Kristín Lárusdóttir

 Kristín Lárusdóttir

Rjóminn vill vekja athygli á tónlist Kristínar Lárusdóttur. Lýsa má henni sem innblásinni af íslenskum tónlistararfi og náttúru. Hún spilar bæði á selló, kveður og notar ýmis rafhljóð. Tónlist Kristínar er lagræn, en líka tilraunakennd og smá teknó.

Hér að neðan má heyra plötu Kristínar, Hefring, en á henni sá hún sjálf um tónsmíðar, útsetningar, sellóleik, upptökur og hljóðblöndun. Orri Harðarson sá um hljómjöfnun.

Sérstök strengjaútgáfa af Vulnicura er komin út

Tónlistin á upprunalegu Vulnicura samanstendur af elektrónískum bítum, áhrifamiklum laglínum og frábærum strengjaútsetningum eftir Björk sem hafa verið fluttar á tónleikum með 15 manna strengjasveit. Hin nýja órafmagnaða útgáfa plötunnar, samanstendur einungis af strengjum rödd og einleik Unu Sveinbjarnardóttur.

Björk notar eina Viola Organista hljóðfærið í heiminum á plötunni. Hljóðfæri sem var upprunalega hannað af Leonardo Da Vinci en ekki byggt fyrr en eftir hans lífstíð. Upptökur á hljóðfærinu voru gerðar í Kraká (Póllandi) af Slawomir Zubrzycki sem jafnframt smíðaði það.

Úlfur Eldjárn gefur út nýtt lag

Úlfur Eldjárn

Úlfur Eldjárn hefur gefið út lagið “Poyekhali!” sem er tileinkað mestu hetju Sovétríkjanna, Júrí Gagarín, fyrsta manninum til þess að fljúga út í geim. Lagið var frumflutt á dögunum á hinni virtu útvarpsstöð KEXP í Seattle.

“Poyekhali!” er fyrsta lagið sem kemur út af væntanlegri sólóplötu Úlfs – The Aristókrasía Project – en efni plötunnar var frumflutt í heild sinni á tónleikum á vegum Blikktrommunnar í Hörpu miðvikudaginn 7. október síðastliðinn.

Úlfur er þekktastur fyrir störf sín sem meðlimur í Orgelkvartettinum Apparat (Apparat Organ Quartet) en sem tónskáld hefur hann getið sér gott orð bæði fyrir tilraunakennd og óvenjuleg verkefni – eins og Strengjakvartettinn endalausa infinitestringquartet.com – en einnig hefur hann hefur samið mikið af tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarpsþætti, leikrit og jafnvel tölvuleiki.

Bedroom Community gefur út frumraun Jodie Landau

you of all things by Jodie Landau and wild Up
Í fréttatilkynningu segir:

Það er ekki á hverjum degi sem Bedroom Community bætir við sig listamönnum, en í ár gefur útgáfan út tvær plötur nýrra listamanna.

Fast á hæla útgáfu Folie à Deux með Emily Hall (20. júlí) gefur Bedroom Community út frumraun hins 23 árs gamla Jodie Landau ásamt nýstárlegu tónlistarsamsteypunni Wild Up. Platan ber nafnið You of all things og kemur út 2. október næstkomandi. Nú má forpanta hana á bandcamp og hlusta á fyrsta lag hennar, “An invitation”.

Jodie Landau er tónskáld, söngvari og slagverksleikari. Tónlist hans tvinnar saman ólíkum stefnum svo sem kammer, rokki og djass fyrir tónleika, kvikmyndir, leikhús- og dansverk. Þegar hann kemur fram einsamall singur hann ásamt því að spila á víbrafón og marimbu.

Wild Up er djörf kammersveit frá Los Angeles sem stefnir að því að skapa umhugsunarverð verk. Tónlistarfólk Wild Up trúir því að tónleikastaðir séu til þess gerðir að útbúa áskoranir, vekja spennu og sameina hlustendur.

Bedroom Community kynnir Folie à Deux, frumraun breska tónskáldsins Emily Hall

Folie à Deux by Emily Hall

Bedroom Community kynnir með stolti útgáfu Folie à Deux, frumraun breska og margverðlaunaða tónskáldsins Emily Hall. Platan kom út 20. júlí síðastliðinn.

