Útgáfutónleikar Johnny & The Rest

Domo 8.nóvember sl.

Útgáfutónleikar Johnny & The RestHið alíslenska og unga blúsband Johnny & The Rest fagnaði útgáfu frumburðar síns á Domo sl. laugardagskvöld

Útgáfutónleikar hljómsveitarinnar Johnny & The Rest fóru fram með pompi og prakt á Domo síðastliðið laugardagskvöld. Frumburði sveitarinnar var þar fagnað í þrælfínni stemningu, fínlegheitum og gleði.

Hljómsveitin steig á svið eftir upphitunaratriði sitt rúmlega hálf ellefu þetta kvöldið en einhver vandræði mynduðust með míkrófóna á sviðinu en því var þó reddað það fyrsta af einum gesta kvöldsins.

Spilandi dúndurþéttan og öruggan blús, flutti hljómsveitin plötu sína í heild sinni og skiptust þar á blúsandi rokki og gamaldags vískylyktandi blús. Satt best að segja er varla hægt að segja að um nein klikk hafi verið að ræða. Drengirnir voru öruggir, hressir en hefðu þó mátt tengjast áhorfendum örlítið betur þegar líða tók á settið.

Gestir kvöldsins voru velflestir mjög sáttir og var nær húsfyllir á Domo. Hingað til hafði ég ekki sótt tónleika á Domo og eftir þessa reynslu hika ég ekki við að kíkja þarna við í bráð.

Hvað Johnny & The Rest varðar sýndu þeir að ekki þarf að vera aldraður til að gera blús að flottum blús. Ungir að árum og efnilegir gerðu drengirnir þessa, oft á tíðum einföldu, tónlistarstefnu að ljúffengri blöndu áhrifavalda sinna í bland við nýjungar í þessum geira hér á landi. Helst má nefna að gítarleikur og söngur var til fyrirmyndar og ekki síðri var rhytma-sveitin sem sló ekki feilspor út kvöldið.

Umfjöllun um nýjustu breiðskífu Johnny & The Rest er að vænta hér á Rjómanum og hvet ég alla eindregið til að kynna sér þessa hljómsveit. Hvort sem um er að ræða harða Cream aðdáendur eða aðdáendur gamla Suðuríkjablúsins í anda Howlin´Wolf og fleirri.

Fyrir mig að segja var þetta ánægjuleg kvöldstund á dýrindisstað með gullmolastefnunni óaðfinnanlega sterkri. Góður og rokkandi blús. Nammi, namm.

Brighten the Corners: Nicene Creedence Edition

Fjórða Pavement platan fær lúxus meðferð

Ein af lykilplötum 10. áratugarins verður endurútgefin innan skamms ásamt 32 aukalögum auk alls kyns góðgætis fyrir þá sem vilja

Brighten the Corners: Nicene Creedence EditionFáar hljómsveitir eru jafnmiklir holdgervingar 10. áratugarins (í mínum huga a.m.k.) og bandaríska sveitin Pavement. Félagarnir S.M. (Stephen Malkmus) og Spiral Stairs (Scott Kannberg) stofnuðu sveitina árið 1989 og byrjuðu fljótlega að dæla út efni. Sveitin hætti svo störfum í lok árs 1999 fimm breiðskífur og slatta af öðrum minni útgáfum.

Pavement – Stereo

Fjórða breiðskífa Pavement, Brighten The Corners, kom út í ársbyrjun 1997 og reyndist verða vinsælasta plata sveitarinnar, en lögin „Stereo“ og „Shady Lane“ náðu bæði umtalsverði spilun og platan seldist mun betur en aðrar skífur þeirra. Þann 9. desember er ný tvöföld endurútgáfa af plötunni væntanleg sem hlotið hefur heitið Brighten the Corners: Nicene Creedence Edition og auk upprunalegu plötunnar fylgja með 32 b-hliðar, óútgefin lög og upptökur úr útvarpsþáttum. Þar kennir ýmissa grasa; lög sem aðdáendur hafa haldið sérstaklega upp á, eins og „Then (The Hexx)“,  „Harness Your Hopes“ og „Westie Can Drum“, ábreiður á lögum eftir Faust, Echo & The Bunnymen, The Fall og Clean og svo ýmislegt annað óvænt góðgæti, t.d. lög sem Pavement tók upp fyrir teiknimyndaþættina Space Ghost.

Pavement í heimsókn hjá Space Ghost:

Brighten the Corners: Nicene Creedence Edition fylgir eftir endurútgáfum á fyrstu þremur plötum sveitarinnar sem eru í hópi stórkostlegustu endurútgáfupökkum sem litið hafa ljós hér á jörð. Þessi útgáfa er síður en svo síðri með þykkum bæklingi stútfullum af allra handa upplýsingum, viðtölum og myndum.

Matador útgáfan býður spenntum kaupendum upp á þann möguleika að panta sér endurútgáfuna fyrir fram og fylgir þá ýmislegt góðgæti með. Auk þess að fá pakkann í hendurnar seinni part nóvember geta viðkomandi hlustað á hana í heild sinni á netinu og geta að auki halað niður tveimur ófáanlegum aukalög til viðbótar. Stærsti bónusinn er þó hin óútgefna tónleikaplata sveitarinnar sem koma átti út fyrir 10 árum en var frestað um óákveðin tíma, sú skífa kemur nú út á forláta vínyl plötu – og fylgir aðeins ef pantað er fyrirfram.

Endurútgáfuna má panta hjá Matador Records en verður líklega fáanleg hér á landi innan skamms (ef kreppa leyfir).

Pavement – Shady Lane

Take-away tónleikar!

Vefsíðan Blogotheque.net

Hressir tónleikar – úti á götu!
Take-away tónleikar!Blogotheque.net er vefdagbók sem haldin er út af nokkrum Parísarbúum. Á síðunni er fjallað er um helstu indí-böndin sem spila viku hverja í París. Þó svo að fæstir geti nú lesið frönsku, þá er auðvelt að njóta síðunnar þar sem að reglulega fylgja færslunum myndbönd – svokallaðir ,,Take-away tónleikar“. Er þá sumsé farið með böndin út á götur Parísar og þau fengin til þess að spila akústískt fyrir gangandi vegfarendur. Útkoman er gjarnan mjög skemmtileg. Hér má finn myndböndin og veljið ,,Tout les concerts a emporter“, sem neðst á síðunni, til að sjá allar færslurnar. Namminamm – verði ykkur að góðu!

Airwaves 08: laugardagur

Tónleikaumfjallanir

Á lokakvöldi Airwaves voru flest stærstu nöfnin á dagskrá. Rjóminn lét sig ekki vanta…

Af nógu var að taka á lokadegi hátíðarinnar, bæði off-venue og á dagskránni. Rjómapenninn Hildur kíkti á úrvalið.

Reykjavík!

Airwaves 08: laugardagurSkvetta af rokki í boði Skífunnar tók á móti mér kl 4 á laugdardeginum, enda Reykjavík! klárlega með sveittari rokkhljómsveitum á Íslandi. Þeir voru frábærir eins og alltaf, en stuð og stemning einkenna tónleika sveitarinnar. Að eigin sögn voru þeir svo of latir og feitir til að klára settið sitt svo þeir leyfðu Morðingjunum að taka við.

Morðingjarnir

Klárlega mín uppáhalds íslenska pönksveit. Voru að gefa út frábæra plötu, Áfram Ísland! og léku nokkur lög af henni. Ég saknaði þess þó að heyra Airwaves lagið þeirra, hefði verið einkar viðeigandi. En það er alltaf næsta ár…

Gavin Portland

Ég veit ekki almennilega ennþá hvað gerðist þegar ég stökk inn í 12 Tóna til að sjá Gavin Portland spila. En ég veit það að ég labbaði út með hausverk, svima og suð í eyrunum vitandi það að sama hversu slæm áhrif Gavin Portland hafa á heilsu manns þá er það alltaf þess virði. Þetta er alveg fáránlega öflug harðkjarnasveit og ég get ekki beðið eftir nýju plötunni þeirra!

Who Knew?

Eftir kvöldmat og kokteila var haldið á Dillon þar sem Who Knew? voru að spila og það var akkúrat það sem vantaði í eftirrétt. Þeir eru alltaf jafn skemmtilegir live og sýndu enn einu sinni fram á það í gær að útgáfa frá þeim er löngu tímabær.

Stereo Hypnosis

Eitt áhugaverðasta dúóið i dag. Stereo Hypnosis eru feðgar sem sjóða saman draumkennda og dáleiðandi tónlist sem er það áhrifamikil að maður dettur í trans við það eitt að heyra upphafstónanna. Það voru ekki margir á 22 en þeir sem urðu vitni að þessum galdri voru hver öðrum hrifnari og sumir gengu meira að segja svo langt að sofna nánast á gólfinu. Þeir feðgarnir spila sjaldan, en ég mæli eindregið með því að lesendur grípi tækifærið og sjái þá þegar hægt er næst.

CSS

Þá var komið að partíi kvöldsins. CSS frá Brasilíu voru eitt stærsta nafn hátíðarinnar í ár og voru ófáir sem biðu spenntir eftir að heyra í þeim og sjá, eins og röðin á Hafnarhúsið bar vitni um. CSS stóðu sig með prýði, tóku bæði lög af nýju plötunni sinni Donkey en einnig gömlu slagarana á borð við Alala og Let’s Make Love and Listen to Death From Above. Frammistaða þeirra á Airwaves bliknaði þó í samanburði við Hróarskeldutónleika sveitarinnar árið 2006 og varð ég því fyrir dálitlum vonbrigðum þótt alltaf sé gaman að sjá lögin þeirra ‘live’.

Vampire Weekend

Nýjasta hæp indígeirans var næst á svið og voru skoðanir áhorfenda á frammistöðu Vampíruhelgarinnar jafn ólíkar og þeir voru margir. Ég fyrir mina parta heillaðist alveg af skemmtilegum lögunum sem eru þó vissulega betri á plasti en á tónleikum. Spilagleði hljómsveitarinnar smitaði út frá sér og náði svo mikið til mín að ég brosti hringinn nánast alla tónleikana.

Robots in Disguise

Ég fór yfir á Nasa og náði í skottið á stelpunum í Robots in Disguise og heillaðist af töff framkomunni þó svo að tónlistin höfðaði ekki beint til mín. Á þessum tímapunkti var hinsvegar orðið svo vel stappað í salnum að erfitt var að fylgjast almennilega með tónleikunum og því liðu tónleikarnir ansi hratt hjá.

FM Belfast

Það var orðið ansi troðið og sveitt þegar FM Belfast stigu á svið á Nasa um tvöleytið. Upphækkaðir pallar komu sér því vel fyrir litla áhorfendur eins og mig, það var meira að segja pláss á þeim til að dansa! FM Belfast stóðu sig voru skemmtileg að vanda, með fullt af fólki dansandi uppi á sviði með sér, og ég hvet alla eindregið til að hlusta á nýútkomna plötu þeirra.

-Hildur Maral Hamíðsdóttir

Airwaves 08: föstudagur

Tónleikaumfjallanir

Föstudagskvöld Iceland Airwaves 2008 var fjölbreytt. Nokkrir Rjómapennar kíktu á tónleika…

Rjómapennarnir Hildur, Pétur og Daníel skelltu sér á Airwaves á föstudagskvöldið…

Seabear

Airwaves 08: föstudagurÁ meðan fjöldi fólks húkti fyrir utan Tunglið í langri biðröð í von um að berja Familjen augum gekk ég inn í hlýjuna í Hafnarhúsinu þar sem Seabear voru að spila. Þau eru búin að vera spilandi úti í hinum stóra heimi og var greinilegt að aukin æfing hefur skilað þeim einhverju þar sem þau voru óvenju þétt. Nyju lögin hljómuðu vel og gaman var að heyra eldra efnið en það verður að segjast eins og er að þau hefðu sómað sér betur á Iðnó eða álíka stað þar sem notalegheit og róandi andrúmsloft eru í öndvegi. Vonast bara til að sjá þau sem fyrst þar.

