Kveðju- og útgáfutónleikar Markúsar & The Diversion Sessions

Markús & The Diversion Sessions

Hljómsveitin Markús & The Diversion Sessions efnir til stórtónleika í Gym & Tonic sal Kex Hostel þann 15. ágúst næstkomandi. Öllu verður tjaldað til á tónleikunum en þetta verða kveðjutónleikar fyrir bassaleikara hljómsveitarinnar Georg Kára Hilmarsson sem heldur út í masters nám í tónsmíðum í lok ágúst. Hljómsveitin The Diversion Sessions tók upp stutt skífu árið 2012 og mun hún vera gefin út í takmörkuðu upplagi á tónleikunum.

Um upphitun sjá hljómsveitirnar Hymnalaya og Nini Wilson. DJ Benson is Fantastic spilar á milli atriða

Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og kostar 1000 kr. inn.

Hljómsveitin mun einnig spila í Lucky Records sama dag kl. 17:00.

kimono gefa út Aquarium EP og halda útgáfutónleika annað kvöld

kimono - Aquarium EP

Í tilefni útgáfu stuttskífunnar Aquarium með kimono verður boðað til tónleika á Faktorý á morgun, þann 1. ágúst, en tækifærið jafnframt nýtt til að kveðja þennan margrómaða tónleikastað sem senn rennur sitt skeið. Bandarísk-íslenski dúettinn Low Roar ætlar einni að koma fram, en spennandi verður að sjá hvernig þessar ólíku sveitir smella saman á tónleikum. Bætt verður við hljóð- og ljósabúnað Faktorý til að tryggja að upplifun tónleikagesta verði sem allra best.

Þó ekki hafi farið mikið fyrir kimono undanfarin misseri hefur sveitin þó eitthvað látið á sér kræla, komu t.a.m. fram á hinni einstaklega vel heppnuðu All Tomorrow’s Parties hátíð í Keflavík í júní sem og að leika spunatónleika með Damo Suzuki úr CAN seint á síðasta ári. kimono leggja til nýja stuttskífu, Aquarium, sem inniheldur rúmlega 20 mínútna langt lag samnefnt plötunni, en lagið er afrakstur áframhaldandi vinnu tríósins með hið lifandi upptökuform sem birtist á síðustu plötu þeirra í fullri lengd, Easy Music For Difficult People. Aquarium mætti túlka sem einhverskonar afturhvarf kimono til uppruna síns áður en mestur óróleiki tónlistar þeirra var brostinn fram.

Plötuna má streyma á Soundcloud eða kaupa til niðurhals á Bandcamp.

Miðasala opnar kl 21:00 og hefjast tónleikarnir svo stundvíslega kl 22:00.
Miðaverð er 1500 kr.

Heiðurstónleikar í minningu Björns Kolbeinssonar á Faktorý í kvöld

Skátar

Hljómsveitin Skátar snýr aftur 5. júlí til að heiðra minningu Björns Kolbeinssonar. Hann var í íslensku jaðarrokksenunni þekktur sem Bjössi Skáti og sem og El Buerno. Bjössi lést í köfunarslysi í Silfru við Þingvelli 28. desember síðastliðinn. Hann hafði búið frá því í ágúst 2009 í Genf í Sviss þar sem hann starfaði sem lögfræðingur hjá EFTA.

Bjössi var gleðigjafi mikill og þess vegna vilja vinir hans heiðra minningu hans með fjölbreyttum, glaðværum og skemmtilegum tónleikum. Bjössi var alla tíð mikill tónlistarunnandi og sótti tónleika við hvert einasta tækifæri, hvar sem hann var staddur í heiminum. Bjössi ferðaðist mikið á ævinni og kom m.a. til Víetnam, Indlands, Machu Picchu, Guatemala og Kazakhstan á síðustu árum.

Hann mun aldrei hverfa úr minni þeirra sem hann þekktu enda hafði hann einstaklega góða nærveru, sýndi öllum gagnkvæma virðingu og einlægan áhuga. Hann spilaði á bassa og gítar í hljómsveitunum Skátar, Petrograd og Boltrope. Hann þótti oft fara framar öðrum í óbeislaðri sviðsframkomu og spilagleði, einnig var honum alltaf umhugað um hvort áhorfendur væru að skemmta sér á tónleikum og fylgdist grannt með fólki útí sal á meðan hann lagði sig allan fram í að spila frábæra tónleika.