Með útgáfu þessari bætist tíundi listamaður við útgáfufyrirtækið og önnur kona þess. Það er ekki oft sem Bedroom Community bætir við sig listamönnum og er þetta því gleðiefni, sér í lagi að rétta kynjahlutfallið aðeins.

Plötuna má nálgast á Bandcamp þar sem einnig er hægt að streyma laginu “mantra”, en hin virta vefsíða BlackBook Magazine hafði þetta um lagið að segja:

The wonderfully-composed song starts off soft and gradually builds in its sweet intensity—adding to the album’s acute emotional understanding and sensory “investigation into love and loneliness within a relationship.

Folie à Deux inniheldur texta eftir Sjón og var unnin í Gróðurhúsinu hljóðveri með Valgeir Sigurðsson við stjórnvölinn. Platan er konseptplata um tvo elskendur og var upphaflega verkið pantað af Mahogany Opera Group. Flytjendur eru hin sænska söngkona Sofia Jernberg, breski tenórinn Allan Clayton, hörpuleikarinn Ruth Wall og slög frá Mira Calix. Emily Hall notast við nýtt hljóðfæri sem hún lét útbúa sérstaklega fyrir verkið, svokallaða raf-hörpu, sem ljáir plötunni sérstakt hljóð.

Nordic Affect sendir frá sér Clockworking

Nordic Affect - Clockworking

Þann 31.júlí næstkomandi sendir Nordic Affect frá sér plötuna Clockworking. Um útgáfu sér bandaríska fyrirtækið Sono Luminus en á plötunni er að finna verk eftir fimm íslensk tónskáld, þær Önnu Þorvaldsdóttur, Hildi Guðnadóttur, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur, Hafdísi Bjarnadóttur og Þuríði Jónsdóttur. Platan var tekin upp af Georgi Magnússyni og um hljóðblöndun og eftirvinnslu sá Valgeir Sigurðsson í Gróðurhúsinu.

Clockworking er fagur vitnisburður um samstarf og ástríðufulla sköpunargleði. Eða eins og listrænn stjórnandi hópsins, Halla Steinunn Stefánsdóttir skrifar í bækling disksins:

Clockworking, inhaling, exhaling; through music we immerse ourselves in creativity. We find moments of community and of individuality as we shape sounds from gut and wood. We encounter new spaces and interact with technology, which in turn affects how we play. We meet listeners with whom we connect and at times it feels as though we’re breathing as one.

Á bakvið öll verk plötunnar býr óskin um að kanna möguleika hljóðfæranna (fiðlu, víólu, selló og sembals) innan ramma 21.aldar og um leið að skapa eigin fagurfræði og tónheim.

Anthemico Records

Anthemico

Í apríl árið 2014 opnaði vefur örútgáfunnar Anthemico Records heimasíðu með kvikmyndaskotinni instrumental tónlist úr öllum áttum eftir Pétur Jónsson.

Pétur hefur starfað á bak við tjöldin í íslensku tónlistarlífi í mörg ár, en árið 2007 stofnaði hann Medialux, sem er leiðandi fyrirtæki í auglýsingatónlist og tónlist fyrir kvikmyndað efni á Íslandi. Erfitt er að horfa á sjónvarp í heilt kvöld án þess að heyra eitthvað sem Pétur hefur samið eða komið að upptökum á. Auk þess hefur hann látið að sér kveða sem upptökustjóri með ýmsum tónlistarmönnum.

Á Anthemico síðunni kveður þó við annan tón en í þeirri tónlist sem Pétur gerir vanalega fyrir auglýsingar, en á síðunni er að finna allt frá hádramatískri vísindaskáldsögutónlist yfir í mjúkar instrumental ballöður, og allt þar á milli. Hljóðmyndin er sambland af sinfónískum strengjapörtum og rafpoppi, stíll sem við þekkjum orðið vel úr kvikmyndum.

Eitthvað af tónlistinni hefur verið sérsamin fyrir kvikmynduð verk, eins og tónlistin úr norðurljósamyndinni Iceland Aurora, sem er að finna hér en önnur verk eru gjarnan samin í kringum þema eins og óravíddir alheimsins eða vorið sjálft.

Revolution in the Elbow of Ragnar Agnarsson Furniture Painter

Revolution In The Elbow of Ragnar Agnarsson Furniture Painter

Úr hugarfylgsnum Ívars Páls Jónssonar kemur konseptplatan Revolution in the Elbow of Ragnar Agnarsson Furniture Painter. Platan geymir 18 lög sem segja sögu Olnbogavíkur, lítils bæjar í líkama miðaldra húsgagnamálara, sem að öðru leyti hefur ekkert með söguna að gera.

