Vínyllinn.is

Vínyllinn.is

Vínyllinn er fréttabéf sem kemur út einu sinni í viku. Með áskrift færðu afslátt í öllum betri búðum sem selja vínylplötur þ.á.m. Reykjavík Record Shop, Kaffi Vínyl, Hljómsýn, Smekkleysu, Lucky Records og Geisladiskabúð Valda. Einnig veita valdir aðilar aflslátt af plötuspilurum ofl.

Í fréttabréfinu er fullt af stöffi fyrir tónlistaráhugamenn um vínylplötur, tónlistarmenn, tónlistarstefnur, tónleika, fréttir úr tónlistabransanum, vínylbúðir heima og að heiman auk nördastöffs fyrir tónlistarnördinn.

Áskriftin, sem er uppsegjanleg, kostar 800 kr. á mánuði. Félagar í FÍH eða starfandi tónlistarmenn borga aðeins 500 kr. á mánuði.

Smellið hér til að kynna ykkur vef Vínylsins eða skellið ykkur beint á áskrift með því að smella hér.

Anthemico Records

Anthemico

Í apríl árið 2014 opnaði vefur örútgáfunnar Anthemico Records heimasíðu með kvikmyndaskotinni instrumental tónlist úr öllum áttum eftir Pétur Jónsson.

Pétur hefur starfað á bak við tjöldin í íslensku tónlistarlífi í mörg ár, en árið 2007 stofnaði hann Medialux, sem er leiðandi fyrirtæki í auglýsingatónlist og tónlist fyrir kvikmyndað efni á Íslandi. Erfitt er að horfa á sjónvarp í heilt kvöld án þess að heyra eitthvað sem Pétur hefur samið eða komið að upptökum á. Auk þess hefur hann látið að sér kveða sem upptökustjóri með ýmsum tónlistarmönnum.

Á Anthemico síðunni kveður þó við annan tón en í þeirri tónlist sem Pétur gerir vanalega fyrir auglýsingar, en á síðunni er að finna allt frá hádramatískri vísindaskáldsögutónlist yfir í mjúkar instrumental ballöður, og allt þar á milli. Hljóðmyndin er sambland af sinfónískum strengjapörtum og rafpoppi, stíll sem við þekkjum orðið vel úr kvikmyndum.

Eitthvað af tónlistinni hefur verið sérsamin fyrir kvikmynduð verk, eins og tónlistin úr norðurljósamyndinni Iceland Aurora, sem er að finna hér en önnur verk eru gjarnan samin í kringum þema eins og óravíddir alheimsins eða vorið sjálft.

Hljómsveitin A & E Sounds stefnir á útgáfu sinnar fyrstu breiðskífu

A & E Sounds
Í fréttatilkynningu segir:

A & E Sounds er hugarfóstur þeirra Þórðar Grímssonar og Kolbeins Soffíusonar og hafa þeir síðastliðna mánuði verið að leggja lokahönd á 10 laga breiðskífu.

Þórður Grímsson er með BA í myndlist og er starfandi myndlistarmaður. Hann hefur haldð nokkrar einkasýningar í Reykjavík m.a. í Dauðagallerí, Artíma, Kaolin, Crymo o. fl. Hann stofnandi hljómsveitarinnar Two Step Horror sem hefur gefið út eina plötu, Living Room Music hjá útgáfunni Outlier Records og fékk afbragsdóma bæði innanlands og utan. Two Step Horror hafa gefið út tvær plötur til viðbótar á rafrænu formi og hafa komið fram á tónleikum í Reykjavík og Berlín.

Þórður er nú að klára BA nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Hugmyndin að A & E Sounds kviknaði hjá Þórði þegar hann stundaði nám við Weissensee listaháskólann í Berlín árið 2014 og samdi hann þar lögin ásamt því að taka upp demo.

A & E Sounds

Kolbeinn Soffíuson (einnig áður Two Step Horror) er nýútskrifaður úr hljóðtækni frá Stúdíó Sýrlandi og var umrædd plata lokaverkefni hans í því námi. Þórður útskrifast í vor úr grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands og mun fyrir lokasýningu LHÍ hanna allt myndrænt útlit plötunnar.

