Airwavesdagbók Guðmundar: Miðvikudagur

Af stemningunni í miðbænum á miðvikudaginn mátti ráða að eitthvað var yfirvofandi. Eitthvað spennandi. Á hverju götuhorni tók við manni ný, erlend tunga og inn og út af öldurhúsum borgarinnar streymdu tæki og tól, hljóðfæri og fólk. Meira að segja í pottunum í Vesturbæjarlauginni mátti greina þetta, þar sem rithöfundar, tónlistarmenn og gamalmenni voru samankomin að spjalla um málefni líðandi stundar: Airwaves er að byrja. Tilfinning mín var sú að aldrei hafi fleiri útlendingar verið hingað komnir til að sjá, upplifa og heyra íslenska tónlist. Og dagskrá kvöldsins var svolítið eftir þessu; flestir listamennirnir voru íslenskir og marga hverja hafði maður séð spila oftar en einu sinni eða tvisvar. Ég tók því þann pólinn í hæðina að elta uppi það sem hafði áður framhjá mér farið.

Ég byrjaði kvöldið á Off-venjúi í boði Gogoyoko á Bar 11. Þar voru finnsku öldungarnir í 22-Pistepirkko að leika fyrir dansi. Ég ætla bara að gera hreint fyrir mínum dyrum; meiri tími fór í skeggræður yfir ölkrús en eiginlega inntöku á músík. Stundum náði bandið þó að grípa athygli mína með snjöllum gítarlínum og þokkaleg kraftmiklu rokkstuði svo samræðurnar voru settar á hold. Það er greinilegt að bandið hefur gert þetta lengi; virtist nokkuð öruggt í flutningi sínum en hafði mátt hafa meira gaman af þessu. Þó óhætt að mæla með að fólki kíki á þessa reynslubolta.

Pornopop voru næstir á dagskrá; aðrir öldungar sem ég hafði ekki séð áður. Pornopop samanstendur af tveimur bræðrum en þeim til halds og trausts voru Franz, úr Ensími, og Ingi Björn, bassa- og kyntröll. Tónlistin var áheyrileg; svona gítardrifið letirokk, minnti á köflum á American Analog Set. En framkoman var álíka letileg og tónlistin sjálf. Þeir spiluðu og sungu með lokuð augun; ekki af innlifun heldur frekar eins og þeir væru bara pínu þreyttir.

Á Faktorý voru það reggí-bönd Amaba Dama og Ojba Rasta sem áttu að slá botninn í tunnuna þar á bæ. Það fyrra hafði ég aldrei heyrt um áður, Amaba Dama, en það síðara er orðið landanum góðkunnugt. Það var vel hægt að dilla sér við Amaba Dama. Spilagleðin var í fyrirrúmi og sviðsframkoman lífleg; meðlimir klæddir fjöðrum og glingri. Því miður bliknuðu þau hinsvegar í samanburði við Rastana í Ojba. Bandið var þétt og vel spilandi, lögin grípandi og skemmtileg. Ekki skemmir fyrir að hafa Dubmaster innanborðs en hann gefur litríku bandinu enn meiri lit. Stemning var þar að auki orðin vel sveitt enda staðurinn stútfullur af fólk í miklu stuði. Því miður náði ég ekki að hlýða á tónleikana til enda því samverkamaður minn gerðist drukkinn og spjó. Ojbarasta!

Þetta kvöld var fínn forsmekkur fyrir það sem koma skal. Venjúarnir voru full fáir þetta kvöldið og því mynduðust raðir á ákveðnum stöðum. En þannig er það bara! Þar sem ég sit hér og rita þetta yfir kaffibolla finn ég vissulega fiðring fyrir kvöldinu í kvöld. Beach House er vafalaust það númer sem ég er spenntastur fyrir. Annars heilla norsku málmhausarnir í Deathcrush, kanadamennirnir í Young Galaxy og japansk-bandaríski dúettinn Fig. Þess má geta að Nels Cline, gítarsveinn Wilco, er annar helmingur Fig. Þetta verður eitthvað!

Þess má geta að myndum var stolið af Flickr-síðu Loftleiða og þær birtar án leyfis. Ég vona að ég fái ekki skömm í hattinn.

Kvikmyndaumfjöllun : Howl

Kvikmyndin Howl (Ýlfur) hefur verið í sýningu í Bíó Paradís undanfarnar vikur. Myndin var frumsýnd hér heima í júní á nýendurvöktum Hinsegin bíódögum ásamt þrem öðrum myndum. Myndin fjallar um skáldið Allen Ginsberg og endurupplifanir hans á ástarævintýrum, ferðalögum og fleiru sem varð kveikjan að ljóðunum í bókinni Howl and Other Poems, og málaferli í kjölfar útgáfu hennar, en útgefandi bókarinnar var kærður árið 1957 fyrir klámfengið innihald ljóðanna.

Myndinn er byggð á upplestri Ginsbergs og viðtölum. Túlkun James Franco á upplestrinum byggist líklegast á upptökum frá 1955 þar sem Ginsberg las ljóðin af mikilli innlifun fyrir áhorfendur á Six Gallery.

Sjálfur þekkti ég ljóðin ekki áður en ég sá myndina, og vissi lítið um Allen Ginsberg, en myndin vakti strax áhuga hjá mér á skáldinu og ljóðum hans. Myndin er að stórum hlutu uppbyggð af teikni- og hreyfimyndum Erics Drooker. Eru þessir kaflar nokkur af athyglisverðustu atriðum myndarinnar og falla þau fullkomlega að upplestri Franco. Myndefnið er á köflum djarft sem er vel í anda við efnið.

Franco veldur ekki vonbrygðum í hlutverki sínu frekar en fyrri daginn en annars er myndinn er stútfull af góðum leikurum og flottum senum. Það eru örfáar sýningar eftir af myndinni og hvet ég kvikmyndaáhugamenn eindregið til að drífa þig að sjá myndinna á stóra skjánum.

Leikstjórar:
Rob Epstein
Jeffrey Friedman

Leikarar:
James Franco
David Strathairn
Jon Hamm
Bob Balaban
Jeff Daniels
Treat Williams

Extreme Chill Festival 2011: Undir Jökli. Fyrri hluti

Snæfellsjökull heilsaði hvítur, fagur og máttugur þegar komið var inn að Hellisandi á fimmtudagskvöldið. Sólin var að setjast og eitthvað lá í loftinu en þó, engar geimverur sjáanlegar. Önnur Extreme Chill raftónlistarhátíðin var að hefjast. Leiðinni var haldið að fallegu, svörtu timburhúsi þar sem snemmboðnir gestir voru boðnir velkomnir með heitri og sterkri fiskisúpu, köldum bjór og útsýni yfir hafið sem auðveldlega bræddi hjörtu hörðustu manna. Slökunarstemming tók völdin og einkenndist fyrsta kvöld hátíðarinnar af einstaklega mjúkri raftónlist, sófakúri skipuleggjanda (þeirra Andra M. Arnlaugssonar, Pan Thorarensen og fjölskyldu) og nærstaddra, kertaljósum og rólegheitum. Sannkallað logn á undan storminum.

Næsta dag tók að bæta í fjöldann og heimildir voru um að helgarpassar, sem seldir voru í forsölu á miði.is, væru að klárast. Aðstandendur héldu niður að Félagsheimilinu Röst þar sem áætlað var að hýsa hátt í 30 innlenda, sem erlenda raftónlistarmenn, næstu tvö kvöld. Gamla félagsheimilið breyttist hægt og rólega í tónleikahöll í hæsta klassa þar sem Óli Ofur og hljóðkerfi hans tók að fylla sviðið og myndlistarmaðurinn Guðmundur Þór “Mummi” Bjargmundsson kom fyrir sýningartjöldum. Á meðan aðstandendur og fjölskylda gerðu að fiskisúpu morgundagsins í eldhúsi félagsheimilisins og kláruðu síðustu pússanir, héldu hátíðargestir á tjaldstæðið rétt við bæinn þar sem útigrillin voru tendruð og fólk nærði sig. Fyrir þá sem ekki vildu tún og hraun var kaffihúsið Sif hinn besti kostur. Þar gátu hátíðargestir nært sig með köldum kranabjór, háklassa kjúklingabringu a la Sif og eins og einu staupi af íslensku brennivíni.

Um klukkan 20.00 hófust leikar og hafði bæst virkilega í hópinn. Grófar tölur áætluðu að hátt í 300 manns myndu sækja hátíðina að þessu sinni. Hafði þá fjöldi gesta margfaldast frá jómfrúarhátíðinni árið áður. Það var í höndum þeirra Árna Vektor og DJ Andre (eins skipuleggjenda hátíðarinnar) að bjóða fólkið velkomið í Félagsheimilið Röst og gerðu þeir það með sóma. Þeim fylgdu svo Inferno 5/Jafet Melge og í samblandi við myndlistaverk Guðmunds Þórs (Mumma) virkaði þetta allt saman stórfenglega. “Mummi” sýndi retro og svarthvítar hreyfimyndir í bland við landslagsfilmur sem hann hafði einnig tekið upp á staðnum við komu sína þetta árið. Frábært! Ekki var hljóðkerfi Óla Ofur síðra og áttu þeir Tonik (Anton Kaldal) og síðar Steve Sampling eftir að nýta sér það til fulls. Sá síðarnefndi hefur undanfarið fengið frábæra dóma fyrir plötu sína, The Optimist, sem út kom í apríl sl. undir merkjum TomTom Records. Tonik hefur sömuleiðis sent frá sér breiðskífu í samstarfi við TomTom en gripur sá nefnist Snapshot One og kom út í febrúar. Stemmingin og andinn innan sem utan veggja félagsheimilisins var magnaður. Voru það ekki einungis rafþyrstir tónleikagestir sem sáu sér fært að líta á kvöldið, heldur höfðu kanínur, hvítir kettir og fuglar ákveðið að fylgja með. Dýralífið, fegurð nærliggjandi náttúru, tónlistin og viðhorf og viðmót gesta sýndi það og sannaði í eitt skipti fyrir öll að elektrónísk tónlist á svo sannarlega upp á borðið hér á landi.

Skurken (Jóhann Ómarsson) hefur löngum verið einn af þekktari rafónlistarmönnum hérlendis og henti í góða blöndu af dansvænni og þægilegri elektróník sem sýndi og sannaði styrk hans á sínu sviði. Ögn drifkeyrðara en fyrri listamenn kvöldsins sem gerði það að verkum að fólk gat dillað sér örlítið og gaf næstu mönnum, Plat, byr undir báða vængi. Plat blönduðu (líkt og Tonik fyrr um kvöldið) hljóðfærum á borð við gítara og bassa í sitt sett og kom það mjög vel út. Hönd í hönd leiðist tónlistin og því meira bland, því betra. Loks var það í höndum Orang Volante (Atli Þorvaldsson) og Captain Fufanu að klára kvöldið. Klukkan var orðin nokk margt, eða um tvö og dreifðust gestir um reykrými, hátíðarsalinn og baksviðssvæði mun meira en áður en bæði bönd sáu vel um sitt og áttu gott sett. Captain Fufanu á framtíðina fyrir sér í rafheiminum en þessir ungu strákar hófu að koma fram fyrir ekki svo löngu síðan og hafa áunnið sér gott orðspor fyrir hresst og þétt elektró. Meira af þessu strákar! Kapteinninn henti fólki út á vit ævintýrana en um þrjúleytið dreifðist fólk jafnt um tjaldstæði sem önnur svæði Hellisands og tók gleðin völd. Safnaðist brosmilt og ánægt fólk að bifreiðum sínum og tjöldum og keyrði tónlistina og gleðina fram undir morgun. Það heyrðist vel og sát að tónleikagestir höfðu ekki séð eftir því að líta við á Extreme Chill Festival 2011: Undir Jökli. (Von er á myndum ásamt myndbrotum frá hátíðinni á næstu dögum)

Áhugaverðustu plötur ársins að mati Rjómans : Fyrsti hluti

Þá er komið að árlegri yfirferð Rjómverja yfir bestu áhugaverðustu plötur fyrri hluta tónlistarársins. Þetta er aðeins fyrsti hluti og eru þetta því engan veginn tæmandi listi.