Sagan greinir frá risi og falli samfélagsins í olnboganum og örlögum íbúa bæjarins á stormasömum tímum. Tónlistin er úr söngleik með sama nafni sem frumsýndur var í New York 13. ágúst síðastliðinn.

Ívar Páll Jónsson hefur verið afkastamikið skúffutónskáld undanfarinn aldarfjórðung. Hann fékk Stefán Örn Gunnlaugsson upptökustjóra til liðs við sig árið 2011 og hefur platan verið í undirbúningi síðan. Á plötunni syngja ásamt Ívari og Stefáni þau Sigríður Thorlacius, Valdimar Guðmundsson, Ásdís Rósa Þórðardóttir, Hjalti Þorkelsson, Soffía Björg, Arnar Guðjónsson og Liam McCormick úr bandarísku hljómsveitinni The Family Crest.

kimono og Pink Street Boys með tónleika á Kex

Kimono

Reykvísku rokksveitirnar kimono og Pink Street Boys munu koma fram á tónleikum á Kex Hostel næstkomandi miðvikudag, 29. október.

Tilefni tónleikanna er útgáfa sjötommu vínylplötu kimono sem inniheldur smáskífuna “Specters” á A-hlið og ábreiðu þeirra af landsþekktu lagi Þeysaranna á B-hlið. Auk þess eru kimono og Kex Hostel nágrannar og ekki er útilokað að leti við að róta græjum ráði valinu á tónleikastaðnum.

Að auki eru þessir tónleikar líka sérstök upphitun Kex Hostels og hljómsveitanna tveggja fyrir Iceland Airwaves tónleikahátíðina sem hefst 5. nóvember.

Aðgangur er ókeypis og munu Pink Street Boys stíga á svið kl. 21:00 og kimono kl. 22:00.

Nýtt lag og myndband frá Ben Frost

Bedroom Community vinna nú að útgáfu nýrrar plötu með Ben Frost og kallast hún A U R O R A. Platan er gefin út á heimsvísu þann 26. maí næstkomandi í samstarfi við Mute útgáfufyrirtækið.

A U R O R A er fyrsta sólóplata Ben síðan BY THE THROAT (2009), en hún hlaut frábærar viðtökur og hefur nýju sólóefni frá Ben verið beðið með mikilli eftirvæntingu síðan.

A U R O R A er einstaklega metnaðarfull plata sem sýnir nýja og spennandi hlið á Ben. Hún var að miklu leiti tekin upp í Kongó en auk Ben eru hljóðfæraleikarar hennar þeir Shahzad Ismaily, Greg Fox (Liturgy) og Thor Harris (Swans). Um pródúseringu sáu Ben ásamt Valgeiri Sigurðssyni, Daniel Rejmer og Paul Corley.

Að ofan má sjá fyrsta myndband í seríu sem unnin var af Trevor Tweeten og Richard Mosse.

Northern Comfort með Tilbury komin út

Tilburycover

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá einum einasta alvöru tónlistaraðdáanda að önnur plata hinnar mögnuðu hljómsveitar Tilbury hefur fengið að líta dagsins ljós. Gripurinn er nú fáanlegur í plötubúðum víðsvegar.

Platan var tekin upp í Orgelsmiðjunni af Kristni Evertssyni og í Hljóðheimum þar sem Kristinn Evertsson ræður ríkjum. Hljóðblöndun var í höndum Arons Þórs Arnarssonar. Plötuumslagið hannaði svo Hugleikur nokkur Dagsson, bróðir Þormóðs forsprakka Tilbury.

Hljómsveitin ætlar að fagna útgáfu plötunnar þann 28. nóvember næstkomandi með tónleikum í Kaldalóni í Hörpu. Tryggið ykkur miða hér.

Meðfylgjandi er glænýtt lag af plötunni sem kallast “Turblance” sem og titillag plötunnar sem flestir ættu að kannast við nú þegar.