White Denim

Húsfyllir var á Nasa þegar rokkararnir í White Denim hófu leik. Tónlist þeirra sver sig í ætt við gamaldags rokk&ról og var bara nokkuð gaman að fylgjast með þeim rokkurunum, með gítarsólóin og tilheyrandi á hreinu. Tónlistin var þó ekkert sú frumlegasta í heimi svo ég og mínir héldu á Iðnó þar sem staðgengill Nicos Muhly var nýbúinn að spila (einhver ruglingur í prógramminu) og Valgeir Sigurðsson var að hefja leik.

Valgeir Sigurðsson

Valgeir og vinir voru frábær en náðu þó ekki að mínu mati að koma tónlistinni af plötunni Ekvilibríum nógu vel til skila. Að hluta til má þar um kenna þeirri ákvörðun Valgeirs að sleppa alveg söng og er það svo sem skiljanlegt þar sem að á plötunni koma þau Bonnie ‘Prince’ Billy og Dawn McCarthy m.a. við sögu og hefði verið heldur mikið vesen að fá þau til landsins eingöngu fyrir eitt, tvö lög…

Final Fantasy

Final Fantasy er einn maður, fiðlusnillingur, sem spilar tónlist sína einn á sviði og gerir það bara nokkuð vel. Ég er samt á þeim buxunum að tónlistin hefði hljomað mun betur hefði hann haft með sér hljómsveit í Iðnó því lögin voru oft á tíðum heldur innantóm og lítið að gerast á sviðinu til að halda athygli manns klukkan rúmlega eitt að nóttu til. Það væri gaman að sjá hann spila á litlum stað, Hljómalind eða álíka, nú eða með hljómsveit á bak við sig á stærri stað til að þétta hljóminn. Tónlistin var þó mjög flott og lagðist vel í áhorfendur.

-Hildur Maral Hamíðsdóttir

——————————–

Dýrðin

Ég ákvað að taka kvöldið snemma og kíkja á Dýrðina sem var að spila á Organ korter yfir átta á föstudagskvöldið. Sveitin var byrjuð þegar ég mætti og heyrði ég kunnuglega tóna út á götu (Hvert í hoppandi, minnir mig) en þegar inn var komið áttaði ég mig fljótt á því að hljóðið á staðnum var ekki alveg í toppstandi, amk ekki ef maður stóð fyrir aftan miðjuna. Dýrðin renndi í nokkur lög, sem líklegast voru ný af nálinni, en ég náði ekki mikið að greina laglínur og síður en svo texta – sem er miður því textagerð Dýrðarinnar er á köflun dýrðlega skemmtileg. Lagið Mr. Spock greindi ég þó en verandi hálffúll vegna hljómburðarins ákvað ég að yfirgefa svæðið stuttu áður en sveitin átti að ljúka prógramminu.

Bloodgroup

Á Tunglinu var BB og Blake enn að þegar ég sté inn og af þessu síðasta lagi þeirra var ég nokk feginn að hafa ekki heyrt meira. Bloodgroup komu sér fljótt fyrir og um leið og þau hófu leik var augljóst að þarna er líklegast ein besta dans- og stuðsveit landsins á ferð (ásamt FM Belfast) og í raun algjör synd að sveitin skuli vera fyrir 9 á dagskrá á meðan stöðluðu leiðindin í GusGus eru á toppbilli á hverju ári á Airwaves. Bloodgroup náði salnum algjörlega í stuð með Hips Again en notaði líka tækifærið til að keyra nýlegri lög (þeas lög sem voru ekki á Sticky Situation) sem hljómuðu stuðvæn. Nú er bara að fara að hlakka til næstu plötu.

Mugison (off-venue)

Ódýrara bjórverð laðaði mig að off-venue tónleikum í Nýlenduvöruverzluninni þar sem Mugison átti að troða upp óvænt. Mugison stóð út í horni og tróð upp einsamall með gítarinn sinn. Heyra mátti nokkur kunnugleg lög í gegnum þvaðrið á borðunum í kring og virtust flestir gestirnir vera fremur komnir í bjórsopa og spjall en að heyra augnayndi (flestra) tónlistaspekúlanta spila.

These New Purtians

Ég rétt náði síðustu tveim lögum Retro Stefson á Nasa og heyrðist á öllu að þau voru ekki að standa sig síður en á miðvikudagskvöldið. Bretasveitin These New Purtians átti að mæta næst á svæðið og þótt ég hafði fylgst með allan tímann þá man ég ekki eftir neinum einasta tón sem sveitin sendi frá sér þetta kvöld. Algjörlega auðgleymanlegt. Fyrir framan sviðið stóðu þó nokkrir ungir menn og sungu með í flestum lög – svo einhverjir voru að fíla þetta betur en ég.

Familjen

Trú mín á erlendu sveitum hátíðarinnar styrktist ekki á Tunglinu þar sem Familjen spilaði. Margir sögðu sveitina með þeim áhugaveðri að sjá á Airwaves í ár en eftir fimmtán mínútur af því sem lýsa mætti sem tónlistarlegu blakkáti ákvað ég að gera eitthvað annað en að hanga þarna.

Skátar

Skátar voru að gera sig reiðubúna á Organ þegar ég kíkti þangað inn. Sveitin var í góðu stuði enda ein skemmtilegri tónleikasveit landsins. Líkt og hjá svo mörgum öðrum hljómsveitum á Airwaves var slatti af nýju Skátaefni á dagskránni en eldri lög fengu að fljóta með og virtust gestir vera vel með á nótunum þegar t.d. Skálholt fékk að hljóma. Það vakti ánægju mína að mun fleiri virtust vera mættir heldur en síðasta ár þegar sveitin spilaði á sama stað og er vonandi að hlustendahópur Skátanna fari sívaxandi.

Ultra Mega Technobandið Stefán

Það voru svo Ultra Mega Technobandið Stefán sem lokaði kvöldinu á Nasa. Þegar þar var komið við sögu var klukkan langt gengin í þrjú, þreytan farin að segja til sín og minnið að gefa sig. UMTBS gáfu sig þó alla í hörku frammistöðu sem flestar rokksveitir hefðu verið stotar af. Áhorfendur tóku vel í fílinginn enda auðvelt að láta pönkaða technórokkið ná stuðtaugunum á sitt vald. Undir lok tónleikanna ætlaði þakið að rifna af Nösinni þegar tveir sveitarmeðlimir áttu nána stund upp á sviði með tilheyrandi klossaflensi. Fleira man ég ekki, sorrý.

– Pétur Valsson

——————————–
Sprengjuhöllin var að klára sitt sett þegar ég gekk inn á Listasafnið þetta 3.kvöld Iceland Airwaves 2008. Dr.Spock voru næstir á svið.

Dr. Spock

Að horfa á Dr.Spock er góð skemmtun. Svo góð oft á tíðum að gestir gleyma því í raun að hlusta á tónlistina sem þeir færa fram og grínið yfirgnæfir. Finni og Óttar Proppé sáu til þess að enginn missti sjónar á sviðinu, fór á barinn eða hljóp á klósettið á meðan þeirra tónleikum stóð og voru grímur, gliturföt og sólgleraugu allsráðandi.
Hljómsveitin var þétt, ofurörugg en eitthvað vantaði upp á. Spyrja má hvort sú skrýtna og furðulega uppsetning á hljómsveitum þetta kvöldið hafi skemmt ögn fyrir því að doktorinn hafi verið einvaldur í þetta sinn. Að stilla upp Sprengjuhöllinni og Seabear, sem báðar eiga feikistóran aðdáendahóp, við hlið þessara brjálæðislegu rokkara er furðulegt. Þeir áttu þó frábært sett þetta kvöld og lagið „Sons of Ecuador” reyndist koma vel flestum saman í grúvinu á Listasafninu.

Oft hafði ég furðað mig á því að hafa aldrei séð hana Mr. Sillu og vin hennar Mongoose. Ákvað ég að bæta úr því hér með.

Mr. Silla & Mongoose

Mikil töf varð á dagskránni á Organ þetta kvöldið eins og raunin reyndist á fleirri stöðum yfir hátíðarhöldin í gríð og erg. Hafði sú töf þau áhrif að gestir voru vart tilbúnir fyrir tilfinningaþrungið, raddblásið og hugsandi rafpopp. Mikill kliður var í salnum og reyndist erfitt að koma á stemmingu. Þau mega þó eiga það að tónlist þeirra er sérstök, áhrifarík og áhugaverð. Ég held að ég kíki aftur seinna þegar minna er um utanaðkomandi truflanir.

Hátíðin í ár bar með sér að ég sá margar sveitir sem ég hafði ekki ætlað mér að sjá. Ein þeirra var hljómsveitin Hjaltalín.

Hjaltalín

Allra landsmanna unaður nema minn eigin? Húsfylli var í Listasafninu þegar Hjaltalín steig á svið og var ágætis spenna í loftinu og greinilegt að ansi margir erlendir gestir höfðu lagt leið sína á Listasafnið í þeim tilgangi að bera sveitina augum.
Sveitin lék lög af frumburði sínum við ágætis undirtektir gesta en gestir lifnuðu vel við og ærðust í raun þegar erkihomminn Páll Óskar Hjálmtýsson læddist inn á sviðið í miðju „Þú komst við hjartað í mér”. Var það í raun hápunktur tónleika sveitarinnar en lítið hreyfst undirritaður af rest. Sjáum hvað setur þegar næsta breiðskífa sveitarinnar lítur dagsins ljós.

Munich

Munich stigu á svið þegar flestir Hjaltalín aðdáendur höfðu skilið við.
Aðstandendur hátíðarinnar höfðu greinilega talið þetta ágætis samtvinnun á hljómsveitum en svo var ekki. Munich léku djúpt hugsandi rokk/popp með sellóum og tilheyrandi en höfðuðu ekki nægilega til þeirra gesta sem mættir voru á Listasafnið þetta kvöldið. Þau reyndi og reyndu en ég hef séð þau betri. Hefði einnig mátt athuga hvort Nasa hafi hentað þessu annars fína bandi betur á þeirra fyrstu Iceland Airwaves hátíð.

Var þetta ágætt kvöld en ég ákvað að segja þetta gott í bili af biðröðum og oft á tíðum óþarfa veseni og dónaskap.

– Daníel Guðmundur Hjálmtýsson

——————————–

Föstudagskvöldið virtist ætla að fara seint á stað, en kl.9 sá ég vart raðir í miðbænum. Ég greip tækifærið og hljóp inn á Tunglið þar sem Bloodgroup var að spila.

Bloodgroup

Tunglið var troðið út úr dyrum meðan Bloodgroup spiluðu. Þegar ég mætti klukkan 9 var sveitin hálfnuð með sína dagskrá og það var greinilegt að salurinn var sáttur með það sem hann fékk, þar sem að salurinn var eins og ólgusjór. Fólk var hoppandi, dansandi, syngjandi og allt annað sem að áheyrendum datt í hug. Ólíkt mörgum hljómsveitum var ekki vont hljóð á tunglinu þegar Bloodgroup spiluðu, sem var góð tilbreyting þar sem Tunglið hentar enganvegin fyrir tónleikahald. Þetta varð til þess að salurinn elskaði Bloodgroup og sýndist mér á öllu að sú tilfinning væri gagnkvæm í þessum skyndikynnum. Bloodgroup stóðu sig sem best og voru fullkomin byrjun á góðu kvöldi.