Timber Timbre – Creep on Creeping on
Draugar og aðrir vættir koma fyrir í heillandi martröðum Taylor Kirk, en það er þó alltaf maðurinn sjálfur sem er ógnvænlegastur; hver maður er þjakaður af djöflum. Hin myrka en einstaklega grípandi Creep on Creeping On, fjórða platan frá kanadíska þjóðlaga-gotabillýbandinu Timber Timbre, er sálfræðitryllir með ungum og dularfullum Roy Orbison í aðalhlutverki.

Akron/ Family – S/T II: The Cosmic Birth and Journey of Shinju TNT
Nýjasta plata Akron/Family er einstök ferð um hugvíkkandi sléttur sýrutónlistar og þjóðlagarokks, allt frá geimstöð í framtíðinni aftur í þjóðflokkasöngva fortíðar, með viðkomu á áttunda áratugnum. Maður veit aldrei hvað leynist hinum megin við hornið, en trippið verður aldrei slæmt. Þetta er það besta frá Akron síðan Love is Simple kom út.

Jeffrey Lewis & Peter Stampfel – Come on Board
Stórborgarskáldið Jeffrey Lewis leitaði uppi sýruþjóðlagagólarann Peter Stampfel (úr hinni goðsagnakenndu The Holy Modal Rounders) og fékk hann til að gera með sér plötu. Hvorugur getur sungið, textarnir eru óskiljanlegur galsahúmor, og undirspilið eru hálffölsk órafmögnuð hljóðfærum. Stemmningin dansar á mörkum þess að vera of flippuð, en heldur sér alltaf réttum megin við strikið. Hvorki fyrir hljóðperra né fýlupúka.

Earth – Angels of Darkness, Demons of Light 1
Hljómsveitin Earth er ennþá þyngri en pláneta, og lögin silast áfram á sama hraða og ein slík. Einkennandi gítarleikur Dylan Carlson og drungalegur sellóleikur Lori Goldstein skapa saman hina fullkomnu tónlist til hlusta á þegar maður röltir einn um villta vestrið, þ.e.a.s eftir að kjarnorkusprengja hefur þurrkað út allt líf og það eina sem þú átt í vasanum er pakki af morfíni.

Sin Fang – Summer Echoes
Summer Echoes heillaði við fyrstu hlustun. Hún yljar, hún kætir, hún grætir og jafnvel svæfir á köflum. Hér er komin alvöru sumarplata fyrir okkur Íslendinga og það íslensk plata.

Sin Fang – Fall Down Slow

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Þórir Georg – Afsakið
Platan Afsakið kom út sitt hvoru megin við áramótin, á netinu og svo á áþreyfanlegu formi. Afsakið er fyrsta breiðskífa Þóris Georgs (My Summer As A Salvation Soldier) sem einungis er sungin á Íslensku og tekst honum vel til. Af fyrri plötum Þóris minnir hún helst á hina stórkostlegu Death, tilraunamennska í hljóðfæraskipan og hljóðheimsmyndun er í lágmarki en laga- og textasmíðar eru í fyrirrúmi. Eins og áður er sögusviðið strætóferð um gráar götur Reykjavíkur og enn grárri ranghala sálarlífsins.

Bon Iver – Bon Iver
Þetta er allt önnur “Emma”. Frábær hljóðheimur hjá einstökum listamanni. Óvæntar stefnur en gengur algjörlega upp. Plata ársins?

Fleet Foxes – Helplessness Blues
Hér er allt eins og það á að vera. Robin Pecknold og félagar tóku sér langan tíma í að smíða sína aðra plötu og það heyrist að þeir vönduðu til verka. Fátt sem kemur á óvart en okkur langar samt að heyra plötuna sem endaði í ruslinu.

Fleet Foxes – Helplessness Blues

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Danger Mouse & Daniele Luppi – Rome
Baneitruð blanda. Plata sem hefur verið lengi í smíðum og hljómar frábærlega. Helsta sem hægt er að kvarta undan er að hún er bara 35 mínútur.

Danger Mouse & Daniele Luppi – The World (feat. Jack White)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Okkervil River – I Am Very Far
Sjötta plata þessa stórlega vanmetna bands frá Texas. Will Sheff er einn besti textasmiðurinn í bransanum. Svínvirkar líka á sviði.

Okkervil River – Wake and be fine

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Converge vs. Caribou

Undanfarnar vikur hefur verið töluvert meira framboð af stórum tónleikum í Reykjavík heldur en venjulega, með innlendum jafnt sem erlendum sveitum. Opnun Hörpunnar spilar auðvitað inn í sem og tónlistarviðburðir nýafstaðinnar Listahátíðar í Reykjavík, en þeir tónleikar sem undirrituð var spenntust fyrir og skellti sér á voru annars vegar tónleikar Converge á Sódóma og svo Caribou á Nasa – sveitir sem eru eins og svart og hvítt en báðar þekktar fyrir að vera frábærar á sviði. Hér að neðan má lesa umfjöllun um báða tónleika og svo er bara að krossleggja fingur og vona að þetta tónleikaæði sé ekki bara bóla sem mun springa, heldur komið til að vera!

Converge – Sódóma – 20. júní

Spenningurinn var áþreifanlegur þegar gengið var upp sveittan stigann á Sódómu mánudaginn 20. júní og alls ekki að ástæðulausu. Converge er sveit sem á fáa sína líka í harðkjarnasenunni og hefur á yfir tuttugu ára ferli orðið ein áhrifamesta sveit geirans og komið mörgum óhörnuðum unglingum – já og ólíklegasta fólki – á bragðið og opnað hlið að heilum heimi tónlistar sem margir hefðu eflaust annars misst af. Þeir Ben, Nate, Kurt og Jacob virðast ekki stíga feilspor og tekst að halda í aðdáendur sína með hverri nýrri plötu og trylltum tónleikum. Þeir komu hingað síðast árið 2004 og spiluðu í Iðnó – tónleikar sem margir tónleikagesta Sódómu misstu væntanlega af vegna of ungs aldurs. Reyndar var áberandi hversu breið flóra fólks mætti á tónleikana – gestir á öllum aldri biðu spenntir eftir að sjá sveitina – sumir í annað, þriðja eða tíunda skiptið. Uppselt var á tónleikana í forsölu og ég er nokkuð viss um að þeir miðar sem eftir voru þegar breytt var um staðsetningu hafi selst upp við hurðina því það var ansi pakkað á Sódómu þetta kvöldið.

Um upphitun sáu hljómsveitirnar For a Minor Reflection og Logn og stóðu þær sig báðar feikivel. FaMR höfðu mætt talsverðum mótbyr þegar tilkynnt var um upphitunarsveitir, en óánægjuraddir kröfðust þess að fá harðari sveit til að hita upp sem sverði sig meira í ætt við tónlist Converge. Þeir gáfu athugasemdunum lítinn gaum og óhætt er að segja að þeir hafi komið mörgum skemmtilega á óvart á tónleikunum þar sem krafturinn var í fyrirrúmi og lítið eftir af póstrokkepíkinni sem einkenndi fyrri plötu þeirra. Nýja efnið hljómar vel, flóknari lagasmíðar og rokkkaflar fá að njóta sín og reyndist þetta vera hin fínasta byrjun á kvöldinu. Logn-menn voru næstir á svið og var ég að sjá sveitina í fyrsta sinn á sviði eftir að hafa líkað ágætlega upptökur sem ég hafði heyrt áður. Þeir voru flottir, þó að á köflum hafi hljóðið í salnum ekki gert tónlistinni nægilega góð skil – vandamál sem mér skilst að sé heldur algengt á tónleikum þeirra. Strákarnir eru allir í kringum menntaskólaaldurinn og verður sérstaklega gaman að fylgjast með þeim á næstu misserum enda afar kröftug sveit sem er að gera áhugaverða hluti og er kærkomin viðbót í senuna.

Þá að stjörnum kvöldsins; Converge voru ekkert að tvínóna við hlutina og  byrjuðu tónleikana af krafti sem átti eftir að fylgja þeim út kvöldið. Tónleikarnir voru þeir síðustu af Evróputúr þeirra sem haldið var í til að fylgja eftir plötunni Axe to Fall frá árinu 2009. Það var ringulreiðin í “Concubine” sem setti tóninn og fljótlega kom í ljós að setlistinn var sá sami og  á öðrum tónleikum á túrnum. Skiljanlega voru lög af Axe to Fall í fyrirrúmi en var blandað við lög af eldri plötum sveitarinnar við mikinn fögnuð með tilheyrandi pytti og látum. Sódóma virkaði talsvert betur sem tónleikastaður fyrir þessa tónleika en ég hafði búist við og var rýmið að mörgu leyti hentugt. Hljóðið var líka ansi gott, eitthvað sem ekki er alltaf hægt að ganga að vísu á staðnum, þó gítarinn hjá Kurt hafi mér stundum þótt heyrast helst til lágt í. Á milli laga þakkaði Jacob fyrir hlýjar viðtökur og sagði þá vera glaða að vera komna aftur jafnt sem hann kynnti sum laganna með sögum af tilurð þeirra eða útskýringum á umfjöllunarefni textanna sem sumar hverjar voru heldur óhuggulegar. Allan tímann voru gestir fljúgandi um í pyttinum og fengu nokkrir að spreyta sig í míkrafóninn. Sveitin var þó ekki hress með köll úr sal með óskalagabeiðnum, eða eins og Nate orðaði það: “We’re not your fucking iPod!!!”. Þegar fór að líða á tónleikana var Sódóma orðin vel sveitt og þegar Jacob tilkynnti  að tvö lög væru eftir batnaði það ekki og allt fór á flug. Sem betur fer reyndist sveitin þó vera með tvö lög að auki uppi í erminni fyrir uppklapp og upphafslínurnar í “Drop Out” byrjuðu. Lagið rann svo beint saman við “Last Light”, sennilega hið fullkomna Converge lokalag en bæði lögin eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér og ég hefði því ekki getað verið sáttari. Hljómsveitin fór sveitt af sviðinu, en ekki fyrr en hún hafði lofað að koma aftur að ári. Þá er bara að vona að hún standi við það!

Myndband: HöddiDarko

Caribou – Nasa – 28. júní

Caribou voru upphaflega bókaðir á Nasa í maí en þá hófst jú eldgos og flugi sveitarinnar til Íslands var aflýst og þar með tónleikunum. Íslenskir aðdáendur sveitarinnar þurftu þó ekki að örvænta þar sem strax var tilkynnt að Caribou væru vissulega á leið til landsins og önnur dagsetning yrði tilkynnt von bráðar. Það varð svo úr að ákveðið var að hafa tónleikana þann 28. júní.