Hvar: Faktorý, Smiðjustíg 6, 101 Reykjavík
Hvenær: Föstudaginn 5. júlí, kl. 22:00

Fram koma:

Bloodgroup
Grísalappalísa
Jan Mayen
Sigtryggur Berg Sigmarsson
Skátar & vinir Bjössa úr kimono & Bloodgroup

Aðgangseyrir: 1000 kr.

Allur ágóði af tónleikunum mun renna til Kvennaathvarfsins.

Rjóminn á ATP Iceland

Nick Cave

Rjóminn var einstaklega sáttur við ATP hátíðina sem fór fram á Ásbrú nú um helgina. Það var alveg með eindæmum góðmennt, þó maður hefði viljað sjá aðeins fleiri á svæðinu, og var stemmingin afar afslöppuð og ljúf. Maður þurfti varla að snúa sér í nema hálfhring til að sjá kunnuglegt andlit eða góðan kunningja.

Tónlistin var heilt yfir mjög góð þó auðvitað hefðu ekki öll atriðin höfðað jafn vel til manns. Hápunktarnir voru Monotown, Botnleðgja, The Fall, Ghostdigital og auðvitað eðaltöffarinn Nick Cave sem skilaði mögnuðu giggi þrátt fyrir að hafa tekið óvænta flugferð af sviðinu. Önnur tónlistaratriði voru ágæt. HAM virtust þó renna í gegnum sitt prógram bara af gömlum vana og SQÜRL, bandið hans Jim Jarmusch, var eiginlega ekki að gera neitt sem er þess virði að tala um. Extra rokkstig fara svo til Hjaltalín fyrir að leggja á annað borð í að fara upp á svið á eftir Nick Cave. Ég get vel skilið að meðlimir sveitarinnar hafi ekki verið sérstaklega áhugasamir að fylgja á eftir honum en þau skiluðu sínu og fá plús í kladdann fyrir það.

Ég vona innilega að ATP hátíðin nái að festa sig í sessi hér á landi og verði haldin aftur fljótlega. Gamla Kana-svæðið hentar einstaklega vel fyrir viðburð sem þennan og mætti hæglega slá upp viðameiri hátíð næst þar sem svæðið er gjörsamlega vannýtt eins og er.

Tómas Young og hans fólk á hrós skilið fyrir frábæra hátíð þar sem faglega var að öllu staðið. Áfram ATP!

ATP upphitun á Kex Hostel í kvöld

Tónlistarhátíðin ATP Festival fer fram um komandi helgi og KEX Hosteli fannst tilvalið að hita upp fyrir tónleikana með smá kvikmyndasýningum og tónleikum. Upphitun fer fram í kvöld á KEX Hostel en þar verða þrjár kvikmyndir sýndar ásamt því að Snorri Helgason mun halda tónleika.

Kvikmyndirnar sem verða sýndar hafa verið sérstaklega valdar af þeim listamönnum sem koma fram á hátíðinni. Þær eru:

Koyannisqatsi (1982)
Koyannisqatsi er einskonar heimildarmynd og sjónrænir tónleikar við tónverk eftir Philip Glass. Myndin er í raun samansafn mynda hvaðanæva að úr heiminum og mun breyta sýn áhorfandans á heiminn.

Au Hasard Balthazar (1966)
Au Hasard Balthazar fjallar um asnann Baltazar og erfiða ævi hans. Samhliða sjáum við sömuleiðis líf stúlkunnar sem nefndi hann en líf þeirra beggja er samtvinnað.

Repo Man (1984)
Repo Man fjallar um ungan mann sem gerist innheimtumaður og undarleg ævintýri hans í því starfi.