Opnunarveisla og myndlistarsýning Reykjavík Music Mess á KEX Hosteli

RVK Music Mess

Tónlistarhátíðin Reykjavík Music Mess er handan við hornið og hefst föstudaginn 24. maí næstkomandi. Hátíðin er haldin á KEX Hostel og Volta og koma 17 hljómsveitir fram á hátíðinni. Þrjár hljómsveitir koma frá Ástralíu og Skotlandi og svo 14 frá Íslandi. Dagskrá og upplýsingar um hátíðina er að finna á www.reykjavikmusicmess.com

Hátíðin hefst þó með opnunarveislu á KEX Hostel fimmtudaginn 23. maí kl. 20. Þar munum við opna myndlistarsýningu samhliða hátíðinni en hátíðarhaldarar fengu hóp listamanna til að endurvinna sjónrænt kynningarefni þeirra hljómsveita sem koma fram. Eins mun hin frábæra og stuðvæna Boogie Trouble leika fyrir nokkur lög. Hægt verður að ná í armbönd og kaupa miða á hátíðina og svo munu Thule og Reyka bjóða upp á léttar veitingar.

Miðasala á hátíðina er enn í fullum gangi á www.midi.is.

Russel M. Harmon – Tragedy Fractures

Rjóminn hefur áður fjallað um tónskáldið enska Russel M. Harmon, sem búsettur er í Reykjavík, en hann sendi síðast frá sér plötuna We Are Failed. Russel hefur nú sent frá sér myndband við lag af plötunni en það heitir “Tragedy Fractures”.

Myndbandið má sjá hér að ofan en plötuna góðu má heyra hér að neðan.

Úsland kynnir sína sjöttu spunaplötu

ÚÚ6

Úsland er sjálfstæð hljóðverka útgáfa sem sérhæfir sig í spuna og tilraunum í tónlist. Markmið útgáfunnar er að koma saman fólki sem ekki hefur áður skapað saman tónlist og gefa þeim frjálsan vetvang til að kanna nýjar slóðir í sameiningu. Skapalón Úslands er þannig að listamenn eru leitaðir uppi og boðið að taka þátt í tilraunum í tónlist í hljóðveri útgáfunnar. Þar verja þeir kvöldstund/eftirmiðdegi/morgni og tilraunir þeirra festar á hljóðrit. Ekkert er átt við hljóðritið eftir upptöku og er það gefið út á internetinu strax í kjölfarið gegn vægu gjaldi. Ein hljómplata er gefin út á mánuði í 12 mánuði. Eftir 12 hljóðrit er stefna sett á fýsíska heildarútgáfu í vandaðri umgjörð.

Spunaröð útgáfunnar er nú hálfnuð. Sjötta hljóðrit Úslands útgáfu kom út á páskadag, 31. mars síðastliðinn. Platan, sem fékk nafnið ÚÚ 6, í samræmi við nafnalög útgáfunnar, er tímamótaverk í stuttri sögu Úslands. Ekki markar hún aðeins miðgildi útgáfunnar, heldur varð hún til úr fjölmennasta “sessíjóni” Úslands til þessa sem einnig var fyrsta fjölþjóða samstarfið sem Úsland hefur staðið fyrir.

Úsland fékk nú í síðasta mánuði styrk frá Kraum Tónlistarsjóð og heldur ótrautt áfram í tónlistarsköpun sinni, en styrkurinn verður nýttur til að bæta hljómburð hljóðversins svo að framtíðar plötur geti hljómað enn betur!

Hlusta má á og kaupa, fyrir lítin pening, allar útgáfur Úslands á www.uslandrecords.bandcamp.com

Allur ágóði fer til að viðhalda verkefninu, viðhalda spuna og viðhalda frelsi!

Nadia Sirota – Baroque

Nadia Sirota - Baroque

Fyrsta útgáfa ársins 2013 hjá Bedroom Community er platan Baroque eftir víóluleikarann Nadiu Sirota.

Sirota er alls ekki ókunn Bedroom Community, en hún hefur spilað inn á fjölmargar plötur útgáfunnar ásamt því að spila reglulega með listamönnum hennar á tónleikum og fylgja þeim á tónleikaferðir.

Tónverkin sex á Baroque eiga það öll sameiginleg að vera skrifuð fyrir Sirota af ungum tónskáldum sem hafa verið dugleg að ryðja sér til rúms undanfarin ár. Þrjú þeirra eru á mála hjá Bedroom Community; þeir Nico Muhly, Daníel Bjarnason og Paul Corley. Hin þrjú verkin eiga tónskáldin Judd Greenstein, Missy Mazzoli, og Shara Worden úr My Brightest Diamond.