Dr. Spock

Næst leiddi var ég leiddur af hafsjó tóna á götum úti yfir í Hafnarhúsið. Þar var lítið af fólki og er greinilegt að fáir hafa verið á Sprengjuhöllinni eða þá að áheyrendahópur þeirra hafi forðað sér snögglega þar sem að rokkararnir í Dr. Spock voru næstir á svið. Það verður að segjast að Dr. Spock sé með þéttari og skemmtilegri rokksveitum í dag, og það sannaðist þegar allur salur Listasafnsins var farinn að hreyfa sig með, og það er ekki lítill hópur. Þegar Spock steig á svið var mikið fagnað, og svo þegar sveitin fór að dæla gulum hönskum í salinn var jafnvel enn betur fangað og mátti sjá að aðdáendur sveitarinnar vissu alveg hvað var í vændum. Hljómsveitin var þetta kvöld þétt og skemmtileg og mátti vel sjá að sveitin hefur verið vel undirbúin undir þetta kvöld. Hrá, þétt, hörð og frísk og einstaklega góðir væru orð sem vel myndu lýsa Dr. Spock þetta kvöldið. Manni hlakkar strax til að sjá þá á næstu airwaves…

Retro Stefson

Úr einu yfir í annað. Nasa var næsti áfangastaður þar sem ungliðasveitin Retro Stefson, sem hefur verið ein af lofaðri sveitum hátíðarinnar, var að stíga á stokk. Það er auðvelt að sjá að hér á ferð allt önnur sveit en var á hátíðinni í fyrra, þéttari, flottari og umfram allt betri. Þó fór sveitin hægt í gang þetta kvöld en eftir tvö lög voru allir í salnum farnir að dansa og syngja. Hljómsveitin býr yfir þeim eiginleikum að nær allir tónleikar þeirra verða skemmtilegir, þetta er eins og að vera fimm ára gamalt barn í barnaafmæli, og það er æði! Retro Stefson átti salinn algjörlega þangað til í síðasta lagi þeirra. Hljómsveitin var komin yfir tíma en ætlaði að taka eitt lag enn, og í staðin fyrir að leyfa þeim var ákveðið að skrúfa niður í helmingnum af hljóðfærunum á sviðinu.  Áhugaverð ákvörðun í hljóðmönnum þar sem að sveitin var í gríðarlegu stuði og fólk greinilega til í að hlusta á eitt lag til viðbótar. En þrátt fyrir þessa tækniörðuleika var samt upplifun að sjá Retro þetta kvöld og einhver tilfinning segir að ekki verði langt þangað til Íslendingar munu flytja sveitina út með þessu áframhaldi.

These New Puritans

Eftir að Retro höfðu tekið saman tók við löng bið eftir breska hljómsveitin These New Puritans. Þrátt fyrir fá hljóðfæri og einungis fjóra meðlimi í hljómsveitinni þurfti hún samt að taka sér góðan tíma í að stilla upp fjórum hljóðfærum auk tveggja hljóðnema. Þetta varð til þess að sveitin fékk nokkur mínusstig áður en þeir byrjuðu. Eftir að sveitin byrjaði að spila þá byrjaði hún ekki að fá plúsa. Myspace sveitarinnar hafði lofað góðu en þessi elektro-indí-pönk-rokk sveit var þó ekki að standa sig á sviði. Sviðsframkoma var einfaldlega tilgerðarleg og slöpp. Hljómsveitin spilaði í heila klukkustund sem mér (og greinilega öðrum) fannst líka þar sem að fólk í kringum mig var byrjað að líta á klukkuna eftir að hljómsveitin hafði einungis spilað í korter. Vonandi er þetta sveit sem tekur sig saman í andlitinu og lærir hvernig á að spila á tónleikum (og tala við fólkið í salnum, en allt sem var sagt var með öllu óskiljanlegt) og láti þá sýna sig aftur. En ef sveitin gerir það ekki er ekki til vottur af löngun til að sjá sveitina aftur.

White Denim

Næstir á svið voru ameríkanarnir í White Denim. Það var upplífgandi að sjá eins góða sveit og White Denim eftir ládeyðuna í These New Puritans. Ég vissi ekki á hverju ég ætti von á þegar White Denim steig á svið, en um leið og sveitin byrjaði að spila vissi ég að þarna var alvöru hljómsveit að spila. Sveitin hóf leik á að spila intrumental-kátrý-blús-rokk. Þá varð ég hálf tvístíga og var ekki alveg viss hvort að það myndi ganga í þennan heila klukkutíma sem sveitin átti að spila. En vitir menn, sveitin tók sig til, hætti öllu forspili og keyrði sig uppí rafmagnað rokk. Þvílík keyrsla og þvílíkur kraftur! Sveitin var með betri atriðum hátíðarinnar í ár og er fágætt að sjá sveit sem gefur svo mikið af sér á sviði. Sveitin fær fullt hús stiga og mæli ég hiklaust með að allir skoði þessa frábæru sveit.

Motion Boys

Motion Boys tóku sér ágætis tíma í að stilla upp, en það er fyrirgefið þar sem sveitin var með lítið bæjarfélag af hljóðgerflum á sviðinu. Það var ekki auðvelt að fylgja eftir White Denim, en Motion Boys voru þó ekki langt frá því. Öll spilamennska sveitarinnar var með stakri prýði, en þó var söngur Birgis Ísleifs brothættur og tæpur til að byrja með. Eftir tvö lög var þó salurinn farinn að syngja með og kominn á band Motion Boys og það veitti sveitinni greinilega mikið. Það eru greinilega ófáir sem vildu sjá strákana þetta kvöld, enda nýkomin plata frá sveitinni. Topp framkoma og spennandi að sjá hvað gerist á árinu hjá sveitinni.

-Sævar Atli Sævarsson

Airwaves 08: fimmtudagur

Tónleikaumfjallanir

Á öðru kvöld Iceland Airwaves 2008 iðaði miðbærinn af lífi. Rjóminn var á staðnum…

Rjómapennarnir Pétur og Daníel skelltu sér á Airwaves á fimmtudag…

Ólafur Arnalds

Airwaves 08: fimmtudagurÓlafur Arnalds náði að halda áheyrendum við efnið á Nasa með fínni frammistöðu og var merkilega lítill kliður í salnum miðað við lágstemmda tónlistina. Ólafur var með nokkra strengjaleikara sér til aðstoðar og saman spiluðu þau nokkur lög af skífunum hans sem virtust falla nokkuð vel í kramið hjá árhofendum. Mér fannst reyndar vanta ögn upp á sveitin væri nægilega vel samstillt en flestir strengjaleikararnir reyndust nýlega gegnir til liðs við Ólaf svo það var svo sem fyrirgefanlegt. Myndskeið af teiknuðum fuglum var varpað á tjald bak við sveitina í lokalaginu og átti líklegast að bæta einhverju við tónlistina. Þar sem fuglarnir litu út eins og afskræmdar sáðfrumur furðuðu áhorfendur sig á merkingu þessa myndbands og var það því miður það eftirminnilegasta við tónleikana

Fuck Buttons

Í Hafnarhúsi var Flórens og Maskínan að klára þegar ég sté inn og heyrðist mér ég varla hafa misst af miklu. Fuck Buttons voru hins vegar næst á dagskrá en sjaldan hafa sést jafn mikið af snúrum og drasli á einum stað og á borðinu sem Reiðhnapparnir höfðu á milli sín. Þeir keyrðu strax í upphafslag Street Horrrsing með tilheyrandi suði og skemmtilegheitum. Þrátt fyrir að tónlistin hafi að mestu verið framkvæmd með hljómborðum og öðrum raftækjum áttu þeir Hung og Power til að sleppa sér lausum á sviðinu – sem hentaði tónlistinni vel. Sjálfur hafði ég búist við að margir tónleikagestir myndu klóra sér í hausnum yfir Fuck Buttons en flestir voru með á nótunum og fagnaðarlæti við upphaf „Bright Tomorrow“ staðfesti að fjölmargir þekktu einhver deili á sveitinnni. Magnaðir tónleikar.

Therese Aune

Hin norska og smávaxna Therese Aune sat við píanó á Organ og söng. Hið lítt upphækkaða svið á staðnum gerði það að verkum að engir aðrir en þeir sem fremst stóðu sáu hana Aune spila og urðu að láta sér músíkina nægja. Þó að hún hafi alls ekki hljómað illa þá vantaði eitthvað ferskt í tónlistina hennar Aune og kom ekkert á óvart. Undir lok tónleikanna ákvað hún að vera sniðug og taka gamla júrópoppsmellinn „Barbie Girl“ en útgáfan hennar var alveg jafn hræðileg og mannskemmandi og sú upprunalega – sjálfur leitaði ég í örvæntingu að einhverju lauslegu í kringum mig til að kasta í átt að sviðinu. Flestir tónleikagestir virtust þó vel meta – þvílík firring!

FM Belfast

Um miðnætti sté FM Belfast á svið á Tunglinu við mikinn fögnuð viðstaddra sem voru orðnir vel heitir eftir stuðvaldandi framkomu hinna færeysku Ghost sem ég rétt náði í skottið á. FM Belfast renndu sér strax i Frequency, upphafslega hinnar frábæru breiðskífu sveitarinnar How To Make Friends. Tæknileg vandamál komu samstundis upp og voru sveitarmeðlimir truflaðir af þeim fram í annað lag en áhorfendur voru skilningsríkir og tóku undir með kröfum sveitarinnar um “hærra í monitor” sem gekk seinlega eftir. Fyrstu tónarnir af „Synthia“ vöktu upp raddbönd tónleikagesta sem sungu með hástöfum. FM Belfast nýtti sér meðbyrin og renndi í nokkur minna þekkt lög sem rötuðu ekki á plötuna þeirra en það virtist ekki trufla lýðinn sem iðaði eins og mý á mykjuskán. „Lotus“ [aka Killing In The Name Of] vakti aðra öskurhrinu fagnaðarláta í salnum en þar sem ég þurfti að vakna í býtið næsta morgun lét ég mig hverfa að sinni. Tónar FM Belfast ómuðu eftir Hafnarstrætinu þegar ég gekk heim og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar næst þegar sveitin treður upp… þá verður stuð.

– Pétur Valsson
——————————–
Fimmtudagskvöld á Airwaves hafa yfirleitt alltaf gefið af sér frábæra dagskrá og troðfullt kvöld af áhugaverðum hljómsveitum. Að þessu sinni var lítið sem vakti áhuga minn og tónleikar utan hátíðarinnar heilluðu mun meira en áður hafði gerst á fimmtudagskvöldum. Ég byrjaði þó á því að sjá hina fræknu Esju á Organ.

Esja

Mynduð af ofurleiðtogunum Daníel Ágúst (Gus Gus, Ný Dönsk) og Krumma (Mínús, Jesus Christ Superstar), steig Esja á svið þetta kvöld örugg, svöl og áhugaverð.
Hljómsveitin lék rólegt kántrýskotið rokk og var grúvið í fyrirrúm hjá sveitinni. Daníel Ágúst sýndi vel að hann er einn af svölustu söngvurum landsins og Krummi sýndi að ekki er hann aðeins við eina fjölina felldur. Að mínu mati er markmið Esju þó engan veginn að sigra heiminn, „meika það” eða finna upp á einhverju nýju heldur koma þeir vel fram sem góðir vinir að koma saman og gera það sem þeim finnst skemmtilegast að gera; spila tónlist. Esju er sú sveit sem margir gætu litið til þegar kemur að tónlistarsmíð. Einfaldleikinn er oft betri en annað.

Ég rölti yfir á Nasa til að athuga með annað atriði

El Perro del Mar

Falleg og töff var söngkonan sem steig á svið ásamt gítarleikara þetta kvöldið á Nasa. Þunglyndir textar, kyrjaðir með rödd sem reyndist svo flott að söngkonan hristi upp í flestöllum sem sýndu atriðinu athygli. Talandi um að sýna athygli þurfti söngkonan þó að sussa á gesti kvöldsins en gestum þótti afar erfitt að hafa hljóð á meðan listamaðurinn lék lög sín þetta kvöldið.
Ég verð þó að segja að hundur hafsins gerði ekki það mikið fyrir mig. Ótrúleg rödd söngkonunnar var það eina sem stóð upp úr eftir tónleikana. Tori Amos hefði orðið stolt. Ég væri þó til í að komast yfir lagið sem hún lék fyrst laga á píanóið þetta kvöld en mig minnir að það hafi heitið “Do Not Despair”. Lagið var svo hugljúft og fallegt að ég heimta að það komi fyrir í kvikmynd byggð á Tolkien-bók einn daginn.

Þar sem þetta kvöld var ekki neitt neitt fyrir mig í alla staði hvað varðar dagskránna, ákvað ég að athuga hvernig færeysku graðfolarnir í hljómsveitinni Boys In A Band væru stemmdir fyrir tilvonandi tónleika þeirra á Hafnarhúsinu á laugardagskvöldið. Þeir léku fyrir gesti á Dillon ásamt Mammút þetta kvöld.