Það var vel stappað hús sem tók á móti mér þetta þriðjudagskvöld og kom í rauninni skemmtilega á óvart þar sem ekki hafði selst upp þegar ég gáði um daginn. Það voru Sindri og félagar í Sin Fang sem sáu um upphitun. Sveitin stóð sig að vanda vel og er reyndar áberandi betri í hvert sinn sem ég sé hana á sviði. Sveitin spilaði aðallega efni af nýju plötunni Summer Echoes en eldri lög fengu þó að slæðast með og virtist tónlistin fara vel í tónleikagesti. Einu hnökrarnir voru í lokalaginu sem Sindri virtist ekki alveg muna hvernig byrjaði, en hlaut sveitin bara enn meira lófatak fyrir vikið þegar lagið var loks komið á skrið.

Caribou byrjuðu með látum á laginu “Kaili” af plötunni Swim frá 2010 sem átti eftir að vera í fyrirrúmi á tónleikunum, enda verið að fylgja henni eftir. Ég var einkar hrifin af vel skipulagðri uppröðun hljómsveitameðlima á sviðinu en þeir komu sér fyrir í bogadregnum hálfhing sem einhvernvegin þétti heildarhljóminn til muna. Þeir eru auðvitað væntanlega búnir að leggjast í heilmikla rannsóknarvinnu á því hvernig þeir komi best út á sviði enda heyrði ég að þeir hafi verið sú sveit sem túraði hvað mest árið 2010. Það helst algjörlega í hendur við tónleika þeirra á Nasa – strákarnir fjórir voru í dúndurformi og framleiddu margfalt flottari tónleika en ég hefði nokkurntíman getað búist við! Að hluta til er lágum væntingum mínum um að kenna tónleikum sem ég hef farið á með öðrum hljómsveitum innan raftónlistargeirans sem oftar en ekki einkennast af aðalgaurnum í makkanum sínum, pikkandi á eins og einn synth undir playbakki. Eins er bara ákveðið mikill kraftur sem hægt er að framreiða á tónleikum, sérstaklega þegar tónlistin er eins margslungin á köflum og sum Caribou lög eiga það til að vera. En Dan Snaith hefur valið sína meðspilara vel og áttu þeir mikinn þátt í að tónleikarnir voru jafn vel heppnaðir og raun bar vitni. Hann bar þó höfuð og herðar yfir hina og magnað var að fylgjast með fjölhæfni hans njóta sín á sviðinu þar sem hann skipti út hljóðfærum á sokkaleistunum eins og óður maður. Ekki nóg með að röddin færi í hæstu hæðir án sýnilegrar áreynslu og fingurnir stjórnuðu synthnum meistaralega, heldur gerði hann sér lítið fyrir og vippaði sér á gítar þegar maður átti síst von á því – nú eða flautu! Best var þó þegar hann settist við trommusett og sameinaði krafta sína og trommarans Brad Weber sem saman gerðu lögin afar kraftmikil. Brad á reyndar sérstakt hrós skilið,  einstaklega teknískur trommari sem er afar fær í sínu fagi og lífgaði mjög upp á tónleikana. Bassaleikarinn John Schmersal átti líka góða spretti, en hann hjálpaði líka til við sönginn og tók til að mynda laglínuna í viðlagi “Jamelia”, en það lag var klárlega einn af hápunktum kvöldsins þar sem sveitin gaf sig alla í framkomu. Caribou enduðu tónleikana á stuðsmelli síðasta sumars, “Odessa”, en tónleikagestir voru sko ekki á þeim buxunum að sleppa þeim strax og klöppuðu þá kröftuglega upp og hlutu “Sun” að launum. Þegar tónleikunum var lokið gengu gestir ánægðir út, þótt einhverjir hefðu á orði að tónleikarnir hefðu orðið skemmtilegri hefðu þeir verið haldnir um helgi og grey útlendingarnir spurðust fyrir um opna bari án árangurs. Fyrir mína parta segi ég bara að þetta var kærkomin tilbreyting, ekki allir tónleikar með djammvænlegum sveitum þurfa að vera um helgi. Það virtist að minnsta kosti ekki stoppa tónleikagesti að þetta var þriðjudagskvöld þar sem dansinn dunaði megnið af tímanum. Allt í allt glæsilegir tónleikar!

            Mynd: Pu the Owl

Ellismellur: Handskrift Khonnors

Orðið ellismellur hefur þessa merkingu í huga mér: eitthvað sem tilheyrir ekki okkar tíma en er samt brakandi ferskt og skemmtilegt. Eitthvað fornt sem er ekki síður viðeigandi í samtímanum; eitthvað sem hefur lifað lengi en heldur áfram að þroskast – kannski eins og ostur eða vín. Í tónlistarlegu samhengi snýst ellismellurinn þannig um nostalgísk rokkmóment, falda fjársjóði eða upprifjun á gleymdum, góðum, gömlum tímum.

Orðið ellismellur er þó sennilega engan veginn rétt til þess að lýsa þeirri tónlist sem hljómar á fyrstu breiðskífu raftónlistarmannsins Khonnor. Hljómar raunar eins og fjarstæða. Handwriting er í fyrsta lagi samin af 18 ára óhörnuðum unglingi og ekki er liðinn áratugur síðan skífan kom fyrst út. Þannig er ekkert gamalt eða retro við plötuna; hún vísar ekki nema að litlu leyti aftur til fortíðar. Þar að auki vakti hún aldrei athygli á almennum plötumarkaði og komst ekki inn á einn einasta metsölulista. Er það ekki algjörlega andstæða þess að vera smellur? En samt: Handwriting fór að miklu framhjá mörgum tónlistargrúskurum þrátt fyrir að vera þrusugóð plata. Í því hraða samfélagi sem við lifum í má líta svo á að hún sé gömul og þar að auki gleymd. Það er mikil synd þar sem að hér á ferðinni smellin plata. Plata sem á ekkert síður erindi inn í spilarann í dag og á þeim tíma sem hún var gefin út.

Handwriting kom út árið 2004 á vegum Type Records; þetta er lítil, óháð plötuútgáfa sem gerir út frá Bretlandi og hefur m.a. gefið út íslenska nýklassíkerinn Jóhann Jóhannson. Hinsvegar var skífan tekin upp í kjallara Khonnors sjálfs í New Hampshire. Sagan segir að Connor Long, eins og hann heitir réttu nafni, hafi tekið hana upp á nokkurra mánaða tímabili með hljóðnema sem fylgdi forriti til að læra þýsku. Þá var hann 17 ára. Einnig hef ég heyrt að hvíslandi söngstíl Khonnors megi rekja til þess að hann hafi ekki viljað láta foreldra sína vita hvað hann var að bralla; hann átti jú að vera að læra þýsku – ekki semja tónlist. En þessa sögu get ég því miður ekki selt á uppsprengdu verði. Ágæt saga samt, ekki satt?

Ef við snúum okkur hinsvegar að plötunni sjálfri en ekki goðsögnunum kringum hana, þá má segja að við fyrstu hlustun bjóði Handwriting áheyranda kannski ekki upp á margt. Á milli skruðninga og suðs má vissulega greina dáleiðandi hljóðgervla og söng – en samt heyrir maður nú bara mestmegnis suð. Þar að auki dofna öll lögin út og þegar maður er rétt að ná í skottið á þeim, þá eru þau hreinlega á enda runninn. Sumt vissulega aðgengilegra en annað en á sama tíma einhvern vegin ofboðslega undarlegt. En því oftar sem maður hlustar – því betri verður platan (svona eins og gengur og gerist).

Ég ætla að reyna að lýsa þessu betur fyrir ykkur. Í grunninn er hljóðheimur Khonnors akústískt-elektrónískur; þar hittast kassagítar og rödd, hljóðgervlar og stafræn taktgerð. Með þetta hráefni skapar Khonnor ofboðslega melódískan og aðlaðandi heim; frumlegan en tormeltan. Hann vefur suðandi hljóðskúlptúrum í kringum þetta allt, svo melódíurnar týnast svolítið – þar til að áheyrandi er orðinn kunnugur þessari veröld, þá fara hlutirnir að gerast.

Lagasmíðarnar eru í raun fremur einfaldar; viðkunnalegur hljómagangur á kassagítar skreyttur með rafdútli, eða dreymandi, ambískir hljóðgervlar sem Khonnor raular yfir. En unglingurinn hefur þó merkilega naskt eyra fyrir smáatriðum og fegurð. Hljóðheiminum verður seint lýst sem dýrum eða stórum, hann er raunar afskaplega lágstemmdur og naumhyggjulegur. Aftur á móti er hann heilsteyptur, fullskapaður og sérlega fagur. Í því liggur að minnsta kosti hluti galdursins.

En fyrst ég fór að ræða um Khonnor, þá neyðist ég til að vikka sjóndeildarhringinn aðeins. Drengurinn á bakvið Khonnor er nefnilega lúmskt afkastamikilll og fjölbreyttur tónlistarmaður. Ef við hendum út neti Intersins með nafn Connor Long sem möskastærð má nefnilega fiska ýmistlegt upp úr djúpinu. Um árabil hefur kauði laumað út stuttskífum á vefinn undir ýmsum nöfnum. Grandma, Gaza Faggot og i, cactus eru allt einn og sami maðurinn, þ.e. Connor Long. Verkefnin er eins og ólík og þau eru mörg en eiga það þó sameiginlegt að vera í grunninn raftónlist.

Sem i, cactus framreiðir Connor einstaklega áheyrilegt og melódískt átta-bæta rafpopp. Fyrsta plata i, cactus kom út árið 2003, þ.e. ári fyrr en Handwriting, og birtist þá á síðunni 8-bitpeoples.com. Tónlistin er ekki alveg hundrað prósent 8-bit heldur nýtir hann sér ,,Geimbojinn“ sem þema á plötunni og fléttar saman við aðra syntha sem hafa aðeins fleiri bæt en leikjatölvan fyrrnefnda. Þetta gerir það að verkum að þeir sem ekki hafa týnt sér í nördisma 8-bæta tónlistar ættu líka að geta notið. Á síðast ári gaf hann svo út smáskífuna China Shipping Co. Lagið gaf hann út sem .mp3-skjal en í möppu fylgja svo með öll sömplin sem tónlistarmaðurinn vefur músíkina úr. Þetta er svolítið skemmtilegt, því það gefur aðdáendum færi á að endurhljóðblanda China Shipping Co. án þess að það sé eitthvað brjálað maus.

Fyrsta útgáfa Connors er hinsvegar undir nafninu Grandma. Stuttskífan Spinach Gas Room Spaghetti Straps kom út árið 2002, og inniheldur m.a. hið stórskemmtilega He Near Krxern sem heyra má hér að neðan. Sama ár kom svo önnur stuttskífa frá Grandma, en hún nefndist Bopping Around In A Skin Car og inniheldur fjögur lög rétt eins og hin. Í dag eru plötur Ömmunnar orðnar fjórar talsins og margt af því efni er bara ansi vel heppnað.

Að lokum er það svo hann Gaza Faggot. Gazastrandar homminn hefur gefið út eina plötu, Welcome to Softbo. Softbo er mun tilraunarkenndari en nokkuð annað sem kappinn hefur gert, en engu að síður heldur Connor fast í höfundareinkenni sín. Platan inniheldur sjö lög sem öll eru ólík innbyrðis en eiga það þó sameiginlegt að búa yfir einhverju kitlandi og spennandi elementi.

Allar þessar útgáfur Connor eru mjög naumhyggjulegar og hráar. Í því er ákveðinn sjarmi en raunar vildi ég óska að einhvert plötufyrirtæki með svolítinn pening á bankabókinni myndi taka kappann á arma sér og splæsa í alvöru hljóðversplötu. Connor er nefnilega klár og skemmtilegur tónlistarmaður sem enn hefur ekki, að mínu mati, fengið að blómstra eins og skildi. Kannski vill hann bara hafa þetta svona, hvað veit ég, en fróðlegt væri þó að heyra drenginn ganga lengra með tónlistarsköpun sína.