Dagskrá:

GYM & TONIC
17:00 – Koyannisqatsi (Valin af Valgeiri Sigurðssyni)
18:40 – Au Hasard Balthazar (Valin af Chelsea Light Moving)
20:30 – Repo Man (valin af Thee Oh Sees)

KEX RESTAURANT
22:15 – Snorri Helgason flytur tónlist sína

Dagskráin fyrir All Tomorrow’s Parties komin á Netið

ATP Iceland

Dagskrá hátíðarinnar er nú komin á netið. Þar má sjá hvenær hljómsveitirnar koma fram, hvaða bíómyndir verða sýndar í Andrews Theater og hvenær Popppunkturinn og Bókarbingó ATP fer fram o.s.frv.

Dagskránna má nálgast hér á PDF sniði.

Miðar með gistingu uppseldir
Miðar með gistingu seldust upp fyrir skömmu en í boði voru bæði miðar með herbergi fyrir tvo gesti og miðar með herbergi fyrir fjóra gesti. Þessir miðar eru nú uppseldir. Dagspassar á 9.900 kr. og helgarpassar á 16.900 kr. eru fáanlegir á midi.is.

Rútuferðir á ATP
Til að auðvelda höfuðborgarbúum lífið selur Reykjavík Excursions miða á hátíðina sem fela í sér rútuferðir fram og til baka á hátíðina. Það er bæði hægt að fá helgarpassa og dagpassa með rútuferðum en einnig er hægt að kaupa rútuferðir fyrir alla helgina eða staka daga. Athugið að rúturnar fara upp á Ásbrú frá BSÍ kl. 18:00 og brottför aftur til Reykjavíkur er klukkan 02:00.

Brynhildur Oddsdóttir með tónleika á Café Rósenberg

BeeBee and the Bluebirds

Miðvikudaginn 19. júní verður blús og djass-söngkonan Brynhildur Oddsdóttir með tónleika á Café Rósenberg. Með henni leika Kjartan Valdemarsson á píanó, Birgir Bragason á kontrabassa og Óskar Kjartansson á trommur. Sérstakur gestur kvöldsins er söngvarinn Arnar Ingi Richardsson.

Brynhildur mun flytja frumsamið efni í bland við vel valdar blús og djassábreiður. Aðgangseyrir er 1500 kr og enginn posi. Tónleikarnir hefjast kl 21.00.

Nick Cave and The Bad Seeds spila á ATP Iceland

ATP Iceland 2013

All Tomorrow’s Parties á Íslandi kynna með miklu stolti komu hinnar goðsagnakenndu hljómsveitar NICK CAVE & THE BAD SEEDS á ATP Iceland helgina 28.-29, sem haldin verður á gömlu NATO herstöðinni Ásbrú. Nick Cave spilaði síðast á Íslandi árið 2006 en hljómsveitin hans, The Bad Seeds, kom síðast fram á Íslandi árið 1986 þegar Nick Cave heimsótti Ísland í fyrsta sinn. Hann hafði þetta að segja um fyrirhugaða tónleika á ATP Iceland, „uppáhalds tónlistarhátíðin mín í uppáhaldslandinu mínu.“

Tónlistardagskrá hátíðarinnar verður ekki af verri endanum en auk Nick Cave & The Bad Seeds munu eftirtaldar hljómsveitir koma fram:

 • CHELSEA LIGHT MOVING (með forsprakka Sonic Youth, Thurston Moore í fararbroddi)
 • THE FALL
 • THE NOTWIST
 • THEE OH SEES
 • DEERHOOF
 • MÚM
 • HAM
 • DEAD SKELETONS
 • MUGISON
 • SQÜRL (með leikstjórann Jim Jarmusch fremstan í flokki)
 • AMIINA
 • VALGEIR SIGURÐSSON
 • GHOSTIGITAL
 • PUZZLE MUTESON
 • ÆLA
 • KIMONO
 • APPARAT ORGAN QUARTET
 • HJALTALÍN
 • SNORRI HELGASON

Auk tónlistardagskrár verður í boði kvikmyndadagskrá í Andrews Theather sem Jim Jarmusch mun meðal annarra sjá um og Popppunktur í boði Dr. Gunna.

ATP var fyrst haldin árið 2000 í Bretlandi og hafa viðburðir á vegum ATP verið haldnir víða um heim við mjög góðan orðstír. Íslenskir tónlistarmenn, eins og Sigur Rós, múm, Mugison og Botnleðja hafa komið fram á hátíðinni og ófáir íslenskir tónlistarunnendur sótt hana heim. Það er því tímabært að ATP heimsæki Ísland.