Boys In A Band

Ég hef séð ansi margar hressar sveitir á rokkbarnum Dillon við Laugaveg en færeyingar eru þekktir fyrir að vera spes. Boys In A Band sönnuðu að þeir væru svo sannarlega klárir í slaginn fyrir laugardagskvöldið og voru gestir á Dillon margir farnir að titra og dansa strax í fyrsta laginu en troðfullt var á Dillon þetta kvöldið. Lögin „Secrets To Conceal” og „Black Diamond Train” að gera það gott. Ekki skemmdi fyrir að þeir áttu ótrúlega gott samband við áhorfendur og gripu fólkið með sér í sveiflu þegar þeir réðust um salinn í óðagoti með hljóðfæri sín. Eftirminnilegasta setning kvöldsins var þó frá söngvara sveitarinnar Pætur Zachariasson „If we hit you with our instruments, we´re sorry, but you´ll just have to sue our manager”. Góður endir á annars slöku Airwaves-kvöldi.

– Daníel Guðmundur Hjálmtýsson

Airwaves 08: miðvikudagur

Airwaves 08: miðvikudagur

Tónleikaumfjallanir

Á fyrsta kvöld Iceland Airwaves 2008 var margt um að vera. Nokkrir Rjómapennar kíktu á tónleika…

Rjómapennarnir Pétur, Sævar, Hildur og Daníel skelltu sér á Airwaves á miðvikudag…

 

Borko

Á Tunglinu,sem mér er nú enn tamt að kalla Gaukinn, réð hin stórfína plötuútgáfa Kimi ráðum og lögum á fyrsta degi Airwaves. Þegar ég mætti á staðinn var hann troðfullur og vart sást fyrir endann á biðröðinni fyrir utan og því vart annað að ætla en að margir hátíðargestir hafi verið spenntir fyrir hljómsveitum útgáfunnar. Inni var hinn velskeggjaði Borko að renna í gegnum lög af nýlegri plötu sinni, Celebrating Life, og var líklega hálfnaður með prógrammið þegar ég komst inn í salinn. Ég náði þó að heyra hann klára lagið „Dingdong Kingdom“ með skemmtilegri tilvísun í „Þorpara“ Pálma Gunnarssonar sem var ansi hress viðbót við lagið. Áhorfendur virtust vel meta Borko þó að greinilegt væri að margir væru bara að bíða eftir BHH og Hjaltalín sem voru næst á dagskránni. Margir virtust vera farnir að klóra sér í hausnum yfir óþarflega langri uppbyggingu í „Hondo & Borko“ en hápunktur lagsins gerði biðina svo sem þess virði.

Múgsefjun

Hinu megin við vegginn á Organ var það Múgsefjun sem sté á stokk með einhverskonar þjóðlagaskotnu popptónlist. Þó að ég hafi lítið greint hvað sveitin var að syngja um eða að segja á milli laga mátti greina að þeim var mikið í mun um að vera sniðugir og það getur svo sem verið að þeir hafi verið það. Það sem ég tók helst eftir var að þeir voru sífellt að tilkynna að næsta lag væri það síðasta og mátti fljótt greina gremju aftarlega í salnum hjá óþreyjufullum hljómleikagestum sem biðu eftir að sveitin hætti spilamennsku.

<3 Svanhvít

Ungsveitin <3 Svanhvít átti einhverja óvæntustu og skemmtilegustu tónleika síðustu Airwaves hátíðar og voru næst á prógramminu á Organ. Meðlimir sveitarinnar eru óteljandi og fylltu sviðið skrýddir búningum með allra handa hljóðfæri við hendina, allt frá pottum og pönnum til hefðbundinna hljóðfæra. Þó að hressleikinn væri í fyrirúmi hjá <3 voru þau ekki jafn kraftmikil og oft áður en Svanhvít er þó enn meðal áhugaverðustu hljómsveita landsins sem vert er að hafa augun opin fyrir.

Retro Stefson

Hjaltalín voru að ljúka leik þegar ég kom aftur inn á Tunglið og skipti ekki togum að herskari fólks flykktist út um leið og sveitin sté af sviðinu. Líklega hafa þessir gestir lítið vitað hvað í vændum var en þeirra var svo sem ekki sárt saknað því staðurinn var fljótur að fyllast aftur af fólki sem komið var að berja Retro Stefson augum. Hljómsveitin er um þessar mundir að gefa út sína fyrstu breiðskífu og flutti lög af henni við góðar undirtektir áhorfenda. Ég hef séð Retro Stefson nokkrum sinnu á sviði undanfarin ár og haft gaman af en á Tunglinu steig fram umbreytt sveit, öruggari og þéttari en nokkrum sinni áður. Greinilegt var að lögin höfðu verið fínpússuð í upptökum á nýju plötunni og heyra mátti ýmis skemmtileg smáatriði í þeim sem lyftu flutningum upp á hærra plan.

– Pétur Valsson

——————————– 

 

Þegar passinn á Airwaves skilaði sér í hús rétt eftir klukkan 8 á þessu grámyglulega kvöldi var stefnan tekin á Organ. Strax á leiðinni niður í bæ byrjaði maður að finna fyrir gleðistraumi frá miðbænum og það er ekkert vafamál, Airwaves er byrjað!

Perla

Klukkan hálf níu steig ég inn á Organ. Staðurinn var nokkuð vel pakkaðu, þó langt frá því fullur, og á sviðinu stóðu fimm prúðir rokkarar sem skipa sveitina Perla. Sveitin var þá í miðju lagi, ljúfsár rokk-ballaða í anda svo marga hljómsveita frá síðustu þremur áratugum. Perla tók svo tvö lög í viðbót þar sem stefnan var tekin á blús-skotið prog-rokk í anda Yes og Led Zeppelin yfir í hart rokk á köflum þar sem hljóðfæraleikur hljómsveitarinnar minnti mest á sveitir á borð við Alter Bridge og Deep Purple. Perla stóð sig yfir heildina vel. Sveitin fær góða einkunn fyrir sína dagskrá. Þrátt fyrir að tónlist þeirra drengja sé ekki frumleg og sveitin hafi enn ekki fundið sinn eigin hljóm þá vegur það upp á móti (og gott betur en það) hversu þétt sveitin var og hvað allur hljóðfæraleikur var góður, og sér í lagi söngurinn! Perla er sveit sem ég vona að þrói sig yfir árið og komi aftur með sinn rétta hljóm að ári á hátíðina, því þá er án efa von á góðu.

Miri

Eftir að Perla höfðu klárað og pakkað saman um níuleytið stigu á stokk fimmmenningarnir í hljómsveitinni Miri. Hljómsveitinni er lýst í bækling hátíðarinnar sem „Instrumental post-rock four-piece that sum together guitar encrusted upsurges“. Miðað við þessa lýsingu mætti búast við að hér væri á ferð hljómsveit á borð við Explosions in the sky eða For a minor reflection, en hér var á ferðinni eitthvað allt annað. Þegar Miri byrjuðu hafði eitthvað af fólki týnst út og var staðurinn lítið meira en hálffullur. Þegar Miri hóf upp raust sína (sem þó voru eingöngu hljóðfæri) myndaðist strax stemming, hópurinn byrjaði að hreyfast með drífandi spili sveitarinnar og fólk dillaði sér við undarlega trommutakta. Miri stendur nokkuð ein á báti þegar á að fara að líkja henni við aðrar hljómsveitir. Hljómsveitin hefur tekið það „klassíska post-rock“ sem flestir kannast við í dag og fært það aftur niður í grasrótina, og útkoman er hrátt kraut-rokk. Hljómurinn sveitarinnar samanstendur af þéttum bassa sem þræðir tónskala upp og niður (ekki ósvipað Paul nokkrum McCartney á sínum gullárum) í bland við undarlega trommutakta, drífandi hráar og bjagaðar gítarlínur. Eftir að sveitin hafði tekið tvö lög hafði fjöldi áhorfanda aukist til muna, og Miri svaraði því með enn meiri krafti. Sveitin fær verðalaun fyrir að vera með besta sviðsframkomu þetta kvöldið, brosandi hring eftir hrind, dansandi hring eftir hring og kyssandi hvorn annan í tíma og ótíma. Sveit sem er tímans og peningana virði.

Múgsefjun

Eftir Miri stigu á stokk prúðmennin í Múgsefjun. Þeir tóku sér stuttan tíma í að stilla upp hljóðfærum sínum og drifu sig strax í stuð. Nær strax eftir að hljómsveitin byrjaði að spila fylltist Organ og er greinilegt að sveitin hefur skapað sér góðan aðdáendahóp og gott orðspor eftir plötu þeirra, Skiptar skoðanir, sem þeir drengir sendu frá sér í sumar. Skiptar skoðanir er hin fínasta plata og það var flutningur Múgsefjunar líka á þessum tónleikum. Hinsvegar var það ekki að finna að live-stuðtónleikar væru í gangi, heldur var flutningur sveitarinnar á tónlist sinni svipaður og að hlusta á plötuna í heimahúsi, hvorki betri né verri. Lýðurinn lét þetta þó ekki stoppa sig í að skemmta sér, enda ekki nema 3 tímar af dagskrá búnir og fólk var staðráðið í að láta ekki deigan síga í skemmtuninni. En samt sem áður gerði flutningur Múgsefjunar það að verkum að hljómsveitin var lítið spennandi, þó svo að tónlistin hafi verið góð og skemmtileg þá vantaði einhvern frískleika og stuð sem vonandi verður meira til staðar næst þegar þessir pörupiltar stíga á stokk.

Benni Hemm Hemm

Þegar Múgsefjun hefðu lokið sinni dagskrá var stefnan tekin á Tunglið. Klukkan var þá að nálgast tíu og Benni Hemm Hemm stiginn á stokk. Það var útgáfufyrirtækið Kimi Records sem höfðu eignað sér Tunglið þetta kvöld og það er greinilegt að Kimi er vinsælasta útgáfufyrirtækið í dag. Þegar Benni Hemm Hemm var að byrja var staðurinn pakkaður útúr dyrum og röðin inn náði að Grillhúsinu. Inni var góð stemming hjá þeim sem komnir voru til að hlusta á Benna, en á köflum virtust það ekki vera margir. Á milli laga og í byrjun þeirra flestra var svo mikill kliður og hávaði að ekki heyrðist í Benna þegar hann byrjaði að syngja. Hinsvegar virtist fólk flest fara að leggja við hlustið þegar trommurnar byrjuðu eða þegar ungfónían hans Benna byrjaði að spila. Þeir sem séð hafa Benna Hemm á sviði ættu að kannast við stíl hans, rólegur, yfirvegaður en umfram allt kærulaus. Kvöldið var engin undantekning, flest lög byrjuðu á því að Benni sló létt á kassagítarinn á meðan hann raulaði lag sitt, gjótandi augunum á áhorfendur á meðann hann horfir berdreyminn upp í þungt loft Tunglsins. Þeir sem þarna voru komnir til að sjá Benna spila geta verið sammála um að þarna fór fram góður og skemmtilegur flutningur, og á Ungfónían skilið hrós sem og svo oft áður fyrir sitt framlag. Bravó.