Hvað sem því líður þá er ellismellurinn Handwriting orðinn ómissandi hluti af plötusafninu mínu og hefur fengið að hljóma við ýmis tilefni. Platan er persónleg, frumleg og passlega skrítin sem gerir hana að því sem hún er.

Khonnor – Man From The Anthill (af Handwriting)

Khonnor – Megan’s Present (af Handwriting)

i, cactus – yellow cactus (af i, cactus)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

i, cactus – China Shipping Co.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Grandma – He Near Krxern (af Spinach Gas Room Spaghetti Straps)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Gaza Faggot -Horse With Gold Teeth (af Softbo)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Útgáfutónleikar Ensími

Ensími fögnuðu útgáfu nýjustu plötu sinnar, Gæludýr, síðastliðið laugardagskvöld á Nasa við Austurvöll. Platan, sem kom út seint á síðasta ári, hefur fengið þónokkuð góða dóma í fjölmiðlum hér á landi og virðist hljómsveitin vera að feta ákveðin spor sem ekki hafa verið tengd við sveitina áður. Tilhlökkun aðdáenda var mikil, enda tilhlökkunarefnið ein vinsælasta rokksveit Íslands í frábæru kerfi á frábærum stað. Rjóminn leit við og athugað málin.

Klukkan var rúmlega ellefu þegar mætt var á Nasa. Virtust gestir ætla að láta bíða eitthvað eftir sér, enda þekkt fyrirbæri í íslenskri menningu að mæta fremur seint á tónleika, þá sérstaklega ef um helgardagsetningar er að ræða. Upphitunarsveit kvöldsins var hin unga og efnilega Cliff Clavin en sveitin gaf út plötu sína The Thief´s Manual á síðasta ári við góðar undirtektir senunnar hér á landi. Eitthvað virtist sveitin þó líflaus og þróttlítil þetta kvöldið en þó, líkt og ávallt, var hún verulega samstillt og þétt. Lög á borð við “As It Seems”, “Midnight Getaways” og “This Is Where We Kill More Than Time” hituðu gestum vel og opnuðu fyrir flóðgátt eyrnakonfekts.

Ensími létu ekki bíða lengi eftir sér og virtist salurinn nú hægt og rólega fyllast af aðdáendum stórum sem smáum. Gestir supu ölið vel og færðu sig nær sviðinu þegar Gæludýra-smellurinn “Í Aldanna R”ó með hinu grípandi synthastefi tók öll völd. Fögnuður áhorfenda var gríðarlegur og stemmingin góð. Þeir Hrafn Thoroddsen, Franz Gunnarsson, Arnar Gíslason, Guðni Finnsson og Þorbjörn Sigurðsson voru boðnir velkomnir með öskrum, lófataki og öllum leið vel. Launuðu Ensími gestum sínum lófatakið vel.

Ensími – Aldanna ró

Opnunarlag einnar bestu plötu rokksögu landans, Kafbátamúsík, “Flotkví”, hristi svo tryllilega upp í fjöldanum og  fylgdi nýja laginu eftir og fundu aðdáendur sveitarinnar sem ekki höfðu enn nælt sér í Gæludýr nú góðan sess á Nasa. Nostalgían tók öll völd og undirritaður viðurkennir gæsahúð. Ensími börðu járnið ruddalega á meðan það var heitt og hver smellurinn tók við af öðrum. Virtist kemistrían vera rétt og fínpússuð.

Gestir Nasa sungu með og dönsuðu og stemmingin var feikna góð. Skipti þá litlu máli hvort aðdáendur kærðu sig um eina plötu fremur en aðra frá sveitinni, því öllum var gert til geðs (sem gerist ekkert alltof oft). 12 ára útgáfuferill sveitarinnar var þá í raun gerður upp á mögnuðum tónleikum með virkilega fagmennlegum vinnubrögðum í bæði hljóði og ljósum. Það er heldur ekkert alltof oft sem maður gengur frá Nasa ákaflega sáttur við hljóðblöndun kvöldsins sem leið. Vonar undirritaður þó að önnur 12 ár fylgi.

Kafbátamúsík-smellirnir “Kælibox”, “Gaur” og “Atari” fengu öll að hljóma með BMX-systkinum sínum “Böstaður í Tollinum” og “Tungubrögð” auk “Brighter” af plötunni Ensími frá árinu 2002. Smáskífan vinsæla “Slow Retur”n fékk einnig góðan hljómgrunn. Telur undirritaður það ákaflega huggandi að hugsa sér áframhaldandi starfsemi Ensími en Gæludýr er fyrsta plata sveitarinnar í um átta ár en hápunktar Gæludýra-smella kvöldsins voru án efa taktskiptu gullmolarnir “Fylkingar” og “Heilræði” auk hins flæðandi “Ráfandi”. Síðastnefnda lagið minnir óneitanlega á gullöld sveitarinnar en skemmtilegt er að skoða nýju lögin út frá sögu sveitarinnar. Margt hefur breyst og tilraunir hafa borið ágætis árangur en þó, heldur sveitin í grunninn. Gott mál!

Ekki kom á óvart og biðu margir með eftirvæntingu eftir tryllingnum “Arpeggiator/Gulu”r sem sveitin lokaði þessu frábæra kvöldi nostalgíu, nýmetis og unaðs með en aðdáendur slepptu sveitinni ekki svo auðveldlega. Renndi sveitin þá í ágæta syrpu og þökkuðu svo fyrir sig.

Útgáfutónleikar Ensími á Nasa styrktu trú undirritaðs á sveitinni en sönnuðu einnig fyrir aðdáendum og nýrri kynslóð unnenda að hér er alvöru sveit á ferð. Sama hvort það sé Kafbátamúsík sem tryllir nostalgíuna og minnir á bílskúrsdaga fyrstu hljómsveitarinnar þinnar, BMX og Vínrauðvín sem lék í bakgrunni á meðan þú kelaðir við einhverja guðdómlega manneskju, Ensími í framhaldsskóla eða hvað að þá styrkir Gæludýr sveitina og gæðir hana lífi. Lífi sem nær tók enda fyrir 8 árum síðan.

Við skulum gleðjast fyrir áframhaldandi tilvist Ensími og taka nýju sem eldra efni opnum örmum, gleðjast og syngja með en sveitin heldur næst norður á land og halda tónleika á Akureyri og Húsavík dagana 25. og 26.mars nk.

Meðfylgjandi eru myndir frá tónleikunum sem Daníel Pétursson ljósmyndari Rjómans tók.

[nggallery id=2]

Útgáfutónleikar Agent Fresco

Ljósmyndir: Daníel Pétursson – www.danielpeturs.com

Fimmtudaginn síðastliðinn héldu penni og ljósmyndari Rjómans á útgáfutónleika Agent Fresco vegna plötunnar A Long Time Listening sem kom út seint á síðasta ári á vegum Record Records.

Ansi viðeigandi var að tónleikarnir skyldu vera haldnir í Austurbæ, en það var einmitt þar, fyrir þremur árum, sem Agent Fresco steig í fyrsta sinn á svið – á undankvöldi Músíktilrauna, sem hljómsveitin svo vann. Austurbær hefur á sér hátíðarbrag sem hentaði vel fyrir kvöldið þar sem öllu var tjaldað til eins og átti eftir að koma í ljós. Gaman hlýtur að hafa verið fyrir strákana að halda útgáfutónleikana þarna, líka í ljósi þess að venjan er að þeir troðfylli bari Reykjavíkur en sjaldgæfara að þeir spili á stöðum þar sem setið er.  Svo er alltaf gaman að fá tækifæri til að fara á tónleika í Austurbæ, þar sem lítið hefur farið fyrir þeim undanfarið og þótt undirrituð sé algjört tónleikadýr má telja upplifða tónleika í Austurbæ á fingrum annarrar handar.

Það er óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þetta örlagaríka kvöld á Músíktilraunum 2008. Í raun voru þessir tónleikar einskonar endurfæðing hljómsveitarinnar, úr Músíktilraunahljómsveit yfir í eina þéttustu hljómsveit landsins. Krafturinn lét að sér kveða allt frá fyrsta lagi,  hinu draumkennda „Anemoi“ og var ljóst á upphafstónunum að stórtónleikar voru í vændum. Gæsahúðin gerði vart við sig, sem er tvímælalaust gæðastimpill. Greinilegt var að áhorfendur voru því sammála en mikil fagnaðarlæti brutust út að laginu loknu og áttu eftir að halda áfram það sem eftir var kvöldsins. Tilkynnt var í upphafi tónleikanna að platan sem verið var að fagna þetta kvöld yrði spiluð í heild sinni en á henni eru 17 lög sem mikilvægt er að hlusta á í réttri röð fyrir heildaráhrif.  Þannig fæst betri tilfinning fyrir gríðarlega flottum lagasmíðunum og samhengi laganna. Þau eru þó vissulega missterk og uppskáru þekktari lögin (sem áður höfðu komið út á stuttskífunni Lightbulb Universe) mestu fagnaðarlætin á tónleikunum, eins og við var að búast.

„Anemoi“

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

A Long Time Listening er heillandi plata sem vinnur á við hverja hlustun og er magnað hversu flottir hljóðfæraleikarar strákarnir eru, hver á sínu sviði. Þeir voru í fantaformi og var greinilegt að þeir höfðu lagt allt í þessa tónleika. Mikið var um gestagang en þó hljómsveitin sjálf í forgrunni eins og klæðaburðurinn bar vitni um, en strákarnir fjórir voru allir klæddir í hvíta boli og svartar buxur en gestaleikarar í svörtu frá toppi til táar. Strengjakvintett lék listir sínar í nokkrum lögum, í öðrum voru auka hljóðfæraleikarar mættir til að hjálpa (rokkuð harmonikka, töff!), þar á meðal gamli bassaleikari hljómsveitarinnar, Borgþór. Haukur Heiðar, söngvari Diktu, söng bakraddir í nánast öllum lögum og gerði það mikið fyrir tónleikana. Þegar hann tók yfir laglínu Arnórs söngvara í „Translations“ var þó ljóst að karaktereinkenni raddar Arnórs er hljómsveitinni algjörlega nauðsynleg en Patton-öskrin hans hafa einmitt aldrei hljómað betur en þetta kvöld.

„A Long Time Listening“

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Einn af hápunktum kvöldsins var tvímælalaust þegar inn á sviðið gekk kór samsettur af vinum strákanna úr tónlistarheiminum til að leggja hönd á plóg í titillagi plötunnar, „A Long Time Listening“ – sem inniheldur mest grípandi laglínur sem ég hef heyrt lengi. Verst er að lítið heyrðist í kórnum til að byrja með en hann sótti í sig veðrið eftir því sem leið á lagið. Á hæla þess var vaðið í hið fallega „In the Dirtiest Deep of Hope“ þar sem söngur Arnórs og píanóspil Þórarins gítarleikara tvinnuðust saman á meðan áhorfendur sátu sem fastast, dáleiddir. Er þetta enn eitt dæmi um mikilfengi þessarar sveitar, sem getur á nokkrum mínútum farið úr hinu harðasta rokki í viðkvæmar og ljúfsárar melódíur sem fá hárin til þess að rísa á hausnum. Í því liggur styrkur Agent Fresco.

„In the Dirtiest Deep of Hope“

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Gert var hlé á tónleikunum um miðbik plötunnar sem hentaði ágætlega, enda mikið að gerast í lögunum og fínt að fá smá pásu.  Austurbær var gjörsamlega troðinn þetta kvöld enda uppselt og meiraðsegja tvíbókað í sum sætanna svo að margir þurftu frá að hverfa. Áhorfendur voru af öllum stærðum og gerðum og virtust allir skemmta sér vel. Áhorfendurnir voru þó í yngri kantinum þar sem tónleikarnir voru opnir öllum aldurshópum og mættu fleiri hljómsveitir taka sér það til fyrirmyndar.

