu renna”. Allar plötur Sesar A eru einnig væntanlegar þar inn: Stormurinn á eftir lognin, Gerðuþaðsjálfur og Of gott…. Gestur á síðunni ræður hvort hann styrkir listamanninn, fyrir niðurhal á lögum hans, eða setur “0” í reit fyrir kaupverð og halar þannig niður frítt. Sömuleiðis er hægt að streyma frítt af síðunni.

Á í kvöld verða frumsýnd ný tónlistarmyndbönd við lögin “Láttu renna” og “Nema hvað”.

Í framhaldi leikur Sesar A ásamt Dj Kocoon og Anítu Laskar fyrir dansi, sérstakir gestir eru Blaz Roca, Herra Hnetusmjör og Dj Moonshine.

Aðgangur er ókeypis, happy hour á barnum frá kl. 21-22.

Oyama og Tilbury á tónleikum

Tónleikar Oyama og Tilbury

Hljómsveitin Oyama er hægt og rólega að rísa úr dvala eftir annasama haustmánuði árið 2014. Auk þess að fara í tónleikaferð til Japan gaf sveitin út plötuna Coolboy í nóvember sem hlaut frábærar viðtökur og var inni á langflestum topplistum íslenskra miðla, auk þess sem lagið “Siblings” var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Nú blása Oyama til tónleika ásamt hljómsveitinni Tilbury og fara herlegheitin fram 6. febrúar á Húrra. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og kostar 1500 kr. inn.

Af þessu tilefni hafa Oyama ákveðið að gefa áhugasömum lagið “Another Day” af plötunni Coolboy sem frítt niðurhal á Bandcampsíðu sinni. Laginu má hlaða niður hér.

Berlin X Reykjavík Festival

Poster

Extreme Chill Festival og tónlistarhátíðin Berlín XJAZZ kynna : Berlin x Reykjavík Festival – Reykjavík 26-28. Febrúar og Berlín 5-7. Mars.

Hátíðin í Reykjavík verður haldin á Kex Hostel og á Húrra dagana 26 – 28 Febrúar.
það verða um 23 hljómsveitir og tónlistarmenn sem munu troða upp í Reykjavík og Berlín.

Dagskráin er ekki af verra endanum en tónlistarmenn á borð við. Emiliana Torrini ásamt Ensemble X frá Berlín, Claudio Puntin, Skúli Sverrisson, Jazzanova, Christian Prommer, Studnitzky Trio & Strings, Epic Rain, Qeaux Qeaux Joans, o.fl.ofl.

Passin á hátíðina kostar aðeins 5900 kr. alla þrjá dagana í Reykjavík og fyrir þá sem ætla líka að skella sér til Berlínar munu geta notað passann sinn þar en hátíðin í Berlín verður dagana 5-7 Mars á hinum magnaða stað Neau Heimat.

Miðasala er  á midi.is

Moses Hightower og Dillalude á tónleikum á Kex í kvöld

Dillalude

Hljómsveitirnar Moses Hightower og Dillalude halda tónleika á Kex Hostel í kvöld, mánudagskvöldið 22. desember.

Moses Hightower er hljómsveit fjögurra mana hljómsveit úr Reykjavík sem spilar heillandi bræðing af raffönki, silkimjúku snekkjurokki og suðrænu trópikalía-poppi. Moses Hightower gaf út eina af rómuðustu breiðskífu ársins 2012 sem nefndist Önnur Mósebók en fyrsta breiðskífa þeirra, Búum til börn, hlaut einróma lof og báðar hafa þær unnið til Íslensku tónlistarverðlaunanna og Úrvalslista Kraumslistans.

Moses Hightower skipa þeir Andri Ólafsson, Daníel Friðrik Böðvarsson, Magnús Trygvason Elíassen og Steingrímur Teague.

Dillalude heitir fjögurra manna instrumental hip hop sveit úr Reykjavík og er hún óður meðlima til pródúsentsins J Dilla. J Dilla þykir einn af merkustu hip hop pródúsentum samtímans og féll hann frá langt um aldur fram fyrir átta árum. Þekktastur var hann fyrir að starfa með tónlistarmönnum á borð við Common, Erykah Badu, A Tribe Called Quest, Janet Jackson, Madlib, De La Soul og fleirum.

Meðlimir Dillalude eru fjórir eru það þeir Ari Bragi Kárason, Benedikt Freyr Jónsson, Magnús Trygvason Elíassen og Steingrímur Teague.

HACKER FARM á Íslandi 4. og 6. desember

Hacker Farm poster

Fimmtudaginn 4. desember og laugardaginn 6. desember stendur FALK fyrir tvennum tónleikum með bresku tilraunarmúsíköntunum í Hacker Farm. Þessir tónleikar, sem verða haldnir í Mengi og á Paloma Bar, eru frumflutningur Hacker Farm á Íslandi og munu aðstandendur FALK, tónlistamaðurinn AMFJ og Krakkbot ásamt sérvöldum listamönnum úr raftónlistargeiranum hita upp.