Hjaltalín

Þegar Benni hafði pakkað saman og einhvernveginn komið sér burt af sviðinu í gegnum mannþröngina var það Hjaltalín sem steig á stokk. Eitthvað dróst það að þau byrjuðu, en það gerðist þó að lokum. Oftastnær hefur prúðmennska og góð spilamennska einkennt Hjaltalín, en þetta kvöld var því miður ekki eitt af þeim. Það fyrsta sem virtist vera rangt við sveitina þetta kvöld var þegar sveitin hafði komið sér fyrir á sviðinu. Allir meðlimir sveitarinnar voru vel klæddir að vana (eins og fylgt hefur ímynd Hjaltalínar) nema söngvari sveitarinnar sem klæddist náttbuxum og Retro Stefson bol. Sattbest að segja leið mér eins og ég væri mættur á Kiss tónleika og Gene Simmons væri sá eini á sviðinu sem ekki væri með einkennismálninguna í andlitinu. Þessar áhyggur voru nú þó fljótar að fara þegar sveitin byrjaði að spila. Fyrstu lög sveitarinnar voru ágæt, flutningur góður og gríðarleg stemming í salnum. Hinsvegar gerðist það eftir tildurlega stuttan tíma að hljóðið í sveitinni varð með versta móti, ekki hef ég heyrt svona slæmt hljóð á tónleikum síðan á síðustu Músíktilraunum sem voru í óklæddu listasafninu. Ekki veit ég hvort að þetta var hljómsveitinni að kenna eða hljóðmanni kvöldsins en þetta nær eyðilagði nær alveg framkomu Hjaltalíns og gæði tónleikanna. Fólkið í salnum virtist hinsvegar ekki hafa áhyggjur, enda klukkan að verða ellefu og fólk orðið vel í glasi og hugsaði um lítið annað en að dilla sér í því litla plássi sem var til staðar og syngja með. Sérstaklega virtist stemmingin ætla öllu um koll að keyra þegar sveitin spilaði eitt vinsælasta lag sumarsins „Þú Komst Við Hjartað Í Mér“. Þrátt fyrir að flutningur sveitarinnar þetta kvöldið hafi ekki verið góður og fer sennilega á skrá með verri tónlistarflutnings þetta árið, þá fær hljómsveitin stig fyrir að klára sína dagskrá ekki á vinsælasta lagi sínu heldur á nýju lagi. Djörf og skemmtileg ákvörðun, sem þó virtist ekki falla í góðan jarðveg hjá áhorfendum sem vildu halda áfram að syngja með til síðasta lags, en urðu eingöngu að leggja við hlustið. Ekki voru það fleiri bönd sem voru séð þetta kvöldið, en góð upphitun var þetta kvöld og það nóg eftir.  

– Sævar Atli Sævarsson

 

————————————- 

 

We Made God 

Strákarnir í We Made God fengu gríðargóðar viðtökur á Airwaves í fyrra og hlutu að launum frábæran tíma og staðsetningu á Airwaves í ár, á Kerrang kvöldinu á Nasa. Óhætt er að segja að sveitin hafi nýtt tækifærið vel en strákarnir voru geysiþéttir og gáfu sig 100% í flutningi og sviðsframkomu, greinilega vel æfðir. Það tók á að horfa á tónleika þeirra, en Maggi söngvari á það til að þenja raddböndin af þvílíkri innlifun að það benlinis nístir mann að innan! Flutningur hinna var lika til fyrirmyndar og er alltaf gaman að sjá gítar- og bassaleikarann fara á flug í miðju lagi og nánast henda hvor öðrum af sviðinu. 

Agent Fresco 

Agent Fresco eru á góðri leið með að verða nýjustu uppáhöld mín í íslenska tónlistarbransanum. Þeir státa ekki einungis af frábærum hljóðfæraleikurum og óperumenntuðum söngvara, heldur eru þeir einnig frábærir lagasmiðir og sést það best á fjöldasöngnum sem myndaðist í viðlagi lagsins Eyes of a Cloud Catcher, en það lag hefur fengið töluverða spilun í útvarpi og er greinilegt að tónleikagestir voru með á nótunum því söngurinn ómaði um allt Nasa. Það er alltaf æðislegt að sjá Agent Fresco á sviði því þeir gefa sig alla í flutning tónlistar sinnar, svoleiðis að maður sogast inn í hringiðu þeirra tóna sem þeir mynda. Tvímælalaust hljómsveit sem allir ættu að kíkja á tónleika með sem hafa ekki gert það nú þegar.

For a Minor Reflection 

FaMR tókst að fylla Organ á miðvikudagskvöldið þrátt fyrir að spila 6 sinnum á hátíðinni allt í allt og er ljóst að mikill áhugi er fyrir sveitinni. Þeir eru búnir að skapa talsvert umtal undanfarið enda á leiðinni í tónleikaferðalag með Sigur Rós sem upphitunarsveit þeirra með ný lög í farteskinu og plötu í bígerð. Í rauninni var það troðið þegar þeir byrjuðu að spila að ég hrökklaðist aftar þar sem ég sá voða takmarkað en það skiptir í raun ekki sköpum því þegar allt kemur til alls er það tónlistin sem er aðalatriðið. Flutningur FaMR var til fyrirmyndar, krafturinn í fyrirrúmi ásamt óvenju miklum þéttleika og er ljóst að þeir eiga eftir að næla sér í ófáa aðdáendur á tónleikum sínum erlendis í nóvember.

-Hildur Maral Hamíðsdóttir

——————————– 

Það var kuldalegt um að líta í miðbæ Reykjavíkur á fyrsta kvöldi Airwaves-hátíðarinnar í ár. Strax og í bæinn var komið tók að rigna og rafmagnið sem ég hafði fundið í loftinu í miðbænum á fyrsta degi Airwaves undanfarin ár, var svo gott sem ekkert. Andrúmsloftið einkenndist af fjárskorti og áhyggjum fremur en spennu, tilhlökkun, gleði og fjöri.
Ég ákvað að líta við á Organ, þó Organ eins og við þekkjum flest hafi lagst af hér um daginn, var nú búið að opna svæðið fyrir gestum Airwaves. Sást Gylfi Blöndal þar ferskur að róta fyrir sveitirnar og spurning hvort eitthvað gott sé að gerast þarna niðurfrá hvað varðar framtíð staðarins. Staðurinn var mun minni en vanalega vegna áhangendagirðinga og var Organ verulega þétt setinn þegar ég gekk inn og stuð/popp-rokk sveitin Who Knew var að ljúka sínu spili þetta kvöldið. Hélst staðurinn vel þéttur þegar næsta sveit steig á svið.

Perla

Nýskriðnir úr hljóðveri í Chicago sýndu Perla að mikill þroski hafi átt sér stað frá síðustu Airwaves-hátíð, sem var þeirra fyrsta. Þessir drengir, hver öðrum hæfileikaríkari, færðu gestum fallegt, oft á tíðum hrátt og enn fremur feitt proggrokk. Gestir kvöldsins vissu vart hvernig þeir ættu að haga sér en þarna blandaði sveitin hinum ýmsu geirum saman og mætti nú án efa telja Crosby, Stills & Nash undir áhrifavalda sveitarinnar.
Rokkóperu-fílingurinn var nærri þegar í rólegri farveg var lagt en Perla kveikti í gestum með öskrandi gítarsólóum, þéttri baklínu og hæfileikaríkum söng í bland.
Fyrsta plata sveitarinnar er væntanleg en ég heimta rokkóperu út frá þessum frumburði Perlu sem þeir kalla Í Tregafullum Hljóm.

Það að blanda saman hinum ýmsu geirum tónlistar inn á upphafskvöld stórrar tónlistarhátíðar er áhættusamt. Þetta kvöld var troðið af frábærum sveitum en vart er hægt að segja að þær hafi höfðað til allra og varð undirritaður ögn hissa á þessu öllu saman. Organ hélt þó góðum dampi og nutu gestir fjölbreytileika kvöldsins ágætlega, þó uppstokkunin í áhorfendaskaranum hefði verið ansi mikil. Næstir á svið voru þó Míri frá Seyðisfirði og áhorfendaskarinn skransaði og setti í park.

Miri

Seyðfirðingar (og Austfirðingar á annað borð), eru að mörgu leyti sérstakir. Frá þessum fyrrum höfuðstað Íslands kemur ein af sérstökustu hljómsveitum dagsins í dag. Fyrir það fyrsta eru Miri harðir á því að ekkert sé sungið og í öðru lagi eru yfirleitt tveir til þrír í áhorfendaskaranum sem velta því fyrir sér að kalla á sjúkrahjálp vegna flogakasts bassaleikara sveitarinnar. Útskýringar fást þó ætíð hjá næsta áhorfanda og kemur í ljós að þar sé ekki um neitt flogakast að ræða, heldur eintóma gleði. Túlka Miri þessa gleði með fjórum einföldum hljóðfærum í undravert og frábært indískotið rokk. Sveitin gaf út sína fyrstu ep-plötu Fallegt Þorp fyrir þó nokkru síðan og hvet ég þessa drengi til að færa okkur meira. Bros, gleði, kossar, hopp og skopp og fjör. Miri stóðu vel fyrir sínu þetta kvöldið og fóru án efa margir sáttir með bros á vör, sína leið að tónleikum loknum.

Eftir að hafa lagt við hlustir á skrautlegt og tilraunakennt nammi, lá leið mín á Kerrang!-kvöld á Nasa. Vildi ég haska mér í flýti þar yfir til að forðast allar hugsanlegar biðraðir. Viti menn, þegar ég mætti á svæðið… engin röð og harla stemming fyrir klassísku Kerrang!-kvöldi á Airwaves. Ég kíkti þó inn.

Our Lives

Hljómsveitin Our Lives var í rólegri sveiflu þegar ég steig inn á Nasa þetta kvöldið. Stemmingin í salnum var lítil sem engin og er sveitin lauk ljúfu lagi sem ég náði ekki nafni á, var lófatak gesta grátlega slappt. Það var eins og að fólk væri þar mætt til þess eins að vera á svæðinu. Hátt verð á veigum hefur líklega haft ýmislegt í för með sér og voru gestir afar daufir. Our Lives voru þó öruggir á sviðinu og fluttu ágætis sett.

We Made God

Hafnfirsku drengirnir í We Made God vöktu athygli fyrst er þeir tóku þátt í Músíktilraunum hér um árið og enn fremur fönguðu þeir athygli íslensks tónlistarlífs þegar frumburður sveitarinnar gerði það gott erlendis. Ekki get ég þó verið samkvæmur sjálfum mér þegar ég segi að sveitin sé stórkostleg. Sviðsframkoman var frábær og Magnús, söngvari sveitarinnar, brá út af vana flestra söngvara og í stað eins míkrafóns, hafði hann tvo sér til halds og fékk hann þá meira frelsi til að viðra sig á sviðinu í kjölfarið. Lét hann duga að standa nálægt míkrafónunum og öskra. Þó fannst mér sveitin ekki standast mínar væntingar þetta kvöldið og tók ég í raun einungis sviðsframkomuna með mér þaðan frá þetta kvöldið. Hins vegar var sveitin þétt, örugg og töff á sviði og hvort We Made God sé tebolli sem ég færi næsta manni við hliðina á er vel mögulegt.

Miðvikudagskvöld geta oft á tíðum verið erfið eftir harðan vinnudag en stemmingin á Nasa virtist þó vera að færast vel í gang og húsið var nú loks orðið vel fullt og næstir á svið voru Músíktilraunavinningshafarnir Agent Fresco.

Agent Fresco

Ég hafði beðið lengi eftir að sjá hljómsveitina Agent Fresco á sviði og hafði miklar væntingar til sveitarinnar. Væntingarnar urðu í þetta skiptið ekki að vonbrigðum og var strax ljóst að hér væri um afar áhugaverða sveit að ræða. Söngvari sveitarinnar, klæddur í skærgular og víðar buxur, keyrði stemminguna vel upp og trymbillinn gerði gestum ljóst að hér væri um alvöru að ræða, ekkert rugl.
Hvaða stefnu sveitina er hægt að greina undir er ráðgáta en fusion-fönk-rokk væri alveg ágætis skilgreining að mínu mati. Mike Patton kom oft á tíðum upp í þankagangi og var tækni söngvarans afburða góð. Agent Fresco náðu að redda þessu Kerrang!-kvöldi í raun fyrir undirrituðum og skiluðu af sér einstaklega góðu setti. Eftir að hafa hamast út nokkur lög buðu drengirnir upp á aðalslagara sinn Eyes Of A Cloud Catcher og skiluðu honum af sér frábærlega. Sing-a-long stemming endaði lagið og lauk sveitin tónleikum sínum vel með einu lagi til viðbótar. Þetta tel ég áhugaverða sveit og legg til að fólk fylgist grannt með framför þessara drengja.

Orkuleysi og liðinn vinnudagur var farinn að segja til sín og seinasti strætisvagn kvöldsins átti að taka af stað innan nokkurra mínútna. Tók ég þá erfiðu ákvörðun að sjá ekki hina skosku Biffy Clyro heldur þess í stað halda heim á leið og safna kröftum fyrir komandi kvöld Iceland Airwaves 2008.