Miðasala er hafin á midi.is.

Sárabótatónleikar hljómsveitarinnar Ensími vegna Keflavik Music Festival

Ensími

Það hefur varla farið fram hjá tónlistarunnendum þau vandræði sem sköpuðust á tónlistarhátíðinni Keflavík Music Festival um síðustu helgi þar sem hljómsveitin Ensími neyddist til að afboða framkomu sína á hátíðinni. Ensími ætlar að leggja leiðindin að baki sér og bjóða upp á sárabótatónleika í dag, föstudaginn 14. júní, kl:17:30 í Hljóðfærahúsi Reykjavíkur. Aðgangur er ókeypis og ekkert aldurstakmark.

30 nýjir listamenn kynntir fyrir Airwaves

Airwaves 2013

Nú rétt í þessu voru 30 nýjir listamenn kynntir sem koma munu fram á næstu Airwaves hátíð.

Þeir eru :
Midlake (US), Emiliana Torrini, FM Belfast, Girls In Hawaii (BE), Ólöf Arnalds, Retro Stefson, Amiina, Moses Hightower, Sarah MacDougall (CA), Apparat Organ Quartet, Árstíðir, Royal Canoe (CA), Kiriyama Family, Skúli Sverrisson, Hermigervill, Sun Glitters (LU), Captain Fufanu, Sign, Stafrænn Hákon, Tempel (SE), Leaves, Endless Dark, Nóra, 1860, Dimma, Auxpan, Þórir Georg, Emmsjé Gauti, Kjurr og Nini Wilson.

Hvað íslensku deildina varðar verður gaman að sjá ungfrú Torrini aftur og gleðjast eflaust margir yfir að sjá hana á þessum lista. Hvað erlend atriði varðar er Rjóminn einna spenntastur fyrir Midlake en þessi folk-rokk sveit frá Texas hefur lengi verið í uppáhaldi hér á bæ. Eins og flestir eflaust vita kó-pródúsuðu Midlake og spiluðu inná fyrstu plötu John Grant, Queen of Denmark, og verður því spennandi að sjá hvort Grantarinn stigi ekki á svið með þeim og flytji eins og eitt eða tvö lög.

Eins og heyra má hér að neðan skyldu Midlake handbragð sitt óneitanlega eftir á einum helsta smelli John Grant.

Miðasalan er í fullum gangi á heimasíðu Iceland Airwaves og hvetja skipuleggjendur alla til að tryggja sér miða sem fyrst. Í alvöru, það er að seljast upp!

Sala hafin á rútuferðum á ATP

ATP Iceland 2013

Reykjavik Excursions í samstarfi við ATP bjóða nú upp á rútuferðir á All Tomorrow’s Parties hátíðina 28.-29. júní. Rútuferðir fara frá BSÍ.

Hefðbundið miðaverð á hátíðina fyrir báða dagana er 16.900 kr. Þeir sem ekki hafa tryggt sér miða geta nú fengið miðann á 17.900 kr. með rútuferðum fram og til baka báða dagana, og borga þar af leiðandi aðeins 250 kr. fyrir hverja ferð. Þá eru einnig í boði dagspassar á hátíðina með rútuferðum og rútuferðir fyrir þá sem voru þegar búnir að verða sér úti um miða á hátíðina.

Allar nánari upplýsingar um miðasölu á hátíðina með rútuferðum Reykjavík Excursions á hátíðina eru að finna hér.

Botnleðja gefur út safnplötu og heldur útgáfutónleika í Austurbæ

Botnleðja - Þegar öllu er á botninn hvolft

Botnleðja er með líflegri og skemmtilegri jaðarsveitum síðustu áratuga og er það afar ánægjulegt fyrir Record Records að hlotnast þann heiður að gefa út fyrstu safnplötu sveitarinnar er nefnist Þegar öllu er á botninn hvolft. Til að fagna þessari veglegu útgáfu heldur Botnleðja útgáfutónleika í Austurbæ, fimmtudagskvöldið 27. júní. Miðasala hefst fimmtudaginn 6. júní kl. 10:00 á Miði.is.