Tónlist A & E sounds mætti lýsa sem draumkenndu og lágstemmdu sveimrokki undir áhrifum frá Spiritualized, Slowdive, Jonathan Richman og Ride, en með sterkum kraut undirtón Neu!, Harmonia, La Düsseldorf o.fl.

Þórður og Kolbeinn hafa nú hafið söfnun á síðunni Karolina Fund til þess að fjármagna pressun á vínyl og prentun á myndefni. Söfnunin stendur til 6. apríl og geta áhugasamir pantað sér eintak af plötunni í forsölu á vefsíðu verkefnisins.

Ástralski listamaðurinn Jonathan McCabe hefur gert tónlistarmyndband við fyrsta “single” sveitarinnar, en hann vinnur með stærðfræði formúlur Alan Turing og blandar þeim við tölvuvinnslu og útkoman er þetta lífræna samspil lita á hreyfingu.

Á bandcamp síðu A & E Sounds er hægt að hala niður frítt tveimur lögum með hljómsveitinni:

Sonic Iceland

Þeir Marcel Kruger og Kai Muller eyddu júnímánuði hér á landi síðasta sumar til að viða að sér efni tengdu íslenskri tónlist. Til stendur að gefa út bók um ævintýrið en fyrst um sinn birtast kaflar og ljósmyndir á heimasíðu sem þeir settu upp í tengslum við verkefnið sem kallast Sonic-Iceland.

Umfjöllunin er portrett af Íslandi og íslenskri samtímatónlist og er skemmtilegur bræðingur af ferðasögu og tónlistartíðindum. Þeir félagar fóru alla leið í verkefninu og t.a.m. segjast þeir hafa tekið viðtöl við 26 hljómsveitir og listamenn, tekið yfir 5000 ljósmyndir, séð um 60 tónleika og innbyrt um 100 lítra af Víking.

Þegar þetta er ritað hafa 4 kaflar þegar birst en mun fleiri eru á leiðinni. Vert er að benda sérstaklega á ljósmyndirnar sem birtast á síðunni og fyrir græjuperverta er nauðsynlegt að taka fram að flestar eru teknar á stafræna Leica M9.

Lockerbie hjá Bad Panda

Íslenska post-rokk sveitin Lockerbie, sem fjallað hefur verið um hér áður, var nýlega í viðtali hjá tónlistablogginu Bad Panda records. Þar á bæ hafa húsráðendur sérstakt dálæti á íslenskri tónlist og m.a. tekið á teppið bæði Kira Kira og Útidúr.

Viðtalið má lesa hér.

Læt svo fylgja með frábært lag Lockerbie sem kallast Snjóljón en það er að mínu mati eitt besta íslenska lag síðasta árs.

Lockerbie – Snjóljón

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Upptökur KEXP á Airwaves

Hér að neðan eru fimm upptökur sem Seattle útvarpsstöðin KEXP (kexpakkinn eins og fólk kallar hana hér) gerðu í stúdíói RÚV á meðan Airwaves hátíðinni stóð. Fyrir þá sem ekki vita er KEXP ein stærsta háskólaútvarpsstöðin vestanhafs og því ljóst að íslensku flytjendurnir eru hér að fá einstaka umfjöllun. Áhugasamir geta hlustað á útsendingar KEXP á heimasíðu stöðvarinnar : www.kexp.org

Jónas Sigurðsson og Ritvélar Framtíðarinnar – Hamingjan er hér

S.H.Draumur – Eyðimörk

Kimono – Get Ready (For Some Pain To Have) & Tomorrow

Seabear – Cold Summer

Mínus – The Beast

Auglýst eftir verkum fyrir tónlistarhátíðina Ung Nordisk Musik

Auglýst er eftir tónverkum fyrir tónlistarhátíðina Ung Nordisk Musik 2011, sem haldin verður í Kaupmannahöfn uppúr miðjum ágúst-mánuði, 2011. Hátíðin er ætluð tónskáldum undir þrítugu og koma þar saman 7 tónskáld frá hverju Norðurlandi fyrir sig, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð.