Platan var unnin af þeim Valgeiri Sigurðssyni og Paul Evans í hljóðverinu Gróðurhúsinu og er gefin út af útgáfunni New Amsterdam í Bandaríkjunum.

Baroque kemur út þann 25. mars næstkomandi en er nú þegar fáanleg í sérstakri forsölu hjá Bedroom Community í gegnum BandCamp.

Colin Stetson kemur til Íslands

Colin Stetson

Bandaríski tónlistarmaðurinn Colin Stetson mun halda tónleika á tónleikastaðnum Volta þann 17. mars næstkomandi. Miðasala á tónleikana hefst föstudaginn 1. mars og fer fram á www.midi.is. Um upphitun sér Úlfur.

Colin Stetson er saxófónleikari frá Michigan fylki Bandaríkjanna en hefur gert út frá Montreal í Kanada undanfarin ár. Hann hefur starfað með fjölmörgum tónlistarfólki og hljómsveitum síðustu árin samhliða því að reka sinn eigin sólóferil. Arcade Fire, Tom Waits, TV on the Radio, Bon Iver, LCD Soundsystem, The National, David Byrne og Feist eru meðal þeirra sem hafa unnið með Colin Stetson.

Úlfur gefur út sína fyrstu breiðskífu undir eigin nafni þann 5. mars næstkomandi þegar platan White Mountain kemur út hjá bandaríska útgáfufélaginu Western Vinyl.

Úlfur sendir frá sér plötuna White Mountain

Úlfur

Tónlistarmaðurinn Úlfur hefur sent frá sér plötuna White Mountain og er hún sú fyrsta undir hans eigin nafni.

Úlfur hefur komið víða við í íslenskri jaðartónlistarsenu undanfarin ár, þá helst sem liðsmaður harðkjarnasveitarinnar Swords of Chaos og svo sem bassaleikari í tónleikahljómsveit Jónsa úr Sigur Rós.

White Mountain var gefin út í sérstakri japanskri útgáfu árið 2012, en kemur nú út á vínyl og geisladisk á öllum mörkuðum á bandaríska plötuútgáfufyrirtækinu Western Vinyl (Sem gefa meðal annars út Dirty Projectors, Balmorhea og Here We Go Magic).

Á plötunni hefur Úlfur fengið ýmsa tónlistarmenn til liðs við sig, en þar má helst nefna Skúla Sverrisson, Ólaf Björn Ólafsson og Alexöndru Sauser-Monnig. Platan var að hluta til tekin upp á tónleikaferðalögum um Evrópu og Bandaríkin, en hljóðblönduð í hljóðveri Alex Somers í Reykjavík.

Grúska Babúska gefur út Slagarann

Grúska Babúska Hljómsveitin Grúska Babúska gefur út sitt fyrsta hljóðrit með breska útgefandanum Static Caravan. Alþjóðlegur útgáfudagur er 1. apríl n.k. og er hægt að panta verkið fyrirfram 2 vikum fyrir útgáfudag hér : staticcaravan.greedbag.com. Verkið verður einnig gefið út á internetinu og er útgáfudagur rafrænnar útgáfu er 14. apríl. Verkið mun koma út á internetinu í gegnum íslensku útgáfuna Synthadelia Records.

Verkið verður gefið út með mjög sérstöku sniði og á mjög frumlegan máta en hvorki er um hefðbundinn geisladisk né vínyl að ræða. Hvert eintak verður sérmerkt en 100 eintök verða gefin út opinberlega. Verkið inniheldur 6 tónverk hljómsveitarinnar, auk myndbandsverks unnið af Kristínu Joð Þorsteinsdóttur í samstarfi við hljómsveitina.

Hljómsveitin Grúska Babúska var stofnuð árið 2010 af Arndísi A. K. Gunnarsdóttur, Guðrúnu Birnu Le Sage de Fontanay og Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur. Um ári seinna gekk Dísa Hreiðars í lið við hljómsveitina og varð hún þá fullskipuð!

Hljóðfæri Grúsku Búbúsku samanstanda af röddum, syntha, gítar, ukulele, þverflautu, píanó, melodicu, spiladós, trommu, töktum, slagverkum auk annara takt og hljóðtækja. Tónlistin myndar conseptið, sem færir áhorfandann og hlustandann inn í draumheim, oft gáskafullan og barnslegan, en á sama tíma dimman, þrunginn alvarleika en ævintýralegan.

Grúska Babúska – Slagarinn

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.