Búast má við rafrænni óreiðu, kasettuúrgangi og breyttu leikjasándi. Pínku pönkað, en án þess að fá lánað þriggjastrengja hljóma og takta frá The Kinks. Smáskammtaútgáfa af betra líferni.

Fjórar framsæknar konur halda tónleika á Kex Hostel

Kira Kira

Tónlistarkonurnar Kira Kira, Flying Hórses og Portal 2 xtacy halda tónleika á Kex Hostel mánudagskvöldið 17. nóvember á Kex Hostel. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 21:00 og er aðgangur ókeypis.

Kira Kira er sólóverkefni Kristínar Bjarkar Kristjánsdóttur og hefur hún verið í framlínu tilraunakenndrar raftónlistar í hátt í tvo áratugi. Hún hefur gefið út þrjár breiðskífur undir merkjum Smekkleysu, Afterhours í Japan og Sound of a Handshake sem er undirmerki Morr Music í Þýskalandi. Tónlist hennar er í senn einlæg, grallaraleg og sveipuð miklum ævintýraljóma.

Flying Hórses er tvíeyki frá Montréal í Kanada og er skipað þeima Jáde Berg og Raphael Weinroth-Browne. Tónlist þeirra er ósunginn nýklassík og er að mestu flutt á píanó og selló. Sveitin hefur verið að vinna sína fyrstu breiðskífu í Sundlauginn í Mosfellsbæ og mun hún koma út á fyrri hluta næsta árs. Hljómsveitin hefur verið að koma fram erlendis með Lindy sem spilaði hér á nýafstaðinni Iceland Airwaves og Memoryhouse sem gefur út hjá Sub Pop í Bandaríkjunum.

Portal 2 xtacy er tvíeyki skipað þeim Áslaugu Brún Magnúsdóttur og Jófríði Ákadóttur sem þekktastar eru fyrir að vera meðlimir í þríeykinu Samaris sem hefur verið að gera góða hluti á erlendri grundu undanfarin misseri.

Markéta Irglová í Kaldalóni 19. nóvember

Marketa Irglova

Markéta Irglová er ekki alókunnug íslendingum. Hún hefur tvisvar spilað hér á landi með The Swell Season á Nasa og á eigin tónleikum í Gym&Tonic í Kex. Markéta er einmitt annar helmingur hljómsveitarinnar The Swell Season á móti Glen Hansard sem er ekki alókunnugur íslendingum heldur. Markéta og Glen léku aðalhlutverkin í myndinni Once og sömdu einnig tónlistina í myndinni undir merkjum The Swell Season. Lagið “Falling Slowly” úr Once færði þeim Óskarsverðlaunin og í framhaldinu var gerð söngleikjaútfærsla af Once á Broadway sem hlaut m.a. 8 Tony verðlaun og er ennþá sýnd fyrir fullu húsi á Broadway og víðar um heim.

Nú nýlega kom út önnur sólóplata Markétu, Muna, sem var tekin upp á Íslandi. Á ‘Muna’ eru 11 lög sem Markéta samdi á einu ári og tók upp á Íslandi á innan við 6 mánuðum. Sturla Mio Þórisson annaðist upptökustjórn og hljóðböndun.

Í tilefni útgáfu Muna mun Markéta ásamt hljómsveit halda útgáfutónleika á Íslandi í Kaldalóni Hörpu miðvikudagskvöldið 19. nóvember sem verður einnig lokahnykkurinn á tveggja mánaða tónleikaferð hennar um Norður Ameríku og Evrópu. Svavar Knútur hitar upp.

Miðasala á tónleikana er á Harpa.is og Midi.is.

Sun Kil Moon í Fríkirkjunni 28.nóvember

Mark Kozelek

Bandaríska hljómsveitin Sun Kil Moon kemur fram á tónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík föstudagskvöldið 28.nóvember nk. Má með sanni segja að viðburður þessi sé sannur hvalreki fyrir íslenska tónlistarunnendur. Sun Kil Moon er hugarfóstur söngvarans og gítarleikarans Mark Kozelek sem áður hafði gert garðinn frægan með hljómsveit sinni Red House Painters. Ásamt Kozelek stíga nokkrir heimsfrægir listamenn á svið þetta kvöld og mynda þá ógleymanlegu upplifun sem Sun Kil Moon sannarlega er.

Miðasala fer fram á Miði.is

Nýjustu plötu sveitarinnar Benji, sem margir telja eina þá bestu sem komið hefur út á árinu, má heyra í heild sinni hér að neðan.