Eftir hlé var krafturinn hvergi farinn að þverra og keyrt var í lög á borð við stuðlagið „Implosions“, hið brothætta „Pianissimo“ og „Above These City Lights“, en í því sást glöggt hversu vel hljómsveitin hefur þróað tónlistina sína. Strengjum var þó ofaukið í laginu og óþarfi að hlaða á það enda stendur það vel í hráleika sínum. Reyndar heyrðist almennt ekki nóg í strengjunum á tónleikunum og er það miður. Almennt séð runnu þó tónleikarnir ótrúlega smurt í gegn og er óhætt að segja að Agent Fresco hafi aldrei hljómað betur. Ein og ein feilnóta kann að hafa hljómað en það er ekki einu sinni þess virði að fjalla um þegar heildin er eins glæsileg og raun ber vitni. Við lok tónleikanna sást glöggt hversu hrærðir strákarnir voru og var ljóst að allir fóru sáttir úr Austurbæ. Með þessari plötu og tónleikum hefur Agent Fresco tekist að skapa fullkominn hljóðheim og er bara tímaspursmál hvenær þeir fara að spila á risasviðum úti í heimi með grúppíur á hælunum – þeir hafa að minnsta kosti alla burði til þess.

[nggallery id=1]

Viðtal við Mugison: Með tvær plötur í vinnslu

Það hafði frést að Mugison stefndi á útgáfu með hækkandi sól og reyndar kom í ljós að plöturnar eru tvær sem hann vinnur að. Rjóminn hafði samband og átti gott spjall við kappann með hjálp alnetsins þar sem hann sagði okkur m.a. frá plötunum, hinu heimasmíðaða mirstument og tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður.

Hvernig gengur vinna við nýja plötu? Eru lagasmíðar langt komnar?
Já, nokkuð langt komnar. Ég myndi segja að það væri ekki langt í land, þetta er bara spurning um tíma og vinnslu. Ég vona að platan komi snemma í sumar eða um mitt sumar. Ég stefni á að gefa eitt lag á netinu á næstu vikum.

Hvaða hátt hefur þú á vinnutímanum við lagasmíðarnar?
Ég reyni að vinna frá 8-4 og stundum þegar strákarnir eru sofnaðir. En maður vinnur aldrei alveg í 8 tíma. Ég er líka með útgáfuna og einhverra hluta vegna vinnur maður eiginlega aldrei meira en í 4 tíma og svo fer restin af deginum í að hlusta á músík, spila og spjalla við vini og helvítis fésið tekur oft einhvern óþarfa hálftíma. Þannig að þessir 8 tímar fara ekki í að búa til tónlist þó þeir ættu að gera það. Oft finnst mér betra að semja texta á kvöldin eða nóttunni hvernig sem á því stendur.

Hverjir koma til með að spila undir með þér á plötunni?
Ég veit það ekki. Eins og er er þetta bara kassagítarsplata sem ég vinn hérna heima en mig langar samt að henda í session og hluti af plötunni verði einhvers konar band. Það fer bara eftir því hverjir verða lausir þegar ég kýli á session en ég vona að það verði bara vinir og vandamenn. Sjáum til…

Mugiboogie var samsuða alls konar stíla, verður ný plata í ætt við hana?
Þessi íslenska plata er soldið svona blúsuð þjóðlög. Ónýtir gítarar og ég vona hún verði nú eitthvað öðruvísi. Ég stefni bara á góða plötu. Svo er ég náttúrulega að vinna í enskri plötu með mirstrumentinu mínu sem við Palli Einars bjuggum til. En ég veit ekki hvenær hún verður tilbúin, Palli er búinn að vera með mirstrumentið í viðgerð í mánuð. Það tekur tíma að læra á þetta kvikindi en ég var kominn ágætlega á leið áður en það fór í viðgerð. En hún verður meiri geðveiki vona ég. Annars veit maður aldrei, þetta bara gerist allt saman.

Mugison – Murr Murr

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Það hefur einmitt verið mikið rætt og ritað um þetta nýja hljóðfæri þitt “mirstrument”. Getur þú sagt okkur aðeins meira frá því?
Það er gamall draumur hjá mér að vera með eitt kit. Þeir sem eru duglegir að brasa á sínu eigin heimili, eiga sumarbústað eða eru áhugamenn um bíla eða hjól þekkja að þegar maður er með verkfærin sín útum allt þá fer svo mikill tími í að finna verkfærin, stilla þeim upp og allt það. Ég held að fólk þekki þessa löngun að hafa bara eitt megakit. Þaðan er hugmyndin komin því í gamla daga var ég með endalaust mikið af drasli með mér alltaf þegar ég var tölvutrúbador. Mig hefur lengi langað að fara þangað aftur og þetta er gömul pæling hjá mér og Palla Einars sem gerði þetta með mér. Við fundum svona hljómborðssetup frá framleiðanda sem heitir C-Thru Music og þetta byggir á einhverju sem heitir The Natural Harmonic Table en það sem þetta er í raun er bara alls konar drasl sem við tókum í sundur og settum í nýjan líkama. Svo fer hellings tími í að stilla þessu upp og græja hugbúnaðinn. Við notum mikið Reaktor sem er hugbúnaður frá Native Instruments og er skemmtilega opinn og ótrúlega öflugur. Það er samt komin lítil reynsla á að spila með þetta live þannig séð en það er gaman að leika sér á þetta. Ég var mjög duglegur að æfa mig síðasta sumar en ég þarf að finna meiri tíma, einhverja klukkutíma á dag, til að ná upp færni. En svo er líka hluti af þessu hljóðfæri svona ljósarigg sem er tengt við græjuna svo ég get staðið undir ljósunum, með gítarinn og móðurstöðina á gólfinu sem við erum að klára að smíða, en allt tekur þetta tíma. Þegar hugmyndin kviknaði þá fannst manni þetta geta gerst á tveimur dögum en svo eru bara bráðum tvö ár.

Ertu þá að stefna á að túra með minni mannskap með tilkomu mirstrument?
Ekkert endilega. Ég gaf út Mugiboogie sem er svona hljómsveitaplata með strákunum og þá var alveg nauðsynlegt að vera með bandið, líka af því að það var svo gaman að spila í hljómsveit. En núna langar mig líka að hafa þann valmöguleika að geta farið einn og þá ekki bara með kassagítar heldur með draslið með mér þannig að ég er kannski aftur að opna á þennan möguleika að vera einn, með þessa galdragræju. En alls ekki að loka á bandið. Það er bara soldið dýrt að túra með band. Fleiri flugmiðar, fleiri hótelherbergi, stærri bílar, leigja trommusett og magnara og þetta. Ég prófaði fyrir um ári að fara smá túr um Evrópu með mirstrumentið og ég gat gert það bara í lest og það munar um það. Hugmyndin er þá að geta farið með mirstrumentið og geta tekið þau gigg og svo þar sem að fólk er til í að borga betur að taka þá strákana með… skella í gott partý.

Mugison – I Want You

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Plötuumslögin þín hafa verið asni skemmtileg. Eru komnar hugmyndir að plötuumslagi?
Já, ég reyni að safna eins mikið af hugmyndum og ég get. Ég tek þær mikið upp á símann og krota niður. Ég er með fullt af hugmyndum og á síðustu stundu fer maður í dótakassann og bræðir saman nokkrar hugmyndir. Ég er samt ekki búinn að negla hvað ég ætla að gera. Ég er reyndar að gefa út fjögurra diska settið, Lonely Mountain, Monkey Music, Mugiboogie og Ítrekun saman í plastsetti, kannski helst hugsað fyrir túrista. Ég þarf að koma mér í að föndra, þeir eru að verða búnir hjá mér gömlu diskarnir. En vonandi get ég boðið uppá þetta í sumar.

En hvernig gengur undirbúningur á Aldrei fór ég suður?
Nokkuð vel. Við erum búnir að hittast nokkrum sinnum strákarnir og erum á leið í bæinn að finna hugsanlega styrktaraðila. Við vorum tæpir með að halda þetta í ár. Það var komin þreyta í mannskapinn, það er margt búið að breytast, þetta er að verða áttunda hátíðin og flestir komnir með börn sem áttu ekki börn fyrir og þetta náttúrulega heltekur okkur þennan tíma sem þetta stendur yfir og menn gera ekki mikið annað amk 10 daga í kringum þetta og svo er hellings undirbúningur fyrir það. Í gegnum tíðina hafa nokkrir dottið út og þetta var orðið spurning um hvort við þessir fáu sem voru eftir og fara alla leið ættum að nenna þessu. En svo erum við einhvern veginn búnir að gíra okkur í einhvern geggjaðan fílílng og leituðum til Ísafjarðarbæjar með að fá aðstoð frá þeim og virkja fólk til að hjálpa okkur, stækka hópinn. Ég held að við stækkum ekki mikið hátíðina uppúr þessu, hún er orðin ansi stór og flest allt gistirými undanfarin ár hefur verið uppbókað. Persónulega langar mig að þetta verði meira stuð, meiri gleði. Ekki það að þetta hafi ekki verið stöðug gleði… það er bara alltaf hægt að hafa meira gaman!

Rjóminn bíður með óþreyju eftir nýja efninu en lætur sér nægja í bili að kíkja á lagið “Stingum af” en það var frumflutt síðasta sumar á tónlistarhátíð á Laugarhóli á Ströndum. Mugison tók þetta myndband upp í heimastúdíóinu sínu í Súðavík og skellti inn á heimasíðu sína www.mugison.com. Ef vel er að gáð má sjá glitta í hið göldrótta mirstrument. Svo má auðvitað finna Mugison á Facebook og þar er líka Aldrei fór ég suður.

Mugison – Stingum af

Spjallað við Dënver

Maður er sí og æ að rekast á góða tónlist á þessu undarlega fyrirbæri, internetinu, en það vill brenna við að maður sé búinn að gleyma nýja uppáhaldsbandinu sínu jafnharðan. Sú varð ekki raunin þegar ég kynntist hljómsveitinni Dënver núna nýverið, og tveimur vikum síðar er það enn mitt fyrsta verk í vinnunni að kveikja á tónlistinni þeirra. Það kallast nú ágætt á þessum seinustu og verstu tímum að hlusta daglega á sömu sveitina í tvær vikur.

Það eru skötuhjúin Milton Mahan og Mariana Montenegro sem skipa þennan dúett og þau eru frá Chile af öllum stöðum. Rjóminn hitti sveitina yfir kaffibolla í vikunni og rakti úr þeim garnirnar.

Þau Milton og Mariana hittust fyrst árið 2005 í gagnfræðaskóla í bænum San Felipe sem er um 150 km. norður af Santiago, höfuðborg Chile. Þau hófu að gera tónlist saman vopnuð kassagítar og hljómborði, og tóku upp fyrstu EP plötuna sína, Solenoide, á fjögurra rása upptökutæki heima hjá sér. Þau fluttu síðar til höfuðborgarinnar í leit að frægð og frama, gáfu út breiðskífuna Totoral árið 2008 og í fyrra kom út önnur breiðskífan; Música, Gramática, Gimnasia. Mér lék forvitni á að vita hvernig sveitin hefði þróast á þessu tímabili…

“Between the first EP and our last work we could evolve in production features, from home-made 4 track recordings to a studio with session musicians playing our arrangements. It also has an impact on our live show, we used to play in a duo format, but now we have a band consisting of two guitars, bass, drums, synth and sometimes, in some big gigs, a brass section.”