– Daníel Guðmundur Hjálmtýsson

Airwaves: Dagskrá sunnudagsins

Airwaves: Dagskrá sunnudagsins

Ekki allt búið enn…

Ef tónleikaþorstanum hefur ekki verið svalað undanfarna daga er hægt að skella sér á Nasa þar sem feit tónleikadagskrá er í boði á lokakvöldi Airwaves

Nasa

21:00 Fjallabræður.
21:30 Dr.Spock
22:15 Boys In Band
23:00 Retro Stefson
00:00 DJ Margeir og Sinfónían stjórnað af Samúel Samúelssyni.

 

 

 

Airwaves: Dagskrá laugardagsins

Airwaves: Dagskrá laugardagsins

Hvað er um að vera í dag?

Það er af nógu að taka á Airwaves í ár. Hér er dagskráin fyrir laugardaginn

Eins og ætíð á Airwaves er erfitt að velja, en Rjóminn mælir sérstaklega með þeim atriðum sem eru feitletruð …

 

Dagskráin:

22
  20:00  Prince Valium
  20:45  Oculus
  21:30  Stereo Hypnosis
  22:15  Sykur
  23:00  Steve Sampling
  23:45  Family Of Sound
  00:30  DJ Hero's Trial (Liveset)
  01:30  Plugg'd
Organ
  19:30  Johnny And The Rest
  20:15  Noise
  21:00  Lights on the Highway
  21:45  Eberg
  22:30  Mammút
  23:15  Miracle Fortress (CA)
  00:15  Benny Crespo's Gang
  01:15  Cruel Black Dove (US)
  02:00  Weapons
Iðnó
  20:00  Rökkurró
  20:45  Ske
  21:30  Viking Giant Show
  22:15  Sprengjuhöllin
  23:00  White Lies (UK)
  00:00  Jeff Who?
NASA
  20:00  Mau (POR)
  20:45  Sudden Weather Change
  21:30  Singapore Sling
  22:15  Boy Crisis (US)
  23:00  Handsome Furs (CA)
  00:00  Junior Boys (CA)
  01:00  Robots In Disguise (UK)
  01:45  FM Belfast
Tunglið
  20:00  Gudrun Gut (DE)
  21:00  Kap10Kurt (DE)
  22:00  Steed Lord
  23:00  Pnau (AUS)
  00:00  Crystal Castles (UK)
  01:00  Yelle (FR)
  02:00  Thomas Fehlmann (DE)
  03:00  Gluteus Maximus
Reykjavik Art Museum
  20:00  Bob Justman
  20:45  Jan Mayen
  21:30  Dikta
  22:15  Boys In A Band (FO)
  23:00  CSS (BR)
  00:00  Vampire Weekend (US)
Hressó
  20:00  Wulfgang
  20:45  Andrúm
  21:30  Borko
  22:15  Ultra Mega Technobandið Stefán
  23:00  Soundspell
  23:45  Southside (US)

 

Off Venue:

12 tónar
  17:00 Gavin Portland
Skífan
  14:00 Jóhann Kristinsson
  15:00 Hjaltalín
  16:00 Reykjavík!
  17:00 Munich
Mál og Menning
  17:00 Ólafur Arnalds
  17:40 Benni Hemm Hemm
  18:20 Ane Brun
Norræna húsið
  14:00 Munich
  14:30 Ane Brun
  15:00 TBA
  15:30 Matias Tellez
Kaffibarinn
  Bedroom Community Afternoon Club:
  15:30-18:00 Ben Frost, Nico Muhly, Final Fantasy, Helgi Jónsson
  22:00 DJ Árni Sveins
  02:00 Alfons X
  03:00 Kasper Björke
Prikið
  22:00 XXX Rottweiler & DJ Danni Deluxe
Babalú
  17:00 Artery Music with Jalti Jón and friends
Kronkron
  Nylon Magazine hosts 4th anniversary of Kronkron with
  special appearance of Jerry Bouthier and Timo!
Smekkleysa
  13:00 Boys in a Band
  14:00 Elíza
  15:00 FM Belfast
Cultura
  18:00 Majiker (FR), Kimi Records
  23:30 DJ Nuno Lx (POR/BE)
Tutti Bene
  17:00 Oculus
  17:30 Gossi
  18:00 Berndsen
  18:30 Daveeth
Café Rosenberg
  16:00 Þórunn Antonía
  16:35 Kurr (The Nanas)
  17:10 Elíza Newman
  17:45 Heiða Dóra
  18:20 Dísa
  18:55 Lay Low
  19:30 Gunna Lára
  20:05 Ellen Kristjáns
  20:40 My Bubba And Mi
  21:15 María Magnúsdóttir
Kaffi Hjómalind
  15:00 Morri
  15:30 Tentacles of Doom
  16:00 Fist Fokkers
  16:30 The Pen
  17:00 Saktmóðigur
  17:30 Dys
  18:00 Much
  18:30 Dormah
  19:00 Swords of Chaoes
  19:30 Plastic Gods
  20:00 Shogun
  20:30 Celestine
  21:00 Gavin Portland
  21:30 Purrkur Pillnikk Tribute
Kling & Bang Gallery
  16:00 Bob Justman
  17:00 Sykur
  18:00 Skátar

 

Airwaves: Dagskrá föstudagsins

Airwaves: Dagskrá föstudagsins

Hvað er um að vera í dag?

Það er af nógu að taka á Airwaves í ár. Hér er dagskráin fyrir föstudaginn

Eins og ætíð á Airwaves er erfitt að velja, en Rjóminn mælir sérstaklega með þeim atriðum sem eru feitletruð …

 
Dagskráin:

22
  20:00  Tonik
  20:45  Yagya
  21:30  Skurken
  22:15  Frank Murder
  23:00  Anonymous
  23:45  Biogen
  00:30  DJ Vector
  01:30  DJ Ozy
Organ
  19:30  Steini
  20:15  Dýrðin
  21:00  Planningtorock (UK)
  21:45  Dynamo Fog
  22:30  Mr. Silla
  23:15  Half Tiger (UK)
  00:15  Matias Tellez (NO)
  01:15  Skátar
  02:00  Reykjavik!
Iðnó
  20:00  Yrovoto (FR)
  20:30  Ben Frost
  21:15  Amiina/Kippi Kanínus
  22:00  Sam Amidon (US)
  22:45  Nico Muhly (US)
  23:30  Valgeir Sigurðsson
  00:30  Final Fantasy (CA)
NASA
  20:00  Audio Improvement
  20:45  Skakkamanage
  21:30  Benni Hemm Hemm
  22:15  Retro Stefson
  23:00  These New Puritans (UK)
  00:00  White Denim (US)
  01:00  Motion Boys
  01:45  Ultra Mega Technobandið Stefán
Tunglið
  20:00  BB & Blake
  20:45  Bloodgroup
  21:30  Nordpolen (SE)
  22:15  Familjen (SE)
  23:15  Gus Gus (Instrumental)
  01:15  Michael Mayer (DE)
  02:30  Simian Mobile Disco (UK)
  04:30  Kasper Björke (DK)
Reykjavik Art Museum
  20:00  Esja
  20:45  Sprengjuhöllin
  21:30  Dr. Spock
  22:15  Seabear
  23:00  Hjaltalín
  00:00  Munich (DK)
Hressó
  20:00  DLX ATX
  20:45  Gavin Portland
  21:30  Atómstation
  22:15  Dikta
  23:00  Agent Fresco
  23:45  Vicky

 

Off-Venue:

12 tónar
  17:00 For A Minor Reflection
  18:00 Miracle Fortress (CA)
Skífan
  14:00 Boys In A Band
  15:00 Lightspeed Legend
  16:00 Vicky
  17:00 Retro Stefson
  18:00 Dikta
Mál og Menning
  17:00 Mikael Lind
  17:40 Matthew Collings
  18:20 TBA
Norræna húsið
  12:00 Boys In A Band
  12:30 Ghost
  13:00 TBA
Kaffibarinn
  Bedroom Coummunity Afternoon Club:
  15:30-18:00 Valgeir Sigurðsson, Ane Brun, Majiker
  22:00 DJ Maggi Lego
  02:00 Jerry Bouthier (Kitsuné)
  03:00 Kap10Kurt (DJ-Set)
Prikið
  Rock & Bacon Morning
  10:00 HookerSwing and Agent Fresco
  22:00 DJ Moonshine
Naked Ape
  17:00 Sykur, Ghost, Steed Lord & Junior Boys
Babalú
  17:00 Lay Low
Smekkleysa
  16:00 Sudden Weather Change
  16:45 Bob Justman
  17:30 Jeff Who
Cultura
  17:00 Tab
  23:30 DJ Vasco Fortes (POR), Gusgus DJ Set with Biggi Veira
Tutti Bene
  17:00 Flophouse Palace
  18:00 R.O.R.
  18:30 Vasasport
Café Rosenberg
  16:00 The Frumpets
  16:30 Heiða (from Hellvar)
  17:15 Beta
  17:45 Myrra
  18:20 Mysterious Marta
  18:55 Elín Ey
  19:30 Mr.Silla
  20:05 Picnic
  20:40 Fabúla
Kaffi Hjómalind
  Skorpulifur/Cirrhosis Records present:
  14:30 Cassette
  15:00 Sudden Weather Change
  15:40 Miri
  16:20 Artery Bros
  17:00 Enkidu
  17:30 Me, the slumbering Napoleon
  18:10 The Neighbours
  18:40 Mae Chi (UK)
  19:00 Frú Grímheiður
  19:30 Vera
Kling & Bang Gallery
  Sequences Cooperation
  16:00 Kid Twist
  18:00 Skakkamanage

Airwaves: Dagskrá fimmtudagsins

Airwaves: Dagskrá fimmtudagsins

Hvað er um að vera í dag?

Það er af nógu að taka á Airwaves í ár. Hér er dagskráin fyrir fimmtudaginn

Eins og ætíð á Airwaves er erfitt að velja, en Rjóminn mælir sérstaklega með þeim atriðum sem eru feitletruð …

 

Dagskráin: 

22
  20:00  DJ Danni Deluxxx
  21:00  Poetrix
  21:45  Sesar A
  22:30  Original Melody
  23:15  32C
  00:00  1985!
Organ
  20:00  Mógil
  20:45  Finn (DE)
  21:30  Esja
  22:15  Therese Aune (NO)
  23:00  Parachutes
  23:45  Ane Brun (SE)
NASA
  20:00  Soundspell
  20:45  Ólafur Arnalds
  21:30  Dísa
  22:15  El Perro Del Mar (SE)
  23:15  Lay Low
  00:00  The Young Knives (UK)
Tunglið
  20:00  Cocktail Vomit
  20:45  Sometime
  21:30  Ghostigital
  22:15  XXX Rottweiler
  23:00  Ghost (FO)
  00:00  FM Belfast
Reykjavik Art Museum
  19:30  Biogen
  20:15  The Mae Shi (US)
  21:00  Florence & The Machine (UK)
  21:45  Fuck Buttons (UK)
  22:45  GusGus
Hressó
  20:00  Naflakusk
  20:45  Fist Fokkers
  21:30  Slugs
  22:15  Swords Of Chaos
  23:00  Æla

 

Off-Venue:

12 tónar
  17:00 Rökkurró
  18:00 Kid Twist
Skífan
  16:00 For A Minor Reflection
  17:00 Agent Fresco
  18:00 Jeff Who?
Mál og Menning
  17:00 Mammút
  17:40 Sprengjuhöllin
  18:20 TBA
Norræna húsið
  12:00 El Perro Del Mar
  12:30 Therese Aune
  13:00 TBA
Kaffibarinn
  Bedroom Community Afternoon Club:
  15:30-18:00 Sam Amidon, Matthew Collings, Reykjavík!
  Fönkþátturinn and radio X-97.7 present:
  22:00 DBF & Terrordisco (Live on Radio X-97.7)
Prikið
  Rock & Bacon Morning
  10:00 Cliff Clavin
  22:00 DJ Anna Brá
Hitt húsið
  20:00 Thursday Teaser:
  Ice on Fire dance crew will perform street dance, break and hip hop.
  Bands: Happy Funeral, Hvar er Mjallhvítt, Coral
Babalú
  17:00 For A Minor Reflection
  21:00 Ron Whitehead and Michael Pollack
Smekkleysa
  16:30 Kuroi
  17:30 Dikta
Cultura
  16:00 Mau (POR)
  21:30 DJ Árni Sveinsson
Kaffi Hjómalind
  15-17 Nanna, Karlotta, Pirate Dean, Brynjar Jóhannsson
  19:00 Nanna
  19:30 Pirate Dean
  20:00 The Custom
  20:30 Tonik
  21:00 Malneirophrenia
  21:30 Digital Madness
  22:00 Gjöll
Kling & Bang Gallery
  Sequences Cooperation
  17:00 Orgelkvartettin Ananas & Guests
  Featuring: Músikvatur, Artistocracia, Gason Bra, Ssangyoung Musso,
  Hip Hop Hudson and Krulli Vespa
  19:00 Klive

Airwaves: Dagskrá miðvikudagsins

Airwaves: Dagskrá miðvikudagsins

Hvað er um að vera í dag?