My bubba heldur í tónleikaferðalag ásamt Damien Rice

My Bubba ©Karólína Thorarensen2

Íslensk sænska hljómsveitin My bubba, skipuð Bubbu (Guðbjörgu Tómasdóttur) og My Larsdotter eru á leið í tveggja mánaða tónleikaferðalag til að kynna nýjustu plötu sína Goes Abroader sem kom út hjá Smekkleysu sl. maí, bæði á geisladisk og vinyl. Ferðinni er heitið til Hollands, Belgíu, Danmerkur, og Þýskalands þar sem hljómsveitin mun m.a.hita upp fyrir Damien Rice.

Áður en My Bubba leggur land undir fót verða hádegistónleikar í Mengi 10. október kl. 12:00 og svo mun dúóið einnig leika í Hörpunni á Iceland Airwaves hátíðinni í nóvember.

Rúnar Þórisson, Lára Rúnarsdóttir og Margrét Rúnarsdóttir ásamt hljómsveitinni Himbrimi á Rósenberg 27. september

Rúnar Þórisson og hljómsveit

Næstkomandi laugardagskvöld 27. september verða tónleikar á Rosenberg þar sem fram koma Rúnar Þórisson, Lára Rúnarsdóttir og Margrét Rúnarsdóttir ásamt hljómsveitinni Himbrimi. Þetta er í fyrsta skipti sem feðginin slá saman í tónleika hvert og eitt undir eigin nafni. Rúnar hefur að undanförnu verið að kynna plötu sína Sérhver vá, Lára vinnur að nýrri sólóplötu og hljómsveitin Himbrimi er ný hljómsveit sem hefur verið að vekja töluverða athygli undanfarið.

Himbrimi var stofnuð fyrir ári síðan og samanstendur af fjórum meðlimum en þau eru Margrét Rúnarsdóttir, Birkir Rafn Gíslasson, Hálfdán Árnasson og Skúla Arason. Margrét og Birkir eru stofnendur hljómsveitarinnar og semja flest lögin og texta. Hljómsveitin hefur hljóðritað nýtt efni og hefur nú nýlega gefið út fyrsta lagið “Highway”. Hljómsveitin hefur vakið töluverða athygli að undanförnu og innan skamms er væntanlegt nýtt myndband með hljómsveitinni. Auk þess að spila með Himbrima eru meðlimir allir virkir og hafa leikið með öðru tónlistarfólki þ.á.m. á ýmsum tónlistarhátíðum.

Lára hefur verið afkastamikil og gefið út fjórar sólóplötur, Standing Still (2003), Þögn (2006), Surprise (2009) og Moment (2012). Um þessar mundir vinnur hún að gerð fimmtu plötu sinnar. Hún hefur komið fram á ýmsum tónleikum erlendis, t.d. á tónleikum Q Magazine í London ásamt Amy McDonald auk þess að koma fram á tónlistarhátíðum á borð við Eurosonic, SPOT og The Great Escape. Auk sólóferils hefur hún sungið m.a. með Áhöfninni á Húna II og hljómsveitinni Lifun frá Keflavík.

Rúnar sem myndaði ásamt Rafni Jónssyni trymbli, hryggjarstykkið í einni vinsælustu hljómsveit landsins um langt skeið; Grafík, hefur sent frá sér þrjár plötur Ósögð orð og ekkert meir (2005), Fall (2010) og Sérhver vá (2013). Hann hefur bæði sem klassískur gítarleikari og rafgítarleikari leikið á tónleikum og tónlistarhátíðum s.s. á Myrkum músíkdögum, Iceland Airwaves, Secret Solstice, Listahátíð í Reykjavík og Aldrei fór ég suður á Ísafirði.

Á tónleikunum koma fram auk fyrrgreindra þeir Arnar Gíslason trommuleikari, Guðni Finnsson bassaleikari og Þorbjörn Sigurðsson hljómborðsleikari sem allir hafa gert víðreist og spilað með fjölda tónlistamanna.

Krokkbot : Amateur of the Year – Crammed with Cock

Krakkbot kassettur

Krakkbot er tónslistarmaður sem flytur dómsdags-raftónlist. Hann vinnur einkum með drunur, takta og hávæða. Hann lýsir tónlist sinni sem síþróandi skrýmsli, og daðrar við þungarokk, hipp-hopp, heimatilbúin raftæki, feedback og hreinar hljómtíðnir í tilraunum sínum til að skapa martraðarkenndt draumalandslag.

Þetta er fimmta útgáfa Ladyboy Records og tekur form sitt sem 50 kassettur í sægrænum, bleikum, bláum og gráum geislaígröfðum umbúðum. Hvert eintak er einstakt og byggt á teikningum listamannsins.

Útgáfuhóf verður haldið á Húrra föstudaginn 30. maí. Dj. Flugvél & Geimskip og Pyrodulia hita upp.