Myndbönd sveitarinnar hafa vakið talsverða athygli, sér í lagi “Lo que quieras” og “Los Adolescentes“. Í því fyrra sést grunsamlegt par á ferðalagi, veifandi riffli og akandi um á ljómandi fallegum bíl (finnst mér). Það kemur von bráðar í ljós að þau eru með illa fenginn, meðvitundarlausan og blóðugan farangur í skottinu og svo æsast leikar og enda með ósköpum. Skemmtileg uppbygging í myndbandinu helst í hendur við uppbyggingu lagsins. Í “Los Adolescentes” ber eitthvað á nekt og káfi, sem við Íslendingar tökum svo sem ekki nærri okkur, en það er hæpið að MTV spili þetta óklippt. Hérna er blóðuga myndbandið:

“… our songs are about the things that happen around us, especially in San Felipe. We try to work on that imagery, but without falling into caricature or cliché, which is very common around here. We prefer to approach a more marginal world, in a expressive way.

The video for the song “Lo que quieras” (Whatever you want) tries to bring this idea to images. It is about boys who pack their stuff and go to do what they want. A lot of things in the lyrics are very extreme, so it made a lot of sense to me and Bernardo Quesney, who directed the video, to do this kind of road movie. We needed some kind of epic end because the song starts to grow musically, so the images also had to grow.”

Tvær og hálfa mínútu inn í lagið fara strengjahljóðfæri á mikið flug, og mér þótti laglínan kunnugleg en kom henni ekki fyrir mig. Milton og Mariana játa upp á sig sökina…

“The string section is a quote from a part of the John Williams’ melody for Jurassic Park. It is not a sample, it was actually played by a string octect. For us, the theme of the film makes a lot of sense with the theme of the song, and also fitted perfectly.”

Þau segjast undir áhrifum frá ABBA, Carly Simon, Magnetic Fields, Neu!, Yo La Tengo, Rosario Bléfari og Parade. En hvað er að gerast spennandi í Chileskri tónlistarsenu?

“The Chilean scene has grown a lot in the last years. During 2010 a lot of high quality albums were released, the best of all is of course “Mena” by Javiera Mena, but here are some other great musicians like Gepe, Fakuta, Maifersoni, Protistas or Felipe Cadenasso among others.”

Kíkjum að lokum á seinna myndbandið við dónalega lagiðLos Adolescentes“. Ég spái því að þetta band fari langt, og sé þess virði að hafa auga með. Sérstaklega ef margir skrifa álíka lofrullu og þessa, sem virðist reyndar vera tilfellið.

Dënver á Fésbókinni

Jónsi í Laugardalshöll þann 29.desember

Það var ansi stöppuð Höll sem tók á móti Rjómverjum að kvöldi 29. desember og verður að teljast afrek að ná að rífa gesti upp úr leti og jólamóki og draga þá á tónleika. En það er svo sem ekki oft sem tónleikar af þessari stærðargráðu eru haldnir á Íslandi – ansi breyttir tímar frá því fyrir nokkrum árum þegar Höllin var krökk af risatónleikum, jafnt góðum sem slæmum. En svo má auðvitað aðallega þakka frábæru orðspori Jónsa og félaga á hljómleikaferðalaginu sem verið var að ljúka þetta kvöld með 99. tónleikunum á árinu þar sem góður rómur var gerður að framkomu og krafti hljómsveitarinnar – að ógleymdri sjónrænni hlið tónleikanna sem margir voru að missa sig yfir. Það var því með fiðrildi í maganum sem var haldið á tónleika, því miður of seint til að ná upphafsatriðinu Brassgat í bala – það verður bara að bíða betri tíma.

Jónsi hóf tónleikana í hægagangi; lék “Stars in Still Water” á kassagítar og reyndi að leiða áheyrendur á sporið með sínum sérstæða falsettusöng. Raunar hefði þessi inngagur Jónsa að tónleikunum mátt missa sín því það var í næsta lagi, Hengilás, sem hlutirnir fóru fyrst að gerast: bandið steig á stokk og hóf að spila, myndskreytingar við tónana fóru að svífa um sviðið og svolítið fjör færðist í áhorendur. Svona hefði hann átt að hefja tónleikana: þar sem öllu var skartað! Rjómverjar stóðu dáleiddir: hlýddu á fagra tónana og fylgdust með óranslituðum fiðrildum flækjast um á skreyttu sýningartjaldinu.

Umgjörð tónleikanna – unnin af 59 productions – hafði hlotið mikið lof í erlendum fjölmiðlum og réttilega svo: sviðið og visúalarnir voru virkilega flottir, metnaðarfullir og vandaðir. Svolítið var þó rætt manna á milli um ágæti slíkra innsetninga yfir höfuð: stundum veltir maður fyrir sér hvort tónlistarmenn séu ekki hreinlega að fela sig á bakvið þessi myndrænu verk? Aftur á móti er ekki hægt að ásaka Jónsa um slíkt: tónlistin er íburðarmikil og fögur, leikin af miklu öryggi og færni og myndböndin urðu því að einskonar viðbót við upplifunina. Oft og tíðum voru þessar skreytingar flottar og vel heppnaðar (heill skógur brennur, dýr hlaupa undan logunum og skyndilega fylla fiðrildi skjáinn) kölluðust á við tónlistina að einhverju leiti, en svo komu óhjákvæmilega líka kjánahrolls-móment líkt og þegar dropar féllu í vatn og mynduðu hringi.

Hér má sjá Jónsatónleika í heild sinni spilaða hratt með sjónræna hlið þeirra í brennidepli

En nóg um visúalana, enda tónlistin sem leikin var fyrir áhorfendur aðalmálið. Eins og er venjan með tónleika Sigur Rósar er töluvert magnaðra að upplifa tónlistina á tónleikum en heima í stofu. Rödd Jónsa fær að njóta sín og vekur margsinnis upp gæsahúð á meðan hljómur hljóðfæranna er breiður og flottur í svo stórum sal. Eins og áður segir byrjaði Jónsi tónleikana í rólegri kantinum; spilaði raunar róleg lög fyrst en hóf svo að færa sig upp á skaftið og yfir í poppið þegar leið á tónleikana, Lögin sem verða að teljast hafa staðið upp úr eru “Icicle Sleeves”, þar sem lagið byggist upp og heldur áhorfendum í leiðslu með rödd Jónsa í aðalhlutverki við sterk trommuslög Þorvaldar, hið töfrandi “Tornado” sem er töluvert sterkara á tónleikum en á plasti og svo æðisleg stuðþrenna poppslagara Jónsa – “Go Do”, “Boy Lillikoi” og “Animal Arithmetic” – þar sem færðist heldur betur fjör í leikinn, visualarnir komust á flug og áhorfendur tóku þónokkur dansspor.

“Around Us” var svo stórgóður endir á settinu þó svo að heldur lítið hafi farið fyrir sápukúlunum sem talað var um að áhorfendur ætluðu að blása á meðan lagið væri spilað. Jónsi og félagar voru að sjálfsögðu klappaðir upp og voru uppklappslögin í rauninni hápunktur kvöldsins, fyrst hið stórkostlega hressandi “Sticks and Stones” úr kvikmyndinni How to Train Your Dragon sem verður að teljast eitt sterkasta lag Jónsa og svo hið epíska “Grow till tall” sem endaði í blikkandi ljósum og effektageðveiki með lúppaða rödd Jónsa háværa yfir öllu og hálfgerðu slammi – svipaður endir og einkennir flesta Sigur Rósar tónleika með Popplags-endinum.

Í heildina voru 99. tónleikar Jónsa afskaplega vel heppnaðir. Strákarnir sem Jónsi valdi í bandið sitt gættu þess vel að skila heillandi lagasmíðum forsprakkans eins vel og þeir gátu, umgjörðin var glæsileg og söngvarinn stóð sig með eindæmum vel. Þar að auki er ekki hægt að kvarta undan stemningunni sem myndaðist. Jónsi er öðruvísi og skemmtileg “poppstjarna” og sýndi hann svo sannarlega fram á það þarna.

-Hildur Maral Hamíðsdóttir & Guðmundur Vestmann

Árslisti Rjómans 2010

Þá er loksins komið að uppgjöri Rjómverja fyrir árið 2010. Tónlistarárið sem nú er nýliðið var afar gjöfult og gott en eftirfarandi plötur, innanlands og utan, þóttu þó bera af að mati ritstjórnar Rjómans.

Rjóminn þakkar lesendum sínum samfylgdina á árinu sem nú er liðið og óskar þeim um leið farsælda á nýju ári.

Árslisti Rjómans gjörið svo vel:

Captain Beefheart látinn

Nú í gær, föstudaginn 17. desember, lést einn merkasti tónlistarmaður síðustu aldar, Don Van Vliet – betur þekktur undir nafninu Captain Beefheart, 69 ára að aldri. Þó að hann hafi dregið sig frá tónlistariðkun snemma á níunda áratugnum og aldrei náð sérstakri hylli almennings þá hefur Captain Beefheart haft ómæld áhrif – og þá sérstaklega á jaðartónlist undanfarinna áratuga.

Frá árunum 1967-1982 gaf Captain Beefheart út 12 breiðskífur ásamt hjálparkokkum sínum í The Magic Band auk hljómplötunnar Bongo Fury sem hann gerði með æskuvini sínum Frank Zappa árið 1975. Á plötunum sínum blandaði Beefheart saman blúsrokki, sækadelíu, framúrstefnujazzi og all skyns furðulegheitum á ævintýralegan hátt og útkoman var engu öðru lík.

Captain Beefheart þótti ætíð kynlegur kvistur og hafðist reglulega við í eyðimörkinni í Kaliforníu þar sem hann stundaði myndlist á milli þess sem gerði plötur. Fyrsta platan hans, Safe As Milk, kom út árið 1967 og vakti töluverða athygli en var þó Trout Mask Replica (1969) sem gerði hann alræmdan, en þetta tvöfalda meistaraverk er líklega ein mest krefjandi plata tónlistarsögunnar. Eftir misjafnan árangur á 8. áratugnum náði Beefheart sér á strik með nokkrum frábærum plötum undir lok áratugarins en eftir útkomu plötunnar Ice Cream For A Crow árið 1982 tók Captain Beefheart svo þá ákvörðun að hætta að gera tónlist og snúa sér alfarið að myndlistinni.

Þó að varla hafi verið mikil von um að Don Van Vliet myndi nokkru sinni fást við tónlist á ný þá er nokkuð ljóst að tónlistaráhugamenn um allan heim munu syrgja Captain Beefheart þessa helgi. Því er upplagt að rifja upp nokkur lög:

Captain Beefheart and His Magic Band – Electricity (af Safe As Milk, 1967)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Captain Beefheart and His Magic Band – When Big Joan Sets Up (af Trout Mask Replica, 1969)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Captain Beefheart and His Magic Band – Lick My Decals Off, Baby (af Lick My Decals Off, Baby, 1970)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Captain Beefheart and His Magic Band – Suction Prints (af Shiny Beast (Bat Chain Puller), 1978)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Captain Beefheart and His Magic Band – Hot Head (af Doc at the Radar Station, 1980)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

S.H. Draumur snýr aftur, spjallað við Gunnar Hjálmarsson

Uppstillir fyrir Viku-viðtal við Jóa Motorhead rétt eftir að Biggi byrjaði í bandinu 1986
Það hefur vafalaust ekki farið framhjá neinum að hin goðsagnakennda hljómsveit S.H. Draumur snýr aftur núna um miðjan mánuðinn og leikur þá á Iceland Airwaves. Í dag kemur út rafrænt spikfeitur pakki með efni sveitarinnar undir heitinu Goð+ og svo dettur kassinn í verslanir þann 13. þessa mánaðar. Rjóminn hafði samband við forsprakka sveitarinnar, Gunnar Hjálmarsson, og rakti úr honum garnirnar. Aukinheldur fljóta hér með nokkur tóndæmi, ásamt athugasemdum doktorsins.