Það er af nógu að taka á Airwaves í ár. Hér er dagskráin fyrir miðvikudaginn

Eins og ætíð á Airwaves er erfitt að velja, en Rjóminn mælir sérstaklega með þeim atriðum sem eru feitletruð …

Dagskrá

22
  21:00  Ewok
  21:30  Subminimal
  22:15  Raychem
  23:00  Ewok
  23:30  DJ Lynx (UK)
Organ
  19:30  Who Knew
  20:15  Perla
  21:00  Miri
  21:45  Múgsefjun
  22:30  <3 Svanhvít!
  23:15  Space Vestite
  00:00  For a Minor Reflection
NASA
  20:00  Celestine
  20:45  Vicky
  21:30  Our Lives
  22:15  We Made God
  23:00  Agent Fresco
  23:45  Biffy Clyro (UK)
Tunglið
  19:30  Hellvar
  20:15  Morðingjarnir
  21:00  Borko
  21:45  Benni Hemm Hemm
  22:30  Hjaltalín
  23:15  Retro Stefson
  00:00  Reykjavik!
Hressó
  20:00  Klive
  20:45  Shogun
  21:30  Bob Justman
  22:15  Mammút
  23:00  Jeff Who?

 

Off-Venue

12 tónar
  17:00 CJ Boyd (US)
  17:30 Ólafur Arnalds
Mál og Menning
  17:00 Rökkurró
  17:40 FM Belfast
  18:20 Ghost

Kaffibarinn
  22:00 Dj Ívar Kjartans
Prikið
  Rock & Bacon Morning
  10:00 Nr. Núll
  20:00 Dj Gauti (Reggae)
Babalú
  16:00 Therese Aune
B5
  21:00 "Procet Iceland" Kick-Off Party:
  DJs and special performance by Ultra Mega Teknóbandið Stefán
Kaffi Hjómalind
  15-17 Sesar A, Rottweiler, WC Einar Krausfield, Spacemen, Maelginn MC
  18:30 Nanna
  19:30 Florence and the Machine (UK)
  20:00 Karl Petska
  21:00 Sabisha W. Jaime Del Moon (US)
  22:00 Stereo Hypnosis

 

Björk ásamt Thom Yorke

Björk ásamt Thom Yorke

Tékkið á laginu Náttúra hér…

Nýtt lag Bjarkar, Náttúra, er komið á netið og það er enginn annar en Thom Yorke úr Radiohead sem leggur henni lið.

Á Náttúrutónleikum Bjarkar, Sigur Rósar og Ólafar Arnalds síðastliðið sumar frumflutti Björk sérsamið lag sem nefnt var í höfuðið á tónleikunum. Ekki er harla langt síðan fréttist að hún hygðist gefa lagið út á smáskífu og hefði fengið Thom Yorke til þess að syngja bakraddir í því. Smáskífan með Náttúru kemur út 20. október næstkomandi.

Björk [ásamt Thom Yorke] – Náttúra:

 

ICELAND AIRWAVES

ICELAND AIRWAVES

Off-Venue prógrammið

Frí tónleikadagskrá til hliðar við hið hefðbundna Airwaves prógramm ætti að gleðja alla í kreppunni!

Svona lítur off-venue prógramm Iceland Airwaves hátíðarinnar út í ár og er frítt inn á alla viðburðina. Viðbúið er að eitthvað eigi að bætast við dagskrána eftir því sem nær líður hverjum Airwaves degi – svo fylgist með…

 

Miðvikudagur

12 tónar
  17:00 CJ Boyd (US)
  17:30 Ólafur Arnalds
Mál og Menning
  17:00 Rökkurró
  17:40 FM Belfast
  18:20 Ghost
Kaffibarinn
  22:00 Dj Ívar Kjartans
Prikið
  Rock & Bacon Morning
  10:00 Nr. Núll
  20:00 Dj Gauti (Reggae)
Babalú
  16:00 Therese Aune
B5
  21:00 "Procet Iceland" Kick-Off Party:
  DJs and special performance by Ultra Mega Teknóbandið Stefán
Kaffi Hjómalind
  15-17 Sesar A, Rottweiler, WC Einar Krausfield, Spacemen, Maelginn MC
  18:30 Nanna
  19:30 Florence and the Machine (UK)
  20:00 Karl Petska
  21:00 Sabisha W. Jaime Del Moon (US)
  22:00 Stereo Hypnosis

 

Fimmtudagur

12 tónar
  17:00 Rökkurró
  18:00 Kid Twist
Skífan
  16:00 For A Minor Reflection
  17:00 Agent Fresco
  18:00 Jeff Who?
Mál og Menning
  17:00 Mammút
  17:40 Sprengjuhöllin
  18:20 TBA
Norræna húsið
  12:00 El Perro Del Mar
  12:30 Therese Aune
  13:00 TBA
Kaffibarinn
  Bedroom Community Afternoon Club:
  15:30-18:00 Sam Amidon, Matthew Collings, Reykjavík!
  Fönkþátturinn and radio X-97.7 present:
  22:00 DBF & Terrordisco (Live on Radio X-97.7)
Prikið
  Rock & Bacon Morning
  10:00 Cliff Clavin
  22:00 DJ Anna Brá
Hitt húsið
  20:00 Thursday Teaser:
  Ice on Fire dance crew will perform street dance, break and hip hop.
  Bands: Happy Funeral, Hvar er Mjallhvítt, Coral
Babalú
  17:00 For A Minor Reflection
  21:00 Ron Whitehead and Michael Pollack
Smekkleysa
  16:30 Kuroi
  17:30 Dikta
Cultura
  16:00 Mau (POR)
  21:30 DJ Árni Sveinsson
Kaffi Hjómalind
  15-17 Nanna, Karlotta, Pirate Dean, Brynjar Jóhannsson
  19:00 Nanna
  19:30 Pirate Dean
  20:00 The Custom
  20:30 Tonik
  21:00 Malneirophrenia
  21:30 Digital Madness
  22:00 Gjöll
Kling & Bang Gallery
  Sequences Cooperation
  17:00 Orgelkvartettin Ananas & Guests
  Featuring: Músikvatur, Artistocracia, Gason Bra, Ssangyoung Musso,
  Hip Hop Hudson and Krulli Vespa
  19:00 Klive

 

Föstudagur

12 tónar
  17:00 For A Minor Reflection
  18:00 Miracle Fortress (CA)
Skífan
  14:00 Boys In A Band
  15:00 Lightspeed Legend
  16:00 Vicky
  17:00 Retro Stefson
  18:00 Dikta
Mál og Menning
  17:00 Mikael Lind
  17:40 Matthew Collings
  18:20 TBA
Norræna húsið
  12:00 Boys In A Band
  12:30 Ghost
  13:00 TBA
Kaffibarinn
  Bedroom Coummunity Afternoon Club:
  15:30-18:00 Valgeir Sigurðsson, Ane Brun, Majiker
  22:00 DJ Maggi Lego
  02:00 Jerry Bouthier (Kitsuné)
  03:00 Kap10Kurt (DJ-Set)
Prikið
  Rock & Bacon Morning
  10:00 HookerSwing and Agent Fresco
  22:00 DJ Moonshine
Naked Ape
  17:00 Sykur, Ghost, Steed Lord & Junior Boys
Babalú
  17:00 Lay Low
Smekkleysa
  16:00 Sudden Weather Change
  16:45 Bob Justman
  17:30 Jeff Who
Cultura
  17:00 Tab
  23:30 DJ Vasco Fortes (POR), Gusgus DJ Set with Biggi Veira
Tutti Bene
  17:00 Flophouse Palace
  18:00 R.O.R.
  18:30 Vasasport
Café Rosenberg
  16:00 The Frumpets
  16:30 Heiða (from Hellvar)
  17:15 Beta
  17:45 Myrra
  18:20 Mysterious Marta
  18:55 Elín Ey
  19:30 Mr.Silla
  20:05 Picnic
  20:40 Fabúla
Kaffi Hjómalind
  Skorpulifur/Cirrhosis Records present:
  14:30 Cassette
  15:00 Sudden Weather Change
  15:40 Miri
  16:20 Artery Bros
  17:00 Enkidu
  17:30 Me, the slumbering Napoleon
  18:10 The Neighbours
  18:40 Mae Chi (UK)
  19:00 Frú Grímheiður
  19:30 Vera
Kling & Bang Gallery
  Sequences Cooperation
  16:00 Kid Twist
  18:00 Skakkamanage

 

Laugardagur

12 tónar
  17:00 Gavin Portland
Skífan
  14:00 Jóhann Kristinsson
  15:00 Hjaltalín
  16:00 Reykjavík!
  17:00 Munich
Mál og Menning
  17:00 Ólafur Arnalds
  17:40 Benni Hemm Hemm
  18:20 Ane Brun
Norræna húsið
  14:00 Munich
  14:30 Ane Brun
  15:00 TBA
  15:30 Matias Tellez
Kaffibarinn
  Bedroom Community Afternoon Club:
  15:30-18:00 Ben Frost, Nico Muhly, Final Fantasy, Helgi Jónsson
  22:00 DJ Árni Sveins
  02:00 Alfons X
  03:00 Kasper Björke
Prikið
  22:00 XXX Rottweiler & DJ Danni Deluxe
Babalú
  17:00 Artery Music with Jalti Jón and friends
Kronkron
  Nylon Magazine hosts 4th anniversary of Kronkron with
  special appearance of Jerry Bouthier and Timo!
Smekkleysa
  13:00 Boys in a Band
  14:00 Elíza
  15:00 FM Belfast
Cultura
  18:00 Majiker (FR), Kimi Records
  23:30 DJ Nuno Lx (POR/BE)
Tutti Bene
  17:00 Oculus
  17:30 Gossi
  18:00 Berndsen
  18:30 Daveeth
Café Rosenberg
  16:00 Þórunn Antonía
  16:35 Kurr (The Nanas)
  17:10 Elíza Newman
  17:45 Heiða Dóra
  18:20 Dísa
  18:55 Lay Low
  19:30 Gunna Lára
  20:05 Ellen Kristjáns
  20:40 My Bubba And Mi
  21:15 María Magnúsdóttir
Kaffi Hjómalind
  15:00 Morri
  15:30 Tentacles of Doom
  16:00 Fist Fokkers
  16:30 The Pen
  17:00 Saktmóðigur
  17:30 Dys
  18:00 Much
  18:30 Dormah
  19:00 Swords of Chaoes
  19:30 Plastic Gods
  20:00 Shogun
  20:30 Celestine
  21:00 Gavin Portland
  21:30 Purrkur Pillnikk Tribute
Kling & Bang Gallery
  16:00 Bob Justman
  17:00 Sykur
  18:00 Skátar

 

Sunnudagur

Kaffibarinn
  "The Festival is Over" Party
  22:00 Line up TBA
Prikið
  22:00 Þynnkubíó
Cultura
  23:00 Iberian DJ Set:
  Nuno Lx (POR/BE), Vasco Fortes (POR)
Kaffi Rót

  Skorpulifur/Cirrhosis Records present:
  14:00-17:00 Hangover concert: Artery Music, Hjalti Jón,
  Enkidu (acoustic set), Loji, Jóhann Kristjánsson, Stormy Curves, Jökull Snær
Kling & Bang Gallery
  16:00 Retro Stefson & MC Pluto

ICELAND AIRWAVES

ICELAND AIRWAVES

Dagskrá hátíðarinnar

Airwaves hefst um miðja næstu viku og ekki seinna vænna að byrja að skima yfir dagskrána

Af nóg er að taka á Iceland Airwaves í ár og er dagskráin þétt að vanda. Í ár hafa skipuleggjendur ákveðið að setja nokkrar af íslensku sveitunum oftar en einu sinni á dagskrá og því ættu hátíðargestir ekki að þurfa að hafa miklar áhyggjur þótt einhverjar spennandi sveitir skarast á.