Þegar öllu er á botninn hvolft er tvískipt safnplata sem inniheldur tvo geisladiska. Fyrri diskurinn inniheldur átján lög og þar af eru sextán bestu lög þeirra af breiðskífum sveitarinnar, sem eru fimm talsins. Einnig inniheldur fyrri diskurinn tvö glæný lög, „Slóði“ og „Panikkast“ sem er þegar farið að hljóma á öldum ljósvakans. Seinni diskurinn innheldur áður óútgefnar upptökur, ábreiður sveitarinnar á lögum tónlistarmanna eins og Devo og Megas, enskar útgáfur laga, endurhljóðblandanir og tónleikaupptökur með Botnleðju sem ávallt hefur þótt frábær tónleikasveit.

Eistnaflug rokkar í níunda sinn

Eistnaflug

Tónlistarhátíðin Eistnaflug verður haldin í níunda sinn í sumar, dagana 11.-13. júlí, í Egilsbúð Neskaupstað. Alls mun 41 hljómsveit stíga á stokk og þar af 7 erlendar.Markmið Eistnaflugs er að bjóða ferska og fjölbreytta dagskrá rokktónlistar sem spannar allt frá indí rokki yfir í þungan metal. Áhersla er lögð á að kynna það besta í íslensku rokki hverju sinni í bland við áhugaverðar erlendar sveitir.

Meðal íslenskra hljómsveita koma fram Sólstafir, Skálmöld, Brain Police, Dimma, Legend, Muck, Kontinuum, The Vintage Caravan, Angist, Ophidian I, Singapore Sling, Plastic Gods, Endless Dark, Agent Fresco, Momentum, Ojba Rasta, Saktmóðigur, AMFJ, Innvortis, Logn, Norn og Morðingjarnir.

Fremst í flokki erlendra hljómsveita er Red Fang frá Bandaríkjunum sem mun enda Evróputúr sinn á Neskaupstað. Þá munu Íslandsvinirnir í The Psyke Project, Helhorse og Whorls frá Danmörku sækja hátíðina ásamt thrash metal sveitinni Contradiction frá Þýskalandi. Sigurvegarar Wacken Metal Battle 2012, Hamferð, frá Færeyjum mun einnig mæta ásamt hljómsveitinni Earth Divide.

Í ár verður breytt til og bætt við tónleikum fyrir alla aldurshópa miðvikudaginn 10. júlí klukkan 19:00. Hljómsveitirnar Skálmöld, Sólstafir og Dimma koma fram og kostar 2000 kr. Miðasala fer fram í Egilsbúð Neskaupstað.

Upplýsingar um hátíðina má finna á www.eistnaflug.is og á Facebook síðu hátíðarinnar. Miðasala fer fram á Midi.is og er miðaverð 9900 kr.

Nýtt lag með DJ Flugvél og Geimskip

DJ Flugvél og Geimskip

DJ Flugvél og Geimskip hafa gefið út nýtt lag sem nefnist ,,Draumar töframannsins” og er það fyrsta af væntanlegri plötu sem bera mun titilinn Glamúr í geimnum. Platan mun koma út seinna í sumar en hún mun hafa verið tekin upp að nóttu til með það í huga að láta lögin tengjast tunglinu, óravíddum geimsins og draumum.

Annað kvöld, miðvikudaginn 5. júní á Faktorý, mun DJ Flugvél og Geimskip troða upp ásamt Sóley.

Hægt er að nálgast lagið á tónlistarveitunni gogoyoko.

Sumarmölin : Ný tónlistarhátíð á Drangsnesi

Borko

Í vetur hefur tónleikaröðin Mölin farið fram á Malarkaffi á Drangsnesi við góðan orðstír og mikinn fögnuð Strandamanna á öllum aldri. Í kjölfar frábærra undirtekta og fjölda vel heppnaðra tónleika stendur nú til að halda í fyrsta sinn tónlistarhátíð á Drangsnesi sem hlotið hefur nafnið Sumarmölin. Hátíðin mun fara fram í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi þann 15. júní næstkomandi.