Ég er forvitinn að vita, þótt ég hafi lesið eitthvað um það á vefsíðu þinni áður, hvað er í boxinu? Bútaðir Leggir? Hvaðan eru tónleikaupptökurnar? Er búið að laga sándið á áður útgefnu efni mikið? Mér finnst nefninlega ljómandi fínt sánd á “Allt heila klabbið”, er það lagað meira en þar?

Pakkinn heitir Goð+. Þetta eru tveir diskar í “kassa” og rosa bæklingur með öllum textunum og sögu hljómsveitarinnar, eins og ég man hana, fylgir. Á diski 1 er Goð platan. Á hinni eru öll lögin af EP-plötunum þremur sem við gerðum (samtals 10 lög) og svo 14 lög í viðbót, bæði upptökur af æfingum og frá tónleikum. Eitthvað smá af því kom á Bútaðir leggir, sem var kassetta í takmörkuðu upplagi.

Mér fannst ömurlegt sánd á Allt heila klabbið, enda var ekkert unnið í sándinu þar heldur dótið bara keyrt inn á digital format. Nú var að sjálfssögðu forðast að búa til eitthvað ömurlegt cd-súputeninga-sánd, heldur bara nútíma tækni beytt til að ná sem allra bestu sándi út úr þessum gömlu teipum. Ég tókst alveg frábærlega að mínu mati. Ég er gríðarlega ánægður og hreinlega bara stoltur með þennan pakka!

Hvar er Steini gítarleikari búinn að vera öll þessi ár?

Um það leyti sem EP platan Bless kom út þá hafði hann misst  alla rokklöngun og hellti sér út í klassík. Hann lærði í Rvk, fór síðan til Bergen í Noregi í framhaldsnám. Hann ílengdist þar og eignaðist samtals 4 börn. Svo fluttu þau heim, bjuggu fyrst í Hafnarfirði, en nú býr Steini á Egilsstöðum og er skólastjóri Tónlistarskólans þar.

Að spila fyrir 2000 manns í Astoria, London

Þegar ég pæli í því þá veit ég líka voðalega lítið hvað Biggi hefur verið að gera, þó man ég eftir honum að spila með Heiðu og Heiðingjunum.

Biggi fór í Sálina hans Jóns míns og spilaði með þeim inn á allar bestu plöturnar þeirra. Hann hefur svo bara lifað af tónlist og trommuleik. Hann spilar með ýmsum, t.d. Röggu Gröndal um þessar mundir. Hann býr á Akranesi og kennir í tónlistarskólanum. Hann hefur komið mikið við sögu í minni sögu, var náttúrlega í Bless, spilaði svo með Unun, inn á Abbababb! plötuna, sem hann hafði líka mikil áhrif á tónlistalega, spilaði með mér í Abbababb! sýningunni og tók upp og trommaði sólóplötuna mína, Inniheldur, sem ég gaf út 2008.

Eru einhver plön um að endurútgefa Bless efni síðar meir? Meltingu? Það er eins og mig minni þú hafir verið lítið hrifinn af Gums eins og hún kom út, og hún hefði að ósekju mátt vera t.d. hrárri, og sungin á íslensku. Einhverjar pælingar með að endurgera það?

Jú ætli það komi ekki einn daginn líka. Gums er til á tonlist.is. Mér finnst Melting (7 laga EP plata) alveg fín en er ekki nógu hrifinn af Gums. Fyrir það fyrsta er hún sungin á ensku sem er alveg ömurlegt. Fáránlegur framburður og rugl. Það var dáldið verið að reyna að poppa okkur upp í stúdíóinu, en það var svo sem ok. Verst var að við vorum píndir til að spila eftir “klikk-trakki”, sem geldi spilamennskuna mikið og hamlaði almennilegum fílingi.  Svo voru textarnir bara eitthvað ástarvæl í mér og Ari Eldon bassaleikari hefur oft grínast með það að þessi plata hefði átt að heita “Hildur – The Album”.

Á síðustu tónleikum bandsins, að hita upp fyrir Pere Ubu í Tunglinu 1988.

Hlýðum þessu næst á nokkur tóndæmi af Goð+ og athugum hvað Gunnar hefur að segja um lögin. Fyrst ber að kynna til sögunnar “Glæpur gegn ríkinu” sem er með bestu lögum Draumsins að mati undirritaðs:

S.H. Draumur – Glæpur gegn ríkinu

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Ég man nú bara ekkert hvernig þetta lag varð til. Það kom allavega til sögunnar skömmu eftir að Biggi trommari gekk í bandið (maí 1986) svo hann á eflaust eitthvað í því með þessum magnaða trommuleik. Riffið er augljóslega útúrsnúningur á Smoke on the water, ég veit ekki alveg hvaða flipp það var. Á öllum mínum uppvaxtarárum þótti þungarokk mjög hallærislegt og enn þann dag í dag hef ég engan húmor fyrir þungarokki. Textinn er svo náttúrlega alveg frábær og einn af mínum uppáhalds. Algjört verksmiðjuþunglyndis- og samfélags-haturs stuð með smá súrrealísku ívafi. Ég var mikill aðdáandi súrrealístanna í Medúsu hópnum og það síaðist alltaf smá inn í textagerðina. Við tókum þetta fyrst upp um vorið 1987 i Stúdíó Stöðinni með Axel Einarssyni, sem hafði áður verið í m.a. hljómsveitinni Icecross. Eina plata þeirra selst nú á einhverja hundrað þúsund kalla enda gott og fágætt doom-rokk. Hann sagði auðvitað að við minntum sig á Icecross. Þessi útgáfan er af plötunni Goð, tekið upp í ág/sept í stúdíó Gný með Sigurði Inga Ásgeirssyni, sem var bara einhver maður út í bæ sem fylgdi stúdíóinu. Hann stóð sig vel, en það runnu reyndar á mig tvær grímur í upphafi upptaknanna þegar hann setti Brothers in Arms með Dire Straits á fóninn til að fá sándlegt viðmið. Ég held ég hafi m.a.s. sagt að við hljómuðum nú ekkert líkt og Dire Straits! Það var alltaf sérlega gaman að spila Glæp gegn ríkinu á tónleikum.

S.H. Draumur – Engin ævintýri

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Þetta lag er líka á Goð. Ég man ekki heldur hvernig þetta lag varð til, það getur samt verið að það sé undir smá áhrifum af laginu These Boots are made for Walkin’ sem Nancy Sinatra söng. Byrjunin er stæling á byrjuninni á laginu Ævintýri með Bjögga og félögum í Ævintýri, bara negatífan af henni. Biggi og ég sömdum textann saman í herberginu mínu að Álfhólsvegi 30a, eða svo segir hann allavega, ekki man ég það. Hann segir að við höfum samið sitt hvora línuna í þessu, en ekki man ég eftir því. Textinn er náttúrlega undir miklum áhrifum af snilldarmyndinni Skytturnar, sem var ný þegar textinn varð til. Við fylgjumst með ferðum undirmálsmanns í landi og inn í textann blandast andfélagslegt svartagall: “Svona líða árin hjá manninum á móti / Svona líða árin hjá helvítis þjóðinni”. Ég átti mjög andfélagslega vini og var gríðarlega andfélagslegur og neikvæður á þessum árum eins og má sjá í gömlum viðtölum. Ég man alltaf eftir því að einn vinur minn óskaði þess heitast að flugvélin með Icy hópnum myndi hrapa á leiðinni út svo hann væri laus við þjóðrembuna sem gekk á á þessum tíma! Nú í kreppunni eru eiginlega allir orðnir andfélagslegir og and-þjóðrembdir, svo ég þarf eiginlega að vera þveröfugt ef ég á að halda í þá góðu dyggð að vera alltaf á annarri skoðun en meirihlutinn.

S.H. Draumur – Dýr á braut

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Þetta er mjög flott lag en eins og oft áður þá man ég bara ekki hvernig það varð til. Þetta var allavega eitt af allra síðustu lögunum sem við sömdum, það varð til eftir að Goð var tekin upp og kom út á 4-laga EP-plötunni Bless 1988. Við vorum búnir að ákveða að hætta, aðallega vegna þess að Steini gítarleikari var ekki í rokkstuði lengur, kominn með konu, son og á leið í stíft klassískt gítarnám. Textinn er ýkt dýraverndunar-sinnaður, hér er verið að berjast fyrir réttindum dýra sem eru send út í geim til tilraunaverkefna. Á þessum tíma stóð yfir mikið stapp um hvalveiðar í fjölmiðlum og þetta var okkar lóð á vogarskálinar þeirrar umræðu. Ég held samt að enginn berjist í alvörunni fyrir réttindum geimdýra.  Sigurjón Kjartansson í Ham og Sveinn bróðir hans tóku upp Bless-plötuna og þetta var best sándandi platan okkar. Upptökur fóru fram í Sýrlandi, sem þá var til húsa í bílskúrnum hjá Agli Ólafssyni á Grettisgötu, minnir mig.

Deerhunter og Real Estate á bryggjunni

Á fimmtudag rölti ég út að Hudson ánni þar sem sveitirnar Deerhunter og Real Estate spiluðu á síðustu bryggjutónleikum sumarsins á Pier 54. Það er allt morandi í fríum útitónleikum yfir sumartímann í New York og auðvelt er að fá samviskubit yfir öllum þeim böndum sem maður er að missa af, en maður reynir þó að kíkja eftir eins mikið og nennan leyfir.

Vegna úrkomuspár var bryggja 54 sem betur fer ekki yfirfull en þó voru líklega nokkur þúsund manns þarna saman kominn. Fyrstir á svið voru New Jersey bandið Real Estate sem hefur verið að njóta blogghæps undanfarið ár. Þrátt fyrir að vera fluttir yfir til Brooklyn þá passaði frammistaða Real Estate einkennilega við grámyglulegt yfirbragð New Jersey sem blasti við hinum megin Hudson árinnar. Tónleikar sveitarinnar voru sem sagt ekki upp á marga fiska og virtist þorri tónleikagesta fremur hafa áhuga á samræðum og bjórkaupum en að leggja vandlega við hlustir, en helst var það lokalagið fína, “Fake Blues”, sem uppskar ánægju áheyrenda. Hljómsveitin læddi nokkrum nýjum lögum á milli laga af frumburði þeirra frá því í fyrra, en eitt þeirra var lagið “All The Same” sem má einmitt sjá og heyra á þessari upptöku af tónleikunum:

Megnið af tónleikagestum var þó sérstaklega mættur til þess að hlýða á Deerhunter enda hefur bandið verið á góðri siglingu undanfarin ár og víðast hvar hlotið lof fyrir plötur sínar og tónleika. Sveitin bauð upp á fjögur ný lög af væntanlegri plötu, Halycon Digest (sem kemur út í lok september), og sullaði á milli nokkuð jafnt í lög af breiðskífunum Cryptograms (2007) og Microcastle (2008) sem og af EP-plötunum Fluorescent Grey (2007) og Rainwater Cassette Exchange (2009). Hér í þessu myndbandi af tónleikunum má einmitt sjá sveitina spila lög ef þessum EP-plötum, fyrst hávaðasömu langlokuna “Wash Off” og svo hið grípandi “Rainwater Cassette Exchange”:

Eins og Deerhunter er þekkt fyrir þá var lögunum flestum miskunnarlaust drekkt í gríðarmikilli gítareffektasúpu, af því virtist meira upp á sportið en laganna vegna. Þónokkrar hljómsveitir kunna þá list vel að nota effekta til þess að bæta við og víkka út lög sín en eftir því sem leið á tónleikana gerði ég mér grein fyrir að Deerhunter fer eiginlega hina leiðina og virðist semja sum lögin sín til þess að passa inn í þá hljóðeffekta sem þeir ætla sér að nota. Sveitin kunni þó sem betur fer fullkomnlega á græjurnar sínar og virtist vera feiknavel samstillt. Áhorfendur voru líka ánægðir en mér eiginlega hálfleiddist og þrátt fyrir að hafa fylgst með bandinu í þónokkur ár þá fékk ég eiginlega nóg af effektasukkinu þegar á leið. Ég læddist því úr þvögunni og kíkti upp á High Line, upphækkaða járnbrautarteina á vesturhlið Manhattan sem breytt hefur verið í lystigarð, og hlustað úr fjarlægð á restina af tónleikunum þar sem ómurinn af effektablönduðu gítarsurgi Deerhunter passaði einkennilega vel við útsýnið yfir borgina í kvöldmyrkrinu.