Miðvikudagur:

22
  21:00  Ewok
  21:30  Subminimal
  22:15  Raychem
  23:00  Ewok
  23:30  DJ Lynx (UK)
Organ
  19:30  Who Knew
  20:15  Perla
  21:00  Miri
  21:45  Múgsefjun
  22:30  <3 Svanhvít!
  23:15  Space Vestite
  00:00  For a Minor Reflection
NASA
  20:00  Celestine
  20:45  Vicky
  21:30  Our Lives
  22:15  We Made God
  23:00  Agent Fresco
  23:45  Biffy Clyro (UK)
Tunglið
  19:30  Hellvar
  20:15  Morðingjarnir
  21:00  Borko
  21:45  Benni Hemm Hemm
  22:30  Hjaltalín
  23:15  Retro Stefson
  00:00  Reykjavik!
Hressó
  20:00  Klive
  20:45  Shogun
  21:30  Bob Justman
  22:15  Mammút
  23:00  Jeff Who?

Fimmtudagur: 

22
  20:00  DJ Danni Deluxxx
  21:00  Poetrix
  21:45  Sesar A
  22:30  Original Melody
  23:15  32C
  00:00  1985!
Organ
  20:00  Mógil
  20:45  Finn (DE)
  21:30  Esja
  22:15  Therese Aune (NO)
  23:00  Parachutes
  23:45  Ane Brun (SE)
NASA
  20:00  Soundspell
  20:45  Ólafur Arnalds
  21:30  Dísa
  22:15  El Perro Del Mar (SE)
  23:15  Lay Low
  00:00  The Young Knives (UK)
Tunglið
  20:00  Cocktail Vomit
  20:45  Sometime
  21:30  Ghostigital
  22:15  XXX Rottweiler
  23:00  Ghost (FO)
  00:00  FM Belfast
Reykjavik Art Museum
  19:30  Biogen
  20:15  The Mae Shi (US)
  21:00  Florence & The Machine (UK)
  21:45  Fuck Buttons (UK)
  22:45  GusGus
Hressó
  20:00  Naflakusk
  20:45  Fist Fokkers
  21:30  Slugs
  22:15  Swords Of Chaos
  23:00  Æla


Föstudagur:

22
  20:00  Tonik
  20:45  Yagya
  21:30  Skurken
  22:15  Frank Murder
  23:00  Anonymous
  23:45  Biogen
  00:30  DJ Vector
  01:30  DJ Ozy
Organ
  19:30  Steini
  20:15  Dýrðin
  21:00  Planningtorock (UK)
  21:45  Dynamo Fog
  22:30  Mr. Silla
  23:15  Half Tiger (UK)
  00:15  Matias Tellez (NO)
  01:15  Skátar
  02:00  Reykjavik!
Iðnó
  20:00  Yrovoto (FR)
  20:30  Ben Frost
  21:15  Amiina/Kippi Kanínus
  22:00  Sam Amidon (US)
  22:45  Nico Muhly (US)
  23:30  Valgeir Sigurðsson
  00:30  Final Fantasy (CA)
NASA
  20:00  Audio Improvement
  20:45  Skakkamanage
  21:30  Benni Hemm Hemm
  22:15  Retro Stefson
  23:00  These New Puritans (UK)
  00:00  White Denim (US)
  01:00  Motion Boys
  01:45  Ultra Mega Technobandið Stefán
Tunglið
  20:00  BB & Blake
  20:45  Bloodgroup
  21:30  Nordpolen (SE)
  22:15  Familjen (SE)
  23:15  Gus Gus (Instrumental)
  01:15  Michael Mayer (DE)
  02:30  Simian Mobile Disco (UK)
  04:30  Kasper Björke (DK)
Reykjavik Art Museum
  20:00  Esja
  20:45  Sprengjuhöllin
  21:30  Dr. Spock
  22:15  Seabear
  23:00  Hjaltalín
  00:00  Munich (DK)
Hressó
  20:00  DLX ATX
  20:45  Gavin Portland
  21:30  Atómstation
  22:15  Dikta
  23:00  Agent Fresco
  23:45  Vicky

Laugardagur:

22
  20:00  Prince Valium
  20:45  Oculus
  21:30  Stereo Hypnosis
  22:15  Sykur
  23:00  Steve Sampling
  23:45  Family Of Sound
  00:30  DJ Hero's Trial (Liveset)
  01:30  Plugg'd
Organ
  19:30  Johnny And The Rest
  20:15  Noise
  21:00  Lights on the Highway
  21:45  Eberg
  22:30  Mammút
  23:15  Miracle Fortress (CA)
  00:15  Benny Crespo's Gang
  01:15  Cruel Black Dove (US)
  02:00  Weapons
Iðnó
  20:00  Rökkurró
  20:45  Ske
  21:30  Viking Giant Show
  22:15  Sprengjuhöllin
  23:00  White Lies (UK)
  00:00  Jeff Who?
NASA
  20:00  Mau (POR)
  20:45  Sudden Weather Change
  21:30  Singapore Sling
  22:15  Boy Crisis (US)
  23:00  Handsome Furs (CA)
  00:00  Junior Boys (CA)
  01:00  Robots In Disguise (UK)
  01:45  FM Belfast
Tunglið
  20:00  Gudrun Gut (DE)
  21:00  Kap10Kurt (DE)
  22:00  Steed Lord
  23:00  Pnau (AUS)
  00:00  Crystal Castles (UK)
  01:00  Yelle (FR)
  02:00  Thomas Fehlmann (DE)
  03:00  Gluteus Maximus
Reykjavik Art Museum
  20:00  Bob Justman
  20:45  Jan Mayen
  21:30  Dikta
  22:15  Boys In A Band (FO)
  23:00  CSS (BR)
  00:00  Vampire Weekend (US)
Hressó
  20:00  Wulfgang
  20:45  Andrúm
  21:30  Borko
  22:15  Ultra Mega Technobandið Stefán
  23:00  Soundspell
  23:45  Southside (US)

 
Einnig verður heljarmikil dagskrá "off-venue" í plötuverslunum, bókabúðum, kaffihúsum o.fl. stöðum. Nánar um hana síðar…

Miðasala á Iceland Airwaves fer fram á midi.is

Jól á Mars

Jól á Mars

Flaming Lips bjuggu til bíó

Eftir sjö ár í vinnslu er kvikmyndin Christmas on Mars loksins orðin að veruleika

The Flaming Lips hafa oftar en einu sinni fengið klikkaðar hugmyndir sem flestir töldu óframkvæmanlegar – en samt komið þeim í verk. Hljómplatan Zaireeka var ein af þeim, en til þess að hlusta á hana þurfti að spila fjóra mismunandi geisladiska samtímis. Í framhaldinu hélt sveitin röð af tónleikatilraunum þar sem þeir dreifðu snældum til áhorfenda sem spiluðu þær svo allar samtímis úr bílunum sínum. Einn dag fékk forsprakki hljómsveitarinnar, Wayne Coyne, hugmynd: að búa til framtíðarjólageimkvikmynd um fyrstu jólin á geimsstöð á Mars – og auðvitað þá var kvikmyndin gerð. Framleiðsla hófst árið 2001 og átti hún að vera frumsýnd um jólin 2003 en framleiðslan tafðist um næstum fimm ár og var kvikmyndin loks frumsýnd síðastliðið vor – og kemur nú út á DVD í lok október.

Flaming Lips hafa ekki viljað gefa mikið upp um söguþráðinn en sagan segir í stuttu máli frá Major Syrtis sem er að skipuleggja jólafögnuð til heiðurs fyrstu barnsfæðingunni á Mars. Þessi fæðing er þó sérstök í sjálfri sér – vísindalegt undur sem leggur grunn að nýrri siðmenningu. Það eru Flaming Lips liðarnir Steven Drozd og Wayne Coyne sem leika aðalhlutverkin í kvikmyndinni, en meðal annarra þáttakanda eru Isaac Brock (úr Modest Mouse) og leikararnir Adam Goldberg, Fred Armisen og Elijah Wood.

Tónlist skipar auðvitað sinn sess í kvikmyndinni og með DVD útgáfunni fylgir geisladiskur með lögunum úr kvikmyndinni. Það er auðvitað alltaf tilhlökkun að heyra nýtt efni frá Flaming Lips og þrátt fyrir að þetta sé ekki eiginleg ný plata frá sveitinni þá er öruggt að þar leynist ýmislegt spennandi. Lagalistinn er:

 1. Once Beyond Hopelessness
 2. The Distance Between Mars and the Earth — Part One
 3. The Horrors of Isolation: The Celestial Dissolve, Triumphant Hallucination, Light Being Absorbed
 4. In Excelsior Vaginalistic
 5. Your Spaceship Comes From Within
 6. Suicide and Extraordinary Mistakes
 7. The Distance Between Mars and the Earth — Part Two
 8. The Secret of Immortality: This Strange Feeling, This Impossible World
 9. The Gleaming Armament of Marching Genitalia
 10. The Distress Signals of Celestial Objects
 11. Space Bible With Volume Lumps
 12. Once Beyond Hopelessness
Christmas On Mars trailer:

Airwaves nálgast

Airwaves nálgast

Iceland Airwaves 15.-19. október

Tónlistarviðburður ársins verður haldin í 10. skiptið um miðjan október. Líkt og ætíð er nóg af safaríku tónmeti að gæða sér á…

Loksins er að komast mynd á dagskrá Iceland Airwaves í ár og nú fyrir helgi var enn verið að bæta nöfnum í flóruna sem koma mun fram á hátíðinni. Tónlistaráhugamenn ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi í ár enda er listinn langur og fjölbreyttur. Miðasala er hafin á midi.is

 
Erlendar hljómsveitir:
Biffy Clyro (UK)
Boy Crisis (US)
Boys In A Band (FO)
Cruel Black Dove (US)
Crystal Castles (UK)
CSS (BR)
Dirty Projectors (US)
Familjen (SE)
Final Fantasy (CA)
Florence & The Machine (UK)
Fuck Buttons (UK)
Handsome Furs (CA)
Junior Boys (CA)
Miracle Fortress (CA)
Munich (DK)
Planningtorock (UK)
PNAU (AUS)
Robots In Disguise (UK)
The Ghost (FO)
The Mae Shi (US)
The Young Knives (UK)
These New Puritans (UK)
Vampire Weekend (US)
White Denim (US)
White Lies (UK)
Yelle (FR)
 

Erlendir tónlistarmenn:
Ane Brun (SE)
El Perro Del Mar (SE)
Little Boots (UK)
Therese Aune (NO)
 

Erlendir plötusnúðar:
Jerry Bouthier (UK)
Simian Mobile Disco (UK)

 
Íslenskar hljómsveitir:
<3 Svanhvít!
Æla
Agent Fresco
Andrúm
Atómstation
Audio Improvement
BB & Blake
Benni Hemm Hemm
Blindfold
Bloodgroup
Cocktail Vomit
Dikta
Dísa
DLX ATX
Dr. Spock
Dýrðin
Esja
FM Belfast
For a Minor Reflection
Ghostigital
GusGus
Hjálmar
Hjaltalín
Jeff Who?
Lights on the Highway
Mammút
Megas og Senuþjófarnir
Motion Boys
Naflakusk
Noise
Ólafur Arnalds
Original Melody
Parachutes
Retro Stefson
Reykjavik!
Rökkurró
Seabear
Singapore Sling
Skakkamanage
Skátar
Ske
Slugs
Sometime
Soundspell
Sprengjuhöllin
Steed Lord
Sudden Weather Change
Swords Of Chaos
The Fist Fokkers
The Viking Giant Show
Ultra Mega Technobandið Stefán
Vicky
We Made God

Íslenskir tónlistarmenn:
Bob Justman
Borko
Klive
Lay Low
Tonik