Ferða- og gistikostnaður íslenskra þáttakenda í tengslum við hátíðina er greiddur af Íslandsnefnd UNM.

Skilafrestur er til miðvikudagsins 1. desember 2010 (póststimpill gildir).

Allir hljóðmiðlar eru gjaldgengir, s.s. tónsmíð á pappír, rafverk, innsetningar og svo framvegis.

Nánar má lesa um umsóknarferlið og sögu hátíðarinnar á vefslóðinni: www.myspace.com/ungnordiskmusik

Prinspóló Jukkar yfir vefinn

Þann 10. nóvember kemur út hljómplatan Jukk með Prinspóló en þangað til ætla aðstandendur að gefa aðdáendum færi á að hlýða á alla plötuna endurgjaldslaust á glænýjum vef: www.prinspolo.com.

Skapari Prinspóló er Breiðhyltingurinn Svavar Pétur Eysteinsson. Svavar þessi lærði heimspeki hálfan vetur í lok síðustu aldar, nam síðan grafíska hönnun í Listaháskóla Íslands og reyndi án árangurs að útskrifast þaðan sem hljómlistamaður. Hann var í sveit sem barn þar sem hann lærði söng með aðstoð vasadiskós og heyhrífu. Hann starfar nú sem hönnuður hjá Kimi Records og rekur menningarmiðstöðina Havarí ásamt ástkonu sinni og vini. Þess á milli dælir hann tilfinningum sínum inn á segulband. Á bak við Jukk er frekar einföld speki. Allt er jukk sem ekki á sér aðrar eðlilegar skýringar. Jukk er lýsing á atburði, ástandi eða verkfæri sem allir þekkja en á sér enga hliðstæðu. Jukk er skortur á ótilkvaddri hugsun. Allt er einhverntímann jukk. Kimi Records gefur út Jukk.

Verði ykkur að góðu: www.prinspolo.com

Prinspóló – Mjaðmir

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Gagnvirk Arcade Fire

Kanadísku indíhetjurnar í Arcade Fire sitja ekki auðum höndum þessa dagana. Bandið á fullt í fangi með að fylgja eftir sinni stórgóðu The Suburbs, fyrst í Bandaríkjunum og Kanada, en svo á meginlandi Evrópu og Bretlandi. Nú dögunum leit svo dagsins ljós gangvirk kvikmynd, eða tónlistarmyndband öllu heldur, við lagið ‘We Used to Wait’. Myndin, sem ber nafnið The Wilderness Downtown, er hægt að horfa á hér. Notendur verða þó að hafa Google Chrome vafrarann uppsettann á tölvunni til að geta notið myndar og hljóðs.

8tracks

Einhverntímann minntist ég á hinn ágæta samfélags- og tónlistarvef 8tracks hér á Rjómanum. Þar hef ég verið að dunda mér við að setja saman hálfgerð mixteip, ekki ósvipað því og maður gerði hérna á árum áður. Mér leikur forvitni á að vita hvort einhverjir af lesendum Rjómans séu notendur á 8tracks og ef svo væri, hvort þeir hafi ekki áhuga á að deila með okkur mixunum sínum? Deilið endilega með okkur slóðinni á prófílinn ykkar með því að skilja eftir athugasemd.

Meðfylgjandi er svo upplífgandi mix sem ég setti saman um helgina.

Ný plata For a Minor Reflection

Strákarnir í For a Minor Reflection hafa verið iðnir að undanförnu. Þeir kláruðu nýja plötu fyrir jól og er nú verið að leggja lokahönd á hana. Fyrir þá sem geta ekki beðið eftir að heyra gripinn þá má heyra nokkur brot úr lögum á pledgemusic.com, sem er hin sniðugasta. Þar er jafnframt hægt að kaupa nýju plötuna í forsölu auk fjölda varnings sem ekki fæst hvar sem er. Hljómsveitin hefur svo ákveðið að deila hluta af ágóðanum með Læknum án landamæra. Til að sjá pledge-síðunni sveitarinnar, klikkið hér.