Blonde Redhead spila Penny Sparkle

Rjóminn er kominn með smá útibú í New York og mun reyna að flytja fréttir úr höfuðborg hipp og kúlsins eftir bestu getu. Nú í vikunni kom boð á hlustunarpartí + tónleika á hljómleikastaðnum smáa 92YTribeca í tilefni útkomu nýrrar Blonde Redhead plötu, Penny Sparkle, í næsta mánuði svo það kom varla neitt annað til greina en að láta sjá sig.

Eins og gjarnan vill verða í hlustunarpartíum þá heyrist meira af klið og samræðum nærliggjandi gesta en plötunni sem viðburðurinn á að snúast um. Þó mátti greina að sveitin heldur áfram að þróast í þá átt sem hefur verið mörkuð á síðustu plötu og spila hljóðgervlar stærra hlutverk en oft áður á meðan rokkið er látið liggja milli hluta. Þessi leið hljómsveitarinnar inn á drungalegri og rafvæddari lendur er áhugaverð og þótt ég sakni rokksins smá þá er ég blessunarlega feginn að þau séu að minnsta kosti ekki stöðnuð. Það reyndist þó ómögulegt að mynda sér heildræna skoðun á plötunni undir þessum kringumstæðum enda kæmi ekki á óvart að hún nyti sín betur í heyrnartólum en innan um glasaglamur og mas.

Blonde Redhead – Here Sometimes

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Aðalaðdráttarafl kvöldsins var að sjálfsögðu hljómsveitin sjálf sem mætti á svið eftir að plötunni hafði verið rennt í gegn. Sveitinni til halds og traust var svíinn Henrik Jonsson sem spilaði á hljómborð og gítara þegar á þurfti að halda en dró sig í hlé þess á milli. Henrik pródúseraði Penny Sparkle ásamt félaga sínum Peder Mannerfelt, en þeir ganga yfirleitt undir nöfnunum Van Rivers og The Subliminal Kid og eru hvað þekktastir fyrir að standa á bak við plötu Fever Ray frá því fyrra.

Blonde Redhead spilaði sex lög af plötunni nýju og verður að viðurkennast að þau gjörsamlega nelgdu þau. Það var nokkur efi um nýju plötuna í fyrstu en sveitin náði að gæða lögin heilmiklu lífi og er ég að minnsta kosti mun spenntari fyrir plötunni eftir tónleikana en áður. Hljóðgervlar eru í fyrirrúmi í flestum nýju lögunum og gítarar eru fremur notaðir til að fylla upp í hljóminn í stað þess að vera í aðalhlutverki, eins og yfirleitt hjá sveitinni. Sveitin virtist líka í feiknafínu formi og var fjarri því óstuði sem hún var í í síðustu Íslandsreisu en tónleikar Blonde Redhead í Reykjavík og á Ísafirði rétt fyrir útkomu 23 voru líklega með þeim misheppnaðri á ferli sveitarinnar.

Þetta var í fimmta skiptið sem ég sé hljómsveitina spila og því var það nokkur léttir að sjá að þau geta enn galdrað fram óaðfinnanlega stemningu. Hvernig svo sem platan nýja mun hljóma á plasti er nokkuð ljóst að hún hljómar frábærlega á tónleikum og er óhætt að mæla með sveitinni ef hún lætur sjá sig á norðurslóðum á næsta túr.

The Carrie Nations

Eitt af skemmtilegum fyrirbærum í tónlistarsögunni eru hljómsveitir sem ekki eru til í raun og veru, þ.e. hljómsveitir sem eru búnar til í ákveðnum tilgangi, eins og t.d. fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Uppáhaldshljómsveitin mín, sem hefur aldrei verið til, er stúlknasveitin The Carrie Nations úr kvikmyndinni Beyond The Valley of the Dolls frá árinu 1970. Tildrög myndarinnar voru þau að 20th Century Fox kvikmyndaverið átti réttinn til þess að gera framhald af kvikmyndinni Valley of the Dolls (1967) en eftir nokkur ómöguleg handrit datt yfirmönnum Fox það snjallræði að fá leikstjórann Russ Meyer til þess að gera myndina. Meyer var einkum þekktur fyrir að hafa hærra brjósta hlutfall en gengur og gerist í kvikmyndum sínum og fékk hann hinn upprennandi kvikmyndagagnrýni Roger Ebert til þess að skrifa handritið. Þeir ákváðu fljótt að gera frekar paródíu af Valley of the Dolls en framhald og átti útkoman svo lítið sem ekkert skylt við upprunalegu kvikmyndina.

The Carrie Nations – Come with the Gentle People

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

The Carrie Nations – In The Long Run

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Beyond The Valley of the Dolls fjallar um stúlknasveitina The Kelly Affair sem leitar frægðar og frama í Hollywood. Eftir að pródúserinn Ronnie “Z-Man” Barzell tekur stúlkurnar undir verndarvæng sinn breytir hann nafni þeirra í The Carrie Nations og sveitin slær í gegn. Við tekur hið venjubundna líf rokkstjarna: dóp, kynlíf, rokk og ról … lesbíulosti, klæðskipti og morð! Sem sagt hin frábærasta skemmtun.

Tónlistin sem The Carrie Nations flytur í kvikmyndinni mætti skilgreina sem einhvers konar sækadelíska sálarmúsík og er hreint út sagt frábær. Eins og ætla má þá koma leikkonurnar ekkert nálægt tónlistarflutningnum heldur þykjast spila og syngja, með mis-sannfærandi árangri. Lögin í kvikmyndinni voru samin af Stu Phillips og sungin af Lynn Carey með Barböru Robinson í bakröddum. Þegar kom að útgáfu sándtrakksins flæktust málin vegna samnings Lynn Carey fyrir og lögin voru tekin upp að nýju með söng Amy Rushes. Benda má að nýleg endurútgáfa sándtrakksins inniheldur báðar útgáfurnar af Carrie Nations lögunum svo nördar geta skemmt sér við samanburð.

The Carrie Nations – Find It

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

The Carrie Nations – Sweet Talking Candyman

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Þrátt fyrir að gagnrýnendur hafi tekið myndinni fálega á sínum tíma hefur hún hlotið uppreisn æru á síðari árum og lendir ósjaldan á listum yfir uppáhaldskvikmyndir gagnrýnenda í dag. Áhorfendur hrifust þó frá upphafi af myndinni sem varð ein af stærstu smellum Fox árið 1970 og hlaut fljótt költstatus. Meðal þeirra sem hrifust af Beyond the Valley of the Dolls var hljómsveitin Sex Pistols og umboðsmaður þeirra, Malcolm McLaren, fékk Meyer og Ebert til þess að gera kvikmyndina Who Killed Bambi? með meðlimum Sex Pistols í aðalhlutverki árið 1977. Fox átti að fjármagna verkefnið en forsvarmenn kvikmyndaversins fengu sjokk við lestur handritsins og hættu við þátttöku sína þegar aðeins nokkrir dagar voru liðnir af tökum. Kvikmyndin var því aldrei gerð en áhugsamir geta skoðað handritið á bloggi Roger Eberts.

Á YouTube eru fjölmörg klipp úr Beyond the Valley of the Dolls og m.a. hin fínasta heimildarmynd um gerð kvikmyndarinnar. Kíkjum að lokum aðeins í partý hjá Ronnie “Z-Man” Barzell en þar má sjá Strawberry Alarm Clock spila í bakgrunni:

Rokk í Ráðhúsinu

Nú er orðið ljóst að Besti flokkurinn mun vera í meirihluta í Reykjavíkurborg næstu fjögur árin (svona ef samstarfið við Samfylkingu gengur vel) og því er tími til kominn að rifja aðeins upp rokkfortíð nokkurra verðandi borgarfulltrúa flokksins. Jón Gnarr, sem tekur við sem borgarstjóri, hefur að mestu sinnt gríninu en þeir félagar í Tvíhöfða gerðu m.a. þónokkur grínrokklög. Jón hefur líka komið að rokki með öðrum hætti, var t.d. í pönkbandinu Nefrennsli á unglingsárunum og svo sem textahöfundur, en hann samdi m.a. textana við Ham lagið “Youth” og “Prumpufólkið” eftir Dr. Gunna.

Tvíhöfði & Quarashi – Útlenska lagið (af Til hamingju, 1998)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Ham – Youth (af Buffalo Virgin, 1989)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Ham á sinn eigin fulltrúa í borgarsstjórn því forsöngvari sveitarinnar, Óttarr Proppé, er þriðji borgarfulltrúi Besta flokksins en á varamannabekknum situr einnig bassaleikarinn Sigurður Björn Blöndal sem var í níunda sætinu. Báðir voru þeir einnig í Rass og Funkstrasse en á undanförnum árum hefur Óttarr verið mest áberandi í gúmmíhanskarokksveitinni Dr. Spock.

Rass – Óréttlæti (af Andstaða, 2005)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Dr. Spock – Andskotinn (af Dr. Phil, 2005)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Mestu rokkreynsluna í borgarstjórn á þó væntanlega Einar Örn Benediktsson, sem sat í öðru sæti, en nærri 30 ár eru liðin síðan hann stofnaði Purrk Pillnikk sem var í fararbroddi íslenskra pönksveita. Í kjölfarið kom heimsfrægð með Kukli og Sykurmolunum og síðan þá hefur Einar Örn tekið þátt í nokkrum mis-furðulegum verkefnum, t.d. verið í hljómsveitinum Frostbite og Ghostigital og gert kvikmyndatónlist með Damon Albarn.

Purrkur Pillnikk – Gluggagægir (af Ekki enn, 1981)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Sykurmolarnir – Eat The Menu (af Here Today, Tomorrow Next Week!, 1989)

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Auk þeirra var Baggalúturinn Karl Sigurðsson í fimmta sæti og mun því einnig taka sæti í borgarstjórn. Á varamannabekknum sitja svo líka Magga Stína úr Risaeðlunni (var í áttunda sæti), Diljá Rokklingur (í tíunda sætinu) og Dr. Gunni (í því ellefta) sem m.a. var í Bless, Unun og svo auðvitað S.h. Draumi sem snýr aftur á komandi Airwaves hátíð. Það er því spurning hvort nú sé ekki í alvörunni komið Rokk í Reykjavík!