Á Sumarmölinni verður lagt upp með að skapa fjölskylduvænt andrúmsloft þar sem ungir og aldnir geta komið saman og notið þess að horfa á rjóma íslenskra tónlistarmanna flytja tónlist í mögnuðu umhverfi.

Á fyrstu Sumarmölina hafa nú boðað komu sína:

Borko og Jónas Sigurðsson
Jónas Sigurðsson snýr aftur á Drangsnes en hann tróð upp á Mölinni ásamt Ómari Guðjónssyni eftir talsverðar hremmingar í nóvember á síðasta ári. Í þetta skiptið ætla Jónas og Drangsnesnýbúinn Borko að leiða saman hesta sína og flytja tónlist sína í einum hrærigraut með frábærum meðspilurum.

GóGó-Píurnar
Þessi bráðefnilegi söngflokkur var efstur í kjörinu um Strandamenn ársins 2012 og því erfitt að halda tónlistarhátíð á Ströndum án þess að GóGó-Píurnar stígi á svið. Þær hafa áður troðið upp á Aldrei fór ég suður og urðu í 2. sæti í söngkeppni Samfés í fyrra.

Hemúllinn
Hemúllinn er hliðarsjálf Strandamannsins Arnars Snæbergs Jónssonar sem hefur dúkkað upp við ýmis tækifæri í gegnum tíðina, jafnt opinber sem og óopinber. Hemúllinn leikur grípandi, rafskotið einmenningspopp með glúrnum textum sem oft eru fullir af háði um lífið og tilveruna.

Nolo
Þessi frækni dúett hefur sem hefur sungið um fondú, strætóstoppistöðvar, og úthverfageimfara leggur nú land undir fót og mun vafalítið heilla gesti Sumarmalarinnar upp úr skónum indískotnu trommuheilapoppi sem er fullt af grípandi laglínum og hnyttnum textum.

Ojba Rasta
Strendur Jamaíka hafa sennilega verið hljómsveitinni Ojba Rasta meiri innblástur en Strandir við Húnaflóa. Það verður því áhugavert að sjá hvaða áhrif Strandaloftið hefur á grípandi reggítóna þessarar fjölmennu gleðisveitar.

Valdimar
Valdimar er ein vinsælasta hljómsveit landsins um þessar mundir og fékk á dögunum gullplötur fyrir báðar plötur sínar, Undraland og Um stund. Valdimar Guðmundsson, söngvari sveitarinnar, rekur ættir sínar stoltur í Hveravík við Steingrímsfjörð og heimsækir nú í fyrsta sinn ættjörð sína með hljómsveitinni sem kennd er við hann.

Hátíðin mun standa frá kl.20:00-00:30 og er vakin sérstök athygli á því að börn og unglingar undir 16 ára aldri eru velkomin í fylgd með foreldrum. Að tónleikum loknum verður áframhaldandi skemmtun á Malarkaffi þar sem plötusnúður mun leika tónlist fyrir dansglaða hátíðargesti. Aðgangur að tónleikunum veitir ókeypis aðgang að gleðinni á Malarkaffi.

Miðaverði verður still í hóf en einungis 3900 kr. kostar á hátíðina.

 • Drangsnes er þéttbýliskjarni í Kaldrananeshreppi sem telur um 70 íbúa og er samkvæmt óopinberum gögnum minnsta sjávarþorp í heimi.
 • Á Drangsnesi þykir ekkert eðlilegra en að fara út á í baðsloppnum í hvaða veðri sem er og dýfa sér í heitu pottana í fjöruborðinu.
 • Á Drangsnesi er að finna fyrsta flokks tjaldstæði fyrir þá sem koma lengra að. Eins er fyrirtaks gistingu að finna á Malarhorni, Hótel Laugarhóli og í Gistiþjónustu Sunnu.
 • Drangurinn sem nesið heitir eftir er steingerð tröllskessa sem gleymdi sér þegar hún ætlaði að losa Vestfirði frá Íslandi með vinkonu sinni í Breiðafirðinum.

Hátíðin er haldin með stuðningi Menningarráðs Vestfjarða, Kaldrananeshrepps og Kaupfélags Steingrímsfjarðar.

Pottapopp

Vök

Bæjar- og menningarhátíðin Bjartir Dagar verður haldin í Hafnarfirði dagana 30. maí – 2. júní næstkomandi. Að venju verður bærinn iðandi af fjölbreyttum og skemmtilegum viðburðum yfir alla helgina. Í ár á Sundhöll Hafnarfjarðar einnig 70 ára opnunarafmæli og af því tilefni verður tónleikum slegið upp úti á pottasvæðinu á laugardeginum 1. júní kl 14:00.

Aðgangur er ókeypis og munu 5 tónlistaratriði koma fram en þau eru sem hér segir:

Sólbjört leikur á Gong

Sólbjört Guðmundsdóttir er kundalini jógakennari eftir forskrift Yogi Bhajan. Sérstakt áhugsvið hennar innan þess er jóga hljóðs og samskipta (Naad jóga). Gong hefur verið notað í árþúsundir við andlega iðkun en hlustun róar og styrkir taugakerfi manneskjunnar og veitir djúpa slökun og frið.

Sveinn Guðmundsson

Sveinn hefur nýlokið upptökum á sinni fyrstu plötu Fyrir herra Spock, MacGyver og mig sem kemur út í sumar. Þetta verður í fyrsta sinn sem Sveinn leikur lög af plötunni sem er rólyndis gítarmúsík með póstmódernískum og sjálfspeglandi textum.

Fox Train Safari

Fox Train Safari, sendir frá sér sína fyrstu breiðskífu með haustinu. Þar verður að finna funk, soul og R&B. Hljómsveitin ætlar að spila tónlist í takt við veðurblíðuna í sundhöllinni.

Magnús Leifur

Magnús Leifur, áður kenndur við Hafnfirsku hljómsveitina Úlpu, vinnur nú að sinni fyrstu plötu sem einyrki en áætluð útgáfa á henni er nú í sumar. Á tónleikunum í sundhöllinni mun hann koma fram ásamt hljómsveit, en hana skipa Ívar Atli Sigurjónsson á gítar og glingur, Hálfdán Árnason á bassa og Þórhallur Stefánsson á trommur.

Vök

Margrét Rán Magnúsdóttir og Andri Már Enoksson skipa Dúettinn Vök sem er sigurvegari nýliðinna Músíktilrauna. Vök var formlega stofnuð í desember 2012, en hljómsveitarmeðlimir hafa starfað saman mun lengur. Tónlist þeirra er best lýst sem eiturljúfri raftónlist með melódískum söngi.

Útgáfutónleikar Sin Fang

SinFang_Cover

Sin Fang gaf nýverið sína þriðju breiðskífu, Flowers, við góðar undirtektir tónlistarunnenda og gagnrýnenda. Hljómsveitin mun halda útgáfutónleika þann 12. júní til að fagna því. Tónleikarnir munu fara fram í Iðnó og hefjast kl. 21:00. Um upphitun sér hljómsveitin Vök, sem nýverið sigraði músíktilraunir.

Miðasala hefst kl. 10 föstudaginn 17. maí á www.midi.is og er miðaverð aðeins 2.000 kr.

Tónleikar 15 – 19. maí

16. maí

Dillon – Daniel’s Acoustic Introspection – F
Volta – Murrk, Óregla – voltareykjavik.is
Íslenski Rokkbarinn – Aunt Peg, Distort City, Mojo Boutique, The Royal Slaves – F

17. maí

Dillon – BeeBee and the Bluebirds – F
Faktory – Babies, Boogie Trouble, Daniel Higgs (US), Just Another Snake Cult – F og F
Gaukurinn – Saktmóðigur, Norn, In the Company of Men, Pungsig – F
Bar 11 – Jón Þór, Knife Fights – F (Cancelled)

18. maí

Gaukurinn – Úlfur Úlfur, Emmsjé Gauti, Ultra Mega Technobandið Stefán – F
Dillon – Azoic – F
Faktory – Sísí Ey, Oculus, Kid Mistik, Sean Danke – faktory.is

19. maí

Volta – Retrobot, The Big Band Theory – voltareykjavik.is